Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 10. október 2008
Góð geðheilsa er gulli betri!
Í dag 10. október er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn. Heimasíða hans er hér: http://www.10okt.com/
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn hefur sjaldan eða aldrei átt eins mikið erindi við okkur Íslendinga og einmitt í dag! Núna þurfum við öll að snúa bökum saman, styðja hvert annað eftir fremsta mætti og vernda geðheilsu okkar sem og þjóðarinnar allrar. Stjórnvöld þurfa að bregðast við þessum þætti með áhrifaríkum hætti því það mun verða ríkari þörf á félagslegri þjónustu og stuðningi á næstu misserum. það sem sveitarfélög og ríki þurfa m.a. að gera er:
- Efla félagsþjónustusvið sveitarfélaga og þjónustumiðstöðva
- Efla heilbrigðisþjónustu geðsviða spítalanna og heilsugæslustöðva
- Niðurgreiða sálfræðiþjónustu í gegnum Tryggingastofnun
- Efla Lýðheilsustöð, sérstaklega Geðræktarverkefnið og beina sjónum sérstaklega að öllum þeim góðu hópum og stofnunum sem unnið hafa að geðrækt síðustu árin
- Fara inn í skólana og ræða málin við skólabörn á léttum nótum til að létta af áhyggjum þeirra
- Fara inn á vinnustaði til þess að gefa fólki í atvinnulífinu kost á að ræða málin og létta á áhyggjum sínum
- Auka aðgengi að neyðarþjónustu t.d. þeirri sem Rauði Krossinn hefur verið að veita
- Og margt margt fleira...
Við þurfum að halda upp á hann hvert og eitt okkar og ég hvet einnig alla til þess að taka þátt í dagskránni:
Dagskrá Geðheilbrigðisdagsins fer fram í Perlunni kl. 16 - 18 föstudaginn 10. október og hefst hún með ávarpi forseta Íslands hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem jafnframt er verndari dagsins. Þá mun formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, Jórunn Frímannsdóttir kynna stefnu borgarinnar í geðheilbrigðismálum en borgin tekur við þessum málaflokki af ríkinu um næstu áramót. Dagskráin í Perlunni verður að öðru leyti sambland skemmtiefnis og erinda sem tengjast málefni dagsins. Samhliða dagskránni munu samtök notenda og ýmsir aðrir aðilar sem tengjast geðheilbrigðismálum, kynna starfsemi sína. Fulltrúar þeirra verða með kynningarbása og svara fyrirspurnum. Framgangur dagskráinnar verður með eftirfarandi hætti:
- 16:00 Setningarávarp Forseta Íslands
- 16:10 Kársneskórinn syngur nokkur lög
- 16:25 Ósk Sigurðardóttir yfiriðjuþjálfi frá Barna og unglingageðdeild LSH fjallar um félagsþroska barna og yfirskrift dagsins.
- 16:35 Stefanía Svavarsdóttir sigurvegari í söngvakeppni Samfés árið 2008 kemur fram við undirleik Gunnlaugs Bjarnasonar.
- 16:45 Jórunn Óskarsdóttir sálfræðingur hjá Götusmiðjunni ræðir um gildi samverunnar og starf Götusmiðjunnar.
- 17:00 Spunaatriði frá Leiklistardeild MH.
- 17:15 Valgeir Skagfjörð frá Regnbogabörnum fjallar um andstæðuna við uppbyggilega samveru, þ.e. einelti.
- 17:30 Elín Eyþórsdóttir singur lög af nýrri plötu sinni.
- 17:45 Jórunn Frímannsdóttir Formaður Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, fjallar um stefnu borgarinnar í kjölfar yfirfærslu geðheilbrigðismála frá Ríki til Borgar.
Kynnir verður Felix Bergsson (sjá nánar á síðu geðræktardagsins kynnt hér að ofan).
Hið eiginlega gull okkar er geðheilsan. Hún er kjarninn í okkar lífi og skiptir öllu máli.
Til hamingju með geðheilbrigðisdaginn .
![]() |
Forseti Íslands opnar geðheilbrigðisdaginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. október 2008
Geir: nú verður að verkefnastýra hverjum manni á bátnum og nota alla!
Nú verður ríkisstjórnin að nota hvern einasta þingmann hvort sem hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu og hvern einasta embættismann til þess að hjálpast að við að róa og stýra þjóðarskútunni.
Nú verða stjórn og stjórnarandstaða að vinna saman sem eitt lið að sama verkefninu! Það þarf að verkefnastýra nákvæmlega hver gerir hvað því verkefnin eru ærin.
Ekki nóg með að eiga við allt það umrót sem orðið hefur í innviðum þjóðfélagsins heldur þarf líka að eiga við umrót utan við það sem hefur mikil áhrif á innviðina. Það þarf líka að fara út á meðal fólksins í landinu og tala við það, efla samstöðu og veita stuðning til þjóðar sem er óttaslegin og hefur ekki fullar forsendur til að átta sig almennilega á hvað er að gerast.
Nú þarf öfluga verkefnastjórnun og markmiðasetningu til þess að eins vel sé staðið að málum og mögulegt er í þeim brotsjó sem gengur yfir. Og þá þarf að nota hvern einasta mann á bátnum, við höfum bara ekki efni á öðru en að allir séu nýttir!
Nú þarft þú að nýta alla kjörna fulltrúa þjóðarinnar Geir, þjóðin á það inni hjá þér.
![]() |
Lífverðir gæta Geirs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. október 2008
Allt það besta í lífinu er ókeypis!
Það veitir ekki af að horfa á jákvæðu hliðarnar þessa stundina og reyna að ná fókus á heildarmyndina. Peningar eru langt frá því að vera það mikilvægasta í lífinu fyrir utan það að vera tákn fyrir það að eiga í sig og á. Það er fyrst og fremst hlutverk þeirra og það hlutverk þarf að vera í lagi. Að öðru leyti geta þeir ekki keypt hamingju fyrir okkur. Þennan pistil skrifaði ég á síðu ungra framsóknarmanna í vikunni http://www.suf.is/
Allt það besta í lífinu er ókeypis
Allt síðastliðið ár hafa óveðursskýin verið að hrannast upp í kringum okkur Íslendinga sem eigum eitt fallegasta land í heimi og erum ein auðugasta þjóð heims. Fyrir því eru margar ástæður, meðal annars: átta- og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda og Seðlabanka til þess að bregðast við erfiðum aðstæðum, órói og hamfarir í alþjóðlegum fjármálakerfum og niðursveifla eftir mikla uppsveiflu. Ástandið er grafalvarlegt og í hugum sumra blasir jafnvel við atvinnuleysi, gjaldþrot og svartnætti. Kvöldið sem forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína og markaði þannig upphaf haustþings fór að snjóa úr óveðurskýjunum og íslenskt efnahagslíf fennti nánast í kaf. Í slíku árferði er erfitt fyrir hjól atvinnulífsins að snúast vegna frosts og allur hiti fer smám saman úr kerfinu. Það dregur úr öllum umsvifum sem hefur svo margfeldiáhrif og eykur enn fremur á kuldann í samfélaginu. Ég gæti skrifað langan pistil um þetta ástand og rætt tillögur að aðgerðum. Hins vegar eru margir að skrifa og skrafa um það þessa dagana og ég ætla að setja upp önnur gleraugu til þess að skoða málið. Ég ætla að skoða ástandið frá sjónarhóli þjóðarsálarinnar og þrátt fyrir að það hafi verið erfitt þá ætla ég að setja upp bjartsýnisgleraugun í þessum pistli og sjá sólina að lokum bræða snjóinn. Slíkt viðhorf er algjör nauðsyn í þeim dimma dal sem við erum að fara í gegnum sem þjóð þessa dagana.
Núna þurfum við að staldra aðeins við og draga djúpt andann. Til þess að komast í gegnum skaflana þurfum við að vera vel búin. Eitt beittasta verkfæri okkar er hugarfarið og viðhorf til ástandsins. Með réttu hugarfari fáum við kraft til þess að takast á við þau krefjandi verkefni sem blasa við. Með sífelldri neikvæðri umræðu og svartsýni þá sitjum við föst og spólum okkur dýpra ofan í hjólfarið. Það er nú þannig að öll él birtir upp um síðir. Þegar það gerist þá verður birtan einhvern veginn bjartari og tærari en manni fannst hún áður vera og umhverfið fallegra. Maður fer allt í einu að sjá hluti sem maður var fyrir löngu síðan hættur að sjá. Snjóinn mun leysa og það mun vora og birta upp á Íslandi á ný. Það er bara tímaspursmál hvenær og þar höfum við sem þjóð heilmikil áhrif á gangverk náttúrunnar. Við erum sterk þjóð með sterka sál sem erum vön að standa af okkur illviðri og rammgerða náttúru með sínum ófyrirsjáanlegu hamförum.
Með jákvæðnisgleraugun á nefinu þá sér maður ýmislegt áhugavert. Til dæmis það að allt það besta í lífinu er ókeypis! Það er gott veganesti í þá för sem bíður okkar næstu mánuði. Við höfum ýmislegt að ylja okkur við á leiðinni. Sumir hafa farið heilan hring allt frá gríðarlegum auðæfum til bláfátæktar til þess að átta sig á þessari staðreynd. Sönn ást er eitt það eftirsóknarverðasta í lífinu og slíkt þrá allir, bæði að gefa hana og þiggja hana. Hún er ókeypis. Hamingjan fæst hvorki keypt fyrir krónu eða evru. Það skiptir engu máli hvað maður á margar glæsikerrur, stórar hallir eða fer í margar veislur þar sem borðin svigna undan veigunum, maður upplifir ekki sanna hamingju við það. Að elskast með ástinni sinni með góðu og innilegu kynlífi er gjaldfrítt. Að eiga sanna vináttu er ókeypis og að sýna öðru fólki umhyggju. Það kostar ekki neitt að njóta einstaks augnabliks sem maður sjálfur velur úr. Það getur verið til dæmis að standa á toppi fjalls og teiga tært vatn um leið og horft er á undurfagurt útsýnið, að ganga berfættur um á ströndinni og daðra við sjóinn, að horfa á fegurð rósanna í garðinum, að heyra barn hlæja innilega, að taka utan um góðan vin eða elskhuga, að leyfa vindinum að leika um sig og sólinni að kyssa sig, að dansa og syngja eins og manni lystir og horfa á Norðurljósin alla nóttina. Eitt það mikilvægasta er að deila þessu með þeim sem skipta mann mestu máli í lífinu og skapa minningar. Það er ekki hægt að kaupa minningar, maður verður að skapa þær sjálfur og enginn getur tekið þær eignarnámi. Maður má aldrei nokkurn tímann gleyma því að líf okkar hér á jörðinni er stórkostleg gjöf, þvílíkt tækifæri og ævintýri frá upphafi til enda og þessa gjöf eigum við að þakka á hverjum degi. Sum okkar fá aðeins stuttan tíma hér og því ber manni skylda til að taka lífinu sjálfu aldrei sem sjálfsögðum hlut. Að vera heilsuhraustur og eiga góða að er það mikilvægasta af öllu. Maður á að setja sjálfan sig í fyrsta sæti og heilsuna, svo fjölskylduna og vinnuna í það þriðja.
Fyrir nokkrum árum síðan ferðaðist ég í rúmlega þrjá mánuði um Asíu. Það sem ég mun aldrei gleyma er að upplifa alla þá hamingju, orku, gleði og bros sem ég sá skína úr ótalmörgum andlitum. Þarna sá ég fólk sem átti ekkert efnislegt en átti samt allan heiminn í hendi sér. Þetta var fólk sem kunni að meta einfaldleika lífsins og kunni að njóta þess sem skiptir máli sem er náttúran, hvert annað og lífið sjálft, órafjarri hlutabréfamörkuðum eða ofneyslu hins útþanda Vestræna samfélags.
Við erum hins vegar Íslendingar. Við erum þjóð sem vaxið hefur upp úr sárafátækt. Á meðan Danir voru að byggja dómkirkjur þá bjuggum við í moldarkofum. Við áttum ekki einu sinni okkar eigið sjálfstæði. Það vakti athygli mína í ræðu forseta vor, Ólafs Ragnars Grímssonar, við þingsetningu þegar hann minnti fólk á að halda 17. júní og 1. desember hátíðlega. Fagna þeim mikla sigri sem við höfum unnið. Fagna sjálfstæði okkar sem við erum farin að taka sem gefnum hlut í dag. Við megum aldrei gleyma rótum okkar og því sem forverar okkar hafa lagt á sig til að koma okkur þangað sem við erum í dag. Við þurfum að standa dyggan vörð um það sem hefur áunnist og heiðra framtíðina. Ég held að snjórinn sem umlykur okkur núna muni kenna okkur mikið og við eigum að nýta þennan vetur og efnahagshamfarir dagsins í dag til þess að læra og eflast. Við getum orðið mun sterkari þjóð þegar vorið kemur og við náum jafnvægi á ný. Þjóð sem er reynslunni ríkari og tekur ekki velsæld og ríkidæmi sem sjálfsögðum hlut en hefur líka fengið tækifæri til þess að endurskoða gildismat sitt og leggja nýjar áherslur. Við fórum fram úr okkur, fengum hálfgerðan sólsting í góðærinu en erum nú að horfast í augu við napran veruleikann og þurfum að vinna okkur upp við nýjar og breyttar aðstæður. Við erum sem betur fer snillingar í því að bregðast hratt við á sveigjanlegan hátt með alla okkar harðgerðu frumkvöðla og erum reynslunni ríkari í dag en í gær.
Hvað er það sem mun svo skipta mestu máli kvöldið sem maður kveður þetta líf og rifjar upp ævintýrið sem lífið bauð upp á og les í huganum ævisöguna sem maður skrifaði sjálfur jafnóðum á leiðinni? Hefði maður viljað eyða meiri tíma í það að sitja á skrifstofunni og vinna fyrir hlutum sem maður hélt að maður yrði að eignast til þess að ganga í augun á fólki sem skipti mann hvort eð er engu máli eða er það að hafa notið hvers einasta augnabliks, einfaldleika lífsins og metið það sem stórkostlega gjöf í faðmi fólks sem skipti okkur öllu máli? Að hafa notið alls þess sem er ókeypis í lífinu en samt það verðmætasta af öllu.
Sjáum sólina á bakvið skýin, bræðum snjóinn, brunum upp úr hjólfarinu og sköpum okkur bjarta framtíð sem sterk þjóð með heilbrigð viðhorf og leggjumst öll á árarnar til þess að koma þjóðarskútunni áfram. Það er heillavænlegra en að slegist sé á henni á meðan hún rekur stjórnlaust áfram eins og sumir áhrifamenn þjóðfélagsins hafa stundað undanfarið. Við berum öll sameiginlga ábyrgð á okkar velferð. Njótum alls þess besta í lífinu. Við höfum öll efni á því ef við ræktum hugarfarið og temjum okkur jákvæð viðhorf. Við erum Silfurþjóðin, smáþjóðin sem sigraði stórþjóðirnar með glæstri för á Ólympíuleikana. Rifjum upp andann sem sveif yfir vötnum í ágúst síðastliðnum þegar hetjurnar okkar komu heim. Við erum stærsta þjóð heims og getum allt sem við ætlum okkur. Þessa raun munum við komast í gegnum og við munum hljóta að launum gríðarlegan lærdóm og uppstokkun á okkar lífsgildum og framtíðarsýn.
![]() |
Ekki bara hryðjuverkalög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. október 2008
Takk Færeyingar
Maður veit hvaða vini maður á þegar upp koma erfiðleikar og úr hverju vinir manns eru gerðir. Það hef ég nú sjálf upplifað að ótrúlegasta fólk sýndi ótrúlega hegðun bæði jákvæða og neikvæða þegar ég gekk persónulega í gegnum áfall.
Þetta er aðeins annað viðmót hjá Færeyingum en gulu pressunni hjá Danmörku. Ef þið hafið áhuga getið þið litið á meðfylgjandi grein í Extra blaðinu.
http://ekstrabladet.dk/nationen/article1067920.ece
![]() |
Vinarkveðja frá Færeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. október 2008
Danske bank búinn að loka á okkur?
Þetta er núna á forsíðu heimabankans hjá mér:
Overførsler til/fra Island.
Danske Bank koncernen udfører ikke længere betalinger til og fra Island på grund af den nuværende økonomiske situation i Island.
Vi beklager de gener, det giver.
Ég verð nú bara að segja það að nú fékk ég enn einn stinginn í magann... úff!!!
Við getum sem sagt hvorki sent pening til Íslands eða fengið pening frá Íslandi. Ég trúi ekki öðru en þetta sé aðeins rétt á meðan allt fárviðrið gengur yfir því annars erum við komin í gríðarleg vandræði ef við getum ekki tekið við námslánum okkar hingað út. Eina leiðin sem ég sé er þá að taka pening út af íslensku krítarkorti sem alls ekkert allir eru með og þá veit maður ekkert hvaða gengi maður er að fá peninginn á en maður veit að það gengi er hátt :(
Ja hérna hér...
Ég skrifaði pistil á SUF www.suf.is á þriðjudaginn um það að allt það besta í lífinu sé ókeypis. Það er mikið rétt en hins vegar verður fólk þrátt fyrir það að geta borgað reikningana sína og borðað...
Þetta er ekki nógu gott.
![]() |
Gengistryggð lán verði fryst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. október 2008
Það verður að huga að þeim sem byggt hafa upp landið
það er mjög mikilvægt að stjórnvöld hugi sérstaklega að elstu kynslóðinni okkar sem hefur núna farið nánast heilan hring.
Fólkinu sem byggði upp landið.
Þetta fólk hefur lagt til hliðar til efri áranna og það getur ekki talist sanngjarnt að lífeyrir þeirra skerðist og sparifé tapist.
Ég væri að minnsta kosti tilbúin til þess að lifa við nauman kost í nokkurn tíma til þess að verja þennan hluta þjóðarinnar sem á ekki skilið þennan skell. Ekkert okkar á það auðvitað skilið en flest okkar sem erum yngri höfum tækifæri til þess að fylgja eftir þeirri uppbyggingu sem verður í kjölfarið og byggja undir okkur á ný.
![]() |
Milljarðar í súginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. október 2008
Allt er þegar þrennt er
Jæja maður vaknar við enn eina martröðina enn einn morguninn. Hvar tekur þetta enda?
Maður spyr sig bara að því hvað kemur næst og hvaða áhrif mun þetta hafa?
Þetta er eins og spilaborg sem hrynur í takti við dómínó kubba.
Þegar þetta endar allt saman þá munum við byggja þetta upp að nýju. Til þess eigum við mikla frumkvöðla, gríðarlega reynslu og kraft. Þá munum við búa vel að þeirri sársaukafullu reynslu sem við erum að ganga í gegnum núna og byggja upp miklu betra samfélag fyrir framtíðina og komandi kynslóðir.
Það er hins vegar mikilvægt á næstu dögum, vikum, mánuðum og árum að nota öll okkar verkfæri til þess að efla okkur eins og mögulegt er og hlúa að þjóðinni í sárum sínum.
Ég tel að ríkið þurfi að huga verulega að því á næstunni að nýta vel þann mannauð sem við búum yfir. Það mun á næstu misserum verða mikill þungi á allri félagsþjónustu í landinu bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Ég tel að nú þurfi að hugsa sérlega að því að koma sálfræðingum inn í félagsþjónustuna og heilbrigðiskerfið. Það þarf að greiða aðgengi almennings að sálfræðingum. Hefði átt að vera löngu komið en nú verður að bregðast strax við. Það á að skapa aðgengi að öllum sáflræðingum landsins! Ekki er vanþörf á því og slíkt mikilvægt til þess að vandinn verði ekki meiri en þörf er á. Einnig þarf að veita fólki fjármálaráðgjöf og á síðunni sem Jóhanna og félagar eru að setja upp er mikilvægt að góðar fjárhagsleiðbeiningar verði og heimilisbókhald.
Tek nú bara undir orð þeirra á Bylgjunni í "Ísland í bítið" að það mun þó enginn geta tekið af okkur útlitið .
![]() |
FME yfirtekur Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 8. október 2008
Millifærslan tók 5 daga...
Þetta blasti við þegar ég fór inn á netbankann minn í Danske Bank áðan:
Overførsler til/fra Island.
Danske Bank koncernen behandler overførsler til og fra Island enkeltvis på grund af den nuværende økonomiske situation i Island. Berørte kunder bliver orienteret, hvis betalingen forsinkes eller ikke gennemføres.
Ég var að fá námslánin mín fyrir þennan mánuðinn en það tók 5 daga að fara í gegn (það hefur áður tekið frá nokkrum klst. til 2 daga hjá mér) og þakka ég mínum sæla fyrir að þau skyldu bara á annað borð komast í gegn til þess að ég þurfi ekki að fara bara með bauk líka niður í bæ að safna í ... Ef það hefði ekki gengið hefði eina leiðin verið að taka út pening úr hraðbanka á Landsbanka kreditkortið mitt (sem er spurning hvort virkar) og þá væri nú áhugavert að vita hvað ég væri að borga fyrir dönsku krónuna!
Já það er ekkert sældarlíf að vera Íslendingur í útlöndum í dag. Traustið er bara alveg farið og maður finnur það því miður á eigin skinni í samskipti við þjónustufulltrúann hér úti eins indæl og hún hefur nú verið allt síðasta ár. Ég á líka yndislegan þjónustufulltrúa í Landsbankanum sem ég vona svo innilega að sé örugg í sínu starfi og nú mun íbúðalánið mitt flytjast yfir á Íbúðalánasjóð væntanlega. Ég þakka innilega fyrir Íbúðalánasjóð og starf okkar Framsóknarmanna við að koma honum á fót og vernda því 90% þjóðarinnar þótti vænt um hann áður ef ég man rétt og ég er nokkuð viss um að nú er það nánast öll þjóðin! Hann er akkeri í ólgusjónum!
Þrátt fyrir svona óskemmtileg óþægindi og að sjá kannski fram á það að þurfa að labba af því maður á ekki í strætó eða að þurfa að skrapa eitthvað saman og elda einhvern stórmerkilegan rétt þar sem maður á ekki pening fyrir mat þá gæti þetta verið svo miklu, miklu verra og er það eflaust hjá mörgum. Því miður. Öllum nýjum áskorunum í lífinu fylgir nýr lærdómur og þegar maður á minna þá metur maður það sem maður á miklu betur og nýtur þess betur.
Þess vegna tek ég undir orð Jóhönnu Sigurðardóttur í fréttum í dag þar sem hún lagði áherslu á það að snúa bökum saman og styðja hvert annað. Maður má heldur ekki missa stoltið yfir því að vera Íslendingur, það er og verður alltaf gæðastimpill. Þjóð okkar mun breytast mikið eftir þetta umrót og að sumu leyti tel ég þá breytingu verða til góðs. Það mun nást meira jafnvægi á hlutina en verið hefur og samvinnuhugsjónin mun svífa yfir vötnum á ný í stað einstaklingshyggju.
![]() |
Viðskipti milli landa verða tryggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 8. október 2008
Danir með húmorinn að vopni
Já það verður víst að segjast að ekki vantar húmorinn í frændur okkar Dani.
Það er reyndar alveg dásamlegt hversu miklir húmoristar þeir eru og hversu auðvelt þeir eiga með að sjá spaugilegar hliðar á grafalvarlegum atburðum.
Einhver gagnrýndi hér í færslu minni í gær þegar ég minntist á að vottur væri af Þórðargleði hjá félögum okkar yfir ástandinu og væru fjölmiðlar uppfullir af misgáfulegum fréttum frá Íslandi... dæmi nú hver fyrir sig! (Ég vil nú taka það fram að auðvitað á þetta langt í frá við um alla dönsku þjóðina... sem eru nánast eins og fjölskylda okkar).
Þetta er eflaust gert meira í gríni en öllu gríni fylgir einhver alvara og sennilega hefur Dönum blöskrað svolítið sú mikla þensla sem hefur verið á íslenskum athafnamönnum síðustu ár, m.a. með kaupum á mörgum fyrirtækjum í Danmörku.
![]() |
Söfnun fyrir Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 7. október 2008
Islændinge dropper Danmark
Nú ríkir hálfgerð Þórðargleði hjá Dönum...
Talsvert hefur verið fjallað um kreppuástandið á Íslandi í ljósvakamiðlum hér. Hér er þetta útskýrt þannig að Íslendingar hafi tekið lán í útlöndum (dollara, evrur og jen) og svo séum við lent í vandræðum núna þegar borga eigi lánin tilbaka og lendum sérlega illa í kreppunni vegna þeirrar útrásar sem verið hefur síðustu ár. Við höfum keypt fyrirtæki og grætt vel á ýmsum verslunum eins og Magasin og Illum.
Þetta komi illa niður á öllu efnahagskerfinu og einnig fasteignaeigendum þar sem lánin og vextir hækki mjög mikið. Danskir fjölmiðlar segja að það liggi í loftinu að Íslendingar muni selja mörg þau fyrirtæki sem þeir hafi verið að kaupa undanfarin ár m.a. í Danmörku og Bretlandi. Einnig er fjallað um að Íslendingar hafi fengið 30 milljarða (dkr) lán hjá Rússum og efi sé vegna þessa samnings.
Hér eru dæmi um fréttalínur sem rúlla á skjánum á DR update:
- Baugur er glad for Magasin og Illum
- Islandsk krise rammer engelsk fodbold
- Islændinge dropper Danmark
- Rusland laaner Island 30 mia. kroner
- Derfor rammer krisen Island haardt
- Tvivl om islandsk-russisk aftale
Einhver gæti haldið því fram að menn gleðjist Þórðargleði yfir óförum okkar... en hins vegar eru Danir einnig á leið í talsverð vandræði.
![]() |
Baksvið: Hvaða vinir" brugðust? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |