Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Nú getur Mosfellsbær eflt mynduglega þjónustu við alla íbúa bæjarins
Þetta eru góðar fréttir!
Vísir, 22. maí. 2008 15:20
Rekstur Mosfellsbæjar jákvæður um 543 milljónir
Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2007 var kynntur á 491. fundi bæjarstjórnar í dag og honum vísað til seinni umræðu sem er fyrirhuguð 4. júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mosfellsbæ. Enn fremur segir þar:
Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2007 gekk mjög vel. Rekstrarniðurstaða A og B
hluta var jákvæð um 543 mkr. Veltufé frá rekstri var 600 mkr eða 13,8% af
rekstrartekjum og handbært fé frá rekstri var 416 mkr. Skuldir og skuldbindingar
A og B hluta lækkuðu um 348 mkr á árinu og námu 3.730 mkr í árslok.
Eiginfjárhlutfall A og B hluta var 0,42 og hefur hækkað úr 0,25 frá árinu 2002 en
sé einungis litið til A hluta var eiginfjárhlutfall 0,42 og hefur hækkað úr 0,15 frá
árinu 2002.Mikil uppbygging átti sér stað í sveitarfélaginu á árinu og námu fjárfestingar 618
mkr en þar af voru 401 mkr vegna fræðslumála og 66 mkr vegna íþróttamála. Á
árinu var tekin í notkun íþróttamiðstöð að Lækjarhlíð sem er í eigu Fasteignafélagsins
Lækjarhlíðar ehf þar sem Mosfellsbær er 50% eigandi. Mosfellsbær hefur
gert sérleyfissamning til 30 ára sem tryggir íbúum aðgang að miðstöðinni.
Sköttum og þjónustugjöldum er stillt í hóf og er Mosfellsbær eitt fárra sveitarfélaga
sem ekki fullnýtir heimild til álagningar útsvars.Fasteignaskattar á
íbúðarhúsnæði voru lækkaðir í 0,225% auk þess sem 5 ára börn fá áfram
endurgjaldslausa 8 tíma leikskólavist.
Mosfellsbær hefur markað sér sérstöðu á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
hvað varðar áherslu á fjölskylduvænt samfélag með áherslu á íþróttir og
útivist. Framtíðarhorfur Mosfellsbæjar eru góðar og hefur sveitarfélagið í
samvinnu við landeigendur stuðlað að nægu framboði lóða og uppbyggingu
skólamannvirkja. Íbúum fjölgaði um 646 eða um 8,6% á árinu og voru 8.147 í
árslok. Gert er ráð fyrir áframhaldandi íbúaaukningu á komandi árum sbr. þriggja
ára áætlun."
Þar sem svona mikill rekstrarafgangur er þá ætti að vera nægt fé til umráða til þess að gefa nú hressilega í alla félagslega þjónustu í Mosfellsbæ sem víðrætt er um að sé afar slök. Sem dæmi um það má nefna að möguleikar fólks til þess að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra eru mun þrengri í Mosfellsbæ en t.d. hjá Reykjavíkurbúum þar sem hægar en góðar framfarir hafa verið undanfarin misseri t.d. varðandi það að geta pantað ferðina samdægurs, geta pantað ferð sem fara á um helgi á laugardegi, fleiri ferðir til einkaerinda oþh.
Einnig hefur Mosfellsbær haft þá stefnu að fólk sem býr á sambýlum geti ekki nýtt sér liðveislu þar sem það búi á stofnun. Á mörgum svæðum í Reykjavík á fólk rétt á liðveislu þrátt fyrir að búa á sambýlum. Liðveisla er mjög mikilvæg leið til þess að aðstoða fólk við að njóta tómstunda og rjúfa félagslega einangrun og ekki sjálfgefið að fólk kjósi að stunda slíkt með því fólki sem aðstoðar það við allar athafnir daglegs lífs.
Einnig hefur Mosfellsbær ekki boðið upp á ferðaþjónustu blindra sem er talsvert annað fyrirkomulag en ferðaþjónusta fatlaðra og hafa því blindir íbúar Mosfellsbæjar þurft að nýta ferðaþjónustu fatlaðra sem hentar þeim mun verr. Mitt álit er það að ferðaþjónusta fatlaðra þyrfti að nálgast þá þjónustu sem ferðaþjónusta blindra býður upp á fyrir alla sem nýta þurfa slíka þjónustu.
Hér má endalaust halda áfram... Auka stuðning við fatlaða nemendur í skólum til að auka möguleika á raunverulegum skóla án aðgreiningar, bæta heimasíðu Mosfellsbæjar með tilliti til þess að hún sé aðgengileg öllum íbúum bæjarfélagsins en eins og staðan er í dag þá á fólk með skerðingar ekki auðvelt með að nýta sér hana sem upplýsingaveitu. Það kostar líklega um 250 þúsund krónur að láta taka út síðuna þannig að upplýsingar fáist um hvað þarf að lagfæra og svo kostar eitthvað að setja hana upp á nýtt með tilliti til aðgengis fyrir alla og tilliti til þess að hún fái vottun. Meira um þetta á http://www.sja.is/
Svona mætti taka marga fleiri málaflokka en hér hef ég aðeins vikið að því sem snýr að þjónustu við fatlaða íbúa bæjarfélagsins.
Þetta eru því góðar fréttir fyrir þá íbúa Mosfellsbæjar sem lengi hafa beðið eftir bættri þjónustu. Ef svona mikið er til umráða þá hlýtur bæjarstjórn að sjá sér fært að bæta allverulega í félagslega þjónustu sína sem hefur að mínu mati verið afar slök með tilliti til þess hvað bærinn gæti gert ef áhugi væri fyrir hendi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Ferðafélagið ríkisstjórn Íslands
Já þetta eru sláandi tölur svo ekki sé meira sagt. Hvernig er hægt að eyða 21.7 milljón króna í ferðalög á nokkrum mánuðum? Það eitt og sér hlýtur að vera full vinna!!! Enda hefur þessi ríkisstjórn ekki að ósekju verið kölluð útlagastjórnin og hún er svo sannarlega dýrasta ferðafélag skattborgara um þessar mundir. Það mætti nú gera ýmislegt annað fyrir 95 milljónir...t.d. mætti bæta þeim við þessar 4 milljónir sem eiga að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar! Ekki kemur það heldur á óvart að Jóhanna Sigurðardóttir skuli hafa ferðast minnst en hún virðist vanda val sitt vel á því hvað hún notar skattfé almennings í. Ég man það t.d. enn þó ég hafi verið smástelpa þá... þegar hún hafnaði ráðherrabílnum á sínum tíma og það þótti mér ákaflega smart hjá henni og sýnir hugsjón hennar umfram eigið bruðl öðru fremur.
Hins vegar mætti alveg fylgja fréttinni eitthvað viðmið því það er einnig ósanngjarnt að tæta þessar ferðir í sig ef maður hefur engan samanburð á því hvað getur talist eðlilegur kostnaður í ferðir ráðherra á einu ári. Það væri áhugavert að fá tölur fyrir fleiri ár til að hafa samanburð.
Og svo verður auðvitað að gera sér grein fyrir því að heimurinn er ætíð að verða minni og minni og vegna aukinnar alþjóðavæðingar þá má gera ráð fyrir auknum ferðakostnaði kjörinna fulltrúa og embættismanna. Hitt er annað mál að störf þessa fólks snúast um stanslausa forgangsröðun og það má leiða líkur að því að ferðalög hafi verið ansi hátt skrifuð á forgangslistanum þetta árið þrátt fyrir að full þörf hafi verið á vinnukröftum stjórnmálamanna heima við eins og alþjóð er kunnugt um.
![]() |
Ferðir ráðherra hafa kostað 95 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. maí 2008
Við skulum vona að skattfé almennings fari ekki í slíkar reddingar!
Einhvern tímann heyrði ég því fleygt að það væri hagstæðara fyrir menn á einkaþotum að lenda á Reykjavíkurflugvelli heldur en að taka strætó þar sem þeir þyrftu ekkert að greiða fyrir það svona meira í gríni en í alvöru...
Það væri samt áhugavert að vita hvað þotuliðið leggur raunverulega til samfélagsins og hvað fer úr vösum almennings. T.d. varðandi aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli fyrir einkaþotur. Það er að mínu mati eitthvað sem viðeigandi aðilar eiga að greiða að fullu úr eigin vasa og ég vona að það sé svo! Ætli það sé sannleikskorn í því að þeir sem beri mestmegnis uppi samfélagið sé fólk á miðlungs tekjum? Fólk á læstu tekjunum leggur þó sitt til en ég gæti vel trúað að einhverjir þeirra hæst launuðustu væru ansi duglegir við að koma sínum framlögum undan með aðstoð fróðra manna. Það er til dæmis alltaf jafn undarlegt að sjá listann yfir tekjuhæstu Íslendingana og sjá fólk sem flokkast sem "þotulið" á lágmarkstekjum sem almenningur myndi ekki ná að draga lífið fram á en í stað þess ná þessir aðilar að spila svo vel úr kaupinu sínu að þeir geta m.a. verið að hafa áhyggjur af einkaþotunum sínum... Ég tek það fram að ég er ekki að tala um neinn ákveðinn aðila í þessu samhengi. Þetta er bara afar áhugavert og enn áhugaverðara hvað skattayfirvöld virðast einhvern veginn ekki ná að taka á þessum endalausu undanskotum til skatts sem eru vægast sagt þreytandi fyrir hinn almenna borgara.
Fréttablaðið, 22. maí. 2008 05:00
Kveðst á hrakhólum með einkaþotu sína
Róbert Wessmann eigandi Salt Investments.
Róbert Wessmann, forstjóri Actavis, vill fá að byggja tvö þúsund fermetra flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Segist hann þurfa aðstöðu fyrir tvær einkaþotur fjárfestingarfélags síns, Salt Investments. Bæði flugmálayfirvöldum og borgaryfirvöldum hefur borist formleg beiðni um flugskýlið frá Salt Investments. Einnig hafa fulltrúar félagsins rætt málið við embættismenn.
Eins og kom fram á fundi með flugvallarstjóra hefur Salt Investments haft Hawker-einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í talsverðan tíma en er nú að undirbúa komu annarrar einkaþotu til viðbótar," segir Róbert Wessmann í bréfi til Flugstoða ohf. þar sem óskin um flugskýlið er sett fram og óskað eftir skjótri afgreiðslu.
Þá hefur Salt Investments einnig sent skipulagsyfirvöldum í Reykjavík erindi. Við hjá Salt Investments höfum verið á hrakhólum með að koma flugvél okkar í skjól seinustu árin og höfum verið í sambandi við flugvallaryfirvöld um lausn okkar mála," segir í bréfi sem Matthías Friðriksson skrifar undir fyrir hönd Salt Investments.
Í samtali við Fréttablaðið segir Matthías að í raun eigi Salt Investments enga flugvél. Hins vegar leigi félagið stundum vélar sem hópur manna, sem tengdir séu félaginu viðskiptaböndum, hafi aðgang að. Matthías segir að þessar vélar þurfi að þjónusta og til þess þurfi aðstöðu. Í því skyni hafi verið stofnað félagið Salt Aviation sem annist þessa þjónustu fyrir ýmsa aðila. Hann segir marga fleiri á hrakhólum með flugvélar sínar á Reykjavíkurflugvelli.
Á fundi sem Jón Baldvin Pálsson flugvallarstjóri átti með fulltrúum Salt Investments benti hann að þeirra sögn á að í skipulagi Reykjavíkurflugvallar er gert ráð fyrir þremur nýjum flugskýlum við sunnanverðan völlinn, austan íbúabyggðarinnar í Skerjafirði. Í umsögn embættis skipulagsfulltrúans í Reykjavík um umsókn félagsins segir að ekki sé tekin afstaða til hvaða fyrirtæki fái úthlutað byggingarrétti á flugvallarsvæðinu.
gar@frettabladid.isTekið af www.visir.is
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. maí 2008
Skrýtin upplifun
Það er mjög sérstakt að sitja hér og skrifa þetta og minnast þess þegar ég var sjálf í Chengdu á ferðalagi mínu um Asíu 2002.
Það er svo mikið af fólki nánast alls staðar í Kína að það hlýtur að skapast skelfingarástand þegar svona fréttir berast. Ösin er nógu mikil á hverjum einasta degi þar sem ægir saman fólki, reiðhjólum af öllum stærðum og gerðum, bílum og alls kyns furðulegum farartækjum. Ég man að mér þótti það vera hrein og klár sjálfsmorðstilraun í hvert skipti sem ég fór yfir stórar umferðagötur í Kína. Það voru engin umferðaljós þannig að maður fór bara út á götuna sem voru kannski 6 akreinar og fór yfir eina akrein í einu eins og maur og vonaði að maður yrði ekki kraminn niður í malbikið...
Ég finn virkilega til með kínversku þjóðinni í þeim hörmunum sem nú ríða yfir landið. Þrátt fyrir að ég hafi verið harðorð oft í garð kínverskra stjórnvalda þá er mín upplifun af almenningi í flesta staði góð. Það var virkilega ánægjulegt að kynnast þessari þjóð þó ég verði nú að viðurkenna það að Tíbetar og Nepalar hafi heillað mig meira en engu að síður...
Ég vona að jarðskjálftavirknin fari að dvína þannig að hægt sé að hafast handa við uppbyggingu.
![]() |
Taugar þandar til hins ýtrasta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.5.2008 kl. 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 18. maí 2008
Læst blogg - opin albúm
Smá ábending hérna til bloggara...
Ef þið eruð með læst blogg þá þarf að passa sig vel þegar maður býr til ný albúm að stilla þau þannig að þau séu ekki opin þó bloggið sé læst.
Það þarf að haka við í stillingar albúms að bloggið megi ekki birtast á forsíðu blog.is og að albúmið fylgi bara þessu ákveðna læsta bloggi sem þýðir að ef blogginu er læst, læsist albúmið líka.
Ég hef tekið eftir því að nokkuð margir gera sér ekki grein fyrir því að albúm sem þeir ætla sennilega ekkert að deila með öllum eru að birtast á blog.is forsíðunni.
Sjálf er ég með annað blogg sem er læst og er það og myndir þess ekki ætlaðar nema vinum og vandamönnum og rak mig á þessa skrýtnu uppsetningu blog.is þeas að maður þurfi að stilla þetta sérstaklega þar sem það er sjálfgefið gildi að albúmið sé opið og birtist á forsíðu blog.is
Laugardagur, 17. maí 2008
Niðurgreidd, aðgengileg sálfræðiþjónusta er þjóðhagslega hagkvæm
Það þekkir það sennilega hver Íslendingur á eigin skinni eða í gegnum nákominn ættingja hvernig það er að veikjast af geðröskun. Þetta fer hins vegar hljótt um okkar samfélag. Það þarf mikinn kjark til þess að viðurkenna fyrir sjálfum sér og samfélagi sínu að maður glími við geðröskun eins og til dæmis þunglyndi eða kvíða. Við Íslendingar vinnum mikið og lifum hratt. Við lifum í umhverfi sem er hlaðið streitu. Þess háttar umhverfi eykur líkur á því að geðröskun komi fram. Talið er að þunglyndi muni vera einn mesti heilsubrestur 21. aldarinnar og valda mestu vinnutapi. Hvað er þá til bragðs að taka til þess að snúa vörn í sókn?
Hér má nefna margt en ég mun aðeins nefna dæmi. Forvarnir eru gríðarlega mikilvægar og fræðsla á öllum þjóðfélagsstigum. Fólk þarf að verða meðvitaðra um að stunda geðrækt á sama hátt og líkamrækt og leggja þannig sitt af mörkum í því að bera ábyrgð á eigin heilsu og velferð. Stundum er það ekki nóg. Þá þarf frekara inngrip. Hingað til hefur fólk ekki haft raunverulegt val um meðferð við geðröskun þar sem þjónusta geðlækna hefur verið niðurgreidd en ekki þjónusta sálfræðinga. Oft verður niðurstaða mála sú að fólk leitar þjónustu geðlækna og gengur út með lyfseðil og þá verður kostnaður Ríkisins við meðferð einstaklingsins mun meiri þegar á heildina er litið (bæði við niðurgreiðslu á þjónustu geðlæknisins og lyfjanna) heldur en hann hefði verið við niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu og mögulegt hefði verið að komast hjá lyfjagjöf sem hlýtur að vera bæði þjóðfélaginu og manneskjunni mikilvægt.
Það er talsverður munur á nálgun og hlutverki þessara tveggja fagstétta við meðferð. Geðlæknar vinna meira út frá lyfjagjöf en sálfræðingar út frá samtalsmeðferð af ýmsu tagi. Ein þeirra er hugræn atferlismeðferð sem gefist hefur afar vel og færir fólki vopn í hendurnar sem það getur nýtt sér til framtíðar. Það hefur verið sýnt fram á það í ýmsum rannsóknum að árangur verður oft jafnmikill eða betri af hugrænni atferlismeðferð en lyfjameðferð gegn til dæmis þunglyndi. Það hefur einnig verið sýnt fram á það að algengara er að fólk hrasi og veikist aftur ef það notar einungis lyfjameðferð. Stundum gerist það þannig að fólk hættir að taka lyfin þegar því fer að líða betur og veikist þá á ný. Lyf eru þó nauðsynleg í alvarlegu þunglyndi og oft í upphafi meðferðar. Við vægu þunglyndi er hugræn atferlismeðferð stundum nægt inngrip.
Með því að niðurgreiða þjónustu sálfræðinga og auka aðgengi samfélagsins að sálfræðingum tel ég mikilvægt skref verða stigið að því að bæta geðheilsu og velferð þjóðarinnar. Fólk færi þá fyrr af stað að leita sér hjálpar en ella, áður en allt er komið í óefni: þegar fólk er orðið óvinnufært, fjölskyldulífið og börnin eru farin að líða fyrir það og manneskjan sjálf komin með mun stærra sár til að græða en þörf var á. Í Danmörku eru starfrækt svokölluð Angstklinik" sem eru miðstöðvar úti í samfélaginu í tengslum við spítalana þar sem fólki stendur til boða hugræn atferlismeðferð sér að kostnaðarlausu. Fyrir suma geta það verið ansi þung spor að stíga á geðdeild sjúkrahúss til að leita meðferðar og sleppa því frekar. Það er gott framtak að fjölga sálfræðingum á heilsugæslustöðvum en hlutverk þeirra er fyrst og fremst að stytta biðlista. Auk þess þarf fólk að eiga eitthvað val um hvaða fagaðila það leitar til.
Niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu fyrir fólk hefði að mínu mati í för með sér gríðarlegan sparnað í heilbrigðiskerfinu og hagkerfinu þar sem draga mætti úr þeim mikla lyfjaaukstri sem raun er, fækka verulega veikindadögum starfsfólks sem er í langtíma eða skammtíma veikindum vegna geðraskana, auka afköst og gera fjölskyldur betur í stakk búnar að takast á við verkefni daglegs lífs. Oft getur þetta fyrirbyggt að neikvæður spírall myndist sem getur valdið frekari vandkvæðum fyrir einstaklinginn eða fjölskyldu hans og orðið þjóðinni mun kostnaðarsamara heldur en ef gripið hefði verið í taumana.
Nú er tími sálfræðinga kominn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 14. maí 2008
Grein birt í Morgunblaðinu í dag - Opnum augun fyrir Tíbet
Miðvikudaginn 14. maí, 2008 - Aðsent efni
Opnum augu fyrir Tíbet
Kristbjörg Þórisdóttir skrifar um Tíbet
Kristbjörg Þórisdóttir skrifar um Tíbet: "Hvert er gengið á mannréttindum í dag? Hefur það fallið jafnmikið og gengi krónunnar? Er betra að horfa í hina áttina en opna augun fyrir Tíbet?"
ÉG MAN enn tilfinninguna, sex árum síðar, þegar við komum loksins að hliði Tíbets, Tanggula Pass, í 5136 metra hæð yfir sjávarmáli. Á móti okkur tóku flöktandi litríkir bænafánar í þunnu fjallaloftinu. Frá því ég heyrði sorgarsögu Tíbeta hefur það verið draumur minn að heimsækja Tíbet og kynnast þjóðinni, búddatrúnni og menningu hennar. Þessi afskekkta þjóð býr umlukin hæstu fjöllum heims, Himalaya-fjöllunum, og liggur Everest, hæsta fjall heims, á mili Tíbets og Nepals. Þennan dag rættist draumur minn.
Eftir hrakningar á hásléttunni komst ferðahópurinn loksins til Lhasa. Lhasa er þak heimsins í bókstaflegri merkingu og stendur í 3.650 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún hefur verið nefnd staður guðanna, enda draumkenndur og dularfullur staður. Háslétta Tíbets er ekki ýkja ólík Íslandi og stundum fannst mér ég vera komin heim.
Í mér bærðust tvíbentar tilfinningar. Gleðitilfinning yfir að vera komin til lands drauma minna en jafnframt sorgartilfinning yfir því að upplifa og sjá með eigin augum hvernig málum er ástatt. Höfuðborgin skiptist í tvo ólíka hluta, tíbetska hlutann og kínverska hlutann. Í Tíbet og Lhasa er mikið af aðfluttum Kínverjum og stefnir í að Tíbetar verði minnihlutahópur í sínu eigin landi ef þeir eru ekki þegar orðnir það. Kínverskar fjölskyldur mega eiga tvö börn í Tíbet en einungis eitt í Kína og er þannig markvisst verið að fjölga Kínverjum í Tíbet. Sagan sýnir að frá innrás alþýðuhersins árið 1950 þegar Tíbet var innlimað sem hérað í Kína hefur markvisst verið reynt að þróa menningu og lifnaðarhætti Tíbeta í átt að því sem tíðkast í Kína. Tíbetar hafa mátt sæta ofsóknum fyrir trú sína og trú á leiðtoga sinn, Dalai Lama, sem hraktist í útlegð til Indlands árið 1959. Í gegnum tíðina hafa Tíbetar nokkrum sinnum reynt að berjast fyrir sjálfstæði sínu með uppreisnum en það er andstætt lífsskoðunum búddista að beita vopnum og því hefur mótstaða þeirra verið árangurslaus og snöggt og grimmilega verið brotin á bak aftur af Kínverjum. Það er kaldhæðni fólgin í því að á móti helgasta stað Tíbeta, Potala, höll Dalai Lama, hafa kínversk stjórnvöld reist minnisvarða um frelsun Tíbets". Þetta eru fullkomin öfugmæli. Sú milljón Tíbeta sem fallið hafa í blóðugum bardögum síðustu fimmtíu ár, öll klaustrin sem lögð hafa verið í rúst, heilagar bækur sem hafa verið brenndar og djúpt sorgarmark sem merkja má í andliti hvers Tíbeta ber vott um allt annað. Það ber vott um kúgun kínverskra stjórnvalda og rán þeirra á sjálfstæði Tíbeta. Þeir sem ekki hafa farið í útlegð til annarra landa halda áfram að snúa bænahjólunum sínum, iðka trú sína og vona. Búddatrúin boðar endurholdgun þannig að samofin henni er djúp virðing fyrir öllu formi lífs og biðja munkarnir fyrir skordýrunum sem þeir komast ekki hjá að kremja á för sinni. Þannig er með ólíkindum að einhver skuli trúa áróðri kínverskra stjórnvalda um að munkar skuli vera hryðjuverkamenn í bleikum klæðum sem séu líklegir til sjálfsmorðsárása. Það er þversögn við allt það sem líf Tíbeta gengur út á.
Ég hef gengið um höll Dalai Lama. Sú upplifun verður fest í minni mínu að eilífu. Eða eins og ég lýsti í ferðasögu minni: Stanslaus umferð af pílagrímum að kyrja búddabænir sínar í öllum sínum fallegu klæðum, ótrúlega fátækt fólk sem komið hafði langan veg með örfá jiao til að gefa Búdda, lyktin af jakuxakertunum alls staðar, ljóminn af þeim, búddalíkneski úr skíra gulli og andinn í loftinu". Í garði þeim sem stendur hjá sumarhöll Dalai Lama fann ég fyrir himnaríki á jörð.
Tíbetar eru einstök þjóð sem búið hefur einangruð innan stórfenglegrar náttúru. Þeir eru þjóð sem eitt sinn var frjáls og iðkaði trú sína og átti friðsamt líf án afskipta umheimsins. Þeir eiga auðlindir sem aðrir ásælast. Þeir eru fámenn þjóð. Á margan hátt eru þeir ekki ólíkir okkur Íslendingum. Við erum einangruð, fámenn þjóð sem býr á einu fegursta landi heims og búum yfir náttúruauðlindum. Við vorum eitt sinn hluti af stærra veldi, Danaveldi. Nú erum við sjálfstæð þjóð.
Það er því þyngra en tárum taki að íslenskir ráðamenn skuli líta undan þegar málefni Tíbets ber á góma. Það er betra að horfa í hina áttina af ótta við að styggja stórveldið Kína og missa af viðskiptasamböndum og stuðningi við framboð í Öryggisráðið. Er þetta gengið á mannréttindum í dag? Það hefur þá fallið álíka og gengi krónunnar. Ætlum við að selja sál okkar og sannfæringu á þessu verði?
Hvernig liði okkur ef Danir myndu ræna okkur sjálfstæðinu með blóðugum átökum og innlima okkur sem hluta Danaveldis? Ef þeir flyttu til Íslands í stórum hópum og stuðla að fjölgun sinni með brögðum og markvisst reyna að breyta menningararfi okkar, trú og tungumáli? Myndum við þá vilja að þjóðir heimsins litu undan og beygðu sig undir stórveldið?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands: Mynduð þið þá styðja stefnuna Eitt Danaveldi" án þess að blikna? Á hvaða forsendum styðjum VIÐ Íslendingar Eitt Kína"? Við skulum ekki gera sömu mistökin aftur.
Nú er tími Tíbeta kominn. Frjálst Tíbet.
Höfundur er nemi og meðlimur í samtökunum Vinir Tíbets
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. maí 2008
Hljómar vel
Þessi hugmynd hljómar vel.
Það er ákaflega mikilvægt að fólk sem hefur alfarið tekjur sínar frá Tryggingastofnun safni lífeyri eins og aðrir landsmenn þannig að um ákveðin þáttaskil verði að ræða við 67 ára aldur (eða 70 ára aldur).
Það er þekkt staðreynd innan fötlunarfræða og dapurleg staðreynd að lífsferill fatlaðs fólks hefur verið eins og ein samfelld lína. Það er að segja að ekki verða þessar stóru breytingar hjá mörgu fötluðu fólki eins og verða hjá fólki almennt í lífinu. Þessar stóru breytingar eru t.d. þær að ljúka námi og hasla sér völl á vinnumarkaði, fara á eftirlaun og fleira.
Fólk sem hefur verið í þjónustu t.d. á dagþjónustustofnunum hefur haldið sínu striki þrátt fyrir að verða 67 ára og haldið áfram að fá sínar mánaðarlegu lágu tekjur frá Tryggingastofnun. Þetta er eitthvað sem þarf að endurskoða.
Einnig er afar mikilvægt að vinna markvisst að eflingu atvinnuúrræða fyrir þá sem hafa skerta starfsgetu. Þá á ég við alla möguleika. Allt frá því að starfa á vernduðum vinnustað eða vera í dagþjónustu í það að starfa á almennum vinnumarkaði. Allt eftir því hvað hentar hverjum og einum og hvað hann velur sér. Fólk á nefnilega að eiga raunverulegt val! Það er afar mikilvægt.
Jóhanna ætti að stuðla að því að markvisst verði unnið að því að hvetja opinber fyrirtæki sem og einkafyrirtæki í landinu til þess að opna fleiri atvinnumöguleika til þess að auka margbreytileikann á vinnumarkaði. Einnig er ákaflega mikilvægt að slíkt skapi fólki ekki skerðingu eða óvissu með þær tekjur sem fólk hefur frá TR nema eftir langan reynslutíma, t.d. tvö ár. Fólk hefur kvartað sáran undan því að ef það ætli að láta á sig reyna á vinnumarkaði þá skerðist framfærsla sú sem það hefur frá TR um leið og það sé lengi að ná aftur upp sömu réttindum. Þetta er kerfi sem hamlar fólki í stað þess að styðja það!
Með slíkt átaki má leysa úr læðingi ómælda orku fólks sem ekki hefur rúmast á vinnumarkaði hingað til og þannig öðlast fólk hlutverk á ný og þjóðfélagið verður ríkara um leið.
Ég bind vonir við vinnu Jóhönnu í þessum málum. Hún er að standa sig vel að mínu mati. Enda er hún Jóhanna og kannski Björgvin eina bjarta ljósið í Samfylkingunni um þessar mundir sem ekki hefur tekist að standa undir þeim væntingum sem margir bundu við flokkinn fyrir kosningar. Ég tel að minnsta kosti að margir deili þeirri skoðun minni að Ingibjörg Sólrún, Össur og fleiri hafi ekki haft erindi sem erfiði í sínum störfum og hafi ekki náð jarðtengingu við fólkið í landinu á þyrnirósarflugi sínu í einkaþotum ríkisstjórnarinnar. Eitt sinn hafði ég álit á verkum þeirra. Það hef ég ekki lengur.
![]() |
Ný velferðar- og vinnumálastofnun sett á laggirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Og lausnin er?
Þetta eru engin tíðindi.
Menn hafa beðið eftir þessum fundi og bíða enn.
Hvar voru fulltrúar stjórnarandstöðu? Hvers vegna voru þeir ekki boðaðir? Ögmundur telst ekki með þar sem hann var ekki þar sem slíkur.
Fólk bíður þess að heyra lausnir. Ekki eftir því að heyra engar fréttir. Það er ekki nóg fyrir hinn vinnandi mann sem sér lánin sín hækka með hverjum deginum, pyngjuna léttast við hverja innkaupaferðina í þeirri óvissu sem ríkir að heyra að allir ætli að vinna saman án þess að heyra betur útlistað hvernig! Eina lausnin sem ég hef séð framkvæmda eru þessar heilu 4 milljónir sem á að nýta í aukið verðlagseftirlit. Já heilar 4 milljónir.
Það er gott að einhugur og eindrægni hafi ríkt á fundinum. En að hverju ætla menn að vinna og hvernig ætla þeir að leita lausna. Verið er að vinna í því að efla gjaldeyrisforða þjóðarinnar í þessum töluðu orðum? Eða hvað? Af hverju er fólki ekki sagt hvar í því ferli stjórnvöld eru stödd? Samkvæmt þessari frétt er það ekki hafið en samkvæmt fulltrúum ríkisstjórnarinnar í Silfrinu á sunnudag er slíkt ferli löngu hafið? Hvað eiga menn að halda?
Á hinn bóginn er ég sammála því að hér þarf að verða hugarfarsbreyting. Við höfum lifað langt umfram efni og gerum enn. Ég hef aldrei séð eins margar glæsikerrur á götunum og einmitt þessa dagana. Áður þótti það merkilegt að sjá Range Rover eða Benz jeppa á götunum. Núna er slíkt orðið jafn algengt og Toyota. Erum við virkilega orðin svona rík sem þjóð? Eða eru þeir margir á lánum???
![]() |
Ætla að vinna á verðbólgunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Samgöngumál
Ég var á góðum fundi í kvöld með framsóknarfólki um samgöngumál. Fundurinn var haldinn að frumkvæði framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi og var haldinn í Hafnarfirði.
Framsögumenn fundarins voru Guðni Ágústsson formaður flokksins og fulltrúi í samgöngunefnd þingsins, Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi í Kópavogi og Óskar Bergsson borgarfulltrúi í Reykjavík.
Einnig voru margir aðrir sem fóru í pontu og lýstu skoðunum og sjónarmiðum sínum.
Mér þótti þetta áhugaverður og fróðlegur fundur. Þarna er um þungavigtarmál að ræða þar sem sífelldar breytingar eiga sér stað innan þessa málaflokks.
Ég hef kynnst vel samgöngukerfinu í Árósum sem er mjög ólíkt því íslenska og þykir fróðlegt að bera þau saman. Vissulega er margt afar ólíkt á milli Árósa og höfuðborgarsvæðisins en einnig eru atriði sem eru sameiginleg. Úti hefur mér þótt lítið mál að fara allra minna ferða á hjóli og nota almenningssamgöngur þegar hjólið á ekki við. Í Danmörku er þjónustan afar skilvirk og notendavæn að mínu mati. Maður slær bara inn í forrit hvert maður ætlar og fær þá upp ýmsa möguleika (strætó, lest, rútu ofl.) og góða lýsingu á hvernig maður geti notað þessa ferðamáta og tillögu að ferðaplani. Þetta er mjög þægilegt. Einnig er t.d. mun ódýrara í strætó en tíu ferða klippikort kostar 115 dkr. Ef maður fer aftur í vagn innan tveggja tíma er það gjaldfrítt. Hjólið reyni ég að nota við flest tækifæri og tekur smá tíma að venjast því að hjóla en þegar það er orðinn vani þá er það mjög hressandi á alla vegu og ágætt á tímum hækkandi eldsneytis að brenna sínu eigin . Þannig styrkir maður sig líkamlega sem og andlega.
Hér heima er staðreyndin sú að langflestir keyra um á einkabílnum með tilheyrandi umferðarteppum og mengun í borginni. Sjaldnast eru aðskildir hjólreiðastígar og ég hef heyrt það frá fólki sem hefur viljað nýta þann ferðamáta að á köflum sé það nánast í lífshættu þar sem það þurfi að vera innan um umferðina eða fara mjög miklar krókaleiðir. Strætisvagnar keyra hér tómir um og þurft hefur að leggja niður leiðir þar sem ódýrara hefði verið að keyra þá fáu sem nota þær um í leigubíl! Úti keyra flestir vagnar smekkfullir frá morgni til kvölds og það sama á við um lestirnar. Þær eru oftast þétt settnar og nóg fjör er á hjólreiðastígunum.
Á næstu tugum ára munum við þurfa að endurskoða samgöngur okkar verulega. Með gríðarlegri hækkun á eldsneytisverði spái ég því að ekki verði lengur um nokkra bíla í hverri fjölskyldu að ræða og ekki verði jeppi að meðaltali í hverri fjölskyldu. Við munum þurfa heildarlausnir til þess að geta boðið öllum upp á góðar samgöngur og ólík kerfi þurfa að vinna saman sem ein heild. Samgöngur út á land og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýjar lausnir koma með nýjum tímum eins og t.d. lestir og samgöngutæki sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum.
Ég tel því að við þurfum að stíga á bremsuna að þessu leyti eins og svo mörgu öðru á næstunni. Það er að segja við þurfum að hægja á okkur bókstaflega. Endurhugsa samfélag okkar þannig að möguleiki verði á því að nýta almenningssamgöngur og skipulag samfélagsins sé þannig að það sé raunhæfur möguleiki að sinna börnum, stunda atvinnu og annað án þess að hver einasti landsmaður þurfi að keyra um á einkabíl og helst upphækkuðum glæsijeppa.