Sunnudagur, 12. október 2008
Áhrif kreppunnar á frammistöðu í vinnu
Hvar sem fólk kemur þessa dagana hefur það mikla þörf fyrir það að ræða saman. Það er vel skiljanlegt og eflaust flestir sem hafa hryllingssögur af nánum ættingjum eða vinum sem farið hafa mjög illa. Sjálf finn ég fyrir mikilli þörf á að ræða málin (nota bloggið nú aðeins til þess að svala þeirri þörf líka til að hlífa vinum og vandamönnum :) fólk getur alltaf valið það hvaða blogg það les...).
Þessi stanslausa umræða getur þó haft slæm áhrif að nokkru leyti. Hún getur dregið verulega úr afkastagetu fólks í vinnunni og einbeitingu og finnur maður það vel sjálfur hversu erfitt er að einbeita sér þessa dagana. Maður leysir víst ekki þau mörgu verkefni sem liggja fyrir þrátt fyrir að eyða öllum deginum í að velta sér upp úr þeim.
Það getur verið alveg nóg fyrir fólk að einbeita sér að starfinu þó ekki fari allur kaffitíminn í að heyra niðurdrepandi sögur af fólki. Ég held að fólk ætti að einbeita sér að jákvæðum umræðum í staðinn.
Ekki er það gott fyrir þjóðarbúið að ofan á alla þá lömun sem á sér stað bætist líka það að fólk sé andlega ekki á staðnum í vinnunni sinni. Þess vegna held ég að gott sér fyrir fólk að nota bara ákveðinn tíma í einu til að ræða vandræðin en einbeita sér markvisst að því að ræða líka önnur málefni og jákvæð mál.
Það er ágætis regla að minna sig á það þegar maður kemur í vinnuna að hengja í huganum þann áhyggjupoka sem maður burðast með persónulega á snaga fyrir utan vinnuna áður en maður gengur inn. Þá er maður laus við persónulegar áhyggjur í vinnunni og er þar til staðar. Þegar vinnudegi lýkur þá hengir maður "vinnupokann" eða þann áhyggjupoka sem snýr að vinnunni á snagann fyrir innan hurðina, labbar út og tekur við sínum eigin persónulega áhyggjupoka og er ekki að taka áhyggjur úr vinnunni heldur með sér heim. Það er víst alveg nóg að hafa bara annan pokann á sér í einu þó maður sé ekki að burðast með báða, það getur orðið of mikið! Passið ykkur bara að taka alltaf rétta poka með ykkur ;) ...
Farið vel með ykkur öll sömul. Tökum eitt skref í einu og þannig komumst við heil frá þessu og leggjum okkur fram við að halda hinum daglega rhytma eðlilegum svo ekki bætist meira en þarf ofan á óvenjulegar og erfiðar aðstæður. Þetta er ákaflega mikilvægt barnanna vegna sem hafa engar forsendur fyrir því að skilja hvað er að gerast og þurfa að hafa sitt fólk á staðnum eins og alltaf en ekki með hugann fullan af áhyggjum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Facebook
Athugasemdir
Sammála þér, en það getur stundum verið erfitt að framkvæma þetta. Og sumir virðast ekki geta skilið áhyggjurnar eftir.
Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 12.10.2008 kl. 21:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.