Hvað er að gerast í Framsókn?

Stórt skref fyrir Framsóknarflokkinn, stórt skref fyrir Ísland

Ég fer að lenda. Það kemur að því. Það er erfitt að lenda eftir það flokksþing sem ég var á um helgina. Ég flýg enn skýjum ofar í öllum skilningi þess orðs.

Flokksþing Framsóknarflokksins reyndist verða enn sögulegra en ég hafði látið mig dreyma um. Því fjármagni sem varið var í helgarferð til framsóknar var vel varið. Ég hefði ekki viljað missa af þessari helgi. Helginni þar sem fótspor voru mörkuð að Framsókn til framtíðar.

Ég undraðist það þegar ég byrjaði í flokknum hversu langt frá því sem almenningur sér í fjölmiðlum hinn raunverulegi Framsóknarflokkur er. Það er ástæða þess að ég vissi að ég væri á réttum stað. Gildi og stefna flokksins sem og langflestir flokksmenn eru mér mjög að skapi. Hógvær, skynsöm stefna í anda samvinnustefnunnar og félagshyggju eru að mínu mati mjög til farsældar. Núna um helgina varð rödd hins dæmigerða grasrótarmanns í flokknum háværari en nokkru sinni fyrr og uppskeran varð ríkuleg. Það er enginn að tala um nýjan flokk. Flokkurinn beygði aftur inn á trausta braut með dýrmæta reynslu í farteskinu og fullan tank til að takast á við þau gríðarstóru verkefni sem bíða í nánustu framtíð.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom eins og ferskur vindur inn í flokkinn. Sjálf hafði ég ekki ætlað mér að kjósa mann sem ég þekkti ekki. Með komu Sigmundar áttaði ég mig á að þar færi einmitt sá maður sem flokkurinn þyrfti og einmitt sá maður sem Ísland þyrfti.

Það ríkti einstakt andrúmsloft á flokksþinginu. Aldrei hef ég upplifað jafn góðan anda á samkomu á vegum flokksins. Það er hugur í mönnum, það var mjög glatt á hjalla og það ríkti vinátta og samstaða meðal flokksmanna. Vissulega var tekist á í kringum kjörið eins og eðlilegt er en þeir sem lutu í lægra haldi tóku niðurstöðunni af sönnum drengskap.

Sumir telja það galla að Sigmundur Davíð sé ekki þingmaður. Ég var ein þeirra. Núna tel ég það vera kost. Það getur enginn háð baráttu einn og óstuddur þó það sé á Alþingi. Verkefni Sigmundar Davíðs á næstunni er að fara um allt landið og hitta hvern þann framsóknarmann eða konu sem vill hitta hann (og verðandi flokksfélaga) og fá þannig yfirsýn yfir flokk sinn, mikilvægar upplýsingar og brýna flokksmenn fyrir það mikla verkefni sem bíður okkar. Þannig mun Sigmundur Davíð hefja baráttuna með fylkingu framsóknarmanna í stað þess að vaða beint í bardagann á Alþingi án beinna tengsla við grasrótina og fólkið sem ber Framsóknarflokkinn uppi.

Það eru óvenjulegir tímar og slíkir tímar kalla á sérstakar lausnir. Það er sú leið sem við framsóknarfólk völdum að fara um helgina. Það góða fólk sem starfað hefur í forystu flokksins undanfarinn áratug er allt prýðisfólk sem hefur lagt mikið á sig fyrir flokkinn. Störf þeirra endurspegla þann tíðaranda sem ríkti þá og hefur beðið skipbrot núna. Ný forysta mun endurspegla það ástand sem ríkir á Íslandi í dag. Það eru tímar breytinga og nýrra lausna byggða á sárri nýfenginni reynslu íslensks samfélags. Við munum rísa upp aftur sem þjóð og sem betra samfélag. Til þess að leiða slíka endurreisn þarf nýjan mannafla. Það kall hefur Framsóknarflokkurinn einn flokka heyrt og svarað að bragði. Framsóknarfólk mun leiða breytingar á íslensku samfélagi og vera í takt við þann breytingaranda sem ríkir víða meðal annars í Bandaríkjunum með skipun Baracks Obama í embætti forseta í dag.

Þær byrðar sem Íslendingar óhjákvæmilega munu bera í kjölfar bankahrunsins munu leggjast þungt á ungt fólk. Það er því sérstakt gleðiefni að leiðtogi okkar skuli vera ungur maður sem þekkir vel þessar aðstæður á eigin skinni. Með krafti unga fólksins í flokknum og reynslu hinna eldri þá eru Framsóknarflokknum allir vegir færir.

Til hamingju Framsókn!

Til hamingju Ísland!

Nýir tímar eru runnir upp.

Höfundur er nemi og í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is 20.01.09)


mbl.is Óhjákvæmilegt að kjósa í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband