Í dag er 10. október - Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn

 

Ég var svolítið hissa því ég var að renna yfir vefmiðlana áðan og sé ekkert á þeim um þennan merkisdag. Gæti vel hafa farið fram hjá mér þó.

Þessi dagur má ekki gleymast því hann er mjög mikilvægur.

Dagur til þess að minna okkur á mikilvægi þess að hafa geðheilsuna í lagi og styðja við bakið á þeim fjölmörgu sem vinna að þessum málefnum alla daga og sýna þeim stuðning sem hafa misst geðheilsu.

Almenn geðheilsa er línudans. Hún er ekki sjálfsögð og allir fá einhvern tímann "geðkvef" eða "geðlungnabólgu". Það er að segja hjá öllum koma tímar, dagar eða lengri tímabil þar sem okkur líður bara ekki vel. Við sjáum kannski ekkert framundan í þessu blessaða lífi, missum vonina og lífsneistann.

Kannski upplifum við hömlur í okkar daglega lífi vegna atriða eins og kvíða eða fælni. Þorum ekki að fara í Kringluna af því við óttumst að gera okkur að fífli eða að athyglin beinist að okkur á einn eða annan hátt. Það er ekki sjálfgefið að geta notið allra lystisemda lífsins. Á tímum getum við átt á hættu að sitja föst innan í okkar eigin múrvegg. Vegg sem getur reynst þrautinni þyngra að brjóta niður og enginn getur nema við sjálf.

Við höfum öll hrasað á lífsleiðinni eða fengið á okkur smá áverka sem veita okkur ör til framtíðar. Það góða við slíkt er að það er það sem gerir okkur að okkur sjálfum. Því betur sem okkur tekst að kynnast okkur sjálfum því betur sjáum við skrámurnar, örin og sárin sem við berum og eigum auðveldara með að láta slíkt efla okkur en hamla. Svo erum við misbrothætt eftir því hvaða umhverfi við erum í hverju sinni. Stundum er sjórinn spegilsléttur og þá reynir ekkert á brestina en stundum er hafið úfið og tilbúið að tæta okkur í sundur ef við förum ekki gætilega.

Ég óska þér sem lest þennnan litla pistil góðs dags, góðrar helgar og góðs tíma. Farðu vel með þig. Elskaðu sjálfan þig eins og enginn sé morgundagurinn því þú ert kraftaverk eins og allir hinir. Enginn er eins og þú og enginn verður nokkru sinni eins og þú. Farðu vel yfir hvað skiptir þig máli í þessu lífi m.a. með því að spyrja þig hvað þú myndir gera þinn síðasta dag hér á jörð og hvaða minningar eru þér dýrmætastar. Gerðu miklu meira af einmitt því sem þú fannst út. Gerðu minna af því sem þú sérð að skiptir kannski ekki öllu máli. Njóttu þess að gefa og þiggja. Bæði gagnvart sjálfum þér en ekki síður gagnvart þeim sem þú elskar. Mundu að hvert augnablik kemur aldrei aftur, ætíð bíður þín nýtt tækifæri ef þú horfir vel eftir því. Morgundagurinn er nýr dagur og fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað. Það er þitt að ráðstafa þessu tækifæri sem við köllum lífið á þann máta sem þú ert sáttur við :).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Takk Kristbörg!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 10.10.2009 kl. 17:56

2 identicon

Heyr heyr!! Eins og talað úr mínu hjarta....bara miklu betur orðað :)

Guðrún Dúfa (IP-tala skráð) 18.10.2009 kl. 02:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband