Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 5. desember 2008
Til hamingju með starfið :)
Til hamingju með starfið Einar Skúlason.
Við framsóknarfólk væntum mikils af starfskröftum þínum og það verður gaman að eiga samstarf við þig.
Heillaóskir.
Nýr skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 5. desember 2008
Aðventan og jólaandinn
Aðventan og jólaandinn
Síðasta sunnudag kveiktum við á spádómskertinu á aðventukransinum og þann næsta verður Betlehemskertið tendrað. Aðventan einkennist af undirbúningi jólahátíðarinnar og oft ríkir spenningur hjá ungum sem öldnum. Jólin og aðventan eru ákaflega sérstakur tími í mínum huga. Jólaljósin lýsa upp skammdegið og kveikja nýja von. Allt fær á sig hátíðlegan blæ. Hversdagsleikinn víkur fyrir bjartari, hlýrri og kærleiksríkari tímum. Á sama tíma gerir maður upp árið sem senn rennur sitt skeið og horfir fram á veginn mót nýju ári og nýjum tækifærum.
Aðventan getur líka einkennst af streitu og óhófi. Fólk ætlar að gera allt á stuttum tíma. Það þarf að þrífa allt hátt og lágt, kaupa jólagjafir, skrifa jólakort, baka smákökur, kaupa jólaföt, fara á jólahlaðborð, fara í jólaklippingu og snyrtingu, fara í ræktina til þess að komast í jólakjólinn og svona má lengi telja. Á þessum tíma er þar að auki aukið álag í starfi hjá mörgum. Sú hætta getur skapast að fólk keyri sig út og njóti ekki aðventunnar eða jólahátíðarinnar. Maður er stundum svo upptekinn að eltast við það stóra að maður gleymir hinu smáa en kannski er það smáa einmitt það sem skiptir mestu máli. Það er ekki til mikils að vinna að hafa allt spegilgljáandi, líta stórglæsilega út í nýja jólakjólnum og gefa flottustu gjafirnar ef maður sofnar svo ofan í humarsúpuna!
Undanfarið haust hefur verið okkur Íslendingum erfitt. Gríðarlegir erfiðleikar hafa verið í samfélaginu í kjölfar hruns efnahagskerfisins. Það hefur svo leitt af sér aukið atvinnleysi, ótryggt ástand, kjaraskerðingu og aðra erfiðleika eins og kunnugt er. Andrúmsloftið er blandið ótta, óvissu, reiði og öðrum neikvæðum tilfinningum. Það er mjög eðlilegt í þessu ástandi. Þessi grein er skrifuð til þess að hvetja fólk sérstaklega til þess að draga fram björtu hliðarnar, jákvæðnina og finna hinn sanna jólaanda á aðventunni. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli þegar upp er staðið? Fólkið og jólaandinn er það sem skiptir mestu máli að mínu mati. Fólkið sem maður nýtur hátíðarinnar með, fólkið sem maður gefur gjafir, fólkið sem maður sendir jólakort og fólkið sem maður vottar virðingu sína með því að setja ljós á leiði þess.
Það er mikilvægt að vera til staðar fyrir hvert annað og sýna kærleika og hlýju. Bæði gagnvart sínum nánustu en einnig gagnvart ókunnugum. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir börnin. Þau hafa þörf fyrir það að njóta aðventunnar og hlakka til jólanna án þess að það sé í skugga áhyggna og ótta. Samveran og hinn sanni jólaandi er það dýrmætasta. Jólaandinn gerir ekki greinarmun á því hvort allir skápar hafi verið teknir í gegn, gjafirnar séu óhóflega stórar eða hvort maður hafi komist í jólakjólinn. Hinn sanni jólaandi er ekkert af þessu. Hann fæst ekki keyptur, hvorki fyrir krónu eða evru og ekki er hægt að þvinga hann fram í gljáfægðri stássstofunni. Nei, jólaandinn kemur innan frá. Jólaandinn er brosið, faðmlagið, augnatillitið, bjarminn, hlýjan, gleðin, þakklætið, nýfallinn glitrandi snjórinn og annað sem einkennir jólaanda hvers og eins. Með aðventukertunum getur allir tendrað sína framtíðarsýn og von.
Ég vona að þú lesandi góður eigir góða aðventu og jólahátíð sem einkennist af hinum sanna jólaanda og að þú skapir góðar minningar með þér og þínum.
Gleðilega hátíð,
Höfundur er nemi og í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar.
(grein birt í Mosfellingi í dag www.mosfellingur.is)
Búist við áframhaldandi styrkingu krónunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Gleði í skammdeginu og kreppunni :)
Fékk þetta sent frá minni ástkæru systur svona í próflesturinn!
Þetta kom mér til að brosa og dansa ;)
Njótið vel og hugsið um okkur Íslendinga í leiðinni!
We´re still standing!
Yes we can!
Fleyting gekk framar vonum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Framsókn svarar kalli almennings
Það er ljóst að Framsókn er sá flokkur sem svarar kalli almennings um endurnýjun innan raða stjórnmálanna framar öðrum flokkum.
Ekki ber mikið á hreyfingu stórra pósta í hinum flokkunum.
Þetta er skynsöm ákvörðun hjá Valgerði Sverrisdóttur því þó hún hafi margt gott fram að færa þá kallar almenningur eftir endurnýjun og því kalli bregst hún við.
Það verður spennandi að sjá hverjir munu bjóða fram krafta sína til þess að leiða flokkinn inn í nýja tíma.
Stjórnmál heimsins munu breytast á komandi misserum meðal annars með nýjum forseta Bandaríkjanna og stjórnmálin á Íslandi munu breytast mikið einnig og meðal annars Framsókn. Við lærum af fortíðinni lifum í nútíðinni og horfum til framtíðar.
Ný Framsókn er að fæðast og grasrótin öflugri sem aldrei fyrr sem mun leggja sérstaka áherslu á samvinnuhugsjónina og vinna góð störf í þágu íslensku þjóðarinnar eins og hún hefur gert síðastliðin 90 ár. Eftir áföll undanfarinna mánaða verður krafa um aukið gagnsæi, skýrt regluverk og kjörna fulltrúa sem starfa fyrir opnum tjöldum í samráði við þjóð sína.
Það er þörf á breytingum. Það er til dæmis mjög sérstakt að ráðherra bankamála skuli ekki hafa hitt Seðlabankastjóra í heilt ár!!! Ég hefði fyrirfram talið að þeir funduðu amk. mánaðarlega til að taka stöðu mála. Geta má þess að Björgvin hefur þó staðið sig vel í öðrum málefnum og tók til dæmis upp stöðu Tíbeta á fundi með kínverskum stjórnvöldum í vor og það virði ég við hann. Það þarf kjark til þess en er ákaflega mikilvægt.
Ég hvet fólk til þess að flykkjast inn í flokkana og láta ljós sitt skína og hafa þannig bein áhrif á uppbyggingu framtíðarinnar. Ég tel ekki þörf á nýjum flokkum heldur er frekar spurning um að efla þá sem fyrir eru og flestir ættu að geta fundið eitthvað sem hentar sér á litrófi íslenskra stjórnmála. Sérframboð myndu að mínu mati frekar auka líkur á að sá flokkur sem ber höfuðábyrgð á efnahagsstefnunni festist í sessi enn um sinn. 17 ár hljóta að vera nóg. Tímabært að senda þann flokk í frí amk. á meðan hann býður ekki upp á eitthvað nýtt (hvort sem það er Davíð eða Geir).
En í lokin:
JÁ VIÐ GETUM! - YES WE CAN!
Formaður fram að flokksþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. desember 2008
Verkstæði jólasveinsins
Jólamarkaður Ásgarðs 2008 | |
Laugardaginn 6. desember frá 12:00 til 17:00 mun Handverkstæðið Ásgarður vera með sinn árlega jólamarkað í húsnæði sínu að Álafossvegi 24 í Mosfellsbæ. Allar leikfangalínur Ásgarðs verða til sýnis og sölu, einnig verða kaffi / súkkulaði og kökur til sölu gegn vægu gjaldi. Góðir gestir líta í heimsókn til okkar og að þessu sinni mun harmonikkuleikarinn Hjálmar Pálsson skemmta gestum með nokkrum lögum Garðar Jökulsson listmálari hefur málað fallega mynd sem hann gaf Ásgarði og verður hún til sölu, en þeir sem vilja eignast myndina geta lagt inn tilboð í myndina á meðan jólamarkaðurinn stendur. Við í Ásgarði vonumst til að sem flestir sjáið sér fært að koma og kynnast persónunum á bak við okkar fallegu leikföng og samtímis gæða sér á ljúffengum kökum og súkkulaði með rjóma. Látið sjá ykkur. Jólakveðja frá starfsmönnum Ásgarðs |
Ég hef nokkrum sinnum hreinlega misst mig á þessum markaði því það er svo mikið af glæsilegum sérsmíðuðum og fallegum hlutum á þessum jólamarkaði. Þetta er framúrskarandi vinnustaður með framúrskarandi starfsfólki . Stemmingin er eins og maður sé að versla á verkstæði jólasveinsins. Það bara gerist ekki jólalegra en þetta, mögnuð stemming. Ég mæli samt með því að mæta snemma því oft verður uppselt í lok dags!
Bestu kveðjur frá mér til allra í Ásgarði... vildi ég gæti litið við í ár en kem bókað næsta ár!
Frekari upplýsingar má nálgast hér: http://www.asgardur.is/index.php
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 2. desember 2008
Til hamingju Íslendingar!
Segðu mér eitt litla vinkona, getur verið að það sé rétt munað hjá mér að Ísland hafi einu sinni heyrt undir Danmörku"? Þessa spurningu fékk ég margsinnis í sumar frá einni gömlu konunni sem ég var að aðstoða í öldrunarþjónustunni hér í Árósum. Langtímaminnið var í góðu lagi hjá vinkonu minni þrátt fyrir að skammtímaminnið væri farið að gefa sig sem gerði það að verkum að þessi spurning kom upp í hvert sinn sem minnst var á það að ég væri Íslendingur og kæmi frá Íslandi. En þetta sýnir hversu ungt lýðveldið Ísland er því vinkona mín mundi mætavel þá tíma sem Ísland tilheyrði Danmörku fyrir röskum 64 árum síðan. Segja má í glettni að lýðveldið Ísland sé að komast á eftirlaun.
Ísland átti 90 ára fullveldisafmæli í gær. Þann 1. desember 1918 tóku Sambandslögin gildi og Ísland varð fullvalda ríki og sjálfstætt að mestu þó það væri enn undir danska kónginum sem sá um utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir hönd Íslands. Þessi dagur hefur jafnan verið talinn mikill hátíðisdagur enda markaði hann mikil tímamót fyrir þjóðina eftir langa baráttu fyrir fullveldi. Í daganna rás hefur gildi hans gleymst og ekki hefur sérstaklega verið lagt upp úr því að halda hann hátíðlegan. Flestir halda þó 17. júní hátíðlegan og fagna stofnun lýðveldisins Íslands þar sem smiðshöggið var rekið á sjálfstæðið og endanlegan skilnað við Dani.
Fyrir 90 árum síðan var fullveldinu fagnað í skugga mikilla erfiðleika. Frostaveturinn mikli 1917-1918 var erfiður og einnig áttu sér stað náttúruhamfarir og pestir með Kötlugosi og spönsku veikinni. Núna 90 árum síðar er fullveldinu fagnað enn á ný í skugga erfiðleika. Í þetta sinn eru það hamfarir í efnahagslífinu og einstaklings- og gróðapestin sem skyggja á gleðina. Þá horfðum við fram á skref til sjálfstæðis en nú er veruleg hætta á því að við séum að horfa fram á skref tilbaka með þungum skuldabyrðum og tilheyrandi missi á efnahagslegu sjálfstæði.
Verkefni okkar næstu ár er að finna leið til þess að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði okkar og styrkja lýðveldið Ísland. Það er tímabært að endurskoða stjórnarkerfið í heild sinni og það regluverk sem það starfar eftir. Sú styrka beinagrind sem halda á uppi lýðræðinu er farin að kalka og brotna og sýkingar í henni grassera. Tryggja þarf þrískiptingu ríkisvaldsins. Það þarf að rannsaka rækilega hvar regluverkið hefur brugðist og hvar menn hafa komist upp með glæpi gegn íslenskum almenningi. Bregðast þarf við slíku með viðeigandi refsingum. Einnig þarf að endurhanna það ónýta regluverk sem unnið var eftir og tryggja að leikurinn endurtaki sig ekki. Setja þarf skýrar reglur í stjórnsýslunni. Meðal annars eiga pólitískar stöðuveitingar ekki rétt á sér heldur á að skipa faglega í embættin að loknu gagnsæju ráðningarferli sem byggir á hæfismati eins og skipun í hvert annað starf. Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar þurfa einnig að upplýsa um og opinbera efnahagsleg tengsl sín og maka sinna til að almenningur geti treyst því að ákvarðanir þeirra séu teknar af heilindum. Þingmenn Framsóknar hafa reyndar bent á þetta og óskað eftir að samdar verði slíkar reglur og hvatt stjórnmálamenn til að gefa slík tengsl upp. Útbúa þarf refsiramma við lög landsins. Það er til dæmis merkilegt að stjórnvöld sjálf hafa gert sig seka um það í áraraðir að fara ekki eftir eigin lögum um málefni fatlaðra. Það er ekki gott fordæmi og lög eiga að vera lög en ekki falleg orð á blaði þegar það hentar! Til dæmis mætti beita dagsektum á ríkið sem rynni í sjóð fyrir viðeigandi málaflokk.
Margir hafa talað fyrir því að eina lausn okkar í núverandi ástandi sé tafarlaus innganga í Evrópusambandið. Það vekur athygli mína að fyrir nokkrum mánuðum síðan virtust flestir samhljóma um það að ekki væri tímabært að fara inn í ESB á meðan efnahagur okkar væri í ójafnvægi og fyrst þyrfti að ná jafnvægi á honum áður en innganga væri raunhæfur möguleiki. Hafa menn gleymt þessu? Að stökkva inn í ESB og líta á það sem töfralausn er ekki heillavænlegt að mínu viti. Það er mögulegt að það sé hluti af lausn vandans að stefna að inngöngu í ESB en slíkt er ekki hægt að ákveða fyrr en þjóðin hefur verið spurð og kannað hvað sé á borði frekar en í orði í aðildarviðræðum. Það áfall sem við höfum orðið fyrir hlýtur að fresta upptöku annars gjaldmiðils frekar en hitt, eða hvað?
Á meðan þyrfti að einhenda sér í það að leita allra leiða til þess að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði okkar. Ein leið til að vinna að því markmiði gæti verið sú að hlúa sérstaklega að útflutnings- og samkeppnisgreinum okkar innanlands. Hlúa þarf að frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum. Íslenskt hugvit má gjarnan virkja í hverjum kjálka landsins. Það mætti einnig kanna hvort möguleiki sé á því að fullvinna afurðir í meira mæli á landinu og flytja vöruna svo fullunna út og selja í stað þess að flytja óunnið hráefni út t.d. í fisk- og áliðnaði. Við þurfum að skapa sem mest verðmæti á meðan innflutningur er sem minnstur vegna lágs gengis. Það þarf einnig að tryggja að erlent fjármagn sé ekki í landinu eins og verið hefur með tilheyrandi fölsku gengi og gervilífskjörum.
Með því að beina sjónum sérstaklega að atvinnumálum okkar og verðmætasköpun ætti að vera hægt að draga verulega úr atvinnuleysi sem leggur þungar byrðar á samfélagið allt og gæti eyðilagt innviði þess.
Stóra málið á fullveldisafmælinu okkar er því að finna þær leiðir sem færar eru til þess að vinna að uppbyggingu innan frá í stað þess að horfa einungis á utanaðkomandi lausn. Innganga í ESB er ekki tímabær að mínu mati því næg verkefni eru fyrirliggjandi við að koma efnahag landsins á réttan kjöl. Til lengri tíma litið gæti Evrópusamstarf verið til hins góða með tilliti til öryggismála og samstarfs. Ganga þarf hægt um gleðinnar dyr því ekki má slíkt kosta okkur þá sérstöðu og auðlindir sem við eigum og ættu að geta tryggt okkur framúrskarandi lífskjör í framtíðinni ef vel er staðið að verki.
Ég vona að ég muni ekki spyrja unga stúlku sem gömul kona hvort það sé rétt munað hjá mér að Ísland hafi einu sinni verið sjálfstætt og hvort það sé rétt munað að mér hafi fundist það vera besta land í heimi.
Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.
(pistill birtur á www.suf.is í dag).
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Blogghlé
Jæja kæru vinir,
ég ætla að taka mér smá blogghlé.
Farið vel með ykkur og ykkar fólk, brosið til hvers annars, knúsið hvert annað og tendrið ykkar framtíðarsýn með aðventukertunum.
Bestu kveðjur,
Kidda.
Við kveikjum einu kerti á.
Hans koma nálgast fer
sem fyrstu jól í jötu lá
og Jesúbarnið er.
Við kveikjum tveimur kertum á
og komu bíðum hans,
því Drottinn sjálfur soninn þá
mun senda í líking manns.
Við kveikjum þremur kertum á,
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólum kysi sér.
Við kveikjum fjórum kertum á.
Brátt kemur gesturinn,
og allar þjóðir þurfa að sjá,
að það er frelsarinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Íslenska byltingin! Frelsi-jafnrétti-bræðralag
Ég fylgdist í allan gærdag með þeim atburðum sem áttu sér stað á Íslandi. Fyrst með þinginu og svo með borgarafundinum.
Ég sveiflaðist á milli ólíkra tilfinninga við það að fylgjast með þessu öllu. Mér þótti reyndar leikurinn á stundum ansi ójafn þar sem stjórnarliðum var stillt hreinlega upp við vegg af hlutdrægum fundarstjóra. Hins vegar má segja að þjóðin eigi þetta inni hjá þeim sem hafa hingað til getað falið sig frá almenningi með ýmsum ráðum. Ég vil nú hrósa þeim sem mættu á sviðið. Það hefur ekki verið auðvelt og sýnir að enn er eitthvað þor og vilji eftir í þessu fólki.
Á þessum fundi var vilji fundarmanna mjög skýr. Fólk vill róttækar breytingar sem jaðra nánast við íslenska byltingu. Það vill að mínu mati að nánast öll stjórnvöld og embætti verði stokkuð upp, rannsakað verði ofan í kjölinn hvað gerðist og menn sóttir til saka eftir því og svo verði spilin gefin upp á nýtt eftir nýjum og skýrum leikreglum.
Ég er sammála fólkinu. Það er með ólíkindum hvernig hefur vaxið upp á Íslandi ríkismannastétt á methraða. Hún hefur vaxið upp að stórum hluta á kostnað fólksins. Hún hefur tekið sér auð sem hún á ekkert í. Auð sem þjóðin á. Þessi stétt heldur jafnvel enn áfram og tekur sér að láni fjármagn sem mun eins og annað lenda á íslensku þjóðinni að borga til þess að versla sér eitt og annað nytsamlegt eins og til dæmis fjölmiðla til þess að geta stýrt umræðunni sér í hag.
Íslendingar hafa fallið í sama pytt og dýrin í Animal Farm George Orwell gerðu. Þeir komu sér undan valdi Dana og urðu sjálfstæðir eins og dýrin komu sér undan valdi bóndans. Það leiddi hins vegar til þess að svínin þeas. sum dýrin skipuðu sig aðeins betri en hin dýrin. Þetta minnir mig nú alltaf á einkaþotuflug... afsakið!
Í svona litlu þjóðfélagi eins og Íslandi á slíkt að vera óþarfi því við eigum öll að geta haft það gott. Það þarf enginn að reyna að kaupa allan heiminn. Fólk þarf að temja sér hógværð, nægjusemi og samvinnuandann. Við ættum vegna sérstöðu okkar að geta byggt upp algjört fyrirmyndarþjóðfélag þar sem við erum frjáls bæði undan Dönum og sjálfskipuðum kóngum Íslands.
Við eigum að geta viðhaft jafnrétti þar sem fólk á raunverulega jöfn tækifæri til þess að blómstra óháð búsetu, kyni, efnahag, fötlun, trú, kynþætti, uppruna eða öðru. Við eigum að mynda bræðralag. Bræðralag um að vera Íslendingar og bræðralag um að vinna saman að því sem við getum ekki gert ein hver í sínu horni. Það á til dæmis við um að halda uppi öflugu menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi. Við þurfum að tryggja hvert annað og góða afkomu heildarinnar en ekki góða afkomu útvaldra eins og gert hefur verið.
Við eigum að byggja upp samvinnufélög sem snúast ekki um að mergsjúga hvert annað í gróða heldur snúast um sameiginlegan hag okkar allra. Enginn er eyland. Við eigum að vinna saman að því að standa vörð um grundvallargildin í okkar þjóðfélagi. Réttarríkið og siðferðilega mannlega breytni.
Ég er ánægð með það að í þessum erfiðleikum þá er þjóðin að vakna og kynnast á nýjan leik. Svolítið eins og hjón sem voru farin að taka hvoru öðru sem óbreytanlegu húsgagni. Það samband sem við áttum við hvert annað var orðið sjálfsagt. Fólk var svo upptekið af því að vinna og taka þátt í efnishyggjuhlaupinu og aðrir að berjast í bökkum að það náði ekki að horfa fram á veginn eða til þess sem var að gerast undir fögru yfirborði stjórnvalda. Núna hafa þessi nýástföngnu hjón áttað sig á mikilvægi hvors annars og mikilvægi samstöðunnar. Það verður því vonandi gleðilegur endir á harmsögu okkar eins og í bíómyndunum þar sem fólk sér hvert annað í nýju ljósi í kjölfar hamfara.
Gleðin snýst um það að þegar rykið er sest verðum við frjálsari, jafnari og samhentari. Við munum hins vegar þurfa að gjalda þetta frelsi dýrum dómi. En við förum ekki tómhent úr þessu þó við munum bera byrðar. Við förum með hendur fullar af reynslu, samvinnu og höfum leyst úr viðjum orku sem við vissum ekki að við ættum til. Við erum kjörkuð og dugleg og við erum þjóð sem getum unnið okkur sjálf út úr þessu með handafli. Það getum við ef við stöndum saman. Við eigum hvunndagshetjur á hverju horni eins og þær sem töluðu í gær (t.d. Margréti Pétursdóttur). Fólk sem ekki hefur verið í Kastljósi fjölmiðla á hverju kvöldi en býr yfir mikilli getu og töfrum. Við eigum nægan efnivið til þess að baka hið nýja Ísland.
Áfram Ísland fyrir Íslendinga :).
Þetta verður víst síðasti pistillinn í bili.
Tæp 70% vilja flýta kosningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Fyrstur fram
Birkir Jón er fyrstur til þess að lýsa því yfir opinberlega að hann bjóði sig fram til forystu í flokknum okkar. Hann er metnaðarfullur og reyndur ungur þingmaður. Ég óska Birki til hamingju með framboðið.
Framsóknarflokkurinn býr yfir gríðarlega öflugri grasrót og sterkum og hæfum einstaklingum sem hafa mikið fram að færa fyrir íslenska þjóð.
Það verður spennandi að sjá á næstu dögum og vikum hverjir munu stíga fram og bjóða sig til þess að leiða okkur flokksmenn í gegnum þá áhrifaríku umbrotatíma sem framundan eru. Það eru gríðarstór verkefni á borðinu sem þarf að vinna markvisst, fumlaust og heiðarlega fyrir þjóðina og í fullu samráði og samkomulagi við hana.
Ég tel forystu stjórnmálaflokka sem og forystu stjórnvalda almennt eiga að skipa breiðfylkingu fólks þeas. fólks sem er ólíkt og starfar sem fulltrúar breiðs hóps. Sterkt er kallað eftir forystu unga fólksins. Það er mjög eðlilegt að mínu mati:
- Rödd unga fólksins hefur ekki heyrst nægilega skýrt í stjórnmálum
- Unga fólkið er fólkið sem mun taka stóran hluta þeirra byrða sem nú leggjast á þjóðina á sig
- Í unga fólkinu býr kraftur og oft ný sýn á málin
- Ungt fólk á Íslandi er upp til hópa mjög vel menntað, framsækið og hæft til sinna starfa
Hins vegar má ekki stóla eingöngu á unga fólkið. Blanda hins besta er heillavænlegust. Svona eins og gert er við brúðkaup. Eitthvað gamalt, eitthvað nýtt, eitthvað lánað, eitthvað keypt :). Þannig verður árangurinn bestur. Að blanda saman ferskleika þeirra ungu og reynslu hinna eldri og taka mið af sjónarhornum sem flestra en ekki þröngum hópi.
Ég spái því að breyting sú sem verður næstu misserin á íslenskum stjórnmálum verði m.a. sú að meira af fagfólki sæki inn í stjórnmálin, meira af ungu fólki og konur komist frekar til áhrifa en áður.
Birkir Jón sækist eftir varaformannsembættinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Ólíkur fréttaflutningur Vísis og Mbl. um sama málið!
Svona er fréttaflutningur af sama máli ólíkur á Vísi og Mbl. Skyldi það vera að fréttin frá Vísi sé í takt við stefnu Samfylkingar um aðild að ESB og upptöku Evru en fréttin á Mbl. í takt við stefnu Sjálfstæðisflokks um að Ísland eigi ekki að ganga í ESB og krónan verði varin. Dæmi hver fyrir sig með því að bera saman þessar fréttir og sérstaklega fyrirsagnirnar sem er það sem fólk les fyrst.
Minnkandi áhugi á ESB-aðild - Mbl.- Sjálfstæðisflokkur? http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/24/minnkandi_ahugi_a_esb_adild/
Meirihluti vill ESB-umsókn og Evru - Vísir - Samfylking? http://www.visir.is/article/20081124/FRETTIR01/34938583/-1
Það er óþolandi að fjölmiðlar skuli afvegaleiða umræðuna svona. Fjölmiðlar eru uppfullir af fólki sem er tengt flokkunum sem eru að reyna að hafa leiðandi áhrif á umræðuna. Þjóðin þarf óháðan fjölmiðil sem er ekki að reyna að ota skoðun ákveðins flokks að henni þannig að fólk geti tekið sína eigin ákvörðun byggða á óháðum fjölmiðlaflutningi!
Það er alveg á hreinu að fjölmiðlar verða að vera með dreift eignarhald. Það er ólíðandi að þeim sé stýrt af mönnum eins og Jóni Ásgeiri sem á augljósra hagsmuna að gæta um hvað er borið á borð fyrir þjóðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)