Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fundur um yfirfærslu málefna fatlaðra frá Ríki til sveitarfélaga fim 8.4 kl. 17.15 í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33

8. apríl 2010
Opinn fundur vegna yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga

Fimmtudaginn 8. apríl n.k. kl. 17:15-18:30 verður haldinn opinn fundur með hagsmunasamtökunum Þroskahjálp vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu málefna fatlaðra.

Á fundinum munu Gerður A. Árnadóttir formaður samtakanna og Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri kynna nýsamþykkta aðgerðaáætlun Þroskahjálpar varðandi hvernig þau telji best staðið að verkefninu. Nálgast má aðgerðaáætlunina á heimasíðu samtakanna og hvetjum við fundarmenn til þess að kynna sér hana fyrir fundinn.

http://www.throskahjalp.is/Frettiroggreinar/Lesagrein/164

Að kynningu lokinni gefst tækifæri til fyrirspurna og umræðna.

Allir frambjóðendur til sveitarstjórna, fulltrúar í velferðarráðum á vegum flokksins og aðrir flokksmenn eru eindregið hvattir til þess að mæta á fundinn til þess að kynna sér þetta stóra og mikilvæga verkefni. Þeir sem eiga þess ekki kost að sitja fundinn geta nýtt sér fjarfundarbúnað.

Heitt á könnunni!

Áhugafólk um málefni fatlaðs fólks,

Kristbjörg Þórisdóttir


Kannski? og Aldrei

Kannski?

Kannski verðum við að hitta ranga fólkið áður en við hittum rétta fólkið, svo að við kunnum að vera þakklát þegar við hittum loksins þann sem hentar okkur.

Kannski opnast dyr hamingjunnar á einum stað um leið og þær lokast á öðrum, en oft störum við svo lengi á lokuðu dyrnar að við sjáum ekki hinar sem hafa opnast.

Kannski er besti vinurinn sá sem þú getur rólað þér með á veröndinni án þess að segja orð og síðan gengið í burtu og liðið eins og þú hafir átt eitt besta samtal ævi þinnar.

Kannski er satt að við vitum ekki hvað við höfum átt þangað til að við missum það, en það er líka satt að við vitum oft ekki hvers við höfum saknað fyrr en við öðlumst það. Það eitt að gefa einhverjum alla okkar ást tryggir ekki að viðkomandi elski okkur á móti. Ekki búast við ást í skiptum fyrir ást; bíddu þangað til ástin vex í hjörtum annarra og ef það gerist ekki, skaltu þakka fyrir að ástin hafi vaxið og dafnað í þínu hjarta.

Kannski tekur það einungis mínútu að brjóta einhvern niður, klukkutíma að láta sér líka við einhvern og einn dag að verða ástfanginn af einhverjum, en það getur tekið lífstíð að gleyma einhverjum.

Kannski ættir þú að reyna að ná í einhvern sem fær þig til að brosa, vegna þess að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Ekki fara eftir útliti, það getur blekkt. Ekki fara eftir auðævum, þau geta horfið. Finndu einhvern sem fær hjarta þitt til að brosa.

Þegar þú fæddist varstu grátandi og allir í kringum þig voru brosandi.

Lifðu þannig að þegar þú deyrð verðir þú brosandi og allir í kringum þig grátandi.

(Höfundur óþekktur)

 

Aldrei

Aldrei segja að þú ætlir að vera, ef þig langar að fara.
Aldrei halda í höndina mína, ef þú ætlar að sleppa.
Aldrei segjast vera hér, ef þú ert það í alvörunni ekki.
Aldrei horfa í augun mín, ef það eina sem þú gerir er að ljúga.
Aldrei segja að ég sé eitthvað, ef ég er það ekki.
Aldrei segja „ég elska þig“, ef það eru bara orð.
Aldrei tala um tilfinningar, ef þær eru ekki til staðar.
Aldrei gera mig glaða, ef þú ætlar að særa mig,
ekki vera kyrr, ef þú ætlar að fara...

(Höfundur óþekktur)


Í tilefni dagsins

Í tilefni dagsins ætla ég að endurbirta hér grein sem birt var í Morgunblaðinu í tilefni þeirra atburða sem þá áttu sér stað í Tíbet vorið 2008. Það tók nokkuð langan tíma að fá greinina birta og þurfti að minna reglulega á hana áður en hún náði í gegn.

 

Opnum augun fyrir Tíbet

Ég man enn tilfinninguna, sex árum síðar, þegar við komum loksins að hliði Tíbet Tanggula Pass í 5136 metra hæð yfir sjávarmáli. Á móti okkur tóku flöktandi litríkir bænafánar í þunnu fjallaloftinu. Frá því ég heyrði sorgarsögu Tíbeta hefur það verið draumur minn að heimsækja Tíbet og kynnast þjóðinni, búddatrúnni og menningu hennar. Þessi afskekkta þjóð býr umlukin hæstu fjalla heims, Himalaya fjöllunum og liggur Everest hæsta fjall heims á mili Tíbet og Nepal. Þennan dag rættist draumur minn.
Eftir hrakningar á hásléttunni komst ferðahópurinn loksins til Lhasa. Lhasa er þak heimsins í bókstaflegri merkingu og stendur í 3650 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún hefur verið nefnd staður guðanna enda draumkenndur og dularfullur staður. Háslétta Tíbet er ekki ýkja ólík Íslandi og stundum fannst mér ég vera komin heim.
Í mér bærðust tvíbentar tilfinningar. Gleðitilfinning yfir að vera komin til lands drauma minna en jafnframt sorgartilfinning yfir því að upplifa og sjá með eigin augum hvernig málum er ástatt. Höfuðborgin skiptist í tvo ólíka hluta, tíbetska hlutann og kínverska hlutann. Í Tíbet og Lhasa er mikið af aðfluttum Kínverjum og stefnir í að Tíbetar verði minnihlutahópur í sínu eigin landi ef þeir eru ekki þegar orðnir það. Kínverskar fjölskyldur mega eiga tvö börn í Tíbet en einungis eitt í Kína og er þannig markvisst verið að fjölga Kínverjum í Tíbet. Sagan sýnir að frá innrás alþýðuhersins árið 1950 þegar Tíbet var innlimað sem hérað í Kína hefur markvisst verið reynt að þróa menningu og lifnaðarhætti Tíbeta í átt að því sem tíðkast í Kína. Tíbetar hafa mátt sæta ofsóknum fyrir trú sína og trú á leiðtoga sinn, Dalai Lama, sem hraktist í útlegð til Indlands árið 1959. Í gegnum tíðina hafa Tíbetar nokkrum sinnum reynt að berjast fyrir sjálfstæði sínu með uppreisnum en það er andstætt lífsskoðunum búddista að beita vopnum og því hefur mótstaða þeirra verið árangurslaus og snöggt og grimmilega verið brotin á bak aftur af Kínverjum. Það er kaldhæðni fólgin í því að á móti helgasta stað Tíbeta Potala, hallar Dalai Lama, þá hafa kínversk stjórnvöld reist minnisvarða um „frelsun Tíbet". Þetta eru fullkomin öfugmæli. Þær milljón Tíbeta sem fallið hafa í blóðugum bardögum síðustu fimmtíu ár, öll klaustrin sem lögð hafa verið í rúst, heilagar bækur sem hafa verið brenndar og djúpt sorgarmark sem merkja má í andliti hvers Tíbeta ber vott um allt annað. Það ber vott um kúgun kínverskra stjórnvalda og ráni þeirra á sjálfstæði Tíbeta. Þeir sem ekki hafa farið í útlegð til annarra landa halda áfram að snúa bænahjólunum sínum, iðka trú sína og vona. Búddatrúin boðar endurholdgun þannig að samofin henni er djúp virðing fyrir öllu formi lífs og biðja munkarnir fyrir skordýrunum sem þeir komast ekki hjá að kremja á för sinni. Þannig er með ólíkindum að einhver skuli trúa áróðri kínverskra stjórnvalda um að munkar skuli vera hryðjuverkamenn í bleikum klæðum sem eru líklegir til sjálfsmorðsárása. Það er þversögn við allt það sem líf Tíbeta gengur út á.
Ég hef gengið um höll Dalai Lama. Sú upplifun verður fest í minni mínu að eilífu. Eða eins og ég lýsti í ferðasögu minni: „Stanslaus umferð af pílagrímum að kyrja búddabænir sínar í öllum sínum fallegu klæðum, ótrúlega fátækt fólk sem komið hafði langan veg með örfá jiao til að gefa búdda, lyktin af jakuxakertunum alls staðar, ljóminn af þeim, búddalíkneski úr skíra gulli og andinn í loftinu". Í garði þeim sem stendur hjá sumarhöll Dalai Lama fann ég fyrir himnaríki á jörð.
Tíbetar eru einstök þjóð sem búið hefur einangruð innan stórfenglegrar náttúru. Þeir eru þjóð sem eitt sinn var frjáls og iðkaði trú sína og átti friðsamt líf án afskipta umheimsins. Þeir eiga auðlindir sem aðrir ásælast. Þeir eru fámenn þjóð. Á margan hátt eru þeir ekki ólíkir okkur Íslendingum. Við erum einangruð, fámenn þjóð sem býr á einu fegursta landi heims og búum yfir náttúruauðlindum. Við vorum eitt sinn hluti af stærra veldi, Danaveldi. Nú erum við sjálfstæð þjóð.
Það er því þyngra en tárum taki að íslenskir ráðamenn skuli líta undan þegar málefni Tíbet ber á góma. Það er betra að horfa í hina áttina af ótta við það að styggja stórveldið Kína og missa af viðskiptasamböndum og stuðningi við framboð í Öryggisráðið. Er þetta gengið á mannréttindum í dag? Það hefur þá fallið álíka og gengi krónunnar. Ætlum við að selja sál okkar og sannfæringu á þessu verði?
Hvernig liði okkur ef Danir myndu ræna okkur sjálfstæðinu með blóðugum átökum og innlima okkur sem hluta Danaveldis? Ef þeir myndu flytja til Íslands í stórum hópum og stuðla að fjölgun sinni með brögðum og markvisst reyna að breyta menningararfi okkar, trú og tungumáli? Myndum við þá vilja að þjóðir heimsins litu undan og beygðu sig undir stórveldið?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands: Mynduð þið þá styðja „Eitt Danaveldi" stefnuna án þess að blikna? Á hvaða forsendum styðjum VIÐ Íslendingar „Eitt Kína"? Við skulum ekki gera sömu mistökin aftur.
Nú er tími Tíbeta kominn. Frjálst Tíbet.

Birt 14. maí 2008 í Morgunblaðinu http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1214157


mbl.is 51 ár frá flótta Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningur við Tíbeta

LhasaKidda & Monks TíbetiKínverskur vörður á þaki heimsinsÁ þaki heimsins

10. mars er 51 ár liðið síðan Dalai Lama flúði Tíbet - 2 ár eru liðin
frá blóðugum átökum í Lhasa sem brutust út vegna mótmæla munka og
almennings gegn því alræði sem þjóðin býr við.

Vinir Tíbets taka þátt í alþjóðaaðgerð til að sýna tíbesku þjóðinni
stuðning í baráttu þeirra fyrir mannréttindum og trúfrelsi. Safnast
verður saman fyrir utan kínverska sendiráðið að Víðimel 29,
miðvikudaginn 10. mars kl: 17:30. Tsewang Namgyal flytur erindi um
ástandið í Tíbet. Birgitta Jónsdóttir fer yfir í stuttu máli hvað við
getum gert til að treysta böndin á milli þjóðanna.

Í Tíbet getur það varðað margra ára fangelsi að eiga fána Tíbets. Í
Tíbet búa nú fleiri Kínverjar en Tíbetar. Í Tíbet er tungumálið að
glatast. Í Tíbet hafa verið herlög í meira en tvö ár og harkan
gagnvart íbúum landsins virðist engan enda taka. Fyrir tveimur árum
síðan lýsti Dalai Lama ástandinu í Tíbet á þann veg að þar væri verið
að fremja menningarlegt þjóðarmorð.

Fjölmennum og sýnum tíbesku þjóðinni samstöðu í verki.

(tölvupóstur frá Birgittu Jónsdóttur sendur í dag).

Gleymum ekki Tíbet - gleymum aldrei Tíbet.

Við eigum í raun ótalmargt sameiginlegt með þessari einangruðu friðsömu þjóð sem berst nú við ægivald Kínverja við það eitt að fá að halda tilverurétti sínum hér á jörð, menningararfi sínum, tungumáli og frelsinu. Alþjóðasamfélagið hefur nógu lengi horft í hina áttina, aðhafst ekkert og fylgst með hvernig Tíbetar eru hægt og sígandi þurrkaðir út. Það er okkar skylda að hjálpa Tíbet og lúta ekki undir ofríki Kínverja.


Gildismat

"Gildismatið á Íslandi er ónýtt" skrifaði Sölvi Tryggvason á Pressuna um daginn http://www.pressan.is/pressupennar/LesaSolvaTryggvason/staersta-hrunid-a-islandi.

Mikið er ég sammála honum. Gildismat er eitthvað sem við þurfum að ræða og skoða sem þjóð. Hvað er það í lífinu sem skiptir raunverulega máli? Hvað er það sem færir okkur hamingju? Hvað er það sem verður minnisstætt þegar við horfum tilbaka? Er það afrekið að hafa náð að hámarka verðbréfin sín og blása upp verðið á þeim með alls konar klækjum og brögðum þannig að í þykjustunni er maður alveg ógeðslega ríkur? Er það Range Rover jeppinn? Er það einbýlishúsið með heita pottinum og heimabíókerfinu? Er það íbúðin á besta stað í stórborgum heimsins? Er það sumarhúsið hér og þar um heiminn eða íslenski dalurinn sem maður keypti upp (sem blés by the way upp jarðarverð og gerði ungu fólki nær ókleift að stunda landbúnað)? Er það lýtaaðgerðin og allir flottu kjólarnir og glingrið sem nefnt var sérstaklega í Séð og heyrt? Er það álit annarra ráðamanna heimsins á íslenska efnahagsundrinu sem slær öllu öðru við? Að vera þjóð meðal þjóða sem birtist til dæmis í því að vera með ógrynni af sendiráðum út um allan gervallan heim? Allt það flottasta?

Þetta er eiginlega tvíþætt: Annars vegar gildismat hvers og eins sem er í raun micro gildismatið og svo gildismat okkar sem þjóðar sem er macro gildismatið.

Í hinni smáu micro mynd þá tel ég það sem skipta máli vera góð heilsa og gott fólk í kringum mann. Að maður hafi eins góða heilsu og möguleiki er á andlega og líkamlega og eigi góða að til þess að njóta lífsins með og til að hjálpa manni í gegnum erfiðari daga. Það eru litlu hlutirnir sem skipta öllu máli er nokkuð sem ég var minnt á nýlega. Það eru svo mikil orð að sönnu. Að njóta þess að hugsa um börnin sín, fara í gönguferð og taka eftir einhverju nýju í umhverfinu, gleðjast með góðum vini, líða vel. Það er gott að geta notið líðandi stundar fram í fingurgóma. Eiga fæði, klæði og öryggi er vissulega grunnur að þessu. En fæðið þarf ekki að vera fimm rétta, klæðin þurfa ekki að vera keypt í New York eftir frægan fatahönnuð og öryggið er jafnmikið í huggulegri lítilli íbúð og stórri höll. Það að geta gefið og þegið og notið hvers dags er það sem skiptir máli. Ef maður á allt efnislegt sem hugurinn girnist þá vill maður bara eitthvað annað og þar sem maður getur ekki keypt hamingjuna verður hugurinn enn snauðari ef maður reynir það. Að reyna að kaupa sér álit annarra þeas. að falla í þann pytt að maður sé metinn að verðleikum eftir efnislegum gæðum er ekki fallið til farsældar og slík samkeppni sem hefur verið vinsæl hér er einungis til þess fallin að skilja eftir fólk sem veit ekkert hvað það vill fá út úr lífinu og tapar tengslum við hið raunverulega líf og situr uppi með brenglað gildismat.

Í hinni stóru macro mynd þá skiptir það máli fyrir okkur sem fámenna þjóð á afskekktri eyju að búa við öryggi og að allir hafi það eins gott og hægt er. Þessi grunnatriði hafa gleymst í græðgiskapphlaupi síðustu ára. Á undanförnum árum þegar Íslendingar héldu að þeir væru alveg ógeðslega ríkir af því við ættum svo klára viðskiptamenn sem dúndruðu íslenska undrinu yfir umheiminn og leiddu til flæðis af fjármagni inn í ríkissjóð (þeas. sá straumur sem flæddi ekki í skattaparadísir og undanskot) þá brenglaðist gildismatið allverulega hér á landi. Það skipti einhvern veginn engu máli hvað það hét eða hvaða afleiðingar það hafði ef það þýddi að einhver græddi á því eins og dæmið um yfirverð jarða hér á undan. Menn sem höfðu skóflað til sín fjármagni (stolnu og ímynduðu) settu margt á annan endann og komumst upp með það vegna þess að einhver annar græddi á því. Hugsað var til skammtímagróða en ekki langtíma farsældar þjóðarinnar. Við sem ein stór fjölskylda með allar okkar ómetanlegu auðlindir og sérstöðu eigum að gera vel við alla íbúa landsins. Við eigum að geta stutt við bakið á þeim sem hafa farið halloka í lífinu og það á að vera til nóg handa öllum. Gildismatið snýst um það að við séum til staðar fyrir hvert annað og öllum líði eins vel og kostur er á. Við berum líka ábyrgð á því að gera okkur grein fyrir sönnu verðmæti auðlinda okkar og kasta þeim ekki fyrir skammtímagróða nokkurra vel valinna. Við eigum að varðveita þær, lifa í sátt við þær og taka ekki meira en við getum skilað til komandi kynslóða. Hins vegar eigum við að njóta þess að deila okkar sérstöku náttúru með fjölmennum hópi ferðamanna og byggja þá grein upp af krafti.

Ég vona að við sem þjóð berum gæfu til þess að vera meðvituð um raunverulegt gildismat og tökum ákvarðanir okkar út frá því. Lærum af reynslunni og séum tilbúin að breyta rétt. Það er mikið í húfi.


Einstakt tækifæri!

Í dag gefst þér Íslendingur góður einstakt tækifæri til þess að hafa áhrif á framtíð lands þíns og þjóðar.

Í dag gefst þér tækifæri til þess að hafna afar ósanngjörnum samningi sem hefði ótvíræð áhrif á þig og komandi kynslóðir. Án þess að samningi þessum sé hafnað með meirihluta greiddra atkvæða er hann enn í gildi og ekkert nýtt liggur samþykkt á borðinu. Með því að gera lítið úr mikivægi þess að hafna þessum samningi eru skilaboðin til viðsemjenda okkar að hann hafi nú ekki verið svo slæmur og við séum þokkalega sátt við hann. Náum við ekki samstöðu verða skilaboðin ekki skýr um afstöðu til gamla samningsins.

Umfram þetta þá gefst þér tækifæri í fyrsta skipti til þess að hafa bein áhrif í gegnum beint lýðræði á mikilvæga ákvörðun í þessu landi. Það er fyrsta skrefið að betra stjórnskipulagi sem virðir rétt þegna þessa litla lands til þess að hafa bein áhrif á stórmál. Mál sem eru þannig vaxin að ekki er nægilegt að afgreiða þau í gegnum okkar kjörnu fulltrúa.

Ef deilumál undangenginna ára hefðu verið send í þjóðaratkvæði þá væri líklegra að þau hefðu fengið farsælli lausn þar sem meirihluta landsmanna hefði tekið ákvörðunina en ekki þröngur hópur.

Ég hvet alla til þess að nýta lýðræðislegan rétt sinn til þess að fara á kjörstað og marka þannig sitt far á framtíðarstjórnskipulag þessa lands og hafa bein áhrif á þetta erfiða mál sama hvaða afstöðu þú hefur. Jóhanna og Svavar og fleiri hefðu til dæmis getað mætt og skilað auðu þar sem þau hafa þegar samþykkt þennan óskapnaðarsamning. En þau hefðu líka getað skipt um skoðun...

Ekki má gleyma því að ef stjórnin hefði fengið að ráða þá hefði upphafleg niðurstaða Svavars og félaga farið í gegn án umræðu á þinginu og þá værum við langt frá því að ná þó því samkomulagi sem stefnir í að náist! Látum því ekki blekkjast af spádómum um að þetta sé það besta sem náist... því slíkt ber ekki vott um kjark þann sem forvígismenn okkar þurfa að sýna í því að gæta hagsmuna sinnar eigin þjóðar.


Kjósa

Í dag er merkisdagur. Það að nú fari fram fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldistímans er merkilegt útaf fyrir sig. Því til viðbótar hefur hún ákaflega mikið og margvíslegt gildi. Áhrifin á lýðræðisþróun gætu orðið mikil. Ef atkvæðagreiðslan heppnast vel gæti hún markað upphafið að auknu beinu lýðræði og þeim lýðræðisumbótum sem svo margir hafa vonast eftir.

Að verja eigin hagsmuni og annarra
Með þjóðaratkvæðagreiðslunni gefst almenningi tækifæri til að verja hagsmuni sína í krafti lýðræðis og jafnvel verða fyrirmynd annarra þjóða í þeim efnum. Þegar er ljóst að Icesave-málinu getur lokið með mun hagstæðari hætti en felst í lögunum sem nú verður kosið um. Gömlu lögin halda hins vegar gildi sínu nema þjóðin felli þau í atkvæðagreiðslunni. Þeim mun afdráttarlausari sem niðurstaðan og samtakamátturinn verða, þeim mun betri verður samningsstaða okkar. Málið varðar gríðarlega hagsmuni fyrir hvert einasta heimili í landinu. Það er mikilvægt að sem flestir leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að eiga þátt í ávinningnum. Þeir sem síðar munu gagnrýna kjör sín eða annarra geta auk þess betur gert það hafi þeir lagt sitt af mörkum til að bæta þau kjör þegar þeir höfðu tækifæri til.

Að kynna málstaðinn
Með atkvæðagreiðslunni gefst einstakt tækifæri til að kynna málstað Íslands í útlöndum. Það er ómetanlegt að slíkur möguleiki skuli gefast aftur eftir að fyrri tækifærum var klúðrað. Það er því skelfilegt að heyra ráðherra ríkisstjórnarinnar gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og málstað Íslands í viðtölum við erlenda fjölmiðla.

Að skapa samstöðu
Loks liggur mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki hvað síst í því að hún skapar tækifæri til að ná samstöðu meðal þjóðarinnar. Synjun forsetans gaf stjórnmálaflokkum á Alþingi tækifæri til að mynda samstöðu um málið.
Stjórnarflokkarnir voru reyndar á öðru máli til að byrja með en komust svo ekki hjá því að leita samstarfs. Í þessu máli eins og öðrum mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar næst ekki árangur nema með samstöðu.
Þjóðaratkvæðagreiðslan gefur þjóðinni allri tækifæri til að birtast sem öflug heild útávið.
Það er í senn furðulegt og dapurlegt að forsætisráðherra skuli hafa lýst því yfir að hann ætli að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þegar forsætisráðherra og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar koma fram með slíkum hætti er eðlilegt að einhverjir velti því fyrir sér hvort málið snúist raunverulega um að verja hagsmuni þjóðarinnar. Þá er mikilvægt að líta til sögunnar.

Ekkert nýtt
Þótt menn telji nú flestir að í landhelgisdeilunum hafi allir staðið saman um að verja þjóðarhagsmuni var það ekki alltaf svo. Þegar Framsóknarflokkurinn hóf útfærslu landhelginnar með stuðningi sósíalista hótaði þriðji ríkisstjórnarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, margsinnis að slíta stjórnarsamstarfinu. Kratarnir vildu ekki ögra „alþjóðasamfélaginu", töldu að deilurnar gætu stefnt viðskiptum og lánskjörum í hættu o.s.frv. Hefði sú afstaða ráðið för væru breskir togarar hugsanlega enn í íslenskum fjörðum.

1943 og nú
En hvað með síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu, atkvæðagreiðsluna um stofnun lýðveldis? Þar hljóta Íslendingar að hafa staðið saman allir sem einn og kratarnir líka? Aldeilis ekki. Ekki framanaf. Jafnvel í því máli höfðu leiðtogar Alþýðuflokksins fyrst og fremst áhyggjur af áliti erlendra embættismanna . Þeir töldu ekkert liggja á stofnun lýðveldis þótt dagsetningin hefði í raun verið ákveðin 25 árum áður.
Á 25 ára afmæli fullveldisins, 1.desember 1943, ákváðu allir flokkar nema Alþýðuflokkur að stofna lýðveldi á Íslandi eigi síðar en 17.júní 1944 að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Daginn eftir birti Tíminn forsíðufrétt undir fyrirsögninni ,,Lausn lýðveldismálsins ákveðin - Samkomulag Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins".
Í greininni birtist m.a. eftirfarandi klausa sem á furðu vel við í nýju
samhengi:

,, Af hálfu Framsóknarflokksins hefir jafnan verið lögð á það rík áherzla, að reynt yrði að ná sem víðtækustu samkomulagi um þetta mál. Að hans ráði var frestað að taka þessa endanlegu ákvörðun um lausn lýðveldismálsins, unz Alþýðuflokkurinn hefði haldið flokksþing sitt og var það gert í trausti þess, að þeir, sem vildu samheldni þjóðarinnar um þetta mál, yrðu þar í meirahluta.
Þær vonir rættust ekki að þessu sinni, en eigi verður því þó trúað, að óreyndu, að Alþýðuflokkurinn eða aðrir aðilar geri þann óvinafagnað, að taka upp baráttu gegn þessari lausn málsins, því að hún myndi ekki skilin, nema á einn veg erlendis og gæti orðið þjóðinni til stórrar óþurftar."

Þrátt fyrir tregðu Alþýðuflokksins framanaf fylgdi hann að mestu með á endanum (örfáir þrjóskir kratar sátu heima) og almenningur sýndi afstöðu sína með svo afgerandi hætti að þess finnast fá dæmi í sögunni. 99,5% samþykktu að fella Sambandslögin við Danmörku úr gildi og 98,5% samþykktu nýja stjórnarskrá.
Samstaða er ekki sjálfgefin og það getur þurft að berjast fyrir henni. En þegar henni er náð eru Íslendingum allir vegir færir. Með því að fella Icesave-lögin með afgerandi hætti í dag getur þjóðin náð þeirri samstöðu sem hún þarf á að halda, nú sem fyrr.

http://www.framsokn.is/Flokkurinn/Fyrir_fjolmidla/Frettir/?b=1,5085,news_view.html í dag.


mbl.is Að kjósa eða ekki kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvert NEI í þjóðaratkvæðagreiðslu!

Næstkomandi laugardag fær íslenska þjóðin sögulegt tækifæri.

Þjóðin kýs í fyrsta skipti frá stofnun lýðveldisins í þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem varðar hvern einasta landsmann, framtíð hans og ófæddra kynslóða. Atkvæðagreiðsla sem vonandi er einungis sú fyrsta af því beina lýðræði sem ætti að vera sjálfsagt í jafn fámennu nútímasamfélagi.

Næsta laugardag ætlum við sem þjóð að standa þétt saman og standa fast í lappirnar gegn því ofríki og kúgun sem yfir okkur átti að ganga. Við látum ekki Breta eða Hollendinga stilla okkur upp við vegg og vaða yfir okkur á skítugum skónum!

Við Íslendingar erum seinþreytt til vandræða og afskaplega umburðarlynd því þetta reddast nú allt hjá okkur... En það reddast ekki fyrir svona fámenna þjóð að sitja uppi með hundruðir milljarða í skuld sem greiða átti með afskaplega óréttlátum kjörum svo ekki sé meira sagt. 100 milljónir í vexti á dag og 5.5% í vexti sem fáum myndi þykja glæsileg niðurstaða! Blóðtaka fyrir hverja einustu fjölskyldu í landinu vegna gjörða sem við áttum engan þátt í.

Íslenska þjóðin og ófæddar kynslóðir bera ekki ábyrgð á því bankahruni sem hér varð, því meingallaða evrópska regluverki sem hleypti slíkum óskapnaði af stað og handónýtu eftirliti Evrópu. Við berum hins vegar ábyrgð á því ónýta regluverki og eftirliti sem hér var að finna og því að ekki var gripið fyrr í taumana þegar óveðursskýin fóru að hrannast upp.

Við skulum fjölmenna á kjörstað á laugardag og kjósa þennan óskapnað sem þröngvað var í gegnum Alþingi Íslendinga út úr sögunni fyrir fullt og allt! Hvar værum við stödd ef engin andstaða hefði verið við þennan samning og forsetinn hefði ekki sýnt þá hetjudáð sem hann sýndi?

Það leikrit sem sumir stjórnarliðar hafa leikið að gera lítið úr þessari atkvæðagreiðslu er sorglegt og óhjálplegt fyrir okkur sem þjóð í þessari stöðu gagnvart alþjóðasamfélaginu. Það að þjóðin skuli loksins fá að segja sína skoðun á þessum samningi (sem er sá eini sem við höfum á borði núna) er gríðarlega mikilvægt til að sameina okkur í þeirri afstöðu sem verður tekin (sem skv. spám verður ákveðið nei). Valdið er í höndum þjóðarinnar og að gera lítið úr því valdi þykir mér ekki gott og þess þá heldur þá stórskaðar það samningsstöðu okkar gagnvart Bretum og Hollendingum.

Að fá risastórt NEI á laugardag hefur mikil áhrif á samningsstöðu okkar til þess að gera sanngjarnan, raunhæfan og betri samning og það er það sem stjórnin ætti að einbeita sér að. Atkvæðagreiðslan snýst um þessi lög en ekki neitt annað!

Þegar augu alþjóðasamfélagsins beinast að okkur og hundruðir blaðamanna streyma að skiptir höfuðmáli að við sem þjóð sýnum fulla samstöðu, segjum þvert NEI og skrifum þannig sögubækur framtíðar okkar. Söguna um friðsömu þjóðina sem lét ekki stjórþjóðir misnota aðstöðu sína til þess að kúga okkur í skuldaþrælkun. Þjóðina sem tilbúin var að greiða höfuðstól skuldarinnar þrátt fyrir að bera ekki einu sinni lagalega skyldu til þess.


mbl.is Furðar sig á ummælum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yin og yang

Lífið er hverfult.

Ákveðinn atburður minnti mig á þetta. Í einni svipan getur fótunum hreinlega verið kippt undan og hlutirnir breyst. Ákveðnar minningar fylgja oft hlutum, fólki, dýrum og öðru og skyndilega er einhverjum kafla í lífinu lokið. Skyndilega lokast kaflinn án þess að maður fái rönd við reist. Eitthvað tímabil sem maður hélt að yrði lengur en er svo lokið.

Þessir kaflar í bók lífsins eru svo sérstakir. Maður veit ekkert hversu langir þeir eru og hvenær þeirra tími er liðinn og kaflinn lokast. Næsti kafli tekur við, klukkan tifar og saga manns líður áfram.

Lífið er svo ófyrirsjáanlegt. Það getur verið ótrúlega pirrandi á sama tíma og það er nauðsynlegt og sjarmerandi á sinn hátt. Það er ekki hægt að gera áætlun um þetta blessaða líf. Söguna er ekki hægt að skrifa fyrirfram og því er áætlun um lífið aðeins óljós kaflaheiti, jafnvel skáldskapur.

Maður upplifir ákveðin andartök í lífinu sem á þeirri stundu gáfu fyrirheit um opnun inn í langan kafla jafnvel alla bókina en svo skyndilega er allt breytt, kaflinn lokast og sagan verður önnur en maður hafði skrifað með sjálfum sér í framtíðarsýn hugans. Þannig er lífið. Það lætur ekki að sér hæða og stundum finnst manni eins og örlaganornir sitji upp á greinum sínum og skelli upp úr yfir prakkarastrikunum og gildrunum sem þær leggja fyrir mann sér til skemmtunar eða manni sjálfum til þroska. Þær glotta yfir óförum þess sem hélt sig geta skrifað söguna fyrirfram. Allt samkvæmt áætlun er ekki til í raunveruleikanum.

Í síðustu færslu var ég að pæla í sáttinni. Einhver gæti hafa misskilið aðeins þann pistil (enda ekkert endilega mjög skýr pistill og hver túlkar slík skrif með sínu nefi). Vissulega er oft margt í umhverfi okkar sem við erum virkilega ósátt við og ég á ekki við að maður eigi að sitja bara brosandi happy go lucky "í núinu" yfir hverju sem á manni dynur. Ef ég ætti mann sem lúberði mig þá myndi ég ekki sitja bara sátt í andartakinu-núinu og ákveða að vera bara sátt við það!

Yin-Yang-for-WebÍ okkar macro umhverfi eru hlutir sem fyllsta ástæða er til að vera virkilega ósáttur við eins og allt það bull sem farið hefur fram í okkar fjármála- og stjórnkerfi síðustu ár en að vera bara reiður yfir því skilar okkur ekkert endilega langt áfram... Í amstri hversdagsins eru ótal atriði sem við höfum enga stjórn á og það getur verið virkilega hjálplegt að finna jafnvægi og sína eigin sátt í þeim aðstæðum. Sætta sig t.d. við það sem maður getur ekki breytt. Vera sáttur við að vera ósáttur. Ef erfiðar tilfinningar kvikna (sem er fullkomlega eðlilegt eins og reiði) að vera þá í þeim tilfinningum, leyfa þeim að fljóta hjá eins og ský á himni sem fara að lokum og horfa á tilfinninguna utan frá eins og hlutlaus áhorfandi án þess að bregðast við, dæma eða hugsa um hana. Lífið er yin og yang.

"Sorgin og gleðin ferðast saman að húsi þínu, og þegar önnur situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu" (Kahlil Gibran, Spámaðurinn bls. 38). Því dýpri sem sorgin er því meiri var gleðin. Eina stundina virðist allt brosa við manni en hina hefur syrt í álinn og ekkert virðist ganga upp. Ótalmargt í sögubók lífsins skrifast á blaðsíðurnar án þess að maður geti haft nokkur áhrif þar á, öðru getur maður stjórnað með frelsi sínu og vali.

Ég held að lykillinn að góðu lífi sé að hámarka hamingju sína með því að njóta gleðistundanna til hins ýtrasta og taka þær aldrei sem sjálfsagðar. Grípa þau andartök þar sem litirnir virðast allt í einu skýrari, maður léttari á sér og sólin bjartari. Til þess að vita hvenær sólin skín þarf maður líka að þekkja regndropana á andlitinu og svört skýin. Geta búið sig rétt, komið sér í skjól frá storminum og beðið af sér óveðrið. Þannig er lífið hverfult og fer sínu fram óháð öllu skipulagi með sorgina og gleðina sem förunauta sitt á hvað sem yin og yang.


Sátt

herecomesthe_16001 

Mig langaði til þess að pæla í sáttinni. Hugtak sem skiptir okkur Íslendinga miklu máli um þessar mundir þar sem umhverfið kallar oft á allt annað en að vera sáttur. Umhverfi okkar Íslendinga undanfarið hefur verið afbragðs jarðvegur fyrir óhemju reiði, pirring, gremju og fleiri neikvæðar tilfinningar.

Mér finnst það svo stórkostleg tilfinning að finna fyrir því þegar ég er bara sátt við lífið og tilveruna. Sátt við að vera á þeim stað sem ég er á í augnablikinu og ekkert að reyna að fara eitt eða neitt. Að vera bara. Það er fullkomin sátt. Í hinu margumtalaða núi. Laus við ótemjuna hugann sem hendist fram og aftur um firnindi og fjöll fortíðar og framtíðar. Það er svo ágætt þegar ótemjan liggur bara í makindum sínum í núinu og slakar á. Þegar þessi ótemja eyðir ekki dýrmætri orku núsins í það að velta sér upp úr fortíðinni, hvað hefði getað verið öðruvísi eða reynir að stjórna framtíðinni sem er ókomin og því ekki til. Best er að taka bara á hverju augnabliki eins og það kemur fyrir og vinna sem best úr því hráefni hverju sinni. Mæli með bókinni "Mátturinn í núinu" eftir Eckhart Tolle sem fjallar mikið um þessar pælingar. Þegar þú stendur þig að því að hugurinn sé óboðinn farinn á flakk skaltu spyrja þig að því hvar þú sért núna, er ég í fortíðinni eða framtíðinni? Og kippa þér um leið aftur inn í núið.

Lífið er þannig að það er alltaf fullt í gangi hjá okkur öllum. Alltaf eitthvað sem við höfum skoðanir á, tekur athygli okkar og orku. Við erum í samskiptum við ótal manneskjur, verkefni af öllu mögulegu tagi hvíla á herðum okkar eins og vel hertur bakpoki og við erum að pæla í öllu mögulegu. Það að geta verið bara sáttur við þetta allt er virkilega gott val. Í stað þess að svekkja okkur á því hvers vegna þetta sé svona eða hitt hinsegin þá erum við bara sátt. Þarna kemur æðruleysisbænin sterk inn, gera sér grein fyrir því að ákveðnum hlutum getum við ekki breytt og sættast við þá, breyta því sem við getum breytt og greina þarna á milli. Oft rembumst við eins og rjúpan við staurinn að hafa áhrif á hluti sem eru hreinlega ekki í okkar mannlega valdi að hafa stjórn á og þannig fer orka sem hefði mátt nýta í það sem hægt er að breyta til spillis.

Sáttin felst að mörgu leyti í þeirri staðreynd að hvernig við afgreiðum hvert augnablik lífsins er algjörlega undir okkur komið. Hvernig við afgreiðum kúnna sem öskrar á okkur, verkefni sem engan endi virðist ætla að taka eða það að klúðra réttinum sem þig hlakkaði svo til að elda og smakka. Við getum alltaf valið það að taka þessu með stóískri ró, jafnvel brosa að okkur, við ráðum því hversu mikið við látum þetta koma okkur úr jafnvægi og hvernig og hvenær við tökum á þessum áreitum. Stundum getur verið ágætt að leggja hlutina til hliðar og hugsa ég ætla að hafa áhyggjur af þessu á ákveðnum tíma t.d. kl. 5 á morgun! Aðrir eða aðstæður gera sjaldnast neitt við okkur. Það erum við sjálf sem höfum þau völd. Þar er lykilatriði að vera meðvitaður um hvaða hugsanir eru í gangi og hvernig við bregðumst við þeim.

Það getur jafnvel verið frekar erfitt að horfast í augu við þessar staðreyndir því oft er svo miklu vænlegri kostur að geta kennt einhverjum öðrum eða umhverfinu um það sem miður fer í okkar eigin lífi. Þegar valdið liggur hjá okkur sjálfum vandast málið því þá er ábyrgðin einnig okkar. Það getur verið gríðarlega freistandi að leyfa reiðinni að malla innan í okkur og magnast upp. Þrátt fyrir að margt sé ekki í okkar valdi þá er það eins og áður er getið í okkar valdi hvernig við tökumst á við þær aðstæður sem við erum í þessa stundina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband