Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Takk fyrir ykkar framlag

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem tóku þátt í þessum fundi.

Bótverjum vil ég sérstaklega þakka fyrir þeirra framlag og baráttu fyrir því að skapa betra samfélag á Íslandi.

Þátttakendum í pallborði vil ég þakka fyrir þeirra innlegg. Við hefðum svo sannarlega þurft lengri tíma til þess að geta fengið að heyra betur sjónarmið og hugmyndir hvers og eins þátttakanda. Ég tel hinsvegar að hvert og eitt okkar hafi farið heim af fundinum reynslunni ríkari. Ekki síst eftir að heyra reynslusögurnar.

Ég tel þennan fund hafa verið eitt skref af mörgum til þess að vinna að því að fólk geti lifað mannsæmandi lífi á Íslandi. Það er ekki viðunandi að fólk svelti í samfélaginu hér sem er samfélag allsnægta samanborið við stöðu margra annarra ríkja í heiminum.

Ég vil þakka Mbl. fyrir að taka þennan fund til umfjöllunar og hefði svo sannarlega viljað sjá fleiri fjölmiðla taka þessa mikilvægu umræðu. Því miður virðist eins og sumir fjölmiðlar hafi meiri áhuga á því að miðla eymdinni sem biðraðirnar sýna en umfjöllun um fundi þar sem er reynt að ráðast að rótum þess vanda sem biðraðirnar eru tilkomnar vegna.

Nú vonast ég til þess að fjölmiðlar og við öll tökum við okkur, tökum þessa umræðu og finnum sameiginlega leið sem er fær til þess að leysa þetta verkefni í sameiningu. Á Íslandi eiga allir að geta lifað mannsæmandi lífi óháð stöðu.


mbl.is Lýstu sárri fátækt í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýstu sárri fátækt í Reykjavík

Innlent | mbl | 17.2.2011 | 10:42 Vefþulan - Aicon

Lýstu sárri fátækt í Reykjavík

Kristbjörg Þórisdóttir setur fundinn á Hressingarskálanum í síðustu viku. stækka

Kristbjörg Þórisdóttir setur fundinn á Hressingarskálanum í síðustu viku. Ljósmynd/Hjari veraldar

Félagar í samtökunum Bót, aðgerðahópi um bætt samfélag, lýstu kröppum kjörum sínum á opnum borgarafundi um fátækt í Reykjavík í síðustu viku. Einn aðstandenda fundarins undrast áhugaleysi fjölmiðla og segir efnalítið fólki þurfa að neita sér um tannviðgerðir. Fundurinn er nú aðgengilegur á netinu.

Boðað var til fundarins í kjölfar þess að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti ný neysluviðmið en samkvæmt þeim er dæmigert viðmið fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu 292.000 krónur í tekjur á mánuði og er þá tekið tillit til almennra útgjalda, þar með talið húsnæðis og samgangna.

Kristbjörg Þórisdóttir, varaformaður Landssambands framsóknarkvenna, segir stöðu fátækra í íslensku samfélagi grafalvarlega og að meira þurfi að koma til en fögur fyrirheit.

„Borða ekki falleg orð" 

„Markmiðið með þessum fundi var að leiða saman hagsmunaðila, fulltrúa atvinnulífsins og stjórnkerfisins til að ræða grunnframfærslu og neysluviðmið með raunverulegar lausnir að leiðarljósi. Fólk borðar ekki falleg orð. Á meðan að við finnum ekki þessar lausnir sveltur fólk í samfélaginu.

Það gerist þrátt fyrir að fólk hafi stjórnarskrárvarin rétt til að fá þennan stuðning samkvæmt mannréttindasáttmála sem við höfum skrifað undir," segir Kristbjörg um opinn borgarafund gegn fátækt á Hressingarskálanum í síðustu viku.

Átakanlegar reynslusögur

„Það var átakanlegt að heyra reynslusögur félagsmanna í samtökunum Bót. Við heyrðum þá lýsa raunverulegum reynslusögum. Ég held að það væri fulltrúum stjórnkerfisins hollt að fara á netið og heyra fólkið lýsa lífsbaráttu sinni," segir Kristbjörg og vísar á upptöku af fundinum á vefnum Hjari veraldar.

„Fólk lýsti því hvernig það gat ekki sinnt tannheilsu og öðrum lágmarksþörfum. Það lýsti sárri fátækt og miklum erfiðleikum. Ég þekki þennan heim af kynnum mínum við fólk í erfiðleikum og þetta kom mér því ekki á óvart. Það var hins vegar greinilegt á viðbrögðum margra viðstaddra að þeir áttu erfitt með að heyra sögur þessar fólks. Þessi erfiða lífsbarátta kom þeim á óvart."

Skattleysismörk verði hækkuð

Kristbjörg kveðst undrast áhugaleysi íslenskra fjölmiðla um kjör þeirra sem verst standa og bendir á að fyrir utan Framsókn hafi aðeins Vinstri grænir efnt til sambærilegs borgarafundar. Hún skorar því á aðra flokka að láta málið til sín taka með opinskárri umræðu um fátækt á Íslandi.

„Við teljum að það þurfi að skilgreina betur þá upphæð sem þarf til að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi og finna út hvernig við getum borið hana uppi sem samfélag. Það eru margar hliðar á þessu máli og það þarf að huga að atvinnuuppbyggingu og endurhæfingu og starfsþjálfun fólks sem er komið í þessa stöðu. Aðalatriðið er þó að skilgreina grunnframfærslu. Það þarf að hækka skattleysismörk þannig að fólk sem er á atvinnuleysis- og örorkubótum sé ekki skattlagt," segir Kristbjörg.

Í pallborði fundarins sátu: Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu, Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, Gerður Aagot Árnadóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður Bótar, Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknar og nefndarmaður í félagsmálanefnd, Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknar og Elín Líndal, formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.


Verða þau spurð?

icesave.jpg
 

 
Verða þau spurð hvort þau vilji taka að sér að greiða fyrir óreiðuskuldir og fjármálasukk einkafyrirtækis? Fyrir glæsikerrur, "dótakassa", einkaflugvélar, vínflöskur sem kosta tugi þúsunda og annan ólifnað.

Verður skattpínd þjóðin sem treður marvaðann við að reyna að halda sér á floti og forðast drukknun spurð hvort hún vilji bæta þessu ofan á allt annað?

Hvernig stendur á því að menn sem talað hafa einna hæst um þjóðaratkvæðagreiðslur skuli ætla sér að leggja jafn ósanngjarnar og miklar klyfjar á þjóðina "bara til þess að ljúka málinu".

Hvernig stendur á því að jafn mikilvægt og stórt mál skuli vera keyrt í gegnum þingið eins og menn eigi lífið að leysa? 

Lærðu menn ekkert af því að lesa rannsóknarskýrslu Alþingis?

Er þetta Nýja Ísland?

Hvert fór íslenska stoltið, kjarkurinn, dugurinn og þorið? 

Í þessum samningi er falin allt of mikil óvissa í fyrsta lagi. Í öðru lagi þá eigum við sem þjóð ekki að greiða fyrir óreiðuskuldir einkafyrirtækis og ónýtt evrópskt regluverk og eftirlit.

Hvet alla til þess að fara inn á www.kjosum.is og skrifa undir að senda Icesave III í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stöndum vörð saman um okkar velferð og ekki síst framtíð komandi kynslóða okkar.


mbl.is Styður ekki þjóðaratkvæði um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnaður fundur: Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!

Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!

 

gras.jpgStjórn Landssambands framsóknarkvenna hélt í kvöld opinn fund á Hressingarskálanum um grunnframfærslu og neysluviðmið. Yfirskrift fundarins var: Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!

 

Leiðarljós fundarins var að leitast við að svara spurningum um áhrif nýrra neysluviðmiða og leita raunverulegra lausna með samræðu hagsmunasamtaka, kjörinna fulltrúa og fulltrúa úr stjórnkerfinu. Framsóknarkonur lögðu sérstaka áherslu á það að það væri málefnið sem væri í forgrunni og umræðan væri uppbyggileg og lausnamiðuð. Einnig lögðu þær áherslu á að málið væri þverpólitískt og hvetja fleiri stjórnmálaöfl til þess að halda opna fundi um grunnframfærslu og fátækt.

Sérstakir gestir fundarins voru BÓT, aðgerðahópur um bætt samfélag.

Einnig var leiðarljós fundarins að ræða grunnframfærslu út frá 76. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:

Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Þar að auki má vísa til 25. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem hljóðar svo:
,, Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.

Kristbjörg Þórisdóttir varaformaður Landssambands framsóknarkvenna setti fundinn. Fundarstjóri var Drífa Sigfúsdóttir.

Sigríður Jónsdóttir sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu kynnti Íslensk neysluviðmið.

Að loknu erindi hennar hélt Helga Þórðardóttir Bótverji kynningu þar sem kynntar voru ýmsar tölulegar staðreyndir um framfærslu þeirra sem reiða sig á velferðarkerfið og lifa við fátækt.

Pallborðsumræður fóru fram þar sem þátttakendur voru beðnir um að svara eftirfarandi spurningum:

-Hvaða áhrif munu ný neysluviðmið hafa?

-Hvað geta hagsmunasamtök gert til að vinna að málefninu?

-Hvaða aðgerða er þörf af hálfu stjórnvalda vegna nýrra neysluviðmiða?

Þátttakendur pallborðsumræðna voru:

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason
Sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu, Sigríður Jónsdóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands, Guðmundur Magnússon
Formaður Landssambands eldri borgara, Helgi K. Hjálmsson
Formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Gerður Aagot Árnadóttir
Formaður Bótar, Guðmundur Ingi Kristinsson
Formaður BSRB, Elín Björg Jónsdóttir
Þingmaður Framsóknar sem á sæti í félagsmálanefnd, Guðmundur Steingrímsson
Þingkona Framsóknar, Vigdís Hauksdóttir
Formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar, Elín Líndal

Að loknum pallborðsumræðum fluttu María Jónsdóttir og Ísleifur Gíslason Bótverjar reynslusögur.

Í lok fundar fóru fram almennar umræður og fyrirspurnir til þátttakenda í pallborði.

Fundurinn var tekinn upp og verður birtur á vefnum innan skamms.

Hér má nálgast myndir af fundinum á samskiptavefnum Facebook. Það var Andres Zoran Ivanovic, Bótverji, sem tók myndirnar.


Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!

 Opinn fundur 10.2.2011

Hér getur þú séð viðburðinn á Facebook og skráð þig!


mbl.is Heldur eftir 65.000 krónum af lífeyrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sönn ást

soulmates.jpgStundum er eitthvað sem maður heyrir eða upplifir sem snertir mann og færir manni óvænta gjöf, reynslu og ljós.

Ég ætla að segja ykkur þannig sögu.

Maður sagði mér að hann gréti aðeins út af konu sinni. Hann sagði mér að hann teldi sig vera að standa sig vel. Hann sagði mér að hann færi tvisvar sinnum á dag og mataði konuna sína. Ég sagðist vera sammála og að hann væri góður maður og stæði með konunni sinni alla leið. Ég sagði svo við hann að ég vonaði að ég myndi sjálf eignast svona góðan mann. Mann sem stendur með mér alla leið. Hann sagði að hún hafi þjónað honum í 60 ár og nú væri komið að honum að þjóna henni. Þrátt fyrir að gráta út af konunni sinni þá er hann þar fyrir hana, enn eftir 60 ár. Það er sönn ást að mínu mati.

Ekki furða að ástin, maki og lífsförunautur sé eftirsóknarvert í augum okkar flestra og ástin ein af grunnþörfum okkar til jafns við fæði, skjól og klæði.

Í bókinni Borða, biðja elska er líka skemmtileg saga. Sálfræðingur í Bandaríkjunum sem átti að taka flóttamenn frá Kambódíu í sálgæslu og ráðgjöf leist ekkert á verkefnið. Hún hafði áhyggjur af því að hún gæti ekki hjálpað fólki sem væri búið að ganga í gegnum allar þær mestu hörmungar sem nokkur manneskja getur gengið í gegnum, þjóðarmorð, pyntingar, hungur, limlestingar, nauðganir, ættingjar myrtir fyrir augum fólks og fleira. Hún taldi ómögulegt að hún gæti sett sig inn í þjáningar þessa hóps. Hvað var það sem fólk þurfti helst að tala um þegar það kom til hennar? Það voru ekki þessi áföll. Nei, það var ástin og ástarsorgir. Saga um mann sem var með konu í flóttamannabúðunum og hún hafði verið ástfangin af og þau verið saman en hann hafi svo lent á öðrum bát og farið að vera með frænku hennar en segist samt elska hana og alltaf að hringja í hana og hún veit að hún á að segja honum að hypja sig en elskar hann samt ennþá, getur ekki hætt að hugsa um hann og veit ekki hvað hún á að gera ...

Menn hafa aðeins barist út af tveimur spurningum í gegnum tíðina: Hve mikið elskarðu mig? og Hver ræður? Flest annað virðist manneskjunni viðráðanlegt. Þessar tvær spurningar um ást og völd virðast alveg fara með okkur. Út af þeim hafa sprottið styrjaldir, sorg og þjáningar.

Stundum verður fólk á vegi manns sem fyllir mann af upplifun, gleði, kærleika og snertir óvænt strengi í hjarta manns. Það svarar kannski spurningum sem maður hefur velt fyrir sér án þess að vita af því. Mig langaði til þess að deila þessari reynslu því svona andartök í lífinu gera það þess virði að lifa því. Mig langar til þess að hvetja ykkur til þess að grípa svona andartök, njóta þeirra og geyma þau í hugarfylgsnum hjarta ykkar og jafnvel deila með öðrum teljið þið það viðeigandi.


Opinn fundur með Eygló Harðardóttur annað kvöld kl. 20

eyglo.jpgVið hæfi er að byrja nýtt ár Hjá Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar með fræðandi umræðum um stöðu mála í samfélaginu og hjá Framsóknarflokknum.

Mánudaginn 31. janúar klukkan 20:00 verður opinn fundur hjá Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar í húsnæði félagsins Háholti 14. Fyrir þá sem ekki þekkja til erum við í sama húsnæði og Snælands video, bara á annarri hlið þess, við hliðina á pósthúsinu þar sem tónlistarskólinn er.

Gestur fundarins verður þingmaður okkar og ritari flokksins hún Eygló Harðardóttir.

Fundarform verður með frjálslegra móti og Eygló verður til umræðu um málefni líðandi stundar.

Kveðja
Björg Reehaug Jensdóttir
Formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar

Hér getur þú skráð þig á viðburðinn og deilt honum!

 http://www.facebook.com/profile.php?id=705158594#!/event.php?eid=158569440860635


Aðalatriðið er þetta

Stjórnlagaþing þarf að fara fram.

Heilt samfélag hrundi. Regluverkið var úr sér gengið, eftirlit nánast ekkert og siðlaus og rotin græðgisvæðing tröllreið hér öllu með forystu siðblindra fjárglæframanna.

Við höfum lagst í rannsóknir. Við vitum í megindráttum hvað fór úrskeiðis. Núna stöndum við á þeim tímapunkti að læra af reynslunni og framkvæma raunverulegar breytingar. Breytingar á grunnbyggingu samfélags okkar.

Við erum einungis 318.236. 

Við eigum gríðarmiklar auðlindir, erum vel menntuð, kraftmikil og dugleg þjóð.

Við getum byggt upp betra samfélag á grunni þess sem hrundi ef við viljum.

Á Íslandi fer fram djúp og mikil valdabarátta. Barátta um það hver stjórni. Barátta um gullkistur okkar. Þeir sem fengið hafa auðlindir á silfurfati hafa fengið blóðbragðið og vilja meira. Sumir vilja engar breytingar því þeir græddu ansi vel á hinu rotna og skemmda kerfi. Það er hjákátlegt að heyra þessa aðila velta sér upp úr kostnaði við stjórnlagaþing sem er einungis stöðumælaklink í samanburði við það sem afskrifað hefur verið í bönkunum og tekið út úr sjóðum landsmanna.

Lýðræði kostar en það er líka fjárfesting í því að tryggja þjóðinni farsæld til framtíðar, allri þjóðinni.

Við eigum að tryggja þjóðareign á auðlindum okkar, að hvert og eitt okkar njóti arðs af auðlindunum. Við eigum að tryggja það að valdið hefjist og endi hjá þjóðinni og við eigum að tryggja það að stjórnvöld hafi ætíð hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Aðalatriðið er að við þurfum stjórnlagaþing til þess að ná fram þessum raunverulegu breytingum.


mbl.is Stjórnlagaþing verið þrætuepli flokkanna frá upphafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjubylting á Íslandi

 

Hamingja

 

Hamingja er bara eitt lítið orð. Þetta litla orð er þó mjög gildishlaðið og stýrir mörgu af því sem okkar daglega líf og samfélagið snýst um. Mun meiru en við áttum okkur alltaf á. Það er því þess vert að velta hamingjunni aðeins fyrir sér.

Lífið er stutt. Á þessari stundu fæðast þúsundir jarðarbúa, sumir lifa einungis í nokkra daga eða vikur og verða svo sjúkdómum eða slysum að bráð. Öðrum er ætlað að þrauka í heila öld eða jafnvel meira og reyna allt það sem lífið hefur að bjóða: sigur, örvæntingu, gleði, hatur og ást. Enginn veit hvað bíður hans/hennar. En hvort sem við lifum einn dag eða öld er meginspurningin alltaf sú sama: Hver er tilgangur lífins? Hvað gefur lífinu merkingu? (Leiðin til lífshamingju, bls. 19).

Ég hef þá trú að tilgangur lífsins sé að leita hamingjunnar. Það er ljóst. Hvort sem við erum trúuð eða trúlaus og hverrar trúar sem við erum, leitum við öll að betra lífi. Sjálft lífsaflið knýr okkur áfram í átt til hamingunnar... (Dalai Lama, Leiðin til lífshamingju bls. 17).

Sumum finnst þetta sjónarhorn kannski bera vott um sjálfselsku, einstaklingshyggju og sé ekki gagnlegt að ala á því. Ég vil meina og er sammála Howard C. Cutler geðlækni og Dalai Lama um það að:

Þegar við greinum þá þætti sem leiða til hamingjusamara lífs lærum við að leitin að hamingjunni er ekki bara okkur sjálfum til bóta heldur líka vandamönnum okkar og þjóðfélaginu (bls. 20).

Sem má kannski útleggjast einfaldlega þannig að ef maður er hamingjusamur sjálfur þá hefur maður meira að gefa. Rannsóknir hafa sýnt það að hamingjusamt fólk er tilbúnara til þess að hjálpa náunganum og samhygðin er einn hornsteinn þess að geta lifað í góðu samfélagi og svo á móti þá nærir það hamingjuna að sýna öðru fólki samhygð og gefa af sér.

Hamingjan fæst ekki keypt fyrir fé. Alveg sama hversu ríkur þú ert þá geturðu ekki keypt þér hamingju. Vinningshafar í lottó eru ekkert hamingjusamari þegar bleika lottóskýinu lýkur. Hamingjusamasta fólkið er stundum það sem hefur þjáðst mest. Það hefur lært að temja hugann og tileinka sér þau viðhorf sem skapa jarðveg hamingju. Hamingja ákvarðast frekar af hugarfari en ytri aðstæðum. Hamingjan helst í hendur við það hvernig við skynjum aðstæður okkar og hversu ánægð við erum með það sem við höfum (bls. 23). Það er til dæmis alveg sama hversu há laun þú ert með, þú getur alltaf fundið einhvern með hærri laun, hversu fallegur þú ert, þú getur alltaf fundið einhvern fallegri. Þó ekki sé nema fótósjoppaðan í glansblaði.

Þótt andlegt ástand okkar ráði mestu um það hvort við höndlum hamingjuna verðum við vitaskuld að fullnægja líkamlegum frumþörfum fyrir fæðu, klæðnað og húsaskjól. En þegar þeim hefur verið fullnægt liggur ljóst fyrir að við þörfnumst ekki meiri peninga, meiri velgengni eða frægðar, við þörfnumst ekki fullkomins sköpulags eða fullkomins maka - á þessari stundu, á þessu andartaki þörfnumst við einskis annars en hugans til að verða fullkomlega hamingjusöm. (bls. 35).

Það kemur ekki á óvart að íslenska þjóðin sé ekkert hoppandi kát af hamingju þessa dagana. Frumþarfir okkar eru í hættu. Andleg líðan okkar er ekki nógu góð. Tilfinningavandi er útbreiddur og mikil neysla á geðlyfjum. Úrræðin eru fá. Þegar maður setur það í samhengi við kenningar Dalai Lama þá segir það sig sjálft að þjóð sem er ekki fær um að fullnægja grunnþörfum þegna sinna eins og því að eiga fyrir mat, fötum, og öruggu heimili líður sennilega ekki vel. Ofan á það leggst streitan við það að vita ekki hvað hver og einn skuldar, hvort við eigum að láta kúga okkur til að borga græðgisvæddar skuldir Icesave og fleiri aðila og öll reiðin yfir þeirri gegndarlausu spillingu og viðbjóði sem hefur fengið að þrífast innan okkar stjórnkerfis og við fáum ritrýndar fréttir um á hverjum degi. Þetta þarf að breytast.

Hvert og eitt okkar þarf einnig að líta í eigin barm. Skoða það hvernig við getum höndlað hamingjuna í okkar eigin huga. Skoða það hvernig við getum sjálf verið sú breyting sem við viljum sjá í samfélaginu. Breytingar eru ekki bara eitthvað sem aðrir eiga að gera. Hvert og eitt okkar þarf að vera breytingin eins og Gandhi hefur fjallað um. Saman þurfum við að skapa grundvallarskilyrði þess að geta leitað hamingjunnar.

Þannig getur hvert og eitt okkar fundið sína eigin hamingju. En þá kemur að því sem ungi maðurinn í myndinni Into the wild komst að og skrifaði niður áður en hann lést. 

Happyness only real when shared with others.

Þrátt fyrir að geta höndlað hamingjuna þá verður hún ekki raunveruleg fyrr en við getum deilt henni með annarri manneskju. Við þurfum á hverju öðru að halda af óendanlega mörgum ástæðum.

Að lokum langar mig að hvetja alla til þess að mæta á Austurvöll kl. 16:30 á morgun og taka þátt í því við setningu Alþingis að minna stjórnvöld á að valdið liggur hjá fólkinu og við erum ekki sátt með aðgerðir og eftirmála hrunsins.

Græðum sárin sem hafa verið rist í okkar þjóð undanfarin ár, sköpum jarðveg fyrir okkur öll til þess að leita að og höndla hamingjuna. Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott. Gerum hamingjubyltingu á Íslandi og þá mun okkur farnast vel. 

Byltingin að bættu samfélagi heldur áfram á morgun.


Gleðilegt nýtt ár

 

images.jpg

 

Jæja nú er kominn tími á bloggfærslu.

Nú þarf maður að kveðja jólin enn eina ferðina, búið að sprengja upp árið 2010 og árið 2011 er runnið í hlað.

Mér finnst þetta alltaf jafn merkilegur tími. Þrátt fyrir kuldann, myrkrið og tilfinninguna að vilja bara kúra af sér þessa mánuði þá er þetta samt svo heillandi tími. Tími kertaljósanna, jólaljósanna, bestu vinir manns þessir bústnu rauðu fá að njóta sín í stofunni þangað til þeim verður pakkað niður sem gerist um helgina reyndar... Þetta er líka tími með alvarlegra ívafi. Tími til þess að horfa á árið sem við vorum að kveðja og kemur aldrei aftur. Fara yfir það í huganum eins og ljúfa kvikmynd. Hvað gerði ég á þessu ári? Var eitthvað vit í því? Hvað stóð upp úr? Hvað lærði ég? Hverja hitti ég, hverja kvaddi ég og svo framvegis. Hvert og eitt okkar hefur sinn stíl á þessu.

Í upphafi nýs árs er svo tími til þess að skoða markmiðin sín. Náði ég þeim? Fór ég fram úr mér með einhver þeirra? Og svo er komið að því að setja sér ný markmið. Sumt setur maður sér aftur og aftur eða það geri ég amk. Hluti sem ég vil hafa á blaðinu mínu sem ég veit að ég mun enn þurfa að minna mig á þegar ég verð orðin öldruð kona. Ef ég verð svo heppin.

Lífið er hlaðborð. Hvert og eitt okkar býr yfir takmarkalausum tækifærum. Við getum breytt flestu af því sem við viljum breyta. Tækifærin eru okkar. Vissulega kemur lífið líka stundum aftan að okkur, gerir okkur bilt við eða færir okkur eitthvað ömurlegt upp í hendurnar. En við getum alltaf valið um það hvernig við tökum á móti því sem lífið sjálft færir okkur. 

Það er svo merkilegt með breytingarnar. Flest viljum við breytingar hér amk. eftir að allt hrundi. En samt gerum við svo lítið til þess að breyta hlutunum. Við höldum áfram í hinu þekkta fari vegna þess að það er kannski skárra en hið óþekkta. Hver vill fara út í óvissuna? 

Og einhvern veginn þá er oft svo miklu auðveldara að finna sér bara einhvern sem manni finnst mark takandi á og elta viðkomandi eins og hver önnur rollan í hinni þekktu og alræmdu hjarðhegðun. Ef þessi flotti einstaklingur vill svartan leðursófa, þá hlýt ég að vilja það líka! Einn svartan leðursófa takk! Ef það er töff að vera á jaðrinum þá er best að koma sér út á jaðarinn og vera eins og hinir. Það er líka fínt að skella sömu ímyndinni á mismunandi hópa þannig að maður geti notað bara eina stærð fyrir alla því þá þarf maður ekkert að vera að eyða orku í að mynda sér mismunandi skoðun á hverjum og einum, það er allt of flókið. Allir stjórnmálamenn eru spilltir, allir bankamenn eru glæpamenn...

En hvað finnst þér? Hvað vilt þú sjálf/sjálfur? Hver ert þú og hvert ertu að fara? Ertu að koma bara úr hægra horninu eins og Patterson eða hvað?

Ég held að það sé stóra verkefnið okkar. Það er að finna út hvað það er sem mér finnst, hvað það er sem ég vil, setja sér sín eigin markmið og byrja á því að bæta heiminn með því að bæta sjálfan sig. Þannig held ég að við sem heild komumst áfram. Ekki með því að reyna alltaf að elta misvitra aðila hverju sinni sem við höldum að hafi lausnina á hamingju lífsins. Hvert og eitt okkar hefur hana fyrir sig, innra með sér.

Gleðilegt nýtt ár og njóttu þess að líta inn á við í upphafi þessa nýja árs, rannsaka þinn innri mann og gera áætlun fyrir þig út frá því. Það er mín tillaga að uppskrift að hamingju og farsæld fyrir okkur öll.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband