Ég játa mistök og biðst afsökunar

Ég fagna þessari umræðu í þinginu. Hún hefði reyndar mátt koma strax á fyrstu vikunum í október. Ég tel að allir þingmenn, embættismenn og aðrir sem báru ábyrgð á íslensku stjórnkerfi eða koma að hruninu á einn eða annan hátt þurfi að kanna sinn þátt í þeim mistökum sem gerð hafa verið undanfarin ár og biðjast afsökunar.

Það er ekki hægt að kenna bara siðlausum útrásarvíkingum eða bankastjórum einum um því það eru kjörnir fulltrúar okkar sem báru ábyrgð á regluverkinu sem samið var um slíka starfsemi, eftirlitinu sem átti að sinna og ábyrgðinni á viðeigandi stofnunum. Bankarnir og fjármálafyrirtæki sem uxu eins og mjólkurkýr á sterum voru þegar upp er staðið alltaf í íslenska fjósinu og því íslenska þjóðin sem þarf að taka skellinn þegar þær eru allar dauðar af ofneyslu stera og hættar að mjólka...

Þingmenn sem eru kosnir til valdamikilla embætta eða aðrir sem bera mikla ábyrgð í okkar samfélagi vilja innst inni standa sig vel. Flestir fara í slík störf út af hugsjón um að breyta og gera betur. En stundum ber menn af leið, þeir blindast, hætta að sjá heildarmyndina og villast af leið. Aðrir hafa ekki nógu mikinn kjark eða vilja ekki missa áður áunninn sess og fylgja því með straumnum gegn sannfæringu. Allir spila með því enginn vill vera leiðinlegi karlinn eða tapa sínum stað í partýinu.

Þess vegna er þetta sársaukafull og erfið umræða sem nú fer í hönd. Umræða um það að fólk hafi gert mistök og hafi brugðist þeim sem treystu á það. Það er hins vegar nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að klára þessa umræðu því annars mun hún liggja eins og mara á okkur um ókomna tíð. Til að fá viðspyrnu og geta haldið áfram þurfum við að rannsaka hvað fór úrskeiðis, játa mistök sem hafa verið gerð og biðjast afsökunar. Það er eina leiðin til þess að halda áfram aftur inn á rétta braut - reynslunni ríkari.

Ég játa þau mistök að hafa engan veginn gert mér grein fyrir því hversu gríðarstór útrásin var orðin og að það yrði íslenska þjóðin sem tæki skellinn ef illa færi. Einhvern veginn hélt maður að útrásin sæi um sig sjálfa og þessi fyrirtæki en það er kannski ekki að undra því það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt okkur í 18 ár að markaðurinn og fyrirtækin sjái um sig sjálf! Ekki óraði mig fyrir því að þessi útrás stæði á slíkum brauðfótum svikamyllu.

Ég er ekki komin nógu langt í pólitík til að hafa haft áhrif á regluverkið en ég hefði getað skrifað greinar og andmælt. Ég hefði líka getað mótmælt því hvernig þjóðin var að skiptast í tvær þjóðir hinna sjúklega ríku (sem lifðu á loftpeningum) og okkar hinna. Á því biðst ég afsökunar sem þegn þjóðfélagsins. Ég hefði líka átt að hringja í skattstjóra og gera athugasemdir við undarlegar tekjur í Frjálsri verslun í stað þess að hlægja bara að þjóðaríþróttinni að stinga undan skatti og skipta um kennitölur. Ég hefði átt að gera athugasemd við það að fólk sem lifir á fjármagnstekjum skuli leggja 10% í sameiginlega sjóði okkar á meðan almennur launamaður leggur tæp 40%.

Ég er ekki eins og Davíð sem vissi þetta allan tímann... en enginn hlustaði á! Ég vissi að það var eitthvað skrýtið í gangi en ég vissi ekki alveg hvað og hvernig ætti að bregðast við.


mbl.is Sekt og sakleysi á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband