Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Það sem tungan meiðir torvelt er að lækna
Það er mikilvægt að fólk gæti orða sinna þegar það tjáir sig jafn mikið og þessa dagana.
Menn láta ýmis orð falla sem sögð eru í hita og hamsi og tilfinningarnar látnar ráða.
Mig langar að gefinni góðri ábendingu um að þetta sé að gerast t.d. hjá Vinstri grænum að brýna þá menn sem standa í forystu hvar sem þeir standa að gæta virkilega orða sinna.
Orðræðan skapar og endurskapar menningu samfélags okkar. Hún getur þannig viðhaldið neikvæðum og röngum ímyndum.
Það hefur til dæmis heyrst oft og mörgum sinnum frá Vinstri grænum að ríkisstjórnin sé "lömuð". Þarna er verið að nota samlíkingu þess að hún sé aðgerðalaus væntanlega. Það sem þessir orðsmiðir hugsa ekki út í er að það búa margir einstaklingar á Íslandi sem hafa þessa skerðingu og þetta orðaval getur virkað særandi. Fyrir þann sem er lamaður er þetta ekki skemmtileg samlíking því eins og menn vita er lamað fólk langt frá því að vera aðgerðalaust.
Öll erum við misjöfn að atgervi og samfélagið rúmar okkur öll eða á að gera það að minnsta kosti og við eigum öll sama rétt og eigum að njóta sömu virðingar!
Einnig létu Vg þau orð falla um daginn að ríkisstjórnin væri heyrnarlaus og blind og það er af sama meiði.
Þetta er vandmeðfarið. Gleymum bara ekki að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Oft segja menn eitthvað sem getur sært en meiningin er langt frá því og þá er bara að biðjast afsökunar. Það getur einnig verið flókið að vita alltaf hvað er "rétta" orðið hverju sinni og ekki eru menn alltaf sammála um það. Það sem mestu máli skiptir er hvernig hlutirnir eru sagðir og verði manni á geti maður játað á sig mistök og beðist afsökunar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 22. janúar 2009
Loksins heyrist rödd fólksins í Framsókn
Framsókn hefur tekist það!!!
Framsókn hefur blásið af krafti til nýrrar sóknar eftir stórglæsilegt flokksþing sitt. Flokkurinn stendur öðrum flokkum langtum framar í því að hlusta á háværar raddir almennings um endurnýjun og hefur svarað að bragði.
Framsókn hefur tekið forystu til breytinga og betra Íslands.
Ég held að þessi könnun endurspegli það að fólk sér að það eru orðnar verulegar breytingar í Framsókn. Flokkurinn hefur skipt um forystusveit sína og ætlar að njóta krafts hennar. Flokkurinn á yfir að skipa mjög hæfu, reynslumiklu og efnilegu ungu og eldra fólki.
Unga fólkið hefur eignast öfluga fulltrúa í Framsókn og það er ákaflega mikilvægt því unga fólkið þarf að hafa áhrif á þær breytingar og uppgjör sem hér þarf að verða þar sem það mun bera þungar byrðar og vill hafa áhrif á það samfélag sem það og börn þeirra munu erfa svo það verði góður valkostur að búa áfram á Íslandi.
Þessi könnun endurspeglar það að við erum á réttri leið í Framsókn.
Við afgreiddum Evrópumálin á glæsilegan hátt þar sem við sögðum að við erum tilbúin að hefja aðildarviðræður við ESB til þess að kanna hvað er í boði en með ströngum skilyrðum til verndar sérstöðu okkar, sjálfstæðinu, landbúnaðinum, sjávarútvegnum og miklum auðlindum. Við í Framókn erum ekki tilbúin að stökkva með næstu hraðlest inn í ESB sem töfralausn sama hvað það kostar eins og Samfylking hefur fest sig í eða neita að skoða þessa leið á þeirri ögurstundu sem Ísland horfist í augu við. Allar leiðir þarf að kanna að betra Íslandi.
Við með Sigmund Davíð Gunnlaugsson nýkjörinn formann okkar í fararbroddi gerum okkur grein fyrir því að mikilvægasta verkefni Íslendinga í dag er að grípa til öflugra neyðaraðgerða til þess að koma fólkinu og fyrirtækjunum í landinu sem eru að svigna undan þunganum til tafarlausrar hjálpar. Það verkefni stendur langtum framar en ESB. Við þurfum að bregðast við og standa vörð um innviði samfélagsins tafarlaust.
Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að endurhugsa allt kerfið á Íslandi og þess vegna samþykktum við ályktun um að kallað verði saman stjórnlagaþing sem yrði skipað Íslendingum, ekki þingmönnum, ekki ráðherrum, til þess að endurskoða stjórnarskrána. Þar má ræða nýjar lausnir en það mikilvægasta er að aðskilja framkvæmdarvald og löggjafarvald. Við samþykktum ályktun um siðanefnd og við ungir framsóknarmenn lögðum mikla vinnu í tillögur að bættum vinnubrögðum í íslenskum stjórnmálum.
Breytingar liggja í loftinu og hjólið hefur rúllað af stað. Framsókn einn flokka hefur sýnt kjark, dug og þor til þess að leiða þessar gríðarmikilvægu breytingar að nýju lýðveldi og betra samfélagi.
Fólk sér kannski að flokkar eru ekki óbreytanlegt form. Þeir eru síbreytilegir og endurspegla fólkið sem í þeim er og stöðu samfélagsins á hverjum tíma. Því er óþarfi að stofna marga nýja flokka sjái fólk að það á samleið með einhverjum þeirra flokka sem litróf íslenskra stjórnmála rúmar nú. Ef fólk stofnar aðra flokka er það besta mál en hættan er sú að slíkir flokkar dreifi fylginu og tryggi áfram völd þeirra sem sjálfir hafa spilað sig úr leik og ættu að víkja t.d. Sjálfstæðisflokksins sem er kominn að þrotum fram og þarf að fá hvíld.
Sumir halda kannski að það sé erfitt að láta til sín taka í stjórnmálum. Ég get fullvissað alla um það sem áhuga hafa á því að taka þátt og leggja á sig vinnu að þeir munu hafa áhrif. Ég gekk til liðs við Framsókn 2006 og ég finn að ég hef strax fengið að njóta mín og hafa áhrif og mér hefur verið treyst. Flokkarnir eru því ekki það lokaða vígi sem margir halda (að minnsta kosti ekki minn flokkur Framsókn). En til þess að hafa áhrif þá þarf maður líka að láta til sín taka og leggja á sig vinnu.
Hvet alla til þess að skoða Framsókn og taka þátt í þeirri mikilvægu byltingu á íslensku stjórnkerfi sem liggur í loftinu. Saman getum við byggt upp framúrskarandi samfélag!
Áfram til nýrrar sóknar - Framsókn :)
Framsókn með 17% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Sigmundur og Framsókn taka af skarið
Það var mikið að eitthvað skuli hreyfast og einhverjir möguleikar skuli opnast.
Það er ferskur Framsóknarflokkurinn með nýjan formann, Sigmund Davíð Gunnlaugsson í broddi fylkingar sem hefur ýtt hjólinu af stað til þess að eitthvað gerist íslenskum almenningi og fyrirtækjum landsins til hagsbóta.
Oft var þörf en nú er nauðsyn. Íslenskur almenningur hefur setið klófestur í vandræðavef íslenskra stjórnvalda sem spunninn hefur verið síðustu ár og núverandi ríkisstjórn steingleymdi að hlusta á þjóð eða ráðgjafa, hvað þá byggja öryggisnet undir þjóðina.
Brotlending hefur orðið. Brotlent hefur verið þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkur hefur keyrt inn á þjóðina síðustu 17 ár í formi eiginhagsmunahyggju og óhefts frjálsræðis. Nú er orðið tímabært að sópa upp rykinu sem löngu er sest án þess að nokkuð hafi gerst og fennt hefur í spor þeirra sem þyngsta ábyrgð bera á ólíðandi ástandi.
Byltingin að betra Íslandi er hafin. Þökk sé Framsóknarflokknum og Sigmundi.
Nú hlýtur eitthvað að gerast og ekki getur ríkisstjórn endalaust bætt á tonnatakið sem límir þau föst við stólana sína í stjórnkerfinu og í flokkunum sínum!
Vill verja minnihlutastjórn falli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Hvað er að gerast í Framsókn?
Stórt skref fyrir Framsóknarflokkinn, stórt skref fyrir Ísland
Ég fer að lenda. Það kemur að því. Það er erfitt að lenda eftir það flokksþing sem ég var á um helgina. Ég flýg enn skýjum ofar í öllum skilningi þess orðs.
Flokksþing Framsóknarflokksins reyndist verða enn sögulegra en ég hafði látið mig dreyma um. Því fjármagni sem varið var í helgarferð til framsóknar var vel varið. Ég hefði ekki viljað missa af þessari helgi. Helginni þar sem fótspor voru mörkuð að Framsókn til framtíðar.
Ég undraðist það þegar ég byrjaði í flokknum hversu langt frá því sem almenningur sér í fjölmiðlum hinn raunverulegi Framsóknarflokkur er. Það er ástæða þess að ég vissi að ég væri á réttum stað. Gildi og stefna flokksins sem og langflestir flokksmenn eru mér mjög að skapi. Hógvær, skynsöm stefna í anda samvinnustefnunnar og félagshyggju eru að mínu mati mjög til farsældar. Núna um helgina varð rödd hins dæmigerða grasrótarmanns í flokknum háværari en nokkru sinni fyrr og uppskeran varð ríkuleg. Það er enginn að tala um nýjan flokk. Flokkurinn beygði aftur inn á trausta braut með dýrmæta reynslu í farteskinu og fullan tank til að takast á við þau gríðarstóru verkefni sem bíða í nánustu framtíð.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom eins og ferskur vindur inn í flokkinn. Sjálf hafði ég ekki ætlað mér að kjósa mann sem ég þekkti ekki. Með komu Sigmundar áttaði ég mig á að þar færi einmitt sá maður sem flokkurinn þyrfti og einmitt sá maður sem Ísland þyrfti.
Það ríkti einstakt andrúmsloft á flokksþinginu. Aldrei hef ég upplifað jafn góðan anda á samkomu á vegum flokksins. Það er hugur í mönnum, það var mjög glatt á hjalla og það ríkti vinátta og samstaða meðal flokksmanna. Vissulega var tekist á í kringum kjörið eins og eðlilegt er en þeir sem lutu í lægra haldi tóku niðurstöðunni af sönnum drengskap.
Sumir telja það galla að Sigmundur Davíð sé ekki þingmaður. Ég var ein þeirra. Núna tel ég það vera kost. Það getur enginn háð baráttu einn og óstuddur þó það sé á Alþingi. Verkefni Sigmundar Davíðs á næstunni er að fara um allt landið og hitta hvern þann framsóknarmann eða konu sem vill hitta hann (og verðandi flokksfélaga) og fá þannig yfirsýn yfir flokk sinn, mikilvægar upplýsingar og brýna flokksmenn fyrir það mikla verkefni sem bíður okkar. Þannig mun Sigmundur Davíð hefja baráttuna með fylkingu framsóknarmanna í stað þess að vaða beint í bardagann á Alþingi án beinna tengsla við grasrótina og fólkið sem ber Framsóknarflokkinn uppi.
Það eru óvenjulegir tímar og slíkir tímar kalla á sérstakar lausnir. Það er sú leið sem við framsóknarfólk völdum að fara um helgina. Það góða fólk sem starfað hefur í forystu flokksins undanfarinn áratug er allt prýðisfólk sem hefur lagt mikið á sig fyrir flokkinn. Störf þeirra endurspegla þann tíðaranda sem ríkti þá og hefur beðið skipbrot núna. Ný forysta mun endurspegla það ástand sem ríkir á Íslandi í dag. Það eru tímar breytinga og nýrra lausna byggða á sárri nýfenginni reynslu íslensks samfélags. Við munum rísa upp aftur sem þjóð og sem betra samfélag. Til þess að leiða slíka endurreisn þarf nýjan mannafla. Það kall hefur Framsóknarflokkurinn einn flokka heyrt og svarað að bragði. Framsóknarfólk mun leiða breytingar á íslensku samfélagi og vera í takt við þann breytingaranda sem ríkir víða meðal annars í Bandaríkjunum með skipun Baracks Obama í embætti forseta í dag.
Þær byrðar sem Íslendingar óhjákvæmilega munu bera í kjölfar bankahrunsins munu leggjast þungt á ungt fólk. Það er því sérstakt gleðiefni að leiðtogi okkar skuli vera ungur maður sem þekkir vel þessar aðstæður á eigin skinni. Með krafti unga fólksins í flokknum og reynslu hinna eldri þá eru Framsóknarflokknum allir vegir færir.
Til hamingju Framsókn!
Til hamingju Ísland!
Nýir tímar eru runnir upp.
Höfundur er nemi og í varastjórn SUF.
(pistill birtur á www.suf.is 20.01.09)
Óhjákvæmilegt að kjósa í vor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Framsókn til framtíðar!
Framsóknarflokkurinn heyrir raddir fólksins um endurnýjun, hlustar og hefur brugðist við.
Um helgina var kosin alveg ný forysta ungs vasks fólks sem mun leggja sig fram í anda þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru í kjölfar þeirrar stöðu sem ríkir í þjóðfélaginu í dag. Nýja forystu flokksins skipa þau: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson 33 ára, formaður, Birkir Jón Jónsson 29 ára, varaformaður og Eygló Þóra Harðardóttir 36 ára, ritari.
Þetta er allt ungt og öflugt fólk sem eru glæsilegir fulltrúar þeirrar kynslóðar sem bera þarf þungar byrðar í kjölfar þess ástands sem uppi er. Með krafti þessa unga fólks og reynslu hinnar eldri er hægt að hefja byltinguna.
Byltingu á því samfélagi sem hér hefur skapast á undanförnum áratug með óhefta frjálshyggju að leiðarljósi. Við erum ekki mörg en við erum merkileg. Á Íslandi á að geta verið þjóðfélag þar sem hver einasta manneskja á sinn rétt á að blómstra. Það á að vera nóg til fyrir alla. Þessa byltingu þarf að gera. Bylta þarf þeim hugsunarhætti sem leitt hefur til þess að auður okkar hefur safnast á hendur örfárra aðila sem hafa leikið fjárhættuspil með sameign þjóðarinnar og veðsett þjóð sína. Á sama tíma hefur annar hópur fólks orðið verr og verr úti. Rannsaka þarf rækilega hvað gerðist og draga lærdóm af orðnum hlut. Finna þarf leiðir til þess að vinna eins vel úr stöðunni og mögulegt er þjóðinni til heilla. Setja þarf nýtt regluverk, eftirlit þarf að hugsa upp á nýtt og vinnubrögð þarf að taka til rækilegrar rýni.
þessar breytingar sem gera þarf á Íslandi eru í anda þess sem nýr forseti Bandaríkjanna Barack Obama boðar. Við þurfum öll að leggjast á plóginn og vinna saman að betri degi fyrir okkur öll. Við eigum sama rétt óháð því hver við erum. Saman getum við byggt betra samfélag fyrir alla. Sundruð fellur allt til jarðar og margir verða undir!
Framsóknarflokkurinn gerir sér grein fyrir því að hann ber hluta ábyrgðarinnar á stöðu mála og horfist í augu við það af auðmýkt. Hann hefur einnig verið þátttakandi í mörgum af mikilvægustu málum íslenskrar þjóðar og komið að erfiðum verkefnum í gegnum tíðina. Sá sem gerir ekki neitt hann gerir engin mistök. Ríkisstjórn Íslands er sennilega hrædd við að gera mistök og gerir því ekki neitt!
Það sem Framsóknarflokkurinn upplifði um helgina er í anda nýs hugsunarháttar og breytinga. Flokkurinn ræddi spennandi lausnir til þess að byggja nýtt og betra Ísland. Meðal annars var rætt um stjórnlagaþing þar sem stjórnarskrá yrði endurskoðuð, samþykkt var að setja siðareglur, ný vinnubrögð voru rædd og framúrskarandi stefna sett meðal annars í Evrópumálum. sjá www.framsokn.is
Ég hvet alla þá sem vilja leggja sitt að mörkum að kynna sér hvað er að gerast í Framsókn og taka þátt í því að skrifa söguna og handritið að betra samfélagi. Það er óþarfi að mynda nýja flokka sem gætu mögulega leitt til þess að dreifa fylginu á þann veg að Sjálfstæðisflokkur (sem flestir eru sammála um að þurfi að víkja frá) eigi möguleika á að sitja áfram. Flokkurinn er fólkið og í Framsókn er það fólk sem vill breytingar byggðar á traustum grunni og góðri reynslu.
-JÁ VIÐ GETUM!!!
-VERTU VELKOMIN/N Í FRAMSÓKN TIL FRAMTÍÐAR.
Enn mótmælt við þinghúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 14. janúar 2009
Á leið í helgarferð til að upplifa framtíðina með Framsókn
Ég er að byrja að pakka. Ég er að fara í helgarferð. Förinni er heitið á sögufrægan stað. Staðurinn er flokksþing Framsóknar sem hefst formlega á föstudag. Ferðinni er heitið þangað til þess að upplifa framtíðina og vera þátttakandi í því að skapa hana.
Sumum gæti þótt þetta stórundarleg ákvörðun og furðulegt val á stað fyrir helgarferð. Sumum gæti þótt það fáránlegt að fátækur námsmaður í útlöndum skuli eyða peningum (sem hann á nú ekki mikið af í kreppunni) í aðra eins vitleysu í stuttu hléi í miðjum intensífum kúrsi.
Málið er bara það að þessi dama veit alveg hvað hún vill. Hún vill fara í helgarferð til þess að upplifa söguna og taka skref inn í framtíðina með flokknum sínum. Þessi dama skynjar þá stöðu sem flokkur hennar er í einmitt núna og trúir á alla þá góðu möguleika og góða fólk sem þar leynist. Vissulega hefur flokkurinn tekist á í gegnum tíðina. Flokkurinn hefur gert margt frábært í gegnum tíðina og margt miður.
Við þær aðstæður sem núna eru uppi er möguleiki á því að rýna með áþreifanlegum hætti ofan í saumana á fortíðinni, stöðunni í dag og síðast en alls ekki síst marka skýra stefnu til framtíðar. Reynslunni ríkari. Reynslunni ríkari eftir ýmislegt sem átt hefur sér stað í flokknum og í þjóðfélagi okkar. Á þessari reynslu má byggja upp gríðarlega öflugan stjórnmálaflokk sem hefur heiðarleika og framsýni að leiðarljósi og á reynslunni má byggja upp gott og traust samfélag.
Það er því með eftirvæntingu sem ég held af stað í þetta ferðalag og hlakka til að sjá drögin að Framsókn til framtíðar sem mótuð verða um helgina. Ég ætla að njóta allrar ferðarinnar í stað þess að einblína bara á áfangastaðinn. Ég held að það sé almennt góð venja eins og fjallað er um í Munkinum sem seldi sportbílinn sinn (eftir Robin S. Sharma) að njóta þess að tína demantana á veginum í stað þess að hlaupa beint fram af augum að gullpotti sem er svo ekki þess virði og hafa misst sjónar á öllum demöntunum.
Við í Framsókn erum á hægri en góðri leið til framtíðar. Mikil vatnaskil hafa orðið vegna stöðunnar í samfélaginu og okkar eigin mistaka til þess að vegurinn skolaðist burt. Okkar er núna að finna okkar leið sem hentar gildum okkar og stefnu. Aðalatriðið er að hafa skýran, öflugan leiðtoga, góðan ferðahóp, gott ferðaplan og njóta allra demantanna sem liggja á leiðinni.
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Flótti forsætisráðherra og meðreiðarfólks hans
Ég kann ágætlega við Geir H. Haarde forsætisráðherra okkar og gæti ímyndað mér að hann sé góður maður sem vill standa sig vel.
Það er hins vegar ámælisvert hvernig hann og ríkisstjórn hans hafa tekið á þeim verkefnum sem komið hafa upp frá því að ný ríkisstjórn var mynduð vorið 2007. Þau hafa verið fjarlæg, úr tengslum við almenning og óheiðarleg.
Ég hafði einnig álit á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og tel þar hafa verið mikla baráttukonu sem lagt hefur mark sitt á íslensk stjórnmál svo um munar. Hún er eflaust líka að gera sitt besta. Álit mitt á henni hefur dalað jafn hratt og íslenska krónan.
Vandamálið er bara það að það er ekki nógu gott það sem þau eru að gera sem stjórnmálamenn þó þau séu eflaust ágætis fólk. Það er eins og skynjun þeirra beggja á raunveruleikann sé brengluð. Það kemur þannig út að minnsta kosti fyrir þann sem fylgist með í fjarlægð eins og mig.
Í stað þess að viðurkenna það að þau hafi hvorki greint eða brugðist rétt við þeim ákallandi merkjum sem strax voru á lofti í upphafi stjórnarsambands þeirra og þeim var ítrekað bent á af hagfræðingum eins og Robert Wade, ýmsum stofnunum eins og Standard and Poors, greiningardeildum, framsóknarmönnum ásamt ótal öðrum þá hafa þau verið í stöðugri vörn. Þau hafa lagst lágt í því að vinna óheiðarlega, sagt eitt í dag en annað á morgun og falið sig á bakvið luktar dyr.
Af hverju segja þau ekki bara nákvæmlega hvernig staðan er? Hún hefur bara versnað og því tel ég þá taktík sem þau hafa notað að "hlífa" þjóðinni við þessum vondu fréttum og "hlífa" þjóðinni við að keyra neyðarviðbrögð strax á af fullum krafti vorið 2007 aðeins hafa leitt okkur í miklu dýpri pytt en þörf var á. Af hverju geta þau ekki stigið fram og viðurkennt þau mistök sem þau hafa gert? Af hverju geta þau ekki axlað þá ábyrgð sem þau voru kosin til að axla?
Það sama á við um bankagæðingana og útrásarvíkingana sem voru á ofurlaunum vegna þessarar gríðarlegu ábyrgðar sem reynist svo innistæðulaus þegar upp er staðið! Það er nánast sem rán í mínum huga að skammta sér svona sjúklega há laun í ljósi þess hversu mikla ábyrgð maður beri en taka hana svo ekki þegar á dynur! Það er að minnsta kosti ekki góð frammistaða í starfi og aldrei myndi ég ráða slíkan aðila aftur!
Mér finnst það vera sorglegur flótti og lúalegt hjá Geir Haarde að þykjast ekki hafa heyrt þau orð Wade að Davíð ætti að víkja. Hversu lágt er hægt að leggjast og hversu djúpt er hægt að draga heila þjóð á svona rugli?
Ég held að það sé alveg á hreinu hvaða flokkur verður "kosinn út" í næstu kosningum! Hann hefur dæmt sjálfan sig úr leik og Samfylking er á góðri leið með það sama á meðan Ingibjörg heldur áfram þessari meðvirkni með Geir og félögum. Flokkurinn sem hefur einokað efnahagsmál á Íslandi síðastliðin 17 ár og leitt til helsjúks samfélags sem verður áratugi að jafna sig endanlega eftir þetta hrun. (Ég vil nú skjóta því að að vissulega bera aðrir flokkar m.a. minn eigin flokkur einnig ábyrgð á ástandinu). Hinn flokkurinn sem lofaði öllu fögru m.a. fagra Íslandi, nafni Íslands af lista hinna staðföstu þjóða og byltingu á hinum ýmsu sviðum, samræðustjórnmálum og hefur svo ekki átt innistæðu fyrir neinu af þessu.
Ég hlakka til að sjá það öfluga fólk sem ég trúi að sé innan raða þessara flokka og annarra og nýtt fólk sem kemur til leiks taka við af þessu fólki sem situr með alla þjóðina fasta ofan í pytti og reynir ekki einu sinni að búa til stiga. Það eru mjög erfiðir en einnig spennandi tímar framundan fyrir okkur sem þjóð. Það ætla ég að minnsta kosti að vona að við náum fljótt botninum og getum farið að spyrna okkur upp á ný. Því miður sitjum við enn með akkeri sem halda okkur niðri sem er ónýt stjórnvöld og ónýtt gamalt regluverk og rotin vinnubrögð. Það er einungis tímaspursmál í mínum huga hvernær það akkeri verður losað.
Kreppan getur dýpkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. janúar 2009
Háttur íslenskra stjórnvalda
Mín upplifun er sú að það sé ekki einungis varðandi hátterni Breta gagnvart okkur sem íslensk stjórnvöld taka kolranga ákvörðun og draga lappirnar. Ég er nú sennilega ekki ein um þá skoðun og því miður nánast hvert mannsbarn á þeirri skoðun.
Það hefur verið sorglega algengt að krónunni hafi verið kastað fyrir aurinn í ákvarðanatöku íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna. Alltof oft eru ákvarðanir teknar sem kosta þjóðarbúið miklu meira en þörf hefði verið á hefðu málin verið ígrunduð vel og unnin faglega.
Það er dapurt að efnahagsbrotadeild skuli fá klink til umráða við það að gera upp eitt stærsta sakamál sem komið hefur upp á seinni tímum. Ég tel vinnuaðferðir þær sem ákveðnir aðilar hafa stundað hér í viðskiptum og afleiðingar þeirra vera eitt stórt sakamál sem gera þarf upp. Hér er um gríðarlegt fjármagn að tefla sem athafnamenn ýmsir hafa haft rösklega 3 mánuði til þess að fela á eyjum og annars staðar í útlöndum. Ætli þetta endi eins og með gullkistuna hans Egils á bakvið fossinn sem aldrei fannst? Egill faldi hana þó á sínu eigin landi!
Ég myndi vilja sjá stóreflingu þeirra embætta og starfsmanna sem koma að rannsókn þessa flókna máls og ég tel það frumskilyrði að henni sé stýrt af erlendum óháðum aðilum.
Það er hneisa að á þeim tíma sem velferðarkerfið mun fá á sig brotsjó fólks í ýmiss konar vanda skuli vera vegið að því með ómaklegum hætti með niðurskurði sem beitt er með sérlega undarlegum leiðum og virðist sem ekki sé farið eftir neinni heildar- eða framtíðarsýn við beitingu þess hnífs. Það mun einungis leiða til þess að innviðir þess munu bresta smám saman því nógu þröngur var stakkur þess sniðinn í blessuðu góðærinu (sem var reyndar að hluta til fengið að láni... en látum það liggja milli hluta). þetta allt mun leiða til miklu meiri kostnaðar til framtíðar því verkefni þessa kerfis hverfa ekki heldur magnast upp við slíkan brotsjó. Kerfið drukknar ef þungi þess eykst án þess að nokkru sé bætt við flotmöguleika þess.
Það hefur því miður verið stefna íslenskra stjórnvalda að hugsa allt of mikið eftir á! Það er eins og yfirsýn vanti oft og sú vel þekkta hugmyndafræði að leggja inn fyrir góðum hlutum er oft fjarri lagi á þeim bænum.
Ef fjármagn yrði sett í forvarnir af ýmsu tagi myndi það skila sér í sparnaði í öllu velferðarkerfinu. Það má reyndar hrósa Guðlaugi fyrir að hafa komið því inn að fólk geti fengið ávísað hreyfingu og tel ég það spor í rétta átt. Ég vil sjá mun meira af þess háttar verkefnum eins og til dæmis að þjónusta sálfræðinga verði tekin inn í almennt heilbrigðiskerfi því það er forvörn að auka aðgengi fólks að sálfræðingum áður en málin versna það mikið að viðkomandi þurfi að leggjast inn á geðdeild, geti ekki unnið eða þurfi lyfjameðferð. Forvarnir í ýmsum vímuefnamálum verða seint vanmetnar enda bæði um fjárhagslegan sem og mikinn persónulegan hag almennings að tefla.
Lengi vel hefur ríkið ekki séð sér fært að gefa starfsfólki sínu jólagjafir á mörgum stofnunum sínum eða nýta aðrar leiðir til umbunar fyrir vel unnin störf. Þetta tel ég mjög sérstakt því einkafyrirtækin hafa keppst um að gera vel við sitt fólk og vita vel að það er eitt það allra mikilvægasta af öllu að vökva vel þann góða mannauð sem það hefur. Hvert stöðugildi sem rúllar af óhæfu, óánægðu starfsfólki er rándýrt! Stundum velti ég því fyrir mér hvort íslensk stjórnvöld séu ekki kunnug fræðum vinnusálfræðinnar? Ég spái því að milljón sem sett er í umbun fyrir gott starfsfólk skili sér í 10 milljóna sparnaði á móti.
Staða okkar er slæm. Það vitum við öll og ég verð að viðurkenna það að ég fékk óþægilega tilfinningu síðustu daga mína á Íslandi yfir stöðu mála. Ég er mjög áhyggjufull fyrir hönd landsmanna og þjóðarinnar en ætla samt að vera bjartsýn og halda í vonina. Henni má maður aldrei tapa. Það þarf mikið Grettistak til að koma hjólum okkar aftur af stað. Það þarf annað slíkt tak til þess að koma gleðinni, jákvæðninni og voninni aftur að hjá íslenskri þjóð.
Þar sem ég fór um mátti merkja áhyggjur fólks yfir allri þeirri óvissu sem vofir yfir okkur á sama hátt og óveðursský efnahagsmála vofðu yfir löngu fyrir hrunið eins og framsóknarmenn bentu réttilega á á þingi. Það þarf stórtækar aðgerðir til þess að rétta íslenska þjóð af NÚNA og til þess þarf þjóðin sterka leiðtoga en ekki fólk sem veit ekkert hvert það er að stefna og segir eitt í dag en annað á morgun. Hvað þarf að gera? Það er langur listi og hér bara nokkur atriði sem ég tel mikilvæg:
- Rannsókn og uppgjör á hruninu og öllu sem lýtur að þeim atburði. Fara yfir regluverk, lög og ábyrgð allra viðkomandi aðila.
- Áætlun um það að leggja sérstaka áherslu á innspýtingu í útflutnings atvinnugreinar okkar, verðmætasköpun sem og alla aðra mögulega atvinnuvegi og fá eðlilegt jafnvægi efnahags með því að koma erlendu fjármagni úr landi sem kemur ójafnvægi á kerfið (t.d. Jöklabréfin).
- Áætlun um það að standa sterklega vörð um velferðarkerfið til þess að ekki hljótist meiri skaði af sem verður enn dýrari þegar til lengri tíma er litið við það að mylja innviði þess niður svo það standi ekki undir sér.
- Einnig þarf að leggjast vandlega yfir það að byggja upp NÝTT OG BETRA SAMFÉLAG þegar neyðaraðgerðir eru komnar vel af stað. Þar skulum við nota þann lærdóm sem við höfum öðlast til þess að endurmeta allt regluverk, tengsl valdastofnana samfélagsins og setja okkur leikreglur sem halda í því litla samfélagi sem við búum svo allir eigi þess kost að sitja í sama báti.
Það vekur undrun mína að fyrir nokkrum mánuðum lögðu allir áherslu á það að innganga í ESB væri ekki á dagskrá fyrr en jafnvægi væri komið á í efnahagslífi þjóðarinnar. Núna virðast sumir hafa gleymt þessu, eða hvað? Ég tel að við eigum að fara í aðildarviðræður við ESB og kanna hvaða leiðir liggja þar og hvað er á borði en ég tel það ekki vera stóra málið í dag.
Þetta er eins og að vera í stórri íslenskri fjölskyldu þar sem alvarlegt fjölskylduvandamál er í gangi vegna alkóhólisma og ætla að leysa málið með því að fara með alla fjölskylduna undir verndarvæng ættmenna í Evrópu. Fyrst þarf fjölskyldan að leysa sín mál og byggja upp traust og nýtt kerfi áður en leysa á málin annars staðar!
Ég tel stóra málið því í dag vera þá GRÍÐARLEGU UPPSTOKKUN sem þarf að verða á öllu leikkerfi okkar og leikmönnum í íslensku stjórnkerfi. Það var rotið kerfi sem hrundi en upp úr því á að geta sprottið öflugt, framúrskarandi samfélag öllum til handa. Það sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa gert síðan allt hrundi er að sitja ofan á rotnum haugnum og róta í honum í stað þess að opna fyrir þann möguleika að hugsa málin alveg upp á nýtt. Það gerist ekki með sama fólki í öllum stöðum sem vinna eftir sömu rotnu leikreglunum.
"There is a crack in everything and that is where the light comes in". Þessa fleygu setningu heyrði ég í dag. Það voru margar sprungur í íslensku stjórnkerfi og margt í háttum þar sem þarf að skoða. Ljósið sem skýtur sér inn á að geta lýst okkur leiðina að því að byggja allt upp á betri hátt með vitneskju um hvar sprungur geta myndast að leiðarljósi svo ekki bresti fleiri sprungur í framtíðinni sem hrynji með þeim látum sem nú hefur gerst.
Framsókn er á fullu þessa dagana. Mikið af fólki vill láta til sín taka. Nýtt fólk heyrir tóninn í okkur og vill ganga til liðs. Við eigum fleiri en einn og fleiri en tvo frambærilega menn sem vilja taka að sér að leiða þetta starf. Hvað er að gerast í hinum flokkunum? Getur það verið að þyrnirósarsvefninn sem ríkisstjórnin svaf hafi verið svo þungur að drunginn hafi lekið niður í flokkana sjálfa? Ólga er innan þeirra beggja en engin skýr teikn á lofti um svar við kalli almennings um breytingar.
Ég trúi því að nýtt Ísland sé fætt. Það er svo okkar að hlúa að því að byggja það upp á réttan hátt í stað þess að endurlífga gamla Ísland sem kvaddi af ótta við hið ókunna.
Stjórnvöld spara aura en kasta krónum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 10. janúar 2009
Gleðilegt Framsóknarár!
(pistill ritaður 5.1.2009 og birtur á www.suf.is)
Ég var að koma heim af vel sóttum og góðum fundi sem Framsóknarfélag Mosfellsbæjar stóð fyrir þar sem þremur frambjóðendum til formanns var boðið til þess að kynna sig og stefnumál sín. Tveir frambjóðendur mættu, þeir Höskuldur Þórhallsson og Páll Magnússon. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson boðaði forföll. Fundurinn var mjög góður, fræðandi og áhugaverðar umræður áttu sér stað.
Þessi fundur sýndi að það er mikið líf í flokknum okkar um þessar mundir, hávært ákall um breytingar og einnig samhljómur um mörg góð atriði. Ég er því bjartsýn á framtíðina og lít á Framsókn til framtíðar. Ég tel flokkinn standa öðrum flokkum framar um uppstokkun, rýni á eigin verk og svari við kalli almennings um breytingar. Ef okkur framsóknarfólki tekst að ná samstöðu á flokksþinginu og fylkja okkur að baki nýrri forystu um breytingar þá eru okkur allir vegir færir. Það er mikil eftirspurn eftir flokki eins og Framsókn sem vill láta samvinnuhugsjónina lýsa okkur leið framfara og vinna fyrir hinn almenna landsmann. Flokkur sem hafnar öfgum til hægri eða vinstri en vill það besta úr báðum áttum. Flokkur sem berst framar öllu um þá mikilvægu atvinnuuppbyggingu og stuðning við atvinnuvegina sem verður að eiga sér stað til þess að hægt sé að halda hjarta hagkerfisins gangandi. Atvinna er hverjum manni eitt það mikilvægasta sem hann á því í eðli okkar viljum við flest leggja okkar að mörkum til samfélagsins. Þjóðfélagið mætti gera betur í þeim efnum að sníða atvinnumöguleikana að þeim fjölbreytileika manna sem býr hér því öll eigum við sama rétt á að geta lagt okkar framlag til þrátt fyrir ólíka getu. Framsókn hefur alltaf verið flokkur atvinnuuppbyggingar og því er erindi okkar við þjóðina ákaflega brýnt á næstu árum. Við lofuðum tólf þúsund nýjum störfum og stóðum við það í síðasta alvarlega atvinnuleysi Íslendinga. Atvinna er undirstaða velferðar sem er eitt mikilvægasta málefni næstu ára. Til þess að koma okkar góðu verkum til skila þarf flokkurinn að vera við góða heilsu og það er stóra verkefni Framsóknar um þessar mundir að styrkja innviði sína og starfið allt.
Ég var ánægð að heyra það að almennt eru frambjóðendur samhljóma í því að auka beint lýðræði í flokknum og vinna að auknu vægi hins almenna flokksmanns. Til þess að vilja leggja alla þá sjálfboðavinnu af mörkum sem þarf í stjórnmálastarfi þá verður fólk að fá traust til baka og geta haft raunveruleg áhrif. Ýmsar leiðir má fara í þeim efnum eins og rætt hefur verið um eins og að opna flokksþing öllum flokksmönnum með ákveðnum skilyrðum (sem koma í veg fyrir skipulagða smölun). Einnig er mikilvægt að nýta sér alla þá tækni sem við búum yfir í okkar daglega starfi, samskiptum og stefnumótunarvinnu. Við erum flokkur alls landsins og þurfum að vinna þannig að ávallt sitji allir landshlutar við sama borð. Til þess er hægt að nýta sér gamla góða bréfpóstinn í kosningum og/eða nútíma tækni.
Það sem við núverandi (og verðandi framsóknarfólk :) ) megum aldrei gleyma er það að í okkur öllum slær sama græna Framsóknarhjartað. Það er miklu fleira sem sameinar okkur heldur en sundrar okkur. Við höfum sömu hugsjónirnar, sömu grunngildin og sömu markmið þó leiðirnar séu mismunandi. Við þurfum að vinna út frá því í stað þess að vinna út frá því sem aðgreinir okkur.
Ég fylgdi einni minni dýrmætustu samferðakonu til hinstu hvílu í dag. Í athöfninni sagði presturinn að öll værum við jöfn gagnvart Guði. Þessu skulum við aldrei gleyma. Við erum 99% lík og við erum flest að sækjast eftir því sama í lífinu; hamingju, öryggi og farsæld. Þegar á okkur verður kallað mun enginn gera greinarmun á því hvort við höfum verið með milljónir á dag eða launalaus alla ævi. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er hvort við höfum lagt okkar lóð á vogarskálarnar af heiðarleika og einlægni og hvort við höfum uppfyllt drauma okkar og öðlast hamingju. Það veit fimm ára barn að hamingjan verður ekki keypt með peningum. Hamingjan kemur innan frá og meðal annars með því að gefa af sér og vinna fyrir aðra. Slíkum grunnatriðum mega stjórnmálaöfl aldrei gleyma og eiga að vinna í samræmi við þau.
Ég á mér draum um Framsókn til framtíðar og vil að sú Framsókn verði betri en sú sem ég hef kynnst hingað til. Ég á mér draum um flokk sem gerir það að aðalmarkmiði sínu að vinna af heilindum og trausti hverju einasta landsbarni til heilla, óháð efnahag, búsetu, kyni, fötlun, stöðu eða öðru því öll erum við á sama báti og öll eigum við að vinna saman. Það eru ein stærstu mistökin sem gerð hafa verið á Íslandi undanfarin ár að með frjálshyggjunni og græðgisvæðingunni gleymdi fólk að standa saman um grunngildi samfélagsins og vinna saman sem hefur alltaf verið grundvallarforsenda þess að okkur gangi vel á okkar litla landi. Þau sjónarmið skulum við Framsóknarfólk kynna fyrir þjóðinni á ný!
Þegar ég skrifa næsta pistil verðum við búin að kjósa okkur nýja forystu og eigum að baki áhrifamikið flokksþing sem sker úr um framtíð okkar. Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan og til þeirra horfi ég með bjartsýni og trú á flokkinn minn.
Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 6. janúar 2009
Vertu velkominn Guðmundur!
Ég vaknaði upp við þau ánægjulegu tíðindi að Guðmundur Steingrímsson varaþingmaður Samfylkingar í Suðvesturkjördæmi væri genginn til liðs við okkur í Framsókn.
Þetta eru að mínu mati mikil gleðitíðindi og góð byrjun á gleðilegu Framsóknarári!
Guðmundur er að mínu mati mikið afburðaefni og ég hlakka til að fylgjast með honum í Framsókn. Hann á ekki langt að sækja það góða framsóknarblóð sem einkennir hann. Ég hef alltaf verið ferlega svekkt yfir því að hann skuli hafa valið Samfylkingu en ekki okkur í Framsókn því ég hef mikla trú á honum og tel það augljóst að í honum hefur alltaf slegið Framsóknarhjarta. Mér finnst ákvörðun hans bera vott um það að við í Framsókn erum að sigla inn í góða tíma og inn á þau gömlu góðu gildi sem Steingrímur Hermannsson og fleiri stóðu fyrir á sínum tíma.
Framsókn er sá flokkur sem hefur sýnt það með sem skýrustum hætti að hann tekur alvarlega þau skilaboð almennings að uppstokkun verði að verða í íslenskum stjórnmálum, gera þurfi upp fortíðina og horfa svo ákveðið fram til framtíðar þjóðinni til heilla. Okkar bíða stór og mikil verkefni og til þeirra þurfum við einvalalið afburðafólks.
Það er gott fólk í Framsókn og flokkurinn stendur fyrir góð grunngildi og hugsjónir sem eiga mikið erindi við þjóðina og hafa átt þátt í hagsæld hennar síðastliðin 92 ár. Vissulega hefur flokkurinn gert mistök sem hann þarf að gera upp. Það hafa aðrir stjórnmálaflokkar líka gert. Við í Framsókn erum bara oftar minnt á okkar mistök en aðrir flokkar. Það er jú hlutverk stjórnmálamanna að taka ákvarðanir og hverri góðri ákvörðun fylgja nokkrar slæmar. Það er nú bara þannig. Enginn tekur bara réttar ákvarðanir. Sá sem tekur aldrei ranga ákvörðun tekur aldrei ákvörðun og þess háttar stjórnmálamaður er gagnslaus. En stjórnmálamenn þurfa líka að geta með auðmýkt viðurkennt sínar röngu ákvarðanir, beðist afsökunar og lagt sig fram við að gera betur í dag en í gær.
Það er það sem við í Framsókn erum að gera. Við erum í mikilli og jákvæðri þróun og aldrei hef ég upplifað jafn góða stemningu í flokknum og einmitt núna! .
Vertu velkominn í hópinn Guðmundur Steingrímsson. Þú gladdir mitt Framsóknarhjarta í dag og ég hlakka til samstarfs við þig!
Guðmundur í Framsóknarflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)