Föstudagur, 29. maí 2009
Sumarið er tíminn
Nú hækkar sólin á lofti og sumarið er á næsta leiti.
Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að nota þetta sumar vel. Nota það til þess að hlaða hálftóm batteríin eftir harðan vetur. Einnig til að búa okkur undir það sem framundan er.
Sólin er risa rafhlaða sem gefur okkur öllum orku. Að fara í góðan göngutúr, horfa á náttúruna sem við eigum og er á heimsmælikvarða og hlusta á fuglana syngja er ótrúlega endurnærandi og gott fyrir sál og líkama. Að njóta endalausu íslensku sumarnóttanna eins og enginn sé morgundagurinn. Íslenska sumarið er engu líkt.
Þetta sumar þarf að endurhlaða okkur og fylla okkur af yl, orku og bjartsýni.
Það eru erfiðir tímar en þeir eru aldrei svo erfiðir að við getum ekki tekist á við þá. Þeir eru aldrei svo erfiðir að við eigum ekki að þakka hvern einasta dag fyrir það að vera Íslendingar sem búa á einu fegursta landi heims, erum einstök þjóð sem eigum mikla möguleika. Yfir heildina eigum við meira en nóg af húsnæði, nóg af fæði, nóg af kærleik, erum laus við stríðshörmungar og eigum samfélag sem byggir á traustum stoðum. Okkur eru því allir vegir færir og staða okkur talsvert mikið betri en meirihluta heimsbúa. Þessu má ekki gleyma.
Kæri lesandi,
njóttu þess að fara út í sumarið og eiga yndislegar stundir með því, með sjálfum þér og með fólkinu sem þú elskar. Þannig getur þú fyllt þig af orku og sú orka er ómæld og kostar hvorki krónu eða evru.
Eigðu góða Hvítasunnuhelgi og farðu varlega ef þú ætlar þér langa leið á þjóðvegunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.