Alvöru pólitík er langhlaup

Þessa dagana eru flestir frambjóðendur að reima á sig hlaupaskóna. Þeir hendast á milli fólks, vinnustaða og annarra opinberra staða til þess að selja kjósendum sannfæringu sína. Allt er í boði fyrir atkvæðið.

Þetta er merkilegt hvernig þetta virðist ekki breytast.

Öll sú góða vinna sem fram fer í spretthlaupi þegar klukkan fer að tikka niður í kosningar ætti að mínu mati að fara fram í langhlaupi allan hinn tímann sem er á milli kosninga.

Ef kerfið byði upp á það og þingmenn sinntu því af alúð þá hefðum við betri tengsl á milli stjórnmálamanna og almennings almennt. Þannig yrði til sá skilningur sem oft vantar og traust sem þrýtur þegar stjórnmálamenn eru farnir að lifa í einum heimi en kjósendur í öðrum. Þessa gjá á ekki að brúa korter í kosningar, hún á aldrei að myndast.

Rétt fyrir kosningar dubba menn sig upp í sitt fínasta og hafa allt í einu áhuga á öllu og öllum. Það er bara ekki trúverðugt.

Vissulega þurfa menn að kynna stefnu sína fyrir kosningar og nýir frambjóðendur þurfa að kynna sig en stjórnmálamenn sem aldrei sjást þegar þeir þurfa ekki á valdi kjósenda sinna að halda en koma svo með offorsi fram þegar á að smala atkvæðum á ný og bjóða allt fyrir atkvæðið eru bara lélegir sölumenn. Þeir líta ekki á sig sem fulltrúa fólksins sem þarf að vita hvernig líðan þess er og hvar skóinn kreppi að. Þeir líta á kosningar sem óþarfa truflun á starfi sem þeir telja sig ganga að sem vísu og eru löngu búnir að gleyma hver kaus þá í upphafi.

Það er makalaust að fylgjast með pólitíkusum sem vita greinilega hvað þeir sjálfir eru léleg söluvara og ákveða því að reyna að selja sig með því að telja kjósendum trú um hvað önnur vara sé léleg í stað þess að selja sína eigin vöru! Hátterni Sjálfstæðisflokksins undanfarið er gott dæmi um slíkt!

Ég myndi vilja sjá stjórnmál þar sem vinnustaðaheimsóknir, kynning í verslanamiðstöðvum, fundir og önnur bein tengsl við fólkið í landinu væru tengdara daglegu lífi stjórnmálamanna.

Stjórnmálamenn eru eins og hjartalæknar þjóðarinnar. Þeir þurfa reglulega að líta á, hlúa að og kanna hvernig hjartað slær hjá þjóðinni. Það þýðir ekki að trassa eftirlitið og ætla svo að skutla þjóðinni bara í opna hjartaaðgerð þegar það er hætt að slá. Ef fylgst hefði verið reglulega með, forvörnum beitt og hjartslátturinn reglulega tekinn væri þjóðarpúlsinn sennilega betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Sæl frænka, mér finst nú oft að þegar stjórnmálaflokkur kemst í ríkisstjórn þá týnist loforðin, sama hvaða stjórnmálaflokkur á í hlut. Auðvitað veit ég að þeir þurfa að semja um ýmislegt þar sem þeir eru ekki einráðir. Framsókn er ekki undanskylinn þessu og er ekkert verri né betri að þessu leiti. Og mér finst vanta upplýsingar til fólks um hvað sé verið að gera í hinum og þessum málum.  Þingmenn og ráðherrar eru bara fólk eins og við hin, þeir meiga ekki gleyma því.

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 2.3.2009 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband