Miðvikudagur, 7. maí 2008
Hljómar vel
Þessi hugmynd hljómar vel.
Það er ákaflega mikilvægt að fólk sem hefur alfarið tekjur sínar frá Tryggingastofnun safni lífeyri eins og aðrir landsmenn þannig að um ákveðin þáttaskil verði að ræða við 67 ára aldur (eða 70 ára aldur).
Það er þekkt staðreynd innan fötlunarfræða og dapurleg staðreynd að lífsferill fatlaðs fólks hefur verið eins og ein samfelld lína. Það er að segja að ekki verða þessar stóru breytingar hjá mörgu fötluðu fólki eins og verða hjá fólki almennt í lífinu. Þessar stóru breytingar eru t.d. þær að ljúka námi og hasla sér völl á vinnumarkaði, fara á eftirlaun og fleira.
Fólk sem hefur verið í þjónustu t.d. á dagþjónustustofnunum hefur haldið sínu striki þrátt fyrir að verða 67 ára og haldið áfram að fá sínar mánaðarlegu lágu tekjur frá Tryggingastofnun. Þetta er eitthvað sem þarf að endurskoða.
Einnig er afar mikilvægt að vinna markvisst að eflingu atvinnuúrræða fyrir þá sem hafa skerta starfsgetu. Þá á ég við alla möguleika. Allt frá því að starfa á vernduðum vinnustað eða vera í dagþjónustu í það að starfa á almennum vinnumarkaði. Allt eftir því hvað hentar hverjum og einum og hvað hann velur sér. Fólk á nefnilega að eiga raunverulegt val! Það er afar mikilvægt.
Jóhanna ætti að stuðla að því að markvisst verði unnið að því að hvetja opinber fyrirtæki sem og einkafyrirtæki í landinu til þess að opna fleiri atvinnumöguleika til þess að auka margbreytileikann á vinnumarkaði. Einnig er ákaflega mikilvægt að slíkt skapi fólki ekki skerðingu eða óvissu með þær tekjur sem fólk hefur frá TR nema eftir langan reynslutíma, t.d. tvö ár. Fólk hefur kvartað sáran undan því að ef það ætli að láta á sig reyna á vinnumarkaði þá skerðist framfærsla sú sem það hefur frá TR um leið og það sé lengi að ná aftur upp sömu réttindum. Þetta er kerfi sem hamlar fólki í stað þess að styðja það!
Með slíkt átaki má leysa úr læðingi ómælda orku fólks sem ekki hefur rúmast á vinnumarkaði hingað til og þannig öðlast fólk hlutverk á ný og þjóðfélagið verður ríkara um leið.
Ég bind vonir við vinnu Jóhönnu í þessum málum. Hún er að standa sig vel að mínu mati. Enda er hún Jóhanna og kannski Björgvin eina bjarta ljósið í Samfylkingunni um þessar mundir sem ekki hefur tekist að standa undir þeim væntingum sem margir bundu við flokkinn fyrir kosningar. Ég tel að minnsta kosti að margir deili þeirri skoðun minni að Ingibjörg Sólrún, Össur og fleiri hafi ekki haft erindi sem erfiði í sínum störfum og hafi ekki náð jarðtengingu við fólkið í landinu á þyrnirósarflugi sínu í einkaþotum ríkisstjórnarinnar. Eitt sinn hafði ég álit á verkum þeirra. Það hef ég ekki lengur.
![]() |
Ný velferðar- og vinnumálastofnun sett á laggirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Og lausnin er?
Þetta eru engin tíðindi.
Menn hafa beðið eftir þessum fundi og bíða enn.
Hvar voru fulltrúar stjórnarandstöðu? Hvers vegna voru þeir ekki boðaðir? Ögmundur telst ekki með þar sem hann var ekki þar sem slíkur.
Fólk bíður þess að heyra lausnir. Ekki eftir því að heyra engar fréttir. Það er ekki nóg fyrir hinn vinnandi mann sem sér lánin sín hækka með hverjum deginum, pyngjuna léttast við hverja innkaupaferðina í þeirri óvissu sem ríkir að heyra að allir ætli að vinna saman án þess að heyra betur útlistað hvernig! Eina lausnin sem ég hef séð framkvæmda eru þessar heilu 4 milljónir sem á að nýta í aukið verðlagseftirlit. Já heilar 4 milljónir.
Það er gott að einhugur og eindrægni hafi ríkt á fundinum. En að hverju ætla menn að vinna og hvernig ætla þeir að leita lausna. Verið er að vinna í því að efla gjaldeyrisforða þjóðarinnar í þessum töluðu orðum? Eða hvað? Af hverju er fólki ekki sagt hvar í því ferli stjórnvöld eru stödd? Samkvæmt þessari frétt er það ekki hafið en samkvæmt fulltrúum ríkisstjórnarinnar í Silfrinu á sunnudag er slíkt ferli löngu hafið? Hvað eiga menn að halda?
Á hinn bóginn er ég sammála því að hér þarf að verða hugarfarsbreyting. Við höfum lifað langt umfram efni og gerum enn. Ég hef aldrei séð eins margar glæsikerrur á götunum og einmitt þessa dagana. Áður þótti það merkilegt að sjá Range Rover eða Benz jeppa á götunum. Núna er slíkt orðið jafn algengt og Toyota. Erum við virkilega orðin svona rík sem þjóð? Eða eru þeir margir á lánum???
![]() |
Ætla að vinna á verðbólgunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Samgöngumál
Ég var á góðum fundi í kvöld með framsóknarfólki um samgöngumál. Fundurinn var haldinn að frumkvæði framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi og var haldinn í Hafnarfirði.
Framsögumenn fundarins voru Guðni Ágústsson formaður flokksins og fulltrúi í samgöngunefnd þingsins, Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi í Kópavogi og Óskar Bergsson borgarfulltrúi í Reykjavík.
Einnig voru margir aðrir sem fóru í pontu og lýstu skoðunum og sjónarmiðum sínum.
Mér þótti þetta áhugaverður og fróðlegur fundur. Þarna er um þungavigtarmál að ræða þar sem sífelldar breytingar eiga sér stað innan þessa málaflokks.
Ég hef kynnst vel samgöngukerfinu í Árósum sem er mjög ólíkt því íslenska og þykir fróðlegt að bera þau saman. Vissulega er margt afar ólíkt á milli Árósa og höfuðborgarsvæðisins en einnig eru atriði sem eru sameiginleg. Úti hefur mér þótt lítið mál að fara allra minna ferða á hjóli og nota almenningssamgöngur þegar hjólið á ekki við. Í Danmörku er þjónustan afar skilvirk og notendavæn að mínu mati. Maður slær bara inn í forrit hvert maður ætlar og fær þá upp ýmsa möguleika (strætó, lest, rútu ofl.) og góða lýsingu á hvernig maður geti notað þessa ferðamáta og tillögu að ferðaplani. Þetta er mjög þægilegt. Einnig er t.d. mun ódýrara í strætó en tíu ferða klippikort kostar 115 dkr. Ef maður fer aftur í vagn innan tveggja tíma er það gjaldfrítt. Hjólið reyni ég að nota við flest tækifæri og tekur smá tíma að venjast því að hjóla en þegar það er orðinn vani þá er það mjög hressandi á alla vegu og ágætt á tímum hækkandi eldsneytis að brenna sínu eigin . Þannig styrkir maður sig líkamlega sem og andlega.
Hér heima er staðreyndin sú að langflestir keyra um á einkabílnum með tilheyrandi umferðarteppum og mengun í borginni. Sjaldnast eru aðskildir hjólreiðastígar og ég hef heyrt það frá fólki sem hefur viljað nýta þann ferðamáta að á köflum sé það nánast í lífshættu þar sem það þurfi að vera innan um umferðina eða fara mjög miklar krókaleiðir. Strætisvagnar keyra hér tómir um og þurft hefur að leggja niður leiðir þar sem ódýrara hefði verið að keyra þá fáu sem nota þær um í leigubíl! Úti keyra flestir vagnar smekkfullir frá morgni til kvölds og það sama á við um lestirnar. Þær eru oftast þétt settnar og nóg fjör er á hjólreiðastígunum.
Á næstu tugum ára munum við þurfa að endurskoða samgöngur okkar verulega. Með gríðarlegri hækkun á eldsneytisverði spái ég því að ekki verði lengur um nokkra bíla í hverri fjölskyldu að ræða og ekki verði jeppi að meðaltali í hverri fjölskyldu. Við munum þurfa heildarlausnir til þess að geta boðið öllum upp á góðar samgöngur og ólík kerfi þurfa að vinna saman sem ein heild. Samgöngur út á land og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýjar lausnir koma með nýjum tímum eins og t.d. lestir og samgöngutæki sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum.
Ég tel því að við þurfum að stíga á bremsuna að þessu leyti eins og svo mörgu öðru á næstunni. Það er að segja við þurfum að hægja á okkur bókstaflega. Endurhugsa samfélag okkar þannig að möguleiki verði á því að nýta almenningssamgöngur og skipulag samfélagsins sé þannig að það sé raunhæfur möguleiki að sinna börnum, stunda atvinnu og annað án þess að hver einasti landsmaður þurfi að keyra um á einkabíl og helst upphækkuðum glæsijeppa.
Laugardagur, 3. maí 2008
Góður miðstjórnarfundur!
Við framsóknarmenn áttum reglulega góðan miðstjórnarfund í dag.
Guðni Ágústsson, formaður flokksins, sló taktinn með upphafsræðu sinni í byrjun fundar og var ræða hans sérlega góð og eigi hann þökk fyrir. Hann styrkti sig verulega í sessi að mínu mati við þessa góðu ræðu.
Áhugaverð erindi voru flutt um efnahagsmál og voru þau ásamt umræðu um Evrópumál og flokkinn sjálfan áberandi í umræðu fundarmanna. Það eru mjög váleg tíðindi sem okkur berast um efnahagsmál og hefur það úrslitaáhrif fyrir hvert mannsbarn hvaða skref ríkisstjórnin mun taka á næstu dögum og vikum. Nú þarf ríkisstjórnin að lenda og enda för sína um háloftin og taka á honum stóra sínum áður en enn meiri skaði verður en orðinn er!
Kjaraskerðing fólksins og fyrirtækjanna í landinu er staðreynd sem verður ekki umflúin. Það þarf að bregðast við til þess að hún verði sem minnst og komi ekki verst niður á þeim sem síst skyldi. Ég upplifi stemminguna á stjórnarheimilinu álíka og á heimili þar sem um mjög djúpstæð vandamál er að etja og í stað þess að setjast niður við eldhúsborðið og taka á málum þá forða fjölskyldumeðlimir sér í allar áttir af heimilinu og halda að þannig leysist málin af sjálfu sér! Það gerist bara ekki þannig! Við engin viðbrögð vex einungis vandamálið! Hér á ekki við setningin fræga úr Löggulífi þar sem dómsmálaráðherra sagði: "Sá sem gerir ekki neitt gerir enga vitleysu". Efnahagsmálin eru þess eðlis að sá sem gerir ekki neitt gerir tóma vitleysu!
Það er ekki laust við það að maður verði ansi þungt hugsi hreinlega eftir þær fréttir og upplýsingar sem manni hafa verið að berast síðustu vikur um efnahagsmál þjóðarinnar.
En, við erum ekki Íslendingar fyrir ekki neitt. Við erum harðger þjóð sem getur staðið af sér flest óveður og komið undan því kokreist og einungis sterkari. Þessu þarf ríkisstjórnin að átta sig á.
Evrópumálin fengu mikilvægan sess á fundinum í dag og það sem mestu máli skiptir er það að enginn stjórnmálamaður eða flokkur mun taka þá ákvörðun endanlega. Það þarf þjóðin að gera. Það er okkur hollt að hefja umræðu um stöðu okkar innan lands sem og í samstarfi við aðrar þjóðir í heimi þar sem hraðar breytingar eru og ný tækifæri opnast á hverjum degi. Við þurfum að ræða málin, skoða ólík sjónarmið og komast að niðurstöðu sem þjóð um það hvaða leið við teljum að okkur farnist best á. Innan langflestra flokka eru skiptar skoðanir um Evrópumálin og það er mikilvægt að innan stjórnmálaflokka rúmist ólíkar skoðanir. Það var frábært að upplifa það í dag hvernig við náðum að vinna og ræða um þessi mál og hversu góð sátt náðist og góður samhugur er almennt í flokknum.
Ég er stolt af því að vera framsóknarkona og varð enn stoltari í dag. Ég fann það enn betur en nokkru sinni fyrr hversu góða samleið ég á með flokknum mínum og gildum hans.
Nú þarf þjóðarsátt og góða framtíðarsýn og þá eru okkur allir vegir færir á okkar ágæta landi.
![]() |
Þarf að breyta stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 26. apríl 2008
Gott skref Árna Tryggvasonar
Mikið er ég ánægð með hann Árna Tryggvason leikara. Hann fær hrós dagsins hjá mér í dag.
Þetta er einmitt það sem þarf meira af í okkar þjóðfélagi. Aðgerðir í stað þess að sitja ósáttur. Að fólk setjist niður og skrifi greinar og láti skoðun sína í ljós í stað þess að kvarta einungis við næsta mann sem skilar svo engu. Þarna náði Árni eyrum heilbrigðisráðherra og mun það vonandi leiða til betri aðbúnaðar á geðdeild Landspítalans. Ekki það að ég geri mér fulla grein fyrir því að fólk hefur látið í sér heyra og stundum alveg án þess að það skili nokkrum árangri. En dropinn holar steininn og þegar fólk sem er þekkt stígur fram þá nær það fyrr athygli almennings og stjórnvalda.
Það þarf að taka allt geðheilbrigðiskerfið til rækilegrar endurskoðunar. Það er bara úrelt eins og það hefur verið að mínu mati. Geðheilbrigðiskerfið þarf að teygja anga sína um allt þjóðfélagið því geðheilbrigði er alls staðar í okkur öllum um allt þjóðfélagið. Það þarf að bæta þjónustu þeirra sem þurfa að leggjast inn á geðdeildir til skammtímameðferðar. Þegar því lýkur þá þarf að bjóða upp á öfluga eftirfylgni og endurhæfingu. Mér hefur fundist þann þátt vanta. Þetta hefur verið svolítið af eða á. Annað hvort að liggja inni á geðdeild eða fara beint út í samfélagið.
Málið er það að geðsviðið er svo stórt og víðfeðmt. Ég vil meina að geðsviðið sé eitthvað sem teygi anga sína inn í hverja einustu fjölskyldu á Íslandi. Sú þjónusta sem fólk þarf getur verið allt frá akút bráðaþjónustu, til stuðnings allan sólarhringinn við búsetu og yfir í eftirfylgni. Það er bara allt þarna á milli. Þess vegna þarf sú þjónusta sem ríkið sér um að vera afar fjölbreytt og góð. Ég held að það sé gríðarleg orka sem er óvirkjuð sem liggur í fólki sem hefur geðsjúkdóma og hefur ekki náð fótfestu á vinnumarkaði eftir veikindi sín. Það þyrfti að stórefla endurhæfingarúrræði og stuðning við fyrstu skref á vinnumarkaði. Það þarf að opna augu fyrirtækja í landinu og hjá hinu opinbera fyrir því að það þurfa ekki allir að vera steyptir í sama mótið og starfa 8-16 alla daga vikunnar. Sumum hentar að vinna 2 klst. á viku. Ég held að þessi hugsun sé að koma en hún er meira í orði en á borði að mínu mati. Og þetta þarf að spila saman með þeirri tryggingu sem fólk þarf að hafa á framfærslu sína. Það má aldrei eiga það á hættu að standa uppi tekjulaust (missa til dæmis framfærslu frá TR vegna þess að það "hætti sér út á vinnumarkaðinn til að reyna á mörk sín").
Svo eru mörg atriði sem þarf að skoða til þess að aðstoða fólk í daglegu lífi sínu. Það er til dæmis mjög mikilvægt að ríkið niðurgreiði sálfræðiþjónustu og skammarlegt að Sálfræðingafélag Íslands hafi þurft að standa í málaferlum við ríkið til þess að reyna að fá TR til þess að taka þátt í kostnaði og þannig sé ekki verið að mismuna fagstéttum þar sem þjónusta geðlækna er t.d. niðurgreidd. Sú þjónusta sem sálfræðingar veita getur verið mjög mikilvæg þeim sem er að takast á við þunglyndi, kvíða eða aðrar geðraskanir. Það hefur sýnt sig að hugræn atferlismeðferð hefur sýnt fram á sambærilegan árangur og oft betri við mörgum geðröskunum en lyfjameðferð og líkur á hrösun eru mun minni.
Hins vegar getur oft verið mjög mikilvægt að fólk taki lyf alveg í byrjun meðferðar eða ef um mjög alvarlegt þunglyndi t.d. er að ræða. Þarna þurfa geðlæknar og sálfræðingar að geta unnið saman. Aðalatriðið er það að ríkið á að greiða leið almennings að sálfræðingum því það er mjög dýrt að fara til sálfræðings án þess að það sé niðurgreitt og þannig er um ójöfnuð að ræða í þjóðfélaginu í dag. Það er ekki sanngjarnt að fólk geti einungis valið um geðlækna því fæstir þeirra sinna samtalsmeðferð og þeirra leið er lyfjameðferð sem hentar alls ekki öllum. Sumir henda bara lyfjunum um leið og færi gefst á eins og Árni nefnir í viðtalinu. Þá eru skattpeningar farnir til einskis sem hefði betur mátt nota í að niðurgreiða þjónustu sálfræðings sem færir fólki vopn í hendur til þess að glíma við þunglyndið sjálft. Það þarf að stórauka aðgengi að sálfræðingum og það er ekki nóg að hafa þá einungis á heilsugæslutöðvum því þar eru þeir mestmegnis í greiningum en ekki langtíma meðferðum.
Það er heldur ekki heillavænlegt eins og heyrst hefur að aðrar stéttir séu að læra hugræna atferlismeðferð og ætli að beita henni til jafns á við sálfræðinga. Það er álíka slæmt og ef sálfræðingur ætlaði að læra að skipta um sár og fara að stunda það.
Ég bíð því spennt eftir þeim degi sem ríkið ákveður að niðurgreiða alla sálfræðiþjónustu (ekki einungis mjög afmarkaðan hóp barna sem hefur verið vísað eins og staðan er í dag). Þannig veit ég að munu sparast miklar fjárhæðir því þá dregur úr lyfjaaukstri og fólk fær raunverulegan valkost um hvaða leið það vill velja til þess að takast á við veikindi sín. Þannig má líka fyrirbyggja mikla vanlíðan fjölskyldna og einstaklinga ef fyrr er gripið inn í þeas. löngu áður en þörf er á innlögn eða lyfjameðferð.
![]() |
Barátta við þunglyndi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 25. apríl 2008
Undiralda íslensku þjóðarinnar
Ég var að horfa á myndbrot og fréttir af mótmælum vörubílstjóra og átökum við lögreglu og nú fetar unga fólkið í sporin...
Þessi átök og önnur ólga í þjóðfélaginu eru að mínu mati birtingarmynd gremju sem snýst ekki bara um hækkað eldsneytisverð og kröfur vörubílstjóra.
Ég held að það sé nokkuð til í því sem kom fram þarna að það er vaxandi almenn gremja í þjóðfélaginu.
Það er reyndar algengt að óánægja og reiði aukist þegar þrengir að. Það þarf engan sérfræðing til að sjá það. Fólk kvartar síður þegar allt leikur í lukkunnar velstandi og flestir hafa nóg. Þegar þrengingar verða þá reynir á. Eins og sagt er við hjónavígslur í blíðu og stríðu. Þannig þurfum við líka að hugsa sem þjóð. Standa saman í blíðu og stríðu.
Við erum einungis 300 þúsund manna þjóð og erum ein ríkasta þjóð í heimi. Við búum yfir gríðarlegum auðlindum bæði í fallega landinu sem við byggjum en líka í þjóðinni sjálfri. Við erum kraftmikil, dugmikil og framsækin þjóð. Þjóð sem standa allir vegir færir.
Það hefur hins vegar eitthvað verið að gerast. Bilið á milli ríkra og fátækra er að breikka óeðlilega hratt og áhersla stjórnvalda er komin of langt frá grasrótinni. Áherslurnar eru komnar út fyrir hinn innsta hring sem ég tel vera að beina sjónum að þjóðinni sjálfri, hvernig best sé hlúið að henni og borið á þannig að hún dafni sem best. Hvernig við vinnum að sífellt betra mennta- og velferðarkerfi og byggjum upp öflugt atvinnulíf þannig að allir nái að blómstra. Hagvöxtur í þjóðinni. Við viljum öll að börnin okkar fái bestu umönnun sem völ er á, veikir ættingjar okkar eða við sjálf, að aldraðir foreldrar okkar eigi gott ævikvöld í góðum virðingarverðum aðstæðum og að við hvert og eitt fáum að nýta þær auðlindir sem hvert og eitt okkar býr yfir til fullnustu. Óháð því hver staða okkar er eða aðstæður t.d. hvort við séum með einhvers konar skerðingu eða ekki. Við viljum að allir eigi rétt á því frelsi að njóta sín.
Á hinn bóginn þá er orðin svo mikil pressa frá alþjóðasamfélaginu og fyrirtækjaveldið orðið svo mikið að stjórnvöld ná ekki að sinna hinu innra hlutverki heldur fer mest öll orkan í það ytra. Áherslan liggur á því að skarta sínu fegursta fyrir framboð í Öryggisráðið, að ferðast um heiminn til þess að sinna mannréttindamálum og stríðshrjáðum löndum og afla tengslaneta og viðskiptasambanda. Það sem setti steininn úr var að sumar þessara ferða voru farnar í einkaþotu. Einkaþota er þyrnir í augum hins vinnandi manns sem greiðir sína skatta samviskusamlega. Einkaþota er tákn þess sem er of merkilegur til þess að ferðast með sauðsvörtum almúganum og þarf að komast hraðar en hinir. Það er svona það eru allir mikilvægir en "sumir eru mikilvægari en aðrir" keimur af einkaþotum svona í anda George Orwells og Animal Farm.
Ég held að ríkisstjórnin ætti aðeins að setjast niður. Draga andann djúpt og ná áttum. Ég er mjög viss um að öll þau erindi og ferðir sem farið hafa verið eru góðra gjalda verð. En hins vegar þá er sagt að "home is where the heart is" og heimili og hjarta íslensku þjóðarinnar er ekki í útlöndum. Heimili og hjarta okkar er ekki það að þessi 300 þúsund manna sérstaka þjóð leysi vanda heimsbyggðarinnar. Heimili og hjarta okkar er á Íslandi. Og leysa þau viðfangsefni sem eru mikilvægust í okkar daglega lífi. Við viljum sjá það að börnunum okkar, sjúkum og öldruðum sé vel sinnt. Að við getum búið vel að námsfólkinu okkar og atvinnuvegunum.
Ég veit að heimurinn er alltaf að minnka og við þurfum að hafa til dæmis efnahagsmálin í lagi til þess að geta veitt þjóðinni okkar þetta. Ég hef samt mjög sterka trú á því að það sem mestu máli skiptir gerist allt í okkar heimalandi.
Ég tel að einhvers staðar á leiðinni hafi stjórnvöld misst sjónar á hvað skiptir mestu máli. Þau hafi misst sjónar á því hvernig á að forgangsraða og séu á villigötum hvað það varðar. Ég vona að þau dragi úr umsvifum okkar erlendis og fari að forgangsraða landinu okkar og þjóðinni fremst á listann.
Þá myndi undirölduna lægja í stað þess að hún vaxi og vaxi þar til hún skellur á einhverjum.
![]() |
Rýmingu lokið á Miklubraut |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 25. apríl 2008
Er þetta gengið á æru fólks í dag?
Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn skuli komast upp með jafn grafalvarlega glæpi og raun ber vitni og fá þessa fáránlega lágu refsingu fyrir? 2 ár og 800 þúsund krónur???
AAAARRRRGGGGG.
Maður sem hefur rænt þessa konu æru sinni til lífstíðar. Maður sem hefur misnotað aðstöðu sína jafn ömurlega og raun ber vitni. Ekki einu sinni heldur tvisvar sinnum að minnsta kosti. Ætli það séu fleiri konur þarna úti sem hafa orðið fyrir honum og hafa jafnvel ekki möguleika á því að tjá sig um það? Mér finnst þetta svo ömurlegt og ég er svo reið að svona hlutir skuli gerast að orð fá því ekki lýst. Þetta er það lágkúrulegasta sem hægt er að hugsa sér. Að ráðast gegn manneskju og brjóta æru hennar og nýta sér aðstöðu sína á jafn hrottalegan hátt.
Það þarf að skoða vel hvernig hægt er er að halda utan um þá sem starfa í þessari þjónustu. Þeir sem vinna svo náið með fólki verða að vera fólk sem hægt er að treysta. Ég veit að það er ekki hægt að rannsaka allt til hlítar en fólk ætti að þurfa að gefa upp nákvæmar upplýsingar um sig og meðmæli og ef einhver brestur virðist vera á þá ætti að hafa gagnagrunn þar sem haldið er utan um slíkt svo viðkomandi geti ekki bara labbað inn á næsta stað og ráðið sig í vinnu þar.
Það þarf líka VERULEGA að skoða þetta réttarkerfi. Það er eitthvað mikið að því. Hvernig má það vera að menn fái jafn fáránlega lága refsingu fyrir jafn hrottafengið brot? Það þarf að þyngja refsingar og skaðabætur mjög mikið í þessum brotum. Það er líka eins gott að það skuli ekki hafa haft nein áhrif á refsinguna að þolandi skuli vera fötluð kona. Það væri brot á jafnræðisreglu en því miður þá man ég eftir því að hafa lesið um það að brot gegn fötluðu fólki hafa verið dæmd vægari og nú þarf að kanna það til hlítar hvort það sé ekki alveg öruggt að sambærileg mál hafi fallið þar sem þolandi hefur verið einstaklingur sem skilgreindur er ófatlaður. Fötlun er í raun málinu óviðkomandi nema á þann hátt að viðkomandi var að nýta sér þessa skilgreindu þjónustu og var þess vegna upp á geranda kominn á sama hátt og hann hefði getað verið leigubílstjóri sem hefði nýtt sér aðstöðu sína þannig. En manni finnst brotið enn ömurlegra fyrir þær sakir að maðurinn hafi nýtt sér takmarkaðan möguleika þolanda til að verja sig.
Þetta er fyrst og fremst hræðilega sorglegt fyrir alla aðila málsins.
![]() |
Braut gegn fatlaðri stúlku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 24. apríl 2008
Þegar mótmæli snúast upp í vitleysu
Ég hef verið að fylgjast með mótmælaaðgerðum atvinnubílstjóra úr fjarlægð. Þetta virðist að mínu mati vera komið út í vitleysu og þjónar ekki lengur upphaflegum málstað. Ekki nema það að fá almenning og stjórnvöld í landinu upp á móti atvinnubílstjórum.
Vissulega þarf að huga vel að þeirra kjörum og aðstæðum. Það skiptir okkur öll máli að þeir séu t.d. úthvíldir þar sem þeir keyra um smávaxna þjóðvegi landsins innan um almenna umferð oft í erfiðum aðstæðum. Enginn efast um mikilvægi starfs atvinnubílstjóra og ég held að fólk hafi haft fullan samhug með þeim amk. í upphafi.
Þessi mótmæli hafa verið eins og snjóbolti sem hefur undið upp á sig. Þetta er kannski íslenski hátturinn á. Geta ekki hætt. Verða að eiga síðasta orðið.
Hitt er annað mál að í lýðræðisríki á vinnandi fólk að berjast fyrir sínum kjörum og setja fram kröfur á atvinnurekendur sína. Þannig verður framþróun og fólk berst fyrir sjálfu sér og þeim sem feta í fótsporin í framtíðinni. Þannig hefur þetta alltaf verið og mun alltaf verða.
En kröfurnar verða að vera raunhæfar. Til dæmis varðandi álögur á eldsneyti þá hefur það verið að hækka um allan heim og það er ekki að hækka meira á Íslandi en í mörgum nágrannalöndum okkar. Þannig að ef ætti að lækka það þá yrði að taka það af þeim sjóðum sem við nýtum í önnur verkefni eins og til dæmis menntamál eða velferðarmál. Er það betra? Er ekki eðlilegra að þeir sem keyra um göturnar og nota eldsneytið greiði fyrir það en allir landsmenn. Þannig getur sá sem velur sér að vera umhverfisvænn og reyna að draga úr eldsneytisgjaldi sínu hjólað og sparað fjármagn. Á hann þá að greiða niðurgreitt eldsneyti fyrir aðra? Þetta snýst nefnilega ekki einungis um ríkisstjórn Íslands, þetta snýst um heimsmarkað að þessu sinni og því ekki hægt að skella skuldinni bara á ríkisstjórnina. Og ekki mun eldsneytisverð lækka í framtíðinni, það mun einungis fara hækkandi.
Það væri ágætt að fara að huga að því hvernig megi bæta samgöngumáta á Íslandi með eldsneytissparnað í huga. Til dæmis þarf að stórbæta allar aðstæður hjólreiðamanna og endurskoða almenningssamgöngur þannig að það verði raunhæfur möguleiki í framtíðinni að nota þær að staðaldri.
Ég vona að þetta mál fái farsæla lausn á endanum, það virðist löngu soðið upp úr öllum pottum.
![]() |
Sturla: Ekki á okkar ábyrgð" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 24. apríl 2008
GLEÐILEGT SUMAR!!!
Gleðilegt sumar kæru vinir!
Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars og óska þess að sumarið færi ykkur gæfu og gott veður.
Sumarið er tíminn...
þegar allt blómstrar og lífið tekur lit
þegar fuglarnir syngja
þegar maður nýtur endalausra bjartra sumarnótta
þegar allt grænkar og vænkar
ó já!

Þriðjudagur, 22. apríl 2008
Ungir sjálfstæðismenn eru greinilega ekki taldir með
Þetta er villandi fyrirsögn. 53% getur varla talist vera meirihluti. SUS Samband ungra sjálfstæðismanna er ekki innan þessarar % þar sem þeir hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu 2. apríl síðastliðinn. Sjá blogg mitt um það http://kristbjorg.blog.is/blog/kristbjorg/entry/494148/
Þorgerður Katrín menntamálaráðherra minntist á það í Silfri Egils síðasta sunnudag að það væri betra að mæta á staðinn en að sitja heima. Það getur vissulega verið rétt hjá henni en hvað ætlar hún að segja? Á milli þess sem hún dáist að stórfenglegri sýningu sem framleidd hefur verið í "stærstu þrælakistu heimsins (Ögmundur Jónasson í sama þætti)" ætlar hún þá að skjóta því að að við Íslendingar séum nú ekkert sérlega hress með mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda og þeir þyrftu nú að taka sig á varðandi Tíbet? Ekki það að þeir hefðu kannski átt að gera það fyrir ólympíuleikana eins og þeir lofuðu en úr því þetta er orðið svona reddið þið þessu þá ekki þegar ÓL er afstaðið og augu heimsbyggðarinnar beinast eitthvað annað? Þá munu þeir eflaust fara á fullt að taka á sínum mannréttindamálum. Er það ekki annars?
Sannfærandi?
Þögn er sama og samþykki Þorgerður Katrín.
Innlent | mbl.is | 2.4.2008 | 15:55
Hvetja ráðamenn til að sniðganga Ólympíuleika
Samband ungra sjálfstæðismanna hvetur íslenska stjórnmálamenn til að sniðganga opnunar- og lokahátíð Ólympíuleikanna sem hefjast í Peking 8. ágúst og sýna með þeim hætti andstöðu íslenskra stjórnvalda við meðferð kínverskra stjórnvalda á þegnum sínum.
Í Kína ríkir alræðisstjórn sem skeytir litlu um mannréttindi og velferð íbúa sinna. Íbúar Tíbet hafa þurft að þola sérstaklega harða og ógeðfelda meðferð í rúma hálfa öld af hálfu ríkis sem þeir nauðugir hafa verið innlimaðir í. Aðgerðir kínverskra yfirvalda í Tíbet undanfarnar vikur sýna hversu röng ákvörðun það var af hálfu Alþjóðaólympíunefndarinnar að velja Peking sem mótstað leikanna. Hætta er á að kínversk stjórnvöld noti leikana sem vettvang til að villa enn frekar um fyrir heimsbyggðinni og reyni að sýna fram á glæsileika og veldi alræðisstjórnarinnar, en hylji með Pótemkintjöldum þá gegndarlausu kúgun og harðræði sem beitt er ekki langt frá Ólympíueldinum. Ólympíuleikarnir hafa því miður einmitt verið misnotaðir á sama hátt áður.
Í anda Ólympíuleikanna er þó sjálfsagt að íslenskir afreksmenn taki þátt í leikunum með öðrum íþróttamönnum heims og sýni þannig samstöðu með íbúum Kína í að vilja stuðla að friði og velferð í heiminum. Hins vegar er algjör óþarfi að íslensk stjórnvöld sendi sína fulltrúa á leikana. Slíkar heimsóknir verða að áróðursvopni í höndum þarlendra stjórnvalda. Þegnar Kína, sem beittir eru harðræði og sviptir mannréttindum, eiga ekki að fá þau skilaboð að kúgarar þeirra njóti sérstakrar virðingar og velvilja leiðtoga lýðfrjálsra þjóða," samkvæmt tilkynningu frá SUS.
![]() |
Meirihluti styður ferð ráðherra á ÓL í Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)