Leggjum í púkk fyrir framtíðarsýn og játning mín...

Eins og sumir hafa bent á hér þá er þetta sorgleg fyrirsögn og táknræn þó það sé viss tilviljun.

Ég ætla að taka hina táknrænu birtingarmynd upp um að framtíðarsýn okkar sé í greiðslustöðvun og leggja til að við leggjum í púkk fyrir nýrri framtíðarsýn.

Núna er tækifærið til þess að fá alveg nýja sýn á framtíðina og koma fram með nýja spennandi hluti sem ekki rúmuðust fyrir fílnum í stofunni (þeas. bankabissnessnum öllum)...

Við skulum frekar hafa marga fína stássmuni í stofunni dreifða um í mörgum hreiðrum í stað þess að leggja flest eggin okkar á bak fílsins þar sem þau brotna öll um leið og hann hreyfir sig og allt postulínið hrynur.

Verum því dugleg að taka virkan þátt í framtíðinni og framtíðarsýninni. Við erum öll upp til hópa svo miklir snillingar og allir luma á einhverju gulli sem hægt er að finna rétta hreiðrið fyrir. Þannig getum við flogið mót bjartari framtíð landsins til handa.

Ég hef aðeins verið að fylgjast með bloggsíðum og ein umræðan markaði mig. Þar er fjallað um að við höfum ekkert öll tekið þátt í þessu og fólk er leitt á þeirri umræðu að öll höfum við tekið þátt og öll berum við því ábyrgð. Ég er ein þeirra sem hef skrifað í anda þess síðara. Og þetta er bara rétt hjá fólki. Þetta er alhæfing. Það hafa ekkert ALLIR tekið þátt í þessu. Sem betur fer er bara til heilmikið af fólki sem hefur alveg verið með báða fæturna á jörðinni í góðærinu og ekki verslað sér hluti nema eiga fyrir þeim og verið ákaflega skynsamt í fjármálum. Fólk sem hvorki keyrir um á "Range Rover" (lesist sem "Game over") né hefur þakið veggina heima hjá sér með flatskjáum.

Ég hef ákaflega ríka ábyrgðarkennd og hef hugsað með sjálfri mér að ég beri nú fulla ábyrgð á þessu eins og aðrir... Svo fór ég að hugsa þetta aðeins betur... Ég á gamalt túpusjónvarp sem ég mun ekki henda fyrr en það andast. Ég á ekki bíl núna heldur grænt :) reiðhjól en átti góðan grænan :) bíl á Íslandi sem ég var nánast búin að greiða upp (skuldaði 400 þúsund í honum) og ætlaði mér að keyra alveg út og hirti hann mjög vel. Ég á orðið talsvert í íbúðinni minni (gæti breyst ef íbúðaverð hrynur) sem er með venjulegt lán á sér ekki myntkörfu og á alla búslóðina. Ég var búin að greiða upp yfirdrátt, er ekki með neitt á raðgreiðslum og fór út í nám með sjóð sem ást ansi hratt upp útaf genginu og er núna að lifa af námslánum. Ég er mjög nýtin að eðlisfari með fatnað, mat og annað. Ég geng enn í einstaka fötum sem ég átti þegar ég var 17 ára... og svona gæti ég haldið áfram... Ég er nú ekki mikið fyrir að skrifa svona persónulega um mig á opinni bloggsíðu en held að ég sé ágætis dæmi fyrir marga.

Hef ég því tekið þátt í sukkinu? Auðvitað hefði ég getað staðið mig betur í fjármálum. Maður getur alltaf gert betur! En þegar ég hugsa það þá held ég að ég sé bara á svipuðu róli og margir. Ég var ekkert að missa mig í lífsgæðakapphlaupinu og skuldsetja mig með erlendum lánum eða öðru upp í botn. Flestir í kringum mig eru á svipuðu róli. Bara venjulegt fólk sem hefur ekkert verið í neinu skýjabrölti heldur bara nokkurn veginn á jörðinni.

En...

Staðan er svona í dag. Því verður ekki snúið við. Því er ekki annað að gera en að leggjast á árarnar og róa í takt þrátt fyrir að hafa kannski ekki verið í þeim hópi sem götuðu bátinn. Ef maður ætlar á annað borð að vera á honum þá er staðan sú að BEST er að fólk hjálpist að. Þannig er það með öll slys að samstillt átak þarf til að vel gangi á slysstað óháð því hver olli slysinu (það þarf að gera upp síðar) og svo þarf mikinn kraft til þess að byggja upp úr rústunum. Það sem vantar á þennan slysstað er mjög afgerandi leiðtogi sem stýrir aðgerðum og verkstýrir vinnuflokkunum. Einhver sem hefur yfirsýn og sér fyrir sér hvernig þurfi að hreinsa upp og hvernig staðurinn muni líta út að einhverju leyti að uppbyggingu lokinni. Upplifun mín er sú að margir ólíkir verkstjórar eru að reyna að vinna hver með sínum hætti. Það er langt frá því að vera til gagns. Einnig vantar öfluga upplýsingamiðlun til hverrar handar sem hjálpar til við hreinsunarstarfið (fjölmiðlar á Íslandi eru ekki í nógu góðum málum að mínu mati) og verkstjórarnir á staðnum eru ekki í nógu góðum takti við hvern annan.

Ég bið fólk að kveikja á kerti og tendra sína eigin framtíðarsýn (ekki bíða eftir því að aðrir kveiki hana fyrir þig) og sameiginlega framtíðarsýn fyrir okkur sem þjóð á fallega landinu okkar Íslandi. Saman getum við svo mótað okkur góðan veg til bjartari framtíðar.


mbl.is Framtíðarsýn í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli Jón Ásgeir og baugsliðið fái ekki lepp til að kaupa blaðið á brunaútsölu

Guðrún (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 12:09

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Sammála. Við þurfum að hjálpast að. Okkur vantar samhæfingu, eina rödd sem hlýtt er. En þangað til við fáum hana, þá skulum við gera það sem við getum og stilla okkur inn á eitthvað uppbyggilegt og samtakamáttinn.

Fyrst þú nefnir að kveikja á kerti, þá dettur mér líka í hug að nefna bæn. Ég held að það skaði okkur ekki að kalla á einhvern þarna uppi sem kynni að geta hjálpað. Sjálfur trúi ég að hann sé til.

Kveðja frá trúuðum framsóknarmanni.

Einar Sigurbergur Arason, 12.11.2008 kl. 02:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband