Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 18. mars 2011
Jafnréttisstjórnin fellur á prófinu í niðurskurðinum - Kynjuð hagstjórn, orðin tóm
Stjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun sinni á aðgerðir hinnar norrænu velferðar- og jafnréttisstjórnar sem bitnað hafa illa á stöðu kvenna í íslensku samfélagi. Nýlega hefur komið í ljós að niðurskurður í ríkisrekstrinum undanfarin tvö ár hefur komið margfalt harðar niður á konum en körlum þar sem 470 eða 87% af 540 stöðugildum sem skorin hafa verið niður voru skipuð konum og 70 stöðugildi eða 13% voru skipuð körlum.
Sú þjónusta sem heilbrigðisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir hafa dregið úr og jafnvel hætt að veita með uppsögnum þessara 470 kvenna og öðrum aðhaldsaðgerðum eru nú störf sem mörg hafa færst inn á heimilin í landinu. Þar vinna oftar en ekki konur þau nú ólaunuð, því þarfir barna, aldraðra og sjúkra minnka ekki hvað þá hverfa þó þurfi að spara.
Rannsóknir hafa sýnt að konum er hættara en körlum við að festast í hinni svokölluðu fátæktargildru. Opinber gögn sýna að tekjur íslenskra kvenna eru að meðaltali 66% af heildartekjum íslenskra karla. Þær mega því síður við tekjumissi og eru lengur að jafna sig fjárhagslega.
Það er áhyggjuefni að þær aðgerðir sem forsætisráðherra boðaði á dögunum virðast að mestu lúta að aukningu á störfum sem karlmenn skipa í meirihluta.
Við afgreiðslu fjárlaga og við önnur tækifæri varaði þingflokkur Framsóknar ásamt öðrum aðilum eins og Jafnréttisstofu við því að gætt yrði að hagsmunum beggja kynja við yfirvofandi niðurskurð. Kynjuð hagstjórn eins og núverandi ríkisstjórn, hin svokallaða velferðar- og jafnréttisstjórn, boðaði er greinilega einungis orðin tóm, því ekki verða aðgerðir þeirra til þess að rétta hlut kvenna þó síður sé.
Fimmtudagur, 17. mars 2011
Byrðarnar sem við berum
Ég talaði við nokkra einstaklinga í dag og hef talað við á undanförnum vikum sem hafa kennt mér alveg ótrúlega mikið og vakið mig mikið til umhugsunar.
Eitt af því sem ég hef tekið eftir og verið að hugleiða í dag eru byrðarnar sem við berum.
Það er einhvern veginn þannig að alltof margir hafa lent í alls konar alvarlegum áföllum á ævinni og einhvern veginn burðast fólk með þessi sár á sálinni án þess að geta grætt þau. Enginn sagði að lífið yrði auðvelt og því miður þá fylgir það mannlegri tilveru að geta lent í alveg hræðilegum áföllum eins og að missa ástvin á voveiflegan hátt, upplifa slys, árásir, nauðganir og ýmislegt annað. Áföll þar sem raunveruleg hætta skapast fyrir fólk sjálft eða ástvini þeirra og stundum ekki bara hætta heldur voveiflegur atburður sem markar fólk til lífstíðar.
Í einhverjum tilfellum tel ég líklegt að ekki hafi verið brugðist rétt við á sínum tíma. Áfallið hafi riðið yfir og svo hafi smám saman snjóað yfir sárið og það troðist lengra og lengra ofan í lífsbakpokann. Svo langt að nú veit fólk ekki hvernig það á að geta náð til þess aftur og unnið úr áfallinu. Það getur líka verið svo sársaukafullt að rífa slíka hluti upp að fólk hreinlega leggur ekki í það. Í stað þess heldur það áfram, með þungan bakpoka og reynir að gera það besta úr degi hverjum. Tekst stundum að gleyma en man svo stundum eftir sárinu sem rifnar reglulega upp úr og blæðir. Þar til snjóar yfir á ný og snjórinn hleðst yfir.
Ég held að við Íslendingar hefðum gott af því að ræða meira opinskátt um tilfinningavanda, áföll og sálarlífið almennt. Við þurfum að vinna að því að bestu mögulegu viðbrögð séu sýnd þegar fólk lendir í áföllum og eftirfylgnin sé góð. Það er fjárfesting til framtíðar fyrir einstaklinginn og samfélagið. Við erum nefnilega oft að "kasta krónunni fyrir aurinn" og spara á stöðum sem koma út í kostnaði annars staðar í sama kerfi.
Daglegt líf er ekkert einfalt. Við erum ekkert einfaldar verur og erum samsett úr mörgum þáttum m.a. tilfinningalífi okkar og líkama. Við þurfum að sinna öllum þessum þáttum til þess að allt gangi upp. Þurfum að hreyfa okkur, sofa rétt, borða rétt, eiga í góðum tengslum, hafa hlutverk, vera meðvituð um hugsanir okkar, tilfinningar og hegðun og vera stöðugt á verði fyrir heilsunni og merkjum um að við séum að renna út af sporinu. Sé fólk líka með áfall troðið einhvers staðar ofan í bakpokanum vandast málið enn frekar. Búum við við erfiðar aðstæður þá verður líka erfiðara að sinna þessum þáttum.
Enginn ræður því hvar eða hvernig hann fæðist í þennan heim. Fólk velur sér heldur ekki áföll eða sjúkdóma af hlaðborði. Þess vegna er það okkar sem samfélags og okkar sem einstaklinga í samfélaginu að hugsa vel um okkur sjálf og um samborgara okkar. Það er okkar að byggja upp kerfi sem bregst á sem bestan hátt við þeim erfiðleikum sem upp koma og veitir réttan stuðning til uppbyggingar.
Þannig getum við vonandi létt byrðarnar eitthvað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. mars 2011
Hvers vegna ég ætla að segja NEI við Icesave
Þriðjudagur, 15. mars 2011
Kjósum Icesave af eyjunni!
Eigum við ekki bara að samþykkja Icesave og kjósa þessi leiðindi af eyjunni?
Eigum við ekki bara að kaupa okkur frið og vinsældir alþjóðasamfélagsins og láta kúga okkur til að borga skuldir einkafyrirtækis sem okkur ber ekki samkvæmt neinni lagastoð að greiða.
Almenningur annarra landa er örugglega mjög ánægður með að við sköpum fordæmi þess að velta sukkskuldum fjármálafyrirtækis yfir á skattgreiðendur þannig að einkafyrirtæki fjármálageirans geti áfram sukkað og starfað á óábyrgan hátt því almenningur taki alltaf af þeim fallið!
Er ekki upplagt að færa börnunum sem eru að fæðast þessa dagana óútfylltan skuldatékka í sængurgjöf? Þau verða nú búin að borga þetta á 35 ára afmælisdaginn, þannig að það hlýtur nú að vera í lagi.
Þrátt fyrir að engin lagaleg stoð eða siðferðileg skylda sé til þess að greiða Icesave.
Þrátt fyrir að við vitum ekkert alveg hvað við þurfum að borga mikið, hvern munar hvort sem er um 25, 47 eða 200 milljarða?
Af því það er of mikið vesen að fara með málið fyrir dómstóla og af því Jón Gnarr er kominn með leið á því.
Borgum þetta bara! Þrátt fyrir að vera það ríki í Evrópu og þótt víðar væri leitað sem er í einna alvarlegustu skuldastöðunni þá hljótum við að hafa efni á því að borga skuldir einkafyrirtækis án lagastoðar eða siðferðisskyldu og gera Jón Gnarr glaðan, enda á bara að vera gaman í Reykjavík!
Reikningurinn fyrir að kaupa sig frá vandanum mun ekki hafa nein áhrif á komandi kynslóðir, börnin í leikskólunum okkar, skólunum, eldri borgara eða aðra...
Kjósum Icesave bara af eyjunni og þá verða allir glaðir!
Bölsýnn borgarstjóri í Vín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. mars 2011
Hver á sinn eigin Dave
Hver vill ekki að öðrum líki vel við sig? Hver vill ekki að öðrum finnist mikið til þess koma sem maður gerir?
Raunveruleikinn er þó þannig að það er eiginlega alveg sama hversu frambærileg manneskja er eða gott það sem hún/hann gerir það er alltaf einhver Dave... Dave í kringum mann eða Dave sem situr á öxlinni á manni.
Hver er Dave? Jú, Dave er manneskjan sem bara líkar ekki við þig eða passar ekki við þig. Dave er manneskjan sem mun ekki líka við þig alveg sama hversu mikið þú reynir að sanna þig, breyta þér, leggja þig fram. Dave getur líka verið röddin sem situr á öxlinni á þér og bendir þér iðulega á að ekkert sem þú gerir sé nógu gott og þar af leiðandi sért þú ekki nógu góð/ur. Segir að þú verðir að gera allt 100% og öllum verði að líka við þig og þín verk ef þú átt að vera nóg góð/ur.
Það er alveg sama hversu mikið þú myndir reyna, það er ekki hægt að breyta Dave. Ef Dave fer þá kemur annar í staðinn. Það sem þú þarft að skoða er hvað þú ætlar að gera við Dave.
Það sem fólk gerir of mikið af er að hlusta á úrtöluraddir eins og Dave. Og ekki nóg með það heldur virðist líf okkar eða verkefni nánast standa og falla með því hvað Dave finnst.
Það sem við horfum framhjá er að það eru kannski miklu fleiri aðilar og þar meðtalin jafnvel við sjálf sem líkar bara ansi hreint vel við okkur og okkar verk. En við hlustum ekki á það með hjartanu. Vegna þess að Dave líkar ekki það sem við erum eða gerum.
Staðreyndin er sú að engin manneskja er eða getur gert öllum til hæfis. Það verður maður bara að sætta sig við og fagna því að hafa einn fúlan Dave á öxlinni til að dusta reglulega af eins og hverju öðru rykkorni. Lífið verður aldrei svo einfalt að öllum finnist við æðisleg eða frábært það sem við gerum, það sjálft yrði hreinlega leiðigjarnt og lærdómslaust.
Það er okkar að vega og meta í kollinum á okkur og hjartanu hver við erum og hvernig verkin okkar eru. Það mat er það eina sem skiptir raunverulega máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 11. mars 2011
Hvers vegna ætla ég að segja NEI við Icesave III?
Mig langar til þess að byrja á því að hrósa Rakel og félögum fyrir frábært framtak! Mikið er ég þakklát fyrir hana Rakel og annað dugnaðarfólk sem eytt hefur tugum klukkustunda og daga í því að berjast fyrir hagsmuni íslensks almennings og komandi kynslóða.
En yfir í málefnið.
Hvers vegna ætla ég að segja NEI við Icesave III?
Ég tel það vera siðferðilega rangt að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning.
Ég óttast að verði Icesave skuldirnar ríkisvæddar þá muni það skapa hörmulegt fordæmi þess að velta skuldum fjármálaheimsins yfir á hinn almenna skattborgara í öðrum löndum. Það leiðir til enn óábyrgari hegðunar fjármálabraskara sem telji sig geta notað almenning til þrautavara.
Ég tel það vera rangt að taka við skuldum sem enginn hefur getað fært rök fyrir að okkur beri lagaleg skylda til þess að greiða.
Við eigum að fara með málið fyrir dómstóla og leita réttar okkar, þrátt fyrir að taka áhættu á því að mögulega þurfum við svo að greiða (sem ég tel reyndar frekar ólíklegt).
Ég tel óskiljanlegt að stjórnmálamenn sem eiga að hafa hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti skuli ítrekað reyna að ríkisvæða skuldir fjárglæframanna án lagakrafna um það og ætla að senda þjóðinni óútfylltan tékka sem enginn veit í hvaða upphæð endar. Ekki síst í ljósi þess að nú þegar eru skuldir íslenska ríkisins það háar að illfært verður að kljúfa þær nema með stórtækum aðgerðum.
Ég vil ekki bjóða því íslenska barni sem fæddist í dag upp á þá framtíð að það muni mögulega enn vera að borga af Icesave á 35 ára afmælisdaginn sinn. Skuldir sem það á bara ekkert í og eru m.a. tilkomnar vegna gallaðs evrópsks regluverks og brjálæðislegrar græðgi örfárra einstaklinga.
Við eigum að standa í lappirnar í þessu máli og sýna kjark og þor.
Við eigum ekki að láta kúga okkur til þess að taka skuld á okkur sem er siðferðilega og lagalega engin stoð fyrir að borga.
Ef barnið mitt væri kúgað í skólanum af skólahrelli (bully) sem vildi fá 1000 krónur þá myndi ég ekki segja: "elskan mín, láttu hann bara fá 50 krónur, þá verður þetta í lagi." Þannig að það er ekki hægt að kaupa sig frá Icesave vanda og maður á í prinsippinu ekki að greiða eitthvað sama hvaða upphæð það er til þess að kaupa sér frið.
Maður á að leita réttar síns og standa með sjálfum sér.
NEI við Icesave 9. apríl.
Kynna rök gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 8. mars 2011
Ég er búin að fá nóg!
Hvenær höfum við náð botni óréttlætisins?
Hvenær verður eitthvað réttlæti í þessu samfélagi?
Hvar á maður að byrja?
Það voru óráðsíumenn á vegum bankanna og fjármálafyrirtækjanna sem bera mikla ábyrgð á hruni íslensks fjármálakerfis.
Þessir bankamenn voru á ofurlaunum vegna þess hversu mikla ábyrgð þeir báru.
Þegar sýndarviðskiptin þeirra hrundu eins og spilaborg til grunna þá sáu þeir ekki ástæðu til þess að taka neina persónulega ábyrgð á þessum hamförum af þeirra eigin völdum.
Enn er ekki búið að draga þá fyrir dómstóla eða leita uppi stóran hluta þess fjár sem hvarf út í loftið (hluti þess var auðvitað aldrei til í raunveruleikanum).
Hver situr uppi með skaðann? Almenningur! Aldrei hafa þeir verst settu orðið jafn illa úti og aldrei hefur millistéttin verið í eins mikilli hættu á því að þurrkast út.
Þegar bankarnir skiptu um kennitölur (sem almenningur getur ekki gert) og færðu lánin yfir í nýju bankana þá sáu þeir enga ástæðu til þess að láta eitthvað af þeim kröfum sem þegar var búið að afskrifa og orðið tap erlendra kröfuhafa renna áfram til almennings með skuldaleiðréttingu. Nei, þeim fannst alveg eðlilegt að kaupa lán á 10 milljónir en rukka svo skuldarann um 20 milljónir fyrir utan auðvitað margfalda þessa upphæð í vexti og gjöld. Bankarnir sáu og virðast ekki sjá neitt athugavert við það að rukka almenning um stökkbreytt lán upp í topp.
Þeirra framlag er að finna og setja á fót fín úrræði til þess að hjálpa saklausum almenningi að borga óreiðuskuldir bankanna sem hinn almenni borgari á bara ekkert í.
Frá hruni hafa bankarnir baðað sig upp úr hagnaði en almenningur hert sultarólina og fólk sveltur á Íslandi í dag. Börn eru svöng og fá ekki tannlæknaþjónustu vegna þess ástands sem skapast hefur.
Blóðtakan hefur verið og verður dýrkeypt og bankarnir baða sig upp úr blóði, svita og tárum almennings.
Hvernig í veröldinni dettur þessu fólki það í hug að það sé bara eðlilegt að vera með fleiri milljónir í laun á mánuði á sama tíma og almenningur er að veslast upp vegna afglapa þessara sömu banka???
Ekki nóg með það heldur ætlar íslenska velferðarstjórnin ofan á allt að reyna það til þrautar að láta almenning taka á sig Icesave skuldirnar sem eru tilkomnar vegna gegndarlausrar græðgi einkabanka sem þótti ekki nóg um að seilast í vasa Íslendinga heldur þurfti að ryksuga upp sparifé Evrópu líka til að halda uppi sukkinu.
Hvað getur réttlætt það að sumir í okkar samfélagi séu með 160 þúsund krónur til að lifa af mánuðinn á meðan forsprakkar þessara glæpastofnana eru með 4.3 milljónir (og ég hreinlega efa að öll laun og hlunnindi komi fram í þessum tölum)?
Hvað getur réttlætt 27 faldan mun á vinnuframlagi tveggja einstaklinga í okkar samfélagi?
Getur einhver svarað því???
Ótrúlegar fréttir af launum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 1. mars 2011
Svar Gylfa við opnu bréfi um lágmarksframfærslu og neysluviðmið
Þann 23. febrúar sendu nokkrir aðilar Guðbjarti Hannessyni hæstvirtum velferðarráðherra og Gylfa Arnbirnssyni forseta Alþýðusambands Íslands opið bréf vegna lágmarksframfærslu og neysluviðmiða. Hér að neðan má lesa bréfið ásamt svari sem borist hefur frá Gylfa. Við bíðum enn svara frá velferðarráðherra.
Reykjavík 23. febrúar 2011
Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra/Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands!
Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.
Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.
Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins.
Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.
Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu: Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?
Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.
Virðingarfyllst og með ósk um svör.
Ásta Hafberg
Björk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir
Afrit sent á fjölmiðla.
Reykjavík, 28.febrúar 2011
Ágætu viðtakendur.
Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir bréfið og tek heilshugar undir mikilvægi þess að fram fari vönduð og góð umræða um stöðu þeirra hópa sem veikast standa í okkar samfélagi og með hvaða hætti við getum tryggt að allir landsmenn búi við mannsæmandi kjör og hafi tækifæri til virkrar samfélagþátttöku.
Umræðan um neysluviðmið og framfærsluþörf er flókin og vekur upp ýmsar áleitnar spurningar sem erfitt er að svara með algildum hætti, oftast er hér um að ræða huglægt og persónulegt mat manna sem seint verður óumdeilt. Skoðun mín hefur verið sú að rétt væri í þessu samhengi að horfa til alþjóðlegra mælikvarða og meta umfang vandans þannig að horft sé til þess hversu stór hluti þjóðarinnar hefur ráðstöfunartekjur sem eru lægri en gengur og gerist í því samfélagi sem um ræðir.
Evrópusambandið skilgreinir þann hóp sem er undir s.k. lágtekjumörkum sem þau heimili sem hafa lægri ráðstöfunartekjur en sem nema 60% af miðgildi ráðstöfunartekna. Í þessu flest tilraun til þess að bæði meta umfang fátæktar í samfélagi út frá tekjum fremur en að meta þörf fólks fyrir ýmsa neyslu og einnig setja fram skilgreint markmið fyrir bæði stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna eftir við ákvörðun lægstu launa og bóta.
Öllum má vera ljóst að þau heimili sem þurfa að framfleyta sér á bótum eða lágmarkslaunum búa mörg við kröpp kjör. Hér er fyrst og fremst um samfélagslegt viðfangsefni að ræða, sem snýst um það með hvaða hætti við skiptum þeim lífsgæðum sem þjóðin býr yfir.
Vissulega hefur verkalýðshreyfingin veigamikið hlutverk í þeim efnum í gegnum aðkomu sína að gerð kjarasamninga en pólitísk sýn og aðgerðir stjórnvalda í efnahags- og félagsmálum ráða hér úrslitaáhrifum um hvernig til tekst.
Verkalýðshreyfingin hefur í baráttu sinni lagt áherslu á að stjórnvöld nýti þá möguleika sem í skattkerfinu felast til þess að hafa áhrif á tekjuskiptingu í samfélaginu og tryggi með pólitískri stefnu sinni félagslegt jafnrétti á sem flestum sviðum s.s. í mennta- og heilbrigðismálum svo ekki sé talað um það sem snýr að velferð og uppvexti barna og ungmenna. Allt eru þetta þættir sem varða miklu möguleika fólks til virkni og velfarnaðar í nútíma samfélagi.
Á síðustu árum hefur góð samstaða verið um það innan verkalýðshreyfingarinnar að leggja megin áherslu á að bæta kjör þeirra hópa sem lakast standa, þetta hefur endurspeglast í áherslum í kjarasamningum og í kröfum gagnvart stjórnvöldum. Samið hefur verið um hækkanir á lægstu laun talsvert umfram almennar launahækkanir og kröfur gerðar á stjórnvöld í tengslum við kjarasamninga um hækkun á bótum almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga auk þess sem rík áhersla hefur verið á að auka tekjujöfnunarhlutverk skattkerfisins m.a. í gegnum hækkun persónuafsláttar og hækkanir á barna- og húsnæðisbótum.
Í nýlegum samanburði á stöðu lægstu launa innan Evrópusambandsins kom í ljóst að Ísland er enn í hópi þeirra ríkja sem hafa hæst lágmarkslaun. Fyrir hrun krónunnar árið 2008, í kjölfar alvarlegustu hagstjórnarmistaka sem sögur fara af, var raungildi lægstu launa enn hærra og vorum við hæst í Evrópu.
Einnig kom fram í þessari könnun, að ef lægstu laun eru sett í hlutfall við meðallaun í viðkomandi löndum, var það hlutfallið hæst hér á landi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað þann mikla árangur sem stefna verkalýðshreyfingarinnar um að hækka lægstu laun umfram almennar launahækkanir hefur skilað. Í yfirstandandi kjaraviðræðum er ljóst, að þrátt fyrir áherslu á að tryggja aukin kaupmátt með almennum launahækkunum, er uppi þessi sama áhersla á jöfnun kjara. Í síðasta kjarasamningi tókst okkur að tryggja óbreyttan kaupmátt lágtekjuhópanna þrátt fyrir mestu efnahagskreppu Íslandssögunnar.
Nú getum við byggt ofan á þann grunn og aukið kaupmátt lágtekjuhópanna þannig að við endurheimtum stöðu okkar í fremstu röð.
Virðingarfyllst,
Gylfi Arnbjörnsson
Forseti Alþýðusambands Íslands
Mánudagur, 28. febrúar 2011
Eigum við að vinna okkar fyrstu stjórnarskrá sem þjóð í flýti?
Að mínu mati er svarið nei.
Það liggur ekki það mikið á stjórnlagaþingi að fara eigi í kringum hlutina og skipa stjórnlagaráð. Þetta er ekki bara eitthvað verkefni sem þarf að haka við. Hér er um eitt mikilvægasta verkefni sem við höfum farið í á lýðveldistímanum að ræða.
Ég er alveg ósammála þessari leið sem nú virðist hilla undir.
Rök mín gegn því að skipa í stjórnlagaráð byggjast meðal annars á því að:
- Ég tel slíkt ráð ekki geta orðið eins óvéfengjanlegt og valdamikið og stjórnlagaþing til þess að ljúka verkefninu fyrir þjóðina
- Ég er ekki hrifin af því að ráðið starfi undir Alþingi þegar það var skýr krafa um að stjórnlagaþing væri skipað fulltrúum þjóðarinnar og þetta væri ekki verkefni núverandi þingmanna eða Alþingis
- Ég tel ekki vænlegt að leggja upp í þessa för með það í bakpokanum að farið hafi verið á sveig við hæstarétt
Ég tel lykilatriði til þess að takmarka skaðann af þessari leið að drög að nýrri stjórnarskrá verði lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið verði um einstaka kafla áður en þau fara til Alþingis í meðferð þingsins.
Ég hefði viljað sjá fólk fara aðra leið:
- Ég hefði viljað að tekin hefði verið sú ákvörðun að halda ætti stjórnlagaþing eins og lagt var upp með í endurbættri útgáfu
- Sett yrði dagsetning t.d. 1-2 ár fram í tímann fyrir kosningu til stjórnlagaþings (til þess að ekki væri hægt að svæfa málið)
- Lagst hefði verið yfir ágalla kjörs til stjórnlagaþings og bætt úr þeim eins og frekast er kostur t.d. varðandi fjölda frambjóðenda og kynningu á þeim
- Farið hefði verið í sérstaka kynningarherferð til þess að vekja almenning til meðvitundar um mikilvægi stjórnarskrárinnar
- Notast hefði verið við þá miklu vinnu sem nú þegar hefur farið fram t.d. þjóðfundinn og þá reynslu við við höfum af því að gera ýmis mistök með þetta mál. Eitt nærtækt dæmi snýst um það að þeim sem bjóða sig fram verði skylt að gefa upp hagsmunatengsl sín (notast má við hagsmunaskráningu þá sem nýtt er á Alþingi)
Ég skil ekki þennan asa. Við megum ekki falla í þann pytt að vera eins og barnið sem grípur bara næsta súkkulaðistykki í búðinni til þess að tryggja að það fái þá amk. eitthvað þegar það ætlaði sér allt annað í upphafi. Við eigum að vera trú þeirri stefnu sem við mörkuðum um þessa gríðarlega mikilvægu vinnu og við eigum bara að játa það að verkefnið reyndist of stórt til að hægt væri að redda sér stjórnarskrá á 2-4 mánuðum! Við eigum að horfast í augu við það að verkefnið er viðamikið og þarfnast mjög mikils og vandaðs undirbúnings. Stjórnarskrá á að vera samin til framtíðar. Þetta er FYRSTA stjórnarskráin sem við semjum sem þjóð. Hana á að gera vel, eins vel eins og við getum mögulega gert.
Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að núverandi tillaga muni skila okkur því og er því mjög ósammála þessari lendingu að skipa stjórnlagaráð og leggst alfarið gegn henni.
Ég virði þó skoðanir þeirra sem vilja fara þessa leið og mun eins og hver annar þegn reyna að leggja mitt af mörkum í það að byggja hér upp gott samfélag til framtíðar m.a. með því að fylgjast með vinnu stjórnlagaþingsfulltrúa, leggja mitt fram og hvetja þennan ágæta hóp til dáða.
Tillaga um stjórnlagaráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. febrúar 2011
Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa
Reykjavík 23. febrúar 2011
Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.
Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.
Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (Sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.
Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (Sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.
Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:
Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?
Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.
Virðingarfyllst og með ósk um svör.
Ásta Hafberg
Björk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir
Bréf með sömu fyrirspurn sent á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands.
Afrit sent á fjölmiðla.