Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Þetta eru góðar fréttir fyrir Íslendinga :)
Ég er í skýjunum að heyra að Dalai Lama skuli ætla að koma til Íslands. Ég trúði því vart fyrst þegar ég heyrði af þessu.
Hann gæti ekki komið á betri tíma fyrir okkur Íslendinga því speki hans hefur sjaldan átt eins vel við og núna.
Ég vona að íslensk stjórnvöld móti stefnu í þá átt að leggja Tíbetum stuðning við að endurheimta glatað sjálfstæði sitt.
Af því tilefni endurbirti ég hér grein sem birtist í Morgunblaðinu eftir mig í fyrra.
Miðvikudaginn 14. maí, 2008 - Aðsent efni
Opnum augu fyrir Tíbet
Kristbjörg Þórisdóttir skrifar um Tíbet
Kristbjörg Þórisdóttir skrifar um Tíbet: "Hvert er gengið á mannréttindum í dag? Hefur það fallið jafnmikið og gengi krónunnar? Er betra að horfa í hina áttina en opna augun fyrir Tíbet?"
ÉG MAN enn tilfinninguna, sex árum síðar, þegar við komum loksins að hliði Tíbets, Tanggula Pass, í 5136 metra hæð yfir sjávarmáli. Á móti okkur tóku flöktandi litríkir bænafánar í þunnu fjallaloftinu. Frá því ég heyrði sorgarsögu Tíbeta hefur það verið draumur minn að heimsækja Tíbet og kynnast þjóðinni, búddatrúnni og menningu hennar. Þessi afskekkta þjóð býr umlukin hæstu fjöllum heims, Himalaya-fjöllunum, og liggur Everest, hæsta fjall heims, á mili Tíbets og Nepals. Þennan dag rættist draumur minn.
Eftir hrakningar á hásléttunni komst ferðahópurinn loksins til Lhasa. Lhasa er þak heimsins í bókstaflegri merkingu og stendur í 3.650 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún hefur verið nefnd staður guðanna, enda draumkenndur og dularfullur staður. Háslétta Tíbets er ekki ýkja ólík Íslandi og stundum fannst mér ég vera komin heim.
Í mér bærðust tvíbentar tilfinningar. Gleðitilfinning yfir að vera komin til lands drauma minna en jafnframt sorgartilfinning yfir því að upplifa og sjá með eigin augum hvernig málum er ástatt. Höfuðborgin skiptist í tvo ólíka hluta, tíbetska hlutann og kínverska hlutann. Í Tíbet og Lhasa er mikið af aðfluttum Kínverjum og stefnir í að Tíbetar verði minnihlutahópur í sínu eigin landi ef þeir eru ekki þegar orðnir það. Kínverskar fjölskyldur mega eiga tvö börn í Tíbet en einungis eitt í Kína og er þannig markvisst verið að fjölga Kínverjum í Tíbet. Sagan sýnir að frá innrás alþýðuhersins árið 1950 þegar Tíbet var innlimað sem hérað í Kína hefur markvisst verið reynt að þróa menningu og lifnaðarhætti Tíbeta í átt að því sem tíðkast í Kína. Tíbetar hafa mátt sæta ofsóknum fyrir trú sína og trú á leiðtoga sinn, Dalai Lama, sem hraktist í útlegð til Indlands árið 1959. Í gegnum tíðina hafa Tíbetar nokkrum sinnum reynt að berjast fyrir sjálfstæði sínu með uppreisnum en það er andstætt lífsskoðunum búddista að beita vopnum og því hefur mótstaða þeirra verið árangurslaus og snöggt og grimmilega verið brotin á bak aftur af Kínverjum. Það er kaldhæðni fólgin í því að á móti helgasta stað Tíbeta, Potala, höll Dalai Lama, hafa kínversk stjórnvöld reist minnisvarða um frelsun Tíbets". Þetta eru fullkomin öfugmæli. Sú milljón Tíbeta sem fallið hafa í blóðugum bardögum síðustu fimmtíu ár, öll klaustrin sem lögð hafa verið í rúst, heilagar bækur sem hafa verið brenndar og djúpt sorgarmark sem merkja má í andliti hvers Tíbeta ber vott um allt annað. Það ber vott um kúgun kínverskra stjórnvalda og rán þeirra á sjálfstæði Tíbeta. Þeir sem ekki hafa farið í útlegð til annarra landa halda áfram að snúa bænahjólunum sínum, iðka trú sína og vona. Búddatrúin boðar endurholdgun þannig að samofin henni er djúp virðing fyrir öllu formi lífs og biðja munkarnir fyrir skordýrunum sem þeir komast ekki hjá að kremja á för sinni. Þannig er með ólíkindum að einhver skuli trúa áróðri kínverskra stjórnvalda um að munkar skuli vera hryðjuverkamenn í bleikum klæðum sem séu líklegir til sjálfsmorðsárása. Það er þversögn við allt það sem líf Tíbeta gengur út á.
Ég hef gengið um höll Dalai Lama. Sú upplifun verður fest í minni mínu að eilífu. Eða eins og ég lýsti í ferðasögu minni: Stanslaus umferð af pílagrímum að kyrja búddabænir sínar í öllum sínum fallegu klæðum, ótrúlega fátækt fólk sem komið hafði langan veg með örfá jiao til að gefa Búdda, lyktin af jakuxakertunum alls staðar, ljóminn af þeim, búddalíkneski úr skíra gulli og andinn í loftinu". Í garði þeim sem stendur hjá sumarhöll Dalai Lama fann ég fyrir himnaríki á jörð.
Tíbetar eru einstök þjóð sem búið hefur einangruð innan stórfenglegrar náttúru. Þeir eru þjóð sem eitt sinn var frjáls og iðkaði trú sína og átti friðsamt líf án afskipta umheimsins. Þeir eiga auðlindir sem aðrir ásælast. Þeir eru fámenn þjóð. Á margan hátt eru þeir ekki ólíkir okkur Íslendingum. Við erum einangruð, fámenn þjóð sem býr á einu fegursta landi heims og búum yfir náttúruauðlindum. Við vorum eitt sinn hluti af stærra veldi, Danaveldi. Nú erum við sjálfstæð þjóð.
Það er því þyngra en tárum taki að íslenskir ráðamenn skuli líta undan þegar málefni Tíbets ber á góma. Það er betra að horfa í hina áttina af ótta við að styggja stórveldið Kína og missa af viðskiptasamböndum og stuðningi við framboð í Öryggisráðið. Er þetta gengið á mannréttindum í dag? Það hefur þá fallið álíka og gengi krónunnar. Ætlum við að selja sál okkar og sannfæringu á þessu verði?
Hvernig liði okkur ef Danir myndu ræna okkur sjálfstæðinu með blóðugum átökum og innlima okkur sem hluta Danaveldis? Ef þeir flyttu til Íslands í stórum hópum og stuðla að fjölgun sinni með brögðum og markvisst reyna að breyta menningararfi okkar, trú og tungumáli? Myndum við þá vilja að þjóðir heimsins litu undan og beygðu sig undir stórveldið?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands: Mynduð þið þá styðja stefnuna Eitt Danaveldi" án þess að blikna? Á hvaða forsendum styðjum VIÐ Íslendingar Eitt Kína"? Við skulum ekki gera sömu mistökin aftur.
Nú er tími Tíbeta kominn. Frjálst Tíbet.
Höfundur er nemi og meðlimur í samtökunum Vinir Tíbets
Dalai Lama kemur til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Stjórnlagaþing
Sunnudagur, 8. febrúar 2009
Gamlir vinir heimsóttir
Ég fór í dag í langþráða heimsókn.
Þannig er mál með vexti að síðasta sumar starfaði ég á öldrunarheimili hér í Árósum. Þetta eru 3 gangar með 8 íbúðum á hverjum gangi. Hver íbúi hefur sem sagt litla íbúð sem er samsett af baðherbergi, svefnherbergi og stofu með litlu teeldhúsi. Allar hafa íbúðirnar litlar svalir. Á hverjum gangi er svo sameiginlegt eldhús þar sem þeir borða sem kaupa það en fáir sjá um slíkt sjálfir í sínum íbúðum. Núna eru hjón í einni íbúðinni. Þrátt fyrir ágætan aðbúnað er starfsmannahaldið allt of rýrt. Það er að segja allt of fáir á vakt og aðeins hægt að sinna grunnþörfum og mikill stofnanabragur á öllu skipulagi.
Mér finnst þetta vera ágæt fyrirmynd að mögulegri öldrunarstofnun (fyrir utan starfsmannahaldið) þar sem hver íbúi hefur sína eigin litla íbúð. Ég er reyndar hlynnt því að fólk fái þjónustu á sitt eigið heimili svo lengi sem mögulegt er án þess að þurfa að flytja búferlum.
Ég leiddi hugann að því þegar ég hjólaði heim hvernig hinar ýmsu stofnanir leika hlutverk í lífi okkar. Við fæðumst á stofnun og deyjum á stofnun.
Ég varð fyrir miklu áfalli þegar ég gerði mér grein fyrir því að þriðjungur þeirra sem ég vann fyrir, kynntist og þótti ákaflega vænt um í sumar hafði kvatt þennan heim. Af hverju fór ég ekki fyrr í heimsókn hugsaði ég og sá fyrir mér andlit þeirra sem voru farnir og hugsaði um leiftrandi samræður sem við áttum þar sem ég skildi ekki allt sem þau sögðu og þau reyndu að skilja brosmilda en málhalta Íslendinginn...
Þetta leiddi hugann einnig að öðru. Aðbúnaður og þjónusta öll á að vera til fyrirmyndar á öldrunarstofnunum. Þarna eyðir fólk síðustu mánuðum sínum og það á að fá að gera það á sem bestan, þægilegastan máta og umfram allt með reisn. Þetta er allt fólk sem hefur lagt sitt til samfélagsins og samfélagið á að launa því framlagið ríkulega tilbaka. Er það til of mikils mælst?
Mig langar einnig að hvetja alla þá sem áhuga hafa á að starfa með öldruðu fólki að drífa sig í slíkt. Ég hef sjaldan lært eins mikið á ævinni og af þessum vikum sem ég starfaði þarna. Þvílíkir viskubrunnar og dýrlingar sem þarna var að finna. Það var yndislegt að sjá hvernig fólk passaði upp á hvert annað og hvernig fólk tókst á við raunir þess að eldast og missa færni af beittum húmor og jákvæðni. Þarna eignaðist ég vini sem munu fylgja mér í huganum um ókomna tíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 8. febrúar 2009
Dýr einleikur Davíðs á ævintýraeyjunni Íslandi
Það er með ólíkindum í hvaða stöðu íslensk pólitík er.
Þjóðin situr uppi með þyngri skuldahala en nokkru sinni fyrr. Það er raunveruleg hætta á því að við getum ekki haldið uppi velferðarkerfi eins og við þekkjum það vegna gríðarlegra útgjalda á næstu árum sökum skulda. Það er raunveruleg hætta á því að innviðir samfélagsins geti riðað til falls og fólk flýi land í hrönnum. Nánasta framtíð okkar og barnanna okkar er í húfi.
Vegna skulda sem eru tilkomnar vegna raða rangra ákvarðana, ónýts regluverks og siðleysi þeirra manna sem léku kónga í Matador heimsins og íslensku þjóðina að veði sem ábyrgðarmanna. Enginn fylgdist með spilinu og flestir klöppuðu. Þar til reikningurinn kom og ljóst var að þjóðin þarf að borga fyrir útsaumuðu dagskrána í handklæðin og Tinu Turner og annað þvíumlíkt rugl!
Frásögnin af þessum ótrúlega harmleik okkar er með svo miklum ólíkindum að færasta ævintýraskáldi myndi vart detta hún í hug þar sem koma meðal annars til umræðu lán til fjarlægra fursta og grafinna fjársjóða á ævintýraeyjum.
Trúverðugleiki okkar í efnahagsmálum er enginn.
Og ekki dettur Davíð Oddssyni til hugar að víkja til hliðar þó ekki væri nema til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar íslenskum almenningi til bjargar. Þetta snýst ekki lengur um það hver gerði hvað og af hverju. Með óbreytt kerfi náum við okkur ekki á flot. Það verður Davíð Oddsson að skilja. Það er miklu meira í húfi en persóna hans og heiður. Lífsafkoma heillar þjóðar er undir því komin að hægt sé að byggja upp að nýju. Ég trúi því ekki að Davíð sé tilbúinn að fórna heimilum og fyrirtækjum landsins fyrir þann einleik sem hann leikur nú. Eða hvað?
Davíð segir ekki af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 7. febrúar 2009
Vinnuhamstrar á hlaupahjólum...
Það hefur verið í tísku hér síðastliðin ár að hamast eins og hamstur á hlaupahjóli myrkranna á milli. Það hefur þótt smart að skila inn ógrynni tíma á viku, langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Ef ekki á sama vinnustaðnum þá í mörgum störfum.
Þessi vinnusemi hefur ekki endilega komið okkur til góðs. Hún hefur leitt til þess að vinnumarkaðurinn gerir of einsleitar kröfur og börnin fá dauðþreytta foreldra þegar loksins er tími til samveru. Það er heilmikið til af efnilegum starfskröftum sem hafa skerta starfsorku og það hefur ekki verið nægilegt rými fyrir fólk sem passar ekki inn í rammann. Það hefur einnig þótt leti að vinna t.d. "bara 75% starf" og vilja sinna börnum hinn tímann.
Hér í Danmörku er algengast að fólk skili 37 klst. á viku fyrir fullt starf. Það eru alls ekkert allir í fullu starfi. Í raun er hægt að sækja um starf sem er 1klst. á viku. Í fullu starfi vinnur fólk sem svarar 8-16 og 8-13 á föstudögum. Hér sér maður fólk iðulega sækja börnin sín snemma á föstudögum.
Ég tel þetta vera eitthvað sem við Íslendingar eigum að tileinka okkur. Við eigum að vinna minna hvert og eitt og breikka rammann þannig að sem flestir geti fundið sig á almennum vinnumarkaði.
1) Það skilar betri vinnuafköstum því fólk hvílir sig þá betur. Fólk sem vinnur allt of mikið skilar ekkert endilega besta vinnuframlaginu!
2) Það leiðir til þess að störf skapast fyrir fleiri en "hamstrana á vinnuhjólunum".
3) Fólk á meiri tíma með börnunum sínum sem leiðir til vellíðanar og ánægju þeirra. Það er sko fjárfesting sem skilar þjóðfélaginu arði og sparar kostnað í velferðarkerfinu.
4) Fólk glímir síður við vinnutengda vanlíðan eins og líkamlega kvilla, streitu, kvíða eða þunglyndi vegna of mikils álags. Það er líka góð fjárfesting og skilar okkur sparnaði í heilbrigðiskerfinu.
5) Með breiðari og margbreytilegri starfsmannahóp fáum við einfaldlega miklu skemmtilegri vinnustaði! Það ætti að byrja með því að veita fyrirtækjum viðurkenningu sem endurskipuleggja starfsmannahaldið í þessa veru.
Það mætti t.d. byrja á Alþingi því það er vitað mál að vinnuaðstæður þar eru til skammar. Að sitja undir ræðum og flytja ræður langt fram eftir nóttu getur ekki leitt til vitrænna vinnubragða eða bestu niðurstöðu í flóknum ákvörðunum fyrir þjóðina! Það gerir líka fjölskyldufólki ákaflega erfitt fyrir að bjóða sig fram til Alþingis. Ég vil sjá Alþingi breyta háttalagi sínu í þá veru að krafist sé 37 klst. vinnuframlags af alþingismönnum. Held það myndi oft skila okkur mun faglegri vinnubrögðum og heilbrigðari alþingismönnum.
Tökum niður hlaupahjólin og förum að ganga í takt, hvert á sínum hraða!!!
Öld testósterónsins lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 6. febrúar 2009
Skólafélagi mánaðarins - gegn einelti!
Ég sá svolítið sniðugt í sjónvarpinu hérna áðan. Ekki það að slíkt gæti nú vel hafa verið nýtt í íslenskum skólum en ákvað að skella því hér inn og deila með ykkur ef einhver gæti nýtt sér það.
Þetta snerist um það að krakkarnir kjósa sér "skólafélaga mánaðarins". Sá sem vinnur fær viðurkenningarskjal og mynd af sér upp á töflu skólans. Þau rökstyðja hvers vegna þau velja þann sem þau kjósa sér. Skólafélagi mánaðarins er sá sem hefur verið góður við aðra og verið góður félagi í skólanum. Þetta verkefni er hugsað til þess að draga fram það góða í börnunum því öll börn vilja jú standa sig vel og sækjast eftir slíkri viðurkenningu held ég.
Einelti er hræðilegt og flest held ég að við þekkjum einhverja hlið þess. Sjálf þekki ég nokkrar hliðar þess. Bæði að lenda í því sjálf og einnig að standa nærri manneskjum sem hafa lent í slíku eða eru að lenda í slíku. Það er því sérstakt áhugasvið mitt að finna allar mögulegar leiðir til þess að draga úr þessari böl sem markar djúp sár til lífstíðar fyrir alla aðila.
Þetta gæti verið ein af mörgum leiðum til að hafa jákvæð áhrif á starf skólanna.
Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Glæsilegur fulltrúi okkar
Mikið líst mér vel á það að sjá hana Eygló Harðardóttur bjóða sig fram í efsta sæti listans í Suðurkjördæmi.
Þar fer glæsilegur fulltrúi Framsóknar.
Eygló hefur þá nýju fersku rödd sem þarf í íslensk stjórnmál. Hún er framúrskarandi einstaklingur. Það er gott að sjá svo öflugar konur stíga fram því Framsókn vill að sjálfsögðu halda þeirri sérstöðu sinni að vera sá flokkur sem hefur sýnt jafnrétti í reynd og treyst konunum sínum til jafns við karlana. Sjaldan hefur það verið mikilvægara en einmitt nú að á þingið veljist sem breiðastur hópur fólks úr öllum áttum þjóðfélagsins. Það hefur verið offramboð af miðaldra, hvítum, ófötluðum karlmönnum á þingi.
Til hamingju með framboðið Eygló.
Eygló býður sig fram í fyrsta sætið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Grein af Vísi í dag
Vísir, 05. feb. 2009 07:00
Pakkatilboð á pólitíkusum
Kristbjörg Þórisdóttir skrifar:
Með hinu nýfædda Íslandi sem er að brjóta sér leið úr egginu þessa dagana rís hávær krafa um algerlega nýtt kerfi. Ein þessara krafa lýtur að breytingum á kosningakerfinu.
Kosningar verða haldnar að kröfu fólksins á vordögum. Það er ansi skammur fyrirvari til þess að nýtt fólk og ný framboð geti skipulagt sig og stigið fram. Það má velta vöngum yfir því hvort þörf sé á nýjum framboðum þegar núverandi flokkar ná vel yfir litróf stjórnmálanna. Fólk ætti því að geta fundið flokk við sitt hæfi en gangi það ekki þá er nýtt framboð rétta leiðin til að hasla sér völl og hafa áhrif. Framsóknarflokkurinn hefur stigið öðrum flokkum feti framar í þeirri nauðsynlegu endurnýjun sem núverandi ástand hefur kallað á og leitt mikilvægar breytingar.
Til þess að þjóðin fái þá þingmenn sem hún óskar en ekki óbreytta stöðu að loknum kosningum þarf að huga að ýmsu. Miklar breytingar þurfa að eiga sér stað á kosningakerfinu og stjórnkerfinu í heild sinni. Augljóst er að ekki nást þær allar fram á svo skömmum tíma en miklvægt er að breyta því sem mögulegt er að breyta. Tillaga sú sem við framsóknarfólk höfum haldið á lofti um stjórnlagaþing er í anda þess að fela almenningi hið raunverulega vald til þess að semja nýja stjórnarskrá Íslands og hafa þannig áhrif á framtíðina.
Til þess að færa kjósendum aukið vald og efla lýðræði hugnast mér vel sú hugmynd að kjósendum sé veitt valdið til þess að raða frambjóðendum þess lista sem þeir kjósa í röð. Það eykur lýðræði og raunverulegt vald kjósenda. Á nýafstöðnu flokksþingi okkar framsóknarmanna var samþykkt ályktun um nýja kosningalöggjöf. Markmið hennar er að leita leiða til að persónukjör og vægi kjósenda aukist við röðun á lista. Ein leið að því markmiði er að frambjóðendum hvers lista sé raðað í stafrófsröð á kjörseðli og kjósendur raði fulltrúum á lista og kjósi þannig viðkomandi lista.
Einnig mætti auka vægi útstrikana af listum. Þessar leiðir koma í veg fyrir pakkatilboð það sem almenningur hefur þurft að velja um hingað til. Þannig sleppa kjósendur við að þurfa að kjósa sér fulltrúa sem þeir vilja ekki og fylgja bara með í pakkanum og hafa komist ofarlega á lista vegna ýmissa tengsla. Einnig mætti gera kjósendum kleift að velja frambjóðendur af öðrum listum í stað þeirra sem þeir strika út til þess að auka vægi persónukjörs.
Þetta eykur einnig þrýsting á frambjóðendur að leggja sig fram við að kynna sín persónulegu stefnumál þar sem þeir eiga ekkert öruggt fyrr en kosning hefur farið fram. Gallinn er sá að þessi aðferð gæti leitt til ósamstöðu framboða þar sem flokksfélagar berjast um völd innbyrðis á sama hátt og í prófkjörum. Þessi leið færir í raun þá baráttu fram í kosningarnar sjálfar.
Kostir aðferðarinnar eru að mínu mati meiri því mestu máli skiptir að það fólk sem valið er sé það fólk sem almenningur vill sjá starfa í sínu umboði.
Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF (Sambands Ungra Framsóknarmanna).
Miðvikudagur, 4. febrúar 2009
Mikilvægar upplýsingar sem geta bjargað mannslífi
Það væri gott ef allir vissu þetta .............
Slag / Heilablóðfall / Blóðtappi
Það tekur þig aðeins rúmlega eina mínútu að lesa þetta:
TUNGAN er fjórða einkennið til að greina Slag / Heilablóðfall / Blóðtappa
Haft er eftir taugasérfræðingi að, fái hann fórnarlamb slags til meðferðar
innan þriggja tíma, sé hægt að snúa þróun áfallsins við og bæta algerlega
allan skaða sem það hefur valdið. Að hans sögn er galdurinn í því fólginn
að þekkja einkennin - greina þau og veita sjúklingnum viðeigandi læknishjálp
innan þriggja klukkustunda - sem er ekki einfalt.
Stundum er erfitt að átta sig á að um slag sé að ræða. Því miður hefur
sofandaháttur við þessar kringumstæður grafalvarlegar afleiðingar.
Sjúklingar geta orðið fyrir alvarlegum heilaskaða ef nærstaddir átta sig
ekki á að um einkenni slags er að ræða.
Að þekkja einkenni slags
Að sögn lækna, geta leikmenn borið kennsl á slag, með því að kanna
þrjú ( núna fjögur ) einföld atriði
Þið getið lært að tengja fyrstu 5 stafina í BLóðTappi við einkennin fjögur
B L óð T appi
Brosa Lyfta (óð) Tala + Tunga
Á ensku er bent á læra að tengja fyrstu 3 stafina í STRoke
S = smile T = talk R = raise both arms (og bæta núna Tounge við)
B biðjið hann / hana að BROSA
L biðjið hann / hana að LYFTA báðum handleggjum
T biðjið hann / hana að TALA og segja einfalda setningu að viti
t.d. að lýsa veðrinu
Núna má bæta TUNGA við -
T biðjið hann / hana að reka TUNGUNA - beint - út úr sér
því ef tungan er bogin eða leitar út í annað munnvikið er það líka vísbending um slag.
Ef manneskjan á í erfiðleikum með EITTHVERT EITT þessara atriða þarf
að hringja strax í Neyðarlínuna og lýsa einkennunum
Hjartasérfræðingur segir að ef allir sem fá þennan póst, senda hann til 10 annarra,
þurfi þeir ekki að efast um að með því verði amk einu lífi bjargað.
Ég gerði það sem í mínu valdi stóð - Hvað með þig ?
Þriðjudagur, 3. febrúar 2009
Vandað skal til verka
Hafa þarf í huga að aðeins um helmingur svarar þessari könnun eða rúmlega 400 manns af 800 og hafa þarf það í huga þegar maður metur marktækni hennar. En það er ljóst að fylgið er engu að síður á fleygiferð og spennandi kosningar framundan...En yfir í annað!
Hávær krafa er uppi um vönduð vinnubrögð og uppstokkun í íslenskum stjórnmálum. Sú krafa er eðlileg í ljósi þess hvernig óvönduð vinnubrögð hafa leitt okkur sem þjóð í stórfengleg vandræði.
Framsókn með nýjan formann í broddi fylkingar tók strax til hendinni með engum vettlingatökum og kom málunum á hreyfingu með tilboði sínu um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs vantrausti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók það skýrt fram í öllum viðtölum að slík aðgerð væri gerð með mjög skýrum skilyrðum og aðeins sem tímabundin lausn til þess að koma heimilunum og fyrirtækjunum í landinu til tafarlausrar hjálpar. Eins og alkunna er leiddi þessi atburðarrás til þess að loksins er komin starfhæf ríkisstjórn undir traustu forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að grípa inn í með öllum sínum mætti og aðstoða þjóðina fram að kosningum.
Það vakti undrun mína að fylgjast með framgangi ýmissa bloggara í kjölfar þessarar atburðarrásar þegar skammaryrðin voru notuð óspart vegna þess að framsóknarmenn stóðu í lappirnar, stóðu við orð sín og þau skilyrði sem sett voru strax í upphafi og vildu vanda til verka. Vönduð vinnubrögð taka lengri tíma en það hlýtur að vera þess virði, er það ekki? Þetta orkar tvímælis að fólk skuli vilja nýtt Ísland en svo þegar einhver hefur kjark í sér til þess að vinna í þeim anda þá vill sama fólk að hlutirnir taki enga stund og viðkomandi fær að finna fyrir því að hann sé að tefja. Ég er ánægð með framsóknarmenn fyrir það að sýna það strax í verki að okkur sé alvara og að við látum ekki slæleg vinnubrögð og hálfkveðin loðin svör stjórna ferðinni með óvönduðum vinnubrögðum einungis þannig að sýningin geti haldið áfram".
Núna þurfa Íslendingar skýr svör, skýra áætlun með skýrum, tímasettum markmiðum og leiðum að þeim. Núna þurfa Íslendingar pólitíkusa sem dansa ekki eftir takti fjölmiðlanna heldur sitja fast á sínu þar til þeim skilyrðum sem samið var um strax í upphafi er framfylgt. Núna þurfa Íslendingar alla þá Sigmunda sem við eigum til. Þá getum við fyrst talað um vönduð vinnubrögð í stjórnmálum og virkilegan vilja til breytinga. Það er stórmerkilegt að þekktir stjórnmálafræðingar skuli gagnrýna þá einföldu staðreynd að vilja fylgja þessum skilyrðum og saka okkur framsóknarmenn um að hafa gerst full frekir til fjörsins. Ég lít einmitt á það sem gæðastimpil á okkar fólk og vinnubrögð að hafa staðið við orðin og fylgt sinni sannfæringu. Það getur enginn stjórnmálaflokkur varið aðra vantrausti ef skilyrðum sem samið var um í upphafi er ekki fylgt og ekki liggur fyrir nákvæm útlistun á því hvað eigi að leggja áherslu á og hvernig eigi að framfylgja þeim málum.
Það eru spennandi tímar framundan og eflaust margir sem ganga með góðan stjórnmálamann eða góða stjórnmálakonu í maganum. Margir vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar til þess að byggja upp nýtt og betra Ísland. Ég vona að til starfans veljist hæfasta fólkið og að grundvallarskilyrðum verði breytt á þann veg að lýðræðið njóti sín til fulls. Mér hugnast til dæmis vel sú hugmynd að kjósendur geti sjálfir raðað frambjóðendum í röð á framboðslista. Ljóst er að mikilla grundvallarbreytinga er þörf og enginn á lengur neitt gefið á Íslandi. Sem betur fer. Ég hlakka til að fylgjast með þróun mála af hliðarlínunni en mun sennilega ekki taka mikinn þátt að þessu sinni. Minn tími mun koma, eins og Jóhanna sagði endur fyrir löngu!
Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.
(pistill birtur á www.suf.is í dag).
Sjálfstæðisflokkur stærstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)