Tíminn og sandkornin

sandÉg fór í göngutúr áðan eins og ég geri svo oft á kvöldin. Á meðan ég gekk um götur Árósarborgar þá hugsaði ég um tímann. Um það hvernig tíminn er eins og fín sandkorn sem renna á milli fingra okkar. Hvert sandkorn felur í sér augnablik. Hvert augnablik sem við eigum og njótum. Þegar augnablikið er liðið er sandkornið fallið niður um tímaglasið og það kemur ekki aftur.

Frá því ég flutti hingað út hef ég upplifað ótal augnablik. Ég hef átt stundir með fólki sem ég hef kynnst hér sem virtust vara að eilífu. Ákveðin tímabil sem manni fannst óendanleg en svo skyndilega er allt breytt. Fólk flytur í burtu, börn boða komu sína í heiminn og stundin sem virtist svo óendanleg er orðin endanleg og ný tekin við.

Við megum aldrei gleyma því að hvert einasta sandkorn er þyngdar sinnar virði í gulli. Við vitum ekki hversu stóran sandpoka okkur var skammtaður og hvenær síðasta sandkornið okkar rennur niður í stundaglasið. Þetta er svolítið merkilegt því oft erum við á flótta undan tímanum, sandkornunum, augnablikunum. Okkur liggur svo mikið á að komast á næsta stað að við njótum ekki stundarinnar sem rennur hjá í makindum sínum. Við sjáum hana ekki, horfum bara beint fram eins og veðhlaupahestar, sprettum úr spori til að komast á næsta áfangastað og um leið þrykkjum við sandkorninu okkar niður tímaglasið. Þetta þekki ég alveg sorglega vel... Þessa dagana hef ég svolítið verið í því að ýta sandkornum niður stundaglasið því ákveðnu tímabili er að ljúka og ég vil ólm hefja hið næsta og gleymi því dásemd augnabliksins.

Góð vinkona mín kenndi mér að halda upp á hvert einasta afmæli sem maður á. Hver og einn getur haldið upp á afmælið með sínum hætti. Fyrir einn er það kannski ganga í skóginum en annan fjölmenn veisla. Ég tel það vera góða speki. Það er svo langt í frá sjálfsagt að afmælið manns komi ár eftir ár eftir ár. Við vitum aldrei hvenær kemur að því að við getum ekki fagnað því dýrmæta ári sem okkur var gefið með vinum og fjölskyldu. Við vitum ekki hvenær sandpokinn okkar er uppurinn. Það er ekki gott að gleyma að vera þakklátur fyrir það mikilvægasta í lífinu sem er lífið sjálft og hvert einasta augnablik, tíminn sem við fáum til umráða. Því ekkert er sjálfsagt, ekki einu sinni næsta klukkustund.

Með þessum hugleiðingum hvet ég þig ef þú upplifir stundir eins og ég þar sem þú ert á hlaupum í huganum á næsta áfangastað til þess að hægja á þér og muna eftir því að njóta hvers einasta sandkorns sem sveimar um í tímaglasinu þínu. Njóttu þess fram í ystu æsar því þetta er síðasta sandkornið af þessari sort sem þú átt. Fortíðin er farin, núið sveimar um en framtíðin er óráðin. Horfðu í kringum þig, lifðu í augnablikinu, það er hér nú en fer svo fljótt. Ekki taka neinu sem gefnum hlut og ekki festast í hlutum sem skipta engu máli þegar upp er staðið.

Hvert og eitt okkar er mesti áhrifavaldurinn í okkar lífi. Við ráðum okkar lífi, hvert við göngum, hvaða ákvarðanir við tökum, hvað við hugsum og þannig litum við sandkornin úr pokanum okkar með okkar eigin hætti.

Njóttu stundarinnar, augnabliksins og höndlaðu hvert sandkornið sem rennur í gegnum fingur þína sem fjársjóðinn þinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jónína Eiríksdóttir

Mikið er þetta góður pistill hjá þér frænka, hugur minn fór beint í Steinku frænku,ömmu þína. Kveðja frá Kópaskeri

Guðrún Jónína Eiríksdóttir, 9.5.2009 kl. 02:57

2 identicon

Sammála Guðrúnu, góður pistill hjá þér!

Kv Alla

Aðalheiður Þórisd (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband