Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samstaða, sjálfstæður vilji og pólitík

Þessa dagana fer fram val á framboðslistum flokkanna. Prófkjör eru haldin og margir keppa um gullsætin sem vísa veginn inn á Alþingi Íslendinga.

Þessi tími er erfiður fyrir stjórnmálaflokkana því á slíkum tímum reynir á samstöðu flokksmanna. Lokatakmark okkar allra er að fá sem hæfasta aðila inn á þing. Aðila sem þjóðin vill að starfi þar í umboði sínu. Aðila sem fylgja þeirri línu sem umbjóðendur hans eða hennar leggja.

Þetta þarf allt að gerast án þess að viðkomandi glati sínu eigin sjálfstæði eða falli í pytt hjarðhegðunar. Það er því ansi fín lína sem alþingismaður þarf að dansa á. Hann þarf að starfa af fullum heilindum í umboði þeirra sem völdu hann, sinna flokksmanna og stuðningsmanna en jafnframt að starfa af heilindum við sjálfan sig. Þetta getur stundum togast á.

Ég fagna því þegar þingmenn sýna það í verki að þeir hugsi sjálfstætt og fylgi sannfæringu sinni. Ég fagna því líka þegar þingmenn virða liðsheild sína án þess að glata sjálfstæðri hugsun. Þarna reynir verulega á þingmenn að útskýra á bjargfastan hátt hvers vegna þeir taka sínar ákvarðanir til þess að eyða þeirri óvissu sem skapast og dylgjum sem fara af stað um leið og þeir sýna ekki fyrirfram spáð atferli.

Lykilorðið í þessu öllu er TRAUST! Ef umbjóðendur treysta sínum fulltrúa þá veita þeir sveigjanleika fyrir því að hann taki ákvarðanir sem voru ekki þær sem spáð var í ljósi sannfæringar sinnar. Ef liðsmaður tekur sömu ákvörðun hlýtur hann að njóta trausts sinnar liðsheildar sem hlýtur að sýna sveigjanleika sé viðkomandi klárlega að fylgja sinni sannfæringu og horfa á heildarmyndina.

Þetta er því ekkert einfalt mál að standa saman og sýna sjálfstæðan vilja í sama mund. Sérstaklega þegar menn eru að keppa innbyrðis. Þeir sem eru í sama flokki eiga í flestum tilfellum mun meira sameiginlegt en það sem sundrar. Það er það sem við þurfum að horfa á, á sama tíma og sjálfstætt framlag hvers og eins er virt því það er það sem raunverulega kemur okkur áfram!

Það er breiddin sem skiptir mestu máli í liðsheild þar sem virðing og traust ríkir.


Geðrækt á víðsjárverðum tímum

Það eru víðsjárverðir tímar. Áður þekkt kerfi er hrunið og óvissa blasir við. Við þurfum að rannsaka hvað gerðist, hreinsa upp úr rústunum og byggja upp að nýju. Til þess að vel takist til þurfum við að vera vel á okkur komin, andlega sem líkamlega. Þannig getum við betur mætt þeim mótvindi sem blæs um samfélag okkar. Það er mikilvægt fyrir ríki og sveitarfélög að vanda sig vel og kasta ekki krónunni fyrir aurinn. Sparnaður getur komið út sem gríðarlegur aukakostnaður annars staðar ef dæmið er ekki reiknað til enda. Sem dæmi má taka að vanúthugsaður niðurskurður í velferðarkerfinu getur reynst okkur dýrkeyptur þegar upp er staðið. Heldur þarf að bæta í velferðarkerfið þannig að það geti sótt fram. Sókn er besta vörnin.

Eitt þeirra mörgu atriða sem huga þarf að er andleg heilsa okkar. Við þurfum að stunda geðrækt sem og líkamsrækt til þess að halda hug okkar og líkama í góðu jafnvægi. Þegar við lifum þá tíma sem nú eru uppi þar sem neikvæðni, streita, álag og óvænt áföll eru algeng verður mikilvægi sjálfsræktar enn meira. Ritað hefur verið um það víða, meðal annars á vef Lýðheilsustöðvar (sjá http://www.lydheilsustod.is/) að einn af hverjum fjórum Íslendingi þjáist af geðheilsuvanda af einhverjum toga á hverjum tíma. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru kvíði og þunglyndi meðal helstu orsaka heilsubrests og skerðingar sem hlotist getur í kjölfarið. Slíkt kostar samfélög gríðarlegar fjárhæðir fyrir utan þær afleiðingar sem ekki er hægt að mæla sem hljótast af slíku. Þunglyndi og kvíða hefur jafnvel verið líkt við faraldur sem herjar á hið vestræna samfélag. Og þessar spár komu fyrir kreppu... Núna er sennilega enn meiri hætta á ferðum því streita, álag og óvænt áföll auka líkur á þunglyndi og kvíða.

Þessu þarf að bregðast við af fullum þunga og það þarf að gerast strax. Auka þarf aðgengi almennings að sálfræðingum og öðru fagfólki með því að niðurgreiða þjónustu þeirra á sama hátt og annarra heilbrigðisstétta. Taka þarf í taumana strax og andleg vanlíðan lætur á sér kræla. Mikilvægt er að bregðast við fljótt og vel og helst áður en til lyfjameðferðar þarf að koma. Hentugt er að nýta þá miklu og góðu þekkingu sem skapast hefur í tengslum við verkefnið Geðrækt sem starfrækt er á vegum Lýðheilsustöðvar. Verkefnið er fræðslu- og forvarnarverkefni um geðheilsu og áhrifaþætti hennar. Því er ætlað að fræða fólk um geðheilbrigði og geðraskanir, um forvarnir og eflingu geðheilbrigðis og draga úr fordómum. Þar má finna ýmis verkfæri sem hver og einn getur nýtt sér geðheilsunni til góða eins og geðræktarkassann og geðorðin tíu. Einnig má þar finna upplýsingar um annað verkefni sem er mjög spennandi og er sérsniðið með það að markmiði að efla geðheilsu barna. Það heitir Vinir Zippý og er alþjóðlegt lífsleikninámsefni sem er ætlað að efla geðheilbrigði 6-7 ára barna og hefur verið notað með góðum árangri víða um heim. Verkefnið er nú þegar kennt í mörgum skólum og er vonandi nýtt vel hér í Mosfellsbæ.

Góð geðheilsa er gulli betri!

Höfundur er nemi og félagi í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar.

(grein birt í dag í Mosfellingi, sjá á http://www.mosfellingur.is/)


Ofurfyrirsæta vekur óhug

Það eru skilaboðin í þessari frétt að mínu mati.

http://www.visir.is/article/20090227/LIFID01/606495620

Eru þetta skilaboðin sem við viljum senda t.d. ungum stúlkum sem eru mjög óöruggar með útlit sitt og miða sig við þessar ofurfyrirsætur?

Að það sé nánast glæpsamlegt að vera með appelsínuhúð sem meirihluti kvenna eru með í einhverjum mæli.


Og Tíbet???

Einhvern veginn brá mér við að sjá þessa frétt.

Er þetta það sem við þurfum að eyða peningum í á næsta ári? Þegar við munum þurfa að halda velferðarkerfinu nánast uppi á brauðfótum og horfum upp á 10% þjóðarinnar atvinnulaus.

Er það þá lausnin að fara til Kína til þess að stofna til viðskiptasambanda við þjóð sem er algjör tvískinnungur þar sem þeir eru annars vegir grófir mannréttindaglæpamenn en á hinn bóginn sýna vel fægðan flöt þjóðar sem vill komast betur inn í alþjóðasamfélagið til þess að geta nú styrkt stöðu sína og orðið enn valdameiri. Er það bara allt í lagi á meðan þeir eru að murka lífið og menninguna úr hverjum einasta Tíbeta?

Eigum við að halda áfram að horfa bara framhjá því af því að það hentar viðskiptasamböndum okkar?

Ég skil það samt að við þurfum auðvitað að efla viðskiptasambönd okkar og gæta þess vandlega að við einangrumst ekki í samfélagi þjóðanna. Það hefur mikið að segja varðandi velferð, vöxt og atvinnu hér heima... og að það eru auðvitað aðrir þarna en einungis kínverjar en er þetta leiðin?

Þetta er eins og að sýna hrottanum á skólalóðinni vinskap þrátt fyrir að vita alveg hvernig hann beitir önnur börn einelti af því að við högnumst sjálf á því.

Nice. Mér rís óhugur við þessu og finnst þetta hræsni.


mbl.is Þátttaka Íslands vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæra skilanefnd

Kæra skilanefnd,

vildir þú vera svo væn að fella niður þetta lán þarna sem ég tók um daginn. Þetta sem var upp á 15 milljarða. Ég er ekki alveg að nenna að borga það, ætlaði það svo sem aldrei en ég er ekkert að fara að græða á því þannig að Tippex-aðu vinsamlegast yfir nafnið mitt. Mér langar ekkert lengur að eiga banka! Þeir eru eitthvað svo óstabílir núna og allir í einhverri fýlu bara.

Það er ekki nema 15 milljarðar. Ég hélt einhvern veginn á sínum tíma að þetta væri góð viðskiptahugmynd að kaupa í þessum banka og að ég myndi græða feitt á því en fyrst hann er farinn á hausinn þá vil ég bara sleppa þessu láni. Það var líka svo fínt að hafa aðstöðu þar til að geta nýtt það svona fyrir vini og vandamenn. Það þurfa nú allir lán og svona. T.d. vinur minn í Katar, hann vantaði smá klink í stöðumælinn um daginn, ekki nema um 100 milljarða. Er það ekki í lagi, ha? Erum við ekki vinir? Manstu þegar ég bauð þér...

Þetta er nú ekki eins og þetta sé eitthvað rosalega mikið. Ég meina maður þarf nú að eiga pening til þess að geta keypt sér nauðsynjar eins og hraðskreiða sportbíla, einkaþotur, fjórhjól, vélsleða, sveitasetur, íbúðir í helstu heimsborgunum (ég ætla sko ekki að vera á hóteli- halló!). Svo var auðvitað nauðsynlegt að halda þessa veislu þarna æi þessa sem Tina Turner var í. Ég hefði samt kannski átt að sleppa því að láta sauma dagskrána í handklæðin en mér fannst það bara svo sætt... svo er það nú atvinnuskapandi sko.

Ég skil nú ekkert af hverju þessi lýður er að mótmæla og hvað er eiginlega í gangi þarna á þessu blessaða landi. Ég nenni nú ekki að horfa upp á svona og ætla því bara að eyða meiri tíma í penthouse íbúðunum mínum og á eyjunni minni fallegu. Það er líka nóg að gera þar sko. Ég er alveg á fullu að grafa gullkistur ofan í sandinn. Er líka að plana nýjar hugmyndir þar sem sumar hafa ekki alveg verið að gera sig að undanförnu...

Verðum svo í bandi upp á frekari lánveitingar og niðurfellingar. Þú þurrkar bara út þetta lán elskan og ég þarf einmitt líka að hafa samband við nokkra aðra. Hitt sem ég er að dunda mér við þarna á Tortulu t.d. er alveg í góðu lagi. Engar áhyggjur af því sko. Það er allt löglegt.

Já, svo var ég að fá frábæra hugmynd! Er ekki sniðugt að framleiða klósettpappír með svona alvöru gullþræði í? Það væri sniðugt til þess að selja svona kollegum mínum og svona? Þeir geta nú ekki notað hvað sem er. En ég er komin út fyrir efnið...

Bestu kveðjur,

þinn/þín útrásarvíkingur að eilífu Smile.

 

 


Stjórnvöld stuðli að hollu líferni

 

Stjórnvöld þurfa að stuðla að hollu líferni og þar með sparnaði í heilbrigðiskerfinu með mun meiri hætti en verið hefur.

Stjórnvöld eiga að beita skattaáhrifum til þess að hafa áhrif á það að lækka verð á ávöxtum, grænmeti, fitusnauðri vöru og annarri hollustuvöru. Það er sorgleg þróun að oft er það óhollasta varan sem er ódýrust.

Í stað þess á að skattleggja óholla vöru eins og sælgæti, gos, kökur, snakk, skyndibitafæði og annað í þeim dúr ríkulega þar sem það á að vera munaðarvara. Það er einnig eðlilegt að þeir sem kjósa að lifa á slíkri vöru þurfi að leggja meira til heilbrigðiskerfisins óbeint í gegnum skattinn þar sem þeir munu nýta það að öllum líkindum meira á sama hátt og reykingafólk.

Siv Friðleifsdóttir og fleiri flutti frumvarp um transfitusýrur í matvælum sem ég hef ekki enn séð fara í gegn sem er mjög mikilvægt og er í samræmi við t.d. reglur hér í Danmörku þar sem magn transfitusýra í matvælum má aðeins vera upp að ákveðnu marki. Transfitusýrur hafa meðal annars mikil áhrif á hjartasjúkdóma og því er þetta mikið hagsmunamál til bættrar heilsu.

Ég tel einnig að Ríkið ætti að niðurgreiða ávexti og grænmeti til allra stofnana sérstaklega leikskóla og barnaskóla til þess að yngsta kynslóðin venjist strax hollum lifnaðarháttum. Því miður eru alls ekki öll börn sem eru alin upp við slíkt. Þetta myndi einnig styrkja íslenska grænmetisbændur í leiðinni.

Aðgerðir sem þessar myndu skila okkur miklum árangri í heilsu landsmanna og sparnaði í heilbrigðiskerfinu.

Það er með þetta eins og að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga að þetta er gríðarlega mikilvægt og hefur mikið forvarnargildi en þar sem ágóðinn kemur ekki fram næsta dag er þessu alltaf frestað og í staðinn er krónunni kastað fyrir aurinn!


mbl.is Hreyfing og hollt fæði í baráttunni við krabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkdómur Sjálfgræðgiflokksins

Á sama degi má merkja tvö einkenni þess sjúkdóms sem margir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins eiga við að etja. Einkenni sjúkdómsins eru óheiðarleiki, lygar og óréttlæti.

Í fyrsta lagi má sjá hér hvernig Árni Matthiesen lýgur upp í opið geðið á blaðamanni um það hvort hann sé að hætta í stjórnmálum. Sorglegt að fara með þessum hætti en kannski lýsandi fyrir undangengin misseri.

Í öðru lagi samkvæmt þessari Morgunblaðsfrétt þá er betra að "aðeins útvaldir" fái upplýsingar ef fjármálastöðugleiki er í hættu þannig að þeir geti forðað eignum sínum eða skotið þeim undan með öðrum hætti eins og sýnt hefur verið fram á að gerðist fyrir bankahrunið síðasta þar sem milljarðar voru fluttir á milli og greinilegt að hinir útvöldu sem fengu innherjaupplýsingar brugðust fljótt við vátíðindum á meðan saklaus almenningur kom af fjöllum. Þeirra á meðal eldri borgarar þessa lands sem misstu allt sitt í Peningamarkaðssjóðum sem áttu að vera öruggir og horfa því fram á berangursleg efri ár.

Já, Sigurður Kári þetta er efnileg hugmyndafræði og rímar vel við stefnu hins sjúka Sjálfgræðgiflokks.


mbl.is Gæti kollvarpað fjármálalífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkinn í frí

Ég tel þetta vera góða ákvörðun hjá Árna Matthiesen. Enda var ég mjög undrandi þegar hann sagðist vonast eftir endurkjöri. Hann hefur áttað sig. Það er gott.

Ég tel allan flokkinn hans þurfa að átta sig á sama hátt. Flokkurinn, margir innan hans og stefnan hefur beðið algjört skipbrot og tekið þjóðina með innanborðs. Þessi flokkur hefur stjórnað allt of miklu í íslensku samfélagi síðastliðin 18 ár með þeim "árangri" sem nú lítur dagsins ljós. Samfélagið er ein brunarúst og saklaust fólk líður fyrir það hvernig reglur hafa verið afnumdar, ekki farið eftir þeim og ákveðnu auðvaldi hyglt umfram allt annað. "Farsæl og ábyrg efnahagsstjórn" hefur öðlast nýja merkingu í höndum þessa flokks!

Það er kominn tími á verulegar breytingar.

Aðrir flokkar, sérstaklega Framsókn og Samfylking, bera líka sína ábyrgð. Þeir hafa komið að umdeildum ákvörðunum undanfarin ár. Vinstri græn hafa ekki setið í stjórn á þessum tíma enda aðeins 10 ára gömul en fólk innan þeirra raða eins og Steingrímur eru engir nýgræðingar í pólitík og eru því ekki hvítþvegnir hvítvoðungar frekar en aðrir. Jóhanna er heldur enginn hvítvoðungur í pólitík en hún er gott dæmi um það að það væri glapræði að kasta öllum á bálið sem ekki eru glænýir því þá tapast reynslan. Hrun bankanna með ofgnótt stuttbuxnagaura og algjörri ungdómsdýrkun er víti til varnaðar í þeim efnum. Það þarf að finna hinn gullna meðalveg þarna sem annars staðar.

Framsókn hefur skynjað þörf breytinga og hafist handa langt á undan öðrum flokkum við að endurraða í sína sveit og hefja uppgjör við liðna fortíð. Ég fagna því.

Innan Sjálfstæðisflokksins er ákaflega efnilegt og hæft fólk. En innan hans má líka finna mjög rotin horn sem þarf að hreinsa út. Það tekur nokkur ár. Þess vegna óska ég þess innilega að flokknum verði gefið langt frí til þess verks. Hann á ekki erindi við stjórn íslensks samfélags fyrr en hann hefur endurbyggt stefnu sína og lið á sama hátt og Framsókn hefur gert.


mbl.is Árni Mathiesen ekki í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymum því aldrei

Við skulum aldrei gleyma að setja hlutina í rétt samhengi. Þó það sé vissulega til fólk á Íslandi sem hefur það verulega slæmt og þarf aðstoð strax þá höfum við það mjög gott yfir heildina samanborið við aðrar þjóðir.

Þrátt fyrir að við lifum nú afar erfiða tíma sem þjóð þá eru vandamál margra okkur hrein og tær lúxusvandamál miðað við það sem stór hluti heimsins horfist í augu við á degi hverjum.

  • Við þurfum ekki að horfast í augu við byssuhlaup, sprengingar, horfa upp á fjölskyldumeðlimi limlesta eða nauðgað, vita ekki um afdrif ástvina og fleiri hörmungar sem fylgja stríði.
  • Við þurfum ekki að horfast í augu við börnin okkar sem deyja vegna hungurs.
  • Við þurfum ekki að horfast í augu við það að þurfa að flýja fósturjörð okkar og heimkynni vegna óbærilegs ástands eða yfirgangs annarra þjóðflokka eða þjóða.
  • Við þurfum ekki að horfast í augu við faraldra sjúkdóma vegna þess að við eigum ekki til réttu lyfin eða læknisaðstöðuna.
  • Við þurfum ekki að horfast í augu við ólæsi þar sem við getum ekki menntað börnin okkar.
  • Við sem þjóð eigum við ofgnótt að stríða á mörgum sviðum.

Svona má lengi halda áfram. NÚNA sem aldrei fyrr þurfum við að forgangsraða. Vissulega þurfum við að tryggja aðstoð við þá sem nauðsynlega þurfa á henni að halda heima en við þurfum líka að tryggja aðstoð við þá sem þurfa á henni að halda úti í heimi. Það er margt sem má skera niður frekar en þróunaraðstoð.


mbl.is Kreppan bítur fátækustu íbúa heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur þurfa líka aðstoð!

Tveir góðir...

Ég hef miklar áhyggjur af bændum landsins.

Þeir eru í miklum vandræðum eins og heimilin og fyrirtækin. Til dæmis hefur verð á flestum aðföngum hækkað, jafnvel tvöfaldast þar sem mikið af því er innflutt t.d. áburði og fóðri. Á sama tíma hefur afurðaverð ekki hækkað. Ef ekkert verður að gert er hætta á að margir verði að bregða búi og fara í gjaldþrot.

Ég er enginn landbúnaðarsérfræðingur og verð það sennilega aldrei þó ég elski sveitina og hestana mína :) ... og þekki svo sannarlega muninn á góðri landbúnaðarvöru og lélegri. En ég hef áhyggjur af því að bændur séu að gleymast í þeim aðgerðum sem verið er að vinna.

Það þarf að standa við bakið á bændum þannig að við getum verið sjálfum okkur næg og getum haldið áfram að framleiða þá hágæðavöru sem íslenskar landbúnaðarafurðir eru. Þær eru í heimsklassa og sakna ég þeirra mikið héðan frá Danmörku.

Einnig þarf að hugleiða það að fjármagn sem sett er í slíkt sinnir mörgum hlutverkum. Það tryggir byggð í landinu, það tryggir ótal störf (störf bænda og ótal afleiðustörf sem skapast af landbúnaðinum) og það tryggir öryggi fæðukistu okkar á víðsjárverðum tímum.

Ég er sannfærð um það að með tímanum mun verðmæti landbúnaðarafurða okkar aðeins aukast því mikilvægi heilnæmrar og náttúrulegrar vöru er alltaf að verða augljósara með nýjustu rannsóknum og slíkt er mjög mikilvægt fyrir heilsu þjóðarinnar.

Íslenska landbúnaðarvöru - já takk Smile.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband