Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 24. nóvember 2008
Engin töfralausn og hugleiðing um Betri heim
Það mætti líkja því sem er í gangi við jarðskorpurnar tvær sem liggja undir landinu. Önnur þeirra togar í átt til Bandaríkjanna en hin til Evrópu.
Sumir vilja horfa í átt til Ameríku og dollars en aðrir í átt til Evrópu og Evru.
Enn einn hópurinn vill bara leyfa þessum plötum að togna í sundur og fá inn nýja íslenska orku sem kemur þegar plöturnar togast í sundur með nýju íslensku bergi.
Ég held að fólk og ég þar á meðal séum að átta okkur enn betur á því að það er ekki neitt af þessu sem er töfralausn. Það þarf miklu djúpstæðari breytingar á Íslandi en að stökkva af stað á einn eða annan stað. Við þurfum fyrst og fremst að huga að grundvallarbreytingum hjá okkur sjálfum. Þar þurfum við að byrja. Hitt er annað mál að svo verðum við alltaf óhjákvæmilega í samstarfi við aðrar þjóðir en ekki einangruð eyja út í hafi. Hvernig við högum því þurfum við að taka ákvörðun um að vel upplýstu máli og þá á ég við að þjóðin öll viti án áróðurs eða dylgna hvað hver leið felur í sér og geti stolt tekið sína ákvörðun um sína framtíð.
Ég las kafla í Betri heim Dalai Lama í gærkvöldi og ég hugsaði með mér að margir íslenskir athafnamenn, stjórnmálamenn og fleiri ættu að lesa þennan kafla því Dalai Lama hittir naglann á höfuðið. Hann segir m.a.
Allt okkar atferli hefur víðtæk áhrif. Þess vegna skipta siðferðileg ögun, heilindi í framkomu og yfirveguð dómgreind miklu máli fyrir hamingju okkar og velferð í lífinu...Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við öll eins. Ég er frá Tíbet...Við höfum sama mannlega holdið og þráum öll að vera hamingjusöm og forðast þjáningar...
Það er lykilatriði að við venjum okkur á nægjusemi svo hægt verði að viðhalda friðsamlegri sambúð við önnur ríki...Ef við þráum ríkidæmi myndi ekki skipta neinu máli þótt við næðum að sölsa undir okkur öll auðæfi ríkisins; við myndum líklega einnig vilja ná í auðæfi annarra landa. Þrá eftir gæðum sem eru aðeins til í takmörkuðu magni er aldrei hægt að svala... Skortur á nægjusemi - eða græðgi - sáir fræjum öfundar, harðvítugrar samkeppni og ofneyslu. Hið neikvæða andrúmsloft sem skapast verður gróðrarstía fyrir margvíslegt félagslegt böl sem kallar þjáningar yfir allt samfélagið. (Dalai Lama, 2000 11. kafli).
Minnkandi áhugi á ESB-aðild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 23. nóvember 2008
Danskur þingmaður skilur ekki alveg hvað er í gangi hér
Það hafði samband við mig danskur þingmaður. Hann fýsti að vita hvers vegna fólkið hefði verið að mótmæla í gær. Hann sagðist skilja að fólki liði illa en hann skildi samt ekki alveg hvers vegna það væri svona reitt og að mómæla.
Þessi maður er mjög hrifinn af Íslandi og kemur þangað árlega og ferðast og er verulega annt um Ísland og Íslendinga.
Ég vissi varla hvar ég ætti að byrja og hvernig ég ætti að útskýra þetta fyrir honum. Hvernig á að útskýra þetta?
- Fólk er að mótmæla því það vill að ríkisstjórnin segi af sér nú þegar og mótmælir þangað til hún gerir það
- Fólk var ósátt yfir því að ungur mótmælandi var handtekinn og handtaka hans ekki í samræmi við ríkjandi lög
- Fólk vill fá nýtt blóð í forystuna þar sem ekki ríkir traust fyrir núverandi stjórnvöldum
- Fólk vill fá milliliðalausar hreinskiptar upplýsingar um það sem er að gerast, semja um og vill hafa áhrif á eigin framtíð t.d. IMF
- Fólk mótmælir því að þurfa að greiða skuldir sem það kom ekki nálægt því að stofna til sem hlutust meðal annars vegna óstöðvandi útrásar, eftirlits í lamasessi og stjórnvalda sem hlustuðu ekki á viðvarandir í eitt og hálft ár
Svona má lengi halda áfram... Er nema von að fólk mótmæli?
Ég fór auðvitað ekki svona djúpt ofan í þetta við þingmanninn enda hefði danskan mín ekki boðið upp á það. Þingmaðurinn komst einhverju nær af spjallinu.
Kjarni málsins er sá að málin eru svo flókin og það er svo djúp ástæða fyrir því að fólk mótmælir í þúsundatali að það geta fáir aðrir en Íslendingar skilið það. Þetta leiðir einnig líkur að því að í þetta skipti muni eitthvað breytast á Íslandi, vekur mér að minnsta kosti von um það. Þó byrjunin sé ekki góð þegar sama fólkið er skipað í bankana í sömu stólana nánast þá trúi ég á íslenska þjóð og að núna verði grundvallarbreytingar sem leiða muni til opnari og heiðarlegri stjórnsýslu og betra samfélags.
Stjórnmálakreppa ríkir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 23. nóvember 2008
Velferðin varin á morgun
Útifundur á Ingólfstorgi mánudaginn 24. nóvember kl. 16.30
Dagskrá:
Tónlistaratriði
Tómas R. Einarsson og Ragnheiður Gröndal
Gerður A. Árnadóttir
formaður Þroskahjálpar
Árni Stefán Jónsson
varaformaður BSRB
Halldór Sævar Guðbergsson
formaður Öryrkjabandalags
Margrét Margeirsdóttir
formaður Félags eldri borgara í Reykjavík
Fundarstjóri verður Björg Eva Erlendsdóttir
Fjölmennum á fundinn og sýnum að við látum ekki brjóta velferðarþjónustuna niður
Íslendingar! Við höfnum því að ráðist verði að undirstöðum samfélagsins með stórfelldum niðurskurði á velferðarkerfinu. Þegar þrengir að er mikilvægt að ekki sé vegið að almenningi. Við höfnum sérhverri aðför og krefjumst þess að stofnanir samfélagsins verði styrktar á erfiðum tímum.
(tekið af http://www.almaogfreyja.blog.is/blog/almaogfreyja/)
Ég hefði nú gjarnan viljað mæta á þetta á morgun en á ekki heimangengt. En mér finnst þetta frábært framtak og núna þarf að standa dyggan vörð um velferðarkerfið sem byggt hefur verið upp undanfarin ár m.a. Íbúðalánasjóð. Þetta er ekki rétti staðurinn til þess að beita niðurskurðarhnífnum sem beittast. Það á frekar að beita honum á málefni sem varða t.d. utanríkismál, hlunnindi hvers konar og sérkjör. Það er af nógu að taka þar sem kemur langt á undan velferðarmálum í forgangi. Þar þarf mun fremur að bæta í en hitt.
Sparnaðarhugmyndir aðför að velferðarkerfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 23. nóvember 2008
Þjóðarskútan Titanic
Það er ljóst af atburðum gærdagsins að Íslendingar munu ekki þegja þunnanda hljóði á meðan ríkisstjórnin heldur uppteknum hætti og Davíð Oddsson seðlabankastjóri neitar að segja frá leyndarmálum sínum.
Söguþráðurinn af því sem gerst hefur undanfarnar vikur er orðinn svo flókinn að það er vægast sagt erfitt að fylgjast með og átta sig á hvað snýr upp og hvað snýr niður.
Þetta minnir mig á söguna um Titanic. Skipstjórarnir voru svo pollrólegir að þeir fylgdust ekki vel með hvað var framundan við sjónarrönd, gættu ekki að sér og skipið var sett á fulla ferð til þess að ná á forsíður fréttablaðanna. Hönnuður skipsins varaði við en skellt var við skollaeyrum.
Söguna þekkjum við öll. Hið ósökkvandi skip náði heldur betur á forsíðu blaðanna og var skráð á spjöld sögunnar en ekki var það fyrir að ná fyrr en allir aðrir á áfangastað heldur fyrir það að ná aldrei á áfangastað. Við sem fórum í ímyndarherferð til að auka jákvæða umfjöllun um okkur úti í heimi fáum nú umfjöllun sem er alls ekki sú sem lagt var upp með. Við erum á forsíðum fréttablaða úti í heimi fyrir allt annað en þjóðarskútu sem siglir hraðast.
Þjóðarskútan okkar hefur því miður siglt í anda Titanic og steytt á ísjaka. Vegna þess að henni var siglt svo hratt og lítið fylgst með hvað bar við sjónarrönd varð áreksturinn við ísjakann harður og sökkti skipinu. Ég vona að endir sögunnar verði annar og betri hjá okkur enda er ég bjartsýnismanneskja að eðlisfari og trú mín á þjóðina sem var mikil fyrir hefur stigvaxið. Annað hvort að takist að lagfæra skútuna eða að takist að koma öllum í björgunarbátana. Ég efa að skipstjórar Titanic hefðu verið látnir halda áfram siglingunni eftir þeirra alvarlegu yfirsýn hefði skipið haldið og þolað áreksturinn.
Nú er spurning hvernig björgunarstörfum verður háttað. Verður þetta í anda Titanic þar sem þeim sem eru aðeins betri en hinir verði raðað í björgunarbátana fyrst með nægt pláss en hinir sem ekki sigldu á eins góðum farrýmum verði látnir mæta afgangi og drukkna? Eru til björgunarbátar fyrir alla á Íslandi?
Ég skil ekki alveg í henni Ingibjörgu Sólrúnu. Hún segir fólkið koma fyrst en svo flokkinn. Hvað var hún þá að hugsa þegar hún gerði sig seka um það sem hún hefur gagnrýnt Davíð Oddsson fyrir þegar hún skipaði samstarfskonu sína og vinkonu sendiherra í utanríkisráðuneytinu nýlega. Er það ekki í mótsögn við það sem hún boðar? Um hvern var hún að hugsa þá? Hún virkar ekki trúverðug með slíkum athöfnum þegar hún segir eitt en gerir annað. Er hún góður skipstjóri við áframhaldandi siglingu? Hvað með Geir? Eru líkur á því að hann myndi fylgjast betur með varnaðarorðum næst og hægja á skútunni? Myndi hann raða sanngjarnt í björgunarbátana? Hefur ekki Sjálfstæðisflokkurinn verið þekktur fyrir það að vinna fyrir einstaklingshyggjuna. Myndi hann skapa pláss þannig að allir kæmust í bátana eða myndi hann frekar fækka þeim til þess að hafa betra rými fyrir þá sem eru aðeins "betri" en hinir?
Mér heyrist a.m.k. 7000 manns hafa gefið skýr svör um þetta í gær.
31,6% stuðningur við stjórnina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 22. nóvember 2008
Seðlabankastjóri mætti ekki í grjónagraut og slátur hjá SUF
Davíð Oddsson seðlabankastjóri mætti ekki í hádegisverð þann sem honum stóð til boða að þiggja í dag.
Það var samband ungra framsóknarmanna (SUF) sem sendi Davíð boð bréfleiðis í vikunni og bauð seðlabankastjóra upp á grjónagraut og slátur í hádeginu ásamt góðu skrafi um málefni líðandi stundar. http://www.suf.is/?i=49&expand=21-42-49&b=1,646,Fréttir.Birting
Það hefði nú verið smart hjá seðlabankastjóra að nýta sér þetta gullna tækifæri til þess að fá ókeypis hádegisverð í kreppunni. Hann er kannski ekki nógu vel að sér í sparnaði blessaður? Hann ætti kannski að líta á sparnaðarráð SUF á www.suf.is og fá líka góð ráð hjá íslensku þjóðinni sem verður orðin sérfróð um sparnað á næstu misserum.
Það sást af mótmælunum að það er kynngikraftur í íslensku þjóðinni um þessar mundir. Það er því ekki bara náttúruleg orka sem við eigum heldur ekki síður orku í þjóðinni sjálfri. Þarna talaði til dæmis ung kona (Katrín Oddsdóttir) sem var alveg frábær ræðumaður, þvílíkur kraftur! Maður fyllist alveg nýrri von fyrir hönd þjóðarinnar að sjá slíkan kraft.
Íslendingar láti ekki kúga sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 21. nóvember 2008
Samferða
Ég horfði á Kastljósið í kvöld af netinu. Eitt af því sem tekið var fyrir þar var að sýnt var frá mótmælunum síðustu vikur í nokkrum myndbrotum og undir ómaði lagið Samferða sem Mannakorn hefur gert frægt.
Ég heyrði þetta lag fyrst í mars á þessu ári. Kannski um það leyti sem íslenskum ráðamönnum var gert ljóst hvert stefndi fyrir íslensku efnahagslífi, hver veit? Kannski Davíð, hann virðist vita svo margt þessa dagana.
En ég lagði strax við hlustir við þetta lag og það heillaði mig alveg upp úr skónum. Söngur Pálma Gunnarssonar var góður og róandi en svo er það ekki síður textinn sem mér þykir ákaflega fallegur. Hann gæti ekki átt betur við en einmitt þessa daga. Ég hef munað þetta lag og það hefur ómað reglulega í höfði mínu á mili þess sem ég hef hlustað á það. Kannski annað en ríkisstjórnin sem virðist hafa bælt það sem hún heyrði niður í undirvitundina eða skellt við skollaeyrum, hver veit? Hún brást lítið við eða að minnsta kosti ekki með samráði og upplýsingaflæði til almennings og fulltrúa þeirra, þingheims. Hún hlýtur samt að hafa verið að reyna að gera sitt besta því það setur enginn heila þjóð á hliðina að gamni sínu. Hún hefur sennilega mislesið skilaboðin og styrk okkar til að takast á við vandann. Ofan á það skall svo þungi sem ekki var von á.
Verum samferða. Hvert sem liggur leið, gatan ófær eða greið...Við eigum bara þetta líf og betra að fara að lifa því. Við eigum eftir að ganga um ófæra götu næstu misseri og það verður erfitt. Mjög erfitt. Til þess að komast í gegnum skriðurnar þurfum við að lyfta hverju öðru. Létta undir með þeim sem eiga erfiðara um gang. Þannig komumst við saman á greiðari götu. Það kemur að því. Hvort sem við erum ESB sinnar eða ekki og hvaða pólitísku hugmyndir sem við höfum þá erum við öll manneskjur og Íslendingar og það gerir það að verkum að við eigum margt sameiginlegt. Því erum við hvert öðru góður ferðafélagi. Ef við göngum í takt, vinnum saman að ákveðnum grundvallar verkefnum en gefum líka hvert öðru frelsi til jákvæðra athafna með skýrar leikreglur þá erum við á góðri leið. Við skulum kanna hvernig leiðirnar sem okkur standa til boða líta út og taka ákvörðun um þá bestu í sameiningu. Meirihlutinn ræður og saman skulum við svo feta þann veg með heildarhag að leiðarljósi. Við skulum lifa lífi okkar hvers og eins til hins ýtrasta. Við fáum bara þetta líf, notum það vel.
Þegar ég horfði á myndina af mótmælunum þá fylltist ég stolti. Ég var stolt að sjá hvað fólki lætur sér annt um hvert annað og þjóðfélagið sitt. Stolt yfir því að fólk trúi á lýðræðið og skuli sýna það í verki á svo jákvæðan hátt án þess að allt fari úr böndunum. En ég varð líka ákaflega sorgmædd. Svo döpur að ég táraðist. Yfir því hvernig staðan er og hversu slæmt ástandið getur orðið á svo skömmum tíma og þeirri ósanngirni að langflestir hafa ekki unnið fyrir þessu. En þetta er ástand sem verður ekki breytt. Það sem skiptir máli núna er að vera samferða og greiða hverju öðru leið. Þannig hefst það! Eins og Margrét Lára Viðarsdóttir sagði í Ísland í dag þá er um að gera að berjast og gefast ekki upp og nota íþróttaandann okkur til hjálpar! :)
Ég hvet þig lesandi góður að gefa ókunnugum vegfaranda eitt ókeypis bros á dag alla daga. Það getur bjargað deginum manns að fá bros frá kunnugum sem ókunnugum. Ekkert er svo erfitt að ekki sé hægt að takast á við það samferða góðu fólki.
Góða helgi :)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Unglingar á Íslandi í slæmum vanda
Þetta er alveg hræðilegt að sjá þetta myndband. Það slær að manni óhug að sjá þetta.
Það er rík ástæða til þess að halda sérlega vel utan um börn og unglinga næstu misserin.
Greinilegt að mjög alvarlegir hlutir eiga sér stað. Ég tel það lýsa því að gerendur gera sér ekki grein fyrir alvarleikanum þegar þeir birta myndband um þetta á vefnum. Það er eins og þeir geri sér ekki grein fyrir því að þetta sé saknæmt.
Því miður sjá börn og ungmenni hryllilegt ofbeldi í sjónvarpi, tölvuleikjum og víðar og hafa ekki endilega þroska til þess að gera sér grein fyrir því að í raunveruleikanum geta til dæmis spörk í höfuð leitt til dauða eða lömunar. Þetta er samt ekki endilega bein orsök vandans heldur eru margir þættir sem valda slíkri hegðun.
Það er gott að taka það fram af gefnu tilefni að auðvitað er þetta mjög fámennur hópur barna og unglinga sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Flest börn og unglingar eru til stakrar fyrirmyndar og standa sig með prýði :). Hins vegar er átak hæstvirts menntamálaráðherra sem kynnt var í dag og birtist tvívegis á mbl.is jákvætt og góð forvörn.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/urraedi_um_salraenan_studning_vid_born_og_ungmenni/
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/11/20/farid_yfir_urraedi_um_salraenan_studning_vid_born_v/
Ekki veit ég hvers vegna þetta birtist 2 sinnum sama daginn, kannski hefur þetta farið óvart inn tvisvar eða er ástæða til þess að halda sérstaklega á lofti þessari góðu vinnu ráðuneytisins?
Gerðu myndband af líkamsárás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Kæri Davíð
Reykjavík, 20. nóvember 2008
Seðlabanki Íslands
b/t Davíð Oddsson
Kalkofnsvegi 1
101 Reykjavík
Kæri Davíð
Þú þekkir okkur sennilega ekki, en okkur finnst við sannarlega þekkja þig. Þú hefur verið fjölskylduvinur hjá okkur flestum síðan fyrir fermingu og við vöndumst því að hlusta á þig tala og hlæja og okkur finnst alltaf jafn heimilislegt þegar þú birtist heima hjá okkur. Um tíma óttuðumst við að það yrði minna um heimsóknir frá þér vegna þess að þú fékkst sjálfum þér nýja vinnu. En viti menn, þú varst samt alltaf til í að kíkja við hjá okkur með eitthvað nýtt og spennandi í pokahorninu, nýja stýrivexti, óreiðumenn eða annað skemmtilegt.
Okkur langar endilega til að bjóða þér í mat. Það kreppir nú að vísu að hjá okkur, en aldrei svo að við getum ekki boðið vinum okkar í mat og átt skemmtilegt spjall. Það er bara svo margt að skrafa.
Við heyrðum þig nefnilega segja svo merkilega hluti á þriðjudaginn. Þú sagðir okkur frá því hvernig þú hefðir nú séð þetta allt saman fyrir og reynt að vara alla við. Hvernig stendur á því að enginn hlustaði á þig? Eða, hvernig stendur þá á því að í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í maí, er ekki gerð grein fyrir þeirri stórhættu sem þú varst búinn að sjá. Hlustaði kannski enginn í Seðlabankanum á þig heldur? Við könnumst við þetta. Það er heldur ekkert oft hlustað á okkur Framsóknarmenn. En, hvað með vin þinn, Geir? Af hverju trúði hann þér ekki? Þú getur trúað okkur fyrir þessu, við skulum ekkert fara lengra með það. Við kjöftum ekki frá vinum okkar.
Annað sem við getum rætt er þetta með Bretana. Við urðum rosalega spennt þegar þú sagðist vita hvers vegna Bretarnir hefðu notað hryðjuverkalög á okkur Íslendinga. Urðum síðan pínu skúffuð þegar þú vildir ekki segja af hverju. Við þekkjum nefnilega fólk, nánar tiltekið 80.385 karla og konur, sem eru svo reið út af þessum prakkaraskap í Gordon Brown að þau skrifuðu sig á heimasíðu til að segja honum að við séum ekki hryðjuverkamenn. Þau langar örugglega öll að vita af hverju Gordon gerði þetta. Við vitum reyndar að svona merkilegir menn eins og þú vita fullt af hlutum sem venjulegt fólk má ekki vita. En þá var nú soldið ljótt af þér að segja okkur að þú vissir. Varstu kannski að monta þig?
Best fannst okkur samt að heyra að þú ætlar sko ekki að sitja sem bankastjóri ef í ljós kemur að þú hefur ekki staðið þig. Það er gott að vita að þú lætur þér ekki detta í hug að vera áfram bankastjóri ef sú staða kemur upp að enginn vill hafa þig. Það er karakter.
Það er svo margt, margt fleira sem þú sagðir í á þriðjudaginn sem okkur langar til að ræða við þig. Svo endilega láttu okkur vita hvenær þú getur kíkt við. Við verðum með opið hús fyrir þig og aðra áhugasama á Hverfisgötu 33 frá kl. 12 til 14 laugardaginn 22. nóvember nk. Fátt er betra en grjónagrautur og slátur í hádeginu.
Kær kveðja,
Ungir framsóknarmenn
Mikil óvissa um Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Jafnara samfélag, stuðningur við þá sem helst þurfa þess
Mig langar nú að byrja á því að benda þeim blaðamanni sem skrifaði þessa grein að hann er ekki alveg í takt við nútímann með því að nota hugtakið "fatlaðir" því eins og kemur fram réttilega á öðrum stað í greininni þá skiptir máli að fjallað sé um fólk með skerðingar fyrst og fremst sem fólk og er þá heppilegra að nota hugtökin fatlað fólk eða fólk með fötlun. Þetta undirstrikar þá hugsun að fólk sem skilgreint er sem fatlað sé fyrst og fremst fólk og manneskjur eins og hver annar og fötlunin sé ekki eitthvað persónueinkenni heldur aðstæður eins og til dæmis er fötlun að hluta til amk. sköpuð af umhverfi sem er ekki sniðið að öllum þegnum samfélagsins. Blindur maður er til dæmis ekki fatlaður þegar hann talar í síma.
Ég hef heyrt það skýrt og greinilega í gegnum tíðina að fólk sem hefur skerðingar og er þess vegna skilgreint fatlað vill fyrst og fremst vera fólk eins og hver annar og því leiðist óskaplega að vera skilgreint eftir fötluninni. Það er mikil ábyrgð að vera blaðamaður því þeir taka þátt í því að móta samtímamenninguna sem speglar og endurskapar oft röng viðhorf til dæmis um fatlað fólk sem byrði á samfélaginu eða einsleitan hóp fólks. Það mætti gagnrýna þessi skrif mín og segja að hér væri einmitt verið að sýna fram á röng viðhorf með því að fjallað sé um fatlað fólk á annan hátt því oft er jú talað um hóp fólks í einu orði eins og samkynhneigðir, bankamenn, framsóknarmenn... Það eru margar hliðar á þessu máli en aðalatriðið er að muna ætíð að öll erum við manneskjur fyrst og fremst og það er það sem sameinar okkur. Að vera endalaust að setja einhverja merkimiða á fólk getur verið óþarfi.
Við uppbyggingu þá sem nú þarf að fara í gang og verður næstu ár þarf að gæta vel að því að styðja best við bakið á þeim verst settu en alls ekki öfugt eins og tilhneiging hefur verið til. Það er því miður oft strengt á sultarólinni þar sem ekki er neitt spik upp á að hlaupa heldur nánast beinagrind. Það er nú staðreynd að undanfarin ár hefur sú arfavitlausa frjálshyggjustefna sem nú hefur blessunarlega strandað valdið því að hæst hafa skattarnir hækkað á þá lægst launuðu og þeir hafa lækkað á þá hæst launuðu. Hyggjuvitið segir mér að nú verði breyting þar á þar sem allsherjar stefnubreyting mun verða á þjóðinni allri. Þetta ætti að vera alveg öfugt og hærra frítekjumark er mjög heppilegt þar sem það nær best til þess hóps sem helst þarf á þessu að halda. Einnig ætti fólk sem er með tekjur frá Tryggingastofnun sem ættu að vera í samræmi við meðallaun að greiða í lífeyrissjóð eins og aðrir launþegar. Það er ekki spennandi fyrir fólk að engin breyting verði á högum þess sem er með örorku við 67 ára aldurinn heldur haldi hlutirnir áfram í sama gamla horfinu...
Það þarf að styðja sérstaklega við bakið á þeim sem verst hafa það því þeir hafa líka minnst upp á að hlaupa til þess að bregðast við óvæntum áföllum. Þannig getur kreppa á Íslandi þýtt fyrir eina fjölskyldu að hætta verður við að gefa öllum fjölskyldumeðlimum Range Rover jeppa í jólagjöf en hjá annarri getur hún þýtt að jólamaturinn og jólagjafir sé sótt til hjálparstofnana. Það er hins vegar ekkert nýmæli. Fyrir hver einustu jól hefur fólk staðið í biðröðum eftir slíku og fátækt er ekki ný af nálinni á Íslandi. Núna mun hins vegar sá hópur stækka.
Ég legg til að þeir útrásarvíkingar, banka- og peningamenn sem bera ábyrgð á því hvert við erum komin bæti ráð sitt til þjóðarinnar með því að í fyrsta lagi flytja allar eignir og tekjur sínar hingað til lands (upp í skuldir) og skrá allt samviskusamlega til skatts og í öðru lagi dragi úr eigin bruðli og láti góða summu rakna til þeirra stofnana sem sjá um aðstoð fyrir fátæka Íslendinga. Sjálfir ættu þeir kannski að taka þátt í úthlutun þá myndu þeir sjá raunveruleikann svart á hvítu. Og fyrst ég er byrjuð þá ætla ég að bæta Davíð og ríkisstjórninni á listann. Það eiga ekki allir einbýlishúsin sín skuldlaus á Íslandi eins og Geir H. Haarde hæstvirtur forsætisráðherra. Ætli jólasveinninn myndi uppfylla þessa ósk mína um að þessi hópur fólks taki þátt í jólaúthlutun og leggi helst til eitthvað af sínum eigin auðæfum? Hvar er Hrói höttur þegar maður þarf á honum að halda?
Þetta eru undarlegir tímar. Sjálf er ég námsmaður erlendis og óttast mikið það hvernig næstu mánuðir verða sér í lagi þegar krónan fer á flot. Nógu erfitt hefur ástandið samt verið. Það er bæði slæmt að þurfa að koma heim fyrr án lokins náms og hinn kosturinn að vera og þurfa að greiða hverja danska krónu margfalt að námi loknu verður líka ansi þungur baggi inn í framtíðina fyrir ungt fólk sem á eftir að taka á sig aðrar þungar byrðar.
Eftir því sem ég fylgist betur með Seðlabankastjóra og ríkisstjórn Íslands því minna botna ég í þessu fólki og því minna verða þau trúverðug í mínum augum. Ég hefði aldrei trúað því að stjórnvöld gætu orðið svo ófagleg eins og staðan er núna og svona langt úr takti við þann hóp sem þau starfa í umboði fyrir. Þau tala bara í hringi eins og hæstvirtur dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason gerði í viðtali sínu við Sölva Tryggvason í kvöld þar sem hann sagði í annarri setningunni að hann gæti ekki rætt málin vegna bankaleyndar en í hinni að hann væri auðvitað ekki bundinn af þessari bankaleynd! Það er nokkuð ljóst að það mun ýmislegt undarlegt koma úr pokahorni þessarar ríkisstjórnar ef öll kurl komast nokkurn tíma til grafar.
Fatlaðir gjaldi ekki fyrir kreppuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 19. nóvember 2008
Jafnrétti í Framsókn
Framsókn er sá flokkur sem hefur skarað fram úr í raunverulegu jafnrétti.
Framsókn treystir konum jafnt sem körlum.
Framsókn treystir ungu fólki til áhrifa.´
Þegar Framsókn var í ríkisstjórn gegndu jafnmargar konur ráðherraembættum og karlar og Framsókn átti á tímabili þrjá yngstu þingmenn landsins.
Núna eru fleiri konur í þingflokki framsóknarmanna en karlmenn. Það er merkilegur áfangi en ætti í raun ekki að vera neitt merkilegri en þó þingflokkinn skipuðu fleiri karlar.
Við nýja uppbyggingu þjóðfélagsins er mjög mikilvægt að allir hópar komi jafnt að áhrifum, konur, karlar, ungir, gamlir, og fulltrúar minnihlutahópa samfélagsins. Þannig fara fyrst jafnréttishjólin að snúast.
Það hefur líka sýnt sig að í þeim stjórnum þar sem konur sitja til jafns við karla þá er um meiri arðsemi að ræða.
Ég er ekki hlynnt því að konur séu teknar framyfir á einhverjum afslætti en ég trúi því staðfastlega að árangurinn verði betri ef allir aðilar komi jafnt að borðinu því karlar og konur hugsa ólíkt, ungir og eldri hugsa ólíkt og þannig verður niðurstaðan byggð á ólíkari rökum í stað einsleitrar hugsunar eins hóps. Það mætti stokka talsvert vel upp á Alþingi ef þingmenn ættu að gefa réttan þverskurð af samfélaginu. En þetta er vonandi í áttina. Að minnsta kosti hjá okkur framsóknarfólki.
Hlutfall kvenna á þingi komið í 36,5% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)