Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skref í átt til framtíðar

Skrefið sem stigið var í gær er tímamótaskref.

Gríðarmikil vinna liggur að baki og nú er hægt að leggja af stað. Mjög líklegt verður að teljast að ýmislegt þurfi að endurskoða og gera betur þegar komið er af stað en þetta er byrjunin.

Fólk með geðraskanir og geðsjúkdóma er hópur sem hefur orðið utanveltu um langa hríð.

Margir hafa ekki átt þess kost að hafa traust þak yfir höfuðið, fá stuðning við að sinna athöfnum daglegs lífs og taka þátt í samfélaginu, félagslífi, atvinnu og menntun.

Í færslu minni áðan ræddi ég um mannauð. Í hópi þeirra sem greindir hafa verið með geðsjúkdóm (þetta er mjög stór og fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir) liggur mikil óvirkjuð orka, mikill mannauður sem legið hefur ónýttur og hefur mikla möguleika.

Með því að flytja þessa þjónustu yfir til borgarinnar þá færist hún nær notendum hennar og minni líkur eru á að mál lendi á milli tveggja brunna eins og títt hefur gerst á milli Ríkis og sveitarfélaga.

Þetta er framtíðin. Að þessu er stefnt strax árið 2011 að flytja málefni fatlaðra frá Ríki til yfir til sveitarfélaga. Þetta er gríðarstórt og flókið verkefni og er þetta ekki mín síðasta færsla um það efni.

Í þessari yfirfærslu er í ótal horn að líta. Þetta verkefni felur í sér dagleg lífskjör ótal einstaklinga og fjölskyldna þeirra og því þarf að standa ákaflega vel að verki.

Eru öll sveitarfélög nógu stöndug til að taka við þessu verkefni? Þyrfti ekki að vera um jöfnunarsjóð að ræða til þess að styðja þau smærri þannig að fólk sem nýta þarf þjónustuna hafi raunverulegt frelsi og öryggi um að fá þjónustuna hvar sem það býr. Hvernig verður staðið að því að flytja yfir alla þá gríðarlegu þekkingu sem aflað hefur verið. Hér er um mikla og ólíka þekkingu að ræða allt frá rekstrarþekkingu í þá sérhæfðu þekkingu sem er til staðar um þjónustu einstaks þjónustunotanda. Verður tryggð ákveðin þjónusta sem sveitarfélögum ber að inna af hendi til þess að fyrirbyggja mun á milli þeirra? Hvernig verður eftirliti háttað? Svona mætti lengi halda áfram. Að mörgu er að huga og ákaflega mikilvægt að náið samráð sé haft við fagmenn á sviðinu, þá á ég við notendur, aðstandendur, starfsfólk og fræðafólk á þessu sviði. Í dag er talsverður munur á sveitarfélögunum t.d. varðandi ferðaþjónustu og liðveislu og því mikilvægt að ákveðin lína verði dregin um lágmarksþjónustu.

Vonandi hafa öll sveitarfélög metnað í sér til þess að keppast um að veita sem besta þjónustu en því miður þá gæti það líka snúist um að hafa hana í lágmarki til þess að spara fjármagn. Sá fjármagnsstofn sem fylgir með verður að vera bundinn þessari þjónustu þannig að hann verði ekki notaður í annað og dregið úr þjónustunni. Einnig þarf að taka tillit til þess að mikil vakning er að verða í málefnum fatlaðs fólks og miklar breytingar í aðsigi svo sem hugmyndir um notendastýrða þjónustu og huga þarf að því að sá fjármagnsstofn sem veittur er í dag er ekki endilega sá stakkur sem raunhæfur er til framtíðar. Mun meiri krafa er um þjónustu í dag en var á árum áður og það er mikið fagnaðarefni okkar allra og mannréttindamál. Við erum bundin lögum og skyldum um að fólk geti lifað eðlilegu lífi á við aðra þjóðfélagsþegna og höfum ritað undir alþjóðlegar viljayfirlýsingar þess efnis og því má aldrei gleyma.


mbl.is Húsnæðisvandi 44 geðfatlaðra einstaklinga leysist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fjárfesta í fólki

Stundum hefur mér þótt starfsmannastefna hins opinbera hér á landi ákaflega merkileg.

Manni hefur jafnvel flogið í hug að orð eins og mannauður sé þar með öllu óþekkt.

Þær aðferðir sem einkafyrirtækin hafa keppst við að nota hafa oft ekki verið við lýði í hinum opinbera geira, að minnsta kosti ekki þeim hluta sem snýr að þjónustu við fólk.

Að veita öðru fólki þjónustu, vera jafnvel bókstaflega hendur þess, er ákaflega mikilvægt starf (sem ég kynntist vel í sumar) og ég er nokkuð viss um að öll myndum við kjósa sem hæfast og best menntað fólk til þess að aðstoða okkur sjálf þegar árin eru orðin mörg og líkaminn farinn að gefa sig.

Því vekur það undrun hversu lítið virðist vera fjárfest í þeim mannauði sem vinnur þessi mikilvægu störf. Það er sparnaður að hafa vel menntað og hæft fólk í öllum störfum. Það leiðir af sér faglegra starf, meira framlag á að fást á minni tíma, fólk hefur menntað sig og er komið til að vera og því dregur það úr starfsmannaveltu sem er gríðarlega dýr og þreytu á vana góða starfsfólkið við það að vera að þjálfa sífellt upp nýtt fólk. Svo ég tali nú ekki um þreytu þeirra sem njóta þjónustunnar við að þurfa sífellt að sjá ný andlit í sínu persónurými og innstu athöfnum.

Ég vona að á næstu árum verði bylting á þessu sviði. Að aukin áhersla verði lögð á það að fjárfesta í því fólki sem hefur metnað til þess að vinna hvert starf. Þannig má auka arðsemi þjónustunnar með því að fjárfesta í þessum dýrmæta mannauði, hafa launin betri og nota sömu aðferðir og einkafyrirtækin til þess að umbuna starfsfólki. Það er undarlegt að á mörgum sviðum í hinum opinbera geira þá þykir það nógu gott að senda starfsfólki jólakort í tölvupósti á meðan einkafyrirtækin keppast við glæsilegar jólagjafir, greiða jafnvel árshátíðir niður að fullu sem haldnar eru á erlendri grund og fleira til. Ekki þykir mér líklegt að forvígismenn einkafyrirtækjanna séu svona gjafmildir og hafi ekkert betra við aurinn að gera! Nei, þeir hafa bara áttað sig á mætti vinnusálfræðinnar og kunna að fjárfesta í mikilvægasta hluta starfseminnar, starfsfólkinu. Fólkinu sem kemur verkefninu frá upphafsreit til enda. Þetta þarf hið opinbera að fara að átta sig á.

Það er mun dýrara að vera alltaf að kasta krónunni fyrir aurinn. Óánægður starfsmaður getur dregið niður starfsanda heils hóps og lamað afköstin. Á móti hefur ánægður starfsmaður margfeldiáhrif á vinnugleðina.


mbl.is Fá ekki að vinna sem sjúkraliðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein stór fjölskylda...

Það var mín upplifun af því að fara á Arnarhól núna í kvöld.

Þvílík skemmtun og þvílík stemning. Það var svo gaman að fylgjast með "strákunum okkar" koma sigri hrósandi með medalíurnar sínar heim í faðm íslensku fjölskyldu sinnar. Það er hvers manns draumur að gera fjölskyldu sína stolta og hvað þá þegar maður kemur heim að lokinni slíkri frægðarför til þess að gera heila þjóð stolta.

Það ríkti svo yndisleg stemning þarna, Páll Óskar kom öllum í banastuð í fánalitunum og meira að segja Bjarni Fel. hinn eini sanni mætti á svæðið við mikinn fögnuð! Og svo var sungið Öxar við ána og þjóðsöngurinn leikinn.

Mér þótti það svo góður punktur sem hann Ólafur Stefánsson sagði að það væru forréttindi að vera Íslendingur og aðeins rúmlega 300 þúsund manns deila þessari gjöf í dag. Ég er virkilega ánægð með þann liðsanda og andlega uppvakningu sem strákarnir hafa komið af stað með einstakri liðsheild sinni. Það veitir ekki af slíku fyrir okkur Íslendinga að muna að brosa aðeins meira til náungans og taka utan um hvort annað. Við erum stundum svolítið stíf á því sviði.

Stoltið skein af strákunum yfir því að vera Íslendingar og ég tek svo algjörlega undir með þeim. Í hvert skipti sem ég hef flogið hingað heim síðastliðið ár þá hef ég alltaf fyllst ákveðinni ákefð og upplifað mikla hlýju við það að sjá föðurlandið. Föðurlandsástin vex með hverjum deginum sem ég hef eytt á erlendri grund og ég finn meir og meir hvernig hver taug í mér er rammíslensk.

Til hamingju með þjóðhátíðardaginn kæru Íslendingar. Njótum þess að halda hátíð, flagga fánum og vera stolt af strákunum okkar, stolt af árangri okkar allra í lífinu og fyrst og fremst stolt af því að tilheyra þessari mögnuðu þjóð sem hefur slíkan kyngikraft að engu öðru nær og undir tekur í fagurri náttúru okkar.


mbl.is Orðuveiting á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi þess að hitta fólk

Ég er ánægð með formanninn minn fyrir það hversu iðinn hann hefur verið við það að hitta fólk við hvert tækifæri og ég upplifi hann vera að ná upp virkilega góðum anda í okkar röðum og öðrum.

Það verður seint ofmetið mikilvægi þess að fá það sem brennur á beint í æð fyrir alla þá sem gegna formennsku, trúnaðarstörfum eða öðru þar sem þeir vinna sem fulltrúar hóps fólks.

Ég upplifi það ávallt þegar ég hef setið ráðstefnur, fundi eða annað þar sem hópur fólks kemur saman að ræða ákveðin mál að maður fyllist eldmóði og lærir alveg óendanlega mikið af því sem aðrir leggja til máls.

Stjórnmálamenn verða aldrei sérfræðingar í öllu. Þeir fara flestir út í pólitík vegna ákveðinnar hugsjónar og vilja til þess að bæta samfélagið. Þeir þurfa að verða sérfræðingar í því að hlusta á fólk, ná kjarnanum og vinna eftir því sem mögulegt er og fellur að sýn þeirra á samfélagið og hvernig best megi koma þeim upplýsingum sem þeir fá í framkvæmd.

Þetta er mikil einföldun, ég geri mér grein fyrir því en þetta tel ég vera kjarnann. Það er fólkið sjálft sem er að fást við verkefnið dags daglega sem eru sérfræðingarnir. Sem dæmi þá verður það gríðarlega mikilvægt að fá fram sjónarmið fatlaðs fólks fyrst og fremst en einnig aðstandenda þeirra, starfsfólks og annarra sem starfa að þjónustu í málefnum fatlaðra í þeirri miklu vinnu sem framundan er við yfirfærslu málefna fatlaðra frá Ríki til sveitarfélaga.

Í kvöld var ég á fundi í Salnum í Kópavogi þar sem ég heyrði Raddir Tíbet. Þær voru margar og misjafnar en allar góðar.

Ég hvet alla til þess að leggja sitt af mörkum til þess að gera samfélagið hér og í hinum stóra heimi aðeins betra í dag en í gær. Það er af svo mörgu að taka að það má segja að það sé hlaðborð af verkefnum til þess að bæta heiminn. Þú getur hreinlega valið þér verkefni. Hvort sem það er að brosa til nágrannans sem hefur átt slæman dag eða vinna við þróunarstörf. Enginn getur unnið allar barátturnar en hver og einn getur lagt því lið sem hann telur henta sér og trúir á.

Það er eitt af því sem ég lærði á því að lesa bókina "Munkurinn sem seldi sportbílinn sinn" eftir Robin S. Sharma sem ég las í sumarleyfinu að það er einn aðaltilgangur lífsins að þjóða öðrum á óeigingjarnan hátt og þannig hefur maður líf sitt upp á æðra stig því ilmur loðir alltaf við hendur þess sem gefur rósir. Þessi bók er svona "keeper" eins og sagt er um góða karlmenn og ég hvet alla til að lesa hana og glugga reglulega í. Hún er full af gullkornum.

Það er gaman að segja frá því að þegar ég keyrði heim eftir fundinn þá keyrði ég á eftir bíl með númeraplötunni "Be nice". Nokkuð gott Smile.


mbl.is Guðni í fundaherferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarstolt :)

Ég er sérlega þjóðarstolt í dag. Hef svo sem oft áður verið stolt af okkar einstöku þjóð en í dag sérlega stolt.

Strákarnir okkar stóðu áðan í pallinum í Peking og fengu silfrið um hálsinn. Hvern hefði órað fyrir því að við næðum svona langt.

Það er alveg einskær árangur okkar manna og í dag höfum við eignast hóp af þjóðhetjum! Strákarnir okkar eru hverju okkar innblástur um það sem fámenn en áhrifamikil þjóð getur afrekað úti í hinum stóra heimi! Það er sérstaða okkar að hvert og eitt okkar er megnugra en fjölmennari þjóðir. Hvert okkar er á við fjölda í milljónaþjóð. Gleymum því aldrei og nýtum okkur það!

Þegar maður segist vera Íslendingur þá kemur ætíð þetta ahhh.. "Iceland, vow". Já, við erum stærst í heimi, ekki spurning!

Því að vera stór fylgir samt sem áður ábyrgð og því megum við heldur ekki gleyma. Við höfum til að mynda ærið tækifæri til að láta að okkur kveða á heimsvísu. Við eigum að búa vel í haginn fyrir okkur sjálf en eigum einnig að taka þátt í sameiginlegum skyldum heimsins. Eitt dæmi um það er að nýta þann byr sem við höfum fengið á ólympíuleikunum til þess að minna á mannréttindi og í stað þess að ræða aðeins um fríverslunarsamninga og handbolta að minna á þau. Ólafur Ragnar Grímsson ágætur forseti vor, mannréttindi koma framar í forgangsröðina! Við eigum engu að síður að vinna hag okkar sem bestan og þú stendur þig vel í því en gleymum ekki stuðningi okkar við aðrar smáar þjóðir eins og Tíbet. Þetta tvennt á að vera samrýmanlegt.

En ég ætla ekki að lengja þennan pistil. Það er sól í sinni í dag og ég tek ofan og flagga fyrir þjóðarhetjum okkar sem hafa lagt allt í sölurnar okkur til einskærs sóma.

TIL HAMINGJU STRÁKAR!

TIL HAMINGJU ÍSLAND!

Ég ætla að enda pistilinn á því sama og gert var seint í gærkvöldi þegar flugvélin mín lenti og klappa ærlega fyrir okkur Íslendingum!

klapp klapp klapp Smile

Ég minni alla á tónleika í kvöld í Salnum í Kópavogi sem hefjast kl. 20 og bera heitið "Raddir Tíbet".

http://www.salurinn.is/default.asp?page_id=7502&event_id=5911

 


mbl.is Íslendingar flagga fyrir strákunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berlín og Obama

Ég er nýkomin heim af ICP (International Congress of Psychology) í Berlín. Þar var ég svo lánsöm að heyra bæði óteljandi fróðleg erindi innan hinna ýmissu sviða sálfræðinnar sem og að fara og hlusta á Barack Obama flytja hina margumtöluðu ræðu.

 

Margt af því sem ég heyrði vakti áhuga minn. Meðal þess var erindi Philips Zimbardo um "The Lucifer effect" (http://www.lucifereffect.com/) þar sem þessi frægi sálfræðingur kynnti það hvernig ósköp venjuleg manneskja getur framið voðaverk undir ákveðnum aðstæðum eins og nýlegt dæmi um Abu Ghraib fangelsið í Bandaríkjunum sýndi. Það er þunn lína á milli engla og djöfla og skoðið myndina að ofan vel með þetta í huga..

Þetta felst meðal annars í því að viðkomandi fremur verknaðinn undir ákveðnu yfirvaldi sem segist taka ábyrgðina, er í einkennisbúningi sem felur persónueinkenni og sá sem voðaverkið er framið á er álitinn less than human. Þessi hugmyndafræði er sprottin upp úr tímamótarannsókn Milgrams sem sýndi fram á það að 67% þátttakenda voru tilbúin að gefa saklausri manneskju banvænt raflost við ákveðnar aðstæður. Zimbardo fjallaði einnig um psychology of heroism þar sem hann ítrekar fyrir fólki hversu mikilvægt er að horfa ekki í hina áttina og taka af skarið ef á þarf að halda. Hver sem er getur orðið hvunndagshetja og sem dæmi þá var það ungur strákur í lægstu deild hersins sem lét yfirmann í hernum vita af því sem fram fór í Abu Ghraib og fyrir vikið þurfti hann að fara huldu höfði í 3 ár þar sem margir vildu hann feigan fyrir að koma óorði á Bush stjórnina.

Annað erindi Davids Clark um verkefni hans í Bretlandi NICE Guidelines þar sem bresk stjórnvöld hafa fallist á að veita 173 milljón pund á ári (ef ég hef skilið þetta rétt) í hugræna atferlismeðferð (CBT) fyrir almenning með því skilyrði að þeir sýni fram á 50% árangur af meðferðinni (900 þúsund fá meðferð en 450 þúsund þurfa að ná bata). Verið er því að þjálfa upp ógrynni af sálfræðingum til þess að beita CBT og einnig er árangur mældur reglulega. Hugmyndin er svo að fleiri meðferðarform fari inn í þetta í framtíðinni sem sýna fram á sambærilegan árangur. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og myndi ég vilja sjá slíkt verkefni fara af stað á Íslandi. Þeir hafa gert sér grein fyrir þeirri staðreynd að kvíði, þunglyndi og fleiri raskanir kosta samfélagið gríðarlegar fjárhæðir á hverjum degi í kostnaði vegna m.a. vinnutaps og hef ég einnig skrifað um það á þessu bloggi. http://kristbjorg.blog.is/blog/kristbjorg/entry/542779/

Ég fór einnig á fyrirlestur þar sem kynnt var módel þar sem búið var að reikna það út að cost-effectiveness af sálfræðimeðferð væri 2.6. Einnig vakti áhuga minn session um sálfræði og hryðjuverk.

Þar komu fram margir áhugaverðir punktar eins og sá að ef hópar eru fluttir frá einum stað til annars (frá uppruna sínum) þá eiga þeir á hættu að deyja út á sama hátt og plöntur og aðrar dýrategundir. Hryðjuverk getur verið séð sem barátta hóps til þess að halda lífi. Sagan segir okkur að ótal hópar og tungumál hafa dáið út í gegnum tíðina. Þetta sé því ákveðinn varnarháttur til að verjast aðsteðjandi hættu. Globalization getur þannig haft slæm áhrif á suma menningarhópa í heiminum. Þessi fyrirlesari gagnrýndi harðlega dictatorship bandaríkjamanna. Einnig var rætt um sjálfsmorðsárásir út frá sjónarhorni hryðjuverkamannsins. Fyrir suma er þetta gert af trúarlegum ástæðum, menn trúa því að þeir séu að þjóna Guði sínum á þennan hátt og þeirra bíði himnaríki að verknaðinum loknum. Menn líta á það að þeir séu að fórna sér fyrir málstaðinn sem er æðri lífi þeirra á jörðu. Þannig muni þeir öðlast frægð og eilíft líf. Einnig hefur komið fram að oft er um persónulegt trauma að ræða hjá þessum mönnum þar sem þeir hafa misst mikið af nákomnu fólki í stríðinu og þetta sé hefnd en einnig leið til þess að hreinsa jafnvel flekkað mannorð eða t.d. HIV smitaðir og þetta sé því leið til þess að verða þekktir þrátt fyrir eigin persónulegan harmleik. Þetta er því ákveðin lausn og menn trúa því að þeir séu að fremja góðverk. Mörgum er þrýst til þess að taka þátt í slíku og að neita því er of mikil skömm til að geta lifað við. Þetta er auðvitað mikil einföldun en mig langaði að deila þessu aðeins með ykkur. Þetta eru mjög áhugaverðar pælingar.

Síðast en ekki síst heyrði ég Obama tala og það var merkileg upplifun. Þar voru 200 þúsund manns samankomin og mikill troðningur, gríðarleg öryggisgæsla og mikil stemming. Hann er greinilega að sýna fram á það að hann ætli að beita sér í utanríkismálum og minntist á margt áhugavert eins og komið hefur fram í fjölmiðlum eins og kjarnorkuvopn, global warming og fleira. Hann boðaði þó ekki stefnubreytingu í Írak því miður. Það var mögnuð upplifun að sjá stolt það og gleði sem ríkti í andlitum langflestra hörundsdökkra á svæðinu sem eru að eignast mikinn leiðtoga. Öryggisgæslan var gríðarleg og þurfti ég að fara í gegnum vopnaleit til þess að komast inn á aðalsvæðið, leitað í töskunni, hermenn og lögregla um allt og þyrla á sveimi fyrir ofan. Já, þetta var mikil upplifun.

 

 


Vonandi ekki í ágúst

Mikið vona ég að ekki verði áframhald á þessari skjálftavirkni því stefnan er tekin einmitt þangað að sóla sig og njóta lífsins í ágúst Wink.


mbl.is Jarðskjálfti á Rhodos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnuspáin mín í dag

Stjörnuspá

NautNaut: Aðrir hafa þrælað til að þú hafir það gott. Það er því auðveldara fyrir þig að launa greiðann og gera það sama fyrir komandi kynslóðir. (Tekið af www.mbl.is 8.7.2008)

Þessi stjörnuspá finnst mér vera ákaflega góð og passar ágætlega við sumt af því sem ég er að gera þessa dagana.

Ég er að vinna á dönsku öldrunarheimili og legg mig alla fram. Ég aðstoða íbúana við ýmislegt sem lýtur daglegu lífi þeirra en næstu 2 vikur snúast verkefni mín aðallega um þrif og matargerð Wink.

Ég er að græða margt á þessu. Dönskukennslu á hverjum einasta degi bæði meðvitaða og ómeðvitaða hjá íbúum og samstarfsfólki, reynslu í því að kynnast eldra fólki sem er viskubrunnur og ég kynnist því hvernig er að vera útlendingur að vinna á erlendum vinnustað. Sú síðarnefnda reynsla er nokkuð sem ég tel vera mjög mikilvægt til þess að skilja betur erlent vinnuafl á Íslandi. Það er talsvert erfitt að læra á nýtt starf þegar maður hefur tungumálið aðeins að hluta til en engu að síður ákaflega mikilvægt þar sem ég er að vinna beint með fólki sem á rétt á því að ég skilji það og það skilji mig. Þess vegna legg ég mig alla fram og læri meira því ég verð að nota þekkinguna um leið sem er ekki það sama og sitja í fyrirlestri þar sem maður getur "komist upp með það" að skilja ekki allt...

Það er líka nýr vinkill að prófa starf sem er ekki alveg í samræmi við menntun mína þar sem ég er ekki á heimavelli og er útlendingur. Ég reikna með að margir starfsmenn af erlendu bergi brotnu nái ekki að fara að vinna við sitt fag strax heima vegna tungumálaörðugleika.

En stjörnuspáin snerist sem sagt um það að launa fyrri kynslóðum það sem þær hafa lagt á sig til að byggja upp það sem við höfum í dag og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Ég tel hvert smáatriði skipta máli í þessum efnum. Ég legg mig alla fram við að skúra þannig að fólkið sem ég er að vinna fyrir hafi hreint og fínt í kringum sig, ég vanda mig við að útbúa fallegan mat því staðreyndin er sú að daglegt líf á öldrunarheimili snýst eins og klukka í kringum matmálstíma og ég legg mig fram um að brosa, spjalla og gefa af mér til þeirra sem hafa lagt svo mikið á sig og eiga ekkert nema það besta skilið á ævikvöldinu sínu. Þannig er hægt að hafa áhrif á líf annars fólks, með því að leggja sig örlítið meira fram en þörf er á. Því miður er það þannig að þar sem þessi störf eru oft illa borguð og vanmetin þá skil ég alveg að fólk sem starfar í þessu til framtíðar verði þreytt og geri aðeins það sem það þarf nauðsynlega að gera. En þannig verður þjónustan ekki í takt við það sem þessi kynslóð á skilið. Það sama á við um börnin okkar en það er efni í annan pistil.


Flott hjá Símanum!

Ég sá það fyrir tilviljun á ráfi mínu um veraldarvefinn að Síminn er eitt þeirra fyrirtækja sem horfir til framtíðar og framkvæmir með tilliti til aðgengilegrar heimasíðu.

Hann hefur sett síðuna upp þannig að hún sé sem aðgengilegust flestum notendum hennar og hefur til dæmis auðlesið efni, mínar stillingar og fleira.

Þetta er alveg til fyrirmyndar og sýnir í verki að fyrirtækið hefur hug á því að bjóða alla velkomna til sín.

Ég vona að nú fari þetta að koma og fyrirtæki sem og aðrir opinberir vefir og aðrir fari að leggja sig fram um að hafa vefi sína aðgengilega sem flestum notendum. Fyrir fólk með skerðingu af einhverju tagi, fólk af erlendu bergi brotið, eldra fólk og marga fleiri hefur þetta gríðarlega mikið að segja. Auk þess tel ég þetta lýsandi fyrir þá breytingu sem mun verða á samfélagi okkar í framtíðinni þar sem við keppumst að því að sníða það að sem flestum og brjóta niður óþarfa hindranir fyrir allan þann margbreytileika sem samfélag okkar hefur að geyma.

Meira um aðgengi á vefjum má sjá á www.sja.is

Gott mál hjá Símanum www.siminn.is

 


Úff...

Maður hefur alltaf óttast einmitt að þetta gerist. Að einhver öxull gefi sig og rússíbaninn losni að einhverju leyti. Samt hefur maður einhvern veginn alltaf trúað að þetta sé þrátt fyrir allt öruggt.

Ég held að það verði einhver bið á því að maður fari í svona stóra rússíbana og ég mun aldrei fara í þennan tiltekna rússíbana hér í Árósum.

Mér var nú ekki sama þegar ég heyrði þessa frétt í sjónvarpinu hér og vissi af því að synir vinahjóna minna hérna fóru í tívolíið ásamt föður sínum eftir að skutla mér í vinnuna á föstudag.

En maður á nú bara að þakka fyrir að ekki fór þó verr en þetta því þetta hefði getað orðið mun alvarlegra slys.


mbl.is Fjórir slösuðust í rússibanaslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband