Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Töfra frambjóðendur

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Ég fagna því að nú kemur fram hver frambjóðandinn á fætur öðrum sem vill taka að sér það spennandi verkefni að leiða Framsókn inn í nýja tíma til heilla fyrir þjóðina.

Margir ákaflega hæfir frambjóðendur hafa boðið fram krafta sína og ljóst er að úr vöndu verður að velja.

Ég persónulega mun vega og meta hvern frambjóðanda af kostgæfni og spyrja sjálfa mig margra spurninga varðandi þann aðila, hvaða kostum hann býr yfir, hvaða galla hann hafi og hvað hann geti gert fyrir flokkinn okkar. Mun hann spyrja sig fyrst hvað hann geti gert fyrir flokkinn og þjóðina áður en hann spyr sig hvað hann geti gert fyrir sig og sína?

Ég verð að játa það að ég tel það ekki heillavænlegt þegar menn stíga fram sem hafa ekki verið að vinna í flokknum fyrst þegar um bitastæð hlutverk er að ræða. Ég vil leiðtoga sem eru til staðar bæði í blíðu og stríðu. Hvar voru sumir þessir frambjóðendur þegar flokkurinn þurfti á þeim að halda? Af hverju stíga þeir fram í dagsbirtuna núna? Þetta er svona eins og með makaval. Ég myndi frekar giftast manni sem hefur heillað mig hægt og bítandi og sýnt mér hvaða kostum hann býr yfir í blíðu og stríðu heldur en einhverjum sem mætti á svæðið hálfum mánuði fyrir brúðkaupið. Ég hvorki kýs eða giftist mönnum sem ég þekki ekki (ég kýs heldur ekki konur sem ég þekki ekki ;) ). Það er mín strategía. Það tel ég of mikla áhættu á báðum sviðum!

Varðandi flokkseigendafélög þá er gott að muna það að enginn á flokka sem láta ekki stjórna sér. Hvorki flokkseigendafélög, fyrirtæki eða einstaklingar! Ef flokkurinn er sannur sínum gildum og sinni grasrót getur enginn eignað sér hann. Það á enginn flokka sem eiga sig sjálfir... svo einfalt mál er það!

Það er eins með það verkefni sem stendur Framsókn fyrir dyrum og þeim verkefnum sem við öll stöndum frammi fyrir sem þjóð eins og ákvörðun með Evrópumálin. Það eru ekki til neinar töfralausnir. Það kemur enginn sem segir hókus pókus og allt er í lagi. Til þess að ná settum markmiðum mun þurfa að kosta til blóði, svita og tárum en með þeim dugnaði, elju og framsýni sem við búum yfir munum við ná á leiðarenda á endanum!

Ég hlakka til flokksþings og ég hlakka til ársins 2009 og ætla að líta á málin björtum augum. Hvoru tveggja verður stormasamt og erfitt en engu að síður leynast ótal tækifæri undir hverri einustu þúfu sem ég treysti okkur til að nýta rétt.

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og hafið það sem allra best um helgina.

2009 verður ár nýrra tækifæra fyrir Framsókn og þjóðina alla.


Óháðan aðila - takk!

Ég velti því fyrir mér við lestur þessarar fréttar hver í ósköpunum í okkar litla samfélagi gæti mögulega verið rétti aðilinn í slíkt embætti?

Hvers vegna er ekkert minnst á erlenda aðila sem eru algjörlega óháðir í þessu samhengi?

Við erum bara of lítið samfélag að mínu mati til þess að "innanbæjarmaður" geti skipað slíkt embætti.

Hvernig stendur á því að þessu ferli miðar svona hægt?

Hvernig stendur á því að ekki eru löngu komnir erlendir aðilar til að vinna fyrir íslenska þjóð að þessari rannsókn?

Hvernig stendur á því að enn er hjakkað í sama hjólfarinu, með sama regluverkið, sömu stjórnvöld, sama fólk í sömu stólum og sömu útrásarvíkingana í sínum hlutverkum?

Mun ekkert breytast við það að heil þjóð fari á hliðina?

Hvað þarf til?

Þjóðin mun ekki sofna yfir þessu, ég trúi því ekki! Til þess eru afleiðingarnar of áþreifanlegar á hverjum einasta degi í hverri fjölskyldu nánast.

Það VERÐUR að fá erlenda aðila í þjónustu þjóðarinnar til þess að rannsaka málin með okkur (stjórnvöld geta ekki séð um þetta því þau eru samsek í málinu).

Það VERÐUR að fara rækilega yfir allt regluverkið og endurvinna það með því hugarfari að fyrirbyggja að menn geti farið svona fram nokkurn tímann aftur.

Það VERÐUR að rétta yfir þeim sem brotið hafa af sér.

Til þess að þetta geti gerst þá VERÐUR nýtt fólk að koma til. Það gengur ekki að þeir sem báru pólitíska ábyrgð og voru fullir þátttakendur í þeim vinnubrögðum sem leitt hafa okkur í þennan dimma dal skuli sjá um eftirleikinn. Þeir hafa nú þegar haft 3 mánuði til þess að láta snjóa í förin eftir sig og geta endanlega gengið frá því ef engum óháðum aðilum er hleypt að.

Við getum ekki sem þjóð setið uppi með öll þessi mistök og horft upp á málamyndarannsóknir sem verða aldrei fullkomlega óháðar og stjórnað er af sömu leikendum og áður.

Við getum ekki horft upp á það að fyrirtæki sem verða gjaldþrota geti skipt bara um kennitölur og klippt sig þannig frá skuldunum sem verði skellt á þjóðarbúið og að athafnamenn sem lagt hafa óbærilegar byrðar á okkur geti haldið uppteknum hætti og styrkt enn frekar stöðu sína með kaupum á fjölmiðlum og fyrirtækjum á spott prís!

Við getum ekki horft upp á það að bankarnir skuli skella sínum áhættuskuldum á okkur þegar veislan er búin og við séum látin greiða ofurlaunin, lúxusinn, veislurnar og ruglið en aldrei hafi okkur verið boðið í partýið ekki einu sinni með því að lækka þjónustugjöld á þeim tíma sem allt var á fullri siglingu upp á við! Við eigum að þrífa upp eftir veislu sem okkur var ekki einu sinni boðið í og veitingarnar voru keyptar fyrir sparifé okkar!

Eru 50 milljónir nægt fjármagn í slíkt verkefni? Ég tel að þarna eigi ekki að spara því við skulum kosta því til sem þarf til þess að fá ALLT UPP Á BORÐIÐ og fá ráðgjöf um hvernig við getum byggt okkur upp á ný með nýtt kerfi, nýtt regluverk og nýtt fólk! Það er fljótt að skila sér aftur ef hægt er að endurheimta það fjármagn sem horfið hefur undanfarið eins og stórar fjárhæðir sem grunur leikur á að fluttar hafi verið í öruggt skjól erlendis sem eru með réttu þjóðarinnar! Ég óttast að ansi mikið af því fjármagni sem rænt hefur verið af þjóðinni sé komið erlendis. Sá auður sem t.d. var tekinn út úr kvótakerfinu leggst tvöfalt á þjóðina að mínu mati, fyrst sem rán til nokkurra aðila úr sameiginlegri auðlind okkar og svo sem skuld í bönkunum sem þjóðin mun þurfa að greiða. Á sama tíma njóta fáir aðilar þess að fjárfesta um hvippinn og hvappinn erlendis fyrir þessar upphæðir!

Þetta er svo ótrúlegt mál allt saman að það nær engri átt og maður skilur bara ekki hvernig mönnum dettur í hug að þetta geti bara haldið áfram sinn vanagang án nokkurrar ábyrgðar eða hreinsunar!

Ég á mér draum um nýtt og betra Ísland en ekki sama graut í sömu skál! Það er nú tímabært að taka bananahýðið af þessu bananalýðveldi hérna og byggja upp fyrirmyndar samfélag! Oft var það þörf en nú er það hrein nauðsyn.


mbl.is Umsóknarfrestur að renna út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnir og verkefni

Nú eru liðnir tæplega þrír mánuðir frá því að íslenska bankakerfið hrundi með gríðarlegum afleiðingum fyrir íslenskan almenning sem eru þó ekki enn komnar að fullu fram.

Það hlaut að koma að því að þessi gríðarlega þenslubóla í jafn litlu hagkerfi spryngi með hvelli. Hvellurinn kom flestum á óvart og er það merkilegt í ljósi þeirra ítrekuðu viðvarana sem búið var að hafa við í 18 mánuði. Það þarf þó að skoða mun lengra aftur til þess að finna uppruna þessarar bólu. Hana hefði mögulega mátt lægja án þessa hvells ef ráðamenn hefðu tekið varnaðarorð alvarlegar og brugðist skjótar við.

Það er svo margt merkilegt í þessu ferli, svo mörgum spurningum ósvarað að manni fallast hendur við að reyna að rýna í það. Hvenær fórum við út af sporinu og horfðum framhjá því að nokkrir aðilar væru að skuldsetja þjóðina langt um efni fram? Margir voru svo uppteknir að hreykja sér af afrekunum að þeim datt ekki til hugar að það gæti komið þjóðinni í koll að veðsetja sig tólffalt. "Það gerist ekki hjá okkur" var kannski hugsað. Þeir sem gagnrýna hagsældina hér eru bara öfundsjúkir! Hvenær var það sem regluverkið var samið svona gallað eða varð svona brenglað að hægt var að beygja það og teygja eins og hverjum sýndist. Hvenær var það sem þetta varð allt svo tengt að í sömu fjölskyldu sátu ráðherra í ríkisstjórn Íslands og stór huthafi í íslenskum banka? Hvenær urðu öll þessi krosstengsl og vensl til og færasti sérfræðingur myndi vart átta sig á því hvernig kerfið er spunnið eins og köngulóarvefur. Hvenær var það sem stjórnvöld misstu sjónar á raunverulegu lífi hins duglega Íslendings. Hvenær var það sem einn aðili gat orðið unnið sér inn árslaun annars á einum degi? Hvenær var það sem kerfið hrundi en þeir sem bera ábyrgð á því sitja sem fastast á turni píramídans sem hruninn er undir þeim? Svona má endalaust halda áfram...

Það er hins vegar spurning hversu mikið svona áleitnar spurningar hjálpa okkur? Vissulega þurfum við að rannsaka hvað gerðist ofan í kjölinn til þess að réttlæti nái fram að ganga og enn fremur til þess að við lærum af þessu og getum byggt upp betra kerfi. En hitt er annað mál að við þurfum að einbeita okkur að því að finna lausnir. Ef við finnum þær ekki þá sitjum við í sama pyttinum lengi enn. Það þarf að setja mesta kraftinn í það að finna leiðir til þess að endurreisa hér betra samfélag. Samfélag sem hefur lært og samfélag sem gerir ekki sömu arfavitlausu mistökin aftur. Þegar dómínó kubbarnir hafa allir fallið niður þá er ekki rétta leiðin að reisa þá alla við á sama stað því þá þarf lítið til að þeir hrynji allir aftur. Það þarf að taka alla kubbana stokka þá upp og raða þeim alveg upp á nýtt með því hugarfari að varast þá pytti sem settu þá af stað áður. Verkefnalistinn er langur...

  • Það þarf að rannsaka hvað gerðist
  • Það þarf að rétta yfir þeim sem hafa brotið af sér
  • Það þarf að gera upp fortíðina umbúðalaust og læra af henni
  • Það þarf að byggja nýtt og betra regluverk á því gamla og fyrirbyggja sömu mistökin
  • Það þarf að hreinsa út þau kerfi sem ekki virka og setja ný á fót
  • Ábyrgðarmenn kerfanna sem hrundu þurfa að víkja
  • Það þarf að leita lausna til þess að vinna á móti atvinnuleysi
  • Það þarf að styðja þá sem verst eru staddir
  • Það þarf að finna leiðir til þess að halda ungu fólki áfram í landinu
  • Það þarf að tryggja þeim sem eldri eru og hafa lagt grunninn þau kjör sem sá hópur á rétt á
  • Það þarf að nýta þá miklu auðlind sem mannauðurinn er
  • Og margt margt fleira...

Af þessari upptalningu sést að verkefnin eru ærin. Til þess að vinna þau þurfum við að standa saman og við þurfum leiðtoga sem hægt er að treysta til þess að leiða verkið. Það þarf að endurnýja umboð ráðamanna landsins en gera þarf það á þann hátt að nýtt fólk eigi þess kost að bjóða fram krafta sína í verkefnið.

Ég tel að strax hafi orðið breyting á íslensku samfélagi til hins betra. Fólk sýnir meiri samhygð og náungakærleik. Fólk er rólegra og tillitsamara og það er ekki lengur í tísku að lifa langt um efni fram og lifa ímynduðu lífi á VISA rað...

Fólk er farið að átta sig á því að það eru ekki umbúðirnar heldur innihaldið sem skiptir öllu máli og því ber að fagna.


mbl.is Laun ráðamanna lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óska öllum gleðilegrar hátíðar, ljóss og friðar

Jólamynd
 

Kæru vinir,

ég þakka samfylgdina hér á blogginu síðastliðið ár.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Hafið það sem allra best og farið vel með ykkur og óska ykkur góðra stunda í faðmi fjölskyldu og vina.

Varðveitið hvert andartak því það er það mikilvægasta þá stundina :)

Kær jólakveðja Kidda.


Hugleiðingar um samfylgd og samferðafólk

Þessa dagana brýst mikið um í kollinum á mér. Það er mikið um að vera á mörgum sviðum lífsins.

Ég velti fólki mikið fyrir mér. Fólkið í kringum mann hefur svo mikla merkingu. Það er svo merkilegt hvaða fólk maður hittir á vegferð sinni um lífið. Sumir eru svo einstakir að þeim verður ekki lýst með orðum einum saman. Sumir hafa svo mikið hlutverk í lífi manns að maður skilur varla hvernig maður hefði orðið ef maður hefði ekki kynnst því magnaða fólki sem maður hefur kynnst. Svo eru aðrir sem maður taldi að myndu gegna hlutverki í lífi manns en útkoman verður einhvern veginn allt önnur en sú sem maður hélt.

Öll eigum við okkar samferðatíma. Sumu fólki fylgir maður aðeins um skamma hríð. Aðrir verða ferðafélagar allt lífið í gegnum súrt og sætt. Sumir samferðamenn fylgja manni aðeins í tengslum við ákveðið verkefni eða ákveðið umhverfi eins og margir skólafélagar og vinnufélagar. Leiðir manns liggja svo á ólíklegustu vegu og stundum hittir maður einhvern sem maður þekkti áður er leiðir liggja saman á ný. Það er ekki óalgengt á jafn litlu landi og Íslandi. Ekki fær maður ráðið nema að hluta til hver fylgir manni. Sumt er hrein tilviljun, annað gæti maður séð sem örlög. Stundum liggja leiðirnar ekki saman á sama hátt og maður lagði upp með því lífið sjálft er svo merkilegt að það kemur manni á óvart á hverjum einasta degi. Stundum upplifir maður tóma gleði og stundum mikla sorg.

Þessa dagana er ég að horfast í augu við það að kveðja eina af mínum ástkærustu samferðakonum. Konu sem auðgaði líf mitt svo að ég verð aldrei söm. Yfir því er ég hrygg. Ég er ekki tilbúin að kveðja hana en hennar tími var ekki lengri en þetta. Ég hef upplifað það áður að þurfa að kveðja löngu áður en ég hefði kosið það.

Ég hugleiði því hversu miklu máli skiptir að gleyma því aldrei að lífið sjálft er ekki sjálfgefið og í amstri dagsins og hversdagsleika getur svo margt gleymst sem skiptir öllu máli á vegferðinni um lífið. Ég held að maður eigi að þakka á hverjum degi fyrir fólkið sem er manni samferða í gegnum lífið, fólkið sem auðgar líf manns svo mjög að það á hlut í manni. Því maður veit aldrei hvenær leiðir þurfa að skilja. Í þeim aðstæðum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu er mjög auðvelt að missa sjónar á því sem skiptir mestu máli því það er svo margt annað að hugsa um. Ég held að það sé gott að hugleiða öðru hvoru hvað maður myndi gera ef maður vissi að stutt væri eftir af vegferð manns sjálfs eða þeirra sem rölta um götu lífsins við hlið manns. Þá myndi maður meta hverja manneskju og hvert augnablik á nýjan hátt og maður myndi segja hlutina oftar sem maður getur ekki sagt þegar leiðir hafa skilið.

Á hverri mínútu og hverjum degi sköpum við okkar líf. Það gerir það enginn annar fyrir okkur. Stundum tökum við rangar ákvarðarnir og stundum réttar. Stundum er lífið dans á rósum en stundum er það þyrnum stráð. Stundum brosir maður allan hringinn en stundum grætur maður í hryggð sinni. Ég held að það sé gott að minna sig alltaf á grundvallaratriði lífsins og muna að njóta hverrar stundar eins og mögulegt er og njóta ferðarinnar. Einhvers staðar las ég að það væri ekki áfangastaðurinn heldur ferðin sjálf sem skipti mestu máli (It´s the journey not the destination). Það er nefnilega svo auðvelt að horfa á einhvern áfangastað í framtíðinni sem maður ætlar á og flýta sér svo mikið þangað að maður villist á leiðinni, kemst ekki á leiðarenda og nýtur ekki stundarinnar sem maður ferðast á.

Ég held það sé gott nú um hátíðina að hugsa um sjálfan sig, fjölskyldu sína, vini og alla aðra sem fylgja manni hér og nú. Þakka fyrir þá sem hafa fylgt manni áður og hlakka til samfylgdar við þá sem koma inn á leið manns í framtíðinni. Jólin snúast í mínum huga að miklu leyti um þetta þar sem ég legg ljós á leiði sumra sem ég sakna, sendi jólakveðjur og gef gjafir sem eru í mínum huga þakklætisvottur fyrir það að vera svo heppin að hafa kynnst mínu fólki og fyrir ómetanleg augnablik. Ég get aldrei gefið þá gjöf sem sýnir efnislega hversu mikið ég met mitt fólk, sú gjöf fer meira fram í faðmlagi og fallegum hugsunum til viðkomandi. Þar sem jólin eru svona tilfinningaríkur tími þá er líka ákaflega erfitt að kveðja fólk á þeim tíma en hins vegar er birta jólanna einmitt sá tími sem örlögin kalla suma sína allra bestu engla á ný í ljósið.

Farið vel með ykkur.


Jólin eru dýrmætur tími

Senn líður að jólum og upphafi nýs árs. Jólin eru dýrmætur tími þar sem fjölskyldur eiga góða stund saman, vinir hittast og flestir fá tækifæri til hvíldar og endurnæringar.Það er gott að leiða hugann að því áður en jólin koma hvernig maður fái sem mest út úr jólahátíðinni.

Hvaða fólk hefur fylgt manni og verið manni dýrmætt þetta ár og hvernig vil ég gleðja það og sýna því þakklæti? Hvaða fólk vil ég hitta um jólin og hvernig ætla ég að verja tíma mínum? Hvað er það sem er mér dýrmætast? Vil ég búa til snjóhús með barninu mínu og hafa ómældan tíma til þess? Vil ég fara í göngutúr með fjölskyldunni? Vil ég liggja í dekurbaði tímunum saman? Vil ég sitja við kertaljós og lesa góða bók eða spila með félögunum?

Allt er þetta ákaflega persónubundið og gott að leiða hugann að þessu áður en jólin koma því annars er hætt við því að jólin séu farin áður en maður veit af og tíminn hafi farið í hluti sem skipta mann minna máli.

Hver einustu jól eru einstök. Á hverjum jólum verða til nýjar minningar sem verða geymdar um ókomin ár. Á hverju augnabliki höfum við tækifæri til þess að njóta jólanna og vera góð við hvert annað. Það getur skipt meira máli að sækja teppi til þess að vefja ástvin sinn inn í þegar honum er kalt en gefa honum rándýra gjöf. Falleg hugsun skákar ætíð efnislegum hlut. Það er ekki hægt að kaupa góðsemi, ást og vináttu en hana er hægt að sýna og hana eigum við öll innra með okkur í ómældu magni. Það er orka sem við getum virkjað á hverju einasta augnabliki ef við stýrum huga okkar rétt. Þannig sköpum við okkur einstök jól og búum til dýrmætar minningar.

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár! 

Höfundur er nemi.

(pistull birtur í dag í Mosfellsfréttum www.mosfellsfrettir.is)


Sælla er að gefa en þiggja

Á mánudagskvöldið tók ég ásamt nokkrum félögum úr SUF og tveimur þingmönnum flokksins þátt í því að undirbúa jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar. Þetta var gefandi og skemmtilegt starf í góðum hópi. Ásamt okkur voru þarna samankomnir fleiri fulltrúar ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna.

Mæðrastyrksnefnd var stofnuð hinn 20. apríl 1928 í kjölfar hörmulegs sjóslyss þegar togarinn Jón forseti strandaði og 15 manns drukknuðu. Nefndin var stofnuð með því markmiði að koma ekkjum og föðurlausum börnum til hjálpar í kjölfar þessa voveiflega atburðar. Árið 1939 var nefndin endurskipulögð og gerð að sjálfstæðri stofnun. Mæðrastyrksnefnd er samstarfsverkefni 8 kvenfélaga og er formaður hennar Ragnhildur G. Guðmundsdóttir og varaformaður Guðlaug Jónína Aðalsteinsdóttir. Mæðrastyrksnefnd leikur stórt hlutverk allan ársins hring í því að koma þeim sem minnst hafa í íslensku samfélagi til stuðnings í hverri viku og nýtur hún stuðnings fyrirtækja og einkaaðila. Úthlutun fer fram á hverjum miðvikudegi frá kl. 14-17. Mæðrastyrksnefnd er til húsa að Hátúni 12b og fer úthlutun þar fram. Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni: http://www.maedur.is/

Sérstök jólaúthlutun er í samstarfi Mæðrastyrksnefndar, Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins. Við jólaúthlutunina fær fólk ekki aðeins mat til hátíðanna heldur einnig gjafir, svo sem leikföng og fleira til að gleðja börnin. Gjafirnar koma að stórum hluta frá fyrirtækjum en einnig frá einstaklingum sem hafa sett þær undir jólatré í verslunarmiðstöðvum. Jólaúthlutunin byrjar 15. desember en þá verður hafist handa við að senda varning til fólks á landsbyggðinni. Fólk á höfuðborgarsvæðinu sækir jólaglaðninginn hins vegar í Borgartún 25, á þeim tíma sem tilgreindur hefur verið í umsókn.

Fulltrúar Mæðrastyrksnefndar sögðu okkur frá því að það væri talsvert betri þátttaka sjálfboðaliða í þessu mikilvæga starfi nú en oft áður. Von er til þess að jólapokarnir verði myndarlegir í ár þar sem fyrirtæki og einstaklingar hafa verið duglegir að leggja sitt af mörkum. Það veit á gott. Það gefur til kynna að fólk sýni í framkvæmd þá stefnubreytingu sem er að verða á samfélaginu og að til þess að standa við bakið á þeim sem verst hafa það geta margar hendur lagt sitt að mörkum. Þannig verður starfið allt auðveldara.

Einhvers staðar er sagt að sælla sé að gefa en þiggja. Að mínu viti er sá boðskapur grundvallaratriði í lífi hvers manns. Stærsta gjöfin sem maður gefur sjálfum sér er að hjálpa öðrum. Kjörorð þetta hefur sjaldan átt eins vel við og um þessar mundir.

Njótið þess um hátíðina og á nýju ári að gefa af ykkur á hverjum degi. Gjafirnar geta verið af öllum stærðum og gerðum hvort sem um ræðir bros til náungans, faðmlag, klapp á bakið, hrós, vinnuframlag, eða efnisleg gjöf. Allir eiga af hlaðborði mögulegra gjafa að velja og auðvelt er að finna gjöf sem hentar hverjum og einum við mismunandi tilefni.

Gleðilega hátíð og farsælt komandi ár. Megir þú njóta ljóss og friðar um jólin á nýju ári.

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is).


Siv býður sig fram

Nú eru línur óðum að skýrast varðandi framboð fyrir komandi flokksþing okkar framsóknarmanna.

Nú þegar eru komnir nokkrir mjög hæfir frambjóðendur og Siv bættist í hópinn í dag. Enn gæti átt eftir að bætast í hópinn. Einnig hefur Sæunn Stefánsdóttir ritari flokksins gefið það út að hún hafi hug á því að sækjast eftir endurkjöri í sitt embætti.

Það er ljóst að úr vöndu verður að velja þegar kemur að flokksþingi og vanda þarf vel val sitt á því fólki sem maður vill sjá leiða flokkinn sinn áfram til nýs sigurs.

Flokksþing það sem haldið verður í janúar verður afgerandi áhrifavaldur fyrir okkur framsóknarmenn og leggur línurnar fyrir það hvert við stefnum á komandi árum.

Það sem ég tel mikilvægast er að ný forysta vinni að góðum og lýðræðislegum vinnubrögðum innan flokksins, leiði framsækna stefnu sem ber hag landsmanna allra fyrst og fremst fyrir brjósti og er í góðum tengslum, takti og endurspeglar það bakland sem flokksmenn eru.

Ég óska Siv Friðleifsdóttur til hamingju með framboðið til varaformanns og Sæunni Stefánsdóttur með það að sækjast eftir endurkjöri.


mbl.is Siv býður sig fram til embættis varaformanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framboð af fólki

Það verður spennandi að sitja flokksþing Framsóknar í janúar og kjósa okkur nýja forystu.

Strax eru menn farnir að stíga fram og bjóða krafta sína. Sitt sýnist hverjum og hver og einn þarf að gera upp við sig hverjum hann treysti best flokknum til heilla og til að leiða það mikla starf sem framundan er.

Framsókn er að stíga skref í átt til framtíðar þessa dagana og það er mikill kraftur og gaman að taka þátt í starfinu.

Það er gott að hafa nóg úrval um frambjóðendur.

Megi sá hæfasti verða valinn í heiðarlegu kjöri.

Ég óska Páli Magnússyni til hamingju með framboðið.


mbl.is Páll býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungt og efnilegt fólk í Framsókn

Framsókn á yfir að skipa hópi öflugs, áhugasams, ungs og efnilegs fólks um þessar mundir.

Fólki sem er tilbúið að læra af fortíðinni, lifa í núinu en horfa fram á veginn.

Það er virkilega gaman að starfa í Framsókn um þessar mundir og mjög spennandi tímar framundan.

Sumir sem dæma flokkinn með ókvæðisorðum ættu að líta í kaffi til okkar og kynnast okkur aðeins betur Wink.

En það er líka alvörutónn í þessu.

Það er mjög mikilvægt fyrir íslensk stjórnmál að ungt fólk taki virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er og gæti hagsmuna þessa hóps sem er að koma undir sig fótunum, ber þungar byrðar og er að ala upp framtíð landsins.

Alþingi þyrfti að vera miklu meiri þverskurður af samfélaginu: Ungt og eldra fólk, konur og karlar, fatlað og ófatlað fólk, fólk af öðrum uppruna, úr öllum atvinnu- og menntastéttum og svona má lengi telja! Það er ekki heillavænlegt að Alþingi sé einsleitt skipað karlmönnum á sextugsaldri...

Framsókn er sá flokkur sem sýnir endurnýjun á skýrastan hátt og spennandi að sjá hvað hinir flokkarnir gera í þeim efnum... held að margir munu ríghalda í stólfótinn!

Framsókn býður upp á ungt og efnilegt fólk. Höskuldur Þórhallsson er einn þeirra.

Til hamingju með framboðið Höskuldur.


mbl.is Höskuldur býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband