Á leið í helgarferð til að upplifa framtíðina með Framsókn

Ég er að byrja að pakka. Ég er að fara í helgarferð. Förinni er heitið á sögufrægan stað. Staðurinn er flokksþing Framsóknar sem hefst formlega á föstudag. Ferðinni er heitið þangað til þess að upplifa framtíðina og vera þátttakandi í því að skapa hana.

Sumum gæti þótt þetta stórundarleg ákvörðun og furðulegt val á stað fyrir helgarferð. Sumum gæti þótt það fáránlegt að fátækur námsmaður í útlöndum skuli eyða peningum (sem hann á nú ekki mikið af í kreppunni) í aðra eins vitleysu í stuttu hléi í miðjum intensífum kúrsi.

Málið er bara það að þessi dama veit alveg hvað hún vill. Hún vill fara í helgarferð til þess að upplifa söguna og taka skref inn í framtíðina með flokknum sínum. Þessi dama skynjar þá stöðu sem flokkur hennar er í einmitt núna og trúir á alla þá góðu möguleika og góða fólk sem þar leynist. Vissulega hefur flokkurinn tekist á í gegnum tíðina. Flokkurinn hefur gert margt frábært í gegnum tíðina og margt miður.

Við þær aðstæður sem núna eru uppi er möguleiki á því að rýna með áþreifanlegum hætti ofan í saumana á fortíðinni, stöðunni í dag og síðast en alls ekki síst marka skýra stefnu til framtíðar. Reynslunni ríkari. Reynslunni ríkari eftir ýmislegt sem átt hefur sér stað í flokknum og í þjóðfélagi okkar. Á þessari reynslu má byggja upp gríðarlega öflugan stjórnmálaflokk sem hefur heiðarleika og framsýni að leiðarljósi og á reynslunni má byggja upp gott og traust samfélag.

Það er því með eftirvæntingu sem ég held af stað í þetta ferðalag og hlakka til að sjá drögin að Framsókn til framtíðar sem mótuð verða um helgina. Ég ætla að njóta allrar ferðarinnar í stað þess að einblína bara á áfangastaðinn. Ég held að það sé almennt góð venja eins og fjallað er um í Munkinum sem seldi sportbílinn sinn (eftir Robin S. Sharma) að njóta þess að tína demantana á veginum í stað þess að hlaupa beint fram af augum að gullpotti sem er svo ekki þess virði og hafa misst sjónar á öllum demöntunum.

Við í Framsókn erum á hægri en góðri leið til framtíðar. Mikil vatnaskil hafa orðið vegna stöðunnar í samfélaginu og okkar eigin mistaka til þess að vegurinn skolaðist burt. Okkar er núna að finna okkar leið sem hentar gildum okkar og stefnu. Aðalatriðið er að hafa skýran, öflugan leiðtoga, góðan ferðahóp, gott ferðaplan og njóta allra demantanna sem liggja á leiðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband