Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 4. september 2009
Leiðrétting á stöðu heimilanna
Mörg íslensk heimili standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Um það þarf ekki að fara mörgum orðum. Flestir eru sammála um það. Um margt annað eru menn ekki sammála og meðal annars það hvernig eigi að bregðast við þessari stöðu.
Eins og ég sé stöðuna þá eru mörg þessi heimili að súpa seyðið af röðum mistaka stjórnvalda, ónýts regluverks og eftirlits hér á landi sem erlendis. Hér fór partýið úr böndunum og hinn almenni íslenski borgari á að greiða fyrir og vaska upp eftir þá veislu. Það þykir mér því augljóst að þar sem staðan er svona þá þurfi að minnsta kosti að gæta sanngirni að því hvernig uppvaskinu er háttað.
Það getur ekki talist réttmætt að aðeins þeir sem verst eru staddir fái aðstoð því sá hópur er ansi víðfeðminn þessa dagana, allt frá sárafátæku fólki upp í fólk sem "á" margar íbúðir og lúxusbíla. Nú þegar hefur verið dælt inn fjármagni í peningamarkaðssjóðina til þess að verja stöðu fjármagnseigenda, fyrirtæki hafa fengið einhverjar afskriftir og að lokum á að skoða afskriftir til þeirra sem verst standa og munu aldrei geta greitt lán sín. Er það sanngjörn leið fyrir þann sem bar ábyrgð á sínum fjármálum og eyddi ekki langt úr hófi fram að hann greiði fyrir afskrift láns nágrannans sem tók mikla áhættu í fjármálum? Svarið í mínum huga er nei. Það er aldrei hægt í svona fámennu þjóðfélagi að draga línu sem sanngjörn gæti talist. Slíkt verður einungis til þess að skapa verulega ókyrrð í samfélaginu (svo vægt sé til orða tekið) og það þurfum við síst í miðju uppbyggingarstarfi.
Því þarf að koma til almennrar skuldaleiðréttingar þar sem lán allra eru leiðrétt með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á þeim í kjölfar hrunsins. Þetta þarf að vera hlutfallsleg leiðrétting með ákveðnu þaki. Þeir sem fara yfir þetta þak þurfa önnur úrræði. Þarna er komist eins nálægt því og hægt er að það sama gangi yfir alla. Þrátt fyrir að einhver sem er með hærra lán fái hærri afskrift þá hefur hans lán hlutfallslega hækkað jafn mikið og hins. Þeir sem skulda engin lán fá ekki neitt og tel ég það vera eðlilegt þar sem þeir eru ekki með lán sem eru komin langt umfram áætlanir. Þetta snýst í raun um leiðréttingu til þess að sem langflestir eigi þess kost að standa í skilum óháð því hver staða þeirra var áður.
Ég tel að stjórnvöld séu að átta sig betur á þessu og vona það. Þetta er lykillinn að því að hér geti skapast sátt um þá uppbyggingu sem stendur okkur fyrir dyrum. Þau úrræði sem fyrst voru í boði hafa sannað það að þau eru ekki að virka. Að gera fólk að hálfgerðum glæpamönnum með tilstjónarmann á bakinu og vanskilaskrá vegna skuldahækkunar sem almenningur ber ekki ábyrgð á er ekki leiðin til þess að fá samfélagið í lið með sér og eru þessar leiðir fallnar um sjálfar sig að mínu mati.
Bendi á áhugaverða grein sem birtist á Vísi um almenna skuldaleiðréttingu http://www.visir.is/article/20090902/SKODANIR03/732187957/-1
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 3. september 2009
Þessi blessaða ást
Ég held að flest okkar eyðum drjúgum tíma í hugleiðingar tengdar þessu flókna fyrirbæri. Það líður ekki sá dagur að ástin minni ekki á sig með einum eða öðrum hætti. Um hana eru ortar sögur, ljóð, lög og endalaust getum við hugleitt hana og rætt. Hún er ómissandi þáttur í allri mannlegri tilveru og birtingarmyndir hennar óteljandi.
Að verða ástfanginn er dásamlegra en allt sem orð fá lýst. Allt lífið ljómar og lifnar við og hver einasta fruma í líkama manns vaknar og brosir. Maður byggir skýjaborgir í huganum og sér lífið í nýju ljósi. Það er svo magnað að fá þetta tækifæri til þess að gefa einhverjum alla sína ást og ekki síður ef maður fær líka tækfæri til þess að þiggja hana á móti. Jing og jang er ekki algengt og því verður þessi gjöf stundum einhliða og þeir sem ná að upplifa ástina fljóta í báðar áttir eru lukkunnar pamfílar.
Jafnyndisleg og ástin er þá getur hún orðið skelfileg og sár þegar hún gengur ekki upp. Við getum aldrei lesið huga hins aðilans og það eina sem við getum vitað með vissu er okkar eigin hugur og hjarta. Þegar ástin skilur eftir sig djúp ör þá dauðsér maður eftir því að hafa lagt í þá háskaför sem ástin bauð upp í. En þegar betur er að gáð þá er það áhætta sem er þess virði. Ef maður upplifir aldrei sára ástarsorg þá upplifir maður ekki hina sönnu ást því þetta eru tvær órjúfanlegar hliðar á sama peningi.
Að reikna út hver er stóra ástin, sá eða sú eina sanna er ansi flókið reikningsdæmi. Það gæti orðið erfitt að skilgreina hver falli innan þessa flokks og geti því talið upp í tólf. Þannig gæti orðið erfitt að finna út nákvæmlega þann tólfta til að vita hvar maður er staddur í ferlinu! Best að ruglast ekki í talningunni!
Tólfta ástin sú rétta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 2. september 2009
Rjúkandi heitur málefnafundur laugardaginn 5. sept. frá 11-13
Málefnafundur verður haldinn í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33 laugardaginn 5. september frá 11-13.
Efni fundarins eru ályktanir um velferð, mannréttindi og lýðræði sem leggja á fyrir Sambandsþing SUF 12. -13. september n.k.
Þetta er þitt tækifæri til þess að hafa bein áhrif á mikilvægar ályktanir og taka þátt í góðri umræðu og léttu spjalli til að hita upp fyrir Sambandsþingið.
Allir velkomnir!
Hlökkum til að sjá þig og lofum að rjúkandi heitt verður á könnunni! J
Kær kveðja,
Kristbjörg Þórisdóttir og Einar Gísli Gunnarsson hópstjórar hóps 4.
Þriðjudagur, 1. september 2009
Af hverju erum við svona reið?
Reiði er geðshræring sem verður til vegna mikillar óánægju, pirrings eða ógnar sem menn skynja gagnvart sjálfum sér eða öðrum, annaðhvort í fortíð nútíð eða framtíð. Ógnin getur virst raunveruleg eða ímynduð. Oft er reiði viðbragð við hótunum, ranglæti, vanrækslu, niðurlægingu eða svika auk annars. (tekið af www.wikipedia.org 1.9.2009).
Áður óþekkt reiði hefur blossað upp í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins í október á síðasta ári. Það þarf ekki nema að kveikja á útvarpinu til þess að heyra einhvern ausa úr skálum reiði sinnar eða fara inn á næstu kaffistofu eða annan stað þar sem fólk kemur saman til að upplifa þessa reiði. Fólk hefur einnig tjáð reiði sína á marga aðra vegu eins og með því að berja í potta og pönnur, hrópa ókvæðisorð að öðrum og unnið eignaspjöll á eigum þeirra sem taldir eru ábyrgir.
En hvers vegna ná sumir ekki að hemja þessa miklu reiði sína? Er hún gagnleg?
Ég tel að hluta til liggi svarið í því að fólk upplifir ógn við framtíð sína, ranglæti, vanrækslu gagnvart sér og svik. Það leiðir til óánægju, pirrings og reiði. Flest erum við miklar réttlætisverur og höfum ákveðna ímynd af því hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir sig. Við viljum sanngirni, réttlæti og heiðarleika.
Þegar við höfum fylgst með atburðum í fjölmiðlum í nánast heilt ár þar sem fjallað er um svik og óheiðarleika sem framin hafa verið í mörg ár án þess að trúverðuglega sé brugðist við til þess að rétta af kúrsinn þá brjótast út vonbrigði, reiði og ógn við þann réttlætisheim sem við viljum búa í.
Maður upplifir sig hjálparvana og vonlausan því ástandið er óviðunandi en ekki er augljóst hvernig hægt sé að bæta ástandið. Því má segja að reiðin sem margir upplifa sé réttlát reiði. Hitt er annað mál að hver og einn þarf að bera ábyrgð á því í hvaða farveg hann beinir reiði sinni og hvort það sé uppbyggjandi eða af því hljótist enn meiri skaði en orðinn er. Því má spyrja sig hvort þessi reiði sé okkur gagnleg eða ekki?
Því miður er reiðin þannig tilfinning að þrátt fyrir að ausa úr henni eftir sínum eigin leiðum þá er ekki víst að okkur líði neitt betur eða náum neinu fram með því að beina henni gegn öðrum. Að leggjast jafn lágt og sá sem olli okkur tjóni "auga fyrir auga eða tönn fyrir tönn" aðferðin kemur okkur sennilega ekki langt.
Því er það eitt stærsta verkefni stjórnvalda og okkar allra á næstu misserum að finna leiðir til þess að bregðast við því tjóni sem orðið hefur af sanngirni og réttlæti og skapa þá von og trú að við munum ná okkur upp og stefna á nýja sókn fram.
Það þarf að komast að niðurstöðu um það hvað gerðist, hver gerði hvað og taka ákvörðun um viðeigandi refsingu viðkomandi aðila eins og hægt er. Einnig þarf að byggja upp á nýtt með trúverðugum hætti betra kerfi sem lært hefur af fortíðinni. Sýna þarf almenningi virðingu og þeir sem bera ábyrgð þurfa að sýna iðrun og biðjast afsökunar á sínum hlut. Einnig þarf að finna leiðir til þess að sætta landsmenn hvar sem þeir standa í þessu ferli og setja fram skýr markmið um það hvert við stefnum og hvernig við ætlum að stefna saman þangað þegar við höfum náð að hreinsa til brunarústirnar.
Að ætla sér þá leið sem stjórnvöld hafa farið að loknu hruninu að hygla fjármagnseigendum, fyrirtækjum, útvöldum skuldurum og láta vinnandi almenning borga fyrir veisluna sem honum var ekki boðið í er langt frá því fallið til þess að draga úr reiði eða skapa þá sátt sem okkur er nauðsynleg ætlum við að byggja þetta land. Það er til þess fallið að skvetta olíu á eldinn og brenna niður það sem eftir er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. ágúst 2009
Héraðshátíð Framsóknarmanna í Skagafirði
Hluta helgarinnar eyddi ég ásamt fríðu föruneyti nokkurra SUF-ara (ungra Framsóknarmanna) í faðmi Skagafjarðar. Tilefnið var héraðshátíð nokkur sem endurvakin hefur verið og haldin er nú árlega.
Mig langar að nota tækifærið og þakka fyrir mig. Þakka Skagfirðingum fyrir góðar móttökur og Framsóknarfólki fyrir skemmtilega samveru. Það er og verður ætíð þannig að þar sem Framsóknarmenn og konur koma saman - þar er gaman!
Ég er líka hrifin af því að halda í gamlar og góðar hefðir. Að hittast saman í góðum hópi, borða góðan mat, ræða saman, syngja og dansa er sígilt og fellur aldrei úr gildi. Þannig kynnist maður nýju fólki og tryggir böndin við þá sem maður þekkir nú þegar.
Fátt verður svo íslenskara en að hlusta á Álftagerðisbræður hefja upp raust sína og syngja lagið Ísland er land þitt svo skagfirsku fjöllin taka undir og ljóma.
Takk fyrir mig!
Framundan er svo Sambandsþing ungra Framsóknarmanna sem haldið verður hér í Mosfellsbæ 12. - 13. september næstkomandi. Þar mun ungt Framsóknarfólk af öllu landinu koma saman til að þinga um stefnumálin, velja sér forystusveit og skemmta sér saman. Hvet alla sem áhuga hafa á því að senda fyrirspurn á suf@suf.is (eða skrá sig!) og kíkja á síðu SUF www.suf.is þar sem nálgast má frekari upplýsingar. Það verður tekið vel á móti ykkur :).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.8.2009 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 28. ágúst 2009
Í túninu heima
Þessa helgina stendur yfir hátíðin "Í túninu heima" hérna í Mosfellsbænum. Ég var einmitt að koma heim af brennu sem haldin var í tilefni hátíðarinnar.
Mér finnst þetta skemmtileg þróun hjá landanum að þessar bæjarhátíðir eru að verða sívinsælli. Kannski er þetta einmitt lýsandi fyrir þá hugarfarsbreytingu sem er að verða í þjóðfélaginu að það sé líka gott að vera í túninu heima. Grasið er ekkert alltaf grænna hinum megin... og því ágætt að rækta garðinn sinn og njóta.
Það er nefnilega ýmislegt heim að sækja hvort sem það er á bæjarhátíð heimabæjarins eða ferðalag um okkar fagra land. Við erum nefnilega talsvert ríkari en kannski margur gerði sér grein fyrir sem var þotinn upp í flugvél af "skerinu" um leið og færi gafst. En það er einmitt við aðstæður sem núna eru uppi sem fólk lærir mikið, endurmetur gildismatið og eitt af því er að kunna betur að meta það sem maður hefur í túnfætinum.Oft er ánægjan nær en mann grunar. Hugarfarið skiptir öllu máli og hamingjuna sköpum við fyrst í huganum og svo í næsta nágrenni okkar. Til dæmis með því að skreyta húsin okkar og göturnar í öllum regnbogans litum og gera okkur dagamun.
Mig langar einnig að óska Mosfellsbæ til hamingju með nýja heimasíðu www.mos.is sem opnuð var formlega í dag. Það vakti alveg einskæra ánægju mína að tekið er fram á síðunni að hún sé hönnuð með það að leiðarljósi að hún muni ná hæstu vottun fyrir aðgengi þannig að hver sem er geti lesið hana hvort sem það er í gegnum lesvél eða annað. Ég vona að síðan standist allar væntingar mínar. Aðgengi að heimasíðum hefur verið mér mikið hjartans mál og hef ég oft skrifað um það og rætt og tel ég víða pott brotinn í þeim efnum. Ég tel það grundvallaratriði að allar opinberar síður, síður fyrirtækja og aðrar almennar síður uppfylli grundvallarskilyrði um aðgengi þannig að þær séu í raun fyrir okkur öll. Það skref hefur Mosfellsbær tekið núna og er það til eftirbreytni!
Til hamingju með hátiðina og heimasíðuna kæru Mosfellingar :)
Fimmtudagur, 27. ágúst 2009
Stelpurnar okkar!
Stelpurnar okkar hafa tekið fyrsta skrefið inn í framtíðina.
Þrátt fyrir að það hefði verið toppurinn að ná sigrum í þessum tveimur leikjum þá eru þær búnar að standa sig eins og sannkallaðar hetjur. Stærsti sigurinn felst í því að koma liðinu á slíkt stórmót og með því koma kvennaknattspyrnunni rækilega á kortið hér á landi. Skyndilega hefur landinn eignast stelpurnar okkar í stað þess að eiga bara strákana okkar! Það er mikil breyting.
Ég hef fylgst með liðinu með öðru auganu og fyllst stolti. Ég er stolt af því að upplifa viðhorf þeirra og stemninguna sem hefur verið ríkjandi í liðinu. Þær hafa haft viðhorf sem öll þjóðin mætti tileinka sér. Að gefast aldrei upp og berjast fram í rauðan dauðann. Margrét Lára hefur til dæmis verið áberandi glæsilegur talsmaður þess að gefa ekkert eftir. Oft hef ég hugleitt það að þær þyrftu að messa aðeins yfir forystumönnum þjóðar okkar. Þær hafa kraftinn, þorið og duginn sem á köflum hefur skort í ýmsa frammámenn þjóðfélagsins.
Sjálf spilaði ég fótbolta á mínum yngri árum. Ég man þá tíma sem kvennaknattspyrnan var mörgum áratugum á eftir karlaknattspyrnunni. Hún var varla sýnd í sjónvarpinu og tómir bekkir voru á öllum leikjum jafnvel þótt væri frítt inn á þá. Sem ung knattspyrnukona hafði maður því ekki eins áberandi fyrirmyndir og strákarnir höfðu. Það mun taka tíma að ná kvennaboltanum enn lengra en ég tel að nú sé boltinn kominn það vel af stað að við munum uppskera mjög ríkulega í framtíðinni og eiga raunverulega möguleika á því að blanda okkur í toppslaginn. Þetta er aðeins fyrsta skrefið. Áfram stelpurnar okkar - Áfram Ísland :).
EM: Við ætlum aftur á stórmót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 26. ágúst 2009
Framsóknarleiðin í leiðréttingum lána
Ég er sátt með mína menn að standa fast í lappirnar og með sannfæringu okkar Framsóknarmanna um það að ekki sé hægt að samþykkja Icesave málið. Tilefni þessa pistils er hins vegar skylt mál en annað.
Ég fylgdist með Lilju Mósesdóttur í Kastljósinu í kvöld í góðu viðtali um afskriftir lána sem mikið hefur verið í umræðunni undanfarið. Ég vil byrja á því að þakka fyrir og hrósa þeim þingmönnum Vg (Lilju, Guðfríði, Ögmundi og Ásmundi) sem hafa kjark og þor til þess að taka ákvarðanir út frá sinni sannfæringu en ekki eftir flokkspólitískri línu Steingríms.
Það sem rann upp fyrir mér er að það sem Lilja var að ræða um í viðtalinu varðandi almennar afskriftir er keimlíkt 20% leiðréttingu okkar Framsóknarmanna sem við héldum mikið á lofti fyrir kosningar. Sú tillaga hlaut ekki meðbyr stjórnvalda og meiru púðri var eytt í að berja hana niður heldur en að skoða hana með sanngjörnum hætti. Það kom einnig fram í viðtalinu að mörg þau rök sem Lilja notaði eru þau sömu og við Framsóknarfólk notuðum í vor. Þau rök eru m.a. þau að erfitt sé að greina að hver ætti að fá aðstoð og hver ekki og sé of mikið bákn til að það geti virkað, þeir sem "þurfi ekki" leiðréttingu muni skila súrefni inn í hagkerfið með m.a. aukinni neyslu (sem bætir aftur heildarhag okkar, betra sé að grípa í taumana strax áður en fleiri fara í þrot og skaðinn verður meiri og einnig hefur verið nefnt að það sé ekki nema sanngjarnt að hluti af þeim afskriftum sem nú þegar hafa orðið eigi að sjálfsögðu að renna til þeirra sem sitja uppi með stórbrengluð lán í stað þess að einungis sé brugðist við gagnvart fjármagnseigendum og kröfuhöfum en skuldarar skildir eftir í pyttnum.
Ég skil ekki hvernig Samfylkingarfólk og sumir í Vg ætla sér að afskrifa lán sumra en ekki annarra á jafn fámennu landi án þess að úr verði gríðarleg óánægja, spilling, sundrung og nánast borgarastyrjöld. Halda þau að almenningur sem situr uppi með kexrugluð lán en hefur sýnt skynsemi í að standa sínar skuldir muni sitja hljóður og borga sín himinháu lán á meðan t.d. Jón Jónsson sem "missti sig" í góðærinu, situr uppi með fleiri en eina íbúð, lúxusbíla og flatskjái fær bót sinna mála? Þarf eitthvað að ræða það? Í mínum huga er þetta glapræði og aðgerð yfir alla línuna er það eina sem vit er í þó ég geri mér fulla grein fyrir því að slíkt er flókið og dýrt í framkvæmd. Heildarhagsmunum okkar er þrátt fyrir það betur varið þannig að mínu mati og þannig er óvenjuleg staða okkar allra leiðrétt með sanngjarnari hætti.
Óvíst um sjálfstæðisatkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 19. ágúst 2009
Ófær og ósanngjörn leið Samfylkingar
Vísir, 19. ágú. 2009 03:30
Stjórnarliðar ræða um afskriftir skulda
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.Almenningur þrýstir mjög á þingmenn að gera eitthvað til að laga skuldavanda heimilanna, til lengri tíma séð.
Um leið hafa lánastofnanir fundið fyrir minni greiðsluvilja, því lánin hækka á sama tíma og eignir lækka í verði.Þetta segir formaður félagsmála- og trygginganefndar Alþingis. Nú ræði þingmenn um almennar afskriftir húsnæðisskulda.
Nefndin fjallaði um úrræði skuldara í gær og fékk á sinn fund fulltrúa viðskiptabanka ásamt fulltrúa nefndar félagsmálaráðherra um endurmat á löggjöf og úrræðum fyrir skuldsett heimili.Það er búið að færa fé frá skattgreiðendum til fjármagnseigenda í gegnum peningamarkaðssjóði og það ríkir ekki almenn sátt um það. Það er óhjákvæmilegt að afskrifa einhverjar skuldir heimilanna, eins og það þarf að afskrifa skuldir fyrirtækja," segir formaður félagsmálanefndar, Lilja Mósesdóttir.
Hún kallar þetta að lágmarka það tap sem samfélagið hefur af gjaldþrotum". Mikilvægt sé að viðhalda greiðslugetu fólks. Frysting erlendra lána hafi takmarkað gildi, og greiðsluaðlögun hafi ekki gengið sem skyldi. Krafa sé uppi um skýrar aðgerðir til lengri tíma.
Spurð hversu hátt hlutfall skulda sé rætt um að afskrifa segir Lilja að það mótist af því hversu miklar afskriftir hafi orðið af húsnæðislánum, þegar þau voru færð úr nýju bönkunum og yfir í þá gömlu. Bankarnir hafi enn ekki gefið það upp.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaformaður nefndarinnar, lítur öðruvísi á málin. Hún vill afskriftir fyrir þá sem verst standa. Almennar niðurfellingar eru ekki á stefnuskrá Samfylkingar né í stjórnarsáttmála. Það eru engir fjármunir til í þetta og ég sé ekki hvaðan þeir ættu að koma. En við þurfum að taka á okkur álögur vegna fólks sem er í alvarlegum vandræðum. Þær byrðar eigum við að bera saman. En þeir sem tala fyrir almennri niðurfellingu hafa aldrei beinlínis sagt hver á að borga fyrir þetta. Það væri gaman að vita."
Þessi leið Samfylkingarmanna að ætla sér að fella einungis niður skuldir þeirra verst settu er að mínu mati ófær og ósanngjörn. Það er engin leið að meta á sanngjarnan hátt hver ætti rétt á slíku og hver ekki. Slík leið gæti til dæmis umbunað þeim sem fóru hvað mest fram í lífsgæðakapphlaupi því sem tíðkast hefur undanfarin misseri hér í landi. Á að fella niður skuldir þeirra sem keyptu sér stærstu skuldahalana, stærstu flatskjána, bröskuðu með fleiri en eina íbúð og óku um á Game Over og Bömmer? Að sama skapi eiga þeir sem sýndu aðhald í fjármálum sínum og eyddu ekki langt um efni fram látnir greiða fyrir þá sem "misstu sig". Þessi leið mun einungis sundra þjóðinni og nóg er nú samt. Þetta er einnig varasamt í þjóðfélagi sem er jafn smátt og hér er því þarna er kjörinn jarðvegur fyrir enn frekari spillingu eins og þá að lán sumra yrðu felld niður en ekki annarra.
Það væri mun sanngjarnari aðferð að finna leið til þess að færa öll lán hlutfallslega niður eins og við Framsóknarmenn höfum barist mikið fyrir. Þannig er ekki verið að mismuna fólki og allir sitja við sama borð við það að skaði sá sem orðinn er verði lágmarkaður fyrir alla.
Ég geri mér grein fyrir því að hér er hluti okkar þegna sem á við verulega kröpp kjör að stríða. Þann hóp þarf að skoða sérstaklega en sá hópur er ekki svo stór. Þá á ég við þá sem hafa framfærslu sína einungis af tekjum frá Tryggingarstofnun vegna örorku, einstæðir foreldrar með mörg börn á framfæri, ungar fjölskyldur með mörg börn á framfæri og fleiri í þeim hópi. Þetta er allt annar hópur en sá sem spennti bogann langt umfram það sem hollt getur talist og ætlast til að fá niðurfellingu skulda sinna. Björgólfsfeðgar eru ýktasta dæmið um slíkt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 19. ágúst 2009
Í ruglinu
Vísir, 19. ágú. 2009 13:30
Get ekki ímyndað mér að gengið verði að bónustillögum Straums
Stefán Einar segist telja að tillögurnar um bónusgreiðslurnar séu úr öllum takti við það sem samfélagið horfir upp á í dag. Mynd/ Rósa.
Jón Hákon Halldórsson skrifar:
Þetta er auðvitað mjög vel í lagt og algerlega úr takti við það sem samfélagið horfir uppá í dag," segir Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur um þá hugmynd stjórnenda Straums að starfsmenn bankans fái bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans. Bónusgreiðslur sem gætu numið allt að 10 milljörðum króna á fimm árum eða 222 milljónum á hvern starfsmann bankans.
Stefán segir að miðað sé við endurheimtuhlutfall sem bendi til gríðarlegra búsifja kröfuhafa. Og ég get ekki ímyndað mér að menn gangi að tillögum sem þessum," segir Stefán Einar.
Nú er þetta lokað félag - þetta er einfaldlega eignasafn sem verið er að gera upp. Þetta er ekki banki sem er í rekstri. Og ég leyfi mér að efast um að núverandi stjórnendur séu svo þarfir til verksins að þessar fjárhæðir endurspegli mikilvægi þeirra. Ég get bara sagt að væri ég kröfuhafi myndi ég leita til annarra fagmanna um þetta," segir Stefán Einar. (tekið af www.visir.is í dag).
Þessir menn eru algjörlega í ruglinu.
Þegar maður les svona fréttir þá fyllist maður reiði. Hvernig er hægt að láta sér detta svona rugl í hug!!! Menn sem bera sumir hverjir ábyrgð á því í hvaða stöðu heil þjóð er og setja fram slíkar kröfur á meðan almenningur liggur á hliðinni ættu að kunna að skammast sín. Hversu langt er hægt að ganga í trú á eigið ágæti?
Stjórnvöld þurfa að taka vel á þessum atriðum þannig að það rugl sem viðgengist hefur undanfarin ár og náði hámarki með algjöru kerfishruni geti aldrei nokkurn tímann endurtekið sig. Það þarf að rannsaka ítarlega öll óeðlileg tilvik, gjaldfella lán á þessa menn, taka eignir þeirra upp í skuldir (erlendis sem hérlendis) og dæma þá. Endurskoða þarf það ónýta regluverk og eftirlitskerfi sem leiddi til þess að svona hlutir gátu gerst frá grunni.
Þetta þurfa stjórnvöld að gera og gera vel til þess að koma í veg fyrir að hér sjóði upp úr á næstu misserum. Hinn almenni skattborgari sem vinnur sína vinnu af samviskusemi hefur ekki endalaust langlundargeð til þess að horfa upp á slíka menn sem telja sig langt yfir aðra hafnir. Svo langt að þeir telja sig nánast vera gulls ígildi. Það eru ákveðin takmörk fyrir því hversu ómissandi þú getur talið þig vera og hversu mikið þú telur þig geta verðlagt þig sem einstakling og vinnuframtak þitt. Enginn er svo rosalegur starfskraftur að hann eigi skilið tekjur sem eru margföld árslaun meðalmannsins á dag.