Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 23. febrúar 2009
Er þetta eðlileg hækkun?
Skömmu eftir að ég flutti út þeas. haustið 2007 þá fjárfesti ég í svokölluðum SMART síma sem er á vegum Tals. Þessi búnaður virkar þannig að sé maður með háhraðatengingu þá getur maður tengt símtæki sem hægt er að nota eins og íslenskan heimasíma. Þannig getur maður hringt frítt í öll heimanúmer á Íslandi og þeir sem hringja í mann greiða eins og um íslenskan heimasíma sé að ræða. Fyrir þessa þjónustu greiðir maður fast mánaðargjald.
Ég keypti þennan búnað á 6.990 kr. haustið 2007. Núna einu og hálfu ári seinna kostar þessi sami búnaður 15.990. Hækkunin er því 9.000 krónur á einu og hálfu ári!!! Þetta er ekki eðlileg hækkun að mínu mati. Ég trúði þessu varla þegar ég sá þetta.
Mánudagur, 23. febrúar 2009
Gamaldags bloggarar sem elska að hata Framsókn ;)
Það er alveg merkilegt að fylgjast með umræðum þeim sem oft skapast í bloggheimum. Þetta eru ansi sérstakir heimar því sumir þykjast geta sagt hvað sem er um hvern sem er undir dulnefni eða bara vegna þess að þeir sitja við tölvuskjá. Margir láta ýmislegt flakka í bloggheimum sem þeir myndu aldrei voga sér að segja beint framan í þann sem um ræðir. Það finnst mér vera heigulsháttur.
Mér finnst einnig alltaf jafn merkilegt að fylgjast með bloggurum sem keppast um að rífa niður það góða starf og það góða fólk sem er í Framsókn. Þar sem flokkurinn hefur verið að gera góða hluti undanfarið þá hangir þetta fólk með eldgömul gleraugu föst á nefinu á sér og dæmir flokkinn mörgum árum of seint. Dæmir ALLAN FLOKKINN OG FLOKKSMENN af hlutum sem mörg okkar hafa aldrei komið nálægt eða vegna verka manna sem ég myndi ekki einu sinni þekkja í sjón og eru löngu horfnir úr honum eða hefur verið hafnað af grasrót flokksins!
Þetta er eiginlega frekar grátbroslegt vegna þess að Framsókn hefur sýnt mesta kjarkinn, duginn og þorið á erfiðum tímum með því að sýna raunverulega framkvæmd og vilja til breytinga:
- Við kusum okkur alveg nýja forystu á flokksþingi okkar í janúar
- Við erum að berjast fyrir stjórnlagaþingi til þess að hægt sé að breyta stjórnarskrá og ná fram raunverulegum breytingum og vald þessa sé í höndum almennings
- Við buðumst til þess að verja minnihlutastjórn falli til þess að einhverjar breytingar gætu orðið sem voru orðnar löngu tímabærar þar sem ekkert var að gerast í liðnu líki fyrri ríkisstjórnar. Við tókum það skýrt fram að þetta væri með ákveðnum skilyrðum sem við höfum verið að fylgja eftir að nái fram að ganga (stjórnlagaþing, kosningar og aðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum). Skilyrðum sem eru klárlega í takt við vilja og þörf almennings. Við fórum ekki í stjórn án endurnýjaðs umboðs frá þjóðinni.
Ég er vissulega hlutdræg þar sem ég er framsóknarkona. En ég er líka orðin ansi langþreytt á því að vera dæmd af liðinni fortíð sem við erum skilin við og erum að sýna með verkum okkar að við ætlum ekki að endurtaka. Kannski þarf flokkurinn að biðjast mun skýrar afsökunar á fyrri verkum sínum en um leið getum við minnst meirihluta verkanna sem eru þau góðu verk sem við höfum náð fram. Framsókn hefur nefnilega gert fullt af hlutum síðastliðin rúmlega 90 ár og líka fullt af mistökum. Sá sem gerir aldrei neitt hann gerir heldur aldrei nein mistök!
Það er ótrúlega kaldhæðnislegt að fólkið sem gasprar hæst og finnur Framsókn allt til foráttu er fólkið sem í sama mund vill sjá breytingar. Framsókn er eini flokkurinn sem hefur virkilega verið að vinna að breytingum og í stað þess að sjá þær og fagna þeim þá hangir þetta fólk fast í fortíðinni þegar það gæti frekar horft til framtíðar. Þetta er stórmerkilegt. Vill fólk þá ekki raunverulegar breytingar eða vill það bara ekki horfast í augu við að þessi góðu mál komi frá flokki sem það er búið að dæma fyrirfram án þess að þekkja einu sinni til núverandi flokksmanna eða núverandi verka. Eða elskar þetta fólk bara að hata Framsókn og getur því ekki breytt mynstri sínu þó flokkurinn breytist?
Það þjónar kannski einhverju skemmtanagildi eða öðru fyrir suma að geta endalaust spunnið upp nýjar og nýjar sögur þar sem reykfyllt bakherbergi, strengjabrúður, dularfull öfl bakvið tjöldin, gildishlaðin lýsingarorð og fleira krassandi kemur við sögu. Ég held samt að þessari orku væri betur varið í að hjálpa okkur hinum að byggja upp betra samfélag til framtíðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 23. febrúar 2009
Þjóðin þarf aðgang að sálfræðingum
Nú er tími sálfræðinga runninn upp.
Rannsóknir hafa í fjöldamörg ár sýnt fram á árangur sálfræðimeðferðar og að hugræn atferlismeðferð sé t.d. í mörgum tilfellum betri en lyf þar sem minni líkur eru á hrösun þegar fólk hættir á lyfjunum. Eftir HAM meðferð hefur fólk verkfæri í höndunum sem það getur notað hvenær sem er.
Þjóðin hefur ekki haft aðgang að sálfræðingum og er það á færi fæstra að "veita sér" sálfræðimeðferð þar sem tíminn kostar um 8-10 þúsund og flestir þurfa 12-16 tíma.
Í staðinn eyðir heilbrigðiskerfið - sameiginlegir sjóðir okkar - í óheyrilegan lyfjakostnað og margs konar fylgikostnað sem fylgir því að viðkomandi er orðinn mun veikari þegar loksins er gripið í taumana með kostnaðarsömum og dýrum afleiðingum fyrir hann, vinnustaðinn og alla fjölskylduna.
Það er ekki nóg að setja örfáa sálfræðinga á heilsugæslustöðvar sem eru bara í greiningum. Það er heldur ekki nóg að bjóða fólki upp á 5 tíma niðurgreidda af stéttarfélaginu. Sumir eru ekki einu sinni í stéttarfélagi og því er þarna verið að mismuna.
Sálfræðingum sem fagstétt hefur einnig verið mismunað í gegnum árin með því að geta ekki veitt öllum sem á þurfa að halda þjónustu sína heldur bara þeim sem mest hafa á milli handanna.
Um þetta höfum við framsóknarmenn ályktað enda erum við oft langt á undan öðrum flokkum í hugsanahætti og framsýni sbr. feðraorlofið, jafnréttismál í reynd, fötlunarfræðina og fleira.
Nú er tími sálfræðinga runninn upp Jóhanna Sigurðardóttir!
Leita sér sálfræðihjálpar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 22. febrúar 2009
Á breytingar trúum við - já, við getum!!!
Ég er ánægð með mína menn að kynna þetta og ýta á stjórnlagaþing. Framsókn vill og hefur barist fyrir stjórnlagaþingi um nokkurt skeið núna. Það er ekki ný hugmynd en það er Framsókn sem er að reyna að koma henni í FRAMKVÆMD. Þar greinum við okkur frá öðrum.
Flokkarnir (fyrir utan Framsókn) eiga ekki að skauta svona framhjá vilja meirihluta þjóðarinnar, slá þessu á frest eða sleppa alveg þessu þjóðþrifamáli með lélegum afsökunum eins og sparnaði!
Það er alger nauðsyn að kjósa til stjórnlagaþings samhliða Alþingiskosningunum og geta þannig náð fram verulegum og raunverulegum breytingum á næstu misserum.
Annars verður þetta ætíð bara fastir liðir eins og venjulega, "groundhog day" og engin RAUNVERULEG breyting í íslensku stjórnkerfi, á íslenskum stjórnmálum og í íslensku samfélagi.
Ég vil sjá íslensk stjórnvöld taka hressilega til hendinni eins og Obama virðist vera að gera. Það er ekki endalaust hægt að skeggræða hlutina fram og tilbaka og bjóða þjóðinni upp á að hlusta á þreytandi tuð stjórnmálamanna hinna ýmsu flokka út í hvern annan og um hvern annan eins og langþreytt heimilishald fast í mynstri neikvæðni og framtaksleysis.
Því höfum við hins vegar ekki efni á!!!
Ný stjórn má nú eiga það að vera mun mun líflegri en sú fyrri en betur má ef duga skal.
AÐGERÐIR STRAX.
Áfram Framsókn til framtíðar!!!
Framsókn kynnir hugmyndir sínar í efnahagsmálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 22. febrúar 2009
Matador feitu svínanna á Animal farm
Það var áhugaverður þátturinn hjá Agli í dag. Mér persónulega finnst þó umræðan vera ansi einsleit og hann ekki gæta þess nægilega að fá fram ólík sjónarmið í þáttinn. Þetta er alltaf sama fólkið að segja sömu söguna þátt eftir þátt...
Ég er svo hjartanlega sammála mörgu sem Atli Gíslason fjallaði um. Hvernig stendur á því að athæfi sem augljóslega er ástæða til að rannsaka er ekki löngu búið að grafa niður í??? Það er alveg ótrúlegt hreint út sagt að ekki hafi strax verið ráðist í þetta og þyngra en tárum taki hversu heimskulega íslensk stjórnvöld hafa hagað sér sem eiga að gæta hagsmuna samfélags hinna almennu borgara!
Mér varð hálf óglatt af því að heyra umræðuna um hvernig auðmenn ætluðu að leggja undir sig miðbæinn. Þetta er svona í anda lúxusferðanna sem Jón Ásgeir og frú voru að skipuleggja fyrir hin feitu svínin á Animal farm. Heimsyfirráð útrásarvíkinga og auðmannanna á kostnað íslenskrar alþýðu! Hreinn viðbjóður. Og stjórnmálamenn svo heimskir að láta selja sér að ekki megi anda á þetta fólk því þá fari það bara með feitu mjólkurkýrnar úr landi - mjólkurkýrnar og mjólkina sem eru í boði almennings.
Þetta eru nú engin geimvísindi... Það þarf engan stjörnuhagfræðing eða sérstakan saksóknara til þess að sjá hvernig sum brotin sem framin hafa verið eru augljós og furðulegt að ekki sé búið að fullnægja réttlætinu. Það eitt bendir til þess að kerfið sé miklu verr á sig komið en maður þorði að vona.
Allt hefur brugðist.
Menn hafa leikið sér að landinu okkar eins og smástrákar spila matador og verið með útfærslur á spilinu yfir til hinna undarlegustu skattaskjóla hér og þar og þvegið peninga eins og annað fólk þvær daglega þvott.
Við öll höfum orðið að athlægi heimsins vegna þessa.
Hér þarf nýtt lýðveldi. Hér þarf nýtt regluverk. Hér þarf nýtt fólk.
En merkilegt að hann Eiríkur Tómasson skuli ekki hafa minnst einu orði á Framsókn í umræðu sinni um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá. Við í Framsókn höfum BARIST FYRIR STJÓRNLAGAÞINGI með kjafti og klóm en í stað þess þá minnist hann aðeins á það að stjórnmálaflokkarnir séu að passa sitt. Merkilegt hvernig er alltaf hægt að minnast á Framsókn í neikvæðri umræðu en svo er rennt ljúflega framhjá okkur þegar það hentar...
Útrásarvíkingana á válista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. febrúar 2009
Hvar eru þessir peningar?
Hvar eru svo allir þessir peningar sem bankarnir eru að afskrifa???
Eitthvað er eins og kemur fram í fréttinni rýrnun vegna þess að ekki fæst jafn mikið fyrir eignir og áður en það er ansi stór summa þarna sem virðist á dularfullan hátt hafa gufað upp bara?
Hver ætli muni svo borga reikininginn fyrir þessum afskriftum þegar upp er staðið...
Ætli þetta liggi grafið í gullkistum á Tortulu, í 17 þúsund króna vínflöskum sem ónefndir aðilar hafa svolgrað í sig eins og svala, í glæsibifreiðum, glæsifatnaði, hlaðborðum sem voru að svigna undan ofgnótt veitinga, já kannski nokkrar krónur í ísaumuðum handklæðum með dagskrá kvöldsins...
Ég ætla nú að vona að þessi mál verði rannsökuð alveg ofan í kjölinn!
Það er ekki sanngjarnt gagnvart hinum almenna borgara sem þarf að telja hverja krónu um hver mánaðarmót að svona sukk sé leyst bara með einu pennastriki!
Hér er ekkert stöðumælaklink til umræðu heldur 1500 MILLJARÐAR sem menn ætluðu að græða en losa sig svo undan á meðan hinn almenni borgari er að sligast undan mun lægri upphæðum!!! Þetta er hreint út sagt viðbjóðslegt að horfa upp á þetta! Ef þessi staða hefði ekki komið upp þá hefði hinum almenna borgara væntanlega aldrei verið boðið í þessa veislu en menn notið ágóðans af þessum 1500 milljörðum á kostnað okkar!
Afskrifa 1.500 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 18. febrúar 2009
Klukkan sem tók óvænt við kennslunni
Ég sat í fyrirlestri í dag. Þetta var síðasti tíminn af 6 tímum í dag og þar sem hinir fyrstu þrír voru ákaflega þungir tímar um líffræði heilans varðandi kvíða og ég nánast ósofin var lærdómsorkan nánast þrotin og einbeitingin flogin annað.
En þá gerðist svolítið undarlegt... Klukkan á veggnum tók allt í einu að snúast á fleygiferð nokkra hringi og við vinkonurnar fórum að fylgjast með henni og þannig urðu þessar nokkru mínútur sem eftir voru af tímanum að mörgum klukkustundum sem urðu að sólarhring samkvæmt henni. Þar til hún stoppaði nánast á sama stað og hún hóf hringferðina. Og eftir stutt stopp hóf hún að ganga á sínum eðlilega hraða. þetta var mjög furðulegt að horfa á og maður fann það næstum því á húðinni hvernig stundin stóð í stað og manni fannst lífið og tíminn vera að þjóta af stað alveg án þess að kennarinn gerði sér nokkra grein fyrir því sem hélt bara áfram í rólegheitum sínum fyrirlestri um viðurkenningu (anarkendelse) án þess að hafa hugmynd um þetta uppátæki klukkunnar.
Þessi klukka sýndi mér svart á hvítu hvað tíminn líður hratt og hvað maður hefur enga stjórn á honum. Hann flýgur bara áfram eins og honum sýnist á ljóshraða og stoppar svo allt í einu. Enginn veit í raun hvernig gangverkið í sinni eigin klukku er eða verður. Allt getur leikið í lyndi einn daginn og fólk stendur inni í ljósritunarstofunni og syngur saman á bestu árum lífsins en svo getur allt verið breytt skömmu síðar. Klukkan getur hafa tekið sínar eigin ákvarðanir sem eru ekki í takt við þær væntingar sem viðkomandi sjálfur hefur.
Hvert andartak er það mikilvægasta sem maður á. Hver dagur er heil gjöf og þess vegna er mikilvægt að nýta þá vel. Hvert ár er afrek og því ber að þakka hvert afmæli. Maður má að minnsta kosti ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að gangverkið manns gangi næstu 100 ár. Því ráðum við ekki og klukkan minnti mig á það í dag.
Á erfiðleikum eins og þeim sem Íslendingar ganga í gegnum núna er mikilvægt að minna sig á það að færi klukkan manns allt í einu á fleygiferð og maður vissi að hún myndi stoppa fljótlega þá er sennilega margt af því sem maður er að velta sér upp úr dags daglega langt frá því það sem maður myndi helst hugsa um og eyða tímanum í sem rynni eins og fíngerður sandur niður stundaglasið. Kannski einmitt það sem maður hugsar minnst um dags daglega myndi skyndilega skipta öllu máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Kastljós hengir bakara fyrir smið
Ég fylgdist með Kastljósinu í kvöld.
Mér þótti umræðan vera heldur merkileg og lýsandi fyrir algjöra vanhæfni íslenskra fjölmiðla sem hafa sannað vanhæfni sína í umfjöllun eftir bankahrunið. Það vantar alveg rannsóknarblaðamennsku hjá þeim og að setja hlutina í rétt samhengi.
Í sama þætti er rætt við sérskipaðan saksóknara yfir stærsta fjárglæframáli Íslandssögunnar sem kosta mun hvert mannsbarn fleiri milljónir og Óskar Bergsson vegna 90 þúsund króna móttöku.
Það er ekki minnst á það í umræðunni sem tengist saksóknaranum hvers vegna í ósköpunum ekki skuli koma hingað aðilar erlendis frá sem eru algjörlega óháðir til þess að aðstoða við þessa rannsókn og þetta risavaxna sakamál. Það er svona rétt imprað á því að það sé nú óheppilegt að 4 MÁNUÐIR séu liðnir og nánast ekkert búið að gera. Það er nánast eins og hér sé um nokkra þúsund kalla að ræða sem þurfi að skoða svona aðeins í rólegheitunum hvert hafi nú fokið án þess að styggja kóng eða prest og gæta mannorðs allra aðila ákaflega vel...Sem vel að merkja hafa haft nægan tíma til þess að telja hvert einasta sandkorn sem þeir hafa grafið gullkistur sínar undir m.a. á Tortulu og strá í fótsporin á meðan íslensk stjórnvöld hugsa málin í rólegheitunum!
Ég hef ALDREI síðan bankahrunið varð, hvað þá fyrir það heyrt almennilega umfjöllun um alla þá MILLJARÐA sem eytt var í alls konar móttökur og veislur, glingur og dekur sem bankarnir stóðu fyrir. Veislur þar sem hver einasti gestur var leystur út með hálsmeni eða ermahnöppum, flogið með rétta fólkið til Kína í veislur og fleira í þeim dúr. Einkamál? Nei, alls kostar ekki. Ekki þegar almenningur situr núna uppi með reikninginn fyrir þessu og greiddi fyrir drjúgan skilding í formi okurvaxta og óþarfa smurnings.
Á sama tíma er Óskar Bergsson framsóknarmaður tekinn í þriðju gráðu mjög hlutdræga og ófaglega yfirheyrslu vegna móttöku sem hann hélt sem kostaði 90 þúsund krónur og var ekki í bága við nein lög eða venjur. Það má vel vera að skipulag móttökunnar hafi verið á gráu svæði og betra hefði t.d. verið að halda þá bara móttöku fyrir alla ráðstefnugestina og bjóða upp á djús... Ég er ekki sveitarstjórnarmaður eða hef starfað í borgarstjórn og get ekki lagt mat á hvað sé eðlilegt og hvað ekki.
Ég tel Kastljósið sýna þarna svart á hvítu hversu lélegir íslenskir fjölmiðlar eru oft á tíðum. Það er allt í lagi að gera athugasemd við þennan verknað Óskars og um að gera að vera krítískur á allt slíkt þessa dagana og veita stjórnmálunum aðhald. Ég spyr mig hins vegar hvort þetta sé eðlilegt samhengi hlutanna á meðan þeir sem virkilega kosta okkur skildinginn fá bara að halda sinni iðju áfram í friði og spekt án þess að vera teknir á beinið af fjölmiðlum eða öðrum.
Er ekki aðeins verið að hengja bakara fyrir smið? Stutt í kosningar náttúrulega...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Ísland og íslenska vöru – já takk!
(pistill birtur á www.suf.is í dag)
Þú liggur í grænni lautu, nýtur sólargeislanna, hlustar á niðinn í ánni sem rennur letilega við hlið þér, heyrir fuglana syngja fallega, horfir upp til himins og andar að þér fersku loftinu, finnur ilminn af nýútsprungnu birkinu og teygir þig að ánni til þess að fá þér svalandi sopa. Þú fylgist með íslenska lambinu bíta við hlið móður sinnar í hreinni náttúrunni. Þegar degi fer að halla er samt sem áður enn albjart, nóttin er björt og sumarnóttin er eilíf. Þú fyllist bókstaflega af kynngimagnaðri orku íslenska sumarsins...
Einhverjir eru sennilega farnir að huga að sumarfríum og margir sem vanir eru að ferðast til suðrænna slóða þurfa nú að breyta út af vananum vegna efnahagsástandsins. Þá er um að gera að leita ekki langt yfir skammt. Það er draumi líkast að ferðast um Ísland og njóta íslenskrar náttúru og endalausra sumarnótta.
Fyrir utan það að vera spennandi áfangastaður þá sláum við tvær flugur í einu höggi því að hver einasta vara sem við tökum fram yfir erlenda skapar fólkinu okkar atvinnu og blæs lífi í hagkerfið.
Það er sorglegt að heyra í fréttum að nú sé verið að farga íslensku svínakjöti í hrönnum eða selja það fyrir slikk til Rússlands vegna þess að hagstæðara sé fyrir seljendur að ota erlendu kjöti að neytendum. Þetta má ekki gerast! Rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar og annars iðnaðar verður að vera þannig að okkar eigin framleiðsla eigi forgang og við séum ekki að koma í veg fyrir framleiðslu í heimabyggð með því að kaupa inn vöru erlendis frá og missa þannig gjaldeyri úr landi og tapa störfum fyrir það eitt að fá mun slakari vöru.
Neytendur þurfa að muna það að hver vara sem framleidd er á Íslandi er ekki aðeins hágæðavara heldur er hún á sama tíma fjárfesting í okkar eigin framtíð. Með því að versla íslenska vöru þá erum við að halda gjaldeyri okkar inni í landinu og byggja upp framtíð þjóðarinnar. Veljum því íslenskt fyrir okkur sjálf.
Önnur leið til þess að bæta stöðu okkar er að stórefla útflutningsgreinar og auka verðmætasköpun með því að fullvinna vöruna eins mikið og hægt er heima.
Ferðamannaiðnaðinn þarf einnig að efla bæði til þess að laða að ferðamenn sem koma með gjaldeyri inn í landið en einnig fyrir okkur Íslendinga þannig að við kjósum að ferðast um eigið land og versla því í heimabyggð og skapa störf og stuðla að eigin farsæld í leiðinni.
Leggjumst á eitt um að vernda og tryggja störf í landinu jafnframt því að bæta þjóðarhag með því að hugleiða ætíð hvaða áhrif val okkar sem neytendur hefur fyrir þjóðarbúið. Viljum við að gjaldeyrinn streymi inn í landið og í okkar kerfi eða að hann fari úr landi og stuðli að hagvexti og störfum í öðrum löndum frekar.
Greini tækifæri í ferðaþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Nýtt lýðveldi - stjórnlagaþing
Við Íslendingar stöndum á tímamótum, algjörum krossgötum.
Nú er lag til þess að byggja samfélag okkar upp frá grunni.
Stjórnlagaþing er ein forsenda þess að slíkt sé mögulegt.
Hvet alla til þess að skrifa undir hér:
og kíkja á þetta frumvarp hér:
http://www.framsokn.is/files/SF-frv-stjornlaga%20(3).pdf
og þetta minnisblað hér:
http://www.framsokn.is/files/Stjornlagathing-handout.pdf
Flokkarnir velja í forystusveitirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |