Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 22. febrúar 2010
Netið og einstaklingsfjölmiðlun
Undanfarið hef ég verið í togstreitu við sjálfa mig um bloggið og facebook. Þetta hefur kosti og galla. Það að skrifa það sem maður hugsar á netið er eitthvað sem mikilvægt er að hugleiða vel. Það felst nefnilega í því talsverð opinberun á þeim hugarheim sem maður lifir í þá stundina og einnig er margt mistúlkað og hægt að snúa út úr hlutunum á ýmsa vegu. Það hefur til dæmis verið vinsælt að "hengja" fólk fyrir að hafa einhvern tíma haldið einhverju fram á bloggi og vera svo farinn að halda öðru fram síðar. Það er eins og það sé ekki tekið með í reikninginn að fólk á rétt á og skiptir oft um skoðun á einu og sama atriðinu þegar það sér það í nýju ljósi eða aðstæður hafa breyst. Einnig hef ég haft efasemdir um það að vera stanslaust að deila bútum úr sínu lífi með vinum og fólki sem maður þekkir minna á facebook.
Jákvæða hliðin við þetta er sú að það getur verið ánægjulegt, lærdómsríkt og þroskandi fyrir mann sjálfan að skrifa blogg. Það getur líka mögulega gagnast öðrum og þeir haft ánægju af að lesa þær hugrenningar sem settar eru niður. Ég vona að fólk sé ekki að eyða tíma sínum í að lesa svona blogg eins og þetta nema það hafi af því eitthvað gagn eða gaman. Jákvæða hliðin við facebook er að þar opnast möguleiki á því að skyggnast inn um litla rifu inn í líf margra þeirra sem skipta mann einhverju máli og hafa fetað með manni lífsveginn einhvers staðar á leiðinni eða gera enn. Og maður getur á mjög einfaldan máta haft ýmis samskipti sem ekki hefði verið kostur á annars.
En varðandi þessa netmiðla þá er mikilvægt að muna að einungis brotabrot af persónu manneskjunnar skín þar í gegn. Maður velur nefnilega það sem maður setur þar inn og fólk á mjög auðvelt með að sigla undir fölsku flaggi hvar sem er á vefnum. Sumir setja stöðuuppfærslur inn með ákveðnu markmiði, með því að sýna sig í ákveðnu ljósi eða senda ákveðin skilaboð. Það er ólíklegt að síður eins og blogg endurspegli algjörlega þann einstakling sem þær á. Fæstir setja til dæmis inn færslur eða stöðuuppfærslur um það hversu erfitt og ömurlegt lífið getur verið á stundum. Það er mun vinsælla að setja inn færslur sem sýna okkur í hinu jákvæða ljósi. "Var að koma úr ræktinni", "var að taka heitt bananabrauð úr ofninum", "Búin með fjallgöngur dagsins"... Þó einnig sé til að fólk noti þessa miðla til þess að tjá erfiða kafla í sínu lífi og getur það gert heilmikið gagn ef það á við.
Að lokum þarf að hafa það í huga að sá sem les getur túlkað það sem hinn skrifar á ótal ólíka vegu. Af þessu má leiða þá niðurstöðu að draga megi stórlega í efa að blogg, fésbókin og aðrar síður endurspegli raunveruleika þess sem þær á, ekki nema að takmörkuðu leyti. Þrátt fyrir þetta allt geta þessir miðlar verið gagnlegir og skemmtileg sýn á þjóðarpúlsinn sé vel farið með.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. febrúar 2010
Mikilvæg áminning
Þetta fallega ljóð var samið af unglingi sem er með krabbamein. Í því felst ótrúlega mikill, mikilvægur og góður boðskapur. Áminning fyrir okkur öll. Langaði að deila þessu með ykkur, sumir hafa kannski séð þetta áður.
SLOW DANCE
Have you ever
watched
kids
On a merry-go-round?
Or listened to
the
rain
Slapping on the ground?
Ever followed a
butterfly's erratic flight?
Or gazed at the sun into the
fading
night?
You better slow down.
Don't
dance so
fast.
Time is short.
The music
won't
last.
Do you run through each day
On
the
fly?
When you ask How are you?
Do you hear
the
reply?
When the day is done
Do you lie
in your
bed
With the next hundred chores
Running through
your head?
You'd better
slow down
Don't dance so
fast.
Time is
short.
The music won't
last.
Ever told your
child,
We'll do it
tomorrow?
And in your
haste,
Not see
his
sorrow?
Ever lost
touch,
Let a good
friendship die
Cause you
never had time
To call
and say,'Hi'
You'd
better slow down.
Don't dance
so fast.
Time
is short.
The music won't
last.
When you run
so fast to get somewhere
You
miss half the fun of getting
there.
When you worry and hurry
through your
day,
It is like an unopened
gift....
Thrown
away.
Life is not a
race.
Do take it
slower
Hear the
music
Before the song is
over.
Miðvikudagur, 27. janúar 2010
Prófkjör í Mosfellsbæ
nk. frá klukkan 10:00-15:00 í sal Framsóknarfélags Mosfellsbæjar að
Háholti 14 í Mosfellsbæ. Prófkjörið er opið öllum sem skráðir eru í
Framsóknarflokkinn, eru með kosningarétt og lögheimili í Mosfellsbæ á
kjördegi.
Framboðsfrestur er til 12:00 á hádegi mánudaginn 1. febrúar n.k.
Frambjóðendur tilkynni þátttöku til formanns kjörstjórnar Þrastar
Karlssonar með tölvupósti á tkarls@centrum.is
Nánari upplýsingar veita Óðinn Pétur Vigfússon í síma 868-1313, Þröstur
Karlsson í síma 894-5111 og www.mosfellsfrettir.is.
Mánudagur, 25. janúar 2010
Að lifa í núinu
Að lifa í núinu er mikil kúnst sem fáir hafa alveg á valdi sínu. Oft erum við svo upptekin af því sem fram fór í fortíðinni, fyrir árum, mánuðum, vikum eða dögum síðan að við erum ekki til staðar hér og nú. Eða að við lifum í framtíðinni, erum stanslaust að skipuleggja, dreyma og lifa í þeirri framtíð sem við viljum sjá. Ja, eða hafa áhyggjur af hlutum sem við óttumst í náinni framtíð. Sjáum svo skýrt fram á við að við missum af því sem fram fer á þessu eina augnabliki. Ég hugsa að margir geri sér ekki alveg grein fyrir þessu fyrr en þeir leiða hugann að því hvort þeir séu raunverulega hér og nú. Á einni ökuferð úr ræktinni og heim til mín þurfti ég að kippa mér 10 sinnum tilbaka í núið, í rigninguna sem buldi á götunni, lagið í útvarpinu, hina bílana, ljósin, götuna, hitann í sætinu já allt sem var að gerast á því augnabliki. Ég fór um á ógnarhraða á milli fortíðar og framtíðar og gleymdi að stoppa í núinu nema þegar hugurinn mundi eftir því og ég meðvitað kippti mér að áreitunum í núinu.
Hugurinn okkar er ákaflega öflugur, svo öflugur að stundum er eins og hann lifi sínu eigin lífi. En það má aldrei gleymast að það liggur í okkar hlutverki að temja þennan villta huga og skoða hvaða hugsanir eru á flakki og hvaða tilfinningar fylgja með. Góður fréttirnar eru þær að þrátt fyrir að fá ýmsar hugsanir sem oft eru erfiðar þá getum við markvisst skoðað þær eins og rannsakandi með stækkunargleri og breytt þeim og þannig haft áhrif á hvernig okkur líður. Þessar hugsanir koma sjaldnast af sjálfu sér, þær eiga oft rætur að rekja í kjarnann okkar og þær reglur sem við höfum sett okkur í lífinu.
Hvað er að vera í núinu? Að vera í núinu er að vera nákvæmlega meðvitaður og til staðar á því augnabliki sem líður hjá. Nota skynfærin til þess að greina þessa stund, þessa einstöku stund. Ég mun aldrei aftur lifa þá stund sem ég lifi að heyra hvernig vindurinn ryðst fram og tilbaka fyrir utan gluggann, ljóstýran af þessum kertum gefur hlýlegan bjarma og þessi orð eru slegin niður á lyklaborðið á tölvunni. Þetta andartak kemur, líður og fer. Það kemur aldrei aftur.
Það er list að geta setið einn með sjálfum sér og leyft þeim hugsunum og tilfinningum sem koma að koma í núinu og leyfa þeim bara að fljóta hjá eins og öldur á hafinu eða ský sem flakka um himininn án þess að dæma hugsunina eða bregðast við. Og vera bara. Vera maður sjálfur með öllu því sem maður er. Það er friður og það gefur sátt.
Þegar ég fer á hestbak þá hef ég ekkert fyrir því að lifa í núinu. Ég er bara á hestbaki, hugsa um hestinn undir mér, hreyfingar hans, hreyfingar mínar, umhverfið, veðrið og stundina sem er einmitt þá. Sjaldnast læðast áhyggjupúkarnir að mér, fortíðarplatan er ekki á fóninum og framtíðin og verkefnin sem bíða fá að liggja planlaus. Það er ótrúlega dýrmætt að eiga svona andartök, því fleiri stundir sem maður á í þessum hlutlausa gír, því betra að mínu mati.
Vissulega getum við öll lært af fortíðinni og því má ekki þurrka hana út, við getum einnig haft mjög gott af því að setja niður punkt á landakortið um lífshlaup okkar og sjá þannig hvert við ætlum í framtíðinni og hvað við ætlum að gera á leiðinni þangað en það er núið sem er núna og skiptir máli. Við lærum af fortíðinni, stefnum á framtíðina en lifum í núinu. Þetta er góð setning sem mæt kona kenndi mér og einnig heyrði ég á Dale Carnegie námskeiði sem ég var eitt sinn á að sá sem er með annan fótinn í fortíðinni en hinn í framtíðinni pissar á núið. Ég er því sennilega ekki fyrst og ekki síðust til að pæla í mikilvægi þess að lifa í núinu.
Prófaðu á morgun eftir að hafa lesið þessa færslu að skoða huga þinn og velta því fyrir þér hvar þú ert? Ertu að hugsa um hluti sem hafa þegar gerst, í gær, í fortíðinni? Ertu að skipuleggja framtíðina (jafnvel bara kvöldmatinn) eða ertu raunverulega hér og nú og upplifir öll þau áreiti sem er að finna á þessu andartaki?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. janúar 2010
Avatar
Var að koma af myndinni Avatar.
Alveg hugfangin. Mér finnst þetta góð mynd, vel gerð og boðskapurinn í henni vera það sem stendur upp úr. Ætla ekkert að segja of mikið um myndina en þeir sem eiga eftir að sjá hana og vilja ekki vita of mikið ættu að sleppa því að lesa þessa færslu...
Myndin er góð ádeila að mínu mati. Góð ádeila á hvíta manninn sem hefur í gegnum tíðina tekið það sem honum þóknast án þess að hugleiða einu sinni hvort hann eigi rétt á því eða hver fórnarkostnaðurinn sé svo framarlega sem hann fái það sem hann sækist eftir. Fullkomið skilningsleysi gagnvart stöðu og tilverurétti annarra.
Þessi saga minnir á sögu indjánanna og hvernig hvíti maðurinn fór með þá og arðrændi þannig að aldrei munu þeir endurheimta tilveru sína. Þegar þeir vildu ekki gefa eftir það sem ásælst var þá voru indjánarnir álitnir óvinur sem bæri að sigra og þannig var friðsamt fólk leitt út í blóðugt stríð við það að reyna að verja jörð sína og tilverurétt.
Ég leiddi hugann einnig að stöðu okkar Íslendinga. Við erum í þeirri stöðu að sitja á ómetanlegum náttúruauðlindum eins og Avatararnir sem aðrir ásælast og munu ásælast enn fremur í framtíðinni, orkan, fiskurinn, vatnið, nóg landrými og svona má halda áfram. Það er okkar Íslendinga að standa saman og slá skjaldborg um þessar auðlindir okkar sem eiga að vera í sameiginlegri eigu allra Íslendinga um ókomna tíð og ekki að falla í hendur annarra þjóða. Þannig getum við slegið skjaldborg um okkur sem þjóð og tryggt framtíð okkar og afkomu. Þetta er háð því að við getum staðið vörð um þennan sameiginlega sjóð okkar og lifað í sátt og samlyndi um hann eins og Avatararnir gerðu. Borið virðingu fyrir auðlindum okkar og ekki tekið meira af þeim en þörf er á og þannig að ekki verði gengið á þær til frambúðar.
Sagan ber líka þann boðskap að ofvaxna ógn er aðeins hægt að sigra með því að allir taki höndum saman og berjist sem eitt lið gegn henni. Öll dýrin í skóginum sem jafnvel hafa á öðrum tímum ógnað hvoru öðru þurfa sameiginlega að verja þennan tilverurétt. Við Íslendingar VERÐUM að geta staðið saman í því að verja okkar sérstöðu, auðlindir og takast á við þá ógn sem yfir okkur hefur vofað undanfarið þar sem stærri og megnugri þjóðir hafa reynt að kúga okkur.
Og svo að lokum er auðvitað ástarsaga. Öll okkar tilvera snýst ætíð um það markmið að vera elskaður og geta elskað. Menn hafa vaðið eld og brennistein, byggt hallir eða sigrað heilan óvinaher til þess að tryggja sér ástina. Ástin er aflið sem knýr okkur öll áfram á einhvern máta þó það sé í öllum heimsins ólíku myndum og formum.
Fimmtudagur, 14. janúar 2010
Full stolti og þakklæti fyrir björgunarsveitirnar okkar
Við slíkar aðstæður sem nú ríkja fyllist maður stolti og þakklæti. Ég er stolt af því að vera Íslendingur og eiga þátt í því að senda fyrstu björgunarsveitina á staðinn. Sérhæfða og hæfa sveit sem vafalaust mun gegna viðamiklu hlutverki við björgunarstarfið og hefur nú þegar haft áhrif og bjargað 3 mannslífum.
Ég er einnig ánægð með það átak sem almenningur fór í fyrir áramótin að hvetja sérstaklega til þess að fólk verslaði flugelda sína við björgunarsveitirnar og hunsaði markvisst þá sem farið hafa inn á þennan markað í gróðatilgangi. Jafnvel með því að undirbjóða verð hjá björgunarsveitunum. Nú þakkar maður fyrir þær krónur sem fóru í að kaupa flugelda af björgunarsveit, litlu björgunarsveitakonuna á lyklakippunni og eiga þátt sinn í því að mögulegt er fyrir okkur að halda úti jafn ómetanlegu starfi og allar björgunarsveitir landsins vinna að nóttu sem degi, hvaða dag ársins sem er. Vinna þau þrekvirki sem m.a. íslenska rústabjörgunarsveitin er að vinna þessa stundina. Hvet alla til þess að hringja í 904-1500 í söfnunarsíma Rauða krossins til þess að leggja þessu verkefni Landsbjargar lið. (Villandi orðalag leiðrétt eftir ábendingu). Ef hvert okkar gefur 1500 kr. safnast saman góð upphæð til að styðja við þetta erfiða starf.
Það er einmitt einn besti styrkleiki íslensku þjóðarinnar að standa vel saman þegar virkilega reynir á. Þegar hamfarir verða höfum við ætíð staðið þétt saman og stutt við þá sem eiga um sárt að binda með rækilegum og fumlausum hætti. Ég er sannfærð um að ef hið efnahagslega hrun sem varð hér hefði verið af völdum efnahagslegs jarðskjálfa en ekki mannavöldum hefðu viðbrögð okkar allra orðið talsvert önnur. Þannig er það bara og kannski eðlilegt.
En við að fylgjast með fréttum af þeim gríðarlegu hörmungum sem eiga sér stað á Haití þá verður maður hljóður, hryggur og finnur til með þeim sem hafa upplifað það að erfiðar aðstæður urðu óbærilegar við það að heimurinn fór á hliðina. Nú ríður á að bjargað verði þeim mannslífum sem bjargað verður og hjálparstarf verði öflugt núna en ekki síður til langframa til þess að byggja upp að nýju.
Vandamál okkar Íslendinga fölna í samanburði við það sem þessi þjóð þarf nú að takast á við. Okkar efnahagslegi veruleiki hrundi en þegar upp er staðið er svo ótal margt annað sem skiptir margfalt meira máli en peningar. En vissulega hefur okkar hrun haft mjög slæm áhrif og ógnað efnahagslegri tilveru margra. Enn eigum við hvert annað, grunnstoðir samfélagsins, nóg af húsum til að búa í, hreint vatn, erum sjálfbær um matvæli, orkuauðlindir og svona má telja áfram. Fyrir það skulum við vera þakklát. Úr efnahagslegum ógöngum okkar munum við finna leið og öðlast um leið dýrmæta reynslu.
Margt það sem Haití íbúar hafa misst verður aldrei bætt þrátt fyrir alla heimsins peninga.
Vonleysi í augum íbúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 11. janúar 2010
Hvað hefur breyst?
Fyrst birt: 23.10.2008 17:11Síðast uppfært: 23.10.2008 19:10Uppreisn, verði kröfur samþykktar
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item233100/Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, segir að það verði gerð uppreisn hér á landi verði gengið að kröfum Breta og Hollendinga um að Íslendingar greiði 600 milljarða króna vegna Icesave-reikninganna.
Pétur Blöndal sagði í hádeginu í dag að einungs fjárkröfur Breta og Hollendinga væru margfalt hærri en þær stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar voru neyddir til að greiða í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Grófir útreikningar bendi til þess að þær hafi numið um einni milljón króna á hvern Þjóðverja. Þær lögðust þungt á þýskt efnahagslíf, verðbólgan magnaðist og atvinnuleysir jókst gríðarlega.
Steingrímur segir, eins og Pétur, að Íslendingar eigi að spyrna gegn kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gera ráð fyrir að gjaldeyrislán sé háð því að samið verði við Breta. Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalegar skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingarkerfi. Íslendingar eigi ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því þeim beri ekki skylda að greiða tapið vegna Icesave-reikninganna.
Ekki einhliða innanríkismál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 7. janúar 2010
Áfram Eva Joly! Þú veitir okkur von...
Mikið megum við Íslendingar vera þakklátir fyrir hana Evu Joly sem er slíkt kjarnakvendi að sjaldan hefur maður séð annað eins.
Hún er ekki búin að gefast upp og hún stendur fast í fæturnar gegn óréttlátri og ósanngjarnri meðferð þeirri sem við íslenska þjóðin höfum fengið í málum okkar af hendi hollenskra og breskra stjórnvalda. Við höfum bara hreinlega verið "bullied" eins og leiðarahöfundur nokkur benti á. Við erum eins og barnið á skólalóðinni sem er upp við vegg, haldið kverkataki og segist borga allan vasapeninginn sinn um ókomna tíð sleppi bullyinn (Bretar og Hollendingar) kverkatakinu á okkur. Það sem barnið á að gera í slíkum aðstæðum er að láta vita af þessari meðferð og alls ekki kaupa sig frá þessu ástandi. Það sama þurfum við að gera og erum að gera þessa dagana til þess að málstaður okkar verði ljós og tekið verði á málunum og þau færð til betri vegar.
Mikið vildi ég óska þess að íslensk stjórnvöld hefðu kjarkinn, kraftinn og duginn sem Eva Joly hefur. Þá værum við sennilega í betri málum og ekki komin með samning í gegnum þingið sem landið getur aldrei staðið undir án alvarlegra afleiðinga.
Það vakti athygli mína í kvöldfréttum Rúv að fjallað var um byggingu nýs háskólasjúkrahúss og kostnaðurinn sem rætt var um væri 33 milljarðar.
Gert er ráð fyrir 66 þúsund fermetra nýbyggingu við Hringbraut og kostnaðurinn verður um 33 milljarðar króna. Þar af er gert ráð fyrir að hönnunarkostnaður verði á fimmta milljarð. (www.ruv.is)
Við gætum sem sagt byggt háskólasjúkrahús og gott betur á hverju ári fyrir þá 45 milljarða sem vextirnir eru áætlaðir á ári af Icesave. Hvað ætli við gætum byggt mörg á þessu tímabili? Amk. 15 ef ekki fleiri ef lánið verður ekki fullgreitt 2024.
Ég tel að því fjármagni sem ríkisstjórnin ætlar að verja í vexti og kostnað af Icesave sé betur borgið annars staðar í samfélaginu og raunin sú að slíkar fjárhæðir er okkur ómögulegt að greiða í okkar litla hagkerfi. Það er að mínu mati deginum ljósara. Myndum við greiða lánið með þessum vondu skilmálum er raunveruleg hætta á því að innviðir samfélagsins tærist upp á meðan þar sem þeir verði í svelti. Ekki er heldur forsvaranlegt að taka þetta á einhvers konar kúluláni inn í framtíðina sem lendir svo á afkomendum okkar. Nógar skuldbindingar eru nú samt sem liggja á okkur sem þjóð. Það er nógu flókið verkefni að afgreiða það og geta um leið haldið hér góðu samfélagi gangandi og afhent komandi kynslóðum þjóðfélag sem mögulegt er að reka.
Skv. Evu Joly eru nú þegar 8000 manns farnir af landi brott. Við megum ekki við því að missa fleiri og verðum því að öðlast von um að hægt sé að losa um kverkatakið á okkur og takast á við yfirgangssegginn sem ætlar sér að kúga okkur í skuldaþrælkun.
Þá fyrst getum við hafið endurreisn þess einstaka samfélags sem hér er að finna.
Pistill á Eyjunni sem sýnir að menn erlendis eru farnir að átta sig á málinu:
Joly harðorð í garð Hollendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2010 kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. janúar 2010
Samstaða og samvinna
Nú er árið 2010 gengið í garð og það hófst með upplýstum, reykmettuðum himni og sprengingum að venju. Kannski má segja að það sem gerðist fimm dögum síðar hafi líka falið í sér mikinn hvell og reykský.
Við Íslendingar höfum gengið í gegnum ótrúlegar raunir síðastliðið eitt og hálft ár. Hver hefði trúað því að svo miklar grundvallarbreytingar gætu orðið á svona skömmum tíma. Hver hefði getað trúað því að svo miklar sviptingar gætu átt sér stað. Manni finnst stundum eins og tíu ár séu liðin frá því að 6. október 2008 hinn alræmdi rann upp og bólan sprakk. Frá því höfum við oftar en nokkur vill þurft að horfa upp á óvissudaga þar sem líf ríkisstjórnar hangir á bláþræði, óvissa ríkir og óttinn grípur í stýrið. Hlutir sem áður þóttu merkilegir eins og stjórnarskipti fara að verða óþægilega algeng og ekki er það til góðs.
Það skiptir miklu máli fyrir farsæld fólks og farsæld samfélaga að traust, öryggi og stöðugleiki ríki. Allt þetta hefur okkur vantað undanfarið.
Ég held að núna séum við komin að krossgötum. Mín trú er sú að núna komumst við ekki lengra á þeirri vegferð sem verið hefur og róttækar breytingar verði. Ég held að við þurfum að endurskoða margt í okkar samfélagslegu skipan. Það er til dæmis merki um að stjórnkerfið valdi ekki lengur hlutverki sínu þegar forseti landsins segir vera meirihluta fyrir máli sem Alþingi hefur fellt í atkvæðagreiðslu og ber við því rökum um að vissir þingmenn hafi haft samband við sig. Slíkt getur ekki talist eðlilegt og lýsir þeim ógöngum sem þingið og stjórnkerfið eru í. Afgreiðsla löggjafans hlýtur að eiga að teljast gild og það hvernig þingmaður eyðir atkvæði sínu ætti að vera í samræmi við hans innstu sannfæringu. Mögulega gæti skýringin verið sú að einhverjir þingmenn hafi viljað að þingið afgreiddi Icesave og hafi því ekki viljað vísa því beint í þjóðaratkvæði þrátt fyrir að vera hallir undir slíkt fyrst þingið samþykkti lögin. En var það ekki vitað að þetta færi í gegn? Þegar forseti landsins og ríkisstjórn ganga ekki lengur í takt á slíkum tímum er ekki von á góðu. Slíkt hefur svo sem áður þekkst en við þær aðstæður sem nú eru uppi er það afar óheppilegt að margir skipstjórar séu á þjóðarskútunni sem vilji sigla henni sitt í hvora áttina. Það leiðir einungis til þess að hún kemst hvorki lönd né strönd.
Icesave er leiðindamál sem verður ekki umflúið. Sama hvaða leið verður farin og reynd þá er engin töfralausn til á slíku máli. Eðlilega eru skiptar skoðanir um svo stórt mál. Sennilega hafa flestir þeir sem sterka skoðun hafa gild rök fyrir sinni niðurstöðu. Við sjáum bara hlutina ekki öll frá sama vinkli og rök okkar eru misjöfn. Ég tel að málið hafi frá fyrsta degi verið í röngum farvegi og svo undið upp á sig. Strax og málið kom upp hefði þurft að manna þverpólitíska nefnd sem einnig væri skipuð færustu innlendum og erlendum sérfræðingum sem semja myndu fyrir hönd Íslands. Icesave er ekkert smáklink sem er bara afgreitt yfir en kop kaffe. Um er að ræða 8 milljóna skuld fyrir hverja einustu fjölskyldu í landinu, 100 milljónir í vexti á dag þar til skuldin er greidd (miðað við síðustu samninga). 300 milljarða ábyrgð á 300 þúsund manns jafngildir 61.000 milljóna (61 trilljón) á 61 milljón Breta. Við slíkar tölur er ekki að undra að vanda þurfi til verka og skilmálarnir að vera í lagi. Áhugaverð grein í dag þar sem vísað er í skrif Jóns Daníelssonar í breska blaðið Independent. Þar segir m.a:
Þá segir Jón að þótt upphæðin, sem Íslendingar ætli að endurgreiða, jafnvirði um 700 milljarða króna, virðist ekki há í augum Breta. En á Íslandi búi aðeins rúmlega 300 þúsund manns og upphæðin svari því til um 40 þúsund punda á fjölskyldu, jafnvirði 8 milljóna króna. Þá svari hún til þess að Bretar greiði yfir 40 milljarða punda á ári, um helming þeirrar fjárhæðar sem þarf til að reka breska heilbrigðiskerfið.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/06/islendingar_telja_lanakjorin_ovidunandi/
Ég tel að sem þjóð getum við ekki staðið við þann samning sem var samþykktur milli jóla og nýárs. Með 320% skuldir af vergri landsframleiðslu erum við komin langt umfram þau 240% sem miðað er við að geri þjóðir gjaldþrota. Að fara með óútfylltan tékka á hálfgerðu kúluláni inn í framtíðina fyrir þjóðina og komandi kynslóðir er ekki til farsældar fallið. Það að hafa ekki þá fyrirvara sem allir flokkar sömdu um í sumar í góðri sátt er það sem ég tel hafa fellt málið. Það er ekki hægt að fallast á það að við séum að fá 5.5% vexti þegar aðrir eru að fá 1.5%. Að eiga ekki möguleika á því að fara með málið fyrir dómstóla komi í ljós að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þetta (það liggur ekki fyrir í dag), að þetta sé ekki tengt 6% hagvexti og eigi að greiða þar til allt er uppgreitt (ekki bara til 2024) er baggi sem við getum ekki tekið með inn í framtíðina. Ég tel það afar varhugavert að ætla sér að fresta þessu á þann hátt sem gera átti og taka afleiðingunum síðar. Þrátt fyrir að við séum ekki vinsæl núna (m.a. vegna rangs fréttaflutnings um það að við ætlum ekkert að borga) þá er vænlegra að standa í lappirnar núna, sýna kjark og standa vörð um þjóðina og komandi kynslóðir. Erlendir dálkahöfundar virðast geta skilið þessa afstöðu:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/06/kurteis_og_hofstillt_motmaeli/?ref=fpmestlesid
Það sem þessi grein endar á er sorglegt og lýsir stöðunni hér því miður. Innbyrðis erum við sjálfum okkur verst. Við eigum í harkalegum deilum vegna ólíkra sjónarmiða okkar á vandann. Til þess að geta leyst þessa deilu og veitt okkur sjálfum von inn í framtíðina held ég að fyrsta skrefið sé það að við þurfum að sættast, standa saman og vinna saman. Það hafa Íslendingar gert frá upphafi ef hætta hefur steðjað að. Sameinuð börðumst við fyrir landhelgi okkar og sameinuð börðumst við fyrir sjálfstæði okkar frá Dönum. Sameinuð getum við líka barist fyrir því að fá samning sem mögulegt er fyrir okkur og komandi kynslóðir að standa undir. Við skulum því sigla skútunni saman gegn brotsjónum í átt að lygnari sjó í stað þess að slást uppi á dekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.1.2010 kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 31. desember 2009
2009 kvatt og 2010 boðið velkomið!
Nú er síðasti dagur ársins. Hérna sit og ég fylgist með Kryddsíldinni með öðru auganu. Svo mikilvægt tel ég þetta ár hafa verið að ómissandi sé að horfa um öxl og skoða hvað gekk á og hvert við erum að fara. Þessi mál og þekking munu fara með manni inn í framtíðina, á því leikur enginn vafi.
Árið 2009 hefur verið erfitt ár, bæði fyrir þjóðina og eins fyrir mig persónulega. Ég mun því glöð kveðja það á miðnætti og taka brosandi á móti árinu 2010.
Mér er efst í huga þakklæti til alls þess fólks sem ég hef verið svo lánsöm að fá að umgangast, njóta og læra af á þessu ári. Sérstaklega þeirra sem eru hluti af mínum fjársjóði, fólki sem komið er til að vera og fylgja mér í gegnum þetta líf. Stundum veltir maður því fyrir sér hvað maður hafi gert til þess að verðskulda þann auð. Sá fjársjóður sem við eigum í hverju öðru er ómetanlegur með öllu.
Þegar upp er staðið er það samstaða okkar og virðing fyrir hverju öðru og skoðunum hvers annars sem hefur úrslitaáhrif. Því miður hefur skort á hana og sjálfur hefur maður látið hitann hlaupa með sig í gönur. Varðandi pólitíkina þá föllum við oft niður í persónulegar skotgrafir í stað þess að rökræða málin og ná sátt sem allir geta sæst á á miðri leið.
En eftir nokkrar klukkustundir tekur við nýtt ár.
Ég hef fulla trú á því að árið 2010 verði upphafið að betra Íslandi. Nú tel ég að rykið af hruninu sé að verða sest og almenningur fari að sjá eitthvað gerast, breytingar. Ég trúi ekki öðru en nú fari rannsókn að byrja að skila niðurstöðum og menn þurfi að axla ábyrgð á mistökum og misgjörðum sínum. Ég treysti því svo að í sameiningu getum við byggt okkur nýtt regluverk, tryggt eftirlit og gefið okkur öllum von. Ég vil trúa því að við föllum ekki í sama farið heldur verði þrýstingur frá þjóðinni um ný vinnubrögð á nýju Íslandi.
En þetta gerist ekki nema við tökum öll þátt í þessu. Verkefni okkar næstu ár eru ærin. Aldrei hefur þurft að standa eins dyggan vörð um þá sem minna mega sín og um fólkið í landinu. Þar er hætta á ferðum og þar þurfum við að treysta hvert annað. Aldrei hefur eins mikið þurft á hugviti hvers Íslendings að halda til þess að leggja sitt á vogarskálarnar um það hvernig við eigum að byggja hér upp samfélagið á ný og læra af reynslunni. Ég hef trú á því að þegar upp er staðið munum við þrátt fyrir hörmungar og erfiðleika byggja hér betra samfélag en það græðgis- og óreiðu- samfélag sem hér var orðið.
Gleðilegt ár kæru vinir og megið þið öll njóta ljóss og friðar á nýju ári.
Saman stöndum vér en sundruð föllum vér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)