Mánudagur, 21. apríl 2008
Stöndum vörð um velferðarþjónustuna
Ég tel það einungis vera tímaspursmál hvenær menn fara að ræða einkavæðingu berum orðum.
Það hefur legið svo lengi í loftinu hjá Sjálfstæðismönnum.
Ég vona svo sannarlega að samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn Samfylkingin standi þéttan vörð um velferðarkerfið. Ég verð hins vegar að segja að miðað við hversu margt hefur komið manni á óvart á þeim bænum eftir kosningar þá á maður von á öllu.
Það er með engu móti forsvaranlegt að einkavæða heilbrigðiskerfið. Það mun leiða til mismununar á kjörum þeirra sem starfa í velferðarþjónustunni og það mun leiða til gríðarlegrar mismununar hjá landsmönnum á möguleikum þeirra á heilbrigðisþjónustu eftir efnahag. Sagan sýnir það að besta fagfólkið er keypt í einkageirann og kjör þeirra sem starfa og nota almennu þjónustuna snarversna.
Við sem ein ríkasta þjóð heims eigum að geta boðið öllum landsmönnum upp á góða heilbrigðisþjónustu. Við viljum ekki sjá heilbrigðiskerfi eins og er í Bandaríkjunum þar sem fólk greiðir svimandi háar fjárhæðir í tryggingar til þess að geta nýtt heilbrigðisþjónustu eða á annars á hættu að missa allt sitt eða Bretland þar sem fólk greiðir frekar milljón fyrir það að eiga barn á einkasjúkrahúsi heldur en að nýta almenningssjúkrahús. Svo mikill gæðamunur er á þjónustunni og það er alveg ljóst að fæstir hafa efni á slíkum lúxus.
Það er nógu mikil stéttaskipting á Íslandi þó þetta verði ekki enn til þess að auka á hana!
![]() |
Ekki endilega besta hugmyndin að breyta Landspítala í hlutafélag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. apríl 2008
Hvað fengi Björgvin að sjá í Tíbet?
Vísir, 21. apr. 2008 17:54
Kínverjar hvöttu Björgvin til þess að heimsækja Tíbet
Á föstudaginn lauk opinberri heimsókn Björgvin G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra til Kína. Auk föruneytis ráðherra voru með í för viðskiptasendinefnd frá FÍS og Íslensk-Kínverska verslunarráðinu.
Heimsótt var China Import and Export fair í Guangzhou, sem er stærsta vörusýning í Kína með um 800 þúsund fermetra sýningarsvæði. Þá voru nokkur íslensk fyrirtæki með starfsemi í Kína heimsótt. Þar á meðal Landsbanki Íslands og leikfangafyrirtækið MIND í Hong Kong; og Green Diamond og Orka International Ltd.í Zhongshan.
Síðast en ekki síst heimsótti viðskiptaráðherra starfsbróður sinn í Beijing, Zhou Bohua og fleiri ráðamenn.
Í viðræðum ráðherranna lagði íslenski viðskiptaráðherrann áherslu á gagnkvæman ávinning landanna af auknum viðskiptum og mikilvægi þess að íslensk fyrirtæki geti átt bein og milliliðalaus viðskipti við kínversk fyrirtæki.
Ráðherrann lagði einnig áherslu á að virðing mannréttinda væru óaðskiljanlegur hluti viðskipta. Stór hluti ábyrgðarinnar á að hvíla á fyrirtækjunum sjálfum en stjórnvöld eiga að hvetja til aukinnar samfélagslegrar ábyrgðar af þeirra hálfu.
Ennfremur lýsti viðskiptaráðherra áhyggjum íslenskra stjórnvalda yfir ástandinu í Tíbet.
Kínverski ráðherrann, sem og aðrir kínverskir ráðamenn sem rætt var við í ferðinni, svo sem aðstoðarráðherra utanríkisviðskiptamála og varaformaður China Council of the Promotion of International Trade, hyggst beina því til kínverskra fyrirtækja að gera allt sem hægt er til að auðvelda viðskipti við fyrirtæki í smærri löndum þar sem pantanir eru eðli máls samkvæmt smærri. Ráðherrann varði stórum hluta fundarins í að skýra stöðu mála í Tíbet, frá sjónarhóli Kínverja og hvatti íslenska starfsbróður sinn til að heimsækja Tíbet og kynna sér ástandið með eigin augum.
Með ráðherra í för voru Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra, Áslaug Árnadóttir, ráðuneytisstjóri, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður ráðherra, Atli Freyr Guðmundsson skrifstofustjóri, Pétur Yang Lee, viðskiptafulltrúi og Skúli J. Björnsson formaður Félags íslenskra stórkaupmanna. (Tekið af http://www.visir.is/ 21.4.2008).
Það er gott hjá Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra okkar að hafa verið ötull við að halda málefnum Tíbeta á lofti.
Ég verð hins vegar að segja að ég átta mig ekki alveg á því hvað þeir ætla að sýna honum í Tíbet. Mér þykir það líka svolítið skrýtið að þeir skuli ekki hleypa mannréttindafulltrúa inn í landið, ekki fjölmiðlamönnum og nú segi ég LAND því ég álít Tíbet vera sjálfstætt land en ekki hluta af Kína. Af hverju fær Björgvin þessa hvatningu en ekki mannréttindafulltrúar eða fjölmiðlamenn? Ætla þeir að sýna honum einhverja fægða yfirborðsmynd af Tíbet? Maður spyr sig? Það væri líka kannski upplagt að heimamaður myndi taka á móti honum TÍBETI en það stendur sennilega ekki til.
Ég hvet ykkur til þess að skoða þessa frétt frá CNN þar sem kínverskir ráðamenn eru enn að staglast á því að Dalai Lama skuli standa fyrir því ofbeldi sem átt hefur sér stað í Tíbet og víðar og hann nánast hótar Vesturlöndum í lok fréttarinnar þar sem hann segir okkur öll vera á sama báti og það sé ekki heillavænlegt að rugga bátnum!
http://edition.cnn.com/video/?/video/world/2008/03/27/lustout.jianmin.intv.china.cnn
Mánudagur, 21. apríl 2008
Gott hjá Parísarbúum
Ég hvet íslensk stjórnvöld til þess að gera Dalai Lama að heiðursborgara.
Dalai Lama á allan þann stuðning sem hann og þjóð hans getur fengið skilið.
Hann hefur haldið ró sinni og stillingu þrátt fyrir að hafa þurft að horfa upp á mikil voðaverk gegn þjóð sinni í hartnær 60 ár. Alla tíð hefur hann reynt að stuðla að friðsamlegri lausn án ofbeldis.
Það er samt ekki nóg að heiðra hann og veita honum friðarverðlaun Nóbels þó það sé mjög gott og gilt. Hann þarf líka á stuðningi í verki að halda og þann stuðning myndu til dæmis íslenskir ráðamenn geta veitt með því að þrýsta á kínversk stjórnvöld um að veita Tíbetum sjálfstæði.
Þetta er gott skref hjá Parísarbúum.
![]() |
Dalai Lama heiðursborgari Parísar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 20. apríl 2008
Sumarið er tíminn...
Sumarið er tíminn... eins og Bubbi söng um árið.
Ó já þetta er eitt af mínum uppáhalds lögum. Það lýsir svo vel því sem gerist innra með manni þegar vorið er í fullu fjöri, bægir köldum vetrinum frá og greiðir leið sumarsins.
Það lýsir svo vel fiðringnum sem maður finnur.
Að heyra fuglana syngja.
Að fylgjast með því hvernig brumið á trjánum springur út með hverjum deginum.
Hvernig sólin hækkar á lofti og vermir allt og kyssir með geislum sínum.
Hvernig maður fyllist smám saman meiri og meiri orku og spennu.
Og hlakkar til þess að sumarið komi í allri sinni dýrð með hlýju sinni, birtu og endalausum sumarnóttum.
Þetta er minn uppáhalds tími.
Ég elska vorið og sumarið.
Gleðilegt sumar gott fólk!
Sumarið er að minnsta kosti komið í DK .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 19. apríl 2008
Þúsund bjartar sólir
Ég var að klára þessa bók í dag.
Ég varð alveg hugfangin af henni en hún Erla vinkona mín lánaði mér hana. Takk elskan.
Þessi bók er eftir Khaled Hosseini (sama og skrifaði Flugdrekahlauparann) og segir hún frá tveimur afgönskum konum sem örlögin leiða saman á sérstakan hátt. Hún lýsir vel ömurlegu hlutskipti afganskra kvenna og færir mann aðeins nær því að gera sér grein fyrir því hvernig lífið er í stríðshrjáðu landi.
Þessi bók fangaði svo huga minn að ég las hana nær alveg stöðugt frá því ég byrjaði og lauk henni. Ég bara gat ekki hætt. Í lokin þurfti ég þó að hlaupa nokkrum sinnum inn (sat úti á svölum í sólinni) til þess að þurrka sólarvörnina sem lak ofan í augun á mér þegar tárin láku.
Það er nefnilega svo merkilegt að hugsa til þess hvað maður er að velta sér upp úr smásmugulegum vandamálum hversdagsins og maður skammast sín hreinlega þegar maður les bók eins og þessa og er minntur á það hvað margir eru að glíma við á hverjum einasta degi.
Það er svo oft þannig að maður heyrir í fréttum hvernig stríð sé háð hér og þar úti í hinum stóra heimi. Og það er manni svo órafjarlægt. Alveg eins og maður sé bara að heyra um það í kvikmynd og það sé í raun ekkert að gerast. Bara enn ein slæma "fréttin". Málið er hins vegar það að bakvið hverja svona frétt eru ótrúlegar mannraunir. Fólk hefur misst allt sitt, fólk hefur misst fjölskyldumeðlimi, fólk hefur misst heimili sín, fólk hefur misst börnin sín, fólk hefur misst elskanda sinn og svona mætti lengi telja. Fólk þarf að upplifa ótrúlega grimmd og sjá skelfilegustu hlið mannsandans en tekst þrátt fyrir allt að hafa það af, halda áfram og lifa af.
Það er erfitt fyrir mig sem íslenska sjálfstæða konu að gera mér í hugarlund það hlutskipti sem Laila og Miriam þurftu að búa við í bókinni. Konur sem áttu svo lítið val um eigið líf. Að vera gefin manni sem þú kærir þig ekkert um sem er miklu eldri en þú og á þig svo með húð og hári. Að þurfa að hylja sig frá toppi til táar og geta ekki farið úr húsi nema í fylgd karlmanns. Að geta ekki menntað sig. Að þurfa að lifa með manni sem beitir þig stanslausu andlegu og líkamlegu ofbeldi og svívirðir þig. Að þurfa að lifa við hungur og vosbúð vegna stríðs. Að missa mikið af þínu nánasta fólki og vera algjörlega upp á aðra komin þar sem þú hefur hvorki möguleika á að mennta þig eða vinna fyrir þér sjálfur.
Mannsandinn er samt alveg ótrúlega sterkur og það er mikið sem hann þolir. Ég held samt að oft á Vesturlöndum séum við komin ansi langt frá þeim raunveruleika sem margir búa við í heiminum. Á meðan konur hér sitja og lesa Cosmopolitan og velta fyrir sér hvernig þær eigi að losna við þessi 3 aukakíló og hvort þær eigi að kaupa gult eða bleikt veski þá eru aðrar konur sem búa algjörlega sem fangar eiginmanna sinna og eiga engan rétt eða val um sitt líf.
Ég held að maður eigi að þakka fyrir hvern einasta dag sem maður lifir sem sjálfstæður, frjáls einstaklingur sem lifir í friðsömu landi.
Það eru sannkölluð forréttindi.
Miðvikudagur, 16. apríl 2008
Hugleiðingar um aðgengi og samfélagið

Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. apríl 2008
Námsmenn erlendis og mannauður
Það er enginn hægðarleikur að vera námsmaður erlendis í þeim ólgusjó sem umlykur gjaldeyrinn okkar og efnahagsmálin þessa dagana.
Þegar ég flutti hingað út til Danmerkur þá var gengi krónunnar á bilinu 11-12 krónur. Núna er það 15.8 og hefur farið í 16.7 held ég hæst.
Þetta þýðir það að þar sem við námsmenn höfum tekjur frá Íslandi þá gjörbreytist aðstaða okkar. Sem dæmi má nefna það að húsaleigan mín hefur hækkað um rúmlega 35%. Allar tekjur sem við fáum frá Íslandi snarrýrna. Þetta hefur einnig þau áhrif að mikil breyting getur verið á þeim lánum sem reiknuð voru og því sem maður fær svo þar sem aðeins er miðað við gengið á þeim degi sem lánin eru greidd út. Þetta getur þýtt fyrir námsmenn að endurgreiðslubyrðin verður mun þyngri en gert var ráð fyrir.
Þannig hefur fólk í raun sömu tekjur í því landi sem það lærir í en það þarf hins vegar að borga mun meira fyrir hverja danska krónu t.d. þegar lánið er greitt tilbaka. Fyrir þá sem hafa farið heim að vinna eða hafa safnað sjóði sem þeir eru að nota að hluta til að framfleyta sér þá rýrnar sú fjárhæð mjög mikið. Ég hef heyrt það á fólki að þetta hafi þau áhrif að margir treysta sér ekki í nám erlendis sem er mikill missir fyrir þjóðarbúið þar sem alltaf er gott fyrir fólk að fara erlendis, ná sér í nýja þekkingu og víkka sjóndeildarhringinn og koma svo endurnærður heim til þess að dæla þessari upplifun inn í íslenskt samfélag.
Hins vegar er staðan einnig þannig á húsnæðismarkaði heima að ekki er víst að allir námsmenn skili sér heim og reyndar afar ólíklegt og þannig tapast mjög mikil þekking sem hefði verið mikill fengur fyrir þjóðarbúið að fá heim.
Það er margt sem þyrfti að endurskoða varðandi námslánin. Það er til dæmis með öllu óforsvaranlegt að íslenskir námsmenn fái námslánin sín greidd eftir á og þurfi því að framfleyta sér á yfirdráttarlánum bankanna með gríðarlegri vaxtarbyrði sem er enn ein ástæða þess hversu mikið lánin skerðast. Fyrir utan það að þetta getur virkað þveröfugt á fólk og orðið til þess að fólk hrökklast frá námi þegar álagið í prófum snýst ekki aðeins um það að standast prófin heldur einnig að ef fólk stenst ekki prófin eða eitthvað kemur upp á sem hefur áhrif á námsframvindu þá situr það uppi með hátt yfirdráttarlán og þarf að hætta í námi til að vinna fyrir því og brauðfæða sig og fjöskylduna.
Í Danmörku fá danskir nemendur SU sem er styrkur frá danska ríkinu. Hann nemur um 4.000 Dkr. ef ég fer með rétt mál og svo geta þessir nemendur fengið námslán að auki. Styrkinn þurfa þau aldrei að endurgreiða, þau fá þetta fyrirfram og þetta er ekki tengt námsframvindu á sama hátt og heima. Það er löngu kominn tími á það að hluti námslána sé styrkur, fyrirfram eða eins og komið hefur fram í frumvarpi því sem Birkir Jón Jónsson lagði fyrir þingið í haust og er í takt við hugmyndir okkar framsóknarmanna að 1/3 hluti námslána breytist í styrk að námi loknu sé því lokið á tilsettum tíma. Þetta hefur mikil áhrif á ungt fólk, hvetjandi til að ljúka námi og auðveldar þeim baráttuna sem hefst að námi loknu. Ungu fólki sem er oft með börn á framfæri og að koma undir sig fótunum og þarf þá að greiða 1/3 hluta minna tilbaka sem munar gríðarlega um.
Ég tel löngu tímabært að endurskoða þessi mál. Íslendingar þurfa að fara að hugsa meira um það að leggja fjármagn í fólk því það skilar sér alltaf tilbaka í þjóðarbúið. Það er ég sannfærð um. Það er það sem skilar arði. Við erum alltaf að eyða peningum í það að leysa ýmis vandamál sem hefði mátt fyrirbyggja ef fjárfest hefði verið í fólki.
Sem dæmi um þetta má nefna starfsmannamál Ríkisins þar sem engu má eyða í það að fjárfesta í starfsfólkinu eins og til dæmis með launabónusum, með fríum árshátíðum, glæsilegum jólagjöfum og öðrum fríðindum. Þetta er eflaust gert í einhverjum stofnunum á vegum Ríkisins en ekki þeim sem helst þyrfti eins og t.d. hjá starfsfólki á sjúkrahúsum eða í annarri velferðarþjónustu.
Svo eru menn að klóra sér í hausnum og velta vöngum yfir því hvers vegna sé svona mikil starfsmannavelta, óánægja og stundum lítil afköst starfsfólks! Menn í einkageiranum eins og Jón Ásgeir og félagar eru löngu búnir að átta sig á því að hver milljón sem notuð er til þess að gera vel við starfsfólkið sitt hún skilar sér tífalt tilbaka í mannauði. Það þarf enginn að segja mér að allar fríu árshátíðarnar, flottu jólagjafirnar og önnur hlunnindi séu tilkomin þar sem þeir hafi ekkert betra við peningana að gera!!! Þeir eru bara löngu búnir að átta sig á þessu! Þetta er dýrmætasta fjárfestingin sem hvert fyrirtæki gerir. Það gerist ekkert í fyrirtækjum án mannauðs. En það er eins og blessað Ríkið ætli ekki að átta sig á þessu. Það er alltaf að spara á röngum stöðum að mínu mati og dæmið verður miklu dýrara þegar upp er staðið.
Ef þú dekrar við starfsfólkið þá hefur það áhrif á öllum sviðum starfseminnar. Það vinnur betur, það talar betur um fyrirtækið út á við, það helst lengur í starfi, það dregur að nýtt starfsfólk og það sparar fyrir fyrirtækið til þess að skila tilbaka ómeðvitað því sem það fékk. Það er minna álag á því þar sem þekking sú sem hver starfsmaður skapar og öðlast helst á sínum stað. Það er alveg sama hversu mikið fólk les í skólabókunum sínum því það þarf alltaf að læra alveg nýja þekkingu þegar það byrjar í starfi og ná ákveðinni færni og leikni. Þessi færni er heldur ekki eitthvað sem hægt er að negla niður í góðar handbækur! Góður starfsmaður er nefnilega gulls ígíldi!
Ef þú ætlar alltaf að sleppa þessari umbun þá endarðu með fólk sem er orðið dauðþreytt á því að gefa og gefa án þess að fá neina umbun fyrir. Þetta fólk skilar oft minni afköstum, það hringir sig oftar inn veikt, það kallar frekar út aukavakt þegar hefði mátt sleppa henni vegna eigin óánægju og þreytu, það fer ósparlega með auðlindir fyrirtækisins og efni (er að bæta sér upp umbunarleysið!), það talar illa um fyrirtækið sem hefur neikvæð áhrif út á við og það mælir ekki með fyrirtækinu við fólk sem er að leita sér að starfi. Vegna manneklu og sífelldra breytinga fer mikil orka í að þjálfa upp nýtt fólk, þekking og leikni tapast með reynda fólkinu og besta starfsfólkið er dauðþreytt á því að vera ætíð að þjálfa upp nýtt og nýtt fólk. Þannig fer mikill tími og orka til spillis.
Vissulega eru þetta miklar alhæfingar og langt í frá að vera einhlítt en það eru sannleikskorn í þessu og þetta þekkja eflaust margir.
Vonandi förum við að hugsa meira fram í tímann í framtíðinni í stað þess að vera alltaf að bregðast við vandamálum sem hefði mátt draga úr og fyrirbyggja með framtíðarsýn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. apríl 2008
Þú getur haft áhrif á það hvernig sagan skrifar sig um Tíbet
Með því að taka virkan þátt í stuðningi við Tíbeta þá getur þú lesandi góður haft áhrif á það að breyta gangi sögunnar.
Við getum öll haft áhrif með okkar framlagi.
Dropinn holar steininn.
Hægt er að skrifa greinar, kynna sér málin t.d. á www.birgitta.blog.is, www.jonvalurjensson.blog.is, www.tibet.is og á fleiri síðum (t.d. með því að googla Tíbet).
Hægt er að skrá sig í félagið Vinir Tíbet.
Hægt er að ræða málin við vini og vandamenn.
Hægt er að skrifa um þetta t.d. á bloggsíðum og hvetja íslensk stjórnvöld til dáða í því að opna augun.
Það er svo margt hægt en viljinn er það fyrsta sem þú þarft.
Þú getur haft áhrif á það hversu miklu blóði verður úthellt í Tíbet í viðbót. Þú getur haft áhrif á það að Tíbetar geti risið úr rústum sviðinnar jarðar sinnar sem sjálfstæð þjóð á ný. Þú getur haft bein áhrif á söguna og þannig skrifað hana í stað þess að hlusta með daufum eyrum, loka augunum og lesa svo um hryllinginn í sögubókum framtíðarinnar.
Ég hvet þig!
Sunnudagur, 13. apríl 2008
Ég er stolt af því að vera Íslendingur!
Við erum ákaflega sérstök þjóð.
Við erum best í heimi.
Við sýnum mikið frumkvæði og látum vaða í ýmsa hluti sem aðrir myndi aðeins láta sig dreyma um. Þetta er ekkert mál! Þetta reddast! Það er svona íslenski hátturinn...
Þetta er mjög ólíkt Dönunum til dæmis þar sem mikið er lagt upp úr meðalmennskunni. Þú átt ekki að telja þig neitt betri en næsta mann. Til dæmis í skólanum þá fær maður bara sína einkunn en fær ekki að sjá neina meðaleinkunn þannig að maður veit ekkert hvernig maður stóð sig í raun og veru.
Hins vegar þurfum við kannski aðeins að fara að skoða gallana sem fylgja þessu hugarfari okkar.
Við þurfum að finna leið til þess að breyta þeim í kosti.
Við höfum nefnilega sem þjóð eytt um efni fram síðustu ár og verið á neyslufylleríi. Við lifum hátt og hratt og erum kannski að vissu leyti komin fram úr okkur. En á sama tíma komumst við lengra en margur annar. Kostir og gallar. Við eigum ákaflega mikið af afreksfólki og fólki sem hefur verið að sigra heiminn bæði á Íslandi og erlendis. Þeir sem klífa hæst falla hæst. Núna þurfum við að ná jarðtengingu til þess að fallið verði ekki of mikið. Við þurfum að halda í þessa frumkvöðla- og drifkraftseiginleika okkar en einbeita okkur að því að fara ekki fram úr okkur.
Við þurfum að hætta að lifa á lánum og byrja að spara. Draga úr neyslunni, vinna minna og eyða meiri tíma í gæðastundir með börnunum okkar. Þannig styrkjum við grunnstoðirnar okkar. Við þurfum að hlúa að fjölskyldunum, námsfólkinu, starfsfólkinu og öllu fólki í landinu í stað þess að reisa skýjaborgir erlendis.
Ég hafði talsverðar áhyggjur af málum heima eftir að horfa á Silfrið í dag. Mér þótti málflutningur Eddu Rósar Karlsdóttur vera mjög góður og fannst hún horfa raunsætt á málin. Ég held að við þurfum að passa okkur verulega á því að missa ekki sjálfstraustið í þeim hremmingum sem eiga sér stað núna. Ég held við ættum líka að reyna að læra það sem hægt er af stöðu mála í dag og taka á málunum af festu og skynsemi. Auðvelt að segja, erfitt að framkvæma. Ég held í það minnsta að lausnin felist ekki í því að fljúga um víðan völl í umdeildum einkaþotum og reyna að finna lausnina úti í heimi.
Lausnina finnum við aðeins hjá okkur.
![]() |
Auðurinn kemur að utan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 13. apríl 2008
Undercover in Tibet
Ég hvet alla sem láta sig málefni Tíbet varða alveg eindregið til þess að horfa á þessa mynd.
Hún er kannski ein af fáum leiðum til þess að gera sér einhverja grein fyrir ástandi mála þar núna.
Ástandið er mun verra greinilega en þegar ég var þar 2002 og þá var það samt mjög slæmt og þrátt fyrir að það sé vel falið þá merkti maður greinilega hvernig vökult auga kínverskra hermanna fylgdist með öllu sem fram fór. Það þótti mér einmitt alveg hræðilega sorglegt að fylgjast með munkunum og pílagrímunum að biðja í Potala Palace undir þessu vökula auga sem fylgdi hverri hreyfingu þeirra eftir.
Þessi mynd vakti fram miklar tilfinningar hjá mér og minningar frá veru minni þar og ég ætla bara að segja það eins og er. Ég fór að hágráta.
Staða Tíbeta er farin að minna mig á stöðu indjána í Norður-Ameríku. Þjóð sem hefur verið framið menningarlegt þjóðarmorð á. Þjóð sem lifði í jafnvægi og í miklum tengslum við náttúruna þar til hún varð undirokuð og stýrt af græðgisöflum annarrar þjóðar. Þjóð sem búið er að ræna heimkynnum og landi og með því að öllu hefur verið breytt í anda innrásarþjóðarinnar og svo til málamynda er reynt að troða henni inn í gjörólíkt hlutverk og hún á að virka þannig. Skólakerfin í Bandaríkjunum eru til dæmis þannig að þau eru ekki sniðin að indjánum og því ná þeir ekki að fóta sig í þeim.
Það er ekki hægt að breyta heilli þjóð og troða henni inn í menningu og venjur annarrar þjóðar. Það sem gerist er að þjóðarsálin deyr smám saman. Vonin deyr og fólk missir máttinn. Afleiðingar þess að búa stanslaust við ógn og ofríki verða miklir andlegir erfiðelikar og eins og hefur gerst með indjánana að þjóðin missir fótanna og tapar sál sinni. Fer að leita leiða til að flýja eins og í drykkju. Maðurinn er grimmasta rándýrið sem hægt er að hugsa sér og grimmd kínverskra stjórnvalda í garð Tíbeta er skelfileg.
Hér er slóð á myndina.
![]() |
Ólympíueldurinn í Tansaníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |