Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 26. mars 2009
Gott hjá Geir
Ég er ánægð með að Geir skuli hafa viðurkennt mistök þau sem gerð voru við einkavæðingu bankanna og beðið afsökunar. Hann á hrós skilið fyrir það! Hann og flokkurinn hans eru menn að meiri fyrir vikið.
Ég er reyndar ekki sammála honum að 90% húsnæðislánin hafi verið röng ákvörðun því nauðsynlegt var að koma ungu fólki til aðstoðar en þar var um skýrt þak að ræða. Það voru bankarnir sem ruddust inn á markaðinn og hleyptu öllu upp m.a. með 100% lánum.
Ég tel einnig að viðurkenna þurfi þau mistök sem gerð voru varðandi Írak og varðandi kvótakerfið. Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður Framsóknar játaði þau mistök á sínum tíma og sagði ákvörðunina hafa verið byggða á röngum upplýsingum. Ég vil enn að við verðum fjarlægð af lista hinna staðföstu þjóða en það ætlaði Ingibjörg að gera strax og hún kæmist til valda en enn hefur ekki verið gert.
Kvótakerfið hefði aldrei átt að gera þannig úr garði að mögulegt væri að framselja kvótann úr héraði og nota fjármagnið til annars. Þar sofnaði meðal annars minn flokkur á verðinum og gerði mistök á meðan Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur innleiddu þessa breytingu um framsal. Það hefði aldrei átt að komast í gegn.
Á sama hátt hefði aldrei átt að einkavæða bankana án dreifðrar eignaraðildar. Það voru gríðarlega mikil mistök sem Geir var að játa og Framsókn þarf líka að játa að mínu mati.
En ég er ánægð með að menn skuli líta til baka, játa mistök og biðjast afsökunar. Aðeins þannig er hægt að skilja við fortíðina í sátt með það í farteskinu að læra af því og láta slíkt aldrei endurtaka sig. Þannig getum við haldið áfram, reynslunni ríkari til móts við betri framtíð.
Mistök gerð við einkavæðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 26. mars 2009
Hver á að biðja hvern afsökunar?
Þetta er gott framtak hjá Morgunblaðinu og til eftirbreytni.
Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort Geir og margir fleiri... skuldi ekki þjóðinni afsökunarbeiðni fyrir arfaslaka frammistöðu sína á erfiðum tímum. Skuldar hann ekki þjóðinni afsökunarbeiðni fyrir að hafa tekið þá röngu ákvörðun að fljúga um allar trissur til þess að sannfæra réttmætar viðvörunarraddir um að hér væri allt í stakasta lagi og slá á þær? Skuldar hann ekki ótal Íslendingum afsökunarbeiðni sem glaðir hefðu viljað eiga sparifé sitt enn, á meðan útvaldir menn fengu réttu upplýsingarnar og gátu því forðað sínum sjóðum í öruggt skjól.
Hins vegar óska ég þess innilega að fréttamenn haldi áfram á þeirri rannsóknarbraut sem margir þeirra hafa unnið á og vinni eins hlutlaust og hægt er að því að komast að því hvað gerðist eiginlega. Hitt er annað mál að slíkur fréttaflutningur er mjög þreytandi til lengdar og því þarf að velja úr það bitastæðasta.
Málin eru mjög alvarleg og vissulega vill fólk nákvæmar, hlutlausar fréttir af framvindu mála en það má ekki kosta það að fréttaflutningur festist í neikvæðni því það brýtur aðeins niður þjóðarsálina smám saman og sjálfsmynd landsmanna. Þess vegna þarf að huga sérstaklega að jákvæðum og uppbyggjandi fréttum til mótvægis. Í raun þyrfti sérstakt átak um það að halda jákvæðu efni að fólki sem kveikir von og gleði. Það mun efla fólk upp á við í stað þess að snúa því niður í spíral neikvæðni og vonleysis.
Afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 25. mars 2009
Rannsókn aldarinnar undir leiðsögn Evu Joly
Aðeins er mánuður til kosninga...
Ansi fátt hefur breyst. Sama þrasið daginn inn og daginn út sem skilar þjóðinni ekkert áleiðis. Menn orðnir svo örvæntingarfullir í úrræðaleysinu að þeir grípa til sinna ráða og setja á fót framhaldsmenntun í kannabisræktun sem lýkur með meistaranafnbót og alles... já, sæll! Ekki alveg sú atvinnuuppbygging sem lagt var upp með af forvígismönnum þjóðarinnar!
Ráðamönnum og ábyrgðarmönnum þeirra aðgerða sem komið hafa okkur í þessa klípu virðist fyrirmunað að bera kennsl á eigin þátt og eigin ábyrgð í þessu hruni. Það eru nokkuð margir sem benda mætti á í einni svipan sem geta ekki hlaupist undan slíku ... Að viðurkenna mistök virðist mönnum algerlega fyrirmunað og það vantar alveg í forystusálina á Íslandi. Undirhreyfing Sjallanna gerði tilraun til þess við dræmar undirtektir. Menn virðast verja sig og sína fram í rauðan dauðann og þess vegna sitjum við föst í sama pyttinum og komust ekki upp úr honum.
Ég vil sjá rannsókn aldarinnar framkvæmda á Íslandi sem taki til allra þeirra þátta sem mögulega eiga þátt í þeirri ömurlegu stöðu sem við erum í. Ég er ánægð að heyra að Eva Joly muni mögulega koma að slíkri rannsókn til ráðgjafar því umfang íslenska efnahagsklúðursins (áður íslenska efnahagsundursins) er þvílíkt að við þurfum færustu sérfræðinga í efnahagsglæpum sem völ er á.
Ég hef ekki trú á því að stjórnmálamenn eða embættismenn hafi endilega með beinum hætti tekið þátt í svikamyllu örfárra manna sem spiluðu með þjóðarauð okkar en gáleysi þeirra og getuleysi er þyngra en tárum taki. Ég er uppfull reiði yfir því að menn hafi sest upp í einkaþotur til þess að setja á svið leikrit og segja mönnum úti í heimi sem sáu í hvað stefndi að hér væri allt í gúddí... á sama tíma og vinnumenn þessa lands lögðu sparnaðinn sinn inn í góðri trú sem endaði svo sem spilapeningar útvaldra manna.
Ég vil líka sjá miklu skýrari leiðir frá öllum flokkum um það hvernig þeir ætla sér að gera upp þessa fortíð, hvað þeir ætla að gera í núinu og hvert þeir sjá okkur stefna í framtíðinni. Allt leikur þetta á huldu fyrir mér og menn einhvern veginn ekki að horfast í augu við aðstæður heldur meira í "business as usual" eins og Sjallar sem eyða hverjum dýrmætum tímanum á fætur öðrum í leiksýningar sínar og væl í þinginu!
- Ég vil nýjar leikreglur
- Ég vil nýtt eftirlit
- Ég vil nýtt fólk
- Ég vil nýja stjórnarskrá unna á stjórnlagaþingi
- Ég vil nýja framtíð
Það er ekkert lengur til á Íslandi sem heitir "business as usual" og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra. Nú verður að snúa bátnum við og hætta að láta hann fljóta undan vindinum. Það verður að stýra honum og það þurfa allir að leggjast á árarnar en til þess þarf áhöfnin að setja skýra, trausta stefnu í einlægni og sinni bestu trú á framtíð fyrir okkur öll.
Stjórnin hljóp á sig í tveimur málum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 17. mars 2009
Vinahringur
Þegar ég hripa þessar línur niður þá horfi ég á fallegan kertastjaka sem heitir circle of friends" sem útleggst á okkar ylhýra sem vinahringur. Kertastjakinn samanstendur af nokkrum manneskjum úr keramik sem mynda hring um kerti í miðju stjakans.
Fyrir hvert og eitt okkar er fólkið sem okkur umlykur ein okkar mikilvægasta auðlind. Það er gulls ígildi að eiga trausta vini að þegar á reynir. Vinir sem hringja þegar maður sjálfur hefur ekki rænu á því þar sem hugurinn er víðs fjarri að leysa óvænt verkefni lífsins. Vini sem eru til staðar þegar maður er sjálfur lítill og vanmáttugur. Vini sem næra mann á allan þann hátt sem hægt er að næra manneskju. Með slíkan hóp í kringum sig og sinn eigin vilja er hægt að komast í gegnum ýmislegt. Þannig getur vinahringurinn umlukið kjarna manneskjunnar og haldið ljósinu logandi.
Líf okkar allra er ekki svo ólíkt þegar allt kemur til alls. Hvort sem við búum í hundruð fermetra penthouse íbúð á Manhattan eða í leirkofa í Nepal. Við erum öll að leita að því sama: Við erum að leita að hamingju, ást, öryggi og hlutverki okkar í slagverki lífsins. Lífið sjálft er óútreiknanlegt og ekki er alltaf hægt að skilja tilgang þess.
Á þeim tímum sem við lifum núna er kraftur vináttu og stuðnings orka sem ekki má gleymast. Við þurfum á hverju öðru að halda. Það er sama hversu ósanngjarn heimurinn getur orðið eða erfiður, alltaf verður ástin og vináttan til staðar. Fólk mun halda áfram að stökkva í fang hvers annars á flugvöllum og fólk mun ætíð halda áfram í leit sinni að hamingju og tilgangi lífsins. Ást, hamingja og sönn vinátta eru ótæmandi brunnar sem enginn getur keypt eða selt. Úr þessum ótæmandi auðlindum eigum við að veita ríkulega á degi hverjum og þiggja þegar við sjálf þurfum á því að halda. Saman komumst við miklu lengra.
Þetta endurspeglast í pólitíkinni. Best er að rata hinn gullna meðalveg með samvinnuna að vopni. Veginn þar sem við hjálpumst öll að við að komast lengra með hag heildarinnar að leiðarljósi. Það sem hefur orðið okkur að falli er að græðgin varð of mikil, sumir ætluðu að eignast allt á kostnað annarra. Hinn venjulegi maður situr uppi með reikning þess ævintýris. Stefna einstaklingshyggjunnar að sigra heiminn einn þíns liðs hefur verið í tísku. Hún hefur leitt okkur á villigötur. Samvinnan er og verður alltaf lykillinn að farsælu samfélagi þar sem allir hjálpast að og allir hafa það gott. Á miðjunni á hver og einn að geta notið sinna hæfileika og skarað frammúr án þess að samtryggingu samfélagsins og samvinnu að sameiginlegum markmiðum sé kastað á glæ. Þannig virkar samfélagið í stækkaðri (macro) mynd á sama hátt og vinahringur hverrar manneskju virkar í smækkaðri (micro) mynd. Við hvetjum hvert annað áfram og erum tilbúin að grípa þann sem missir fótanna. Eða eins og ég las einhvers staðar: Friends are angels who lift you to your feet when your wings have trouble remembering how to fly".
Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott og saman erum við þessi litla þjóð einn vinahringur sem verndum ljós samfélagsins. Ég óska þess að Íslendingar dragi lærdóm af því hruni sem orðið hefur og upp úr rústum einstaklingsgræðginnar rísi samfélag frelsi, samvinnu, jafnréttis og bræðralags.
(pistill birtur á www.suf.is í dag)
Föstudagur, 13. mars 2009
Sjálfstæðis kosningamaskínan á fullu gasi í kreppunni!!!
Það er áhugavert að fylgjast með auglýsingaherferð Sjálfstæðismanna nú fyrir kosningarnar. Hvar sem maður flettir blöðum eða vefsíðum blasa við stórar og miklar, rándýrar auglýsingar úr Valhöll!
Ég bjóst við að nú sæi maður annars konar kosningabaráttu. Baráttu sem myndi byggjast á því að flokkarnir myndu keppast um að koma með margar ólíkar og góðar lausnir á því grafalvarlega ástandi sem nú er uppi og að þessi barátta myndi byggjast á málefnum! Hjá Sjálfstæðismönnum byggist hún á því sama gamla og venjulega. Auglýsingabrellum og kosningamaskínu sem keyrir á fullu gasi!!!
Það er greinilegt að þessi flokkur er ekki á leið í átt til breytinga. Auðvaldið hefur skrapað saman fyrir hann og frambjóðendur hans til þess að freista þess að halda honum að völdum svo hann geti grafið land og þjóð enn dýpra ofan í rústirnar.
Og enn hangir tæplega 30% þjóðarinnar með aftan í frjálshyggju-græðgisvæðingar hraðlestinni! Þeirri hraðlest sem átti stóran hlut í því að keyra þjóðarbúið í þrot. Það út af fyrir sig er stórmerkilegt! Ég trúi því bara ekki að fólk láti blekkja sig svona auðveldlega og falli fyrir kosningamaskínu Sjálfgræðgisflokksins! Sá flokkur mun ekki breytast mikið nema með mikilli byltingu, bara kosningaherferðin þeirra sýnir það! Engu til sparað til þess að kaupa sér feita stóla!
Á sama tíma finnur þessi flokkur öll möguleg tækifæri til þess að væla á Alþingi út af engu og eyðir þannig dýrmætum tíma þingsins til einskis!
Lítil hreyfing á fylgi flokkanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 3. mars 2009
Einnar nætur ævintýri ríkisstjórnarinnar
Ég held að ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna hafi aðeins gleymt sér í sælunni að vera loks komin í ríkisstjórn. Samfylking yfir að hafa skipt um bólfélaga en Vinstri græn yfir að hafa loks komist upp í hið langþráða ból.
Svo mikil ánægja virðist hafa ríkt að menn gleymdu sér á bleika skýinu og fóru að tjalda til meira en 80 daga og hugsa um allt aðra hluti en þá sem lagt var upp með.
Þessi ríkisstjórn var studd vantrausti af framsóknarmönnum með mjög skýrum markmiðum að leiðarljósi. 1. Stjórnlagaþingi, 2. Kosningum ekki seinna en 25.apríl og 3. Aðgerðum strax til handa heimilum og fyrirtækjum.
Það eru því eðlileg vonbrigði þegar menn blindast í sæluvímu og vinna ekki nógu hratt og vel fyrir vikið að settum fyrirfram ákveðnum markmiðum.
Ég tel hins vegar alveg góðan möguleika á að þetta einnar nætur ævintýri gæti þróast út í eitthvað meira og úr verði vinstrisinnuð stjórn eftir kosningar. Ég held að fæstir vilji sjá Sjálfgræðgisflokkinn við völd í bráð. Vinstri græn hafa staðið sig ágætlega fyrir utan áðurnefndan seinagang og Jóhanna stendur alltaf fyrir sínu.
Ég myndi samt vilja sjá miklu meiri endurnýjun hjá regnhlífarsamtökunum Samfylkingu og tel það hafa verið algjör mistök hjá Ingibjörgu að stíga ekki til hliðar í stað þess að fá far með Jóhönnu. Ég myndi vilja sjá tillögur að neyðaraðgerðum frá öllum flokkum strax í stað þess að kíkja bara yfir á tillögur okkar framsóknarmanna og fetta fingur út í þær! Saman gætu allir þessir flokkar endað á ansi góðum neyðarúrræðum, ef allir legðust á eitt.
Spurningin er hvort hinir flokkarnir ætli bara að teika tillögur okkar með froðusnakki og yfirborðskenndri gagnrýni eða koma sjálfir fram með tillögur og hætta að vera thinkers og verða doers eins og við.
Þetta var góður fundur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 3. mars 2009
Ég játa mistök og biðst afsökunar
Ég fagna þessari umræðu í þinginu. Hún hefði reyndar mátt koma strax á fyrstu vikunum í október. Ég tel að allir þingmenn, embættismenn og aðrir sem báru ábyrgð á íslensku stjórnkerfi eða koma að hruninu á einn eða annan hátt þurfi að kanna sinn þátt í þeim mistökum sem gerð hafa verið undanfarin ár og biðjast afsökunar.
Það er ekki hægt að kenna bara siðlausum útrásarvíkingum eða bankastjórum einum um því það eru kjörnir fulltrúar okkar sem báru ábyrgð á regluverkinu sem samið var um slíka starfsemi, eftirlitinu sem átti að sinna og ábyrgðinni á viðeigandi stofnunum. Bankarnir og fjármálafyrirtæki sem uxu eins og mjólkurkýr á sterum voru þegar upp er staðið alltaf í íslenska fjósinu og því íslenska þjóðin sem þarf að taka skellinn þegar þær eru allar dauðar af ofneyslu stera og hættar að mjólka...
Þingmenn sem eru kosnir til valdamikilla embætta eða aðrir sem bera mikla ábyrgð í okkar samfélagi vilja innst inni standa sig vel. Flestir fara í slík störf út af hugsjón um að breyta og gera betur. En stundum ber menn af leið, þeir blindast, hætta að sjá heildarmyndina og villast af leið. Aðrir hafa ekki nógu mikinn kjark eða vilja ekki missa áður áunninn sess og fylgja því með straumnum gegn sannfæringu. Allir spila með því enginn vill vera leiðinlegi karlinn eða tapa sínum stað í partýinu.
Þess vegna er þetta sársaukafull og erfið umræða sem nú fer í hönd. Umræða um það að fólk hafi gert mistök og hafi brugðist þeim sem treystu á það. Það er hins vegar nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að klára þessa umræðu því annars mun hún liggja eins og mara á okkur um ókomna tíð. Til að fá viðspyrnu og geta haldið áfram þurfum við að rannsaka hvað fór úrskeiðis, játa mistök sem hafa verið gerð og biðjast afsökunar. Það er eina leiðin til þess að halda áfram aftur inn á rétta braut - reynslunni ríkari.
Ég játa þau mistök að hafa engan veginn gert mér grein fyrir því hversu gríðarstór útrásin var orðin og að það yrði íslenska þjóðin sem tæki skellinn ef illa færi. Einhvern veginn hélt maður að útrásin sæi um sig sjálfa og þessi fyrirtæki en það er kannski ekki að undra því það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt okkur í 18 ár að markaðurinn og fyrirtækin sjái um sig sjálf! Ekki óraði mig fyrir því að þessi útrás stæði á slíkum brauðfótum svikamyllu.
Ég er ekki komin nógu langt í pólitík til að hafa haft áhrif á regluverkið en ég hefði getað skrifað greinar og andmælt. Ég hefði líka getað mótmælt því hvernig þjóðin var að skiptast í tvær þjóðir hinna sjúklega ríku (sem lifðu á loftpeningum) og okkar hinna. Á því biðst ég afsökunar sem þegn þjóðfélagsins. Ég hefði líka átt að hringja í skattstjóra og gera athugasemdir við undarlegar tekjur í Frjálsri verslun í stað þess að hlægja bara að þjóðaríþróttinni að stinga undan skatti og skipta um kennitölur. Ég hefði átt að gera athugasemd við það að fólk sem lifir á fjármagnstekjum skuli leggja 10% í sameiginlega sjóði okkar á meðan almennur launamaður leggur tæp 40%.
Ég er ekki eins og Davíð sem vissi þetta allan tímann... en enginn hlustaði á! Ég vissi að það var eitthvað skrýtið í gangi en ég vissi ekki alveg hvað og hvernig ætti að bregðast við.
Sekt og sakleysi á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. mars 2009
Framsókn slær takt til framtíðar
Helgina 16. - 18. janúar sl. sótti ég flokksþing framsóknarmanna. Þingið stóð ekki aðeins undir væntingum mínum heldur fór langt fram úr þeim. Það einkenndist af samhug, krafti og góðri stemningu. Strax varð ég vör við þann ferska blæ sem leikur um Framsóknarflokkinn. Flokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem svarað hefur og brugðist við kalli almennings um róttækar breytingar. Forystusveit flokksins var endurnýjuð á djarfan hátt með Sigmund Davíð Gunnlaugsson kjörinn sem nýjan formann, Birki Jón Jónsson sem varaformann og Eygló Þóru Harðardóttur sem ritara. Þessi vaska sveit er skipuð ungu og mjög hæfu fólki. Einnig voru mörg mikilvæg málefni afgreidd á þinginu. Þau mikilvægustu eru að mínu mati ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið með skýr skilyrði að leiðarljósi, ályktun um stjórnlagaþing, ályktun um siðareglur, ályktun um opinberar stöðuveitingar og lagabreytingar sem stuðla að auknu lýðræði í flokknum.
Það eru erfiðir og óvenjulegir tímar sem krefjast þess að hugsað sé út fyrir rammann. Breytingar eru erfiðar en við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að þær eru nauðsynlegar. Ef vel tekst til mun það mikla umrót sem nú á sér stað skila komandi kynslóðum mun heilbrigðara samfélagi. Fórnarkostnaðurinn er þó sorglega hár. Það mikilvægasta er að ná sátt í samfélaginu og endurvinna traust og samheldni að nýju. Við framsóknarmenn erum ekki að boða nýjan flokk. En, við erum að boða flokk sem hefur endurnýjað forystusveit sína, er reynslunni ríkari og vill læra af fyrri mistökum með góð málefni og gott fólk í broddi fylkingar. Við munum sýna það með verkum okkar að okkur er full alvara. Það er ein ástæða þess að við settumst ekki í ríkisstjórn án endurnýjaðs umboðs þjóðarinnar. Við viljum einnig að Íslendingar móti sér nýja stjórnarskrá með hugmyndum okkar um stjórnlagaþing. Þannig gætu mögulega komið til róttækar breytingar á stjórnkerfinu, t.d. á kosningalöggjöfinni. Eitt mikilvægasta atriðið þar er að aðskilja löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið.
Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að uppgjör við fortíðina geti átt sér stað, mögulegt sé að hlúa að fólkinu og fyrirtækjunum í landinu strax og byggja upp betra samfélag til framtíðar. Mikilvægustu verkefnin eru að mínu mati uppgjör á hruninu sem varð í haust með liðsinni óháðra, erlendra aðila, skipulag nýrra vinnubragða og regluverks í stjórnkerfinu, stoð við atvinnulífið með öllum mögulegum leiðum, efling útflutningsgreina okkar og síðast en ekki síst stoð við menntakerfið og velferðarkerfið. Huga þarf að því að fullvinna hráefni hérlendis sé þess kostur til að auka verðmætasköpun og hvetja íslensk fyrirtæki sem starfa erlendis til þess að flytja starfsemi sína aftur heim.
Sumir telja stjórnmálaflokkana vera lokað vígi sem ómögulegt sé að komast inn fyrir í sé maður ekki innvígður flokksmaður frá barnsaldri. Ég get vottað um það að ég kom ein og ný inn í Framsóknarflokkinn fyrir þremur árum síðan. Mér var strax tekið opnum örmum og ég hef notið trausts og fengið að láta til mín taka á mörgum sviðum síðan þá. Vissulega þarf fólk að sýna áhuga og vera tilbúið að leggja á sig mikla vinnu þegar það ákveður að leggja lag sitt við stjórnmálaflokk og hafa áhrif. Uppskeran er hins vegar ríkuleg við þá tilfinningu að taka þátt í því að móta betra samfélag og í slíku starfi eignast maður einnig marga góða vini. Ég hvet þig sem hefur áhuga til þess að ganga til liðs við okkur í Framsókn til framtíðar að hafa samband strax í dag! Frekari upplýsingar má nálgast á www.suf.is og www.framsokn.is.
(grein birt í Morgunblaðinu 2.3.2009)
Sigmundi Davíð boðin sáttahönd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 2. mars 2009
Þetta er óvænt...
Vægast sagt.
Nú hlýtur að hrikta í Valhöll.
En ég ætla að gera það sem ég hélt ég myndi ekki gera á næstunni. Ég ætla að hrósa sjálfstæðismönnum fyrir þetta. Margt af því sem þeir eru að vinna þarna er í anda þess sem ég hef haldið fram og viljað sjá alla flokka gera. Fara yfir hvað gerðist hafið yfir sjálfmiðun þá sem einkennir oft stjórnmálin. Mér finnst það líka hróss vert og til eftirbreytni að hafa þetta á opinni vefsíðu og svara þannig háværu kalli um gagnsæi. Þetta hlýtur að vera ansi stórt skref fyrir sjallana... Grasrótin hefur loks sprottið upp yfir bláu höndina sem haft hefur heljartök á öllu og öllum innan sinna vébanda.
Ég myndi vilja sjá alla flokka taka þennan slag og það er nú ekki í fyrsta skipti sem ég segi það...
Allir flokkar eiga að geta hafið sig yfir að verja eigin mistök og eigið fólk ef þeir raunverulega vilja hag landsmanna sem mestan því geti þeir ekki viðurkennt mistök og beðist afsökunar þá komast þeir ekki upp úr þeirri sandgryfju sem þeir sitja fastir í.
Það er ekki lengur um "business as usual" að ræða í íslenskum stjórnmálum. Hér þarf ekki aðeins að gefa upp á nýtt. Það þarf nýtt spil og nýja leikmenn. Allir þeir sem setið hafa að stjórn landsins og í embættum þess þurfa verulega að hugleiða sitt framlag, sína ábyrgð og afleiðingar á gagnrýninn hátt (bæði fyrir og eftir hrunið). Allir flokkar þurfa að fara í róttæka rýni til dæmis um áhrif smæðar þjóðfélagsins á flokkinn þar sem nokkrir menn geta haft töglin og haldirnar í öllu með fjármagnið að vopni. "Money talks" hefur svo sannarlega verið raunin í okkar litla samfélagi.
Þessi skýrsla kemur fram á athyglisverðum tímapunkti því ég tel hana sýna það svart á hvítu að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að minnsta kosti kjörtímabil ef ekki lengur til þess að vinna á meinum sínum og er því ekki valkostur í næstu kosningum. Hann er ekki stjórntækur að mínu mati. Það er líka alveg kominn tími til því það er ekkert náttúrulögmál að þessi flokkur sitji að stjórn landsins, að minnsta kosti hefur það náttúrulögmál leitt náttúruhamfarir yfir þjóðina undanfarin misseri. Og það þýðir ekkert að segja að allir hafi nú haft það gott lengst af þessi 18 ár... það var mestallt tekið að láni og reikningurinn er kominn!
Ef Sjálfstæðisflokkurinn klippir sig einhvern tímann frá auðvaldinu sem hefur stýrt honum, fer í gegnum hreinsunareld og iðrun þá gæti alveg risið öflugur hægri flokkur upp úr honum á ný. Það ber að virða að á sama hátt og sum okkar verða alltaf á miðjunni þá eru aðrir sem verða alltaf til hægri og það fólk þarf að eiga sinn valkost eins og aðrir.
Flokkurinn þoli stór orð" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 1. mars 2009
Alvöru pólitík er langhlaup
Þessa dagana eru flestir frambjóðendur að reima á sig hlaupaskóna. Þeir hendast á milli fólks, vinnustaða og annarra opinberra staða til þess að selja kjósendum sannfæringu sína. Allt er í boði fyrir atkvæðið.
Þetta er merkilegt hvernig þetta virðist ekki breytast.
Öll sú góða vinna sem fram fer í spretthlaupi þegar klukkan fer að tikka niður í kosningar ætti að mínu mati að fara fram í langhlaupi allan hinn tímann sem er á milli kosninga.
Ef kerfið byði upp á það og þingmenn sinntu því af alúð þá hefðum við betri tengsl á milli stjórnmálamanna og almennings almennt. Þannig yrði til sá skilningur sem oft vantar og traust sem þrýtur þegar stjórnmálamenn eru farnir að lifa í einum heimi en kjósendur í öðrum. Þessa gjá á ekki að brúa korter í kosningar, hún á aldrei að myndast.
Rétt fyrir kosningar dubba menn sig upp í sitt fínasta og hafa allt í einu áhuga á öllu og öllum. Það er bara ekki trúverðugt.
Vissulega þurfa menn að kynna stefnu sína fyrir kosningar og nýir frambjóðendur þurfa að kynna sig en stjórnmálamenn sem aldrei sjást þegar þeir þurfa ekki á valdi kjósenda sinna að halda en koma svo með offorsi fram þegar á að smala atkvæðum á ný og bjóða allt fyrir atkvæðið eru bara lélegir sölumenn. Þeir líta ekki á sig sem fulltrúa fólksins sem þarf að vita hvernig líðan þess er og hvar skóinn kreppi að. Þeir líta á kosningar sem óþarfa truflun á starfi sem þeir telja sig ganga að sem vísu og eru löngu búnir að gleyma hver kaus þá í upphafi.
Það er makalaust að fylgjast með pólitíkusum sem vita greinilega hvað þeir sjálfir eru léleg söluvara og ákveða því að reyna að selja sig með því að telja kjósendum trú um hvað önnur vara sé léleg í stað þess að selja sína eigin vöru! Hátterni Sjálfstæðisflokksins undanfarið er gott dæmi um slíkt!
Ég myndi vilja sjá stjórnmál þar sem vinnustaðaheimsóknir, kynning í verslanamiðstöðvum, fundir og önnur bein tengsl við fólkið í landinu væru tengdara daglegu lífi stjórnmálamanna.
Stjórnmálamenn eru eins og hjartalæknar þjóðarinnar. Þeir þurfa reglulega að líta á, hlúa að og kanna hvernig hjartað slær hjá þjóðinni. Það þýðir ekki að trassa eftirlitið og ætla svo að skutla þjóðinni bara í opna hjartaaðgerð þegar það er hætt að slá. Ef fylgst hefði verið reglulega með, forvörnum beitt og hjartslátturinn reglulega tekinn væri þjóðarpúlsinn sennilega betri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)