Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 25. nóvember 2010
Forseti Íslands
Ég vil að staða og valdsvið forseta Íslands verði skýrð betur út í nýrri stjórnarskrá. Ég sé forseta Íslands sem leiðtoga, sameiningartákn og andlit þjóðarinnar út á við ásamt því að vera talsmann friðar, náttúruverndar og mannréttinda.
Ég vil að farið verði vel yfir greinarnar sem snúa að forseta Íslands í vinnu við nýja stjórnarskrá og þeim breytt með það í huga að skilgreina stöðu og vald forsetans t.d. í tengslum við framkvæmdavaldið. Ég tel að skoða þurfi það að forsetinn sé bæði hluti af löggjafar- og framkvæmdarvaldinu (skv. 2. gr.) og hafi þannig mikil völd en jafnframt er tekið fram skv. (11. gr.) að hann sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Þetta tel ég m.a. að þurfi að endurskoða.
sjá meira um mín stefnumál hér
hér má finna mig á Facebook
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Þrískipting ríkisvaldsins
Ég vil sjá raunveruleg skil milli þriggja greina ríkisvaldsins og tel það vera forsendu raunverulegs lýðræðis og skilvirks stjórnkerfis.
Til að raunveruleg skil ríki á milli löggjafar- og framkvæmdavalds og að þau starfi sjálfstætt eru fleiri en ein leið fær. Tvær þeirra aðyllist ég.
Annars vegar að ráðherrar afsali sér þingmennsku þegar þeir taka við ráðuneyti og kalli inn varamann.
Hins vegar að bæði framkvæmdavald og löggjafarvald sé kosið beinni kosningu. Í því samhengi tel ég ekki heppilegt að forsætisráðherra einn sé kosinn beinni kosningu þar sem ég tel alla ráðherra þurfa að hafa lýðræðislegt vald á bakvið sig.
Styrkja þarf stöðu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdavaldi. Það má meðal annars gera með þeim hætti að gerð lagafrumvarpa fari fram á Lagaskrifstofu Alþingis sem sett verði á fót.
Ráðuneytin gefi svo umsögn um lagafrumvörp (þeas. öfugt við það sem nú er að frumvörpin eru unnin í ráðuneytunum og þau svo send nefndum Alþingis til umsagnar).
Þingmenn geti að hámarki setið 3 kjörtímabil (12 ár) og séu eftir það ekki kjörgengir fyrr en að öðrum þremur kjörtímabilum loknum. Ráðherrar geti að hámarki setið í 8 ár.
Einnig þarf að styrkja stöðu og sjálfstæði dómsvaldsins. Dómsmálaráðherra hafi ekki einn vald til þess að skipa hæstaréttardómara. Þeir séu kosnir af þjóðinni eða umsækjendur þreyti nafnlaust próf og sá sem bestu niðurstöðu hlýtur úr prófinu fái embættið.
Miðvikudagur, 24. nóvember 2010
Þjóðareign á auðlindum
Þjóðareign á auðlindum er grundvallarákvæði í stjórnarskrá og eitt aðalstefnumál mitt. Íslenska þjóðin var 318.200 manns 1. október 2010. Í svo fámennu samfélagi jafn ríku af auðlindum á hver einstaklingur að geta haft það gott.
Arður af nýtingu auðlinda á að renna til þjóðarinnar. Ákvæði um slíkt þarf að vera fyrir hendi í drögum að nýrri stjórnarskrá.
Tryggja þarf rétt náttúrunnar í stjórnarskrá, að ekki sé á hana gengið meira en eðlilegt getur talist. Tryggja þarf rétt komandi kynslóða til auðlindanna í stjórnarskrá. Ganga þarf um auðlindir þjóðarinnar með sjálfbærni að leiðarljósi.
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Þú átt leik
Ég sat við tölvuskjáinn úti í Árósum þar sem ég var í námi þegar allt hrundi, táraðist yfir að sjá hvernig komið var fyrir íslenskri þjóð en upp frá því kviknaði áhugi á því að leggja mitt lóð á vogarskálarnar við það að nýta þetta tækifæri til þess að bæta íslenskt samfélag og hag almennings.
Hvers vegna mótmælir fólk?
Undanfarin tvö ár hafa Íslendingar fjölmennt reglulega á Austurvöll, jafnvel í nístingskulda, kveikt elda og barið af öllum mætti í potta, pönnur, tunnur og ýmislegt fleira. Fólk hefur hent eggjum og látið óánægju sína í ljós með ýmsum hætti. Hvers vegna ætli fólk geri þetta? Jú, vegna þess að í núverandi stöðu eru þetta einu vopnin sem almenningur hefur. Minnstu munaði að yfir þjóðina yrði lagður ókleifur skuldaklafi vegna Icesave samninganna sem kostað hefðu þjóðina og komandi kynslóðir augun úr. Sem betur fer reis þjóðin upp og forseti landsins stöðvaði af mestu ólög sem farið hafa í gegnum Alþingi Íslendinga. Þessi atburður og margir aðrir sem tengjast hruni fjármálakerfisins hafa vakið þjóðina og upplýst þörfina fyrir það að endurskoða rammann um það samfélag sem við búum í, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
Sögulegt tækifæri
Þegar allt fer í þrot þá skapast gríðarlegt tækifæri til endurmats og vaxtar. Það tækifæri liggur hjá íslensku þjóðinni núna. Erfiðasta fólkið sem maður mætir á lífsleiðinni og erfiðasta lífsreynslan er í raun það sem maður ætti að vera þakklátastur fyrir því það gerir mann að því sem maður er. Þessu hefur Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, haldið fram. Við eigum einstakt tækifæri til þess að endurmeta grunngerð samfélags okkar og vaxa upp til blómlegri framtíðar. Margar af bestu stjórnarskrám heims hafa verið samdar upp úr hruni og kreppu. Margir mestu leiðtogar heims hafa einnig stigið fram á válegum tímum. Þetta er stórt og mikið samvinnuverkefni og við þurfum öll að leggjast á árarnar og vinna það saman.
Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott
Samfélag rúmlega 318 þúsund manna sem byggja eitt gjöfulasta land heims á að geta verið gott samfélag og þar eiga allir að geta haft það gott! Það hefur því miður ekki verið raunin. Gæðum landsins hefur verið mjög misskipt, sumir eiga milljarða en aðrir standa í biðröðum eftir mat. Þessu getum við breytt og þessu verðum við að breyta. Almenningur verður að snúa bökum saman og berjast fyrir betra Íslandi. Vel heppnað stjórnlagaþing er fyrsta skrefið inn í nýja framtíð. Ég vil meðal annars sjá þjóðareign á auðlindum sem ákvæði í nýrri stjórnarskrá og greinar sem stuðla að því að valdið liggi raunverulega hjá fólkinu eins og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör.
Þjóðin á að kjósa um nýja stjórnarskrá áður en þingið tekur frumvarpið til meðferðar
Til þess að raunveruleg breyting náist fram verður lýðræðið að virka og valdið að liggja hjá þjóðinni sjálfri alla leið. Þegar drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið samin af stjórnlagaþingi þarf þjóðin að greiða atkvæði um hvern kafla hennar og drögin í heild sinni áður en Alþingi fær málið til umfjöllunar.
Þú átt leik - taktu þátt í þvi að byggja betra Ísland og mættu á kjörstað á laugardag!
(Gestapistill birtur á bloggsíðu Gísla Tryggvasonar á Eyjunni í dag)
Skannar komnir á talningarstað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Virkt lýðræði er hornsteinninn að góðu og réttlátu samfélagi - um þjóðaratkvæðagreiðslur
Íslenska þjóðin var 318.200 manns 1. október 2010. Í svo fámennu samfélagi á lýðræðið að geta verið öflugt og virkt. Ég vil að íslenska þjóðin og sérhver íslenskur borgari hafi raunverulegan möguleika á því að hafa bein áhrif á samfélagið og hagsmuni sína.
1. Marka þarf skýran ramma utan um þjóðaratkvæðagreiðslur til að tryggja sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar í grundvallarmálum sem varða hagsmuni þjóðarinnar og hvers borgara.
a. Ákveðið hlutfall kosningabærra manna geti kallað eftir þjóðaratkvæði
b. Ákveðið hlutfall Alþingismanna geti kallað eftir þjóðaratkvæði
c. Forseti geti beitt málskotsrétti sínum til þjóðaratkvæðis að gefnum ákveðnum skilyrðum t.d. að a. eða b. sé uppfyllt.
Til þess að þjóðaratkvæðagreiðslur verði ekki of tíðar með hættu á því að fólk missi áhuga á lýðræðislegri þátttöku og óhemju kostnað er hægt að safna saman ákveðnum fjölda mála (nema um neyðarmál sé að ræða) og greiða atkvæði um þau samhliða hefðbundnum kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. Einnig væri hægt að hafa atkvæðagreiðslur á hverju ári þannig að fólk vissi að á ákveðnum árstíma (t.d. vorin) væri kosið um þau mál sem lægju fyrir og samhliða væri þá hægt að kjósa til sveitarstjórna, til Alþingis, jafnvel hæstaréttardómara og annað sem þyrfti að greiða atkvæði um.
Einnig er áhugavert að skoða hvort hægt sé að nýta vef ríkisskattstjóra til þess að kjósa um minniháttar málefni rafrænt. Það væri einnig hægt að nota heimabanka í slíkt. Þeir sem ekki geta greitt atkvæði rafrænt gætu nýtt sér pappír.
Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna að gefnu ákveðnu þátttökuhlutfalli skulu ætíð vera bindandi.
Þriðjudagur, 23. nóvember 2010
Útvarpsviðtal við mig
Með því að smella hér getur þú farið inn á vef Rúv, fundið nafnið mitt og hlustað á útvarpsviðtalið sem tekið var við mig í gær og verður spilað á Rás 1 einhvern tímann í vikunni :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. nóvember 2010
Fagna framtaki Rúv
Ég fagna þessu framtaki hjá Rúv.
Rúv stóð vel að þessu. Það var notalegt að koma, vel tekið á móti manni og afar faglega staðið að framkvæmdinni að mínu mati.
Það er mjög mikilvægt að kjósendur fái öll möguleg tækifæri til þess að kynna sér frambjóðendur til stjórnlagaþings. Helst hefði maður viljað að enn væri mánuður til kosninga því nú er áhuginn að kvikna og fólk farið að kynna sig og kynna sér frambjóðendur að meira marki.
Við þurfum að hafa í huga að framkvæmd og undirbúningur þessara kosninga er ekki gallalaus. Í stað þess að festast í neikvæðni þá skulum við heldur horfa til þess sem jákvætt er og vel gert en punkta hjá okkur hvað það er sem við getum lært af þessu þar sem vonandi munum við sjá persónukjör í nánustu framtíð. Það er mikið fagnaðarefni að yfir 500 einstaklingar skuli bjóða sig fram til þess að ráðast í þetta sögulega verkefni og ljóst að af hlaðborði af fjölbreytilegum og frambærilegum frambjóðendum er að velja.
Einnig erum við mörg að feta okkur áfram í kosningabaráttu þar sem ekki er um neitt eða nánast ekkert fjármagn að ræða og finna leiðir til þess að koma okkur á framfæri án þess að kosta til fleiri milljónum eins og því miður hefur stundum einkennt prófkjör stjórnmálaflokkanna. Það er mikill munur á kosningabaráttu sem kostar 50 þúsund krónur og 25 milljónir. Ég undra mig á því hvernig geti staðið á því að fólk eyði talsvert meiru í kosningabaráttu til þess að ná inn á þing eða stjórnlagaþing en mögulega væri hægt að vinna sér inn með launum fyrir sama starf.
Ég myndi vilja sjá endurskoðun á lögum um styrki til stjórnmálaflokka m.a. varðandi gagnsæi og að það auglýsingaflóð sem fer af stað fyrir kosningar verði stöðvað en í stað þess verði vandlega úthugsað og undirbúið hvernig hið opinbera getur komið að kynningu á frambjóðendum þar sem allir sitja við sama borð. Þannig held ég að kosningabaráttan verði einnig byggð á málefnum en ekki ímynd sem stundum ansi lítið er á bakvið.
Ég mun setja inn tengil hér á viðtalið sem birtist við mig :) um leið og það er komið!
Hér getur þú kynnt þér framboð mitt
Hér getur þú kíkt á mig á Facebook
Hér getur þú staðfest mætingu á kjördag að kjósa mig :)
Eigðu gott kvöld
Kristbjörg Þórisdóttir frambjóðandi nr. 6582
Talað var við nærri 500 frambjóðendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 22. nóvember 2010
Ég vil vinna svona
Ég hef ákveðna sýn á það hvernig samfélagi ég vil búa í og um sumt sem eigi að vera í nýrri stjórnarskrá en gerð hennar er risastórt samvinnuverkefni þar sem mikilvægt er að sýn hvers og eins nái að koma fram og niðurstaðan verði góð stjórnarskrá fyrir alla þjóðina sem staðið getur tímans tönn.
Ég tel mikilvægt að takast á við verkefnið með opnum huga, jákvæðni og metnaði að leiðarljósi.
Aðrir hafa sagt um mig að ég sé rökvís, fylgin mér og hafi vilja og getu til að ná fram lausnum. Einnig hefur verið sagt um mig að ég hafi þá eiginlega sem hafi vantað svolítið á Íslandi sem eru þau að færa rök fyrir máli mínu og afstöðu til hlutanna en geta leyft öðrum að vera ósammála, hlusta á hvað þeir hafa að segja, rök þeirra og geta svo komist að niðurstöðu í framhaldi af því.
Ég mun skoða sérstaklega niðurstöður þjóðfundar og tel grundvallaratriði að hafa þá sýn sem þar kom fram að leiðarljósi þar sem niðurstaða þjóðfundar ætti að endurspegla skoðun hins almenna Íslendings.
Ég mun leggja áherslu á að kynna mér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslu þingmannanefndar, stjórnarskrár annarra ríkja og önnur viðeigandi gögn til þess að byggja vinnu mína á.
Ég tel mikilvægt að hlusta á rök annarra með og á móti í hverju máli og umræðan verði rökræn og góð.
Ég tel áhugavert að skoða leiðir sem opnað gætu möguleika almennings að þeirri vinnu sem fram fer á stjórnlagaþingi. Til dæmis einhvers konar skuggaþing, vefsíðu þar sem geta verið spjallrásir, hægt að senda inn ábendingar og opna fundi.
Ég hef mikla trú á því að þegar fjöldi hugsandi fólks komi saman gerist kraftaverk!
Ég heiti því að leggja mig alla fram í þeirri miklu vinnu sem framundan er á stjórnlagaþingi, gera eins vel og ég get og vinna í þágu hagsmuna heildarinnar, komandi kynslóða og landsins okkar.
Sunnudagur, 21. nóvember 2010
Samvinna til réttlætis fyrir heimilin og fyrirtækin
Nú verður fólk að vinna saman að því að ná fram réttlæti til handa heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.
Það er löngu tímabært að leiðrétt verði fyrir forsendubrestinum.
Það átti strax að grípa til þessara aðgerða á meðan bankarnir voru í ríkiseigu og lánin höfðu verið færð á milli gömlu og nýju bankanna með stórfelldum afslætti.
Það er magnað að sama rispaða platan og fór í gang vorið 2009 skuli enn vera í spilun um það að þessi leið sé of dýr og ófær. Þá var hlustað en ekkert gert og síðan þá hefur staða heimilanna og fyrirtækjanna versnað margfalt.
Sú stefna stjórnvalda að aðstoða alls ekki neinn nema þá sem eru í sárustu neyðinni hefur þversnúist í höndunum á þeim og leitt til þess að fæstir nema þeir sem glæfralegast fóru hafa fengið hjálp.
Á sama tíma eru bankarnir að skila methagnaði enda að rukka stökkbreytt lán sem þeir fengu á tombóluprís upp í topp.
Lífeyrissjóðirnir fengu 33 milljarða afslátt af íbúðabréfum hjá Seðlabankanum. Eignir sömu lífeyrissjóða hafa hækkað um 200 milljarða frá 2008 vegna verðbóta. Sjóðirnir hafa tapað 6-800 milljörðum vegna glæfralegra fjárfestinga en veigra sér nú við þeim 75 milljarða kostnaði sem þeir þyrftu að bera vegna leiðréttinga húsnæðislána.
Ég er ánægð með þessa góðu samvinnu Hreyfingarinnar og Framsóknar um þetta mikla réttlætismál og vona að þessi vinna skili árangri fyrir þjóðina.
Þingmenn óska eftir fundi með ráðherrum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. nóvember 2010
Bætt samfélag hefst hér og nú - aðgerðir takk!
Það er áhugavert í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings að hugleiða það að við erum ávallt að tala um breytingar, ræða um það hverju þarf að breyta og hvernig.
En samt virðist einhvern veginn ekki verða jafn mikið um framkvæmdir og efndir og vonir stóðu til.
Ekki virðist hafa verið hugað að stöðu blindra við undirbúning kosninganna ásamt ýmsu öðru.
Ekki var hugað að því að kalla eftir hagsmunaskráningu frambjóðenda til stjórnlagaþings þó það hefði verið í lófa lagið að senda þeim það form sem þingmenn styðjast við, fá frambjóðendur til að fylla það út, senda um hæl og birta það svo sem ítarefni á http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/nr/6582 Ég fyllti út svona hagsmunaskráningu og hef birt á heimasíðu framboðsins
Við tölum um samfélag fyrir alla án hindrana en samt er vefurinn sem snýst um stjórnlagaþing ekki nægilega aðgengilegur fyrir alla kjósendur en t.d. er starfrækt fyrirtæki sem heitir www.sja.is sem sérhæfir sig í því að gera vefi aðgengilega og hefur Tryggingamiðstöðin t.d. fengið vottun frá þeim www.tm.is Vefur Alþingis og aðrir opinberir vefir hafa ekki lagst í þessa vinnu og er það mér óskiljanlegt í ljósi þess að ekki er um flókið eða mjög dýrt mál að ræða en algjört réttlætismál!
Ég var á fundi í dag á vegum Kvenréttindafélags Íslands þar sem kvenframbjóðendur fengu tækifæri á að hitta hverja aðra og kynna sig fyrir almenningi en sá fundur átti upphaflega að vera í húsnæði sem ekki var aðgengilegur fyrir fólk t.d. í hjólastólum og það veldur því að Freyja Haraldsdóttir frambjóðandi hefði ekki getað mætt og ekki aðrar konur sem hefðu viljað sækja fundinn.
Ég bind vonir við það að nú hættum við að tala endalaust um hlutina og förum að framkvæma þá.
Við þurfum að fara að hugsa samfélag okkar út frá öllum þegnum þess og við þurfum að muna það að ef við viljum sjálf fara inn um aðaldyrnar eða geta lesið heimasíðu út í gegn þá er jafn sjálfsagt að annað fólk vilji það líka og því þarf hurðin að vera breið og með rampi þannig að allir komist þar um.
Betra samfélag hefst hér og nú og það gerist ekki af sjálfu sér!
Blindir ósáttir við eftirlit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)