Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sunnudagur, 27. september 2009
Að vera þátttakandi í eigin lífi
Ég átti gott spjall við mæta konu í gær. Við töluðum um allt á milli himins og jarðar. Mest töluðum við um lífið sjálft og okkur sem manneskjur í því. Þetta líf er svo merkilegt, því má maður aldrei gleyma. Og það sem merkilegra er að þrátt fyrir allt þá stýrir maður för í því sjálfur. Maður stýrir því hvernig maður sjálfur bregst við aðstæðum og öðru fólki þrátt fyrir að hafa enga stjórn á þessu tvennu. Eins og hugræn atferlismeðferð (HAM) gengur út á þá líður manni eins og maður hugsar og maður getur haft áhrif á það sem maður hugsar. Við getum unnið með þær sjálfvirku hugsanir sem koma upp í kollinn á okkur. Þær eru ekki heilagur sannleikur. Þannig getum við haft mikil áhrif á líðan okkar.
Ég held að fólk verði að einhverju leyti frjálst í eigin huga og eigin líkama þegar það gerir sér grein fyrir þessari ábyrgð á eigin lífi og þeim óendanlegu valkostum sem lífið býður okkur dag hvern. Sennilega erum við sjálf okkar stærsta hindrun og sjálf erum við okkur verst. Það þekkir þú kannski á eigin skinni. Við segjum til dæmis hluti við okkur sjálf í huganum sem við yrðum ákaflega reið yfir segði einhver annar þá við okkur. Við getum verið okkar besti en einnig okkar versti förunautur í lífinu.
Það kostar samt vinnu að horfast í augu við sjálfan sig í speglinum, spegla sig í öðrum og umhverfinu. Það getur líka verið erfitt. Oft getur verið þægilegra að skella skuldinni á eitthvað allt annað en okkur sjálf ef eitthvað fer miður.
Ég held að við séum alla ævina að læra að vera við sjálf og kunna að meta okkur eins og við erum. Læra að taka okkur með okkar stærstu kostum og verstu göllum. Stundum fer fólk í mikla sjálfskoðun þegar það hefur lent í einhvers konar árekstri í lífinu, árekstri við sig sjálft, annað fólk eða umhverfið. Ég tel að hver einasta manneskja hafi gott af því að kíkja í skúffurnar sínar, kanna hvað þær hafa að geyma, fagna því góða og laga til þar sem þörf er á. Þannig aukast líka líkurnar á því að við séum sterkari þegar við lendum í þeim áföllum sem óhjákvæmilega fylgir tilveru okkar hér. Tré sem hefur sterkar rætur og hefur svignað í smávægilegum hviðum er líklegra til að standa af sér storm.
Ég held að það sé gott að muna að í dag er fyrsti dagur þess sem eftir er af lífinu (Today is the first day of the rest of your life) eins og einhver vitur maður sagði. Það er alltaf nýtt tækifæri, það kemur nýr dagur að þessum degi loknum. Tækifæri til þess að taka lífinu opnum örmum og hefjast handa sem fullur þátttakandi í eigin lífi, reynslunni ríkari og tilbúinn að yfirstíga sína stærstu hindrun.
Ég hélt til dæmis að ég myndi aldrei geta synt sjósund. Er hitadýr að eðlisfari og illa við kalt vatn. Get ekki staðið lengur en 2 sekúndur undir kaldri sturtu án þess að súpa hveljur. Sem hluti af herþjálfunar námskeiði sem ég er á tók ég þeirri áskorun að fara í sjósund. Og viti menn um leið og ég var komin út í 3 gráðu kalt vatnið í 4 gráðu hita þá leið mér vel. Ég naut þess að svamla um og synda eins og enginn væri morgundagurinn. Kom sjálfri mér hressilega á óvart. Vegna þess að ég lét vaða í stað þess að ákveða fyrirfram að ég gæti þetta aldrei (sem ég hafði samviskusamlega talið mér trú um).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 22. september 2009
Ung Framsókn
Um þar síðustu helgi sat ég Sambandsþing Ungra Framsóknarmanna (SUF).
Þingið var létt og skemmtilegt en einnig var unnið mikið á því og þykkur pakki af ályktunum fór í gegn (þær má sjá á www.suf.is). Að baki þeim lá mikil vinna og metnaður og það var merkilegt að sjá hversu ólíkar þær voru og hversu ólík málefni snerta hjörtu okkar ungra Framsóknarmanna. Það er nú það skemmtilega við pólitík, við erum ekki öll í þessu á sömu forsendum. Einn vill berjast fyrir málefnum fatlaðs fólks á meðan næsti vill vinna að því að lækka skattheimtu á getnaðarvarnir. Því lengur sem maður starfar í pólitík því breiðara verður svo áhugasviðið í málefnavinnunni. Það er að minnsta kosti mín reynsla.
Það sem kom mér þó mest á óvart á þessu þingi var hversu öflugur hópur ungs fólks er að koma upp af krafti í nýrri Framsókn (og ansi sterkur hópur var nú fyrir og hefur starfað undanfarin ár :) ). Raðir okkar eru þéttar og vægast sagt vel skipaðar. Ég fann hjá mér tilfinningu fyrir því að ég væri að verða svona í hópi með öldungunum innan ungliðanna og því yrði brátt tímabært að beina kröftum sínum annað. Ég tímdi þó ekki að lúta þessari tilfinningu strax þar sem ég á mjög skemmtilega kunningja sem ég hef kynnst í starfi mínu með SUF sem mig langar að starfa aðeins lengur með svo ekki sé minnst á hversu gaman verður að kynnast öllu þessu nýja fólki.
Það er þess vert að minna á það hversu öflugt starf ungs fólks er innan Framsóknar og hvernig Framsókn sker sig úr á íslensku stjórnmálarófi fyrir það að treysta ungu fólki raunverulega fyrir mikilli ábyrgð og verkefnum. Þingflokkur Framsóknar er sá langyngsti á Alþingi, bæði formaður og varaformaður flokksins eru á SUF aldri og lengi vel átti Framsókn 3 yngstu þingmennina á þingi. Framsókn hefur einnig staðið sig afar vel í jafnréttismálum í reynd þar sem konum hefur verið treyst fyrir störfum innan flokksins til jafns á við karlana. Þær hafa verið formenn flokksins og ýmissa hreyfinga innan hans, ráðherrar til jafns við karlana og oftast leitt lista til jafns á við þá. Oft hafa konur verið jafnmargar og karlmenn í þingflokknum þó reyndar hafi hallað á konurnar eftir síðustu kosningar þar sem þær eru einungis þriðjungur.
Í nýskipaðri stjórn SUF raðaðist þetta svo vel hjá okkur að við erum með rétt kynjahlutföll og einnig með rétt hlutföll á kjördæmum landsins og þetta náðist fram nánast án þess að neitt þyrfti að hrófla við úrslitum kosninganna. Við virðumst bara vera alin upp við það í Framsókn að hafa sem breiðasta og ólíkasta fylkingu í forsvari.
Segja má að Framsókn sé því afar ung fjöldahreyfing um þessar mundir. Flokkurinn hefur endurnýjað sig rækilega og hefur að skipa innan sinna raða talsvert stóran hóp ungra og öflugra einstaklinga sem þekkja málefni ungs fólks á eigin skinni og munu því meðal annars berjast á þeim vettvangi fyrir þeim hóp þjóðfélagsins sem væntanlega mun þurfa að bera þungar byrðar næstu misserin í kjölfar orðinna áfalla.
Mín skoðun er sú að það sé ákaflega mikilvægt í öllu stjórnmálastarfi að hafa ætíð í huga að þeir sem eru í forsvari og taka afdrifaríkustu ákvarðanirnar endurspegli eins breiða sneið samfélagsins og mögulegt er. Þannig ætti lýðræðið að virka betur með sem ólíkustum röddum sem sammælast um góða en víðtæka niðurstöðu. Það virkar ekki ef þingheimur er mestmegnis skipaður karlmönnum á miðjum aldri, sama hversu frambærilegir þeir eru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.9.2009 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. september 2009
11. september dagur breytingar
Ég man þennan dag eins og hann hafi gerst í gær. Ég var heima hjá mér þegar systir mín sagði mér frá því hvað hefði gerst og við ræddum hvort að þriðja heimstyrjöldin væri nú hafin. Ég fór svo að vinna um kvöldið og sat stjörf við sjónvarpið þar í lengri tíma.
Þessi atburður mótaði mann um ókomna tíð. Þarna breyttist eitthvað. Það öryggi sem maður hafði ætíð upplifað var allt í einu horfið og skelfing hryðjuverka orðin nær en nokkru sinni fyrr, áþreifanlega nálægt. Ég hafði eins og margir flogið með United flugfélaginu innanlands í Bandaríkjunum oftar en einu sinni.
Þarna lærði maður líka eitthvað nýtt. Maður komst skrefi nær því að geta ímyndað sér hvernig fólki líður sem býr við slíka skelfingu allt sitt líf. Þau spor getur maður aldrei sett sig í nema upplifa það en þarna fékk maður nasaþefinn af slíku óöryggi. Það er nefnilega allt öðruvísi að heyra fregnir af voðaverkum hversu hrikaleg sem þau eru ef maður veit að sjálfur er maður í öruggri fjarlægð og þetta er einhvers staðar annars staðar, langt í burtu. Um leið og maður getur samsamað sig með þeim sem lenda í slíku eða getur ímyndað sér að maður gæti hafa verið í þessum aðstæðum þá horfa málin öðruvísi við. Þá rista þau mann innar að skinni og meiri ótti og ógn grípur um sig.
En þennan dag breyttist ýmislegt hjá mér og eflaust mörgum. Heimsmyndin varð önnur. Alvarleg hætta á hryðjuverkum varð raunveruleg, upplifun á ógn nær en nokkru sinni og munaður eins og ferðalög horfðu allt í einu öðruvísi við. Hið óhefta frelsi varð allt í einu bundið ýmsum skilmálum, áhættum og löngum öryggisbiðröðum flugvallanna.
En svo heldur maður áfram lífinu. Það er eina leiðin. Það þýðir ekki að óttast það sem maður veit ekki hvort gerist. Líkurnar eru sáralitlar og ef maður myndi vera á röngum stað á röngum tíma þá væri ekkert við því að gera.
En þetta leiðir líka hugann að öðru og maður fyllist þakklæti. Einn stærsti auður okkar Íslendinga er einmitt sá friður sem við fæðumst inn í og lifum við alla tíð. þar erum við miklu ríkari en stór hluti heimsbyggðarinnar. Gleymum því aldrei. Líf fullt öryggi og friðar er svo sannarlega mikils virði og það ber að þakka á hverjum degi.
Átta árum síðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 10. september 2009
Hreyfing er allra meina bót
Sumir gætu talið mann galinn að borga einhverjum fyrir það að pína sig alveg til hins ítrasta en ef þetta virkar og færir manni þessa alsælu að lokinni strangri æfingu þá er ég sátt. Fyrir mér er þetta fín leið til þess að koma mér vel af stað í ræktinni því ég er mikil áhugamanneskja um hreyfingu þó ég eigi nú alveg mína sófadaga og mánuði eins og sumir aðrir.
Það sem er svo gott við hreyfingu er það að maður er að afreka eitthvað, ná markmiði, reyna á sig og upplifir svo bestu verðlaunin sem hægt er að hugsa sér við þá vellíðan sem hreyfing skapar og þá hollu vímu sem líkaminn veitir manni strax eftir æfingu. Eftir æfingu líður mér þannig að allar heimsins byrðar og ýmislegt sem veldur mér kannski hugarangri er víðs fjarri og ég upplifi svona hamingjustund "algjöra feelgood stund".
Ég tel að við Íslendingar á þeim sparnaðartímum sem ríkja þurfum að gæta þess vandlega að kasta ekki krónunni fyrir aurinn. Fara ekki að spara við okkur hreyfingu, hollt matarræði og annað sem snýr að okkar lýðheilsu. Stjórnvöld þurfa að vera meðvituð um þetta að reyna að hafa áhrif með því að draga úr álögum á hollar matvörur, ávexti og grænmeti og stuðla eins og hægt er að fjölbreytilegri hreyfingu. Með hreyfinguna má reyndar segja að flestir geta fundið sér eitthvað ef þeir virkilega vilja. Það er alltaf hægt að reima á sig skóna og skokka eða ganga af stað eða taka góðan sundsprett án þess að það kosti mikla fjármuni.
Ég tel ekki óeðliegt að stjórnvöld beini þessu svona þar sem í raun ætti að umbuna þeim sem passa upp á heilsuna og eru því margfalt ólíklegri til þess að þurfa að nýta heilbrigðiskerfið vegna lífstílstengdra sjúkdóma.
Við verðum að tryggja forvarnir og stuðning eins og frekast er kostur því annars fáum við himinháan bakreikning í hrakandi heilsu þjóðarinnar og það er ekki reikningur sem við getum borgað þegar heilbrigðiskerfið berst nú þegar í bökkum og við þurfum að fara að greiða af Iceslave...
Markvissar forvarnir skila árangri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. september 2009
Hreinleiki íslenskra landbúnaðarafurða
Þetta er eitthvað sem við eigum að byggja á í framtíðinni. Við eigum svo ótrúlega hreinar og góðar afurðir hvort sem þær koma af landi eða úr sjó.
Við megum þó ekki gleyma að þrátt fyrir að tryggja þessa gæðavöru sem útflutningsvöru þá eigum við Íslendingar líka að geta leyft okkur að neyta okkar besta hráefnis og okkar hreinu og tæru matvara.
Ég sé fyrir mér a.m.k. tvær mjög góðar ástæður fyrir því að tryggja landbúnaðinum öryggi um ókomna tíð í rekstri sínum. Annars vegar þá ástæðu að við eigum að vera sjálfbær og geta framleitt úr okkar eigin matarkistum matvæli á heimsmælikvarða fyrir okkur Íslendinga. Hins vegar sé ég fyrir mér að með auknum rannsóknum og aukinni meðvitund um mikilvægi hreinna afurða fyrir heilsuna að þá muni eftirspurn eftir vörum eins og okkar aukast til muna. Fólk mun átta sig á því að það er betra að borga fyrir gott hráefni í stað þess að borða ruslfæði og uppskera ýmsa kvilla í kjölfarið.
Við eigum að standa vörð um fjölskyldubúin okkar og jafnvel kaupa Beint frá býli þegar því verður komið við. Ég er mun hrifnari af slíkum landbúnað en þeim að breyta sveitabæjum okkar í risastórar verksmiðjur þar sem magnið er það sem skiptir máli og t.d. hvert dýr á á hættu að verða bara eins og eitt stykkið á færibandinu.
Að lokum er ríkt byggðarsjónarmið sem fylgir því að standa vörð um íslenskan landbúnað þar sem mikilvægt er að halda sveitum okkar og samfélögunum þar í byggð. Sumir eru fæddir og uppaldir úti á landi og eiga sama rétt og við hin að byggja heimaslóðir sínar. Hver fjölskylda í sveitinni er ákaflega mikilvægur hlekkur í því samfélagi sem þar er að finna.
Fagnar umfjöllun um meðhöndlun nautakjöts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 8. september 2009
Flöktandi fáni á leið niður Ártúnsbrekkuna
Í dag var ég á keyrslu niður Ártúnsbrekkuna sem er kannski ekki í frásögu færandi. Ég var í þungum þönkum og m.a. að hugsa um það ástand sem endurómar í öllum mögulegum miðlum landsmanna hvern einasta klukkutíma, hvern einasta dag.
Þá sá ég nokkuð sem fékk mig til að brosa.
Ungur strákur á leið niður Ártúnsbrekkuna með íslenska fánann flöktandi á þaki bílsins.
Þetta atvik varð til þess að vekja mig til umhugsunar og gleðja mig. það er alltaf von ef við ákveðum það. Viðhorf okkar skiptir hér öllu máli. Þrátt fyrir erfiða tíma þá getum við sameinast um fánann okkar og um það að vera Íslendingar. Sameinast um það að hið erfiða sé hægt og það muni koma bjart vor að loknum þessum þunga vetri.
Mín vegna mætti breyta lögunum þannig að leyfilegt væri að flagga fánanum oftar því við þurfum fyllilega á því að halda að minna okkur á hver við erum og hvað við eigum sameiginlegt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 7. september 2009
Auðlindir okkar eiga að vera í sameiginlegri eigu allra landsmanna og arðurinn af þeim á að renna í sjóði okkar
Við íslenska þjóðin erum að mörgu leyti mjög heppin. Við erum fámenn en mjög vel menntuð og framsækin þjóð sem náð hefur að skapa sér ótrúleg lífskjör á skömmum tíma. Við búum einnig á einu fegursta landi í heimi með ómetanlegum náttúrudjásnum, nægu plássi, hreinu vatni, hreinu lofti, fisk í sjónum landið um kring, hreinum landbúnaðarafurðum, iðandi orku í iðrum jarðar og svona má lengi upp telja. Við vinnum svo sem ekki í veðurlóttóinu oft en það gerist og veðrið er alveg bærilegt þó það gæti verið betra. Höfum meira að segja vott af okkar eigin sólarströndum.
Við höfum með elju, þor og dugnaði byggt okkur upp góðar samfélagslegar stoðir, félags- og heilbrigðiskerfi og menntakerfi sem er okkur að mestu leyti til sóma og hefur verið í stöðugri þróun. Það sem hefur kannski staðið okkur aðeins fyrir þrifum er að stundum gleymum við okkur aðeins í "þetta reddast" hugsanahættinum, kunningjasamfélaginu og þurfum að vera stórust í heimi! Þetta eru okkar lestir en geta í sumum tilfellum verið okkur til framdráttar.
Á Íslandi eiga ALLIR að geta haft það verulega gott miðað við allt og allt.
Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti þeirra sem standa í brúnni að tryggja það að hér glutrist ekki niður það góða sem við eigum og að lærdómur hljótist af því sem við höfum gert vitlaust áður fyrr.
Eitt af því sem ég tel vera mikilvægt atriði er að allar þær auðlindir sem við eigum séu ávallt tryggðar í eigu samfélagsins alls. Það á enginn að eiga íslenskar auðlindir nema íslenska þjóðin sjálf. Þjóðin velur sér svo leiðtoga sem hún treystir til þess að halda vel utan um og varðveita auðlindir sínar og leigja þær út eða reka þær þannig að arðurinn af þeim renni beint í sameiginlega sjóði landsmanna og tryggi okkur þannig góð lífskjör beint og milliliðalaust. Þeir einkaaðilar sem vilja nýta auðlindir eiga að greiða leigu af notkuninni og ekki á að vera hægt að leigja auðlindir nema til skamms tíma að mínu mati.
Ég tel okkur hafa farið flatt á því áður fyrr að færa auðlindir úr beinum höndum þjóðarinnar hvort sem það er gert gegn greiðslu eður ei. Sá sem vill komast í auðlindir okkar er ekki að því til þess að gera okkur greiða. Hann veit að þær eru gulllkista og þær gefa góða milligjöf frá því sem hann greiðir fyrir þær eða fyrir langtímaafnot af þeim. Seljum okkur því ekki ódýrt þrátt fyrir að við séum að horfast í augu við erfiða tíma. Það gæti orðið skammvinnur gróði.
Sunnudagur, 6. september 2009
Að opinbera sig á vefnum, Fésbók og bloggið
Það eru svo sannarlega breyttir tímar. Ég tel mig ekki gamla konu og ég man þá tíma sem ekki var internet og það sem maður gerði í tölvu krafðist dir skipana...
Heimur veraldarvefsins hefur þanist út undanfarin ár. Allt í einu blasir við okkur alveg nýr heimur og nýtt samskipta- og upplýsingalíf. Hinn raunverulegi veruleiki hefur að einhverju leyti fallið saman við hinn óraunverulega veruleika vefsins. Í stað þess að hitta fólk í kaffi eða hringja þá fara samskipti að miklu leyti fram í gegnum vefinn. Í stað þess að fara á bókasafnið og leita upplýsinga eða fara á ferðaskrifstofu og kaupa flugseðil má græja allt í netheimum. Ég get verið í Tíbet á göngu og uppfært Fésbókarsíðuna mína með gemsanum og skellt inn myndum í rauntíma nánast.
Mörg skrefin eru spöruð og mál afgreidd hratt sem áður tóku óratíma. Vefurinn er samt sem áður einnig einn mesti tímaþjófur dagsins í dag. Margt sem snýr að vefnum á sér alveg tvær hliðar. Hina jákvæðu hlið og hina neikvæðu hlið. Bloggið til dæmis getur verið frábær vettvangur til þess að koma skoðunum sínum á framfæri eins og ég er að gera núna. Bloggið getur virkað eins og síkvikur þjóðarpúls sem alltaf er á vaktinni. Bloggið endurvarpar að einhverju leyti því sem áður fór fram á kaffistofum, eða hvað? Að einhverju leyti kemur margt fram á blogginu sem fólk hefði ekki þorað að segja blákalt. Sum góð skrif birtast einnig á blogginu sem fólk hefði ekki náð að orða á sama máta í talmáli.
Fésbókin er ámóta lífspúls. Alltaf á vaktinni. Fólk sem maður þekkti ekkert er allt í einu orðið hluti af netinu manns. Farið að koma með athugasemdir og fylgjast með. Einhver sem maður þekkir ekki vel veit kannski bara heilmikið um mann, hvað maður er að gera og ýmsar hugleiðingar sem flotið hafa um kollinn á manni niður á lyklaborðið.
Þessi togstreita er ansi erfið. Maður vill vera með í þessum skemmtilega samskiptaheim. Vill miðla sínu og drekka í sig það sem aðrir hafa fram að færa. Stundum læðist þó að manni að kannski væri betra að loka þessu öllu bara og fara að lifa lífinu án netheima, bloggheima og Fésbókar. Því það er óþægileg tilhugsun að vera berskjaldaður að þessu leyti og vita í raun ekkert hver fylgist með manni og hver ekki. Varðandi Fésbókina þá veit maður í raun ekkert hvað eigendur síðanna geta gert við t.d. myndirnar manns.
Það er stór ákvörðun að taka og velta fyrir sér hvort maður eigi að vera eða ekki vera!
Flóttinn frá Fésbókinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 6. september 2009
Opnunartími verslana
Ég skil ekki þessa menningu sem hér hefur skotið niður rótum að það þurfi að vera opnar verslanir allan sólarhringinn. Jafnvel í bæjarfélagi eins og Garðabæ eru tvær verslanir opnar allan sólarhringinn. Ég fór í Hagkaup í Garðabæ á föstudagskvöldið og það var helst eins og maður væri kominn inn í félagsmiðstöð unglinga frekar en verslun.
Væri ekki nærri lagi að hafa bara eina verslun opna á höfuðborgarsvæðinu sem seldi helstu nauðsynjar og loka hinum á nóttinni og lækka verð á matvöru fyrir það sem slík hagræðing hefði í för með sér?
Eina verslunin sem ég tel nauðynlega þurfi að vera opin allan sólarhringinn er eitt apótek fyrir allt höfuðborgarsvæðið.
Hvað vilja neytendur? Vilja þeir greiða fyrir svona lúxus með himinháu verði á vörunum í körfunni?
Ég tel að endurskoða þurfi þessa menningu okkar sem komin er úr öllu hófi fram að hafa verslanir opnar alla daga, allan sólarhringinn. Með skemmri opnunartíma þarf fólk aðeins að skipuleggja sig betur. Í Danmörku eru 7/11 verslanir opnar allan sólarhringinn en þær selja sama úrval og bensínstöðvar hér. Annað er lokað, meira að segja alla sunnudaga nema fyrsta sunnudag í mánuði. Fyrst fannst manni þetta flókið en svo lærði maður bara að kaupa inn tímanlega. Ég tel amk. að þarna sé um ákveðið svigrúm að ræða sem nota megi til þess að ná niður verði fyrir neytendur.
Laugardagur, 5. september 2009
Hin mannlega velferðarbrú og skjaldborg
Stjórnarflokkunum hefur verið tíðrætt um velferðarbrú og að slá skjaldborg um heimilin. Hvorki hef ég séð brúna né skjaldborgina. Eina skjaldborgin sem ég hef séð í verki er skjaldborg lögreglumanna um Alþingishúsið þegar allt var á suðupunkti síðastliðið haust. Slíka skjaldborg gæti þurft að slá að nýju um sama hús ef ekki verður gripið til róttækra og sanngjarnra aðgerða fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu nú þegar Icesave þokunni og ESB haglinu hefur verið rutt frá í bili.
En tilefni þessa pistils er að hrósa þessu góða framtaki. Það sýnir svo kristaltært hvernig hinn mannlegi neisti er það sem þarf til að veita yl á erfiðum tímum. Mannlegt afl er það sem knýr okkur áfram. Hin raunverulega velferðarbrú og skjaldborg er fyrst og fremst byggð af okkur sjálfum. Þar sem við sem manneskjur hjálpumst að til þess að við sem heild komumst klakklaust í gegnum daginn og áfram veginn. Að sjá fram fyrir eigin þarfir og rétta fram hjálparhönd þegar einhver verður haltur í lestinni. Seinna gætum við sjálf þurft að grípa í hjálparhönd annars. Maður veit víst aldrei fyrirfram hvaða grjót eða þyrnar verða á vegi sérhvers okkar. Samvinnan er lykillinn að farsæld. Það þarf ekki flókin háskólapróf til þess að átta sig á þessari ævafornu og einföldu speki. Ef við hjálpumst að þá erum við betur stödd. Það sem við gefum af okkur til annarra kemur svo tífalt tilbaka til okkar sjálfra.
Undanfarin ár hafa sumir hlaupið eins og veðhlaupahestar áfram frjálshyggjuveginn sannfærðir af frumskógarspeki Darwins um að hinir hæfustu muni lifa af og engin ástæða sé til að hjálpa öðrum því hver sé sinnar gæfu smiður og ef ég komist áfram þá skipti engu máli yfir hvern ég hleyp ef ég kemst áfram minn sprett í lífsgæðakapphlaupinu. Við fengum ekki öll jafngóða hlaupaskó í guðsgjöf.
Kannski verður það einn ríkasti lærdómur okkar af þessari kreppu að núna þurfum við að taka upp gömlu góðu gildin og smíða saman velferðarbrú sem slær skjaldborg um okkur öll. Við getum nefnilega ekki ætlað stjórnvöldum eingöngu að gera það. Við þurfum að byrja á því hjá sjálfum okkur. Ef hver einasta manneskja hægir aðeins á sér og lítur um öxl til þess að geta rétt fram hjálparhönd þar sem þarf þá getum við í sameiningu lyft okkur upp úr þeim þunga pytti sem við spólum annars í.
Stuðningur í verki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |