Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ný bjartari sýn með sigri Obama

Barack Obama hefur tekist það sem fæstir hefðu trúað að væri mögulegt. Honum hefur tekist að komast í valdamesta embætti heims. Aðeins nokkrum áratugum eftir að kynbræður hans máttu líða óréttlæti og þjáningar af hendi hvíta mannsins hefur honum sem er bæði svartur og hvítur tekist að sameina marga ólíka kynþætti og gefa öllum heiminum nýja von. Það er táknrænt að hann skuli vera sonur svarts föður og hvítrar móður. Hann er sameiningartákn nýrra tíma.

Það er eitthvað við Obama sem veldur því að hann sker sig úr. Eitthvað heillandi. Það er eitthvað við hans persónulega sjarma sem gefur manni von um betri og yfirvegaðri tíð. Hann er sameiningartákn okkar allra. Það er engin tilviljun að allur heimurinn fylgdist með sigurgöngu hans og allur heimurinn fór hátt upp á kosninganótt með sigri hans. Hann mun hafa áhrif. Áhrif til góðs. Hann gefur minnihlutahópum von um að allt sé hægt og undirstrikar að það séu breyttir tímar.

Í sumar var ég stödd í Berlín á ráðstefnu á sama tíma og Obama var þar. Það var tilviljun að ég frétti af ræðu hans því leigubílstjóri sem keyrði okkur heim sagði okkur frá því að hann ætti að tala á þessu torgi næsta dag. Það skemmtilega við þetta var að þetta var einungis nokkuð hundruð metra frá íbúðinni sem við stelpurnar höfðum leigt. Ég lét því ekki segja mér þetta tvisvar og fór snemma heim af ráðstefnunni næsta dag og rölti í áttina að þessu torgi. Einhvern veginn óafvitandi um hvað biði mín þá var ég með stútfulla ráðstefnutösku og allt of mikið klædd í hitanum í háhæluðum skóm. Ég tímdi ekki að fara heim og losa mig við draslið af ótta við að missa af ræðunni.

Það tók óratíma að komast loksins inn að aðalmiðju torgsins þar sem sviðið var. Slíkan troðning hef ég aldrei á ævinni upplifað enda voru minnir mig 200 þúsund manns stödd þarna og hver einasti cm var skipaður fólki sem var þarna í sama tilgangi og ég. Að heyra í vonandi tilvonandi forseta Bandaríkjanna. Til þess að komast alveg inn í miðjuna þurfti að fara í gegnum vopnaleit og það tók óratíma að komast í gegnum það. En biðin og þrengslin, föst innan um ókunnugt fólk með troðna ráðstefnutöskuna og að kafna úr hita var þess virði. Það var mögnuð tilfinning að heyra ræðu hans og upplifa viðbrögð áheyrenda. Maður fann það á hverju skynfæri sínu að þarna væri sannur leiðtogi fólksins á ferð. Það var mjög mikið af lituðu fólki þarna og sæluvíman og brosið á andliti hvers og eins bar vott um þá tíma sem fólkið er að upplifa núna. Ásýnd þeirra bar vott um sigur. Að hafa eignast nýjan leiðtoga sem mun leiða okkur inn á alveg nýja braut.

Ég spái því að Obama muni taka Vestræna heiminn lengra inn að miðju og til vinstri en hann hefur verið hingað til. Það má segja að það sé bara engin stemming fyrir þeirri pólitík sem stunduð hefur verið víða síðustu ár. Sú hægristefna sem stjórnast af peningagræðgi, markaðsöflum og einstaklingshyggju á ekki upp á pallborðið á krepputímum og hefur beðið skipbrot. Obama boðar að mínu mati meiri samvinnustefnu þar sem samfélagið tryggir ákveðnar grunnstoðir eins og til dæmis aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Obama vill lagfæra það ömurlega tvískipta einkavædda heilbrigðiskerfi sem er í Bandaríkjunum og tryggja aðgengi. Það stefndi hratt í að áþekkt kerfi yrði til smám saman á Íslandi með einkavæðingaráformum íhaldsins.

Ég bind von við réttlátari heim með komu hans í þetta embætti. Heim þar sem við öll erum fædd sem manneskjur og eigum sömu tækifæri og sama rétt og vinnum saman að því að marka okkur gott samfélag án þess að það bæli niður frelsi okkar og framúrstefnu. þetta er vel í anda miðjustefnunnar þar sem samvinna ríkir um grunnþætti samfélagsins án þeirrar öfgafullu skattpíningar og flatneskju sem flokkar of langt til vinstri stunda. Einstaklingsframtakið má ekki bæla alveg niður en það má heldur ekki algjörlega taka stjórnina. Hinn gullni meðalvegur er bestur.

Ég spái því að staðan á Íslandi sé ekki ósvipuð. Sjálfstæðisflokkurinn er dottinn úr tísku. Fólk lítur meira inn á miðjuna eða til vinstri við þær aðstæður sem eru uppi núna. Þau málefni sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð og sem þegnar alþjóðasamfélagsins krefjast ríkrar samvinnu. Þar þýðir ekki að standa bara í horni frjálshyggjunnar og segjast vera sinn eigin gæfu smiður. Þeir tímar sem framundan eru krefjast samtryggingar samfélagsins. Fólk fer misilla út úr þessu og samfélagið þarf að koma þeim sem verst eru staddir til hjálpar. Einnig þarf að styðja vel við bakið á allri nýsköpun og menntun því þar liggur lykill okkar að framtíðinni.

Ég hef fengið nýja sýn með sigri Obama, sýn um að allt sé hægt í þessum heimi. Ég er því bjartsýnni í dag en ég var áður fyrr.

Draumar hvers og eins geta ræst.


mbl.is Barnið skal heita Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farðu vel með þig

Þegar ég velti vöngum yfir því hvað ég ætti að skrifa um í þessum pistli þá langaði mig að skrifa um eitthvað allt annað en KREPPUNA. Ég veit ekki hversu oft á dag þetta orð tengist hugsunum mínum en það er óhugnanlega oft. Ég er komin með leið á því að hugsa um þessa kreppu. En ég á sennilega engra kosta völ. Kreppa er raunveruleiki okkar í dag. En hvað þýðir þetta orð? Þegar orðið er „gúglað" koma fram 199.000 vefsíður. Á vefsíðu Wikipedia er skilgreining á hugtakinu:

Kreppa er hugtak sem haft er um verulega örðugleika í efnahagsmálum, með atvinnuleysi og sölutregðu fyrirtækja. Aðaleinkenni kreppu er ógurlegt verðfall á gjaldmiðlum, fjöldauppsagnir og greiðsluerfiðleikar fyrirtækja og almennings (tekið af http://is.wikipedia.org/wiki/Kreppa).

Þar höfum við það. Þetta er heldur betur kunnuglegt. Þýðing kreppu er samt afstæð bæði í hinni stóru makro mynd samfélagsins sem og í mikro mynd hverrar manneskju. Það sem þykir vera kreppa á Íslandi gæti til dæmis verið fjarlægasti draumur einhvers sem býr við miklu verri kjör en við getum nokkru sinni ímyndað okkur. Þannig er nú heimurinn ólíkur og gæðum misskipt. Á meðan við námsmenn erlendis grínumst með það að þurfa að leggja okkur Converse strigaskóinn til munns með smá salti þá er fólk sem mun aldrei eiga skó (hvað þá dýra skó eins og Converse) og býr raunverulega við það að eiga ekkert að borða. Kreppa fyrir Íslending þýðir frekar það að ferðum á veitingastaði fækkar og maturinn verður einfaldari. Það mætti segja að við þurfum að borða brauð í staðinn fyrir kökur eða að við förum að baka brauðin okkar í stað þess að kaupa þau í bakaríinu. Það er nú sennilega kreppan hjá flestum. Fyrir okkur þýðir kreppa ekki það að við eigum ekkert að borða, höfum engan aðgang að hreinu vatni, eigum ekki kost á því að mennta okkur, búum við stríðsógn eða erum á flótta frá heimaslóðum okkar jafnvel búin að missa sjónar á mörgum ættingjum og vinum án þess að vita afdrif þeirra. Svona mætti skilgreina krísuástand hjá annarri þjóð. Ekki hjá okkur. Þrátt fyrir það að vera svo heppin að upplifa ekki verstu gerð kreppu eða krísu sem hægt er að hugsa sér þá er engu að síður um krísu að ræða. Ástand og snögga breytingu til hins verra sem hefur djúpstæð áhrif á allt samfélagið og meðlimi þess. Því þarf að huga sérstaklega vel að heilsu landsmanna um þessar mundir. Ekki síst andlegu hlið hennar.

Oft segir maður við fólk þegar maður kveður það: „farðu vel með þig". Þessi setning hefur sjaldan átt eins vel við og núna. Núna þarf fólk virkilega að hugsa um það að fara vel með sig og sína. Ég minni fólk á frábært starf sem unnið hefur verið á síðustu árum í hinum ýmsu geðræktarverkefnum. Það er mikilvægt að tileinka sér þær góðu lífsreglur í leik og starfi. Slíkt er alltaf nauðsyn en ekki síst nú. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að ef fólk hefur líffræðilega eða erfðafræðilega þætti sem auka líkur á því að fá geðröskun eins og kvíða eða þunglyndi þá aukast þær líkur við mikla streitu eða áföll. Að leita flótta í áfengi eða aðra vímugjafa gerir vont verra. Það er því ástæða til að vera vel á verði og stunda markvisst fyrirbyggjandi hegðun til þess að draga úr líkum á að geðröskun eða geðsjúkdómur nái að þróast. Það er tvennt sem ég mæli með. Geðorðunum tíu og geðræktarkassanum. Geðorðin tíu þekkja eflaust flestir landsmenn en þau eru eins og biblían það er hægt að lesa þau aftur og aftur og aftur og alltaf fá eitthvað nýtt út úr þeim. Þau fjalla um heilbrigða skynsemi sem við vitum öll en þurfum að láta minna okkur á í dagsins önn.

Hér koma Geðorðin tíu:

•1.    Hugsaðu jákvætt, það er léttara

•2.    Hlúðu að því sem þér þykir vænt um

•3.    Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

•4.   Lærðu af mistökum þínum

•5.    Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina

•6.   Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

•7.   Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig

•8.    Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

•9.    Finndu og ræktaðu hæfileika þína

•10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Hitt sem ég vil minnast á í þessum pistli er geðræktarkassinn. Það getur hver sem er búið sér til geðræktarkassa því hugsunin er að finna sér einhvern fallegan kassa eða föndra sér slíkan og setja í hann hluti sem vekja upp jákvæðar tilfinningar og góðar minningar. Sjá meira á http://www.lydheilsustod.is/ og http://www.landlaeknir.is/ . Sjálf á ég stóran silfurlitaðan plastkassa sem er stútfullur af góðum minningum frá atburðum úr mínu lífi. Hann er eitt það dýrmætasta sem ég á. Það er líka mjög gott að hlusta á góða tónlist eða horfa á gamanmynd til þess að hafa áhrif á lundina og líka til þess að gleyma sér um stund.

Samvera fólks er eitt það dýrmætasta og mikilvægasta til þess að varðveita andlega heilsu okkar. Bæði samvera fjölskyldu og samvera með vinum og ættingjum.

Hollt matarræði og hreyfing eru einnig þættir sem hafa gríðarleg áhrif á heilsu okkar bæði andlega og líkamlega. Ég veit ekki með ykkur en ég finn það í hverri frumu þegar ég hreyfi mig og borða hollan mat hversu mikil áhrif það hefur á líðan mína og orku og þessir þættir verða seint ofmetnir enda ganga þeir eins og rauður þráður í gegnum öll fræði heimsins um andlega og líkamlega heilsu.

En síðast en ekki síst þá erum það við sjálf sem einstaklingar og flókinn hugi okkar sem erum aðalatriðið. Maður þarf að geta átt góða stund með sjálfum sér. Að geta farið í göngutúr, alsæll með sinn eigin félagsskap. Maður þarf að skoða sjálfan sig vel að innan sem utan, elska sjálfan sig nákvæmlega eins og maður er og vera sinn dyggasti stuðningsmaður. Við fáum aldrei nýjan líkama eða nýjan huga en við getum unnið alla ævi að því að fara vel með og betrumbæta hvoru tveggja. Hvert og eitt berum við ábyrgð á okkur sjálfum, hamingju okkar og lífi. Þú ert það dýrmætasta sem þú átt og það dýrmætasta sem þú munt eiga fyrir utan það að eignast kannski afleggjara af sjálfum þér í börnunum þínum.

Að lokum segi ég því, farðu vel með þig kæri lesandi.

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.

(pistill birtur á www.suf.is í dag).


Islændinge overvejer at forlade øen...

Þessi fyrirsögn rúllaði áðan á DR Update. Þetta má túlka eins og Íslendingar ætli bara allir að skella sér í einn árabát og róa burt...

Ég verð nú að segja að mér þótti sorglegt að sjá þetta Frown.

Ég er ein þeirra sem ætla að koma til Íslands á næsta ári tilbaka að bóklega hluta námsins loknu og taka þátt í því spennandi verkefni að byggja upp gott samfélag. Ég skil hins vegar fólk sem til dæmis er með börn á framfæri og fær hvergi vinnu. Það er ekki öfundsverð staða og þá skilur maður að fólk sjái sér ekki annað fært en leita annað amk. tímabundið. Íslensku ræturnar mínar eru svo sterkar að ég veit ekki hvað þyrfti til að ég yfirgæfi landið fyrir fullt og allt.

Það er gott að fólk skuli láta í ljós óánægju sína og ráðamenn verða að ná betri tengingu við almenning. Það gengur ekki lengur að teknar séu afdrifaríkar ákvarðanir í bakherbergjum án þátttöku eða vitundar almennings. Einnig er óásættanlegt að ráðamenn tali í kross. Nógu slæmt hefur það nú verið allt síðasta ár en núna verða ráðamenn bara að vera í takt! Oft var þörf en núna er það bara hrein og klár nauðsyn. Það gengur ekki að sitja bara og benda á hvern annan eins og smábörn í sandkassaleik. Aðalatriðið er að vinna sem hraðast og best að því að leggja grunn að nýrri framtíð.


mbl.is Um þúsund mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í samræmi við þingsályktunartillögu okkar framsóknarmanna

Á Alþingi liggur fyrir þingsályktunartillaga frá okkur framsóknarmönnum um sama bann við transfitusýrum hér á landi. Aðalflutningsmaður tillögunnar er Siv Friðleifsdóttir þingmaður okkar í Suðvesturkjördæmi.

Af hverju ætli það komi ekki fram í fréttinni að þetta sé á dagskrá Alþingis hér og að frumkvæði hverra? Merkilegt.

Þál. um setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum

Flm. Siv Friðleifsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Magnús Stefánsson, Bjarni Harðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Björk Guðjónsdóttir, Þuríður Backman

Hér má nálgast þingskjalið:

http://www.althingi.is/altext/136/s/0045.html

 


mbl.is Vilja norrænt bann við transfitusýrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski...

Kannski mun kreppan fara með okkur inn á gamlar og nýjar slóðir ...

  • Húsfeður og húsmæður munu taka sig til og fara að baka og elda í eldhúsum landsins í stað þess að kaupa allt tilbúið
  • Fólk fer að taka með sér nesti hvert sem það fer
  • Af þessu tvennu snarbatnar lýðheilsan því allir vita að heimalagaður matur er miklu hollari en sá fjöldaframleiddi
  • Munu samverustundir fjölskyldunnar aukast til muna þar sem fólk vinnur minna og hefur því meiri tíma með börnunum (þá á ég ekki við þá sorg ef fólk missir vinnu heldur einungis ef dregur úr mikilli vinnu)
  • Endurvaknar sú góða hefð að kíkja í kaffi og bjóða upp á heimabakað og heimagerðan Latte t.d. í stað þess að kaupa það á kaffihúsi
  • Fer fólk að íhuga betur hvað það eyðir peningum sínum í og gjafir til dæmis verða því betur úthugsaðar en ekki bara eitthvað keypt dýrum dómum á síðustu stundu
  • Förum við að horfa betur í kringum okkur og njóta þeirrar fegurðar sem landið býður okkur upp á ókeypis á hverjum degi í stað þess að leita út fyrir landsteinana
  • Eyðum við ósonlaginu niður hægar þar sem hægist á bílaflotanum og einkaþotunum fækkar
  • Förum við að hreyfa okkur meira því ekki verði keyrt hvert sem er og nota almenningssamgöngur meira
  • Förum við að taka það einfalda fram yfir það flókna
  • Breytist gildismat okkar
  • Breytast viðhorf okkar til lífsins
  • Förum við að rækta garðinn okkar í stað þess að horfa á risapallinn og risagrillið hjá nágrannanum og keppa við það
  • Eykst vægi óefnislegra hluta á kostnað þeirra efnislegu
  • Fer vinátta og fjölskyldubönd að skipta meiru máli þar sem við þurfum að styðja hvert annað
  • Förum við að leggja okkur öll fram í hvaða starfi sem við erum því það er ekki sjálfsagt að geta labbað inn í hvaða starf sem er og þannig snarbatnar öll frammistaða
  • Hættum við að halda að peningar vaxi á trjám í garði útrásarmanna heldur þurfi að vinna fyrir þeim hörðum höndum eins og til dæmis sjómenn okkar og bændur hafa gert alla tíð

... og svona mætti lengi halda áfram

Já, kannski er þetta ófremdarástand ekki bara til ills eftir allt...

 


Pistill

Þennan pistil skrifaði ég fyrir SUF í síðustu viku. Ákvað að birta hann líka hér.

Autumn Leaves

 

Á rölti mínu í fyrradag tók ég sérstaklega vel eftir öllum litríku laufblöðunum sem þöktu gangstéttina. Svo þykkt var lagið að það var eins og að ganga á teppi. Í öllum haustsins litum lágu þau. Þessi lauf sem boða koma vetrarins. Þau hafa lokið sínu hlutverki. Sú samfélagsgerð sem þróast hefur á Íslandi síðustu árin er kannski ekki ósvipuð þessum laufum. Hún er fallin til jarðar og hefur lokið sínu hlutverki. Eftir þetta sviptingarmikla haust og erfiðan óumflýjanlegan vetur þá mun vora á ný. Rétt eins og brumið kemur á ný með nýjum laufum þá mun gróska verða á Íslandi á næstu misserum og úr henni springa ný lauf, nýrrar samfélagsgerðar.

Mikið hefur farið fyrir björgunaraðgerðum að undanförnu til þess að bjarga því sem bjargað verður. Sitt sýnist hverjum: Norðmenn, Rússar, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, tafarlaus innganga í ESB og svona má áfram telja. Allir þessir möguleikar hafa sína kosti og sína galla. Ekki ætla ég að leggja mat á hver eða hverjir þeirra eru bestir að svo stöddu. Til þess skortir mig góðar upplýsingar til að taka upplýsta ákvörðun eins og reyndar þorra þjóðarinnar. Ég tel þjóð sem telur ekki fleiri hausa en íslenska þjóðin gerir eiga að fá að úrskurða um slíkt sjálf þar sem svo mikið er í húfi og sú ákvörðun sem tekin verður mun hafa afdrifaríkar afleiðingar bæði fyrir núverandi landsmenn og ófædda þjóð okkar. Sagan er skrifuð í dag.

Það sem ég vil leggja til málanna í þessum pistli er það að eitt er að leita aðstoðar utan frá svona rétt eins og að setja upp stillasa til að lagfæra laskað hús eftir storm en hitt er að vinna markvisst að því að styrkja stoðir hússins innan frá. Sá þáttur má alls ekki gleymast. Það er óhjákvæmileg afleiðing slíkra hamfara sem dunið hafa yfir okkur að gildi og viðhorf ættu að breytast? Eða hvað?

Í Kastljósinu að kvöldi hins 20. október voru teknar saman gamlar fréttir um neysluæði Íslendinga. Það var vægast sagt skuggalegt að horfa á hvernig neyslan hefur tröllriðið samfélaginu undanfarin tíu ár. Svo hratt hafa hlutirnir gerst að maður er nánast búinn að gleyma hvernig þetta var fyrir aðeins tíu árum síðan. Þá tók maður eftir því ef glæsikerra keyrði um götuna, þá þótti mjög merkilegt að eiga tjaldvagn, þá var það viðburður að fara í utanlandsferð, þá voru jólagjafirnar hóflegri, þá voru börnin úti að leika sér í stað þess að liggja yfir nýjustu tölvuleikjunum, þá þótti það afrek að eiga bíl fyrstu árin eftir að maður fékk bílpróf og voru það yfirleitt mjög gamlir bílar, þá átti fólk ekki einkaþotur eða hús hér og þar um heiminn. Svona mætti lengi halda áfram. Svona upplifi ég þetta. Ég tel langflesta hafa tekið þátt í þessari neyslu á einn eða annan hátt og bankana hafa stuðlað að þessu og óhóflegri skuldasöfnun. Ég tel bilið á milli hópa fólks í þjóðfélaginu hafa verið orðið ólýsanlega breitt.

En hvað gerist þegar þetta neyslumynstur hefur keyrt um koll og glæsihöllin hrunið? Þá er að hefjast handa og byggja upp á nýtt. Reynslunni ríkari.

Á næstu misserum verður að mínu mati mikið frumkvöðlastarf og mikil innspýting í alla nýsköpun. Núna hefur skapast svigrúm fyrir ný viðhorf og nýja sýn. Ég tel almenningsvitundina og samvinnuhugsjónina verða meira áberandi. Núna þarf að stokka spilin upp á nýtt. Ég tel að það eigi að ganga lengra en gert hefur verið og þjóðnýta kvótann. Einnig þarf að binda hann viðeigandi svæði þannig að ekki verði hægt að fara með hann og skilja sjávarpláss landsbyggðarinnar eftir lepjandi dauðann úr skel. Það þarf að efla okkar grunn atvinnuvegi, meðal annars landbúnaðinn. Við eigum tvær stórar matarkistur, sjóinn og landið okkar. Það hefur verið áberandi í umræðu um samgöngumál að oft er rætt um að breikka vegi og byggja nýjar brýr. Nánast hefur verið gert ráð fyrir því að hvert mannsbarn keyri um á einkabíl. Þetta á ekki lengur við. Núna þurfum við að efla samgöngukerfið þannig að hver sem er geti komist hvert sem er á raunhæfum tíma og fyrir raunhæfan kostnað. Ég sé fyrir mér samgöngumiðstöð og tölvukerfi sem tengja saman alla samgöngumöguleikana á öllu landinu (strætisvagna, rútur, flug, ferjur og gönguvegalengd). Á ekki stærra svæði en höfuðborgarsvæðinu ætti að vera nóg að hafa eina miðstöð sem myndi þjóna öllu svæðinu í stað þess að hafa mörg ólík kerfi í gangi. Ég held að við munum alltaf eiga einkabíla en þeim muni fækka. Við þurfum að byggja samgöngukerfið upp að skandínavískum eða evrópskum sið í stað þess að hafa það að hætti Bandaríkjamanna þar sem einkabíllinn leikur stærsta hlutverkið. Meðal annars þarf að stórefla hjólreiðastíga.

Á næstu árum verður félagslegt hlutverk samfélagsins mjög mikilvægt. Ég tel það jákvætt að fyrirhuguð sé yfirfærsla málefna fatlaðra og aldraðra á næstu árum og þannig verði nærþjónusta efld og sveitarstjórnarstigið. Við munum bera þyngri klyfjar en ella og námsmenn til dæmis munu sumir koma heim úr námi með helmingi þyngri námslán á bakinu. Allt slíkt hefur áhrif á samfélagið næstu ár. Því þarf að styðja vel við bakið á þeim hópi þar sem mesta þörfin er á eins og barnafjölskyldum. Ekki má gleyma öldruðu fólki sem jafnvel hefur tapað ævilöngum sparnaði. Það verður að rétta af.

Verkefnin eru ærin. Ef vel er haldið á spilunum og vel stokkað þá er tækifærið núna til þess að treysta innviðina sem riðuðu til falls í því kauphlaupi sem ástundað hefur verið síðustu ár. Við getum komið út úr þessum hamförum með öflugri innri stoðir og heilbrigðari sýn og viðhorf. Það er ekki hægt að kaupa sig út úr þessari blindgötu með hjálp annarra og ætla sér svo að halda uppteknum hætti. Þá lendum við aftur á skeri fyrr eða síðar þrátt fyrir að eiga stórar gullkistur.

Kristbjörg Þórisdóttir.

Höfundur er nemi og situr í varastjórn SUF.


Klukk klukk - viltu vita meira?

Þar sem búið er að klukka mig núna í tvígang þá er best að vinda sér í verkið...

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

  • Blaðberi
  • Við fiskvinnslu og í loðnu
  • Stuðningsfulltrúi á sambýli fatlaðs fólks hjá SSR
  • Forstöðumaður á sambýli fatlaðs fólks hjá SSR

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:

  • Englar alheimsins
  • Astrópía
  • Mýrin
  • Stella í orlofi

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:

  • Hafnarfjörður
  • Garðabær
  • Mosfellsbær
  • Árósar

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

  • Hawaii
  • Kína-Tíbet-Nepal-Tæland
  • Grísku eyjarnar Krít, Rhodos, Santorini, Zymi
  • Ótal fagrir staðir vítt og breitt um landið :) t.d. Þórsmörk, hálendið, Landmannalaugar, Laugavegurinn, Fimmvörðuháls, Fljótin, Árskógströnd, Akureyri, Fjörður, Vestfirðir, Fljótshlíð, Kerlingafjöll, Hópið, Fjörurnar, Borgarfjörður og svo videre og videre... :)

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:

  • Grey's anatomy (Bryndís ég á seríu 2 f.hl. getur fengið hann lánaðan ;) )
  • Næturvaktin og Dagvaktin
  • Sex and the city
  • Pressan

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:

 7. Fernt matarkyns sem ég held upp á:

  • Íslenskt lambakjöt - já takk! og jólasteikin auðvitað...
  • Allir réttirnir á Grænum kosti
  • Humar
  • Allt sem heitir nautn í mat... ostar, rauðvín, konfekt, ný brögð... namm!

8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:

Ég reyni nú frekar að lesa fleiri bækur en lesa þær oft... en þessum mæli ég með

  • Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn - mæli sérstaklega með þessari :)
  • Á morgun segir sá lati
  • Þúsund bjartar sólir
  • Heygðu hjarta mitt við undað hné

9. Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna:

  • Á Íslandi hjá öllum sem mér þykir vænt um...
  • Uppi á toppi Kilimanjaro á leið í safarí og strandfrí á eftir
  • Á hestbaki á gæðingunum mínum
  • Á ferðalagi um inkaslóðir í Suður-Ameríku

10. Fjórir bloggarar sem ég á að klukka:

  • Agnar Bragi Bragason
  • Hallur Magnússon
  • Birkir Jón Jónsson
  • Sigurbjörg Eiríksdóttir

Danir flykkjast til Íslands í jólainnkaup

Eins dauði er annars brauð.

Danir hugsa sér gott til glóðarinnar og á DR1 var frétt um þetta áðan og sýndar myndir frá Íslandi.

Símar hringja stöðugt á ferðaskrifstofum hér úti og spurt er um ferðir til Íslands. Danir sjá Ísland fyrir sér sem spennandi stað til þess að versla jólagjafirnar á í ár. Menn sjá fyrir sér að geta keypt hluti á helmingi lægra verði en í fyrra.

Þetta er einmitt öfug þróun fyrir okkur Íslendingana sem erum búsett í Danmörku. Þar er allt orðið helmingi dýrara og kaffibolli á Baresso kaffihúsi sem kostar til dæmis 37 Dkr. kostar núna 747 ísl. kr.

Svona getur tilveran verið fallvölt og furðuleg. Ef einhver hefði sagt mér að útlendingar myndu flykkjast í verslunarferðir til Íslands þá hefði ég sagt viðkomandi galinn fyrir aðeins ári síðan. Þá horfði maður á Magasín og glotti við tönn að einu sinni hefðum við verið undir Dönum í einokunarversluninni en nú ættum "við" hálfa Danmörku. Núna er frekar erfitt að vera Íslendingur í Danmörku og maður þarf að kyngja stoltinu. Það er því ekki bara hægt að skammast út í útrásarvíkingana margumtöluðu. Þrátt fyrir að manni hafi urlað aðeins þessi ofsi og mikilmennska þá held ég að fæstir hafi verið ósáttir við þessa landvinninga Íslendinga. Það var áður en maður gerði sér almennilega grein fyrir því að möguleiki yrði á stórum skelli og hver sæti uppi með reikininginn fyrir herlegheitunum!

Jákvæða hliðin við þetta er sú að þarna opnast nýjar dyr fyrir okkur Íslendinga til þess að bæta við okkur tekjumöguleikum og núna glæðist ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi og slíkt hefur góð áhrif á efnahag okkar.

 


mbl.is Ísland á hagstæðu verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

77% hrun í gær á bréfum í Kauphöllinni?

I was shocked last night to hear that the Icelandic stockmarket index plunged 77% yesterday. This is not good!!!!!

Þetta mail fékk ég frá vini sem býr í Sviss í morgun.

Sömu fréttir voru hér í dönsku sjónvarpi í gærkvöldi. Einnig frétt um að Danir séu að lána okkur 200 milljarða evra vegna gjaldreyrisskiptasamninga. Anders Fogh var spurður að því hvort að þetta væri gert til þess að Íslendingar myndu ekki taka við láni frá Rússum. Hann vildi nú meina að það væri heldur neikvæð sýn á málið.

Af hverju finn ég ekkert um þessa miklu lækkun í Kauphöllinni á mbl.is? Ég vissi að bréf bankanna yrðu skráð á genginu 0 en eitthvað lítið er samt skrifað um þetta? Ég er nú hvorki hagfræðingur né viðskiptafræðingur og verð bara að játa það að ég átta mig ekki alveg á því hvað þetta þýðir...


mbl.is Bankaskýrsla undir stól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagfólk í stjórn bankanna

Nú held ég að þjóðin kalli á það skýrt að fagfólk verði ráðið í stjórn bankanna og til að vinna að efnahagsmálum á Íslandi. Það er nóg til af mjög hæfu fólki á Íslandi. Það þarf að vera algjörlega gagnsætt ferli við ráðningar þeirra sem setjast í þessa stóla og skipunin þarf að byggja á því að sá verði valinn sem hefur mestu fagþekkinguna fyrir viðeigandi starf, víðtæka reynslu og mannkosti þá er best henta. Það er hvorki réttlætanlegt að fara eftir flokkslínum né kyni viðkomandi. Það er til mikið af hæfu fólki sem er ekki sérstaklega tengt neinum stjórnmálaflokki.

Það borgar sig ekki að blanda saman pólitík og stjórnun mikilvægra fyrirtækja. Davíð Oddsson er gott dæmi um það. Hann hefur átt erfitt með að einbeita sér einungis að sínu starfi sem seðlabankastjóri og loðir enn við pólitíkina. Slíkt er ekki heillavænlegt.

Nú er tækifæri til að gefa spilin upp á nýtt með HAG ÞJÓÐARINNAR ALLRAR Í HUGA.


mbl.is Þóra er formaður Nýs Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband