Framsókn til framtíðar!

Framsóknarflokkurinn heyrir raddir fólksins um endurnýjun, hlustar og hefur brugðist við.

Um helgina var kosin alveg ný forysta ungs vasks fólks sem mun leggja sig fram í anda þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru í kjölfar þeirrar stöðu sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Nýja forystu flokksins skipa þau: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 33 ára, formaður, Birkir Jón Jónsson 29 ára, varaformaður og Eygló Þóra Harðardóttir 36 ára, ritari.

Þetta er allt ungt og öflugt fólk sem eru glæsilegir fulltrúar þeirrar kynslóðar sem bera þarf þungar byrðar í kjölfar þess ástands sem uppi er. Með krafti þessa unga fólks og reynslu hinnar eldri er hægt að hefja byltinguna.

Byltingu á því samfélagi sem hér hefur skapast á undanförnum áratug með óhefta frjálshyggju að leiðarljósi. Við erum ekki mörg en við erum merkileg. Á Íslandi á að geta verið þjóðfélag þar sem hver einasta manneskja á sinn rétt á að blómstra. Það á að vera nóg til fyrir alla. Þessa byltingu þarf að gera. Bylta þarf þeim hugsunarhætti sem leitt hefur til þess að auður okkar hefur safnast á hendur örfárra aðila sem hafa leikið fjárhættuspil með sameign þjóðarinnar og veðsett þjóð sína. Á sama tíma hefur annar hópur fólks orðið verr og verr úti. Rannsaka þarf rækilega hvað gerðist og draga lærdóm af orðnum hlut. Finna þarf leiðir til þess að vinna eins vel úr stöðunni og mögulegt er þjóðinni til heilla. Setja þarf nýtt regluverk, eftirlit þarf að hugsa upp á nýtt og vinnubrögð þarf að taka til rækilegrar rýni.

þessar breytingar sem gera þarf á Íslandi eru í anda þess sem nýr forseti Bandaríkjanna Barack Obama boðar. Við þurfum öll að leggjast á plóginn og vinna saman að betri degi fyrir okkur öll. Við eigum sama rétt óháð því hver við erum. Saman getum við byggt betra samfélag fyrir alla. Sundruð fellur allt til jarðar og margir verða undir!

Framsóknarflokkurinn gerir sér grein fyrir því að hann ber hluta ábyrgðarinnar á stöðu mála og horfist í augu við það af auðmýkt. Hann hefur einnig verið þátttakandi í mörgum af mikilvægustu málum íslenskrar þjóðar og komið að erfiðum verkefnum í gegnum tíðina. Sá sem gerir ekki neitt hann gerir engin mistök. Ríkisstjórn Íslands er sennilega hrædd við að gera mistök og gerir því ekki neitt!

Það sem Framsóknarflokkurinn upplifði um helgina er í anda nýs hugsunarháttar og breytinga. Flokkurinn ræddi spennandi lausnir til þess að byggja nýtt og betra Ísland. Meðal annars var rætt um stjórnlagaþing þar sem stjórnarskrá yrði endurskoðuð, samþykkt var að setja siðareglur, ný vinnubrögð voru rædd og framúrskarandi stefna sett meðal annars í Evrópumálum. sjá www.framsokn.is

Ég hvet alla þá sem vilja leggja sitt að mörkum að kynna sér hvað er að gerast í Framsókn og taka þátt í því að skrifa söguna og handritið að betra samfélagi. Það er óþarfi að mynda nýja flokka sem gætu mögulega leitt til þess að dreifa fylginu á þann veg að Sjálfstæðisflokkur (sem flestir eru sammála um að þurfi að víkja frá) eigi möguleika á að sitja áfram. Flokkurinn er fólkið og í Framsókn er það fólk sem vill breytingar byggðar á traustum grunni og góðri reynslu.

-JÁ VIÐ GETUM!!!

-VERTU VELKOMIN/N Í FRAMSÓKN TIL FRAMTÍÐAR.


mbl.is Enn mótmælt við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka afskaplega góðan pistil; málefnalegan og upplitsdjarfan. Kærar þakkir

 

Venjan er þegar átt hefur verið að fara að bjarga landinu að þá hefur einhver klofið sig frá öðrum og myndað svokallað sérframboð. Svona gekk þetta lengi vel endalaust.

Meira segja Framsóknarflokkurinn klofnaði 1934 og þá varð til Bændaflokkur.

 

Svo var reynt að setja upp model þar sem flokkar sameinuðust. Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur, Kvennalisti og Þjóðvaki. Alstaðar var þetta samþykkt innan flokkana að gera þetta svona. Bjartsýnustu menn álitu að til væri að verða stór Jafnaðarmannaflokkur.

Þetta var samþykkt innan valdastofnana flokkanna og hafði ekki verið gert áður. Vitað var um óánægu innan Alþýðubandalagsins.

 

Svo kemur á daginn að þessi sameining tókst ekki og VG grænir voru stofnaðir og klufu sig  út úr megin fylkingunni.

 

Þannig nú þarf einhverja nýja og frumlega hugsun til að eitthvað geti gerst af viti og ekki ríki hér algert stjórnleysi. Hvort Framsóknarflokkurinn hefur eitthvað fram að færa veit ég ekkert um. En mér er sama hvaðan gott kemur ef hægt er nýta það til að stjórna landinu.

 

 

Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband