Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 31. mars 2008
Ákall til íslensku ríkisstjórnarinnar frá Vinum Tíbet
Reykjavík 31. mars 2008
Ákall til íslensku ríkisstjórnarinnar
Við sem höfum staðið fyrir því að vekja athygli á hve skelfilegt ástandið er í Tíbet, viljum gjarnan vekja athygli ykkar á því sem er að gerast þar. Tíbetar hafa með friðsamlegum hætti barist fyrir tilverurétti sínum síðan 1959, með afar takmörkuðum árangri. Ef eitthvað, þá hefur ástandið aldrei verið eins slæmt og það er nú. Tíbetar eru orðin minnihlutaþjóð í sínu eigin landi. Um milljón Tibeta hafa verið drepnir síðan Kína hertók Tíbet 1950. Fólki er refsað, pyntað, fangelsað eða hreinlega drepið fyrir að stunda trú sína, fyrir að tala tungumálið sitt, fyrir að virða sinn menningararf. Kínversk yfirvöld hafa virt að vettugi allar tilraunir Dalai Lama til að eiga í opinberum samræðum við þá til að finna lausn á þessum vandamálum, en hann hefur hvatt til sjálfræðis Tíbets, þ.e.a.s. að þeir hafi sína eigin ráðherra. Mjög mikilvægt er að þessi samtöl hefjist nú þegar en það mun væntanlega róa undiröldu hinnar miklu reiði Tíbeta sem hafa horft upp á þjóðmenningu sína visna upp í 50 ár á meðan heimurinn hefur horft í hina áttina. Nú er tíminn til að þrýsta á kínversk yfirvöld. Þið vitið hvað er að gersast í Tíbet. Því berið þið ábyrgð á að bregðast við þessu ákalli. Við trúum því að þið hljótið að setja mannréttindi á oddinn fremur en viðskiptahagsmuni.
Í dag er alþjóðaaðgerðadagur til stuðnings baráttu Tíbeta fyrir mannréttindum í sínu heimalandi. Alþjóðaaðgerðadagurinn er haldinn til að vekja athygli á að nærri 1,5 miljón manna hafa skráð nöfn sín á lista Avaaz Tibet petition, sem kallar á hófsemi í aðgerðum, að mannréttindi séu virt og að kínversk yfirvöld hefji samræður við Dalai Lama.
Aðgerðir verða haldnar um heim allan og kínverskum yfirvöldum afhentur þessi listi á táknrænan máta. Okkar aðgerð í dag er að senda ykkur þessar spurningar og tillögur.
Við óskum eftir greinagóðum svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Er rétt að fórna mannréttindum fyrir viðskiptahagsmuni. Styðjið þið það?
2. Hvernig ætlar þú að beita þér fyrir því að aðstoða Tíbeta í baráttu þeirra fyrir að mannréttindi þeirra verði virt?Hér eru nokkrar tillögur að því hvað íslensk stjórnvöld geta gert til að stuðla að lausn á vandamálum þeim er kosta svo marga Tíbeta lífið ár hvert.
1. Það hefur ríkt mikil þögn hérlendis meðal ráðamanna og enginn flokkur tekið skýra afstöðu með málstað Tíbeta. Við köllum eftir þverpólitískum stuðningi gagnvart baráttu þeirra og að íslenskir ráðamenn hvetji kínversk yfirvöld til að hefja samræður við Dalai Lama nú þegar.
2. Hægt er að þrýsta á kínversk stjórnvöld til að þau aflétti herlögum af Tíbet nú þegar og opni landið fyrir sjálfstæðum alþjóða- fjölmiðlum og mannréttindasamtökum.
3. Íslenska ríkisstjórnin getur þrýst á S.Þ. um að senda rannsóknarnefnd til Tíbet nú þegar til að komast að hver hlutskipti mótmælenda eru: talið er að um 100 Tíbetar séu horfnir (drepnir), 1200 í fangelsum og 79 hafa verið drepnir vegna undanfarinna mótmæla.
4. Þrýsta á kínversk yfirvöld að láta lausa pólitíska fanga eða þá sem eru fangelsaðir vegna trúar sinnar eða hafa beitt sér fyrir auknum mannréttindum í Kína og Tíbet.Fjölmargar þjóðir hafa á alþjóðavettvangi stutt við að mannréttindi Tíbeta séu virt. Við hvetjum íslenska ráðamenn að gera slíkt hið sama. Hér eru nokkur dæmi um hvað við getum gert til að styðja Tíbeta í þeirra baráttu fyrir mannréttindum.
Við getum farið að dæmi þjóðverja og stöðvað allar umræður við Kínverja um efnahagsþróun og viðskipti.
Við getum farið að dæmi Karls Bretaprins, Václav Klaus Tékklandsforseta og Merkel Þýskalandskanslara og sniðgengið opnunarhátíð Ólympíuleikana eða farið að dæmi Forsætisráðherra Póllands Donalds Tusk og bókað viðtal við Dalai Lama í stað þess að fara á opnunarhátíðina.
Þetta bréf verður sent á alla alþingismenn allra flokka, þar sem þeir eru hvattir til að svara þessum spurningum samviskusamlega og svör þeirra verða svo birt á netinu, birgitta.blog.is.
Með vinsemd
Vinir Tíbets
(Bréfið er tekið af vefsíðu Birgittu Jónsdóttur http://www.birgitta.blog.is/)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. mars 2008
Mikilvægt mál
Oft var þörf en nú er nauðsyn á því að standa þéttan vörð um hag þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Ég hef áhyggjur af þeim sem minnstar tekjurnar hafa og eru jafnvel að fá minna (sem allt of lágt var nú samt) vegna þeirrar verðbólgu sem ríkir. Þetta er hópur sem ekki á feita varasjóði og þarf að draga fram lífið á hverri krónu. Ég hef ekki áhyggjur af þeim hópi fólks sem þarf að leggja einkaþotunum sínum um skamma tíð.
Ég tel það mjög gott mál hjá Birki að stuðla að því að fulltrúar þeirra hópa sem virkilega þarf að huga að hittist og ræði málin. Það er í anda þess samráðs sem á að vera í sífellu í pólitík. Mikilvægt að heyra stöðuna beint frá viðeigandi aðilum og hafa þá sem best þekkja til með í ráðum um það hvar kreppi mest að og hvaða leiðir sé best að fara til að leysa vandann eins og best verður á kosið.
Það má eflaust deila um fortíðina og margt sem betur hefði mátt gera þar, bæði í þessum málaflokkum sem og öðrum. Sem betur fer lærum við af fortíðinni. Sá sem veltir sér einungis upp úr fortíð mun ekki sjá betri framtíð. Einu sinni var mér sagt af Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa "Við lærum af fortíðinni, lifum í nútíðinni og horfum til framtíðar". Það finnst mér gott að muna. Það er mín trú. Þess vegna tel ég mikilvægara að menn horfi jákvæðum augum til þess sem er verið að gera í dag og einbeiti sér frekar að því að gagnrýna á uppbyggilegan hátt það sem aflaga fer í nútímanum en læri af fortíðinni til að byggja betri framtíð. Persónulegar árásir á fólk og áfellisdómar um liðna tíð eru engum til framdráttar. Því miður finnst mér það vera ansi algengt í pólitík og einnig hér á blogginu.
Ég hrósaði Jóhönnu fyrir hennar verk um daginn. Ég er viss um að hún er vel að því hrósi komin. Jóhanna er einn sá stjórnmálamaður sem ég tók eftir strax sem lítil stelpa og hef alltaf haft miklar mætur á henni síðan. En hún eins og aðrir sem hafa farið með þennan málaflokk er undir gríðarlegri pressu að vinna þannig að það komi öllum hópum sem best og er eflaust undir strangri fjármálaól Sjálfstæðisflokksins sem ekki er velferðarflokkur og hefur farið með fjármálaráðuneytið í langan tíma. Það er nefnilega ekki nóg að hafa góðar hugsjónir. Það þarf líka fjármagn og rétta forgangsröðun. Þar er ábyrgð Sjálfstæðismanna mikil. Jóhanna er því undir sömu ól og fulltrúar Framsóknar hafa verið í langan tíma. Það er ekki oft minnst á það þegar framsóknarmenn fá harða gagnrýni á vinnu sína. Enn sjaldnar er minnst á mörg þau góðu mál sem unnin voru af framsóknarmönnum. Sem dæmi má nefna feðraorlofið, stuðning við Hugarafl, að koma á fót Fötlunarfræðum við H.Í., breytingar á lögum um fæðingarorlofssjóð, standa dyggan vörð um Íbúðalánasjóð og fleira.
![]() |
Birkir Jón: Vill ræða málefni aldraðra og öryrkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 31. mars 2008
Sírenur
Ég velti vöngum yfir því í mörgum hvort það væri bara ég eða hvort óvenju margar sírenur væru núna. Þar sem ég bý ekki langt frá sjúkrahúsi þá heyri ég nokkuð oft sírenur.
Ég velti því sama fyrir mér í dag þegar ég var stödd niðri í miðbæ og sá tvo slökkviliðsbíla fara framhjá og heyrði meira sírenuvæl.
Ég velti því fyrir mér hvort einhver ólga væri að taka sig upp á ný og ræddi það við vinkonu mína.
Það er hins vegar svolítið sérstakt að þegar maður býr sjálfur á staðnum þá verður maður ekkert sérlega var við allt sem gerist. Ég t.d. vissi það ekki fyrr en ég var á Íslandi um daginn að það hefði verið sprengdur leikskóli ekki ýkja langt frá mér í látunum um daginn.
Lífið heldur áfram sinn vanagang þrátt fyrir sírenur og maður vonar alltaf í hvert skipti sem maður heyrir þær að betur hafi farið en á horfist.
http://jp.dk/webtv/webtv_indland/?movieId=15756&Id=1306706
http://jp.dk/indland/aar/article1306565.ece
![]() |
Bílsprengja í Árósum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. mars 2008
Nú verð ég að endurskoða hrósið
Ég verð að játa á mig mistök.
Ég hrósaði Ingibjörgu Sólrúnu, utanríkisráðherra, fyrir að bregðast við vegna málefna Tíbet. Að vonum var ég ánægð að eitthvað líf bærðist á stjórnarheimilinu vegna þessara grafalvarlegu mála utan úr heimi sem við eigum að láta okkur varða.
Ég verð hins vegar að játa það að ég hef greinilega ekki fylgst nægilega vel með (kannski ekki furða þar sem ég er ekki búsett heima).
Nú heyri ég það að Ingibjörg Sólrún taki undir "Eitt Kína" stefnuna og það geri íslensk stjórnvöld almennt. http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item198187/ Þessari stefnu hafi einnig Bjarni Benediktsson þingmaður lýst og tekið undir.
Ég verð því að endurskoða hrós mitt og segja að gott að íslensk stjórnvöld skuli hafa áhyggjur af ástandinu en þau sýna líka hræsni með því að segja í sömu andrá að þau styðji stefnuna um "Eitt Kína".
Hvert eru íslensk stjórnvöld að fara?
Erum við virkilega að skrifa undir þau hryllilegu mannréttindabrot og kúgun sem átt hafa sér stað í Tíbet í hartnær 50 ár vegna þeirra viðskiptasambanda sem við eigum við Kína? Hvar er siðferðið? Hvar er réttlætiskenndin? Erum við að skrifa undir það að við séum samþykk því að 6 milljón manna þjóð sé smám saman þurrkuð út í eigin landi þar sem áhrif eru höfð á hversu mörg börn tíbetskar konur mega eiga og jafnvel gerðar ófrjóar. Erum við að skrifa undir það að það teljist eðlilegt að kínverskar konur megi eiga eitt barn í Kína en tvö í Tíbet. Erum við að skrifa undir það að erlendum fjölmiðlum sé ekki hleypt að til þess að fjalla um stöðu mála af ótta við að þeir miðli þeirri hörku sem beitt er þegar minnstu mótmælum er hreyft og Tíbetar lýsa því yfir að þeir vilji fá sjálfstæði sitt? Erum við að skrifa undir það að það sé eðlilegt að í helgasta mannvirki Tíbeta, Potala Palace, höll Dalai Lama skuli standa vopnaðir Kínverjar yfir Tíbetum að iðka trú sína? Er fólk virkilega að kaupa það að Tíbetar vilji bara ekkert sjálfstæði? Er fólk virkilega að kaupa það að þeir vilji tilheyra Kína sem innlimaði þá og rændi sjálfstæði þeirra fyrir fimmtíu árum síðan með blóðbaði? Hvaða rugl er þetta eiginlega? Er fólk virkilega að kaupa áróður Kínverja?
Ég er hvorki sérfræðingur í málefnum Tíbet né sögusjení en ég hef sjálf komið til Tíbet og staðið á þaki heimsins. Ég hef gengið um Potala Palace ásamt Tíbetum sem hafa snúið bænahjólum sínum jafnóðum og þeir ganga um salina undir vökulu augnaráði vopnaðra kínverskra hermanna. Ég hef kynnst tíbetsku þjóðinni sem ferðamaður. Þetta er friðsælasta fólk sem ég hef á ævi minni kynnst og mun kynnast. Munkarnir snúa hjólum sínum og biðja jafnóðum og þeir ganga til þess að biðja fyrir þeim dýrum sem þeir komast ekki hjá að kremja á för sinni. Dettur einhverjum í hug að þjóð sem trúir svona heitt á lífið sjálft, endurholdgun þess og ber svona mikla virðingu fyrir því skuli vera hryðjuverkamenn? Ég trúi því vart að fólk skuli kaupa svona áróður hrátt.
Í dag skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur þegar fulltrúar þjóðar okkar sýna slíka grunnhyggni og láta peningana ráða en ekki siðferði eða mannréttindi.
Við ættum að líta okkur nær. Það er ekki langt síðan að við vorum fátæk þjóð innlimuð undir stjórn Danaveldis. Myndum við þá skrifa undir "'Eitt Danaveldi" stefnuna? Myndum við skrifa undir það að eðlilegt væri að Danir mættu eignast tvö börn á Íslandi en aðeins eitt í Danmörku? Myndum við skrifa undir það að sjálf mættum við aðeins eiga eitt barn? Myndum við skrifa undir það að smám saman væru Danir að leggja landið okkar undir sig vegna náttúruauðlinda? Myndum við skrifa undir það að menning okkar væri einskis metin og við fengjum varla vinnu í Reykjavík nema tala ensku eða dönsku? Myndi okkur finnast við vera hjálparlaus þegar enginn úr alþjóðasamfélaginu veitti okkur hjálparhönd af ótta við að styggja hina stóru þjóð Danaveldi?
Ég held við myndum ekki skrifa undir þetta og ég held við værum ansi bjargarlaus í þessari stöðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 30. mars 2008
Til stuðnings Tíbetum
Hvet ykkur öll til þess að skrifa undir til stuðnings Tíbetum og taka þátt í þeim aðgerðum sem staðið er fyrir. Sjá nánar á http://www.birgitta.blog.is/ og http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/
Mánudaginn 31. mars munu Íslendingar ekki láta sitt eftir liggja og taka þátt í alþjóðadegi til stuðnings baráttu Tíbeta fyrir mannréttindum og hittast fyrir utan kínverska sendiráðið að Víðimel 29, kl 17:00.
Hér skrifið þið undir:
http://www.avaaz.org/en/tibet_end_the_violence/50.php
![]() |
Ólympíueldurinn afhentur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. mars 2008
Tíbet fyrir Tíbeta
Það er þyngra en tárum taki að vita (og ekki vita í raun og veru) til þess sem Tíbetar hafa þurft að búa við síðastliðin 50 ár og eru að eiga við í dag.
Nú þarf heimsbyggðin að bregðast við og nýta til þess þrýsting vegna ÓL í Peking í sumar.
Kínverjar eiga að láta af yfirráðum sínum yfir Tíbet og veita þeim fullt sjálfstæði á ný. Það er augljóst að þeir vilja halda Tíbet vegna þeirra eðalmálma sem Tíbet býr yfir.
Ég er ánægð með Birgittu Jónsdóttur http://www.birgitta.blog.is/ og þá sem hafa verið að leggja sitt á vogarskálarnar heima vegna þessara voveiflegu atburða.
Það er sorglegt að risavaxið stórveldi eins og Kína skuli komast upp með það að leggja undir sig annað ríki einungis vegna græðgi fyrir framan augu heimsbyggðarinnar án athugasemda. Ekki nóg með það heldur er markvisst verið að reyna að þurrka út menningararf Tíbeta og smám saman þurrka þessa þjóð út. Sem vott um það þá mega Kínverjar sem búa í Tíbet eiga tvö börn á meðan þeir mega einungis eiga eitt barn í Kína. Hvers vegna skyldi það nú vera?
Það var ein sú sorglegasta upplifun sem ég hef upplifað að vera stödd í Potala Palace, höll Dalai Lama, umkringd Tíbetum sem voru þar að biðja undir vökulu augnaráði vel vopnaðra kínverskra hermanna. Þannig var ástandið 2002. Ég get því ekki ímyndað mér hvernig það er núna.
Hvet alla til að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu fyrir Tíbet.
http://www.avaaz.org/en/tibet_end_the_violence/50.php
![]() |
Mótmæli í Tíbet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 30. mars 2008
Fljótt berst fiskisagan
Hér í Danmörku hef ég orðið vör við það að umfjöllun hefur verið í dönskum fjölmiðlum um efnahagskerfi Íslands.
Það skilar sér greinilega út í umræðuna því fólk hefur verið að spyrja mig hvort allt sé að hrynja til grunna á Íslandi.
Svona held ég að neikvæð umræða ýti mikið undir þann vanda sem að okkur steðjar um þessar mundir.
Þarna eins og í svo mörgu öðru er máttur fjölmiðla gríðarlegur.
Þetta er ekki gott mál.
![]() |
Bretar taka út af reikningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 29. mars 2008
Gott mál!
Ánægjulegt er að sjá fólk sem vill standa við bak Tíbeta og mótmæla þeim mannréttindabrotum sem framin hafa verið gegn þeim í hartnær hálfa öld.
Nú er tími Tíbeta kominn!
Tími til þess að þeir losni úr klóm kínverska drekans og geti lifað áfram í sátt innan um fegurstu fjöll veraldar og hreina trú sína á lífið sjálft.
Hvar skráir maður sig í þessi samtök?
![]() |
Mannréttindabrotum mótmælt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 29. mars 2008
Samferða...
Þetta lag Mannakorns heillaði mig upp úr skónum. Alveg óvænt. Þetta rúllaði reglulega í spilaranum á Dodge á ferð minni með sveitalingunum um Norðurland og hefur sönglað í höfðinu á mér síðan... Það er bara eitthvað við lagið og textann sem heillar mig. Þetta er svo fallegur texti.
Ég hef verið að leita að textanum en finn hann ekki? Endilega bendið mér á slóðina ef einhver veit hvar hann er að finna.
Svo er annað lag sem er efst á baugi hjá mér núna og það er lagið Jolene með Lay Low. Mér finnst það líka rosalega flott. Enda enginn smá tónlistarmaður á ferð þar og ekki síðra lag sem hún tekur.
En það er eitthvað við textann í lagi Pálma Gunnarssonar sem fær mig til að hugsa. Og ég fer á smá hugarflug.
Við fæðumst inn í þennan heim. Við veljum okkur ekki hverjum við erum samferða á fyrstu árum lífsins. Hvað ætli úrskurði það inn í hvaða fjölskyldu við fæðumst og hvaða net tengist þeirri fjölskyldu? Er það hrein tilviljun? Er það guðlegt? Er það fyrirfram ákveðið þar sem þetta fólk er hluti af ákveðnu verkefni sem maður þarf að leysa? Er það einungis ráðið af því að við urðum til af erfðafræðilegum ástæðum og ekkert dularfullt við það? Erum við sál í þessum líkama eða er hér aðeins um lífeðlisfræðilegt ferli að ræða?
Þegar þessum fyrstu árum er lokið sem móta okkur að eilífu tekur við næsti kafli. Við erum sú manneskja sem við erum af því vorum svona þegar við vorum 5 ára, 10 ára, 15 ára. Sú manneskja fer ekki neitt eða hverfur, hún bara eldist. Á vissan hátt erum við ennþá þetta 10 ára barn, við lokum bara stundum á það. Er þá persónuleikinn og þættir hans eitthvað sem verður til um leið og lífið kviknar og er óbreytanlegt í grunninn? Tekur persónuleikinn breytingum við þær mótbárur og meðvind sem við mætum? Um þetta hefur ógrynni verið skrifað í gegnum tíðina. Ég held að persónuleiki okkar sé nokkuð stöðugur strax frá upphafi en svo mótast hann í gegnum lífið með ákveðnum atburðum og fólki sem á vegi okkar verður.
En næsti kafli lífsins snýst um það að við erum flogin úr því hreiðri sem við hófum för okkar í. Og þá er það okkar val að velja hverjum við erum samferða. Hvernig veljum við þá aðila? Gegnum vensl. Flestir verða samferða fólkinu sem nærði það og kom á legg, aðrir ekki t.d. ef einhverjir brestir voru þar. Erum við lituð af fyrsta samferðafólkinu okkar þegar við veljum okkur fleiri samferðamenn? Festumst við þannig í sama mynstrinu aftur og aftur? Eru það hrein örlög hverjum við kynnumst? Að vissu leyti tel ég það vera. Það eru visst fólk í mínu lífi sem ég trúi að ég hafi átt að hitta því það hefur auðgað líf mitt á einhvern hátt og hjálpað mér að kynnast sjálfri mér betur. Stundum hittum við líka ranga fólkið til að vita hvaða fólk er rétta fólkið.
Svona heldur lífið áfram og þegar við höldum för okkar áfram með okkar samferðafólki, bæði því sem við völdum og völdum ekki þá eignumst við sjálf litla ljósgeisla sem völdu sér okkur ekki og við völdum ekki sérstaklega þessa persónuleika sem þó eru oftast hold okkar og blóð. Þeir munu svo vonandi fara í gegnum sama ferli að eiga hreiður sitt hjá okkur en halda svo þaðan á vit nýrra ævintýra og velja sitt fólk.
Þegar hallar á síðari hlut lífsgöngu okkar þá gerum við upp hverjum við höfum verið samferða í þessu lífi, horfum stolt tilbaka (vonandi) á þær leiðir sem við völdum í lífinu og hvað við lærðum af þeim mistökum sem við gerðum. Fylgjumst einnig stolt með ungunum okkar sem við vorum svo lánsöm að fá í hreiðrið til að verða okkur samferða. Fylgjumst með trega með fólkinu sem okkur þótti vænt um týna tölunni einn af öðrum.
Þegar okkar lífsgöngu lýkur þá veit enginn um næstu vegferð? Hvert liggur hún. Eigum við aðeins þessa einu vegferð og því er betra að lifa henni til fulls og leggja okkur öll fram. Kannski liggur leið sálar okkar í nýja vegferð, kannski ekki. Kannski munum við hitta nýtt fólk eða jafnvel fólk sem við höfum áður verið samferða. Kannski verðum við þá samferða fólki sem við ekki vorum samferða í síðasta lífi?
Svona getur eitt lag sett mann á hugarflug og vakið upp hjá manni óendanlegar spurningar sem nánast engum verður svarað til fullnustu eða með vísindum.
Samferða... öll við erum samferða... hvert sem liggur leið, gatan mjó og breið, torfær eða greið... Viltu ganga um mínar dyr, verst ég opnaði ekki fyrr... en ég veit að enn er hægt að biðja um meiri og betri grið...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 29. mars 2008
Rússnesk rúlletta með líf annars fólks
Þegar menn keyra bæði undir áhrifum áfengis og á tvöföldum hraða þá verður að taka gríðarlega hart á því. Þeir ættu að missa prófið til lengri tíma og ekki fá það aftur nema háð skilyrðum þannig að þeir verði að sýna fram á að þeir ætli að bæta ráð sitt til framtíðar.
Það er ekki hægt að bjóða almenningi upp á að hafa svona tímasprengjur í umferðinni.
Mér finnst þetta fyrst og fremst sorglegt.
Hvað rekur menn til þess að keyra svona?
Þetta er rússnesk rúlletta með líf saklausra vegfarenda og eigið líf. Það má ekkert bregða út af svo stórslys verði og það er mikil hætta á því þegar skynfærin eru dofin vegna ölvunar og hraðinn slíkur.
Hins vegar var ég einmitt að ræða það við systur mína þar sem við vorum að keyra að norðan eftir páskahelgina að það væri ekki eins áberandi ofsaakstur á þjóðvegum og áður. Að sú umræða sem verið hefði væri farin að skila sér í ábyrgari akstri. En þessi hefur greinilega ekki tekið mark á þeirri umræðu eða séð bílhræin og teljarann á Hellisheiðinni.
Nema hann hafi kannski verið að keppast við að koma sjálfum sér og öðrum á skiltið? Ég á bágt með að trúa því en hvað á maður að halda?
![]() |
Ölvaður á 194 km hraða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |