Fljótt berst fiskisagan

Hér í Danmörku hef ég orðið vör við það að umfjöllun hefur verið í dönskum fjölmiðlum um efnahagskerfi Íslands.

Það skilar sér greinilega út í umræðuna því fólk hefur verið að spyrja mig hvort allt sé að hrynja til grunna á Íslandi.

Svona held ég að neikvæð umræða ýti mikið undir þann vanda sem að okkur steðjar um þessar mundir.

Þarna eins og í svo mörgu öðru er máttur fjölmiðla gríðarlegur.

Þetta er ekki gott mál.


mbl.is Bretar taka út af reikningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir molar

Fékk þessa góðu mola að láni af blogginu hennar Rósý vinkonu Wink. 

Fegrunarráð frá Audrey Hepburn

- til að fá fagrar varir skaltu bara hafa eitthvað gott að segja

- til að hafa falleg augu skaltu svipast um eftir því fallega í fólki

- til að hafa fallegar línur skaltu gefa með þér af matnum

- við höfum tvær hendur. Eina til að hjálpa okkur sjálfum og eina til að rétta hjálparhönd.

Aldrei...

Aldrei segja að þú ætlir að vera, ef þig langar að fara.
Aldrei halda í höndina mína, ef þú ætlar að sleppa.
Aldrei segjast vera hér, ef þú ert það í alvörunni ekki.
Aldrei horfa í augun mín, ef það eina sem þú gerir er að ljúga.
Aldrei segja að ég sé eitthvað, ef ég er það ekki.
Aldrei segja " ég elska þig", ef það eru bara orð.
Aldrei tala um tilfinningar, ef þær eru ekki til staðar.
Aldrei gera mig glaða, ef þú ætlar að særa mig,
ekki vera kyrr, ef þú ætlar að fara... ...verum samstíga.

Gott mál!

Ánægjulegt er að sjá fólk sem vill standa við bak Tíbeta og mótmæla þeim mannréttindabrotum sem framin hafa verið gegn þeim í hartnær hálfa öld.

Nú er tími Tíbeta kominn!

Tími til þess að þeir losni úr klóm kínverska drekans og geti lifað áfram í sátt innan um fegurstu fjöll veraldar og hreina trú sína á lífið sjálft.

Hvar skráir maður sig í þessi samtök?


mbl.is Mannréttindabrotum mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samferða...

Þetta lag Mannakorns heillaði mig upp úr skónum. Alveg óvænt. Þetta rúllaði reglulega í spilaranum á Dodge á ferð minni með sveitalingunum um Norðurland og hefur sönglað í höfðinu á mér síðan... Það er bara eitthvað við lagið og textann sem heillar mig. Þetta er svo fallegur texti.

Ég hef verið að leita að textanum en finn hann ekki? Endilega bendið mér á slóðina ef einhver veit hvar hann er að finna.

Svo er annað lag sem er efst á baugi hjá mér núna og það er lagið Jolene með Lay Low. Mér finnst það líka rosalega flott. Enda enginn smá tónlistarmaður á ferð þar og ekki síðra lag sem hún tekur.

En það er eitthvað við textann í lagi Pálma Gunnarssonar sem fær mig til að hugsa. Og ég fer á smá hugarflug.

Við fæðumst inn í þennan heim. Við veljum okkur ekki hverjum við erum samferða á fyrstu árum lífsins. Hvað ætli úrskurði það inn í hvaða fjölskyldu við fæðumst og hvaða net tengist þeirri fjölskyldu? Er það hrein tilviljun? Er það guðlegt? Er það fyrirfram ákveðið þar sem þetta fólk er hluti af ákveðnu verkefni sem maður þarf að leysa? Er það einungis ráðið af því að við urðum til af erfðafræðilegum ástæðum og ekkert dularfullt við það? Erum við sál í þessum líkama eða er hér aðeins um lífeðlisfræðilegt ferli að ræða?

Þegar þessum fyrstu árum er lokið sem móta okkur að eilífu tekur við næsti kafli. Við erum sú manneskja sem við erum af því vorum svona þegar við vorum 5 ára, 10 ára, 15 ára. Sú manneskja fer ekki neitt eða hverfur, hún bara eldist. Á vissan hátt erum við ennþá þetta 10 ára barn, við lokum bara stundum á það. Er þá persónuleikinn og þættir hans eitthvað sem verður til um leið og lífið kviknar og er óbreytanlegt í grunninn? Tekur persónuleikinn breytingum við þær mótbárur og meðvind sem við mætum? Um þetta hefur ógrynni verið skrifað í gegnum tíðina. Ég held að persónuleiki okkar sé nokkuð stöðugur strax frá upphafi en svo mótast hann í gegnum lífið með ákveðnum atburðum og fólki sem á vegi okkar verður.

En næsti kafli lífsins snýst um það að við erum flogin úr því hreiðri sem við hófum för okkar í. Og þá er það okkar val að velja hverjum við erum samferða. Hvernig veljum við þá aðila? Gegnum vensl. Flestir verða samferða fólkinu sem nærði það og kom á legg, aðrir ekki t.d. ef einhverjir brestir voru þar. Erum við lituð af fyrsta samferðafólkinu okkar þegar við veljum okkur fleiri samferðamenn? Festumst við þannig í sama mynstrinu aftur og aftur? Eru það hrein örlög hverjum við kynnumst? Að vissu leyti tel ég það vera. Það eru visst fólk í mínu lífi sem ég trúi að ég hafi átt að hitta því það hefur auðgað líf mitt á einhvern hátt og hjálpað mér að kynnast sjálfri mér betur. Stundum hittum við líka ranga fólkið til að vita hvaða fólk er rétta fólkið.

Svona heldur lífið áfram og þegar við höldum för okkar áfram með okkar samferðafólki, bæði því sem við völdum og völdum ekki þá eignumst við sjálf litla ljósgeisla sem völdu sér okkur ekki og við völdum ekki sérstaklega þessa persónuleika sem þó eru oftast hold okkar og blóð. Þeir munu svo vonandi fara í gegnum sama ferli að eiga hreiður sitt hjá okkur en halda svo þaðan á vit nýrra ævintýra og velja sitt fólk.

Þegar hallar á síðari hlut lífsgöngu okkar þá gerum við upp hverjum við höfum verið samferða í þessu lífi, horfum stolt tilbaka (vonandi) á þær leiðir sem við völdum í lífinu og hvað við lærðum af þeim mistökum sem við gerðum. Fylgjumst einnig stolt með ungunum okkar sem við vorum svo lánsöm að fá í hreiðrið til að verða okkur samferða. Fylgjumst með trega með fólkinu sem okkur þótti vænt um týna tölunni einn af öðrum.

Þegar okkar lífsgöngu lýkur þá veit enginn um næstu vegferð? Hvert liggur hún. Eigum við aðeins þessa einu vegferð og því er betra að lifa henni til fulls og leggja okkur öll fram. Kannski liggur leið sálar okkar í nýja vegferð, kannski ekki. Kannski munum við hitta nýtt fólk eða jafnvel fólk sem við höfum áður verið samferða. Kannski verðum við þá samferða fólki sem við ekki vorum samferða í síðasta lífi?

Svona getur eitt lag sett mann á hugarflug og vakið upp hjá manni óendanlegar spurningar sem nánast engum verður svarað til fullnustu eða með vísindum.

Samferða... öll við erum samferða... hvert sem liggur leið, gatan mjó og breið, torfær eða greið... Viltu ganga um mínar dyr, verst ég opnaði ekki fyrr... en ég veit að enn er hægt að biðja um meiri og betri grið...

 


Rússnesk rúlletta með líf annars fólks

Þegar menn keyra bæði undir áhrifum áfengis og á tvöföldum hraða þá verður að taka gríðarlega hart á því. Þeir ættu að missa prófið til lengri tíma og ekki fá það aftur nema háð skilyrðum þannig að þeir verði að sýna fram á að þeir ætli að bæta ráð sitt til framtíðar.

Það er ekki hægt að bjóða almenningi upp á að hafa svona tímasprengjur í umferðinni.

Mér finnst þetta fyrst og fremst sorglegt.

Hvað rekur menn til þess að keyra svona?

Þetta er rússnesk rúlletta með líf saklausra vegfarenda og eigið líf. Það má ekkert bregða út af svo stórslys verði og það er mikil hætta á því þegar skynfærin eru dofin vegna ölvunar og hraðinn slíkur.

Hins vegar var ég einmitt að ræða það við systur mína þar sem við vorum að keyra að norðan eftir páskahelgina að það væri ekki eins áberandi ofsaakstur á þjóðvegum og áður. Að sú umræða sem verið hefði væri farin að skila sér í ábyrgari akstri. En þessi hefur greinilega ekki tekið mark á þeirri umræðu eða séð bílhræin og teljarann á Hellisheiðinni.

Nema hann hafi kannski verið að keppast við að koma sjálfum sér og öðrum á skiltið? Ég á bágt með að trúa því en hvað á maður að halda?


mbl.is Ölvaður á 194 km hraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjartanlega sammála þessu

Tek undir með öðrum að það er gott mál að mbl sé að vekja athygli á þessu mikilvæga byggðamáli.

Það er fullkomlega eðlilegt að störf á vegum hins opinbera séu dreifð um landið í réttu hlutfalli við fólksfjölda á hverjum stað og mættu hlutföllin frekar vera aðeins ójöfn þannig að hallaði á höfuðborgarsvæðið með tilliti til þess að ganga á undan einkafyrirtækjum í þeirri stefnu að auka atvinnutækifæri á landsbyggðinni.

Það er ógrynni starfa sem eru þess eðlis að landfræðileg staðsetning skiptir ekki máli þar sem þau eru unnin að miklu leyti í gegnum net og síma. Þannig að eina forsendan er að gott netsamband sé. Hins vegar eins og bent er á getur það jafnvel verið betra að hafa þessi störf úti á landi þar sem þau eru í meira návígi við þær atvinnugreinar sem störfin byggja á eins og til dæmis landbúnað.

Með því að flytja þessi störf á landsbyggðina eykur það möguleika fólks á góðum störfum í sinni heimabyggð eða fyrir þá sem eru af mölinni en vilja breyta til og búa úti á landi en hafa ekki átt kost á því þar sem ekki hafa verið störf í boði sem henta þeirri menntun sem fólk hefur aflað sér. Með tilkomu nýrra starfa kemur nýtt fólk og þá eykst þörf fyrir þjónustu sem skapar þá enn ný störf og þannig er smám saman skotið styrkari stoðum undir landsbyggðina.

Ekki veitir af því á þeim tímum sem ríkja núna og niðurskurður meðal annars þorskveiðiheimilda hefur haft lamandi áhrif á mörg sveitarfélög úti á landi og ekki hefur farið mikið fyrir þeim miklu mótvægisaðgerðum sem boðaðar voru. Við þessu þarf að bregðast svo öll þau stórglæsilegu sveitarfélög sem við eigum á landsbyggðinni geti dafnað áfram og vaxið.

Þetta er mjög mikilvæg aðgerð til þess að blása lífi í mörg sveitarfélög landsins, ekki bara í Eyjafirði.


mbl.is Fleiri ríkisstörf ættu að fara til Eyjafjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgengilegur heimur veraldarvefsins

Þegar ég var ung þá var ekkert internet. Samt tel ég mig ekki vera mjög gamla konu Blush.

Það segir mér aðeins það að veraldarvefurinn hefur tekið heljarstökk einungis á nokkrum árum. Netið er órofinn hluti daglegs lífs okkar.

Við leitum okkur alls konar upplýsinga á internetinu, við pöntum ýmsa vöru og þjónustu, fylgjumst með fréttum, fylgjumst með umræðunni og tökum jafnvel þátt í henni með bloggum og svona má lengi telja.

Það skýtur því skökku við og er kannski of lýsandi fyrir okkar þjóðfélag að internetið er ekki hannað fyrir alla. Það er vel hægt.

Eins og internetið er í dag þá eru sárafáar heimasíður sem gera ráð fyrir því að þeir sem noti þær búi við einhvers konar skerðingu eins og t.d. hreyfihömlun eða sjónskerðingu.

Það er ekki mikið mál að hanna heimasíður á þann veg að sem flestir geti nýtt þær með góðu móti. Til eru fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í þessu. Af hverju í ósköpunum er þetta ekki komið lengra? Af hverju er ekki gerð krafa á þau fyrirtæki og hið opinbera sem þjónusta almenning að heimasíður þeirra séu aðgengilegar öllum? Ég skil þetta ekki?

Fyrirtækið www.sja.is sérhæfir sig meðal annars í aðgengilegum heimasíðum. Nokkur fyrirtæki hafa riðið á vaðið með það að gera heimasíður sínar sem aðgengilegastar flestum og má nefna m.a. www.tm.is sem eiga hrós skilið fyrir. Heimasíður eru þá hannaðar þannig að hægt er að stækka textann mjög mikið, breyta lit á bakgrunni, hægt að tengja þær við lesvélar, framsetning skýr og einföld og margt margt fleira. Ég tel það líka mjög alvarlegt mál að sveitarfélög og Ríkið skuli reka heimasíður af skattfé almennings sem eru samt ekki aðgengilegar öllum almenningi.

Varðandi bloggið þá er mikið af samfélagsumræðu sem þar fer fram auk þess sem fólk notar það sem miðil til þess að leyfa sínum nánustu að fylgjast með sér í orði og myndum (eins og ég geri á hinu blogginu mínu) og því væri mjög eðlilegt að bloggið væri hannað með þetta í huga.

Ég bíð spennt eftir þeim degi þar sem þetta er orðin reglan frekar en undantekningin að heimasíður eins og samfélagið okkar séu hannaðar með það í huga að þjóna öllum.

 


Matvælaverð

Nú eru matvörur að rjúka upp úr öllu valdi. Meira að segja vörur sem búið var að kaupa inn eru samt sem áður að hækka. Mig grunar að margir ætli að tryggja hag sinn ansi hressilega í þessari blessuðu kreppu!

Það er sorglegt hvað ekkert virðist ganga að lækka matvörurverð heima. Sú góða tilraun sem gerð var fyrir ári síðan á lækkun matvælaskatta fauk fljótlega út í veður og vind þar sem veitingamenn og aðrir verslunarmenn voru iðnir við það að stinga mismuninum í eigin vasa.

Hvað er hægt að gera í þessu? Erum við ekki með nógu sterkt eftirlit? Gísli Tryggvason talsmaður neytenda er heldur betur á vaktinni og á hann stórt hrós skilið fyrir. Ég held að almenningur þurfi sjálfur að vera harðari á vaktinni. Við erum svo vön því að greiða himinháar fjárhæðir fyrir matvæli að við sættum okkur við það oft hljóðalaust.

Hins vegar tel ég að stjórnvöld ættu að skoða skattlagningu á matvæli enn frekar og breyta áherslum.

Það á að vera ódýrt að borða hollan mat!

Það þarf að leggja mikla áherslu á það að lægstu álögur séu á ávexti, grænmeti, grófmeti og annað hollt fæði. Álögurnar á að leggja frekar á feitan mat, sætindi, gosdrykki og aðra óhollustu. Frændur okkar hér í Danmörku eru komnir lengra á veg með þetta.

Ég man eftir ungri stúlku sem ég ræddi við í síma fyrir kosningarnar í vor og hún hafði miklar áhyggjur af þessu. Bað mig að berjast fyrir þessu að mikið framboð væri af hollum mat á Íslandi. Mikið hjartanlega er ég sammála henni og mikið líst mér vel á yngstu kjósendurna sem eru orðnir svona meðvitaðir. Ekki þarf að óttast framtíðina með svona fólk innan raða komandi kynslóða.

Úrval af hollustufæði hefur aukist en enn þarf að bæta um betur. Það þarf einnig að leggja áherslu á það að alls staðar sé hægt að fá sér hollan valkost á móti hinu óholla þannig að fólk eigi alltaf val.

Ég er mjög spennt að sjá hvernig frumvarpi Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns okkar framsóknarmanna, um trans-fitusýrur í matvælum vindur fram og tel það hafa haft góð áhrif hér í Danmörku að banna matvæli með of hátt hlutfall af trans-fitusýrum.

Allar þessar aðgerðir stuðla að lýðheilsu og eru mikilvæg forvörn gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem herja á okkur sem aldrei fyrr og kosta okkur stórar fjárhæðir úr okkar sameiginlegu sjóðum. Færa ætti þann pening sem fer í að bregðast við þessum vanda þegar allt er komið í óefni í það að lækka álögur á hollan mat og vera þannig á undan en ekki ætíð að bregðast við vandamálum. Ég veit að þetta er einföldun en ég er viss um að slíkar aðgerðir skila sér í heilbrigðari þjóð og minni útgjöldum í heilbrigðiskerfinu.


mbl.is Gamlar vörur hækka í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref í rétta átt

Hún Jóhanna hefur verið að gera góða hluti. Það er alveg á hreinu og ég hef fulla trú á því að hún sé að leggja sig alla fram til þess að ná fram eins miklu og hægt er.

Ég vona að í sömu andrá sé unnið að allri þeirri endurskoðun sem fara þarf fram á tryggingarkerfinu eins og það leggur sig. Það þarf að skera það rækilega upp.

Það er nú eitthvað byrjað en þarf að leggja áherslu á það varðandi örorkulífeyri hvað fólk getur í stað þess að skoða hvað það getur ekki þegar litið er til almannatrygginga.

Það þarf að vinna að því að efla endurhæfingarúrræði og styðja vel við bakið á þeim sem eru að vinna flott starf hvað þetta varðar eins og til dæmis Hugarafl sem hefur mörg spennandi verkefni á takteinum.

Markmið okkar hlýtur að vera að sem flestir hafi aðgang að vinnumarkaðnum. Fólk sé hins vegar tryggt fyrir því að það eigi sínar tekjur frá Tryggingastofnun öruggar ef eitthvað bregður út af. Það vilja flestallir hafa ákveðið hlutverk í lífinu. Stór þáttur í því er að hafa hlutverk vinnandi manns. Hins vegar hentar alls ekki það sama öllum og sumir geta skilað 2 klst. í vinnu á viku á meðan aðrir geta skilað 40 klst.

Að mínu mati hefur atvinnumarkaðurinn ekki verið nægilega meðvitaður um þessa staðreynd. Að auki hefur kerfið verið þannig uppbyggt að fljótlega hefur fólk misst niður framfærslu frá TR á móti hverri krónu sem það hefur í launatekjur og átt það á hættu að falla alveg út úr kerfinu og verða launalaust í vissan tíma. Það er ekki hvetjandi fyrir atvinnuþáttöku. Það þarf að finna leiðir til þess að kerfið hvetji fólk til að reyna á mörkin. Ég man eftir því í samtali við einn meðlima Hugarafls að hún lagði mikla áherslu á það að kerfið hvetti fólk ekki til að reyna á mörkin. Það er að segja að ef fólk léti reyna á það hvort það gæti farið aftur út á vinnumarkaðinn þá ætti það á hættu að missa niður framfærslu sína sem tæki langan tíma að ná upp aftur ef t.d. það veiktist aftur.

Ég teldi það mjög heillavænlegt að fyrirtæki í landinu bæði í opinberum geira og einkageira fengju sérstakan gæðastimpil frá stjórnvöldum (jafnvel skattaívilnun) fyrir það að bjóða upp á fjölbreytt atvinnutækifæri sem væru mjög ólík og sveigjanleg. Þannig að þau byðu markvisst starfskrafta velkomna sem hafa skerta starfsorku og hefðu verið í vandræðum hingað til með að hasla sér völl á almennum markaði.

Mér þykja það einnig vera döpur skilaboð til fólks sem hefur tekjur sínar frá Tryggingastofnun að það greiði ekki í lífeyrissjóð eins og aðrir. Hvaða skilaboð er verið að senda þar? Á meðan flaggað er fyrir fólki á vinnumarkaði hvað það muni nú hafa það gott á efri árum þegar það siglir um karabíska hafið fyrir lífeyrinn sinn og viðbótarlífeyrinn þá eigi þeir sem hafa tekjur frá TR að búa bara áfram við sama skarða hlutinn.

Svo má aldrei gleyma því að ekki er eðlilegt að miða tekjur frá TR við lágmarkslaun þar sem um ævikjör margra er að ræða. Það ætti heldur að miða þær við meðaltalslaun. Er það sjálfgefið að þú eigir að vera með lágmarkslaun í tekjur ef þú getur ekki unnið á almennum vinnumarkaði sökum skerðingar þinnar?

Á þessu er talsverður munur hér í Danmörku. Þar skilst mér að fólk haldi sínum tekjum sem það hafði áður ef það t.d. lendir í slysi. Það er því ekki hneppt í fátækragildru og þarf að umbylta lífi sínu og skuldbindingum.

Ég tel það líka mikilvægt að þegar fólk fær ellilífeyrir sinn þá sé sá hluti hans sem eru vaxtatekjur ekki skattlagður með tekjuskatti heldur með fjármagnstekjuskatti. Þetta var mikið í umræðunni meðal annars hjá okkur framsóknarmönnum fyrir síðustu kosningar en mér er ekki kunnugt um að búið sé að leiðrétta það.

Það kemur einnig spánskt fyrir sjónir að fólki sé í raun refsað fyrir það að skrapa saman sparnaði til efri áranna með því að skerða lífeyrir á móti því. Þetta hlýtur að breytast þar sem frekar ætti að hvetja landsmenn almennt til sparnaðar í þeim ólgusjó efnahagsmála sem raunin er í dag með skattaívilnun fyrir slíkt og fylla þannig bankana af sparifé landsmanna.

En eins og ég segi. Þetta er skref í rétta átt en hér er mikið verk að vinna og gott mál hjá Jóhönnu að vera lögð af stað í þá vegferð.

 


mbl.is Lífeyrir almannatrygginga hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá Ingibjörgu Sólrúnu

Um daginn þá skrifaði ég pistil um málefni Tíbet og að ég saknaði þess að íslensk stjórnvöld brygðust við. Ég kallaði eftir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, léti í sér heyra vegna málsins. Það hefur hún gert og því fagna ég.

Ingibjörg ræddi við sendiherra Kínverja um Tíbet

mynd Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. MYND/Pjetur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, átti í dag samtal við sendiherra Kína á Íslandi, Zhang Keyuan, þar sem hún lýsti þungum áhyggjum yfir ástandinu í Tíbet.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að Ingibjörg hafi sérstaklega nefnt fregnir af tugum dauðsfalla í tengslum við mótmæli síðustu daga og áframhaldandi spennu milli íbúa Tíbets og kínverskra stjórnvalda.

„Hvatti ráðherra til þess að kínversk stjórnvöld beittu ekki valdi og að þau legðu sig fram um að finna varanlega lausn á stöðu Tíbet og að mannréttindi yrðu virt," segir í tilkynningunni.

(Tekið af www.visir.is).

Nú er að sjá hvernig þessu máli vindur fram. Ég óttast verulega að þær fregnir sem við fáum séu aðeins toppurinn á ísjakanum og í raun séu mál þar grafalvarleg og sé um mun meira ofbeldi og hrylling að ræða en við höfum hugmynd um. Ég sakna þess líka í umræðunni að lítið er rætt um sjálfstæði Tíbet heldur meira í þá veru að Kínverjar og Tíbetar þurfi að ná sáttum. Sáttum um hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband