Þriðjudagur, 16. september 2008
Hvað kostar typpi?
Ég hef mikið verið að velta fyrir mér kynbundnum launamun í kjölfarið á verkfalli ljósmæðra. Ég, eins og flestallir aðrir stend heilshugar með ljósmæðrum og baráttu þeirra og harma hversu langan tíma hefur tekið að semja við þær.
Segja má að ljósmæður séu eins og tákngerving fyrir kvennastéttir yfir höfuð. Ég veit ekki um einn einasta karl sem er ljósmóðir já eða ljósfaðir! Ljósmæður, hvað táknar orðið? Mæður sem taka á móti nýju ljósi í heiminn. Við þær er eitthvað notalegt og þær tengjast nýbökuðum mæðrum og börnum. Af hverju eru þær þá svona lágt launaðar fyrst þær gegna svona veigamiklu starfi sem því að tryggja öryggi nýburanna okkar og mæðra þeirra í fæðingu? Starf sem engan þarf að undra að getur verið vandasamt, streituvaldandi og fylgir gríðarleg ábyrgð.
Ég held að ræturnar liggi ansi djúpt. Áður fyrr sáu konur um ýmiss konar ólaunuð störf á heimilinu, um það að sinna öldruðum foreldrum, börnum og jafnvel taka á móti nýjum ef því var að skipta á meðan karlmaðurinn var úti að vinna. Hvort sem það var við það að heyja á bóndabænum, róa til sjós eða sinna annarri vinnu.
Í dag eru flest störf sem snúa að því hlutverki sem konur hafa gegnt í gegnum tíðina láglaunastörf. Að veita öldruðum, fötluðu fólki, börnum og öðrum þjónustu. Að taka á móti nýburum, að hjúkra sjúkum og að kenna. Þetta eru upp til hópa vanmetin láglaunastörf. Þau störf sem mestmegnis hefur verið sinnt af karlmönnum eins og viðskipti, að höndla með fjármagn á einn eða annan hátt, stjórnun, skipulagning, iðnaðarstörf, tæknistörf, lækningar og verkfræði eru mestmegnis hálaunastörf.
Auðvitað er málið ekki svona svart og hvítt og annar tíðarandi í dag, en það er sannleikskorn í þessu að mínu mati. Einhvern veginn er því háttað þannig í okkar þjóðfélagi að ábyrgð á fólki og velferð þess er mun lægra sett en ábyrgð á mannvirkjum, fjármagni eða öðru. Er það af því störfin eru ólík eða er það af því að stéttirnar skipa ólík kyn upp til hópa. Hversu mikils virði er þá typpið? Sennilega jafn mikils virði og launamunurinn sem er amk. 11% þegar búið er að stilla upp karli og konu sem gegna nákvæmlega sama starfi. Þar höfum við það: Typpið er metið á 11% launamun.
Hvernig á að breyta þessu?
Er vilji til þess að breyta þessu?
Eigum við að fara að meta störf kvenna hærra eða eigum við að fjölga karlmönnum í hefðbundnum kvennastörfum og öfugt? Sennilega er sítt lítið af hverju gott ef mögulegt er. Laun verða líka að vera gegnsæ, það verður að vera um ákveðið eftirlit og jafnlaunavottun að ræða.
Það er athugunarefni hvort eitthvað breytist raunverulega á meðan konur eru aðeins þriðjungur alþingismanna og skipa lægri sæti almennt í sveitarstjórnum auk þess að sitja meira og minna í "mýkri nefndunum". Á meðan fjármálaráðherra er karlmaður sem vill ekki setja af stað bylgju launahækkana í kvennastéttum þá breytist fátt. Einhver verður að taka af skarið og jafna út launakjör kynjanna með tilliti til ábyrgðar og menntunar. Mun betur má ef duga skal og það vekur furðu að samfylkingarfólk skuli ekki leggja harðar að sér hvað þetta varðar þar sem þau kynntu mjög ákveðna stefnu í þessum málum fyrir kosningar og slíkt var sett fram í stjórnarsáttmála.
Einu sinni setti ég fram launakröfur sem voru hærri en til var ætlast. Þá var sagt við mig að ef allar konur hugsuðu svona þá væri ekki þessi launamunur á kynjunum. Gott og vel. Hinsvegar var ekki komið til móts við kröfur mínar fyrr en ég sá ekki fram á annað en pakka saman og fara. Af hverju þurfum við konur að berja fram hverja krónu í launahækkun á meðan karlmenn virðast sjálfkrafa raðast hærra og fá betri tilboð?
Tímarnir eru breyttir. Í dag er þjóðfélagið smekkfullt af konum sem ætla sér alla leið! Konum sem eru vel menntaðar og munu ekki sætta sig við að vera annars flokks og á lægri launum. Einnig er fullt af frábærum nútíma karlmönnum sem hafa unun af því að elda, sjá um börnin og taka virkan þátt í heimilislífinu. Því hlýtur þetta að fara að jafnast út og tippið að lækka í verði.
Eða hvað?
Verkfalli aflýst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.9.2008 kl. 09:36 | Facebook
Athugasemdir
Hér er mjög áhugaverð umfjöllun um launamun kynjanna - Morgunútvarpið á Rás 1 í gær. Setti þetta í tónspilarann á blogginu mínu líka.
Lára Hanna Einarsdóttir, 16.9.2008 kl. 23:06
vitaskuld viljum við nú enga gengisfellingu á títtnefndu líffæri en jöfnuði þarf að ná. ein ástæða þess hvað kvennastörf eru vanmetin er spurning um virðingu hinna kvenlægu gilda. ég hef stundum kallað mig kaffidömu þegar ég stend vaktina hé´r í bókabúðinni með svuntu en mörgum finnst það alveg ómögulegt og tekið sé niður fyrir sig með slíku starfsheiti ef sá sem er undir svuntunni hefur tippi. aftur á móti skal kona telja sér upphefð að því að nota titlana séra og herra...
Bjarni Harðarson, 16.9.2008 kl. 23:09
Vil benda þér á umfjöllun um þessi mál á bloggi Guðfinnu Bjarnadóttur frá því fyrir kosningarnar síðustu. Þetta er ein besta og fordómalausasta umfjöllun um þessi mál sem ég hef séð og þarna koma fram stórmerkilegar upplýsingar.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 17.9.2008 kl. 00:19
Typpi er skrifað svona, ekki Tippi.
Marrri (IP-tala skráð) 17.9.2008 kl. 00:52
Skv. orðabókum eru bæði orðin rétt. Typpi og svo tippi. Svo Kidda þú þurftir ekkert að breyta þessu. Gaman að sjá hvað fólk er viðkvæmt yfir þessu. Enda náttúrulega um að ræða nafn á stórkostlegu verkfæri.
Magnús Helgi Björgvinsson, 17.9.2008 kl. 10:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.