Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sunnudagur, 12. október 2008
Áhrif kreppunnar á frammistöðu í vinnu
Hvar sem fólk kemur þessa dagana hefur það mikla þörf fyrir það að ræða saman. Það er vel skiljanlegt og eflaust flestir sem hafa hryllingssögur af nánum ættingjum eða vinum sem farið hafa mjög illa. Sjálf finn ég fyrir mikilli þörf á að ræða málin (nota bloggið nú aðeins til þess að svala þeirri þörf líka til að hlífa vinum og vandamönnum :) fólk getur alltaf valið það hvaða blogg það les...).
Þessi stanslausa umræða getur þó haft slæm áhrif að nokkru leyti. Hún getur dregið verulega úr afkastagetu fólks í vinnunni og einbeitingu og finnur maður það vel sjálfur hversu erfitt er að einbeita sér þessa dagana. Maður leysir víst ekki þau mörgu verkefni sem liggja fyrir þrátt fyrir að eyða öllum deginum í að velta sér upp úr þeim.
Það getur verið alveg nóg fyrir fólk að einbeita sér að starfinu þó ekki fari allur kaffitíminn í að heyra niðurdrepandi sögur af fólki. Ég held að fólk ætti að einbeita sér að jákvæðum umræðum í staðinn.
Ekki er það gott fyrir þjóðarbúið að ofan á alla þá lömun sem á sér stað bætist líka það að fólk sé andlega ekki á staðnum í vinnunni sinni. Þess vegna held ég að gott sér fyrir fólk að nota bara ákveðinn tíma í einu til að ræða vandræðin en einbeita sér markvisst að því að ræða líka önnur málefni og jákvæð mál.
Það er ágætis regla að minna sig á það þegar maður kemur í vinnuna að hengja í huganum þann áhyggjupoka sem maður burðast með persónulega á snaga fyrir utan vinnuna áður en maður gengur inn. Þá er maður laus við persónulegar áhyggjur í vinnunni og er þar til staðar. Þegar vinnudegi lýkur þá hengir maður "vinnupokann" eða þann áhyggjupoka sem snýr að vinnunni á snagann fyrir innan hurðina, labbar út og tekur við sínum eigin persónulega áhyggjupoka og er ekki að taka áhyggjur úr vinnunni heldur með sér heim. Það er víst alveg nóg að hafa bara annan pokann á sér í einu þó maður sé ekki að burðast með báða, það getur orðið of mikið! Passið ykkur bara að taka alltaf rétta poka með ykkur ;) ...
Farið vel með ykkur öll sömul. Tökum eitt skref í einu og þannig komumst við heil frá þessu og leggjum okkur fram við að halda hinum daglega rhytma eðlilegum svo ekki bætist meira en þarf ofan á óvenjulegar og erfiðar aðstæður. Þetta er ákaflega mikilvægt barnanna vegna sem hafa engar forsendur fyrir því að skilja hvað er að gerast og þurfa að hafa sitt fólk á staðnum eins og alltaf en ekki með hugann fullan af áhyggjum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 12. október 2008
Lýst er eftir mönnum
Ég held að það verði bara að lýsa eftir nokkrum mönnum sem hafa verið áberandi vægast sagt í íslensku viðskiptalífi en hafa horfið nánast sporlaust síðustu viku, bara eins og jörðin hafi gleypt þá. Þeir klæðast rándýrum fötum, fljúga um á einkaþotum, keyra um á tugmilljóna jeppum eða sportbílum og eiga nokkur heimili hér og þar um heiminn! Það væri nú alveg ágætt að hafa þá með í uppbyggingunni sem bíður framundan og eðlilegt að þeir taki ábyrgð í réttu hlutfalli við sinn hlut í hruni íslenska efnahagslífsins.
Stærstur hluti þjóðarinnar tók glaður þátt í veislunni með kaupum á skuldahölum aftan í bílana og fleira slíkt og ekki voru margir sem gerðu athugasemdir á meðan kýrnar mjólkuðu langt umfram væntingar og kvóta þannig að þjóðin varð allt í einu risastór. Vandamálið er bara það að líklega áttu hinir miklu stórbændur ekki neitt í kúnum þegar upp er staðið! Einnig virðist ekki hafa verið mikið eftirlit með einu eða neinu á meðan þjóðin var skuldsett 12 falt. Hvernig gat þetta gerst???
Ég held að það hafi bara fáir velt því mikið fyrir sér hvaðan allir þessir góðu peningar kæmu og hvað gerðist ef kýrnar hryndu niður ein af annarri ... á meðan allir fengu góðan sopa af mjólkinni. Ég held að sumir hafi talið þessa miklu útrás í raun bera ábyrgð á sjálfri sér eða að það væru einhverjar stofnanir úti í löndum sem gerðu það. Svo gott var það nú ekki. Alltaf var talað um það að stækka og stækka gjaldeyrisvarasjóðinn í stað þess að tala um að minnka kannski aðeins umsvif eða aðskilja þetta ábyrgð þjóðarinnar sem nægir alveg að standa undir sínum grunnstoðum.
Jón Ásgeir má þó eiga það að hafa kjark í sér til þess að mæta og fá yfir sig reiði sem beinist í garð mun fleiri aðila en hans. Ég hef aldrei séð Egil Helgason jafn reiðan í þætti og í dag. Hann átti mjög erfitt með að hemja reiðina og það skil ég vel.
Þessi síðasta vika hefur verið með ólíkindum. Svolítið eins og lélegur dramaþáttur. Martröð sem maður væri alveg til í að vakna upp af. Hvenær tekur þetta eiginlega enda og hversu hátt verður fallið okkar þegar upp er staðið. Það er bara ekki komið í ljós.
Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig íslensk stjórnvöld spila úr þeirri stöðu sem uppi er núna. Hversu hlutlaust verður skipað í nýjar nefndir og ráð og hver fær það mikla vald að ákveða hvaða fyrirtæki fá lífæð og hver ekki. Þegar kemur svo að því að útdeila verðmætum á ný þá reynir mikið á heiðarleika stjórnmálamanna til þess að taka ALLTAF hagsmuni þjóðarinnar fram yfir allt annað. Það á að velja hæfasta fólkið í hverja stöðu, fólk sem hefur sérþekkingu, menntun og reynslu í hvern stól en ekki fara eftir flokkslínum í þeim efnum. Það er eflaust mikið til af mjög hæfu fólki sem á að horfa til sem kemur hvergi nálægt nokkrum flokki. Nú held ég að þjóðin vilji sjá faglegar ráðningar en ekki pólitískar ráðningar og það þarf að gera grein fyrir hverri ráðningu með hagsmuni þjóðarinnar í huga.
Það er risastórt verkefni sem bíður allrar þjóðarinnar. Þess vegna þarf að nýta alla aðila og við þurfum að standa saman eins klisjukennt og það hljómar kannski. En ég er sammála Jóhönnu í því sem er mikill klettur í ólgusjó margra um þessar mundir. Þjóðin er heppin að eiga hana og mættu margir stjórnmálamenn taka hana til fyrirmyndar. Hún missir aldrei sjónar á því markmiði sínu að vinna eins vel og mögulegt er fyrir íslenska þjóð. Stjórnmálamenn sem gengnir voru svo langt í græðgisvæðingunni að vera á góðri leið með að setja Íbúðalánasjóð á uppboð líka!
Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 11. október 2008
Góður punktur hjá Vinstri grænum
Gott hjá Vinstri grænum að vekja máls á mikilvægi sveitarfélaganna sem standa fólkinu næst. Það mun reyna mikið á félagsþjónustu sveitarfélaganna á næstu misserum í kjölfar þeirra áfalla sem þjóðin er að ganga í gegnum. Því þarf ríkið að standa dyggilega við bakið á sveitarfélögunum.
Einnig er stefnt að því árið 2011 að þjónusta við fatlað fólk flytjist að mestu leyti yfir til sveitarfélaga og 2012 eigi þjónusta við aldrað fólk að flytjast yfir í kjölfarið. Nú þegar hefur fyrsta skrefið í þessa átt verið stigið með flutningi þjónustu við geðfatlaða yfir til borgarinnar en sú þjónusta fluttist í ágústmánuði síðastliðnum.
Á næstu misserum þarf að fara fram frjó umræða um þessa málaflokka og þessa miklu breytingu sem mun nánast varða hvert mannsbarn að einu eða öðru leyti til þess að framkvæmd verkefnisins verði sem vönduðust og best.
Þann 3. okt. sl. skrifaði ég stuttan pistil um þessa fyrirhuguðu stórframkvæmd í Mosfellsfréttir, bæjarblað Mosfellsbæjar.
http://www.kristbjorg.blog.is/blog/kristbjorg/entry/660229/
Vinstri grænir: Sveitarfélögin eru grundvöllur samfélagsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 11. október 2008
Hver borgar svo af láninu?
Gott mál að menn skuli hafa náð sáttum, það er fyrir öllu.
Hins vegar væri áhugavert að fá nánari skýringar á því hver muni svo greiða af láninu til Hollendinga. Eru það skattpeningar okkar eða verður það tekið úr sjóðum vegna sölu þeirra útrásarmanna sem settu þessa starfsemi á fót? Þarna er talað um íslenska ríkið en ekki var það íslenska ríkið sem stóð fyrir þessari starfsemi. Eiga ekki Björgólfs feðgar heilmiklar eignir upp í þetta erlendis???
Sama spurning er uppi á borðinu varðandi málefni Bretanna. Ég var nú alveg sammála Davíð því að forðast beri í lengstu lög að íslensk heimili og íslenska framtíðin taki þetta á sig. Sérstaklega í ljósi þess að fyrst ber amk. að þurrka upp allar eignir þeirra sem stóðu að þessu. Þegar það er þurrausið þá verður þjóðin sennilega að taka ábyrgðina á sig?
Samkomulag náðist við Holland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 11. október 2008
Gott verkfæri fyrir fiskiþjóð!
Mig langar að minna fólk á mjög gott verkfæri til þess að nota á næstu misserum. Ég var nú sjálf minnt á þetta af fyrri samstarfskonu á Facebook síðunni minni.
Verkfærið heitir "Lífsspeki fisksins" og er frábært til þess að nota á erfiðum tímum og alltaf í lífinu.
Lífsspeki fisksins er mjög einföld og engin ný sannindi en er í mjög þægilegum búningi til þess að muna eftir grundvallargildum í daglegu lífi. Spekin er nefnd eftir fisknum þar sem hún á upptök sín í fiskbúð í Seattle í Bandaríkjunum þar sem fisksalar ákváðu að finna sér leið til þess að létta sér störfin þar sem maður þarf að mæta eldsnemma og er í slori allan daginn! Lífsspekin á nú vel við okkur fiskþjóðina Íslendinga.
- Að velja sér viðhorf
Maður á alltaf val á hverjum degi og við hvern atburð að velja sér jákvætt eða neikvætt viðhorf. Valið er alltaf þitt. "Við ráðum um hvað við hugsum". Við getum mætt í vinnuna með horn á höfðinu og hvesst okkur við alla eða við getum mætt í vinnuna og séð það jákvæða í fari hvers og eins og björtu hliðarnar á hverju verkefni og ný tækifæri.
- Að vera til staðar
Við þurfum að vera til staðar fyrir hvert annað til þess að veita ráð og dáð. Hlúa að hverju öðru.
- Að leika sér
Við megum aldrei gleyma því að leika okkur í dagsins önn. Maður verður aldrei of gamall til þess að leika sér í lífinu. Sumir segja að maður verði gamall af því að maður hætti að leika sér í stað þess að segja að maður hætti að leika sér af því að maður verði gamall. Núna þurfum við líka að muna sérstaklega að leika okkur með börnunum okkar og gefa þeim góðan tíma.
- Að gera öðrum daginn eftirminnilegan
Við getum alltaf gert öðrum daginn eftirminnilegan á svo ótal vegu. Dagurinn í dag og þetta andartak er það sem við eigum öruggt. Um annað vitum við ekki. Maður getur gert öðrum daginn eftirminnilegan til dæmis með því að vera búin/nn að kveikja á kertum þegar hinir fjölskyldumeðlimirnir koma heim, eða vinnufélagar mæta í vinnuna, maður getur sent falleg skilaboð og sagt fólki hversu mikið manni þyki vænt um það, maður getur skilið eftir fallegan miða eða laumað í vasann, maður getur hrósað og sagt eitthvað fallegt, maður getur bryddað upp á einhverju nýju að gera t.d. að fara út og horfa á fallegt sólarlag (það eru svo ótal hlutir í lífinu sem eru svo dýrmætir en kosta ekki krónu eða evru...). Hvernig getur þú háttað málum þannig að þínir nánustu muni sérstaklega eftir þessum degi eða þessu andartaki á jákvæðan hátt? Hugmyndirnar eru endalausar og hver og einn á um hlaðborð að velja í þeim efnum.
Í mínu gamla starfi hjá SSR (Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Reykjavík) þar notuðum við þetta með alveg hreint frábærum árangri (og þetta er auðvitað enn notað þar). Þetta er alveg ótrúlegt verkfæri til þess að gera erfiða daga auðveldari og fá nýja sýn á lífið. Þeir sem nýttu þetta mest tóku þetta upp sem ákveðna lífsspeki hvort sem það var í einkalífi eða starfi .
Meira um lífsspeki fisksins hér:
http://www.vtlausn.is/kennslup/Fiskur/fishlifsspeki.htm
Mæli með þessari bók!
Við þurfum að sýna hvert öðru nærgætni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 11. október 2008
Dýrmætasta lexían
Þrátt fyrir að þetta sé mjög erfitt og vont að hafa þessa óvissu framundan þá getur maður valið sér það viðhorf að sjá einmitt þessi vandræði sem eitt af því lærdómsríkasta sem við munum læra hér í náminu úti.
Kynslóðin sem er núna erlendis í námi er skipuð fólki þar sem margir hafa aldrei upplifað annað en góðæri og takmarkalausa möguleika (auðvitað ekki allir) og því er það dýrmæt lexía að þurfa allt í einu að horfast í augu við þessa óvissu og vita ekki einu sinni hvort maður sé velkominn í bankann hér úti á mánudaginn...
Við megum ekki gleyma því að sú óvissa sem við horfumst í augu við er óvissa vegna peninga. Hún gæti verið MIKLU verri eins og ef við t.d. værum að horfast í augu við verulega ógn um tilveru okkar og stríðsógn eins og því miður mjög margir félagar okkar hér á jörðinni þurfa að gera á hverjum einasta degi!
Kannski var þetta bara einmitt það sem við Íslendingar þurftum á að halda til þess að ná betri tengslum við raunveruleikann sem deila má um að hafi verið orðinn heldur lítill í samhengi þess sem fólk annars staðar í heiminum gengur í gegnum. Eins og sagt er þegar nemandinn er tilbúinn þá kemur kennarinn...Eða að það sem drepur mann ekki herðir mann... En auðvitað má maður ekki gleyma þeim hörmungum sem þessu fylgir, þær verða ekkert betri þrátt fyrir að horfa svona á málin en það er hins vegar gagnlegt líka!
Námsmenn erlendis í vanda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. október 2008
Gott hjá Guðna!
Þetta er einmitt sú afstaða sem við þurfum að taka sem þjóð. Gordon Brown hefur farið algjöru offari í það að reyna að bæta eigin hrikalega stöðu með því að sparka í okkur. Hvað gerir einmitt barnið sem sjálft er óöruggt og óvinsælt annað en að finna einhvern minni máttar sem höggstað til þess að sparka í og geta þannig hækkað sig í áliti á kostnað annarra.
Þetta er hins vegar ekki barnaleikvöllur og þessi árás hans hefur alveg gríðarleg áhrif fyrir alla Íslendinga. Þetta tekur alveg steininn úr varðandi traust til okkar.
Þetta er í raun eins og léleg glæpasería að hann skuli nýta sér hryðjuverkalög gagnvart þjóð sem aldrei hefur haft her og er ansi ólíkleg til hryðjuverka! Alveg með hreinum ólíkindum, kannski þetta sé nær því að vera lélegur gamanþáttur með lélegum breskum húmor!
En það sem skiptir máli er það sem Guðni er að koma á framfæri er að við eigum auðvitað ekki að láta svona ófögnuð yfir okkur ganga þegjandi og hljóðalaust. Við eigum að standa í lappirnar gegn þessum óhróðri og leita réttar okkar því þetta hefur og mun hafa mikil áhrif og gerir stöðu okkar mun verri en hún þó var.
Það er mikilvægt fyrir Geir og aðra í ríkisstjórninni að nota alla kjörna fulltrúa og embættismenn í því mikla verkefni sem blasir við. Það er nefnilega rétt eins og Egill Helgason minntist á í Kastljósinu áðan að það hefur allt of mikill tími farið í þessi vandræði með Bretum á meðan hver mínúta skiptir máli hér heima við það slökkvistarf sem þarf að vinna.
Ég get rétt ímyndað mér að álagið á ríkisstjórn og aðra sé hrikalegt við þessar aðstæður og þess vegna mjög mikilvægt að nýta krafta allra fulltrúa til hins ýtrasta! Málefni Íslands eru ekki lengur eitthvað einkamál ríkisstjórnarinnar. En hún þarf að vera verkefnastjóri í skipulagningu þeirra verkefna sem þarf að vinna þar sem hún ber ábyrgðina. Svo getur maður spurt sig hvað gerist þegar öldurnar fer að lægja og almenningur krefst rannsókna, skýringa og að menn verði dregnir til ábyrgðar. Það er hins vegar ekki tímabært núna.
Áfram Guðni, áfram Framsókn. Nú snúum við vörn í sókn og eyðileggingu í uppbyggingu!
Lærum af fortíðinni - lifum í nútíðinni - og horfum til framtíðar.
Guðni Ágústsson: Kærum Bretana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. október 2008
Danske bank gleypti kortið mitt
Í gær ætlaði ég í hraðbanka með kort frá Danske bank að taka út pening af reikningnum mínum í honum. Ég hafði farið í heimilisbankann um daginn og vissi því að það var peningur inni á honum.
Það vildi ekki betur til en svo að kortið var tekið og skýringin sem gefin var, var sú að ég hefði slegið pin númerið þrisvar inn skakkt. Sem ég gerði ekki heldur sló það einu sinni inn rétt.
Hef ekki náð tali af þjónustufulltrúanum en lifi enn í voninni að hér sé um mistök að ræða .
Ég held að þessi milliríkjadeila meðal annars geti sett okkur sem erum Íslendingar búsett erlendis í talsvert mikil vandræði og því gríðarlega mikilvægt að ráðamenn geri allt sem í sínu valdi stendur til þess að bæta ímyndina eins og mögulegt er. Annars eigum við okkur varla viðreisnar von næstu misserin.
Danske Bank lokar á íslenskar millifærslur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 10. október 2008
Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Þetta er geðorð númer 2 og eru einkunnarorð Alþjóða geðheilbrigðisdagsins.
Geðorðin eru: (Tekið af http://www.landlaeknir.is/Pages/584)
Við þurfum að hlúa að hverju öðru, börnunum okkar, fjölskyldum okkar, foreldrum okkar, systkinum okkar, frændum okkar, vinum okkar, samstarfsfólki og hverju öðru.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Verum því dugleg að brosa til hvers annars næstu daga, brosa til hvers annars á götunum. Við þurfum að hlúa að hverju öðru.
Ég legg til góða aðferð sem vinkona mín kenndi mér. Að setja eitthvað í annan vasann t.d. litlar pappírskúlur eða litla steina, kannski 5 stykki eða eins mörg og hver vill. Þegar þú hrósar einhverjum, hlúir að honum eða segir eitthvað uppbyggjandi þá færir þú kúluna frá einum vasa í annan. Þannig minnir þetta mann á að gleyma ekki þessu mikilvæga atriði. Við verðum að opna leið jákvæðninnar því svartsýni opnar aðeins leið fyir neikvæðni og við þurfum mun frekar á jákvæðri en neikvæðri orku á að halda.
Einnig mæli ég með að flestir komi sér upp geðræktarkassa.
Hlutir sem kalla fram góðar minningar
Gott er að gera þetta á markvissan hátt og grípa til þess þegar vanlíðan færist yfir. Þar kemur Geðræktarkassinn að góðum notum. En hann er í raun jafn nauðsynlegur á hverju heimili og sjúkrakassi. Fyrirmyndin að kassanum eru ráð konu nokkurrar sem um aldamótin missti mann sinn frá tíu börnum þeirra. Hún þurfti að láta frá sér átta elstu börnin og að skilnaði útbjó hún kassa handa hverju og einu þeirra sem hún setti í hluti sem höfðu mikið persónulegt gildi fyrir þau. Í suma kassana setti hún klúta sína, sem báru með sér lykt af henni, leikföng og annað smálegt. Börnin áttu að nota kassana ef þeim liði illa og draga þaðan upp fallegar minningar og minnast um leið loforðs móður þeirra um að fjölskyldan myndi sameinast aftur þótt síðar yrði. Það gekk eftir að lokum. Þessi hugmynd er alveg stórgóð og á erindi til allra. Þannig er upplagt að safna hlutum í kassa sem vekja gleði og góðar minningar og nota meðvitað til að láta sér líða vel. Þetta geta verið ýmsir hlutir, s.s. uppáhalds myndband, geisladiskur, bók og ljósmyndir eða bara hvað sem er sem tengist jákvæðum og góðum tilfinningum. Svo má leita í kassann þegar neikvæðar hugsanir skjóta upp kollinum, t.d. eftir erfiðan dag, rifrildi eða skammir, þegar okkur leiðist, við erum einmana eða vantar stuðning.
Að lokum; kjörið er að venja sig á að byrja hvern dag á því að hugsa jákvætt um lífið og tilveruna og vera meðvitaður um þau forréttindi sem fylgja því að fá að líta nýjan dag. Það er aldeilis ekki sjálfgefið.
(Tekið af http://www.lydheilsustod.is/greinar/greinasafn/gedraekt/nr/2130)
Jákvæð hugsun skilar miklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 10. október 2008
Efla þarf Byggðastofnun
Nú er mikilvægt að efla Byggðastofnun og einnig að Íbúðalánasjóður komi inn til aðstoðar bændum sem eru að lenda í vandræðum og eiga það jafnvel á hættu að missa jarðir sínar vegna gjaldþrots.
Það þarf að tryggja það að bændur geti haldið áfram atvinnu sinni því hlutverk þeirra er ákaflega mikilvægt á næstu árum. Þeir verða að geta framleitt fyrir íslenskan markað því ekki er hægt að treysta erlendum innflutningi eins og aðstæður eru núna.
Því þarf að huga sérstaklega að málefnum bænda og stöðu þeirra þannig að þeir hafi möguleika á að halda sínum rekstri áfram og frekar efla hann en hitt.
Ungt fólk sem er að setjast að í sveitunum þarf að styðja sérstaklega en ég veit til þess að margir slíkir bændur eru í miklum vandræðum sem hafa jafnvel verið að berjast fyrir því að komast út í sveit og eru loksins komnir þangað með mikil og há lán á bakinu. Þennan hóp verður að vernda sérstaklega.
Bændur hafa áhyggjur af stöðu sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)