Ósmekkleg birting þingkonu

Undanfarið hefur talsvert verið fjallað í fjölmiðlum um málefni kvenna sem hafa farið í brjóstastækkun og fengu sumar þeirra gallaða púða sem innihalda iðnaðarsílíkon.

Málið er snúið og margar hliðar þess hafa verið ræddar undanfarið og m.a. verið rætt með hvaða hætti heilbrigðiskerfið geti brugðist við þar sem um aðgerðir á einkastofu var að ræða.

Ég sá í kvöld að á samskiptavefnum Facebook gengur brandari þar sem verið er að líkja brjóstastækkun þessara kvenna við karlmenn sem fá sér blöðrudekk á jeppa sína. Ég ætla ekki að hafa brandarann eftir þar sem ég hef ekki áhuga á því að dreifa honum en þetta vakti mig til umhugsunar og ég veit að ég er ekki ein um það.

Er í lagi að verið sé að grínast með jafn alvarlegt mál? Er í lagi að sýna þeim konum sem eru í þessari stöðu slíka vanvirðingu?

Einn þeirra aðila sem dreifir þessu er þingkona sem situr í umboði kjósenda sinna á Alþingi Íslendinga og heitir Vigdís Hauksdóttir þingkona Reykjavíkurkjördæmis suður. Væri ég í stöðu þeirri sem þessar konur eru, sem ég get rétt ímyndað mér að sé mjög vond, yrði ég ekki ánægð að sjá fólk og m.a. þingkonu gantast með málið.

Ég held að þjóðkjörnir þingmenn sem ræða mikið um að auka veg og virðingu Alþingis þurfi einnig að líta í eigin barm og hefja breytinguna hjá sjálfum sér. Fólk ávinnur sér virðingu, það þurfa þingmenn líka að gera og á þeim ríkir mikil skylda að ganga fram fyrir skjöldu með góðu fordæmi.

Einnig er mikilvægt að muna það að þrátt fyrir ýmsar staðalmyndir af konum sem "skinkum" og fleiru þá eru sennilega jafn misjafnar ástæður fyrir því að kona fer í svona aðgerð og konurnar eru margar. Konur geta þurft fegrunaraðgerð á brjóstum eftir krabbameinsaðgerð, fegrunaraðgerð á brjóstum getur verið viðbragð við mikilli vanmáttarkennd sé kona með mjög lítil brjóst og upplifir sig ekki sem þá kynveru sem hún vill vera, um viðbragð við slakri sjálfsmynd getur verið að ræða og margt fleira.

Við ættum þó einnig að spyrja okkur og ræða hvers vegna kornungar konur með fullkomlega eðilega brjóstastærð vilja láta stækka brjóst sín, áhrif glanstímarita og óheilbrigðra fyrirmynda í stað þess að gera lítið úr stöðu þeirra kvenna sem nú bíða á milli vonar og ótta með miklar áhyggjur af áhrifum brjóstafyllingar á heilsufar sitt með þá vitneskju að ein kona hafi látist vegna þessa.


Tímamót

Goals and dreamsÁrið 2011 var kvatt með pompi og pragt í gær og árinu 2012 fagnað með mikilli eftirvæntingu.

Áramót eru tímamót í lífi hvers og eins okkar. Tímamót sem marka ný tækifæri og nýja von. Við getum kvatt það sem erfitt hefur verið á undangengnu ári, sumt getum við valið að skilja eftir við áramótin en öðru pökkum við snyrtilega í bakpokann okkar til þess að arka áfram veginn. Góðar minningar og reynsla eru dýrmætur farangur fyrir lífið sem framundan er. 

Ég held að árið 2012 verði gott ár. Ég geng inn í það bjartsýn bæði persónulega og fyrir þjóðina. Ég held að árið 2012 verði ákveðin þáttaskil þar sem við komumst lengra í þeim fasa að gera upp hrunið, ná fram réttlæti og sanngirni og getum byggt upp og haldið inn í nýja og betri tíma. Reynslunni ríkari. Slíkt mun ekki gerast átakalaust en ég tel að það muni engu að síður gerast. Á næstu árum spái ég áframhaldandi miklum breytingum til hins betra.

Hreyfiafl breytinganna býr innra með hverju og einu okkar. Þú þarft að verða breytingin sem þú vilt sjá eins og Mahatma Gandhi sagði svo vel "Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum". Ef við breytum því sem breyta þarf hjá hverju og einu okkar þá verður raunveruleg breyting í þjóðfélaginu öllu. Það er auðvelt að tala um breytingar en það er erfiðara að rífa sig upp úr hjólfari þægindahringsins. 

Áramót eru einnig góður tími til þess að skoða stöðu sína persónulega. Í kvöld ætla ég að lesa yfir markmiðin mín sem ég setti mér í fyrra og setja mér ný markmið/áramótaheit fyrir árið 2012. Ég náði mínum stærstu markmiðum árið 2011 en ég gerði þó ekki allt sem ég ætlaði mér og úr því þarf að bæta á nýja árinu :).

Ég hvet þig til þess að setja þér skrifleg markmið. Veltu því fyrir þér hvað þig langar að gera á nýja árinu, hvað þig hefur alltaf dreymt um, hverju þig langar að áorka, hvað færir þér hamingju, hvernig þig langar að vera, hvert þig langar að fara, hvenær og með hverjum? Gott er að brjóta markmiðin niður í skref ef þau eru stór, tímasetja þau og skilgreina hvað þú þarft að gera til þess að ná markmiðinu. Þegar stórum markmiðum er náð er svo mikilvægt að verðlauna sig. Mælt er með því að markmiðin séu skýr, mælanleg, aðgerðabundin, raunhæf og tímasett (SMART). Settu þér frekar færri markmið en fleiri og skilgreindu þau vel. Sumum finnst gott að skrifa fyrst niður nokkur svið lífsins t.d. heilsa, fjölskylda, vinnan, áhugamál osfrv. Það getur verið gagnlegt að ímynda sér að ekki séu neinar hindranir í veginum. Ef þú hefðir töfrasprota sem þú gætir sveiflað til þess að breyta einhverju í þínu lífi, hverju myndir þú breyta? Ef þú vaknaðir upp á morgun og eitthvað væri breytt, hvað væri það? Þarna ertu komin/nn á sporið og þarft svo að hugleiða hvernig þú getur raungert það sem þú vildir að töfrasprotinn gerði fyrir þig! Oft eru hindranirnar mestmegnis í huganum á okkur sjálfum ;).

Lífið líður hratt. Munurinn á draumi og markmiði er einungis sá að hið síðara er tímasett með framkvæmdaáætlun. Lifðu til þess að uppfylla drauma þína og njóta lífsins.

Besta leiðin til að breyta heiminum er að breyta sjálfum sér!

Gleðilegt og farsælt nýtt ár :)

 


Jólakveðja 2011

Kæru vinir og ættingjar!

ÚtskriftÞá er árið 2011 að renna sitt skeið. Á þessum tímamótum finnst mér ágætt að líta um öxl, rifja upp og horfa fram á við.

Árið 2011 hefur einkennst af stórum áföngum sem ég lauk, afdrifaríkum ákvörðunum, ýmsum námskeiðum á ferðalagi lífsins og ánægjustundum með yndislegu fólki og litlum ljósgeislum fjölskyldunnar.

Mér eru minnisstæð verkefni eins og verkefni á vegum SSR þar sem ég tók saman ógrynni upplýsinga vegna yfirfærslu málefna fatlaðs fólks og öðlaðist ég titilinn „Excel gúrú SSR" fyrir vikið sem er nú ekki ónýtt. Einnig minnist ég með hlýju sumarsins sem ég eyddi í velferðarráðuneytinu að verkefni sem snerist um tillögu að innleiðingu árangursstjórnunar í ráðuneytinu. Stóra verkefni ársins var svo að ljúka rannsókninni minni sem ég hef lengi gengið með sem fjallar um tilfinningavanda í heilsugæslu og aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu. Það var yndisleg stund að senda „barnið mitt" glóðvolgt með pósti til Árósa og ekki síður að útskrifast, fá starfsréttindi sem sálfræðingur og fagna þessum langþráða áfanga með vinum og vandamönnum.

Stórfjölskyldan hefur stækkað um tvo litla ljósgeisla undanfarin tvö ár og er það hreint út sagt dásamlegt að fá svona litla gleðigjafa í hópinn.

Sviptivindar voru í pólitíska lífinu mínu þar sem ég var kjörin formaður landssambands framsóknarkvenna og ferðaðist mikið um í haust. Ég komst að þeirri niðurstöðu í nóvember að ég ætti ekki lengur samleið með Framsóknarflokknum þar sem mér fannst dýrmætum tíma og orku varið í að berjast fyrir breytingum innan flokksins og vegna ágreinings við einstaklinga sem ég á ekki samhljóm með. Lífið er stutt og vanda þarf vel hvernig hverju ári, mánuði, degi og andartaki er varið. Pólitíski áhuginn er hvergi farinn en ég tel kröftum mínum betur varið annars staðar í önnur verkefni.

Árið einkenndist líka af ýmsum „námskeiðum", til þess að bæta mig sem manneskju og tryggja betur mína eigin vellíðan en einnig námskeiðum sem ég vissi ekki að ég hefði skráð mig á en var engu að síður stödd á. Þar með talið má nefna námskeið í samskiptum við fólk bæði samskipti við erfiða einstaklinga og kynni af nokkrum froskum í leitinni að draumaprinsinum. Það eru ekki auðveldu einstaklingarnir sem kenna manni mest í lífinu.

Ég á skemmtilegar minningar sem ég mun taka með mér í bakpokann sem þú hefur gefið mér og ég vona að ég hafi líka gefið þér eitthvað. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér!

Að lokum langar mig að óska þér og þínum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári. Megi þú og þínir njóta ljóss og friðar yfir hátíðina og á nýju ári. Mundu svo að lífið sjálft er dýrmætasta gjöfin sem þú hefur fengið, heilsa þín og velferð og fólkið sem þig umlykur. Vandaðu þig vel hvernig þú nýtir þessa stórkostlegu gjöf og umfram allt njóttu ferðarinnar!

Gleðilega hátíð og megir þú og þínir njóta ljóss og friðar.


Jólin koma með þér

20. desember... Jólaandinn

Fimm dagar til jóla. Eflaust margir á þönum að klára to do listann sinn. Þar á meðal ég!

Verð að...

Þarf að...

Við erum alltaf með svona...

Við gerum aldrei svona...

Tékk...

Hjálpi mér... þetta er eftir... og þetta... og þetta...

Það er svo auðvelt að sogast inn í hringiðu jólakapphlaupsins mikla og jólastreitunnar. Það er líka auðvelt að ætla að grípa jólin í snarheitum úr hillum búðanna eða barma sér yfir að hafa ekki byrjað að undirbúa jólin í ágúst. Það er líka auðvelt að festast í hugsanavillum þess að engin verði jólin ef ekki er keyptur nýr kjóll, nýir fylgihlutir eða ósveigjanlegum rútínum fylgt út í ystu æsar.

Mig langar til þess að minna sjálfa mig og þá sem lesa þessa færslu á að jólin snúast sennilega minnst um þetta, meira um allt annað.

Þau snúast ekki um to do listann

...ekki um kaupmanninn

...ekki um það sem næst ekki að gera

...ekki um hver er fyrstur að undirbúa þau eða hver undirbýr þau best

...ekki um kjólana, skóna, fylgihlutina, greiðsluna, förðunina

Og svo framvegis...

 

Jólin snúast um þig.

Jólin koma með þér.

 

Þegar þú finnur hinn djúpa frið, innilega gleðina og kærleikann sem allt í einu leggur yfir allt eins og fallega dalalæðu og upplifir hamingjuna yfir því sem hefur snert þína innstu strengi í hátíðleikanum.

Jólin koma þannig innra með manni sjálfum í hreinu þakklætinu fyrir að fá að vera til og upplifa þetta kraftaverk sem lífið er. Fyrir að fá að vera með hér á jörð ein jólin enn.

Jólin koma með gjöfunum sem maður færir, kveðjunum sem maður sendir og ljósunum sem maður leggur á leiði þeirra sem maður minnist svo sérstaklega á þessum tíma árs.

Jólin koma með fallegu gjöfunum sem maður gefur og þiggur í öllu mögulegu formi og eru þá efnislegar umbúðir þeirra það sem minnstu máli skiptir heldur hugurinn sem fylgir og þær tilfinningar sem eru þyngdar sinnar virði í gulli.

Jólin koma með kortunum sem minna mann á það að einhver man eftir manni og maður skiptir aðra máli.

Jólin koma með minningunum sem flögra um hugann frá æskunni og allt yfir í endurminningar og hugarflug um árið sem senn kveður.

Jólin eru því þannig endirinn á ákveðnu tímabili og upphafið að nýrri von og nýjum tímum.

Þetta er einmitt það sem svo mikið af jólaboðskapnum og jólalögunum fjalla um en auðvelt er að missa af merkingunni í jólastressinu og fara bara að heyra suð í jólaamstrinu.

Mundu því að to do listinn þinn er ágætur en hann er einungis umbúðir utan um hátíðina og til skipulagningar. Allt umstangið eru einungis umbúðir en ekki jólin sjálf. 

Þau eru ekki á neinum to do lista því þau eru innra með þér og hjá þínum, hafa alltaf verið það og verða þar svo lengi sem við njótum stærstu gjafarinnar, ferðarinnar um móður jörð.


Þú skiptir máli

Clockwork Þú ert hluti af heildinni og sérhver mannvera hefur sitt hlutverk í heildinni. Engir tveir eru eins. Til að skapa fullkomna heild, þarf marga ólíka einstaklinga. Hefur þú nokkurn tímann séð klukku sem hefur verið tekin í sundur? Klukkan er búin til úr mörgum ólíkum hlutum. Þegar þú sérð þá liggja fyrir framan þig, undrast þú hvernig þeir geti nokkurn tímann orðið aftur að fullkominni klukku. En, þegar hver hlutur er settur á sinn rétta stað, kemst þú að raun um að ekki er nóg með að hún gangi, heldur gefur hún upp nákvæmlega réttan tíma. Svo lengi sem sérhver smáhlutur er á sínum rétta stað, í sínu hlutverki, gengur allt vel. Þegar þú hefur fundið þitt hlutverk og þinn stað leggðu þá allt þitt besta að mörkum.
(byggt á texta úr bókinni Ég er innra með þér eftir Eileen Caddy)
 
Ég rakst á þennan texta og mér finnst hann ansi góður. Ekki síst á þeim tímum sem við lifum í dag. Hvert og eitt okkar þarf að leggja sitt af mörkum í úraverki lífsins en hlutverk okkar eru ólík.
 
Hvert og eitt okkar getur breytt heiminum. Valdið er þitt. Þú getur haft áhrif hvar sem þig ber niður, hvort sem það er í stjórnmálum, að því að gera heiminn að betri stað, í því að gleðja einhvern sem á um sárt að binda eða hvar sem er. Þitt er valið og þitt er valdið. Notaðu það vel og mundu að auðvelda leiðin er ekki alltaf sú besta. Hjarðhegðun í pólitík er t.d. eitthvað sem getur verið þægilegt í augnablikinu en þú gætir séð eftir því síðar að hafa elt rangan sauð með ranga ákvörðun notir þú ekki toppstykkið vel til að taka eigin ákvörðun og standa með henni.
 
Að lokum:
„Hamingjan er hér og nú". Þetta er setning sem við eigum að endurtaka á hverjum degi. Augnablikið kemur aldrei aftur. Því eigum við ekki að fresta því að njóta tilverunnar - hér og nú.

Hring eftir hring í þægindahringnum

 

Comfort zone

 

Talsvert hefur verið rætt um það að lítið breytist hér á landi þrátt fyrir algert hrun.

Að mínu mati er þægindahringurinn ein ástæða þess. Það er ríkt í mannlegu eðli að leitast við að halda sig innan þægindahringsins. Hugtakið þægindahringur þekkja flestir. Það merkir það umhverfi sem við þekkjum og hrærumst um í daglegu lífi okkar. Það er fyrirsjáanlegt, öruggt og við höfum lært hvernig við eigum að bregðast við í því. Hinn þægilegi hringur! Eðlilega er ein af frumþörfum okkar að tryggja okkar eigið öryggi. Í síbreytilegu umhverfi þar sem dynja á okkur ógrynni áreita af ýmsu tagi er rökrétt að reyna að halda í allar þær þekktu stærðir sem þó er að finna í kring um okkur. Þar fyrir utan erum við mjög fastheldin flest á venjur okkar.

Menn þurfa markvisst að hafa fyrir því að fara út fyrir þægindahringinn. Það krefst miklu meiri fyrirhafnar, orku, óöryggis og óvissu. Takist okkur það, öðlumst við nýja þekkingu, þroska og stækkum hringinn. Einhver sagði að það tæki 21 dag að breyta venju, þeas. gera eitthvað nýtt og búa til nýjan vana.

Það er einnig þekkt að sumir gera hvað sem er til þess að halda sig innan þægindahringsins því versta helvíti er betra en óvissan! Óvissan er oft okkar stærsti ótti. Við vitum hvað við höfum, sama hversu slæmt það er, en við vitum ekki hvað við fáum þeas. hvað liggur handan þægindahringsins. 

Þegar fólk hefur svo stigið út fyrir þægindahringinn þarf mikla staðfestu til þess að leita ekki í sama gamla farið. Hver kannast ekki við það að hafa ætlað að grenna sig, breytt matarræðinu svo aðdáun vakti meðal annarra og hamast í ræktinni eins og hamstur á hlaupahjóli hlaupandi eins og hann eigi lífið að leysa. Að sigla svo aftur smám saman inn í sama gamla farið... og hlaupahjólið stöðvast. Nokkrum mánuðum seinna eru vöðvarnir rýrir og spikið búið að margfalda sig og komið tvöfalt tilbaka! Til þess að koma í veg fyrir þetta hefði maður þurft að tjóðra sig eins og hamsturinn á brettið í langan tíma þangað til brettið væri orðið að föstum vana og inni í þægindahringnum. Nýr lífstíll.

Mín upplifun af samfélaginu hér og stjórnmálaflokkunum er að hægt og bítandi séum við að sigla inn í sama gamla farið. Inn í hinn þekkta þægindahring gamaldags stjórnmála. Það er það sem fólk kann og þar er það öruggt. Þrátt fyrir að það hafi ekki reynst okkur vel. Ferðin að nýju Íslandi virðist enn sem komið er vera of fyrirhafnarmikil, of mikilli óvissu bundin og því leggja menn ekki í hana. Óvissuferð.

Við þurfum í sameiningu að taka skrefið út fyrir þægindahringinn og nema nýtt Ísland ætlum við okkur betri framtíð. Við þurfum að hafa fyrir því, hugsa hlutina upp á nýtt, taka erfið og óþægileg skref. Óvenjulegt ástand kallar á óvenjulegar lausnir. Við þurfum að fara inn í óvissuna með kjark, von og trú að vopni.

Það er í þínu valdi að taka fyrsta skrefið með okkur!

 


Sálfræðinga á heilsugæslustöðvar

Viðtal af Bleikt.is sem birtist í dag.

Þriðji hver sjúklingur sem kemur á heilsugæsluna á við tilfinningavanda að stríða, þar af er meirihlutinn konur. Aðeins sex sálfræðingar eru starfandi á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þá bara til að þjóna börnum og unglingum. Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur vill að sálfræðingar verði ráðnir á heilsugæslustöðvarnar.

 

Kvíði og þunglyndi eru helmingi algengari hjá konum en körlum. Þriðjungur allra þeirra sem koma á heilsugæsluna á hverjum tíma eiga við tilfinningavanda að stríða. Helmingur komugesta heilsugæslustöðva finnur fyrir vægum, miðlungs eða alvarlegum einkennum þunglyndis og/eða kvíða. Meirihluti þeirra sem greindir eru með tilfinningavanda er í lyfjameðferð en minnihluta er vísað í sálfræðimeðferð.

 

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Kristbjargar Þórisdóttur sálfræðings, Tilfinningalegur vandi í heilsugæslu á Íslandi: könnun meðal sjúklinga og heimilislækna sem byggir á svörum 251 einstaklings á aldrinum 18-88 ára og heimilislæknum þeirra.

 

Þar kemur meðal annars fram að meirihluti þeirra sem er með tilfinningavanda telur að sálfræðimeðferð í heilsugæslunni væri gagnlegur valkostur. Heimilislæknar telja líka að sálfræðimeðferð í heilsugæslu væri gagnleg fyrir meirihluta þeirra sem þeir telja eiga við tilfinningavanda að stríða.

 

Sinna börnum

 

Kristbjörg telur að heilsugæslan hafi ekki næg úrræði til að takast á við tilfinningavanda eins og staðan er í dag. Hún bendir á að heimilislæknar hafi aðeins 20 mínútur til að sinna hverjum sjúklingi. Þeir hafi líka mismunandi aðstæður til þess að veita samtalsmeðferð. Aðeins sex sálfræðingar starfi á átta heilsugæslustöðvum í Reykjavík og þeir sinni aðeins börnum og unglingum.

 

Ef sálfræðingar yrðu ráðnir á heilsugæslustöðvarnar gætu þeir tekið sjúklinga í greiningarviðtal, gert drög að greiningu til að sjá hvað vandinn er alvarlegur og hvort hægt sé að veita þjónustu í heilsugæslunni eða hvort sjúklingnum væri vísað á Landspítalann. Í framhaldinu gætu sálfræðingarnir svo veitt sálfræðimeðferð, til dæmis í hóp.

 

„Hugræn atferlismeðferð er mjög sérhæfð meðferð sem skilar jafngóðum árangri og jafnvel betri en með lyfjagjöf lækna því að oft veikist fólk aftur þegar það hættir að taka lyfin," segir Kristbjörg og bendir á hættuna á því að fólk sem ekki fái viðeigandi meðferð detti út af vinnumarkaði og fari á örorkubætur í stað þess að borga samfélaginu skatta af vinnu sinni.


Sálfræðiþjónusta í heilsugæslu: aukin þjónusta, meiri sparnaður og bætt líðan almennings

Pistill birtur á Innihald.is í dag. 

 

Kvíði, þunglyndi, streita og annar tilfinningavander algengur, lamandi, líklegur til þess að vera vangreindur og meðhöndlaður með ófullnægjandi hætti hér á landi og erlendis. Geðraskanir eru almennt vangreindar í heilbrigðiskerfum jafnvel í 50-75% tilfella af mörgum ólíkum ástæðum (1, 2, 3). Um þriðjungur er líklegur til að þjást af að minnsta kosti einni geðröskun á hverju ári og um helmingur er líklegur til að þjást einhvern tímann á lífsleiðinni (2, 4, 5). Þunglyndi er talið vera fjórða mesta orsök örorku í dag og er spáð öðru sætinu 2020 (6). Ómeðhöndlaður tilfinningavandi veldur einstaklingum og fjölskyldum mikilli vanlíðan og samfélaginu mikilli byrði og kostnaði á hverjum tíma (3, 7).

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er gagnreynd meðferð við þunglyndi, kvíða og öðrum geðröskunum (8, 9, 10). Hugræn atferlismeðferð á að vera fyrsta meðferð við kvíða og vægu til miðlungs þunglyndi samkvæmt klínískum leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út meðal annarra landa í Bretlandi og á Íslandi (11, 12, 13). Í Bretlandi er stórt verkefni í gangi þar sem markvisst er unnið að því að auka aðgengi almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð sem gengur undir nafninu Improving Access to Psychological Therapy (IAPT) (14) og má líta til þess verkefnis sem fyrirmynd að því hvernig hægt væri að efla framlínuþjónustu og aðgengi almennings að sálfræðiþjónustu hér á landi.

Rannsókn á algengi tilfinningavanda og úrræða á fimm heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu
Rannsókn um algengi tilfinningavanda og meðferð var unnin fyrr á þessu ári í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á fimm heilsugæslustöðvum. Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar var Ingibjörg Sveinsdóttir Ph.D, BCBA-D sálfræðingur á Heilsugæslunni Firði. Þátttakendur voru 267 komugestir á biðstofum heilsugæslustöðva á aldrinum 18-88 ára af báðum kynjum (15). Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi tilfinningavanda í heilsugæslu, kanna hvaða meðferð væri veitt og athuga viðhorf til sálfræðimeðferðar. Markmiðið var ennfremur að afla þekkingar á tilfinningavanda í heilsugæslu með það að markmiði að efla framlínuþjónustu. Þátttakendur svöruðu spurningalista á meðan þeir biðu eftir tíma hjá heimilislækni sem innihélt m.a. skimunarlista fyrir þunglyndi og kvíða og heimilislæknir svaraði að auki spurningalista eftir viðtalið. Einnig svöruðu þátttakendur og læknar spurningu um hvort þeir teldu sálfræðimeðferð gagnlegan valkost væri boðið upp á hana í heilsugæslu. Aðrir þættir voru jafnframt kannaðir eins og hvaða meðferð er veitt og hvert málum er vísað þegar tilfinningavandi var greindur af heimilislæknum.

Þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu á við tilfinningavanda að etja
Rannsóknin leiddi í ljós að minnsta kosti þriðjungur þeirra sem leita sér aðstoðar á heilsugæslu á við einhvers konar tilfinningavanda að etja og helmingur finnur fyrir einhverjum einkennum þunglyndis og/eða kvíða, allt frá vægum einkennum upp í alvarleg einkenni. Þessi niðurstaða er í samræmi við aðrar erlendar og innlendar rannsóknir (3, 16, 17, 18). Heimilislæknar mátu 41% þátttakenda með tilfinningavanda. Þrátt fyrir þetta voru einungis um 3% þátttakenda sem nefndu tilfinningavanda sem ástæðu komu sinnar. Niðurstöður skimunarlista gáfu til kynna að um 12% þátttakenda ættu við klínískt þunglyndi að stríða og rúmlega 14% við klínískan kvíða. Konur voru helmingi líklegri til þess að eiga við tilfinningavanda að etja og þátttakendur eldri en 57 ára voru með marktækt minni einkenni. Þeir sem komu oftar á heilsugæsluna voru með marktækt meiri einkenni tilfinningavanda. Nokkuð gott samræmi var á milli þess hvernig læknir og þátttakandi mat sig en þó var sums staðar talsverður munur.

Lyfjameðferð algengust en rúmlega helmingur telur sálfræðimeðferð gagnlegan valkost
Rannsóknin sýndi fram á að meirihluti þeirra sem var metinn með tilfinningavanda var í einhvers konar meðferð eða 80%. Flestir voru í lyfjameðferð en einungis 11% var vísað í sálfræðimeðferð. Sálfræðimeðferð var hins vegar metin sem gagnlegur valkostur af 53% þeirra sem mátu sig með tilfinningavanda og heimilislæknar mátu hana gagnlegt úrræði fyrir 58% þeirra sem voru metnir af þeim með tilfinningavanda.

Lærdómur
Tilfinningavandi er algengt vandamál þeirra sem leita á heilsugæslu þrátt fyrir að oft fjalli viðtalið einungis um líkamleg einkenni. Sál og líkami eru ein heild þannig að líkamleg veikindi hafa oft í för með sér tilfinningavanda og öfugt. Því þarf að taka á vanda hvers sjúklings með heildrænum hætti. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður flestra í heilbrigðiskerfinu. Það er því afar brýnt að þróa og innleiða skimun fyrir algengum tilfinningavanda eins og þunglyndi og kvíða í heilsugæslunni. Einnig er lagt til að ráðnir verði sálfræðingar og annað fagfólk inn á heilsugæslur. Sálfræðingur á heilsugæslu getur greint nánar vanda þeirra sem skimast hjá heimilislækni, sinnt meðferð þeirra sem eiga við vægan vanda að stríða meðal annars með hópnámskeiðum og unnið í þverfaglegu samstarfi innan heilsugæslunnar að heildrænni nálgun vandans. Með því að fjölga fagstéttum í heilsugæslunni er einnig hægt að takast á við þann skort sem er á heimilislæknum og draga úr álagi á heimilislækna sem og á sérfræðinga. Með eflingu framlínuþjónustu má greina og grípa fyrr inn í tilfinningavanda sem dregur úr líkum á alvarlegum veikindum og minnkar þörf fyrir sérhæfðari þjónustu. Með þessari einföldu aðgerð má efla þjónustu, spara fjármagn og bæta líðan almennings.

* Tilfinningavandi er íslensk þýðing á orðinu emotional disorder. Hér er vísað til tilfinningavanda sem víðs hugtaks sem nær yfir vanda þeirra sem eru með einkenni frá vægum og upp í alvarleg. Þegar einkenni eru komin yfir klínísk mörk er vandinn frekar skilgreindur sem geðröskun eða geðsjúkdómur.

Höfundur er sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Breiðholts.

 

Heimildir:


1.    Coyne, J.C., Thompson, R., Klinkman, M.S. & Nease Jr. D.E., (2002). Emotional Disorders in Primary Care. Journal of Consulting and Clinical Psychology, 3, 798-809.
2.    Kessler, R. C., Demler, O., Frank, R. G., Olfson, M., Pincus, A. H., Walters, E. E. et al. (2005). Prevalence and treatment of mental disorders, 1990 to 2003. The New England Journal of Medicine, 352, 2515-2523.
3.    Spitzer, R. L., Kroenke, K. and Williams, J. B. W. (1999). Validation and utility of a self-report version of PRIME-MD: The PHQ primary care study. Journal of the American Medical Association, 282, 1737-1744.
4.    Jón G. Stefánsson og Eiríkur Líndal (2009). Algengi geðraskana á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Læknablaðið, 95, 559-564.
5.    Wittchen, H. and Jacobi, F. (2005). Size and burden of mental disorders in Europe - a critical review and appraisal of 27 studies. European Neuropharmacology, 15, 357-376.
6.    Murray, C.J.L. and Lopez, A.D. (1997). Alternative projections of mortality and disability by cause 1990-2020: Global Burden of Disease Study. Lancet, 349, 1498-1504.
7.    Layard, R. (2006). The case for psychological treatment centres. British Medical Journal 332, 1030-1032.
8.    Barlow, D.H., Gorman, J.M., Shear, M.K. and Woods, S.W. (2000). Cognitive-Behavioral Therapy, Imipramine, or their Combination for Panic Disorder: A Randomized Trial. Journal of the American Medical Association, 283, 2529-2536.
9.    DeRubeis, R. J., Hollon, S. D., Amsterdam, J.D., Shelton, R. C., Young, P. R., Salomon, R. M., et al. (2005). Cognitive therapy vs. medications in the treatment of moderate to severe depression. Archives of General Psychiatry, 62(4), 409-416.
10.    Hollon, S.D., DeRubeis, R.J., Shelton, R.C. and Amsterdam, J.D.,Salomon, R.M., O´Reardon, J.P. et al. (2005). Prevention of Relapse Following Cognitive Therapy vs. Medications in Moderate to Severe Depression. Archives of General Psychiatry, 62, 417-422.
11.    National Institute for Clinical Excellence. (2004). Depression: management of depression in primary secondary care. London: National Institute for Clinical Excellence.
12.    National Institute for Clinical Excellence. (2011). Anxiety - Management of anxiety (panic disorder, with or without agoraphobia, and generalized anxiety disorder) in adults in primary secondary and community care. London: National Institute for Clinical Excellence.
13.    Landlæknisembættið (2011). Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða. Reykjavík: Landlæknisembættið.
14.    Clark, D. M., Layard, R. and Smithies, R. (2010). Improving Access to Psychological Therapy: Initial Evaluation of the Two Demonstration Sites. LSE Centre for Economic Performance Working Paper No. 1648.
15.    Kristbjörg Þórisdóttir (2011). The prevalence of emotional disorder in primary care in Iceland: A survey among patients and general practitioners. Óbirt Cand.psych ritgerði við Árósarháskóla.
16.    Agnes Agnarsdóttir (1997). An examination of the need for psychological counseling service in primary health care in Iceland. An unpublished doctorial thesis at the University of Surrey in England.
17.    Guðný Dóra Einarsdóttir (2010). Skimun geðraskana hjá sjúklingum sem leita til heilsugæslulækna: Könnun meðal sjúklinga Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. An unpublished Cand.psych thesis at the University of Iceland.
18.    Serrano-Blanco, A., Palao, D. J., Luciano, J. V., Pinto-Meza, A., Luján, L., Fernández, A., & ... Haro, J. M. (2010). Prevalence of mental disorders in primary care: results from the diagnosis and treatment of mental disorders in primary care study (DASMAP). Social Psychiatry & Psychiatric Epidemiology, 45(2), 201-210.


Uppskrift að góðum jólum

Nú er desember rétt handan við hornið, aðventan komin í hús og þá er ekki úr vegi að baka aðeins.

Ég er nú búin að baka mín vandræði en ekki ennþá smákökur en ætla hér að gefa ykkur uppskrift að góðum jólum!

Uppskrift að góðum jólum

Þessi uppskrift krefst smá undirbúnings en er að öðru leyti einföld og þægileg í framkvæmd. Allir sem ætla að halda jólahátíðina saman koma með gott hráefni, taka þátt í matreiðslunni og njóta afrakstursins.

140 g. kærleikur og gleðixmas cake

320 g. tími, næði og ró

140 g. umhyggja fyrir náunganum

2. msk. ást

dass af kæruleysi

4 dl. hlýja

40 g. virðing

2 dl. húmor

2. dl. vinátta

3 msk. fyrirgefning

4 msk. traust

Slatti af hrósi

3 dl. þakklæti

Og fleira eftir þörfum hvers og eins

AÐFERÐ

Hrærið varlega saman tíma, ró, næði, kærleik og gleði, umhyggju, ást og dassi af kæruleysi. Bætið svo út í hlýju, virðingu, húmor og vináttu. Bræðið fyrirgefningu og hellið varlega saman við. Þar á eftir bætið þið við 4 msk. trausti og slatta af hrósi. Bakist við 200 gráður í miðjum ofni í 40 mín. Endið svo á því að þekja kökuna með þakklæti og öðrum hráefnum að eigin vali yfir. Njótið frá fyrsta í aðventu og fram yfir þrettándann.Berið fram með bros á vor og hátíð í hjarta. Verði ykkur að góðu. 

Megið þið eiga gleðilega hátið og njóta ljóss og friðar

 


Yfirlýsing vegna afsagnar minnar og úrsagnar úr Framsóknarflokknum

 

Yfirlýsing

 

Ég, Kristbjörg Þórisdóttir, formaður landssambands framsóknarkvenna hef látið af störfum sem formaður og sagt mig úr Framsóknarflokknum.

Ástæða úrsagnar minnar er fyrst og fremst sú að ég tel mig ekki lengur eiga samleið með Framsóknarflokknum.

Ég tel að til þess að byggja upp betra samfélag en það sem var hér fyrir hrun þurfi grundvallarbreytingar að eiga sér stað í íslenskum stjórnmálum sem og innan stjórnmálaflokkanna. Bæta þarf vinnubrögð þeirra, lýðræðisvæða þá, tryggja gagnsæi og gæta vel að mögulegum hagsmunatengslum. Einnig þurfa stjórnmálaflokkarnir að tryggja jafnræði beggja kynja í öllu starfi.

Framsóknarflokkurinn hefur unnið mikið verk að ákveðnum breytingum. Ekki hefur þó verið gengið eins langt í grundvallarbreytingum og ég hefði viljað sjá.

 

Ég mun ekki tjá mig frekar um úrsögn mína við fjölmiðla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband