Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Holl og falleg lesning

Fékk þetta sent frá kærri vinkonu og ákvað að deila þessu því þetta er holl og góð lesning :)


- Sá sem varðveitir -

Ég ólst upp á árunum 1940 - 1950 hjá raunsæum foreldrum.

Móður, Guð varðveiti hana, sem þvoði álpappírinn eftir hverja notkun og
notaði aftur. Hún var sönn endurvinnsludrottning áður en þeir höfðu
fundið upp nafnið endurvinnsla .-)


Föður, sem var glaðari yfir að hafa lagað skóna sína heldur en að kaupa
nýja...

Hjónabandið var gott, draumarnir raunhæfir. Bestu vinirnir bjuggu varla
húsalengd í burtu.

Þetta var á þeim tíma sem gert var við hlutina. Faldurinn á gardínunni,
útvarpið í eldhúsinu, útihurðin, hurðin á ofninum og hversdagsfötin.
Hluti sem við höldum upp á.

Þetta var líf sem stundum gerði mig brjálaðan.
Alltaf að gera við, borða, endurvinnsla. Ég vildi bara vera ánægður, eiga
nóg, kasta hlutum, vitandi að alltaf er til meira.

En svo dó mamma, á þessari heiðskíru sumarnótt í hlýju sjúkrastofunni, ég
var sorgmæddur, vitandi að þetta var endanlegt. Stundum hverfur það sem
okkur er kærast og kemur ekki aftur. Á meðan við höfum það hjá okkur er
best að elska það, hlúa að því, laga það þegar það bilar og lækna það
þegar það veikist. Það á við um hjónabandið, gamla bíla og börnin með
slæmar einkunnir, hundinn með bilaða mjöðm, nöldrandi foreldra og
tengdaforeldra.
Við varðveitum þetta, vegna þess að það er þess virði, við erum þess
virði.


Sumt geymum við eins og besta vininn sem er fluttur og bekkjarfélagann sem
við ólumst upp með. Það er bara þannig að sumt gefur lífinu gildi eins og
fólk sem er okkur mjög kært, við viljum hafa það nálægt okkur.


Ég fékk þetta frá einhverjum sem heldur að ég sé hirðusöm, því hef ég sent
þetta til þeirra sem ég held að hugsi eins.


Nú er komið að þér að senda þetta til þeirra sem hlúa að lífi þínu.

Góðir vinir eru eins og stjörnur, þú sérð þær ekki alltaf en þú veist af
þeim og
þær eru alltaf til staðar. Hlúðu að þeim.

-----------------------------------------------------------------


Hlutir sem vert er að hugleiða því lífið flýgur og að lokum verður ekki
spurt um:

Hvernig bíl þú keyrðir, heldur hversu margir fengu far með þér sem ekki
áttu bíl.

Hversu margra fermetra hús þitt var, heldur hversu marga þú bauðst
velkomna inn.

Fötin sem héngu í fataskápnum, heldur hversu marga þú klæddir.


Hvaða starfsheiti þú hafðir, heldur hvort þú hafir unnið vinnuna eftir
bestu getu.

Hversu marga vini þú áttir, heldur vinur hve margra þú varst.


Njótið allra daga :)

Takk fyrir mig :)

Jæja þá liggja úrslit fyrir.

Ég endaði í 57. sæti. Fyrstu viðbrögð voru vonbrigði vegna þess að ég eins og aðrir tók þátt til þess að ná kjöri inn á stjórnlagaþing. Ég óska nýkjörnum stjórnlagaþingmönnum til hamingju með kjörið. Innan þess hóps eru einstaklingar sem ég er mjög ánægð með að sjá þarna en einnig aðrir sem ég kaus ekki sjálf en svona er lýðræðið. 

Mig langar til þess að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem höfðu trú á mér og mínu framboði, studdu mig og lögðu mikið á sig til að hjálpa mér.  Það er ómetanlegt.

Ég er mjög ánægð með að hafa boðið mig fram og er reynslunni ríkari. Ég er búin að leggja vonbrigði og tapsærindi til hliðar og hef nú þegar stungið reynslunni af þessu framboði ofan í gott hólf í bakpoka lífsins. Þessi reynsla verður svo kannski tekin upp síðar, aldrei að vita :).

Það er gott að vita hvar maður raðaðist á listann en lista frambjóðenda má sjá hér. Ég hefði hinsvegar gjanan viljað vita meira eins og t.d. í hvaða sæti kjósendur settu mig og á hvað mörgum listum ég var. Það eru allt gagnlegar upplýsingar til þess að læra af. Ég auglýsti ekki neitt og veit af fólki sem vissi ekki að ég var í framboði.

Ég tel að í framtíðinni þurfi að tryggja góða kynningu á öllum frambjóðendum þannig að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun án þess að kjósa útfrá keyptri ímynd eða sjá frekar þá sem fyrir eru þekktir í heysátu frambjóðenda. Sem óþekktur einstaklingur er maður svolítið eins og nál í heystakki...

Ég tel að það eigi að draga verulega úr aðgangi frambjóðenda að auglýsingum en keyra þess í stað á framboðsfundum, þáttum í fjölmiðlum og sameiginlegu kynningarefni þar sem allir sitja við sama borð. Með því móti snýst kosningabaráttan líka um það sem öllu máli skiptir sem eru málefnin - hvernig við sjáum verkefnin og leiðir að markmiðum með mismunandi hætti. Það er mun hollara en innantómir fallega innpakkaðir kosningapakkar sem reynast oft hafa annað innihald en fólk hélt í upphafi.

Gagnsæi vil ég líka sjá í framtíðarkosningum þar sem skýr krafa er gerð á alla frambjóðendur um hagsmunaskráningu til samræmis við það sem notast er við á Alþingi okkar Íslendinga. Ég skora á nýkjörið stjórnlagaþing að gera kröfu um hagsmunaskráningu þingmanna sinna sem yrði birt á vefnum.

Við þurfum að hætta að tala um allt það fallega sem við viljum og fara að finna leiðir til þess að framkvæma það.

Ég vona að við séum í sameiningu lögð af stað inn í framtíðina og fagna því :).

Takk fyrir mig!


mbl.is Íris Lind var næst inn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk

Fólk er dýrmætasta persónulega auðlindin mín.

Það hef ég séð enn betur eftir að taka þátt í stjórnlagaþingskosningum. Á ákveðnum sprettum fannst manni maður vera einn í framboði og einn í heiminum og fylltist streitu sem því miður bitnaði á þeim sem stóðu manni næst. Í lok dagsins þá fann maður að allir voru með manni. Sú tilfinning er ótrúlega dýrmæt. 

Að finna stuðninginn, hvernig fólk stendur með manni alla leið, gefur sér tíma frá annasömum störfum til þess að ráðleggja manni, stendur úti með manni í frostinu um miðja nótt að tala við fólk um framtíð Íslands, kemur færandi hendi með kökur, kemur með blómakörfu, gjafir, leggur á sig mikla vinnu til þess að hjálpa manni, færir manni mat þegar maður sjálfur hefur ekki rænu á að hugsa fyrir slíku. Fólk sem gefur manni af sér og deilir með manni af tíma sínum sem er einnig dýrmætasta auðlind okkar allra. Sú auðlind er því miður takmörkuð og klárast hjá okkur öllum einn daginn.

Svona gæti ég talið lengi upp og lýst því hvernig fólk stóð við bakið á mér í þessu framboði. 

Þetta er það sem skiptir máli og sama hvernig fer þá er þetta eitt af því sem ég mun taka með mér og stinga í bakpokann minn áfram inn í lífið.

Varðandi kosningarnar almennt þá lít ég á þær sem sigur. Þetta snýst ekki bara um það hvað við fengum út úr þessu á nákvæmlega þessum tímapunkti. Þetta snýst um það að við framkvæmdum þetta og stigum með því fyrsta skrefið að nýrri og betri framtíð fyrir íslenska þjóð. Við getum svo tekið með okkur ómælda reynslu um það hvernig haga skuli slíkri kosningu þannig að öll þjóðin treysti sér með í þá vegferð í nánustu framtíð.

Með þessari færslu er ég þó fyrst og fremst að lýsa yfir þakklæti við þá ótalmörgu sem stóðu mér mér, höfðu trú á mér og lögðu mikið á sig fyrir mig. Það verður seint fullþakkað.

Takk.


mbl.is 36,77% kosningaþátttaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Íslendingar!

Fór gangandi að kjósa - tók enga stund :) hef góða tilfinningu enda góður dagur fyrir íslenska þjóð!

Minni ykkur kæru vinir á að hvert einasta atkvæði getur ráðið úrslitum og sá sem er í 1. sæti fær atkvæðið en hinir til vara. Röðunin skiptir máli. Ég bið um stuðning þinn, helst í efsta sætið.

Valið og valdið er ykkar ;)

Kristbjörg Þórisdóttir
frambjóðandi nr. 6582
www.kristbjorg.wordpress.com
Facebook: Kristbjörgu Þórisdóttur á Stjórnlagaþing 

mbl.is Kosningin fór rólega af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstoð við kjósendur

Nú munu margir leggjast yfir blöðin sín sem eru ekki búnir að því nú þegar og leita sér að frambjóðendum til þess að kjósa. Ég mæli með þessari upptalningu af hjálpartækjum sem geta aðstoðað þig í vinnunni.

Vefir sem gagnast geta kjósendum í þeirra vali:

Facebook Like yfirlit

Annað gagnlegt

Munið svo að þið hafið í raun 1 atkvæði sem sá fær sem þið setjið í efsta sæti en 24 atkvæði til vara sem atkvæðið ykkar flakkar svo yfir á nýtist það ekki þeim efsta og svo koll af kolli. Hér er myndband sem útskýrir líka aðeins kosningarnar.

 

Ef þú smellir hér ferðu yfir á vefinn kosning.is þar sem finna má skýringarmynd sem útskýrir hvernig kosningakerfið STV virkar.

Gangi ykkur vel :)

 


mbl.is 99,85% heimila fengu kynningarblaðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdið á ávallt að vera hjá þjóðinni!

Vísir, 26. nóv. 2010 11:59

Hver á næsta leik, þjóðin eða þingið?

Kristbjörg Þórisdóttir nr. 6582

frambjóðandi til stjórnlagaþings Kristbjörg Þórisdóttir nr. 6582 frambjóðandi til stjórnlagaþings

Kristbjörg Þórisdóttir skrifar:

Næstkomandi laugardag verður kosið til stjórnlagaþings. Þeir 25-31 þingmenn sem setjast á stjórnlagaþing munu undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá. Þann 6. nóvember síðastliðinn fór fram Þjóðfundur þar sem 950 manns af landinu öllu, frá 18 til 91 ára, nánast jafnt hlutfall karla og kvenna vann tillögur sem hafa þarf til hliðsjónar í þeirri vinnu.

Nú spyr ég hvað gerist að loknu stjórnlagaþingi? Hver á næsta leik, þjóðin eða þingið?

Í 27. gr. segir: „Þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga skal það sent Alþingi til meðferðar".

Allsherjarnefnd leggur til fjórar mismunandi leiðir í framhaldsnefndaráliti sínu sem kemur fram í þingskjali 1354.

Í fyrsta lagi að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöður stjórnlagaþings og er þá hugsanlegt að kjósendur fái tækifæri til að greiða atkvæði um einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár eða eftir atvikum einstaka kafla hennar... Í öðru lagi kemur til greina að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Alþingi hefur lagt fram drög að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu leggi Alþingi frumvarpið svo fram til samþykktar. Þannig yrði frumvarpið borið undir þjóðina á milli umræðna á Alþingi sem tæki síðan afstöðu til þess... Í þriðja lagi er unnt að efna til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga og að atkvæðagreiðslan fari þá fram samhliða alþingiskosningum sem þá verða haldnar...Í fjórða og síðasta lagi kemur til greina að í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga verði ákvæði sem feli í sér fyrirvara um að tilgreindar stjórnarskrárbreytingar öðlist ekki gildi nema þær séu samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jafnframt segir í álitinu: Nefndin telur mikilvægt að á stjórnlagaþingi verði fjallað um hvaða leið verði farin og tekin afstaða til þess hvaða leið skuli farin og hefur því lagt til breytingu sem hefur verið samþykkt, þ.e. að við upptalningu viðfangsefna stjórnlagaþings í 3. gr., þ.e. 6. tölul., þar sem mælt er fyrir um lýðræðislega þátttöku almennings, bætist: m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

(Tekið af http://www.althingi.is/altext/138/s/1354.html 25.11.2010).

Af þessu er ljóst að það er stjórnlagaþingsins sjálfs að ákvarða um það hver taki við frumvarpinu næst. Mín skoðun er sú að eðlilegast sé að drög að nýrri stjórnarskrá verði send í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hægt verði að greiða atkvæði um einstaka kafla hennar. Sú niðurstaða verði ráðgefandi? Að því loknu verði frumvarpinu svo vísað til Alþingis til afgreiðslu.

Mín skoðun er því sú að þjóðin eigi næsta leik.


mbl.is Lokaorðið hjá kjósendum segir forseti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaspretturinn

Jæja þá er lokaspretturinn hafinn. Allt sem maður gerir í lífinu tekur einhvern enda. Í upphafi virðist tíminn óendanlegur en svo skyndilega eru síðustu sandkornin að renna niður stundaglasið. Augnablikin eru á sífelldri hreyfingu og það er okkar að grípa hvert eitt og einasta og nýta þau eins og við viljum helst. Það er okkar að lifa í núinu og vanda vel hvernig við verjum hverju augnabliki, hverjum degi vegna þess að við vitum í raun ekki hvernig staðan er á stóra stundaglasinu okkar, hvað við eigum mikinn tíma eftir. Þess vegna er ágætt að minna sig á það að allt tekur einhvern tímann enda og markmiðið sem virtist í svo mikilli órafjarlægð í upphafi eins og kjördagur er allt í einu handan við hornið.

Að fara í framboð til stjórnlagaþings er ein af betri ákvörðunum mínum í lífinu. Vissulega hefur maður oft ekki vitað hvað maður ætti að gera í þessari kosningabaráttu eða hvað maður hafi hreinlega verið búinn að koma sér út í. Keyrt um göturnar og velt því fyrir sér hvort maður ætti að grípa þennan eða þennan og minna á sig? Velt því fyrir sér hvernig maður eigi að snerta þessi 220 þúsund manns sem eru á kjörskrá. Ég held að maður verði bara að treysta á það að hafa náð inn til þeirra sem deila svipuðum skoðunum og maður hafi einnig lifað þannig lífi að fólk þekki mann mestmegnis af góðu.

Fyrst og fremst vona ég að fólk taki þátt. Tækifærið sem skapast hefur núna er sögulegt og það er í raun okkar sem höfum viljað sjá breytingar í þessu samfélagi að nýta þetta tækifæri. Við megum ekki láta það renna eins og sand úr höndunum á okkur. Við þurfum að standa saman, taka umræðuna og komast að niðurstöðu um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Hvernig getum við skapað samfélag sem okkur 318.200 líður vel í?

Ég hef lært alveg gríðarlega mikið á þessu framboði. Lært það hvernig er að vera í persónukjöri, hvernig á að setja upp síðu á Facebook, setja upp þessa heimasíðu, lært heilmikið um stjórnarskrána og velt fyrir mér grunngerð samfélagsins og svo margt margt fleira. Ég hef í þessu lært aðeins betur á sjálfa mig. Þess vegna geng ég óhrædd inn í lokasprettinn ég mun hvernig sem atkvæðin koma út úr talningavélunum aldrei tapa á þessu. Þó ég endi í 522 sæti þá hef ég unnið sigur fyrir mitt leyti :)

Við sem þjóð höfum líka lært heilmikið og verðum reynslunni ríkari næst þegar við förum í persónukjör. Fólk hefur tekið umræðuna á kaffistofum út um allt og þannig verður hin raunverulega breyting til. Hún gerist ekki bara með því að breyta texta á blaði. Hún verður með fólkinu sjálfu og breytingu á hugarfari þess og viðhorfum. Margir sem ekki veltu fyrir sér öðru en sínu nærumhverfi hafa núna kynnt sér vel málefni samfélagsins og láta sig þau varða.

Ég vil enda á því að þakka eins vel og ég get fært í orð öllum þeim sem hafa lagt á sig ómetanlega vinnu við það að tala mínu máli og kynna málstað minn um víðan völl. Eitt það dýrmætasta sem maður á í lífinu er fólkið sem umlykur mann og í svona baráttu finnur maður vel hversu dýrmætt það er. Það hefur einnig verið mér dýrmætt að finna stuðning frá fólki sem ekki þekkir mig persónulega og við það hef ég öðlast meiri trú á fólk almennt. Fólk er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu við það að kynna sér málefni ókunnugs frambjóðanda og tala svo máli viðkomandi líki því það sem fram kemur.

Ég vil því enda á að segja TAKK.

Nýtum tækifærið á morgun og sköpum saman betra Ísland Smile

Kristbjörg Þórisdóttir
frambjóðandi nr. 6582
www.kristbjorg.wordpress.com
Facebook: Kristbjörgu Þórisdóttur á Stjórnlagaþing 


mbl.is Ætlar fólk að kjósa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki og sveitarfélög

Ég vil endurskoða tekjuskiptingu og valdaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að nærsamfélaginu séu gefin aukin völd til þess að ráða sínum málum sjálf.

Ég tel áhugavert að skoða þá hugmynd að efla sveitarstjórnarstigið á kostnað ríkisins.

Fækka mætti þingmönnum um helming.

Fjölga þyrfti sveitarstjórnarfulltrúum að sama skapi.

Tekjuskiptingin sem núna er 70/30 (ríki/sveitarfélög) gæti orðið 30/70.

Þessi leið er farin víða í nágrannalöndum okkar.

Kristbjörg Þórisdóttir
frambjóðandi nr. 6582
www.kristbjorg.wordpress.com
Facebook: Kristbjörgu Þórisdóttur á Stjórnlagaþing 


Taktu þátt í sögulegu persónukjöri :)

Þessar kosningar eru sögulegar, hvernig sem á það er litið. Í sameiningu getum við tekið fyrsta skrefið inn í betri framtíð með velheppnuðu og árangursríku stjórnlagaþingi. Tækifærið er núna! Svo munum við læra heilmikið af þessu fyrir persónukjör framtíðarinnar :)

Ég vil að fólk geti valið frambjóðendur óháð flokkum og fyrirfram röðuðum listum.

Ég vil sjá persónukjör þannig að kjósendur geti valið frambjóðendur þvert á lista stjórnmálaafla en einnig geti þeir kosið fólk sem er í framboði sem einstaklingar.

Mikilvægt er þó að í slíku vali sé tryggð aðkoma mismunandi hópa þannig að kjörnir fulltrúar endurspegli heildina. Það má gera með kvótum t.d. eins og þeirri leið sem nýtt verður varðandi val til stjórnlagaþings að jafna út kynjahlutföll eftirá. Einnig tel ég að þurfi að tryggja að hvert landsvæði eigi lágmarksfjölda fulltrúa.

Ég vil að landið verði eitt kjördæmi og vægi atkvæða jafnt.

Ég tel líklegt að fólk muni áfram skipa sér í flokka eftir mismunandi hugsjónum og sýn á því hvernig eigi að leysa hin pólitísku verkefni og þeir sem deili svipaðri sýn raðist á sama stað í litrófinu. Það þarf einnig að vera rými fyrir þá sem vilja starfa að hugsjónum sínum án þess að tilheyra stjórnmálaöflum.

www.kristbjorg.wordpress.com

Facebook


mbl.is Beðið eftir því að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunaskráning stjórnlagaþingmanna - grein birt í Morgunblaðinu í dag

(þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag)

Hún fjallar um annað atriði sem huga þyrfti að til þess að stjórnlagaþing og þingmenn þess komi til með að njóta þess trausts sem nauðsynlegt er. Við þurfum aðgerðir til þess að ná fram því gagnsæi sem flestir kalla eftir að sama skapi og ákveðnar aðgerðir þurfa að tryggja sjálfsagðan rétt allra til þess að njóta jafnræðis við kosninguna sjálfa.

 

Kristbjörg Þórisdóttir, www.kristbjorg.wordpress.com


Í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings skrifaði ég opið bréf til Dómsmálaráðuneytis þar sem ég kallaði eftir því að frambjóðendum til stjórnlagaþings yrði gert skylt að upplýsa um hagsmunatengsl sín með því að fylla út hagsmunaskráningu. Ég taldi mjög mikilvægt að þetta mál kæmist í umræðuna og reyndi að fá fjölmiðla til liðs við mig án mikils árangurs.

 

Hagsmunaskráning þingmanna

Það er ekki flókið mál að notast við þá hagsmunaskráningu sem flestir Alþingismenn nota í dag. Þeir fylla út ákveðinn fyrirfram mótaðan 12 atriða  lista. Hægt hefði verið að senda listann með tölvupósti á frambjóðendur, láta þá fylla hann út og senda tilbaka og svo hefði hagsmunaskráning verið birt sem ítarefni við hvern frambjóðanda á www.kosning.is kjósendum til glöggvunar.

 

Raunverulegt gagnsæi krefst aðgerða

 Ég tel að til þess að ná fram raunverulegum breytingum á okkar samfélagi þá þurfum við að ráðast í aðgerðir í stað þess að tala eingöngu um hlutina. Gagnsæi er orð sem mikið hefur verið í umræðunni en það er lýsandi fyrir það hversu skammt við erum á veg komin með það að framkvæma það sem við hugsum að ekki hafi verið kallað eftir hagsmunaskráningu til okkar frambjóðenda til stjórnlagaþings. Þar hefði strax átt að taka fyrsta skrefið inn í nýja framtíð betra samfélags. Úr þessu verður ekki bætt héðan af. Með stjórnlagaþingi erum við að feta braut sem við höfum aldrei farið áður og því er eðlilegt að framkvæmdin sé ekki fullkomin. Við verðum hins vegar reynslunni ríkari og betur í stakk búin að takast á við persónukjör í náinni framtíð.

Stjórnlagaþingmenn skrái hagsmuni sína

Ég vil hér með gera það að tillögu minni að frambjóðendur og þjóðin sjálf geri þá kröfu að þeir sem ná kjöri á stjórnlagaþing skrái hagsmuni sína sem verði svo birt á upplýsingasíðu um stjórnlagaþingmenn. Þannig má skapa það nauðsynlega traust sem það fólk sem nær kjöri á stjórnlagaþing þarf að njóta.

 

 

Betra Ísland hefst hér og nú!

Höfundur er kandídatsnemi í sálfræði og frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 6582

 


mbl.is Frumvarp verði afgreitt hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband