Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóð á krossgötum

 

Íslenska þjóðin stendur á krossgötum. Þungbært ár er að baki með hruni bankanna og alvarlegum eftirmálum þess að kerfi sem talið var traust hrundi. Um leið hrundi sjálfstraust þjóðar sem taldi sig færa í flestan sjó... Verkefni okkar næstu misseri er að byggja upp sjállfstraust okkar sem þjóðar að nýju með dýrmætan lærdóm að leiðarljósi.

Á aðeins einu ári hafa hlutir sem áður þóttu sjálfgefnir orðið allt annað en það. Lífskjörum landsmanna er ógnað við núverandi aðstæður. Þjóðin er ráðvillt, veit ekki alveg hvað gerðist, hvað þarf að gera núna og hvert hún stefnir til framtíðar. Það mæðir því mikið á þeim sem veljast munu til leiðtogastarfa á næstu árum. Nú er tími upplýstrar samræðu, samvinnu, raunverulegra lausna, tafarlausra, hispurslausra aðgerða og framtíðarsýnar.

Á þeim tíma sem þjóðin gengur í gegnum má ekki gleyma þeirri jákvæðu hlið að einstakt tækifæri hefur skapast til þess að byggja margt í samfélagi okkar upp frá grunni og læra af þeim mistökum sem áður hafa verið gerð. Nú gefst tækifæri til þess að byggja upp samfélag sem gerir ráð fyrir öllum og byggir á jöfnuði og félagshyggju. Við höfum tækifæri til þess að hugsa stjórnskipun okkar upp á nýtt og endurgera stjórnarskrá okkar sem er ákaflega mikilvægt verkefni fyrir þjóðina alla.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem nú eru hefur því miður of mikið borið á gamalkunnri pólitík þar sem meira er lagt upp úr því að halda völdum, koma höggi á andstæðinginn og tillögur hans en vinna að betri lausn og betri niðurstöðu fyrir alla.

Við í Framsókn höfum verið boðberar breytinga og lagt mikið upp úr raunverulegum breytingum og uppbyggingu betra samfélags. Til þess að svo megi verða þarf að ná sátt um stjórnlagaþing þannig að hið raunverulega vald færist til þjóðarinnar til að endurgera stjórnarskrá okkar með þarfir og nútíma aðstæður í huga. Sú stjórnarskrá sem við búum við núna er barn síns tíma og eftir ótal tilraunir hefur það sannað sig að það er ekki á færi stjórnmálaflokkanna að ná fram breytingum á henni. Það þarf þjóðin sjálf að gera.

Einnig þarf að bregðast snarlega við þeim bráðavanda sem við okkur blasir á sem farsælastan hátt. 18 liða efnahagstillögur okkar unnar með aðstoð innlendra og erlendra sérfræðinga voru lagðar fram strax í vetur með því sjónarmiði að engan tíma mætti missa og aðgerða væri þörf strax! Í dag eru um 18 þúsund manns atvinnulaus og 10 fyrirtæki fara í þrot dag hvern. Það er því löngu ljóst að aðgerðir verða að hefjast STRAX eigi ekki að fara enn verr. Það er ekki tími til þess að meta hverja fjölskyldu eða fyrirtæki fyrir sig í rólegheitunum og koma svo til aðstoðar. Það þarf hjálp strax og með því að láta afskriftir þær sem nú þegar hafa verið gerðar og munu verða ganga áfram til skuldara í stað þess að bankarnir njóti þeirra einir má leiðrétta lán fólks sem gerði sínar skuldbindingar og áætlanir fyrir hrunið. Þannig er hægt að tryggja hag heildarinnar með því að fólk geti áfram staðið við sínar skuldbindingar og kröfuhafar fengið meira til baka en ella. Það er farsælli leið að slökkva eldinn áður en hann breiðir úr sér en þegar húsið er brunnið! Með því að eitt sé yfir alla látið ganga má keyra aðgerðirnar strax í gegn og fyrirbyggja í raun þá spillingu sem gæti orðið á jafn litlu landi þegar sumir fengju aðstoð en aðrir ekki.

Margar stórar spurningar bíða þjóðarinnar á krossgötum okkar. Ætlum við inn í ESB eða ekki? Er það hluti af lausninni? Við sammæltumst um þá leið á flokksþingi okkar að ganga til aðildarviðræðna til þess að vita á hvaða forsendum við gætum farið inn en hafa skýr skilyrði um auðlindir okkar, sjávarútveg og landbúnað að leiðarljósi. Til þess að finna farsælustu leiðina þarf að hafa möguleika á því að skoða ólíkar leiðir á landakorti. Ég tel ekki rétt að útiloka neitt en heldur ekki að vaða bara af stað eina leið án þess að kynna sér aðstæður fyrst!

Það er ljóst að næstu misseri verða þjóðinni mikilvæg. Við þurfum að vinna vel úr því sem gerst hefur í samfélagi okkar og nýta þau nýju tækifæri sem gerast í stað þess að festast í förum neikvæðni, úrræðaleysis og vonleysis. Við skulum heldur ekki líta á hvert annað sem ógn heldur fagna hverri góðri tillögu sem kemur fram og vonast þannig til sem farsælastrar niðurstöðu - fyrir okkur öll - saman!
mbl.is Fjórfalt fleiri í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið er tíminn... Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar kæru lesendur!

Ég vona að sumarið taki okkur öllum opnum örmum og sólin nái að lyfta lundinni og fylla okkur orku til þess að takast á við þau verkefni sem bíða okkar.

Í huga mínum sönglar Bubbi.... "Sumarið er tíminn...". Það á vel við í dag Smile.

 


mbl.is Sumar og vetur frusu saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er vinur Framsóknar í bloggheimum - stjörnublaðamennska DV...

Það er aldeilis stjörnu rannsóknarblaðamennska hjá blaðamanni DV að komast að því að ég og fleiri skulum vera vinir Framsóknar í bloggheimum þegar við erum skráð á lista á heimasíðu flokksins og á veitu sem kynnir nýjustu bloggin okkar. Þetta er stórfrétt! Flestallar heimasíður stjórnmálaflokka vísa á bloggsíður þeirra sem eru í flokknum og eru duglegir að blogga. Fáum dytti í hug að skrifa frétt um jafn auglljósan hlut.

Hvað mig varðar er nú ekki um nein stórtíðindi að ræða. Ég er flokksbundin Framsóknarkona og fer hvergi dult með það. Þessi bloggsíða er sett upp með því yfirlýsta markmiði að taka virkan þátt í samfélagsumræðunni og leggja mitt lóð á vogarskálarnar. Ég ber ein ábyrgð á mínum skrifum en skrifa auðvitað oft um eitthvað sem tengist Framsókn þar sem ég er virk í flokknum og síðan er pólitísk. Að öðru leyti skrifa ég oft um eitthvað sem er ekkert endilega á línu flokksins því ég aðhyllist sjálfstæði fólks og vil sjá draga úr hjarðhegðun þeirri sem einkennir stundum stjórnmálin. Með sjálfstæðum skoðunum tel ég okkur öll komast lengra með fjölbreyttari flóru en einungis það sem rúmast innan ákveðinna lína.

En þessi fréttamennska DV er ákaflega lýsandi fyrir það sem hinn almenni Framsóknarmaður eða kona þarf oft að eiga við. Eðlilegustu hlutir eru gerðir tortryggilegir einungis til þess að kasta rýrð á okkur því flokkar eru einungis fólkið sem í þeim er. Fyrir síðustu kosningar sá þessi sami blaðasnepill sér ástæðu til þess að gefa út heilt blað einungis til þess að draga niður einn ákveðinn stjórnmálaflokk, Framsókn. Mikið vona ég að í náinni framtíð sem við ætlum öll að byggja upp saman hætti fjölmiðlar að vera svona hrikalega hlutdrægir og vinna stundum eins og strengjabrúður pólitíkurinnar. Það er ekki farsælt fyrir neinn. Við þurfum hlutlausa fjölmiðla sem láta af svona lélegri "stjörnublaðamennsku" sem er á afar lágu plani!


Heiðarleiki - traust ? Hvar hefur þjóðin flokkana?

Það var merkileg upplifun að horfa á borgarafundinn í kvöld. Ég veit hreinlega ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta. Ég hugsaði með mér að illa er fyrir okkur komið ef þetta er rjóminn sem á að stjórna landinu okkar!

Menn töluðu í svo mikla hringi, gáfu ekkert upp, vissu varla hvort þeir voru að koma eða fara.

Þetta er bara ekki boðlegt þjóð í þeim gríðarlega vanda sem blasir við okkur næstu misseri. Mér fannst nú bara frambjóðandi lýðræðishreyfingar Ástþórs og Sturla oft eiga bestu sprettina... Þeir töluðu þó hreint út! Svandís og Vigdís áttu líka góð innlegg.

Hvar er heiðarleikinn sem kallað hefur verið eftir, skýru svörin og allt upp á borðið? Halda þessir frambjóðendur að þeir muni ávinna sér traust þjóðarinnar með svona málflutningi?

Margir þeirra eyddu líka meiri tíma í því að reyna að koma höggi á andstæðinginn en að ræða það sem skiptir máli. Hvað á að gera næstu dagana, næstu vikurnar og næstu mánuðina til þess að forða okkur frá algjöru hruni? Hvernig á að gera upp fortíðina? Hver er framtíðarsýnin?

Reyndar má segja það að spyrlar þáttarins, hið annars ágæta fólk, voru svolítið í þessum hefðbundna borgarafunds æsingaham þar sem var verið að festa umræðuna í neikvæðni í stað þess að ræða á uppbyggilegri nótum um hvert við erum eiginlega að fara...

Mér þykir það líka í hæsta lagi hjákátlegt að Samfylking og Vinstri-grænir sem ganga bundin til kosninga skuli bjóða þjóðinni upp á út og suður, norður og niður svör varðandi eitt stærsta mál nánustu framtíðar, ESB. Fyrir utan öll hin málin sem þau eru ekki samstíga með eins og t.d. álver og olíuleit. Þetta lítur bara hreint ekki vel út fyrir þjóð sem er örmagna eftir undanfarið hrun og þarfnast kjarkaðra, alvöru aðgerða!

Fólk á sem sagt ekkert að fá að vita hvað það er í raun og veru að kjósa á laugardaginn? Aðildarviðræður að ESB strax í sumar eða bara alls ekki?

Það kemur í ljós bara eftir kosningar!

Fólk veit ef það kýs Framsókn að það er að kjósa flokk sem:

  • Vill lýðræði í framkvæmd - stjórnlagaþing
  • Hefur unnið tillögur að lausnum í efnahagsmálum í 18 liðum
  • Vill leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja strax um 20%
  • Vill ganga til aðildarviðræðna við ESB en með ströng skilyrði um að vernda sjávarútveg, landbúnað og auðlindir í farteskinu
  • Vill auðlindaákvæði í stjórnarskrá
  • Nýtir sér aðstoð færustu sérfræðinga til þess að leysa aðkallandi verkefni
  • og margt margt fleira...

Við erum lausnamiðuð, höfum framtíðarsýn og við látum verkin tala!


mbl.is Trúi ekki að Samfylkingin láti stranda á ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum vörð um heimilin - myndband


Hvað ætlar þú að kjósa? X-Breytingar!

Næstkomandi laugardag þann 25. apríl gengur þjóðin til kosninga og kýs sér nýja forystu. Kosningar þessar eru sennilega þær mikilvægustu á lýðveldistímanum.

Þær snúast um það að kjósa það fólk og framboð sem hver og einn treystir best til þess að fylgja eftir rannsókn á efnahagshruninu, takast á við bráðavanda heimila og fyrirtækja, vinna að úrlausn til framtíðar og uppbyggingu betra samfélags. Nú dugar ekki lengur að karpa og þrasa um keisarans skegg... Það sem hjálpar íslenskri þjóð er málefnaleg, góð og lausnamiðuð umræða.

Við í Framsókn höfum í vetur verið boðberar nýrra tíma og um okkur leika ferskir vindar breytinga. Í janúar kusum við okkur nýja forystu til að leiða okkur inn í nýja tíma. Flokkurinn hefur afrekað ótalmargt þau rúmlega 90 ár sem hann hefur starfað og verið kjölfesta í íslensku samfélagi. Hann hefur líka gert mörg mistök í gegnum tíðina og stundum borið af leið frá grundvallarstefnu sinni. Við erum reynslunni ríkari og gerum betur í dag en í gær!

Við erum flokkur sem lætur róttækar aðgerðir fylgja orðum. Í vetur og vor höfum við barist af alefli fyrir stjórnlagaþingi sem færa myndi þjóðinni tækifæri til þess að semja sér nýja stjórnarskrá og gera grundvallarbreytingar á stjórnskipun landsins. Stjórnarskrá okkar sem er nánast óbreytt frá Danakonungi er barn síns tíma og þarfnast þeirrar endurgerðar sem lengi hefur staðið til að gera. Grundvallaratriði þarf að skoða eins og til dæmis að skerpa á þrískiptingu ríkisvaldsins, auka möguleika til persónukjörs og setja inn ákvæði um að auðlindir okkar séu í þjóðareigu. Því miður tókst Sjálfstæðismönnum að taka þetta tækifæri af þjóðinni að minnsta kosti um sinn og svæfa í þinginu.

Við viljum aðgerðir strax og lýsti formaður flokksins því yfir að kjöri sínu loknu að hann vildi leita ráðgjafar færustu sérfræðinga til þess að takast strax á við bráðavanda heimila og fyrirtækja. Sú vinna fæddi af sér vel útfærðar efnahagstillögur í 18 liðum þar sem sú umræddasta fjallar um 20% leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja með því markmiði að forða enn frekara hruni.

Framsóknarmenn vildu einnig að kosið yrði við fyrsta tækifæri til Alþingis til þess að þjóðin gæti valið sér nýja leiðtoga við gjörbreyttar aðstæður. Kosningarnar á laugardaginn eru í boði Framsóknar sem náði að ýta fyrrverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðismanna upp úr þeim pytti úrræðaleysis sem þeir sátu með alla þjóðina fasta í.

Margt af því sem við í Framsókn höfum talað fyrir hefur komið fram í stefnu ýmissa grasrótarhópa og borgarahreyfinga sem sprottið hafa upp úr jarðvegi búsáhaldarbyltingarinnar. Það má ekki gleymast í þeirri umræða sem ríkt hefur um fjórflokkana að stjórnmálaflokkur er hvorki meira né minna en fólkið sem í honum er. Mín reynsla er sú að stjórnmálaflokkar séu ekki lokað vígi heldur fjöldahreyfingar sem hver og einn getur gengið inn í og haft mikil áhrif fylgi áhugi og vilji til virkrar þátttöku. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að sem flestir taki þátt í því að reisa nýtt og betra Ísland. Saman komumst við lengra!

Ekkert er svo slæmt að það boði ekki eitthvað gott. Það má segja um þá erfiðu og dimmu tíma sem nú ríkja. Á þessum tímum má aldrei gleyma því einstaka tækifæri sem landsmenn hafa til þess að hugsa samfélag sitt frá grunni, hugsa út fyrir rammann af krafti og þor og byggja upp á nýtt reynslunni ríkari.

Ég hvet þig kjósandi góður til þess að skoða vel stefnumál okkar Framsóknarfólks og hvað við sem flokkur og frambjóðendur okkar standa fyrir í dag og merkja X við B á laugardaginn. Við munum leggja okkur öll fram við að byggja upp betra samfélag fyrir okkur öll með góðu liðsinni þínu!

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is 21.4.2009)


mbl.is Margir ætla að skila auðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverðir fundir á morgun!

Tveir mikilvægir fundur með Sigmundi Davíð á morgun miðvikudag!

 

SIGMUNDUR DAVÍÐ OG TUTTUGU PRÓSENTIN Á GRAND HÓTEL REYKJAVÍK

 

Sigmundur Davíð mun kynna og skýra út tillögur Framsóknarflokksins um 20% leiðréttingu lána á morgunverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 22. apríl klukkan 8:00.

Allir velkomnir.

 

 

SIGMUNDUR DAVÍÐ OG LIFANDI MIÐBÆR Í IÐNÓ

 

Sigmundur Davíð skipulagshagfræðingur og formaður Framsóknarflokksins mun kynna hugmyndir sínar um uppbyggingu lifandi miðbæjar í Reykjavík á fundi í Iðnó miðvikudaginn 22. apríl kl. 17:00 - 19:00.

 

Allir velkomnir

 

Hallur Magnússon

Kosningastjóri Framsóknar í Reykjavík


Geðveikt kaffihús!!!

Geðveikt Kaffihús Hugarafls verður haldið 2. maí í Hinu Húsinu. Tími: 11:00 – 17:00 (11-5)
sjá frekari upplýsingar á www.hugarafl.is

37 stunda vinnuvika?

Síðastliðinn fimmtudag var ég stödd á framboðsfundi í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.

Margt áhugavert kom fram á fundinum. Eitt af því sem barst til tals og vakti áhuga minn var hvort við Íslendingar ættum að stytta vinnuvikuna okkar niður í 37 stundir sem eina leið til þess að lækka launakostnað.

Mín skoðun er sú að þessi leið sé vel þess virði að skoða hana. Þetta er leið sem ætti að vera hægt að fara með þvert á alla og hlutfallslega stytta vinnuviku fólks í lægra starfshlutfalli á sama hátt. Að mínu mati er þetta mun heillavænlegri leið en sú að segja upp fólki.

Það hefur verið áberandi á Íslandi að við höfum í of miklum mæli "lifað til að vinna" á meðan frændur okkar Danir til dæmis "vinna til að lifa". Í Danmörku er algengt að hætta á hádegi á föstudögum og sækja börnin snemma í leikskólann og byrja þannig helgina vel.

Slík leið á auðvitað ekki við í öllum störfum eða við alla. Ég tel þetta vera eitthvað sem við ættum engu að síður að skoða. Ég tel að slíkt myndi ekki draga úr afköstum þar sem fólk næði þá betri hvíld og næði að samtvinna betur starf og fjölskyldulíf. Þessi tími er góð fjárfesting í börnunum okkar eða öðrum verkefnum sem sitja á hakanum í því vinnuæði sem einkennt hefur marga Íslendinga undanfarin ár.

Þarna mætti því slá margar flugur í einu höggi. Ég efa það ekki að þessi leið hefur verið rædd víðs vegar en ákvað að minnast á hana hér þar sem hún vakti sérlega áhuga minn og ég tel hana vera spor í þá átt sem ég myndi vilja sjá samfélagið fara.


Uppbygging atvinnulífsins - myndband


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband