Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Æðruleysisbænin

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

 

Þessi bæn er oft tengd þeim sem takast á við áfengisvanda og aðstandendum þeirra en hún á við í svo mörgum öðrum tilfellum. Orð hennar eru að mínu mati ljós til að lýsa veginn um skrýtna og erfiða vegkima lífsins og fyrst og fremst í þeim aðstæðum þar sem maður sjálfur þarf að vera sinn eigin leiðsögumaður og ferðafélagi. Við fæðumst ein inn í þennan heim og yfirgefum hann ein. Grundvöllur alls annars er sá að við getum verið okkur sjálfum góðir ferðafélagar og staðið með okkur í einu og öllu. Það er sáraeinfalt að segja þetta og ekki síður að slá slíka speki inn á tölvuskjá en það reynist oft þrautinni þyngra að fylgja slíku í einlægni og alvöru.

Það er svo margt í þessu lífi sem okkur mislíkar og það er svo ótalmargt sem við höfum enga möguleika á að stjórna. Manneskjur sem eru altumlykjandi í okkar lífi eru allar ólíkar okkur, hugsa öðruvísi, breyta öðruvísi og valda okkur dýpstu sorg og hæstu hæðum gleði. Það er líka oft sagt að sorgin og gleðin séu systur og því er stuttur vegspotti á milli þessara tveggja lífslinda. Stundum stendur okkur aðeins sorgin til boða til að svala lífsnauðsynlegum þorsta lífsins en stundum getum við baðað okkur í gleðinni að vild. Ef við drekkum aldrei úr gruggugri lind sorgarinnar þá vitum við heldur ekki hversu svalandi, tær og yndisleg gleðin er.

Þessi bæn segir svo mikið um þessa hluti. Minnir okkur á það sem við getum ekki breytt en um leið að öðrum hlutum getum við breytt ef við höfum vit til að greina þar á milli. Því miður fer oft mikil orka hjá okkur í það að velta okkur upp úr gjörðum annarra, öðru fólki yfirhöfuð eða atvikum sem engin leið er að breyta eða hafa stjórn á. Svo mikil orka fer í það að við gleymum að líta til okkar sjálfra og skoða hvað það er sem við getum gert til þess að hafa áhrif á aðstæðurnar án þess að breyta öðrum eða atvikinu sjálfu.

Það er þannig tímabil í okkar sögu að erfiðleikar eru daglegt brauð margra og þrátt fyrir að við gerum okkur kannski ekki endilega grein fyrir því þá er sá þungi sem liggur á okkur sem þjóð jafn bráðsmitandi og svínaflensan. Hann smitast inn í allt okkar líf og samskipti og hefur jafnvel mun meiri áhrif en maður gæti gert sér í hugarlund. Þess vegna þurfum við að vera meðvituð um að berjast á móti og horfa þá fyrst og fremst á okkur sjálf í speglinum í stað þess að horfa á þungar aðstæður sem er ekki í mannlegu valdi einnar manneskju að breyta. En með krafti okkar allra má lyfta grettistökum.

Eitt af mínum uppáhaldslögum er lagið: "Sumarið er tíminn" sem Bubbi syngur. Ég er vorkona og sumarkona í eðli mínu. Elska þegar allt lifnar við, birtir yfir öllu og við taka hlýir dagar og hlýjar, endalausar nætur sumarsins. Þetta sumar hefur alls ekki verið minn tími vegna margra ótengdra atvika. Ég er samt sennilega ekki ein um það að vera þungt hugsi um allt og alla. Hins vegar ætla ég að leggja mig fram við að byggja mig upp líkamlega og andlega til þess að takast á við haustið sem blasir við okkur og veturinn sem fylgir í kjölfarið. Ég held að við þurfum mörg að vera vakandi fyrir því að vera sérstaklega góð við hvert annað því líðan okkar er ekki upp á sitt besta (eins og m.a. kannanir hafa sýnt fram á og kynnt hefur verið í fjölmiðlum). Verum sérstaklega góð við okkur sjálf, byggjum okkur upp eftir öllum þeim leiðum sem hvert og eitt okkar kann til þess að rækta sig og efla og þá getum við farið að byggja hvert annað upp og okkar góða þjóðfélag.

Farðu vel með þig lesandi góður.

 

 

 


Fiskidagurinn mikli á Dalvík

Um síðustu helgi var ég fyrir Norðan og sótti Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Það var alveg frábær upplifun að sækja Dalvíkinga heim og upplifa dýrðir Fiskidagsins mikla. Á föstudagskvöldinu var virkilega notaleg stemning að rölta um bæinn og skoða fallegar skreytingar og flest húsin uppljómuð með ljósaseríum. Þar fyrir utan var iðandi mannlíf um allan bæinn og nóg fyrir forvitið gestsaugað að sjá. Það eina sem klikkaði var að súpan hafði runnið svo ljúft niður að engin var hún eftir þegar okkur bar að garði. Á einum stað var næg súpa en engir bollar þannig að ekki gekk á tímum svínaflensu að allir stykkju bara á pottinn og sypu af... Ég legg til að á næsta ári mæti fólk bara með sína eigin bolla til að láta ausa í. Það er miklu umhverfisvænna og ódýrara.

Á laugardeginum röltum við svo á milli bása og runnu fiskveitingarnar ljúflega niður, hvort sem um hrátt hrefnukjöt var að ræða eða krakkafisk. Allt var þetta mikið lostæti að mínu mati. Mannlífið var alveg dásamlegt og hitti ég mikið af skemmtilegu fólki. Svo mikið var af mat að ekki náði maður einu sinni að smakka allt sem maður hefði viljað. Ég upplifði Dalvíkinga sem einstaklega góða gestgjafa og að þessa helgi hefðu hjörtu bæjarbúa slegið í sama fiskitaktinum. Allir voru einhvern veginn með á einn eða annan hátt. Kvöldið var svo toppað með magnaðri flugeldasýningu þar sem meðal annars bar að líta mikinn ljósfoss svo hvert andlit í brekkunni ljómaði og gapti af undrun.

Hátíðina upplifði ég sem mikla fjölskylduhátíð og það var gott að finna þá gleði sem sveif yfir vötnum Dalvíkur. Allt var til fyrirmyndar og til dæmis var búið að hreinsa upp strax á laugardagskvöldinu eftir veru 30 þúsund manna þar fyrr um daginn. Hinn íslenski dugnaður og kraftur var altumlykjandi.

Ég mæli með þessari hátíð við hvern sem er og veit að þetta er einungis mín fyrsta af mörgum ókomnum Fiskidögum á Dalvík.

Mér varð hugsað til Lífsspeki fisksins sem ég lærði um í minni gömlu vinnu hjá SSR (Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík) þar sem ég sá fiska hangandi í öllum heimsins litum, formum og mynstrum. Sú speki gengur einmitt út á það að: Vera til staðar, leika sér, gera öðrum daginn eftirminnilegan og velja sér viðhorf (www.fishphilosophy.com). Speki sem væri upplagt fyrir hvern einn og einasta Íslending að kynna sér og hafa í huga um ársins hring.

Takk fyrir mig :)


Samstaða.is

Samstaða er nokkuð sem við þurfum að huga vel að næstu dagana, vikurnar, mánuðina og árin. Við höfum alltaf verið þekkt fyrir það að sameinast sem ein fjölskylda þegar á bátinn hefur gefið og ekki síður á gleðitímum. Í blíðu og stríðu hefur íslenska þjóðin sýnt samstöðu.

Ég fagna framtaki Indefence samtakanna og vona að þau standi fyrir fleiri svona fundum. Það er staðreynd að við þurfum að sýna samstöðu okkar í verki og minna okkur stöðugt á mikilvægi hennar og vera jákvæð og bjartsýn. Þannig öðlumst við baráttuvilja til þess að takast á við okkar þungu verkefni. Á meðan öll umræðan snýst um neikvæða hluti, svartsýni og ósamstöðu þá róum við einungis í hringi og sökkvum dýpra og dýpra niður spíralinn.

Þetta þurfa okkar þjóðarleiðtogar manna mest að hafa í huga.

Nú eru tímar þar sem okkar leiðtogar VERÐA að standa saman og hafa sig yfir pólitískt argaþras og meting. Nú er ekki tíminn til þess að keppa sín á milli og gera lítið úr tillögum pólitískra mótherja sem jafnvel eru mjög góðar. Okkar leiðtogar verða að mynda breiðfylkingu og leiða þjóðina áfram sem eina stóra og sterka heild. Á meðan barist er innan veggja Alþingis í pólitískum einkahagsmuna slagsmálum er enginn á lausu til þess að leiða þjóðina í gegnum dimman dal og inn í betri tíma.

Samstaða fólksins á Íslandi er lykillinn að farsælli framtíð okkar allra.


mbl.is 3000 á samstöðufundi InDefence
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurgreidd sálfræðiþjónusta

Það eru erfiðir tímar á Íslandi í dag. Það fer ekki framhjá nokkrum manni. Ofan á hefðbundið álag fólks og önnur skyndileg áföll leggst sú byrði að takast á við erfiða tíma í kjölfar bankahruns, óvissu og úrræðaleysis. Því er mikilvægasta spurningin sem við getum spurt núna, hvernig eigum við að snúa vörn í sókn?

Ég hef nokkrum sinnum skrifað pistla sem fjalla um þjóðhagslegt mikilvægi þess að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga á sama hátt og gert er með þjónustu geðlækna. Margar ólíkar leiðir má fara í þessum efnum eins og t.d. að innifalinn sé viss fjöldi tíma með tryggingum fólks, í gegnum TR, stéttarfélög (sem er að e-u leyti komið á í dag) eða vinnustaði. Aðalatriðið er að allir njóti aðgengis en vissulega þarf að vera þak á slíku og mat hver hefur mesta þörf fyrir aukna þjónustu.

Ég er sannfærð um að slík fjárfesting myndi skila sér í þjóðarbúið og með betri andlegri og jafnvel líkamlegri heilsu landsmanna, betri vinnuafköstum á vinnustöðum svo ekki sé minnst á mikinn sparnað vegna útgjalda sem verða þegar starfsmaður missir vinnugetu vegna til dæmis kvíða eða þunglyndis.

Mörg rök eru fyrir því að bjóða upp á þjónustu sálfræðinga jöfnum höndum og þjónustu geðlækna. Sálfræðingar sérhæfa sig í að beita ýmsum meðferðarúrræðum eins og til dæmis hugrænni atferlismeðferð sem færa fólki vopn í hendur sem gott er að eiga í handraðanum til að takast á við erfiðleika lífsins. Lyfjagjöf er stundum nauðsynleg til dæmis í upphafi eða við svæsin tilfelli en í mörgum tilfellum er samtalsmeðferð mun hentugra úrræði. Með því að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga sparast kostnaður við óþarfa lyfjagjöf og lyf sem jafnvel viðkomandi tekur ekki. Rannsóknir hafa sýnt fram á að stundum er árangur jafn eða betri af HAM meðferð en lyfjagjöf og minni líkur eru á hrösun að meðferð lokinni.

Geðrækt verður mikilvægasta ræktin okkar Íslendinga á næstu árum, samhliða líkamsræktinni að sjálfsögðu sem alltaf er lykillinn að góðu lífi. Við þurfum að hugsa fram í tímann, snúa vörn í sókn og takast á við vandann áður en hann verður óyfirstíganlegur. Slíkt er þjóðhagslega hagkvæmt. Ein þessara leiða er að veita almenningi aðgengi að þjónustu sálfræðinga í stað þess að slíkt sé lúxus sem einungis sé á færi tekjuhærri þegnanna.

Nú er tími sálfræðinga kominn!


mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ræna banka í nútíð og framtíð

Hvernig gat þetta gerst?

Þessi spurning hefur sveimað um í kollinum á mér í ótal skipti allt frá því 6. október síðastliðinn. Hvernig gátu hlutirnir farið svona hrikalega úrskeiðis? Hvað voru menn að hugsa?

Upplifun mín af þessu er sú að bankarnir hafi í raun verið rændir innan frá. Ekki nóg með það... heldur voru þeir rændir í nútíð og framtíð. Hvernig er það eiginlega hægt??? Þeir voru hvoru tveggja tæmdir og skuldsettir langt fram í nútíð.

Það er EKKI HÆGT né forsvaranlegt á neinn máta að skella þessum stóra skell yfir almenning sem langstærstur hluti tók ekki þátt í milljarða sukkveislunni né hafði grænan grun um hvað væri að gerast. Það má ekki gerast að við sem þjóð séum kúguð til þess að taka á okkur skuldaklafa sem er afleiðing ónýts efnahagskerfis og regluverks . Þeir sem lögðu sparifé sitt inn á Icesave reikninga voru að mínu mati að taka þátt í ákveðnu gullgrafaraæði - íslenska efnahagsundrinu... Þeir sóttust eftir skjótfengnu gulli sem varð að glópagulli.

Hvernig getur það verið réttlátt að skella reikningnum fyrir því ævintýri á fámenna þjóð okkar? Það er ekki sanngjarnt að hneppa þannig almenning í ævilanga fátækt, fædd og ófædd börn okkar meðtalin. Nei, við verðum að berja hnefanum í borðið öll sem eitt og neita að taka þessar byrðar á okkur. Hvernig getur það talist réttlátt að hver einasta fjölskylda taki á sig 680 þúsund króna skuld á ári hverju AÐEINS vegna skulda Björgólfs Guðmundssonar. Þá eru ótaldir allir hinir svokölluðu "auðmenn" sem eiga eftir að fara í þrot því það vita allir að enginn nær að greiða upp margra milljarða skuld einn og óstuddur. En skuldin á að mínu mati ekki að falla á saklausan almenning. Hún á að falla á þá sem tóku áhættu við það að ætla að eignast skjótfengið fé.

Ég skil bara ekki hvert þessi ríkisstjórn er að fara með okkur. Að binda þjóðina í skuldaklafa. Setja svo flata línu í launamálum að mikið af vel menntuðu og öflugu fólki mun ekki sjá sér annað fært en flytja úr landi. Að stöðva neysluna svo hressilega í þjóðfélaginu að engin þíða verði á næstunni í hagkerfinu. Ég er ekki hagfræðingur en þessi leið er ekki fallin til farsældar. Hún mun halda okkur niðri, okkur sem eftir verðum (ef við verðum hér) án þess að eiga möguleika á að reisa okkur við á ný. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hið frjálsa, ábyrgðarlausa, stjórnlausa græðgismarkaðshagkerfi keyrði í kaf (sem er vel að vissu leyti) og hér þarf virkilega að hugsa málin upp á nýtt.

Lausnin að mínu viti er alls ekki sú að fara alveg yfir á hinn öfgaendann. Lausnin felst í hinum gullna meðalvegi. Þar sem einstaklingsframtakið fær að njóta sín innan vel hannaðs regluverks (byggt á nýfenginni reynslu) og afar öflugu eftirliti allra aðila en jafnframt þeirri samtryggingu sem nauðsynleg er í samfélagi til þess að ákveðið réttlæti sé fyrir hendi og stuðningur við hvert annað. Við megum aldrei aftur falla í þá gryfju að líta í hina áttina þegar við verðum vör við misferli. Einhverjir sáu allt það misferli sem nú er að koma upp á yfirborðið og horfðu í hina áttina. Því miður.

Nokkrum aðilum hefur sem sagt tekist það sem manni dytti ekki einu sinni til hugar í sínum villtustu glæpaævintýrum, rænt bankana okkar í nútíð og framtíð. En nú er stóra verkefnið okkar allra að takast á við eftirmálann af skynsemi, festu og með það að leiðarljósi að slíkt geti aldrei nokkurn tíma komið fyrir aftur. Tryggja þarf að öll þjóðin sé ekki látin afplána fyrir þann glæp sem orðið hefur - bankarán Íslandssögunnar! Slíkt mun aðeins leiða til enn meiri hamfara og engrar lausnar.


Þetta líf

Líf okkar er undarlegt ferðalag... orti merkur maður hérna um árið.

Þetta eru svo sannarlega orð að sönnu.

Það er svo ótrúlegt hvað mikið getur gerst á aðeins einu ári í lífi sérhverrar manneskju, sérhverrar þjóðar. Við Íslendingar erum að fara í gegnum mikinn þroskaferil þessi misserin. Áður þekkt veröld hrundi til grunna með hvelli og eftir sitjum við brotin, ráðvillt og áttavillt. Vitum hvorki hvað gerðist í raun og veru til fulls né hvað til bragðs eigi að taka núna. Áföll eru hluti mannlegrar tilveru en eðli þeirra og viðbrögð eru misjöfn eftir því um hvað er að ræða. Þær hamfarir sem við erum að ganga í gegnum sem þjóð eru að svo miklu leyti að mannavöldum að tilfinningar og viðbrögð verða flóknari en ella. Þetta þarf að hafa í huga við endurreisn þá sem verða þarf.

Ég var ein þeirra sem flutti heim frá útlöndum eftir að bankarnir hrundu og undruðust margir. Ég lít á aðstæður okkar sem stórt og mikið verkefni, krefjandi en spennandi til þess að byggja upp á ný, reynslunni ríkari. Ég get samt sem áður vel skilið þá sem neyðast til þess að fara af landi við þessar aðstæður. Ef ég sæi fram á að geta ekki séð fjölskyldu farborða þá myndi ég líka hugleiða að leita til nýrra heima.

Við sem erum hér þurfum að leggjast öll á árarnar til þess að samfélag okkar geti boðið sem flestum fótfestu, öryggi og tækifæri.

Ég hef mikið hugleitt það í sumar hvernig við getum náð þeirri samstöðu sem okkur er nauðsynleg til þess að ná þeim krafti sem þarf til að reisa upp farsælt og betra samfélag, þjóðstjórn? sterkan leiðtoga?

Eftir að hafa búið erlendis þá kynntist ég íslensku samkenndinni sem skapast hjá Íslendingum sem búa í útlöndum. Þar eignast maður mjög fljótt traust bakland og góða vini. Allir eru tilbúnir til að hjálpast að í þeim oft krefjandi aðstæðum sem skapast við að vera útlendingur í framandi landi. Þessi samkennd er eitthvað sem við megum ekki gleyma þegar við erum hér á okkar eigin landi að takast á við sögulega erfið verkefni. Til þess að samkenndin skapist þarf samt sem áður ákveðið uppgjör að fara fram. Stjórnvöld sem horfa fram hjá óréttlæti, eru ógagnsæ í feluleik og gera ekki upp við þá sem ábyrgir eru eða sýna í verki að breyting sé fyrirsjáanleg byggð á fenginni reynslu munu ekki ná fram þeirri sátt sem þarf til að almenningur fylki sér á bak þeim.

En þrátt fyrir öll þau erfiðu verkefni sem bíða okkar núna og sögulega tíma þá er samt vert að minna sjálfan sig á hvað skiptir mann raunverulegu máli þegar upp er staðið. Í mínum huga er það mín eigin heilsa, fjölskylda og vinir. Flest annað getur maður byggt upp á ný. Fólk annars staðar í heiminum sem á ekkert efnislegt er þrátt fyrir allt oft mjög hamingjusamt. Þetta líf er þannig að sum okkar fá ekki einu sinni tækifæri til þess að taka þátt í uppgjöri, endurreisn eða mótmælum. Sumum blómum er kippt upp með rótum langt áður en þau ná að blómstra að fullu. Stundum haustar langt áður en sumardagurinn er að kvöldi kominn og sólin sest.

Við erum öll að leita að því sama í þessu lífi. Öryggi, hamingju, ást og því að skipta máli í þessum heimi. Stundum verður tilveran svo flókin og óskiljanleg að þessi grundvallaratriði gleymast og maður fer að taka lífið sjálft sem sjálfsagðan hlut sem kasta má á glæ ef því er að skipta. Stundum verða verkefnin svo stór og mikil að við sjáum ekki sólina sem heldur samt áfram hvern einasta dag á sinni ferð og lýsir upp tilveru okkar. Stundum tekur lífið svo allt aðra stefnu en maður sjálfur hélt og vildi. Þá má ekki gleyma því að standa í sínar eigin fætur, draga andann djúpt og treysta á vini og vandamenn til þess að reisa sig við ("friends are angels who lift you to your feet when your wings have trouble remembering how to fly" las ég eitt sinn...). Þann greiða má endurgjalda síðar þegar brotin hafa raðast saman á ný og maður nær sínu flugi sem fyrr. Tilbúin til að takast á við krefjandi verkefni sem manneskja og sem hluti þjóðar.


Drekinn á skólalóðinni og Dalai Lama

Síðustu helgi steig hér á land einn merkasti samtímamaður okkar. Það var hans heilagleiki 14. Dalai Lama, andlegur leiðtogi tíbetsku þjóðarinnar í útlegð. Dalai Lama er heimsþekktur og hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín í þágu friðar. http://www.dalailama.com/

Við komu hans rættist einn drauma minn sem ég taldi að aldrei myndi rætast. Þegar Dalai Lama steig í salinn fylltist hann sömu kærleiksorkunni og ég fann í höll hans og sumarhöll í Lhasa í Tíbet. Þangað hefur hann sjálfur ekki átt möguleika á að koma í hálfa öld. Maðurinn er algjört sjarmatröll og brosti ég hringinn allan tímann yfir þeirri gleði sem fylgdi honum og drakk í mig þann fróðleik sem hann býr yfir. Fróðleik sem ekki er nýr af nálinni en lagður fram af mikilli visku og hugarró. Ef allir hugsuðu eins og Dalai Lama þá væri heimurinn svo sannarlega betri fyrir okkur öll.

Íslenska ríkisstjórnin og forseti Íslands féllu á prófinu að mínu mati. Þau ákváðu að hunsa heimsókn þessa merka manns og nýttu sér lélegar afsakanir og yfirklór. Þess má geta að forsætisráðherra Danmerkur tók vel á móti Dalai Lama sem er mun betri frammistaða en aumingjaskapur íslenskra ráðamanna. Þau ákváðu að fella gengi mannréttinda fyrir þá von að halda kínverska drekanum góðum (ógn og viðskiptasamböndum!) sem þekktur er fyrir að beita hótunum og ógn til valdbeitingar.

Kínverska stjórnin er eins og hrottinn á skólalóðinni sem hótar öllu illu og beitir hin börnin ofbeldi fari þau ekki að vilja hans og gefi honum vasapeningana sína og nestið. Því miður styrktu íslenskir ráðamenn (flestir) þessa hegðun í stað þess að sýna kjark og þor og bjóða kínverska drekanum byrginn. Þessa styrkingu á hegðun hrottans hefði hver einasti sálfræðingur gert athugasemd við og sagt að svona ætti að hunsa en breyta þess í stað rétt. Með því að gangast undir slíkar hótanir mun hrottinn einungis eflast og ógna meira og beita meira ofbeldi næst!

Ég harma innilega viðbrögð Íslensku ríkisstjórnarinnar og forseta vor sem brugðust þessu litla fagra landi sem þarf á okkar aðstoð að halda. Við eigum margt sameiginlegt með tíbetsku þjóðinni og gætum verið í þeirra sporum. Ég er hneyksluð á heigulshætti leiðtoga okkar og mun aldrei styðja þetta fólk til valdaembætta fyrir íslensku þjóðina.


Sumarið er tíminn

Nú hækkar sólin á lofti og sumarið er á næsta leiti.

Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að nota þetta sumar vel. Nota það til þess að hlaða hálftóm batteríin eftir harðan vetur. Einnig til að búa okkur undir það sem framundan er.

Sólin er risa rafhlaða sem gefur okkur öllum orku. Að fara í góðan göngutúr, horfa á náttúruna sem við eigum og er á heimsmælikvarða og hlusta á fuglana syngja er ótrúlega endurnærandi og gott fyrir sál og líkama. Að njóta endalausu íslensku sumarnóttanna eins og enginn sé morgundagurinn. Íslenska sumarið er engu líkt.

Þetta sumar þarf að endurhlaða okkur og fylla okkur af yl, orku og bjartsýni.

Það eru erfiðir tímar en þeir eru aldrei svo erfiðir að við getum ekki tekist á við þá. Þeir eru aldrei svo erfiðir að við eigum ekki að þakka hvern einasta dag fyrir það að vera Íslendingar sem búa á einu fegursta landi heims, erum einstök þjóð sem eigum mikla möguleika. Yfir heildina eigum við meira en nóg af húsnæði, nóg af fæði, nóg af kærleik, erum laus við stríðshörmungar og eigum samfélag sem byggir á traustum stoðum. Okkur eru því allir vegir færir og staða okkur talsvert mikið betri en meirihluta heimsbúa. Þessu má ekki gleyma.

Kæri lesandi,

njóttu þess að fara út í sumarið og eiga yndislegar stundir með því, með sjálfum þér og með fólkinu sem þú elskar. Þannig getur þú fyllt þig af orku og sú orka er ómæld og kostar hvorki krónu eða evru.

Eigðu góða Hvítasunnuhelgi og farðu varlega ef þú ætlar þér langa leið á þjóðvegunum.


Er þjóðarhríslan týnd fyrir ESB skóginum strax á fyrsta degi þings?

Mikið hjartanlega tek ég undir með þingmönnum okkar.

Hvað er að gerast á Alþingi eiginlega? Er þetta forsmekkurinn að því sem koma skal? Á alvarlegustu efnahagstímum þjóðarinnar eru mál eins og erfðabreyttar lífverur, losun úrgangs og annað sett á dagskrá fyrsta dags þings. Hvernig í ósköpunum eiga þessi mál að leysa bráðavanda íslenskra heimila og fyrirtækja sem lepja dauðann úr skel og falla umvörpum hvern einasta dag?

Vinstri grænir meira að segja þagnaðir, þá er nú Bleik brugðið! Þeir sömu og höfðu uppi háreyst mótmæli í janúar vegna þess að dagskrá þingsins væri ekki í takt við þau mál sem kölluðu hástöfum á forystumenn þjóðarinnar. Eru þeir búnir að segja upp í búsáhaldarbyltingunni þar sem þeir eru búnir að tryggja sjálfum sér sæti í volgum stólunum?

Hvað með Jóhönnu? Jóhönnu sem ég hef alltaf haft mikla trú á? Hvernig stendur á því að hún lætur þetta gerast? Er hún of upptekin við að sannfæra Vinstri græna um ESB að hún er hætt að sjá tréð fyrir skóginum? Hrísluna sem stendur og nötrar og er íslenska þjóðin og fyrirtækin og heimilin í landinu.

ESB er vissulega mál sem þarf að leysa og aðildarviðræður eru nauðsynlegar - flestir sammála um það en...

Það VERÐUR að grípa inn í málefni heimila og fyrirtækja sem sitja uppi með lán sem hækka og hækka, fyrirtæki sem velta á hliðina eins og dómínó kubbar, atvinnuleysi í kjölfarið, aukið álag á félagslegt kerfi landsmanna og aðrar neikvæðar skammtíma og langtíma afleiðingar! Það sjá allir að þetta er dómínó leikur sem VERÐUR að stöðva og átti að stöðva fyrir mörgum mánuðum síðan með róttækum lausnum. Það þýðir ekki að grafa sig ofan í erfðabreyttar lífverur og úrgangsmál og halda að þessi mál leysist af sjálfu sér á meðan.

Nú þarf kjark, þor og dugnað á Alþingi okkar Íslendinga.

Ég er líka hundfúl yfir því að íslenska þjóðin hafi verið svikin um stjórnlagaþing - ráðgefandi stjórnlagaþing? Af hverju? Hvers vegna fær ekki þjóðin valdið til þess að ákvarða um mikilvægar breytingar á stjórnarskrá? Mér sýnist Alþingismenn vera of uppteknir við erfðabreyttar lífverur og úrgangsmál til þess að geta sinnt breytingum á stjórnarskrá. Enda hefur sagan sannað það að slíkar breytingar nást ekki í gegnum flokkana. Það er fullreynt.

Mikið ætla ég að vona að þetta sé þjófstart hjá þessari ríkisstjórn því annars er hún sokkin ofan í eigin úrgang á fyrsta degi og sér ekki þjóðina fyrir ESB skóginum!


mbl.is „Átti ekki að ræða eitthvað allt annað?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíminn og sandkornin

sandÉg fór í göngutúr áðan eins og ég geri svo oft á kvöldin. Á meðan ég gekk um götur Árósarborgar þá hugsaði ég um tímann. Um það hvernig tíminn er eins og fín sandkorn sem renna á milli fingra okkar. Hvert sandkorn felur í sér augnablik. Hvert augnablik sem við eigum og njótum. Þegar augnablikið er liðið er sandkornið fallið niður um tímaglasið og það kemur ekki aftur.

Frá því ég flutti hingað út hef ég upplifað ótal augnablik. Ég hef átt stundir með fólki sem ég hef kynnst hér sem virtust vara að eilífu. Ákveðin tímabil sem manni fannst óendanleg en svo skyndilega er allt breytt. Fólk flytur í burtu, börn boða komu sína í heiminn og stundin sem virtist svo óendanleg er orðin endanleg og ný tekin við.

Við megum aldrei gleyma því að hvert einasta sandkorn er þyngdar sinnar virði í gulli. Við vitum ekki hversu stóran sandpoka okkur var skammtaður og hvenær síðasta sandkornið okkar rennur niður í stundaglasið. Þetta er svolítið merkilegt því oft erum við á flótta undan tímanum, sandkornunum, augnablikunum. Okkur liggur svo mikið á að komast á næsta stað að við njótum ekki stundarinnar sem rennur hjá í makindum sínum. Við sjáum hana ekki, horfum bara beint fram eins og veðhlaupahestar, sprettum úr spori til að komast á næsta áfangastað og um leið þrykkjum við sandkorninu okkar niður tímaglasið. Þetta þekki ég alveg sorglega vel... Þessa dagana hef ég svolítið verið í því að ýta sandkornum niður stundaglasið því ákveðnu tímabili er að ljúka og ég vil ólm hefja hið næsta og gleymi því dásemd augnabliksins.

Góð vinkona mín kenndi mér að halda upp á hvert einasta afmæli sem maður á. Hver og einn getur haldið upp á afmælið með sínum hætti. Fyrir einn er það kannski ganga í skóginum en annan fjölmenn veisla. Ég tel það vera góða speki. Það er svo langt í frá sjálfsagt að afmælið manns komi ár eftir ár eftir ár. Við vitum aldrei hvenær kemur að því að við getum ekki fagnað því dýrmæta ári sem okkur var gefið með vinum og fjölskyldu. Við vitum ekki hvenær sandpokinn okkar er uppurinn. Það er ekki gott að gleyma að vera þakklátur fyrir það mikilvægasta í lífinu sem er lífið sjálft og hvert einasta augnablik, tíminn sem við fáum til umráða. Því ekkert er sjálfsagt, ekki einu sinni næsta klukkustund.

Með þessum hugleiðingum hvet ég þig ef þú upplifir stundir eins og ég þar sem þú ert á hlaupum í huganum á næsta áfangastað til þess að hægja á þér og muna eftir því að njóta hvers einasta sandkorns sem sveimar um í tímaglasinu þínu. Njóttu þess fram í ystu æsar því þetta er síðasta sandkornið af þessari sort sem þú átt. Fortíðin er farin, núið sveimar um en framtíðin er óráðin. Horfðu í kringum þig, lifðu í augnablikinu, það er hér nú en fer svo fljótt. Ekki taka neinu sem gefnum hlut og ekki festast í hlutum sem skipta engu máli þegar upp er staðið.

Hvert og eitt okkar er mesti áhrifavaldurinn í okkar lífi. Við ráðum okkar lífi, hvert við göngum, hvaða ákvarðanir við tökum, hvað við hugsum og þannig litum við sandkornin úr pokanum okkar með okkar eigin hætti.

Njóttu stundarinnar, augnabliksins og höndlaðu hvert sandkornið sem rennur í gegnum fingur þína sem fjársjóðinn þinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband