Fulltrúar allrar þjóðarinnar

Ég fékk góða ábendingu á bloggið hjá mér sem ég tek algjörlega undir þó það hafi kannski ekki komið nógu skýrt fram í færslum mínum (hef þó bloggað um þetta efni áður).

Til þess að byggja upp ný öflug stjórnvöld þá er vissulega mikilvægt að þar komi að allir fulltrúar samfélagsins. Lausnin felst ekki í ungmennadýrkun þeirri sem t.d. hefur átt sér stað í bönkunum með skelfilegum afleiðingum þar sem mjög ábyrgðarmiklir stjórnendur voru kannski á milli tvítugs og þrítugs en hinir eldri látnir taka pokann sinn. Lausnin er ekki að fylla stjórnkerfið af stuttbuxnafólki!

Hins vegar er ákaflega mikilvægt að ungt fólk meðal annarra komi að þeirri uppbyggingu sem framundan er (og jafnvel sé þar í forystusveit) þar sem þessi hópur þarf að taka á sig mikinn þunga og mun ala börn sem þurfa að taka við skuldaklafanum.

Það þýðir samt alls ekki að hunsa megi mikilvægi þeirra sem eldri og vitrari eru. Þeirra hlutverk er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Fólk sem hefur yfirsýn lengri tíma og hefur afar dýrmæta reynslu.

Það er einnig ákaflega mikilvægt að stjórnkerfið skipi fulltrúa sem eru sem líkastir þversniði samfélagsins og nokkur kostur er. Hvet þess vegna alla sem áhuga hafa að skella sér í flokkana til þess að auka breidd þeirra sem sækjast eftir sæti á listum fyrir næstu kosningar. Þannig munum við fá t.d. betri og öflugri þingheim. Þar eiga fulltrúar helst allra hópa að eiga stað í hlutfalli við fjölda þeirra hjá þjóðinni. Konur hafa t.d. átt einungis um 1/3 þingsæta þó þær séu jafnmargar körlum. Fólk af erlendum uppruna hefur ekki átt sinn fulltrúa og fólk sem býr við fötlun hefur ekki átt marga fulltrúa svo eitthvað sé nefnt. Alþingisfólk þarf að koma alls staðar að, úr öllum greinum samfélagsins!

Eins og þingmannahópurinn er í dag þá er staðalímyndin af alþingismanni vel stæður hvítur karlmaður á milli fertugs og sextugs... Það er langt frá því að endurspegla þjóð okkar! Fólk sem situr á þingi þarf að hafa upplifað þá hluti sem verið er að afgreiða á þinginu á eigin skinni. Manneskja sem býr við fötlun t.d. hún veit nákvæmlega hvað það er að takast á við kerfið eins og það er í dag og er því sérfræðingur í því að finna góðar lausnir. Hún stendur því manni langtum framar sem aðeins horfir á þetta utanfrá.

Framsókn hefur verið sá flokkur sem hefur sýnt jafnrétti best í verki því þar hefur m.a. bæði ungu fólki og konum verið treyst til ábyrgðarmikilla verka. Í næstu kosningum myndi ég vilja sjá enn meiri breidd frambjóðenda úr öllum stigum þjóðfélagsins.

Minni svo alla sem vilja breytingar á það að knýja þær fram með friðsömum hætti, annars falla þær um sjálft sig! Áfram appelsínugulur www.appelsinugulur.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband