Framsókn slær takt til framtíðar

Helgina 16. - 18. janúar sl. sótti ég flokksþing framsóknarmanna. Þingið stóð ekki aðeins undir væntingum mínum heldur fór langt fram úr þeim. Það einkenndist af samhug, krafti og góðri stemningu. Strax varð ég vör við þann ferska blæ sem leikur um Framsóknarflokkinn. Flokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem svarað hefur og brugðist við kalli almennings um róttækar breytingar. Forystusveit flokksins var endurnýjuð á djarfan hátt með Sigmund Davíð Gunnlaugsson kjörinn sem nýjan formann, Birki Jón Jónsson sem varaformann og Eygló Þóru Harðardóttur sem ritara. Þessi vaska sveit er skipuð ungu og mjög hæfu fólki. Einnig voru mörg mikilvæg málefni afgreidd á þinginu. Þau mikilvægustu eru að mínu mati ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið með skýr skilyrði að leiðarljósi, ályktun um stjórnlagaþing, ályktun um siðareglur, ályktun um opinberar stöðuveitingar og lagabreytingar sem stuðla að auknu lýðræði í flokknum.  

Það eru erfiðir og óvenjulegir tímar sem krefjast þess að hugsað sé út fyrir rammann. Breytingar eru erfiðar en við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að þær eru nauðsynlegar. Ef vel tekst til mun það mikla umrót sem nú á sér stað skila komandi kynslóðum mun heilbrigðara samfélagi. Fórnarkostnaðurinn er þó sorglega hár. Það mikilvægasta er að ná sátt í samfélaginu og endurvinna traust og samheldni að nýju. Við framsóknarmenn erum ekki að boða nýjan flokk. En, við erum að boða flokk sem hefur endurnýjað forystusveit sína, er reynslunni ríkari og vill læra af fyrri mistökum með góð málefni og gott fólk í broddi fylkingar. Við munum sýna það með verkum okkar að okkur er full alvara. Það er ein ástæða þess að við settumst ekki í ríkisstjórn án endurnýjaðs umboðs þjóðarinnar. Við viljum einnig að Íslendingar móti sér nýja stjórnarskrá með hugmyndum okkar um stjórnlagaþing. Þannig gætu mögulega komið til róttækar breytingar á stjórnkerfinu, t.d. á kosningalöggjöfinni. Eitt mikilvægasta atriðið þar er að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. 

Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að uppgjör við fortíðina geti átt sér stað, mögulegt sé að hlúa að fólkinu og fyrirtækjunum í landinu strax og byggja upp betra samfélag til framtíðar. Mikilvægustu verkefnin eru að mínu mati uppgjör á hruninu sem varð í haust með liðsinni óháðra, erlendra aðila, skipulag nýrra vinnubragða og regluverks í stjórnkerfinu, stoð við atvinnulífið með öllum mögulegum leiðum, efling útflutningsgreina okkar og síðast en ekki síst stoð við menntakerfið og velferðarkerfið. Huga þarf að því að fullvinna hráefni hérlendis sé þess kostur til að auka verðmætasköpun og hvetja íslensk fyrirtæki sem starfa erlendis til þess að flytja starfsemi sína aftur heim. 

Sumir telja stjórnmálaflokkana vera lokað vígi sem ómögulegt sé að komast inn fyrir í sé maður ekki innvígður flokksmaður frá barnsaldri. Ég get vottað um það að ég kom ein og ný inn í Framsóknarflokkinn fyrir þremur árum síðan. Mér var strax tekið opnum örmum og ég hef notið trausts og fengið að láta til mín taka á mörgum sviðum síðan þá. Vissulega þarf fólk að sýna áhuga og vera tilbúið að leggja á sig mikla vinnu þegar það ákveður að leggja lag sitt við stjórnmálaflokk og hafa áhrif. Uppskeran er hins vegar ríkuleg við þá tilfinningu að taka þátt í því að móta betra samfélag og í slíku starfi eignast maður einnig marga góða vini. Ég hvet þig sem hefur áhuga til þess að ganga til liðs við okkur í Framsókn til framtíðar að hafa samband strax í dag! Frekari upplýsingar má nálgast á www.suf.is og www.framsokn.is.

(grein birt í Morgunblaðinu 2.3.2009)


mbl.is Sigmundi Davíð boðin sáttahönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Kristbjörg.

Þekki þig svosem ekki neitt:) Bara datt inná þessa frétt og svo síðuna þína. Mér finnst flott hjá framsóknarfólki að vera reiðbúið að endurnýja hjá sér! Ég er sjálf ekki í framsókn, en það er bara svo mikið að gerast í stjórnmálum í dag og allt þess vert að fylgjast með. Mér finnst endurnýjun nauðsynleg - ekki síst að ungt fólk og konur komi frekar að þar.

Herdís Björk (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband