Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Góð ráð til að slaka á...

Kæru vinir,

andrúmsloftið er fullt af streitu, óreiðu og flóknum tilfinningum hjá mörgum.

Hér koma nokkur góð ráð til að taka sér smá frí frá þessu og slaka á:

  • Gott slökunarbað (ilmolía, kerti, góður drykkur, róandi tónlist, froða, nota ímyndunaraflið...).
  • Slökunartónlist er mjög máttug við öll tækifæri (t.d. Friðrik Karlsson).
  • Kertaljós er alltaf gott, sérstaklega í skammdeginu.
  • Seríur í gluggana og dempa birtuna.
  • Elda í rólegheitum heilnæman og góðan mat (t.d. allar uppskriftirnar frá Grænum kosti) og njóta hans svo vel. Muna líka að borða nóg af ávöxtum.
  • Hugleiðsla eða mindfulness (árvekni) æfing. Lokið augunum, hlustið á góða tónlist (eða ekki) og einbeitið ykkur að andardrættinum ykkar. Fylgist með súrefninu fara inn í líkamann alla leið djúpt niður í maga og svo út aftur. Leyfið hugsunum ykkar að fljóta og móttakið þær án þess að dæma þær en farið svo aftur í að einbeita ykkur að andardrættinum. Hugur okkar er máttugur og á það til að fara sínar eigin leiðir. Veltið fyrir ykkur hvaða hugsun það er sem skýtur upp kollinum þegar hugurinn fer af stað. Náið djúpri slökun og látið ekkert trufla ykkur. Þetta er góð leið til að slaka alveg á andlega og líkamlega. Líka gott að einbeita sér að því að vera til staðar hér og nú. Til dæmis ef þið eruð í baði einbeitið ykkur þá að nákvæmlega því og stýrið meðvitundinni þangað í stað þess að fara með huganum á flakk (fara t.d. að leysa verkefni dagsins í baðinu). Svo er líka hægt að borða eitthvað hægt og einbeita sér alveg að því, finna hvernig maturinn bragðast og njóta hans án þess að hugsa um nokkuð annað.
  • Farið í rólega gönguferð (ekki verra að fara einn) og njótið þess að horfa á umhverfið og hluti sem þið hafið ekki tekið eftir áður eins og til dæmis hversu fallegur nýfallinn snjórinn er eða laufið sem leggur sig að fótum ykkar.
  • Einnig getur verið mjög gott að koma sér vel fyrir og lesa góða, uppbyggjandi bók (t.d. bækurnar hans Dalai Lama ma. Betri heimur).
  • Við verðum að halda áfram og halda áfram að vera jákvæð, halda í vonina og trúa á okkur sjálf, æðri mátt ef það á við og trúa á betri heim. Hann er til en það er algjörlega í okkar valdi að kalla hann fram bæði hér og nú sem og í framtiðinni.
  • Einnig er góð líkamsæfing ein besta slökun sem völ er á. Maður slakar ótrúlega vel á eftir að hafa tekið vel á því.
  • Að vera í vatni er líka mjög heilnæmt og upplagt að nota okkar mögnuðu sundlaugar til að slaka á í.
  • Margt fleira sem hentar hverjum og einum, þetta voru aðeins nokkur ráð af ógrynni möguleika.

En rétt í lokin þá er það hugurinn og hvernig maður meðvitað stýrir honum sem skiptir öllu máli í því að ná að slaka vel á og gefa sjálfum sér andlega og líkamlega frí til þess að hlaða sig á ný. Við fáum aðeins einn huga og einn líkama og því er það fjárfesting í okkur sjálfum á hverjum degi að taka hvorugu sem sjálfsögðum hlut og fara með okkur sjálf sem okkar dýmætustu eign. Án huga eða líkama eru okkur engir vegir færir.

Farið vel með ykkur kæru vinir.


Hvað líður aðgengi almennings að sálfræðingum hæstvirtur ráðherra heilbrigðismála?

Þetta er ágætt framtak í heilbrigðisráðuneytinu því ekki er seinna vænna en í gær að fjárfesta í framtíðinni og auka arðsemi þjóðarinnar með því að stuðla að bættri heilsu hennar og þar af leiðandi betri virkni á atvinnumarkaðnum.

það eru flestir á því máli að hver króna sem sett er í forvarnir á öllum sviðum og verkefnum sem auka líkamlegt og andlegt atgervi skili sér margfalt tilbaka. Það er oft erfitt að mæla slíkt. Árangurinn getur falist í betri frammistöðu í starfi, færri veikindadögum og minni líkum á langtíma veikindum, bættu fjölskyldulífi sem hefur jákvæð áhrif á börnin sem þurfa þá minni stuðning í skóla og svona má skoða þennan jákvæða spíral lengi og á marga ólíka vegu. Spírallinn getur eins auðveldlega orðið neikvæður þar sem foreldri líður illa, frammistaða í vinnu versnar, hann veikist andlega eða líkamlega og fer í veikindaleyfi, slíkt hefur áhrif á alla fjölskylduna og svo framvegis...

Það væri samt gott að fá nánari útlistun á því hvernig á að framkvæma heilsustefnuna því stundum geta hinar góðu stefnur orðið að marklausum pappír ofan í skúffu ef ekki eru skýrar leiðir að þeim markmiðum sem á að ná sem eru skýrar og tímasettar með ákveðna ábyrgðaraðila.

Ég tel vera mjög mikilvægan þátt í heilsustefnu að auka aðgengi almennings að sálfræðingum. Það er sérstaklega mikilvægt í því umróti sem á sér stað í þjóðfélaginu og áhrifum þess sem munu koma fram á næstu fimm árum að minnsta kosti.

Það hefur því miður verið ríkjandi stefna á Íslandi að fólk sem tekst á við andleg veikindi eða raskanir eins og til dæmis þunglyndi og kvíða er vísað til lækna sem hafa tilhneigingu til þess að skrifa upp á lyf oftar en ekki og ekki er aðgengi að nógu fjölbreyttum meðferðum. Sálfræðingar eru sérmenntaðir í því að veita margar ólíkar meðferðir sem hafa gefið mjög góðan langtímaárangur og minni líkur á hrösun en lyfjameðferð gerir. Hins vegar er tilfellið oft að best sé að samtvinna slíka vinnu. Fyrir mjög marga er ekki möguleiki á vali um bestu mögulegu meðferðina þar sem þjónusta sálfræðinga er ekki niðurgreidd og því kostar einn tími hjá sálfræðingi talsvert fé sem er langt í frá á færi allra að greiða. Þetta er bæði að mínu mati mismunun á aðgengi að sérfræðingum sem og mismunun á starfsstéttum.

Það er bæði betra fyrir einstaklinginn og ódýrara fyrir samfélagið að fólk fái strax rétta klæðskerasniðna meðferð. Það er til dæmis svekkjandi fyrir samfélagið að standa straum af lyfjum sem eru ekki einu sinni tekin en slíkt er nokkuð algengt. Því þarf að hafa alla möguleika opna sem hjálpa hverjum og einum að líða betur og ná hámarksárangri í leik og starfi.

Í Bretlandi á sér stað mikil aðgerð sem felur það í sér að breska ríkið lagði fram 173 milljón pund til þess að greiða aðgengi að sálfræðingum og þjálfa upp sálfræðinga í hugrænni atferlismeðferð. 800 þúsund manns fá meðferð. Ef 400 þúsund þeirra, helmingur, sýnir fram á skilgreindan árangur þá mun breska ríkið setja slíkt á föst fjárlög eða greiða um 330 milljón pund á ári í verkefnið ef ég man rétt af ráðstefnunni sem þetta var kynnt á. Þetta miðast við meðferðir sem sýna fram á árangur og því munu fleiri meðferðarform einnig vera tekin inn í þetta.

Það væri mjög spennandi að fara af stað með slíkt á Íslandi. Að Ríkið greiddi niður meðferðir sem sýna fram á árangur (reyndar greiðir samfélagið margar læknisfræðimeðferðir sem sýna ekki fram á árangur í öllum tilfellum, bara sumum). Það er mun ódýrara með tilliti til þess að hver 100 þúsund kall sem nýttur er í slíkt skilar sér tilbaka til samfélagsins sem 240 þúsund kall (þetta kom líka fram á ráðstefnunni). Auðvitað verður að taka þessar niðurstöður með fyrirvara. Hins vegar eftir að hafa unnið sem stjórnandi þá tel ég þessar tölur ekki fjarri lagi. Það kostar mjög mikið fyrir Ríkið eða einkafyrirtæki þegar greiða þarf hvoru tveggja veikindalaun sem og að fylla upp í stöðuna tímabundið. Það er einnig mikið af kostnaði við þetta sem ekki er hægt að mæla t.d. áhrifum á aðra starfsmenn, líðan viðkomandi og áhrif á fjölskyldu hans. Það er því til MIKILS AÐ VINNA.

Tími Jóhönnu er kominn :) en hvað um sálfræðinga? Hvenær kemur tími sálfræðinga?


mbl.is Ný heilsustefna heilbrigðisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta stopp... framtíðin?

Það er gríðarlega mikið umrót í öllum heiminum um þessar mundir. Má þar nefna meðal annars nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Barack Obama er lifandi táknmynd mikilla og vonandi jákvæðra breytinga. Stefna hans byggir að mínu mati á samvinnuhugsjóninni, mannréttindum og virðingu fyrir jörðinni. Ég vona að hann standi undir væntingum mínum. Ég heillaðist af honum í Berlín í sumar og trúi á hann og því að við getum breytt heiminum. „Yes we can" (Já við getum)!

Á Íslandi hefur atburðarrásinni undið þannig fram að plægja þarf fyrir mun dýpri breytingum en nokkurn gat órað fyrir. Það gerðu sér fáir grein fyrir því hversu sýktur jarðvegurinn var orðinn hér á landi. Allir voru sáttir á meðan uppskeran var ríkuleg en segja má að þessi uppskera hafi verið álíka og plöntur ræktaðar á sterum. Núna er jarðvegurinn ónýtur og uppskeran brostin. Því þarf að plægja og skipta um jarðveg. Það þarf að sá framtíðinni. Stóra spurningin er bara, hvernig framtíð?

Til þess að vel takist til þarf að vanda til verka í alla staði. Mín tilfinning af því að fylgjast með fjölmiðlum er sú að of mikið sé leitað töfralausnar sem bjargar málunum hratt. Bundnar eru vonir við að þjóðin geti bara nánast í heilu lagi stokkið á einhvern vagn á fleygiferð inn í framtíðina án þess að þurfa að hugsa sig mikið um og velta því fyrir sér hvert ferðinni sé heitið. Ég tel ekki heillavænlegt að hraða sér um of. Stórar og afdrifaríkar ákvarðanir þarf að byggja á mjög vel ígrunduðu máli og í fullu samráði við alla aðila sem eru að fullu upplýstir. Til þess að sem best takist til þarf einnig að rannsaka gaumgæfilega af óháðum aðilum hvað fór úrskeiðis til þess að við lærum af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Eins og Kristjana Sigurðardóttir þroskaþjálfi (áður gæslusystir) á Kópavogshæli sagði eitt sinn á fyrirlestri fyrir starfsfólkið mitt á sambýlinu: „Við lærum af fortíðinni, lifum í nútíðinni og horfum til framtíðar". Þetta átti við um þjónustu við fatlað fólk. Hið nákvæmlega sama á við um efnahagslífið og stjórnkerfið á Íslandi. Við skulum læra af mistökum fortíðarinnar, lifa daginn í dag en hafa hugmynd um hvert og hvernig við ætlum að vera í framtíðinni.

Stjórnvöld á Íslandi þurfa að átta sig á því að öll þjóðin vaknaði á meðan ríkisstjórnin rumskaði af værum þyrnirósarsvefni. Lýðræði fékk nýja merkingu hjá þjóðinni sem stóð upp og sagði hingað og ekki lengra! Kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á stjórnkerfinu og skipulagi þjóðfélagsins. Þegar kerfið bíður skipbrot þá bera þeir ábyrgð. Ef þeir taka ekki ábyrgð á mistökum sínum virkar lýðræðið ekki sem skyldi. Þegar upp er staðið á þjóðin alltaf lokasvarið. Framundan eru því stór og mikil verkefni sem við þurfum að ráðast í sem þjóð. Verkefni um að kortleggja framtíðina eins og mögulegt er og vega og meta kosti og galla ólíkra leiða inn í framtíðina. Stjórnmálanna og kjörinna fulltrúa bíður það verkefni að finna sína leið að markmiðinu og vera í takt við þjóð sína í því verki.

Höfundur er nemi og í varastjórn SUF.

(pistill birtur í dag á www.suf.is)


Góða skemmtun í kvöld SUF-arar og eigið góðan fund kæru félagar :)

Óska öllum SUF-urum og öðrum sem ætla að skemmta sér með þeim góðrar skemmtunar í kvöld! Veit að það verður mikið fjör því það er alltaf gaman þar sem framsóknarmenn og framsóknarkonur koma saman Wink.

Óska einnig öllum félögum mínum góðs og málefnalegs miðstjórnarfundar á morgun.

Það væri nú ekki verra að vera á Ísalandinu fagra núna og geta verið með...

Kær kveðja og farið vel með ykkur um helgina.


Já, Sæll! Geir það ÞARF að ræða þetta eitthvað!

Ég trúi ekki öðru en ríkisstjórnin fari að fá afslátt af hurðum og eyrnatöppum svo dugleg er hún að nota slíkt að hún hlýtur að vera komin með magnafslátt!

Þjóðin er löngu búin að segja hingað og ekki lengra og óska eftir að fá upplýsingar um hvað gerðist og hvað er að gerast í þessum skrifuðu orðum en ríkisstjórnin heyrir illa þetta misserið eða felur sig í bakherbergjum.

Ég tek algjörlega undir með Siv Friðleifsdóttur þingmanni okkar framsóknarmanna um það að þingið verður að fá tækifæri til þess að ræða um Icesave áður en skrifað er undir eitt eða neitt. Á þingi sitja fulltrúar allrar þjóðarinnar og bæði þingmenn sem og þjóðin öll eiga FULLAN RÉTT á því að vita í öllum atriðum um hvað er verið að ræða og hvaða afleiðingar slíkt hefur fyrir framtíðina OKKAR.

Ég verð bara að segja það að ég skil ekki hvað Geir og Ingibjörg eru að gera og hvernig þeim dettur í hug að þau geti bara tilkynnt þjóðinni orðna hluti sem búið er að semja um í bakherbergjum. Ákvarðanir sem munu hafa gríðarleg áhrif fyrir hvert mannsbarn og framtíð okkar! Ég efa ekki að þau séu að leggja sig öll fram og á margt gott má benda sem þau eru að gera en það þarf hins vegar miklu meira til og ljósu punktarnir því miður allt of fáir þó maður reyni að sjá þá líka. Einn svartasti bletturinn á þeirra starfi er það ALGJÖRA ÓSAMRÁÐ sem verið hefur við þjóðina. Það gengur bara ekki lengur. Ekki í svona veigamiklu máli sem varðar hvert heimili landsins!

Já, sæll! ÞAÐ ÞARF AÐ RÆÐA ÞETTA GEIR OG INGIBJÖRG!

Svo er annað sem ég undrast mikið. Hvar er eiginlega hæstvirtur fjármálaráðherra landsins??? Hvernig stendur á því að hæstvirtur Árni M. Matthiesen hefur bara nánast verið ósýnilegur frá því að hrunið varð? Maður er nánast búinn að gleyma hvernig maðurinn lítur út. Er það ein taktík Sjálfstæðisflokksins til þess að reyna að Teflon húða sig frá þessu þar sem hann er lifandi mynd þess að þessi flokkur hefur farið með ráðuneyti fjármála síðastliðin 16 ár!!! Er vísvitandi verið að halda honum frá kastljósi fjölmiðlanna? Nei, núna er komið að því ótrúlega. Komið er upp mál sem er svo alvarlegt að ekki einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn getur Teflon húðað sig frá því og látið fituna leka yfir á samstarfsflokkinn. Fylgishrap þeirra ber því glöggt vitni að göt eru komin í Teflon húðina. Held reyndar að Davíð sé eitt af því.


mbl.is Alþingi fjalli fyrst um Icesave-samkomulag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig á að túlka þessa sögu?

 

Bóndi sem þurfti að selja fjóra hvolpa, hafði útbúið skilti og var að ljúka við að
negla það á girðingarstaur hjá sér, þegar togað var í samfestinginn hans.  
Þegar hann leit niður, horfðist hann í augu við lítinn strák, sem sagði -
"Heyrðu, mig langar að kaupa einn hvolpinn þinn"
Jæja sagði bóndinn og strauk sér um ennið - "Þessir hvolpar eru af góðu kyni og kosta talsvert"
Strákurinn hikaði smá stund, en stakk síðan hendinni djúpt í vasann
og kom upp með lófafylli af smámynt. Ég er með fimmtíuogníukrónur
- er það nóg til að ég megi skoða þá ? 
 
"Það ætti að vera í lagi" sagði bóndinn.  Að svo mæltu blístraði hann og um leið og hann kallaði -
" Hingað Dolly ! "  kom Dolly hlaupandi út úr hundahúsinu og ... 
 
...fjórir litlir loðnir hnoðrar eltu hana.
Augu stáksins ljómuðu - já bara dönsuðu af gleði
þar sem hann horfði á þá í gegn um girðinguna.
 
Þegar hundarnir nálguðust.....

tók strákurinn eftir því að eitthvað hreyfðist inni í hundahúsinu - síðan kom
enn einn lítill loðinn hnoðrinn í ljós og staulaðist í átt til hinna.  
Þótt þessi væri áberandi minni, gerði hann samt sitt besta til þess að halda í við þá.

"Mig langar í þennan" sagði strákur, og benti á litla garminn.
Bóndinn kraup við hlið drengsins og sagði. "Væni minn, þú vilt ekki þennan hvolp
Hann mun aldrei geta hlaupið og leikið við þig eins og hinir hvolparnir."
 
Strákur færði sig frá girðingunni, beygði sig og þegar hann bretti upp aðra buxnaskálmina,
komu í ljós stálspelkur, sem studdu sitthvorumegin við fótlegg hans og voru festar
við sérsmíðaðan skóinn.  
 
Sjáðu til, ég er ekki svo mikill hlaupari sjálfur og hann þarf á einhverjum að
halda sem skilur hann, sagði stráksi og horfði hann framan í bóndann.
Með tárin í augunum, beygði bóndinn sig eftir litla hvolpinum, tók hann varlega upp

og lagði hann af mikilli nærgætni í fang stráksins.

"Hvað kostar hann ?"  spurði strákurinn
   "Ekkert" svaraði bóndinn,
"Það kostar ekkert að elska"
 
Um allan heim er fólk sem þráir skilning ..................

Þessi saga hefur gengið á netinu. Hún er afskaplega falleg og segir manni margt. Til dæmis það hversu mikilvægt það sé að dæma ekki fyrirfram og að við séum öll ólík. Það sem stingur mig aðeins við söguna það er að bóndinn skuli hafa gefið drengnum hvolpinn. Er það bara af því að hann skildi hann svo vel og hugsaði svo fallega og bóndinn sá að hvolpurinn myndi hafa það gott hjá honum eða er að birtast þarna viðhorf um það að sá sem er haltur eigi að fá sérmeðferð og aumingjagæsku? Var þessi hvolpur eitthvað minna virði af því hann var haltur???

Af lestri mínum í fötlunarfræðum og kynnum við marga frábæra einstaklinga þá veit ég að slíkt viðhorf á ekki upp á pallborðið hjá mörgum. Það vilja fáir vera á einhverjum sérsamningi og fá hlutina gefins vegna skerðingar sinnar. Ég hef upplifað það sem stuðningur við fatlaða manneskju að fólk fái sérmeðferð... "æ, hún má bara eiga þetta... ""oh, en sætt!" og svo fram eftir götunum! Þetta var fullorðin manneskja en ekki barn en slíkt hefði alveg getað verið við hæfi ef um barn var að ræða. Það gæti því líka haft áhrif þarna að þetta var lítill strákur. Ef þetta hefði verið fullorðinn maður í sögunni þá hefðu þetta verið skelfileg skilaboð! En svona má túlka sögur á mismunandi vegu.

Hver og einn túlkar út frá sínum hugarheimi. Það sem ég vil leggja áherslu á er að það er ákaflega varasamt að fara út í aumingjagæskuviðhorf og ætla að vera svona góður sjálfur fyrir vikið. Prófaðu að snúa dæminu við og setja sjálfan þig í spor þess sem hlýtur slíka sérmeðferð og hugsaðu hvort þú myndir fíla það! Ég held að þeir sem hafa enga skilgreinda skerðingu og þarf af leiðandi flokkast til ófatlaðs hluta samfélagsins (þetta er nú mjög mikið skilgreiningaratriði...) séu oft særandi og meiðandi án þess að ætla sér það beint. Meina það vel en eru að endurspegla röng viðhorf. Í samfélagi okkar á fólk rétt á því að standa jafnfætis, alveg óháð atgervi sínu. Það er til dæmis óþolandi svona söfnunarsamkomur þar sem er verið að safna fyrir einhverjum málstað og hver "stjarnan" á fætur annarri kemur fram til þess að gefa vinnu sína handa þessu aumingja fatlaða fólki... og undir er spiluð jarðarfaratónlist! Svoleiðis ýtir bara undir þau viðhorf sem hagsmunahópar fatlaðs fólks eru að berjast á móti á hverjum degi.

Sagan er engu að síður falleg og eflaust bara jákvæður boðskapur sem fylgir henni þó það sé túlkunaratriði hvers og eins!


Mundir þú eftir að anda í dag?

Átti yndislegan dag í dag. Rölti í gegnum háskólagarðinn, settist á bekk og fylgdist með öndunum kvaka og fylgdist með laufunum falla hvert af öðru á ennþá grænt grasið. Þvílík friðsæld og ró.

Naut þess að anda að mér fersku Árósar haustloftinu inn og út og alveg djúpt niður í maga nokkrum sinnum. Það er ákaflega hollt og hressandi að anda djúpt að sér fersku lofti.

Breytti út af vananum og las á furðulega bókasafninu í dag, þessu sem oft er kallað "den store gule taarn" eða "stóri guli turninn". Á leið minni út sá ég fyrir tilviljun rekka með dagblöðum. Mér til ómældrar ánægju sá ég eitt afar kunnuglegt í hillunni. Á því stóð Morgunblaðið. Ég var ekki lengi að hugsa mig um og þreif bæði tvö og settist við djúpan lestur. Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en í sumar þegar ég var að koma úr vikufríi án dagblaða og horfði örvæntingarfull á flugfreyjurnar útdeila blöðunum hversu mikill fréttafíkill ég er í raun orðin. Þetta er víst einn af fylgikvillum þeirrar ánægju að hafa bullandi áhuga á pólitík. Ég naut þess vel að svala fíkninni í dag á svona óvæntan hátt en það er allt annað að lesa af blaði en tölvuskjá finnst mér. Allt önnur tilfinning.

Það rann hins vegar um sama leyti upp fyrir mér að það er erfitt að vera fjarri þegar slíkt dynur yfir þjóðina. Að upplifa þetta svona í dag gerði mér grein fyrir því að þrátt fyrir að fylgjast náið með öllu og finna fyrir hrikalegu gengi og fleiri afleiðingum þá er ég ekki í hringiðunni af þessu núna. En ólíkt þeim sem hugleiða að fara af landinu þá ætla ég að koma til landsins. Svona er ég nú oft öfugsnúin miðað við marga aðra.

Þessi frétt er sérstök. Það er dapurt að verða þess var að fólk skuli virkilega finna hjá sér þörf til þess að hlæja að grafalvarlegu ástandi okkar. Ástæðan hlýtur að vera að fólk gerir sér enga grein fyrir alvarleika vandans og úrræðaleysinu sem ríkir. Þetta er því miður enginn brandari. Það vildum við öll og þá myndum við hlæja saman dátt. Svo gott er það ekki því miður. Ég hef aðeins fundið fyrir svona húmor eins og einn kennari sem kallaði mig og skólafélaga minn "the evil Icelanders..." og rakti það að hann hefði tapað heilmiklum fjármunum útaf Íslendingum eins og við bærum ábyrgð á því. Danir hafa reyndar mjög mikinn húmor og ekki ber að taka þá of alvarlega.

Ég fékk hins vegar merkilegt augnatillit frá manni sem sá mig skila þessum tveimur Morgunblöðum í dag í rekkann. Ekki illt en svona sambland af forvitni og vorkunnartilliti. En ég brosti bara til hans. Hvað annað er hægt?

Ég hvet fólk til þess að breyta út af vananum. Farðu aðra leið, lestu á nýjum stað, sestu á fallegan stað og horfðu á fegurð dagsins og fegurð augnabliksins. Röltu um og hugleiddu og hreinsaðu þannig huga þinn. Síðast en ekki síst. Dragðu andann DJÚPT nokkrum sinnum á dag. Finndu súrefnið streyma alveg niður í maga. Það skiptir ákaflega miklu máli bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu. Brostu framan í vegfarandann. Það þurfa allir á því að halda þessa dagana að fá óvænt bros að gjöf. Síkt færðu oftast launað tilbaka. Það er greinilega mikil reiði í samfélaginu á Íslandi. Hún er fyllilega skiljanleg. Hins vegar er ágætt að muna það að reiði kemur manni ekki mjög langt. Hún kemur yfirleitt verst niður á manni sjálfum. Það er hins vegar nauðsynlegt að leyfa henni sem tilfinningu að flæða út en einbeita sér svo að jákvæðari hliðum í stað þess að festast þar. Þó að það sé klisja þá er samt sem áður mikilvægt að standa saman og styðja hvert annað á erfiðum tímum og horfa á allt það jákvæða sem er að finna allt í kring. Heimurinn hefur ekki breyst þó erfiðir tímar séu hjá okkur. Lífið heldur áfram sinn vanagang og það er ætíð okkar val hvaða viðhorf við tökum með okkur fram úr rúminu á morgnana og með hvaða gleri við sjáum tilveru hvers dags.

Við erum lítil þjóð en við erum ákaflega merkileg þjóð. Við höfum afrekað margt sem miklu stærri þjóðir hafa ekki afrekað og við höfum lifað af ótrúlega tíma langt út í hafi. Við höfum elju, dugnað og kjark og munum komast í gegnum erfiða tíma núna eins og oft áður. Við munum standa uppi sterkari og þá getum við hlegið dátt og glaðst að afrekum okkar á ný.

Rakst á nokkuð góða tilvitnun úr Gestaþætti Hávamála: "Auður er ótryggasti vinurinn sem þú getur eignast".


mbl.is Hlegið að óhamingju Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymdu ekki þínum minnsta bróður

Vissulega má segja að slíkt sé skiljanlegt.

Hins vegar má velta fyrir sér hvort forgangsröðunin sé í lagi hjá hæstvirtum utanríkisráðherra.

Hefði ekki mátt beita niðurskurðarhnífnum á fimari hátt? Til dæmis með því að sleppa því að skipa bestu vinkonu sína og samstarfskonu sendiherra? Einnig mætti taka öll sendiráðin til endurskoðunar með beittan niðurskurð í huga. Ég tel þar vera marga bita sem skera mætti betur niður í formi ýmiss konar óþarfa veisluhalda og bruðls fólks sem hefur meira en nóg utan á sér. Þar mætti byrja áður en farið er að skera niður til þeirra sem virkilega þurfa á aðstoð okkar í alþjóðasamhengi að halda.

Fólk sem sveltur daglega og hefur jafnvel þurft að horfa upp á börnin sín deyja úr hungri í fanginu á sér, fólk sem er á flótta, fólk sem er búið að missa allt sitt og á ekkert nema fötin sem það stendur í, fólk sem býr við stríðsógn daglega, hefur jafnvel horft upp á nánustu fjölskyldu myrta og aðrar hryllilegar hörmungar sem við á friðsælu Íslandi getum ekki ímyndað okkur. við berum ábyrgð gagnvart þessu fólki sem hefur það mjög slæmt og deilir þessari jörð með okkur. Öll erum við manneskjur og fæddumst hér með sama rétt og því skiptir gríðarlegu máli að forgangsraða vel og með mannúðarsjónarmið í huga.

Ég kíkti yfir á síðu Utanríkisráðuneytisins og fann bara nánast ekkert um þessa nýjustu skipun sendiherra. Kannski yfirsjón hjá mér en ef ekki þá er það í hæsta lagi undarlegt? Það eina sem ég fann er eftirfarandi klausa þar sem þessari spilltu skipun er troðið inn í setningu með öðru efni.

Þá hefur skipulag utanríkisráðuneytisins verið endurskoðað og öðlast breytingarnar gildi frá og með deginum í dag. Skrifstofur ráðherra og ráðuneytisstjóra hafa verið sameinaðar í því skyni að styrkja yfirstjórn ráðuneytisins og ná fram frekari hagkvæmni í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Skrifstofan heyrir undir ráðuneytisstjóra. Kristínu A. Árnadóttur sem skipuð hefur verið sendiherra hefur verið falið að stýra hinni nýju skrifstofu yfirstjórnar. (Tekið af http://www.utanrikisraduneyti.is/).


mbl.is Skiljanlegt að dregið sé úr þróunarframlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggjum í púkk fyrir framtíðarsýn og játning mín...

Eins og sumir hafa bent á hér þá er þetta sorgleg fyrirsögn og táknræn þó það sé viss tilviljun.

Ég ætla að taka hina táknrænu birtingarmynd upp um að framtíðarsýn okkar sé í greiðslustöðvun og leggja til að við leggjum í púkk fyrir nýrri framtíðarsýn.

Núna er tækifærið til þess að fá alveg nýja sýn á framtíðina og koma fram með nýja spennandi hluti sem ekki rúmuðust fyrir fílnum í stofunni (þeas. bankabissnessnum öllum)...

Við skulum frekar hafa marga fína stássmuni í stofunni dreifða um í mörgum hreiðrum í stað þess að leggja flest eggin okkar á bak fílsins þar sem þau brotna öll um leið og hann hreyfir sig og allt postulínið hrynur.

Verum því dugleg að taka virkan þátt í framtíðinni og framtíðarsýninni. Við erum öll upp til hópa svo miklir snillingar og allir luma á einhverju gulli sem hægt er að finna rétta hreiðrið fyrir. Þannig getum við flogið mót bjartari framtíð landsins til handa.

Ég hef aðeins verið að fylgjast með bloggsíðum og ein umræðan markaði mig. Þar er fjallað um að við höfum ekkert öll tekið þátt í þessu og fólk er leitt á þeirri umræðu að öll höfum við tekið þátt og öll berum við því ábyrgð. Ég er ein þeirra sem hef skrifað í anda þess síðara. Og þetta er bara rétt hjá fólki. Þetta er alhæfing. Það hafa ekkert ALLIR tekið þátt í þessu. Sem betur fer er bara til heilmikið af fólki sem hefur alveg verið með báða fæturna á jörðinni í góðærinu og ekki verslað sér hluti nema eiga fyrir þeim og verið ákaflega skynsamt í fjármálum. Fólk sem hvorki keyrir um á "Range Rover" (lesist sem "Game over") né hefur þakið veggina heima hjá sér með flatskjáum.

Ég hef ákaflega ríka ábyrgðarkennd og hef hugsað með sjálfri mér að ég beri nú fulla ábyrgð á þessu eins og aðrir... Svo fór ég að hugsa þetta aðeins betur... Ég á gamalt túpusjónvarp sem ég mun ekki henda fyrr en það andast. Ég á ekki bíl núna heldur grænt :) reiðhjól en átti góðan grænan :) bíl á Íslandi sem ég var nánast búin að greiða upp (skuldaði 400 þúsund í honum) og ætlaði mér að keyra alveg út og hirti hann mjög vel. Ég á orðið talsvert í íbúðinni minni (gæti breyst ef íbúðaverð hrynur) sem er með venjulegt lán á sér ekki myntkörfu og á alla búslóðina. Ég var búin að greiða upp yfirdrátt, er ekki með neitt á raðgreiðslum og fór út í nám með sjóð sem ást ansi hratt upp útaf genginu og er núna að lifa af námslánum. Ég er mjög nýtin að eðlisfari með fatnað, mat og annað. Ég geng enn í einstaka fötum sem ég átti þegar ég var 17 ára... og svona gæti ég haldið áfram... Ég er nú ekki mikið fyrir að skrifa svona persónulega um mig á opinni bloggsíðu en held að ég sé ágætis dæmi fyrir marga.

Hef ég því tekið þátt í sukkinu? Auðvitað hefði ég getað staðið mig betur í fjármálum. Maður getur alltaf gert betur! En þegar ég hugsa það þá held ég að ég sé bara á svipuðu róli og margir. Ég var ekkert að missa mig í lífsgæðakapphlaupinu og skuldsetja mig með erlendum lánum eða öðru upp í botn. Flestir í kringum mig eru á svipuðu róli. Bara venjulegt fólk sem hefur ekkert verið í neinu skýjabrölti heldur bara nokkurn veginn á jörðinni.

En...

Staðan er svona í dag. Því verður ekki snúið við. Því er ekki annað að gera en að leggjast á árarnar og róa í takt þrátt fyrir að hafa kannski ekki verið í þeim hópi sem götuðu bátinn. Ef maður ætlar á annað borð að vera á honum þá er staðan sú að BEST er að fólk hjálpist að. Þannig er það með öll slys að samstillt átak þarf til að vel gangi á slysstað óháð því hver olli slysinu (það þarf að gera upp síðar) og svo þarf mikinn kraft til þess að byggja upp úr rústunum. Það sem vantar á þennan slysstað er mjög afgerandi leiðtogi sem stýrir aðgerðum og verkstýrir vinnuflokkunum. Einhver sem hefur yfirsýn og sér fyrir sér hvernig þurfi að hreinsa upp og hvernig staðurinn muni líta út að einhverju leyti að uppbyggingu lokinni. Upplifun mín er sú að margir ólíkir verkstjórar eru að reyna að vinna hver með sínum hætti. Það er langt frá því að vera til gagns. Einnig vantar öfluga upplýsingamiðlun til hverrar handar sem hjálpar til við hreinsunarstarfið (fjölmiðlar á Íslandi eru ekki í nógu góðum málum að mínu mati) og verkstjórarnir á staðnum eru ekki í nógu góðum takti við hvern annan.

Ég bið fólk að kveikja á kerti og tendra sína eigin framtíðarsýn (ekki bíða eftir því að aðrir kveiki hana fyrir þig) og sameiginlega framtíðarsýn fyrir okkur sem þjóð á fallega landinu okkar Íslandi. Saman getum við svo mótað okkur góðan veg til bjartari framtíðar.


mbl.is Framtíðarsýn í greiðslustöðvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk Pólverjar :)

Já maður veit hverjir eru sannir vinir þegar maður lendir í neyð. Ég legg út frá því að þetta lán sé veitt í fyllstu vinsemd en ekki annað búi undir. Hið sama á við um stórvini okkar Færeyinga sem manni þykir nú ákaflega vænt um fyrir frumkvæði þeirra.

Þetta er svolítið óþægileg staða. Það er búið að ganga á svo gríðarlega miklu og maður er fyrir löngu síðan týndur í þokunni sem Geir er að reyna að stýra skútunni í gegnum. Vitinn sem hann er að stýra á er eitthvað ansi óljós vægast sagt. Ég held að fólk hafi ekki alveg verið með honum á þessari skútu því það hafi ekki vitað hvert stefnan væri. Þegar hann veit ekki af láni en veit það svo með nokkurra klst. millibili þá er það ekki alveg til þess að auka traust manns á leiðtoganum. Hann er samt eflaust að gera sitt besta í mjög mjög flóknum aðstæðum. Ég fékk til dæmis námslánin mín áðan og hef getað notað kortið mitt þannig að eitthvað er að minnsta kosti að virka fyrir mig persónulega :).

Nú treysti ég því að þeir félagar standi við stóru orðin varðandi það að allir sitji við sama borð og að ítarleg rannsókn fari fram (af ÓHÁÐUM jafnvel erlendum aðilum) því það er ekkert smáræði búið að ganga á í efnahagslífinu á Íslandi. Það hafa ýmsir ljótir hlutir verið að skjóta upp kollinum og þá þarf að rannsaka alveg ofan í kjölinn eins og afskriftir skulda og menn að flökta með kennitölur. Það er nú einhvern veginn þannig að græðgin og siðferðið eru ekki systur, þvert á móti. Skynsömustu menn virðast alveg missa siðferðiskenndina og heilbrigða skynsemi þegar glittir í gull hinum megin regnbogans. Einhvern veginn læðist að manni sá ljóti grunur að hinir sömu athafnamenn hafi verið iðnir við að leita leiða til að grafa gullið á suðrænum ströndum. Aðrir hika ekki við það að hrista fram gullkistur úr erminni til þess að auka enn fremur á einræði sitt á fjölmiðlamarkaði.

Það getur bara ekki verið gott! Fjölmiðlar eru ekki að ósekju oft sagðir vera fjórða valdið og því með fátt eins mikilvægt og þá að tryggt sé mjög dreift eignarhald (ríkis og eða einkaaðila) þannig að fyllsta hlutleysis og faglegrar fjölmiðlunar sé gætt. Því miður hefur maður upplifað það á eigin skinni hvernig frásögn af ýmsum atburðum er oft í takt við hvaða fjölmiðill flytur hana.

Það er harður vetur framundan.

En við munum finna vitann okkar á endanum og komast í örugga höfn. Hins vegar getur hvorki Geir eða annar stýrt okkur einsamall þangað. Það þarf samræmt afl allra í samfélaginu til þess að sú lending í góðri höfn verði sem heillavænlegust.

Góða helgi kæru vinir.

Farið vel með ykkur og njótið alls hins besta í lífinu um helgina og leyfið ykkur að gleyma áhyggjum um stund. það er svo margt í lífinu sem er hægt að njóta sem kostar hvorki krónu, evru, norskra krónu, eða hvað það nú er...


mbl.is Geir staðfestir pólska aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband