Guð blessi Ísland

Hvernig gat þetta gerst á Íslandi?

Þessi spurning endurómaði í kollinum á mér á meðan ég sá þessa mynd og sveiflaðist á milli margra ólíkra tilfinninga.

þetta er nýr veruleiki. Samfélagið og fólkið upplifði hér átök sem maður hefði aldrei trúað að ættu sér stað á Íslandi. Við erum svo fá. Maður hefur ætíð haft þá ímynd að okkur takist að leysa úr okkar málum, takist að sigla saman. Þarna finnst manni í fyrsta skipti að maður sjái hlið á þjóðinni sem ekki hefur áður sést. Klofna þjóð í ólíkum fylkingum.

Það sorglega er að einhvern veginn erum við öll bara manneskjur að reyna að skilja veruleikann og gera okkar besta til að bregðast við honum óháð því hvaða hlutverk við spilum í fléttunni. Sumir að berjast fyrir betri heimi, aðrir að fá útrás fyrir reiði, sumir að reyna að verja grunnstofnanir okkar og aðrir að reyna að stýra skútunni. Svolítið svona panic ástand eins og maður sá á Titanic þegar ljóst var að skipið myndi sökkva. Hið mannlega eðli á sér margar ólíkar myndir þegar ógn steðjar að.

Ég fann til með Geir sem greinilega er að reyna sitt besta án árangurs til þess að halda í stýrið á stjórnlausri skútu sem berst um í storminum. Álíka stormi og var hér í gær. Slíkt verkefni getur ekki einn maður leyst. Kostnaður þess jafnvel að stórskaða eigin heilsu um hríð og ekki fyrsti leiðtoginn okkar sem lendir í slíku. 

Það erfiða við þennan storm sem við lentum í og þær rústir sem við sitjum uppi með í dag er að svo stór hluti hans er af mannavöldum. Ef hér hefði skollið á stormur sem hefði valdið gríðarlegu tjóni af náttúruvöldum þá hefði þjóðin samhent verið búin að reisa allt upp á ný. Það er sú hlið á þjóðarsálinni sem við erum vön að sjá. Við erum ekki vön að fara nánast í stríð hvert við annað þegar erfiðleikar steðja að.

Ég held samt að flest séum við sammála um það að hér hafi hlutirnir farið langt fram úr því sem eðlilegt getur talist. Ákveðnir aðilar fóru algjöru offari hér á landi sem erlendis. Kunningjasamfélagið, spilling, ónýtt regluverk og lítið sem ekkert eftirlit bætti svo olíu á eldinn sem logaði glatt og skildi eftir sig brunarústir og sviðna jörð. Þessir aðilar eru manneskjur eins og við hin. Eiga skilið virðingu sem slíkar og saklausir uns sekt er sönnuð. En... þeir eru hins vegar ábyrgir fyrir eigin gjörðum og þurfa að axla hana séu þeir dæmdir sekir sem enginn vafi leikur á að verði í einhverjum tilfella.

Það er skelfilegt til þess að hugsa ef við erum fallin í sama hjólfarið eða ef við komumst aldrei upp úr því. Sama fólkið að skera sér feitar sneiðar af hræunum sem eftir liggja og sama spillingin í sama jarðvegi. Hér verður að verða raunveruleg breyting. Breyting með nýju regluverki, eftirliti, góðu fólki og síðast en ekki síst siðgæðisvitund að leiðarljósi.

Ég held að við þurfum að hverfa aftur til gamalla og góðra dyggða. Efla náungakærleik, samvinnu, samstöðu, siðgæði og byggja upp gott samfélag þar sem við höfum ávinning af því að bera saman þau samfélagslegu verkefni sem þarf að vinna án þess að drepa niður framtakssemi okkar og kraft. Standa saman vörð um auðlindirnar okkar og nýta arð af þeim til samfélagsins. Hverfa til fjölskyldugildanna og meðal til smærri eininga til dæmis varðandi fyrirtækjarekstur. Efla litlu fjölskyldubúin, smærri útgerðir og sprotafyrirtækin okkar. Við þurfum að fara að hugsa á sama hátt og forfeður okkar sem vissu að fyrir hlutunum þurfti að hafa og peningar vaxa hvorki á trjám né verða til úr loftinu einu saman. Það er hörmung að sameiginlegur auður og vald safnist á örfáar hendur og hinn vinnandi maður eigi að taka skellinn eftir uppskerubrest vegna mannlegra mistaka herragarðseigandans án þess að hafa einu sinni verið boðið hlutur af uppskerunni eða þess að njóta ávaxtanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband