Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mæli með Halli!

Mikið er ég ánægð að sjá þetta framboð.

Ég hef kynnst Halli Magnússyni í gegnum málefnastarfið hjá Framsókn. Þar fer dugnaðarforkur mikill og góður maður.

Það er ánægjulegt að sjá að Hallur skuli hafa ákveðið að bjóða fram krafta sína fyrir næstu kosningar því hann mun verða öflugur frambjóðandi og þingmaður fyrir flokkinn.

Hallur er sérlega vel að sér í velferðarmálunum sem eru grundvallar málaflokkur fyrir komandi misseri. Mikilvægi þess að standa dyggan vörð um velferðarkerfið og efla það hefur sjaldan verið meira en nú.

Til hamingju með framboðið Hallur og gangi þér allt í haginn félagi Wink.


mbl.is Hallur Magnússon býður sig fram fyrir Framsóknarflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsilegur frambjóðandi

Ég óska Guðmundi Steingrímssyni til hamingju með framboðið og hlakka til að fylgjast með honum í kosningabaráttunni.

Guðmundur er eldklár, yfirvegaður og klárlega framtíðin hvar sem hann stígur niður fæti.

Það er ákaflega mikilvægt að ungt og öflugt fólk skipi framvarðasveit stjórnmálanna með dyggum stuðningi og samvinnu við þá sem eldri og reyndari eru.

Spennandi verður að sjá hvaða fleiri góðu frambjóðendur munu stíga fram á næstunni í öllum flokkum og nýjum flokkum.

Áfram Framsókn til framtíðar - Já við getum!

 


mbl.is Guðmundur: Stefnir á fyrsta sætið í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stokka spilin og gefa upp á nýtt!

Það eru umbrotatímar á Íslandi. Samfélagið eins og við þekktum það er hrunið og byggja þarf upp að nýju.

Til þess þarf að skipta um þá sem standa í brúnni því sömu menn og steyttu okkur á ísjakann geta ekki stefnt okkur inn í nýja tíma. Það hefur sannast síðustu 3 mánuði. Þeir eiga engin ráð önnur en óljósa plástra hér og þar og stefnuleysi.

Þessir þurfa að víkja: Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og í raun ríkisstjórnin með því hún er samábyrg. Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlits þurfa einnig að víkja.

Koma þarf á neyðarstjórn til þess að vinna mikilvægustu björgunaraðgerðir fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu sem ekki geta beðið.

Kjósa þarf nýja fulltrúa þjóðarinnar sem einhenda sér af fullri starfsorku í uppbyggingu. Fyrst þarf að ljúka uppgjöri þeirrar fortíðar sem við skiljum við og lærum af. Mikilvægt er að þannig verði staðið að því að nýtt fólk eigi aðgang að því að komast að en ekki verði vegna flýtimeðferðar einungis um sama fólk að ræða í boði til þessa verkefnis.

Kalla þarf saman stjórnlagaþing þar sem fulltrúar þjóðarinnar vinna að nýrri stjórnarskrá og móta enn fremur nýtt lýðveldi Íslands til framtíðar.

Verkefni sem eru mikilvæg eru t.d. að skoða vel þau gráu svæði sem verið hafa í regluverkinu og lagfæra með hönnun nýrra kerfa. Til dæmis að menn geti ekki stofnað ný og ný fyrirtæki með því að skipta um kennitölu og án ábyrgðar. Skrá þarf menn persónulega fyrir fyrirtæki sem þeir bera ábyrgð á og ef um gjaldþrot verður að ræða gilda álíka reglur og gilda um persónuleg gjaldþrot. Taka þarf á þeirri þjóðaríþrótt að stinga undan skatti!

Sem sagt það þarf að stokka upp öll spilin og gefa upp á nýtt!

Það er mikið verk að vinna en slíkt ætti að geta fært komandi kynslóðum miklu betra samfélag en stefndi í þrátt fyrir mikinn fórnarkostnað.


mbl.is Stjórnarskipti breyta engu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandaðar kosningar

Það virðast langflestir vera á því að kosningar verði að fara fram fyrr en seinna. Landið rekur stjórnlaust og nýir stjórnendur og leiðtogar þurfa umboð þjóðarinnar.

Það er hins vegar ákaflega mikilvægt að virkilega vel verði vandað til verka.

Með svo stuttan tíma fyrir höndum óttast ég að ekki verði nógu lýðræðislega staðið að undirbúningi, að nýtt fólk komist ekki að og málefnin verði ekki nægilega vel útfærð.

Aldrei hefur verið eins mikilvægt og einmitt nú að virkilega góður hópur veljist inn á þing. Því þarf að vanda sérstaklega til verka og vona ég að þessar kosningar verði vel úthugsaðar og vandaðar að öllu leyti.

 


Kosningar á afmælisdaginn minn?

Ja hérna það eru aldeilis að hver stórtíðindin reka önnur á Íslandi í dag.

Maður er eiginlega alveg með hugann á flugi eftir þennan fréttatíma og er að melta þetta allt saman.

Mér þykir ákaflega dapurt að báðir leiðtogar stjórnarflokkanna skuli greinast með æxli með svo skömmu millibili. Ég sendi þeim mínar bestu bataóskir. Þetta gæti verið tilviljun. Hins vegar óttast maður að þegar svona mikið álag er á fólki þá geti það endað með því að líkaminn segi einfaldlega stopp. Það er sjaldan ofsagt hversu mikilvægt er að huga að andlegri og líkamlegri heilsu. Tel það hins vegar hægara sagt en gert í sumum tilfellum. Það er alltaf að sýna sig betur og betur með rannsóknum hvernig hugsanir okkar og tilfinningar tengjast líkamanum beinum böndum.

Svo er það spurning hvort kosið verði 9. maí á afmælisdaginn minn eða hvort valinn verði annar dagur. Það er ekki sjálfgefið að Sjálfstæðisflokkurinn sé einráður um dag. Það að fresta landsfundi þeirra er í beinum tengslum við fyrirhugaðar kosningar. Sjálfstæðismenn eru með kosningamaskínu sem skilað hefur þeim miklu fylgi og kunna vel að fara í kosningabaráttu.

Ég tel hins vegar að þeir muni bíða afhroð að þessu sinni þrátt fyrir vel smurða kosningavél. Fólk hefur áttað sig á því að þeir bera meginábyrgð ástandsins á herðum sínum og hafa setið með ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar síðustu 17 ár. Þeir bera langmesta ábyrgð á því kerfi sem nú er hrunið þrátt fyrir að allir stærri flokkar beri vissa ábyrgð. Einnig hafa þeir ekki staðið sig sem skyldi að jafna út kjör þegnanna og hafa hampað auðvaldinu en gefið lítið fyrir þá sem minna mega sín. Þessi flokkur stendur fast á gildum sínum um sjálfhyggju og græðgi einstaklingsins og sumir séu betri en aðrir eins og sést hefur í því hvernig þeir hafa hampað þeim sem best hafa haft það m.a. með skattalöggjöf sinni. Þar hafa skattarnir verið lækkaðir mest hjá þeim sem langhæstar tekjur hafa en hækkað á þá sem verst hafa það. Fullkominn öfugsnúningur. Einnig hafa þeir setið eins og varðhundar og varið þá sem bera ábyrgð á hruninu án þess að neinn beri ábyrgð. Þessi flokur þarf að fara í frí, það vita allir. Innan hans er þó mjög gott og hæfileikaríkt fólk eins og í öllum flokkum.

Nú verður spennandi að sjá hvernig spilast úr málunum. Stórtíðindi úr Valhöll, Samfylking í upplausn, engar breytingar sjáanlegar hjá vinstri grænum...

 

 


mbl.is Geir: Kosið í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fulltrúar allrar þjóðarinnar

Ég fékk góða ábendingu á bloggið hjá mér sem ég tek algjörlega undir þó það hafi kannski ekki komið nógu skýrt fram í færslum mínum (hef þó bloggað um þetta efni áður).

Til þess að byggja upp ný öflug stjórnvöld þá er vissulega mikilvægt að þar komi að allir fulltrúar samfélagsins. Lausnin felst ekki í ungmennadýrkun þeirri sem t.d. hefur átt sér stað í bönkunum með skelfilegum afleiðingum þar sem mjög ábyrgðarmiklir stjórnendur voru kannski á milli tvítugs og þrítugs en hinir eldri látnir taka pokann sinn. Lausnin er ekki að fylla stjórnkerfið af stuttbuxnafólki!

Hins vegar er ákaflega mikilvægt að ungt fólk meðal annarra komi að þeirri uppbyggingu sem framundan er (og jafnvel sé þar í forystusveit) þar sem þessi hópur þarf að taka á sig mikinn þunga og mun ala börn sem þurfa að taka við skuldaklafanum.

Það þýðir samt alls ekki að hunsa megi mikilvægi þeirra sem eldri og vitrari eru. Þeirra hlutverk er mikilvægara en nokkru sinni fyrr. Fólk sem hefur yfirsýn lengri tíma og hefur afar dýrmæta reynslu.

Það er einnig ákaflega mikilvægt að stjórnkerfið skipi fulltrúa sem eru sem líkastir þversniði samfélagsins og nokkur kostur er. Hvet þess vegna alla sem áhuga hafa að skella sér í flokkana til þess að auka breidd þeirra sem sækjast eftir sæti á listum fyrir næstu kosningar. Þannig munum við fá t.d. betri og öflugri þingheim. Þar eiga fulltrúar helst allra hópa að eiga stað í hlutfalli við fjölda þeirra hjá þjóðinni. Konur hafa t.d. átt einungis um 1/3 þingsæta þó þær séu jafnmargar körlum. Fólk af erlendum uppruna hefur ekki átt sinn fulltrúa og fólk sem býr við fötlun hefur ekki átt marga fulltrúa svo eitthvað sé nefnt. Alþingisfólk þarf að koma alls staðar að, úr öllum greinum samfélagsins!

Eins og þingmannahópurinn er í dag þá er staðalímyndin af alþingismanni vel stæður hvítur karlmaður á milli fertugs og sextugs... Það er langt frá því að endurspegla þjóð okkar! Fólk sem situr á þingi þarf að hafa upplifað þá hluti sem verið er að afgreiða á þinginu á eigin skinni. Manneskja sem býr við fötlun t.d. hún veit nákvæmlega hvað það er að takast á við kerfið eins og það er í dag og er því sérfræðingur í því að finna góðar lausnir. Hún stendur því manni langtum framar sem aðeins horfir á þetta utanfrá.

Framsókn hefur verið sá flokkur sem hefur sýnt jafnrétti best í verki því þar hefur m.a. bæði ungu fólki og konum verið treyst til ábyrgðarmikilla verka. Í næstu kosningum myndi ég vilja sjá enn meiri breidd frambjóðenda úr öllum stigum þjóðfélagsins.

Minni svo alla sem vilja breytingar á það að knýja þær fram með friðsömum hætti, annars falla þær um sjálft sig! Áfram appelsínugulur www.appelsinugulur.is

 


Ofbeldi leysir ekki vandann

Það er dapurt að horfa á fréttamyndir að heiman.

Ég er mjög hlynnt því að fólk mótmæli því ef ekki er ástæða til þess að gera það núna þá er aldrei ástæða til þess.

Þjóðin hefur fengið sig fullsadda af fólkinu í fílabeinsturninum og reynir nú að brjóta hann niður.

Ég get hins vegar ekki skrifað undir mótmæli sem fela í sér ofbeldi. Það er ekki hægt að réttlæta ofbeldi gagnvart lögreglumönnum landsins sem eru að standa sína vakt. Ég dáist að þeim sem slógu skjaldborg um lögregluna. Með lögum skal land byggja er sagt og þó að fólki finnist við aðframkomin af gölluðu stjórnkerfi okkar þá er ekki rétta leiðin að ráðast með ofbeldi að okkar eigin laganna vörðum né heldur að eyðileggja byggingar þær sem hýsa stjórnkerfið. Sjálf þurfum við að greiða reikninginn fyrir því.

Ég hvet fólk til þess að finna reiði sinni farveg sem er þjóðinni til heilla. Reiðinni sem ég skil að er mjög mikil og sjálf er ég öskureið yfir mörgu sem viðgengist hefur í okkar samfélagi . Glæst uppbygging getur orðið úr miklu niðurbroti ef menn halda sig frá ofbeldi og beina orku sinni í réttan farveg.

Ég hvet fólk til þess að flykkja sér inn í flokkana og stofna nýja ef þeir finna sér ekki farveg í þeim sem þegar eru starfandi og láta þannig gott af sér leiða við það að fortíðin verði gerð upp, nútíðin verði í lagi og framtíðin björt. Með ofbeldi og múgæsingi fáum við ekki lausnir.

Það er einnig mikilvægt að fólk styðji ályktun okkar framsóknarmanna um stjórnlagaþing þar sem Íslendingar valdir af Íslendingum (ekki núverandi þingmenn eða ráðherrar) fara yfir og búa til nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland sem nú er hrunið en byggja þarf upp að nýju. Þannig má knýja fram viðvarandi breytingar.

Ég ætla að vera í appelsínugulu í dag jafnvel þó ég sé langt frá Íslandi í augnablikinu en með hugann þar að sjálfsögðu.

Við skulum komast í gegnum þessa erfiðu raun saman og halda áfram friðsamlegum mótmælum.


mbl.is Mikilla tíðinda að vænta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverðar ályktanir Framsóknar

Hvet fólk til þess að kynna sér nýsamþykktar ályktanir Framsóknar sem afgreiddar voru á flokksþingi síðustu helgi.

Meðal annarra góðra ályktana vek ég sérstaklega athygli á:

Ályktun um stjórnlagaþing

Ályktun um siðareglur og opinberar stöðuveitingar

Stjórnmálaályktun

 

Allar ályktanir liggja fyrir á vefsíðunni okkar www.framsokn.is

Þar er einnig hægt að skrá sig í flokkinn eða með því að smella hér


Þegar litli frændi er farinn að hafa áhyggjur þá hef ég verulegar áhyggjur

Ég fékk símtal í morgun frá systur minni.

Hún var að tilkynna mér þau gleðitíðindi að Framsókn hefði verið að mælast með 17% fylgi.

Bakvið hana í símanum var litli frændi minn sem hafði miklar skoðanir á málunum. Hann vildi endilega koma því að að eitthvað myndi gerast kl. 11:00... Þá myndi stjórnin fara frá og þá myndi kreppunni ljúka! Samt hefur honum markvisst verið haldið frá þessu þar sem hann hefur ekki aldur til þess að skilja eðli málsins til fullnustu. Hann verður hins vegar var við ástandið í fjölmiðlum og í kringum sig hjá öðrum börnum þó hann hafi ekki sótt einn einasta mótmælafund.

Þetta símtal fékk mig til að hugsa.

Þarna kristallaðist svart á hvítu hvernig börnin okkar eru að upplifa ástandið. Þau eru orðin jafn þreytt og við. Þau vilja breytingar. Þau vilja að kreppunni ljúki.

Ég skil það vel því þó fæst þeirra geri sér grein fyrir því þá mun atburðarrás undanfarinna mánaða og næstu missera hafa gríðarmikil áhrif á þeirra líf og lífskjör til framtíðar. Það mun hafa mikið að segja hvernig gerð verða upp þau miklu spillingarmál sem hér hafa liðist og hvernig samið verður um skuldabyrðir þær sem hengdar hafa verið á saklausa þjóðina. Hvernig tekið verður á þeim sem skuldsettu þjóðina um 12 falda þjóðarframleiðslu. Hvernig tekist verður á við óhæf, máttlaus stjórnvöld, hvernig tekist verður á við pólitískt skipaða embættismenn sem gæta stöðu auðmanna landsins eins og varðhundar (sömu og hafa sett okkur á hliðina í sumum tilfellum), hvernig hér verður byggt upp nýtt regluverk og nýr mannskapur settur í brúna. Hvernig tekið verður á grunni velferðarkerfisins nefnilega atvinnumálunum þannig að hægt sé að halda velferðar- og menntakerfum gangandi og helst gefa þeim góða innspýtingu til að standa vörð um þjóðarheil.

Já, það er mikið í húfi núna. Aldrei hefur eins mikið verið í húfi.

Nýtt lýðveldi mun fæðast upp úr rústunum. Öskunni sem brotlent stefna óheftrar sjálfhyggju hefur skapað. Í raun og veru má segja að upp úr þessum miklu erfiðleikum munum við kannski færa börnunum okkar miklu betra samfélag en engar breytingar gerast sársaukalausar.

Nú liggur allt undir að hér verði um raunverulega breytingu að ræða.

Við í Framsókn höfum sýnt að okkur er alvara. Hvað með hina flokkana?

Ég skil vel að litli frændi hafi áhyggjur og vilji að eitthvað gerist og kreppunni ljúki. Af því hef ég verulegar áhyggjur.

Nú skulum við öll leggja okkur á plóg til að byggja upp framúrskarandi samfélag fyrir hann og öll hin áhyggjufullu börnin okkar.

Ný Framsókn til framtíðar er aflið sem kom langþráðum hjólum breytinga af stað!

Áfram Ísland til framtíðar!


mbl.is Máttlítill málflutningur forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vertu velkomin/nn í Framsókn til framtíðar

http://www.framsokn.is/Forsida/Gangaiflokkinn

Hvet alla sem áhuga hafa á því að láta til sín taka við uppbyggingu nýs samfélags að ganga til liðs við okkur.

Við erum flokkur breytinganna og flokkur unga fólksins.

Hlakka til að sjá þig :).


mbl.is Ekki hjá því komist að kjósa á þessu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband